Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 10/2023 - Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

settum félags- og vinnumarkaðsráðherra

 

Skipun í embætti. Mismunun á grundvelli kyns. Ekki fallist á brot.

A kærði ákvörðun setts félags- og vinnumarkaðsráðherra um að skipa konu í embætti skrifstofustjóra. Að mati kærunefndar hafði ekki verið sýnt fram á að kæranda hefði verið mismunað á grundvelli kyns við skipun í embættið. Var því ekki fallist á að ráðuneytið hefði gerst brotlegt við lög nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 19. ágúst 2024 er tekið fyrir mál nr. 10/2023 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dags. 19. júní 2023, kærði A ákvörðun setts félags- og vinnumarkaðsráðherra um að skipa konu í embætti skrifstofustjóra skrifstofu félags- og lífeyrismála. Kærandi telur að með skipuninni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 26. júlí 2023. Greinar­gerð kærða barst með bréfi, dags. 31. ágúst 2023, ásamt fylgigögnum og var kynnt kæranda hinn 5. september s.á. Athugasemdir kæranda eru dags. 20. s.m. og athugasemdir kærða 15. nóvember s.á.

     

    MÁLAVEXTIR

  4. Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti auglýsti 20. maí 2022 laust til umsóknar embætti skrifstofustjóra skrifstofu félags- og lífeyrismála með umsóknarfresti til 13. júní 2022. Í auglýsingunni kom m.a. fram að hlutverk skrifstofunnar væri að undirbyggja stefnumarkandi ákvarðanir ráðherra og hafa heildarsýn yfir verkefni skrifstofunnar. Þá kom fram að í starfi skrifstofustjóra fælist stjórnun, áætlanagerð, stefnumótun, markmiðssetning og mat á árangri og væri lögð áhersla á nýsköpun og gott samráð og samstarf við stofnanir ráðuneytisins og aðra hagaðila á málefnasviðum þess. Verkefni skrifstofunnar næðu m.a. til þjónustu við fatlað fólk, málefna eldra fólks, félagsþjónustu sveitarfélaganna og almannatrygginga auk gæðaeftirlits í málaflokknum. Tekið var fram að um væri að ræða áhugavert og fjölbreytt starf í krefjandi starfsumhverfi þar sem reynir á öguð vinnubrögð, ábyrgð og sjálfstæði. Hæfni- og menntunarkröfur voru tilgreindar sem háskólamenntun sem nýtist í starfi en framhaldsmenntun var gerð að skilyrði, farsæl reynsla af stjórnun og mannaforráðum, mjög góð hæfni í mannlegum samskiptum og leiðtogafærni, þekking og reynsla á sviði opinberrar stjórnsýslu, metnaður og vilji til að ná árangri, þekking og reynsla af áætlanagerð og stefnumótun, skipulagsfærni, frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum, gott vald á íslensku og færni til að tjá sig í ræðu og riti og góð kunnátta í ensku.
  5. Alls sóttu 15 um embættið, níu konur og sex karlar. Félags- og vinnumarkaðsráðherra vék sæti við meðferð málsins og var mennta- og barnamálaráðherra settur til að fara með það. Í samræmi við 19. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, skipaði settur félags- og vinnumarkaðsráðherra ráðgefandi hæfnisnefnd 8. ágúst 2022. Hæfnisnefndin skilaði ráðherra álitsgerð 24. september 2022 þar sem fram kom það álit hennar að tvær konur teldust mjög vel hæfar til að gegna embættinu en tvær konur og einn karl, þ.m.t. sú sem var skipuð og kærandi, vel hæf. Að loknum viðtölum ráðherra við þessar fjórar konur og kæranda var niðurstaðan að skipa aðra konuna sem hæfnisnefndin hafði talið vel hæfa skrifstofustjóra skrifstofu félags- og lífeyrismála frá 1. desember 2022.
  6. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi 24. nóvember 2022 sem var veittur með bréfi, dags. 19. desember s.á.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

     

  7. Kærandi telur að kærði hafi brotið gegn 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, við skipun í embætti skrifstofustjóra skrifstofu félags- og lífeyrismála í félags- og vinnumarkaðsráðuneyti. Um ólögmæta mismunun í skilningi laganna hafi verið að ræða og beri kærða að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi ráðið úrslitum, sbr. 4. mgr. 19. gr. laganna. Tekur kærandi fram að þar sem trúverðugar skýringar varðandi skipun í embættið hafi ekki komið fram verði að leggja til grundvallar að kynferði umsækjenda hafi ráðið úrslitum við ákvörðunina.
  8. Kærandi tekur fram að umsóknargögn sýni að hann uppfylli öll skilyrði samkvæmt auglýsingunni til að gegna embættinu. Hann sé m.a. með meistaragráðu í heilsuhagfræði og í stjórnunarfræðum sem nýtist í starfi og 25 ára stjórnunarreynslu þar sem hann hafi haft mannaforráð og á löngum tímabilum stýrt stórum hópum starfsmanna. Hafi hann m.a. verið Þjóðleikhússtjóri, framkvæmdastjóri Þjóðleik­hússins og deildarstjóri eftirlitsdeildar Sjúkratrygginga Íslands. Tveir umsagnaraðilar staðfesti m.a. mikla ánægju með samskiptahæfni hans og að hann sé mjög fær á sviði opinberrar stjórnsýslu. Þá verði ekki séð að athugasemdir hans og upplýsingar sem hann hafi lagt fram við málsmeðferðina hafi verið lagðar til grundvallar við mat hæfnis­nefndar eða mat ráðherra við ákvörðun um skipunina.
  9. Kærandi tekur fram að honum til undrunar hafi hann verið metinn vel hæfur af hæfnisnefnd en ekki mjög vel hæfur eins og umsóknargögn hans og umsagnir um hann hafi gefið tilefni til. Hafi hann gert ítarlegar athugasemdir við álitsgerð hæfnisnefndar, bæði varðandi mat á menntun hans og stjórnunarreynslu, reynslu hans af opinberri stjórnsýslu, reynslu af stefnumótun og áætlanagerð, hæfni í samskiptum og leiðtogafærni og tungumálakunnáttu. Þá bendir kærandi á að um sama leyti og umrætt mat fór fram hafi hann verið metinn hæfastur ásamt öðrum umsækjanda til að gegna embætti skrifstofustjóra á annarri skrifstofu í sama ráðuneyti fyrir annarri hæfnisnefnd. Bendir kærandi á að í auglýsingu um það starf hafi verið gerð krafa um framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum en ekki mjög góða hæfni eins og í auglýsingu um þetta starf. Að auki hafi hann verið metinn mjög vel hæfur af hæfnisnefnd til að gegna embætti skrifstofustjóra í forsætisráðuneyti sem auglýst var í febrúar 2022. Verði ekki önnur ályktun dregin en að mat hæfnisnefndar vegna skipunar í þetta starf hafi verið óforsvaranlegt. Því til stuðnings bendir kærandi á að hann hafi verið hæstur eftir fyrsta mat hæfnisnefndar en dottið niður í fjórða sæti eftir viðtal við hæfnisnefnd og eftir að umsagnir lágu fyrir.
  10. Kærandi bendir á að tvær konur hafi verið metnar mjög vel hæfar af hæfnisnefnd en miðað við þau gögn sem liggja fyrir í málinu veki það grun um að kynferði umsækjenda hafi ráðið meiru um mat hæfnisnefndar en raunveruleg hæfni þeirra. Bendir hann á að þær hafi báðar lokið MPA-námi frá Háskóla Íslands en hann hafi lokið meistaragráðu í stjórnun (MBA) og að auki MSc-prófi í heilsuhagfræði. Þá hafi stjórnunarreynsla hans í þeim málaflokki sem embætti skrifstofustjóra heyrir undir ekki verið metin að verðleikum. Aftur á móti hafi sama reynsla verið metin þeim í hag sem voru taldar hæfastar án þess að slík krafa hafi verið gerð í auglýsingu. Hafi umsækjendum með þessu verið mismunað.
  11. Kærandi tekur fram að konan sem var skipuð í embættið hafi ekki verið metin með hæfustu umsækjendum í áliti hæfnisnefndar. Virðist sem þar hafi ráðið mestu frammistaða hennar í viðtali. Bendir kærandi á að hann hafi mun meiri menntun, meiri reynslu af stjórnun og mannaforráðum og meiri reynslu af opinberri stjórnsýslu en konan sem var skipuð í embættið en um mælanlega og staðfesta hæfni sé að ræða. Telur hann ekkert í gögnum málsins skýra það hvernig hægt var að komast að þeirri niðurstöðu að hún hafi verið hæfari en hann.
  12. Kærandi bendir á að konan sem var skipuð í embættið hafi enga framhaldsmenntun sem hafi verið skilyrði samkvæmt auglýsingunni. Hafi hún þegar af þeirri ástæðu ekki átt að koma til álita. Tekur kærandi fram að þau rök kærða að hvorki hafi verið gerð krafa um framhaldsmenntun frá háskóla í auglýsingunni né að gerð verið krafa um ákveðna háskólagráðu sé fyrirsláttur enda eðlilegast að skilja auglýsinguna á þann hátt að um sé að ræða framhaldsmenntun á háskólastigi.
  13. Kærandi tekur fram að það sé með öllu óskiljanlegt að hæfnisnefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að menntun konunnar skyldi metin til fjögurra stiga af fimm mögulegum. Sé menntun hennar ekki ígildi diplómanáms enda þurfi framhaldsnám á háskólastigi að fela í sér 90–120 námseiningar til viðbótar grunnnámi, sbr. þágildandi c-lið 2. mgr. 7. gr. laga nr. 63/2006, um háskóla. Þá sé diplómapróf ekki framhaldsgráða og jafngildi ekki meistara- eða kandídatsprófi. Að auki hafi PMTO-nám hennar ekki verið metið til háskólaeininga fyrr en árið 2017 en hún hafi lokið námskeiði á vegum skólaskrifstofu Hafnarfjarðar árið 2012. Auk þessa verði ekki séð að diplóma í PTMO-foreldrafærniþjálfun geti nýst í starfi skrifstofustjóra.
  14. Kærandi gerir sérstaka athugasemd við það mat hæfnisnefndar að reynsla kæranda af opinberri stjórnsýslu skuli samsvara þremur stigum af fimm en reynsla konunnar sem hlaut embættið hafi verið metin til fjögurra stiga. Bendir kærandi á að hann hafi 15 ára reynslu af opinberri stjórnsýslu, m.a. sem framkvæmdastjóri Þjóðleikhússins þar sem hann bar mikla fjárhagslega ábyrgð og sem deildarstjóri eftirlitsdeildar þar sem hann bar ábyrgð á eftirliti með um 230 samningsaðilum Sjúkratrygginga Íslands. Reynsla konunnar sem hlaut embættið af stjórnsýslu sé fyrst og fremst úr rúmlega fimm mánaða starfi hennar sem setts skrifstofustjóra. Störf félagsráðgjafa og virkniráðgjafa innan velferðarkerfisins séu ekki stjórnunarstöður, þau reyni á takmarkaða þætti stjórnsýslu og feli ekki í sér nándar nærri þá ábyrgð sem kærandi hafi borið í sínum störfum á sviði opinberrar stjórnsýslu.
  15. Kærandi telur að engin tæk rök hafi verið færð fyrir því hvers vegna reynsla konunnar af stjórnun innan Stjórnarráðs Íslands hafi átt að fá sérstakt vægi þar sem hún hafi sinnt henni tímabundið. Ef slík starfsreynsla yrði sjálfkrafa ávísun á forgang í starf myndu auglýsingar um stöður hjá hinu opinbera ekki þjóna þeim tilgangi sínum að finna þann hæfasta til að gegna þeim. Þá sé það eftiráskýring að lögð hafi verið sérstök áhersla á þekkingu á opinberri stjórnsýslu sem hefði þýðingu fyrir störf innan Stjórnarráðs Íslands, enda hefði slíkt þá átt að koma fram í auglýsingu.
  16. Kærandi tekur fram að sú sem fékk embættið hafi verið metin til þriggja stiga af fimm hvað varðar matsþáttinn farsæl reynsla af stjórnun og mannaforráðum. Gerir kærandi athugasemdir við það mat hæfnisnefndar að hún hafi haft óbein mannaforráð þar sem eiginleg mannaforráð hafi verið hjá öðrum. Vísar kærandi því til staðfestingar til umsagna umsagnaraðila hennar og þess sem haft var eftir henni í viðtali. Bendir hann á að opinberir starfsmenn fari annaðhvort með mannaforráð eða ekki, ábyrgðin hvíli á þeim sem fara með það formlega. Þá sé stjórnunarreynsla hennar miklu minni en kæranda og beri gögnin ekki með sér að hún hafi haft önnur mannaforráð en í starfi setts skrifstofustjóra á skrifstofu félags- og lífeyrismála þar sem 13 manns hafi starfað undir henni en hún hafi einungis gegnt því starfi í um hálft ár.
  17. Kærandi tekur fram að hvergi hafi komið fram hvernig kærði hafi komist að þeirri niðurstöðu að metnaður og vilji þeirrar sem var skipuð til að ná árangri væri meiri en annarra umsækjenda. Þá sé það óútskýrt hvernig hægt hafi verið að komast að þeirri niðurstöðu að færni hennar hafi verið meiri en kæranda í mannlegum samskiptum þar sem hún hafi aldrei farið með bein mannaforráð. Það liggi í augum uppi að þegar stjórnendur fari með mannaforráð reyni á samskiptafærni þeirra. Kærandi hafi t.d. þurft að segja upp starfsfólki. Við slíkar aðstæður reyni virkilega á samskiptafærni en tiltölulega auðvelt sé að eiga góð samskipti við undirmenn þegar allt leikur í lyndi.
  18. Kærandi bendir á að það sé meginregla í stjórnsýslurétti að við skipun í embætti og ráðningu í opinbert starf skuli velja hæfasta umsækjandann. Eðli málsins samkvæmt verði mat á hæfni umsækjenda að samræmast þeim kröfum sem gerðar eru samkvæmt auglýsingu en það sé margstaðfest í úrskurða- og dómaframkvæmd sem og álitsgerðum umboðsmanns Alþingis. Vísar kærandi einnig til 5. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt reglum stjórnsýsluréttar þurfi mat á umsækjendum að vera forsvaranlegt og bera með sér að málefnaleg sjónarmið hafi ráðið för. Vilji stjórnvalda til að úthluta embættum á grundvelli kyns teljist ómálefnalegt sjónarmið í skilningi stjórnsýsluréttar og jafnréttislaga. Vísar kærandi einnig til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglunnar um skyldubundið mat stjórnvalda.
  19. Kærandi tekur fram að enda þótt veitingarvaldshafi njóti svigrúms til mats verði það mat að vera forsvaranlegt. Svigrúm til mats feli það ekki í sér að veitingarvaldshafinn megi víkja frá þeim kröfum sem gerðar séu samkvæmt auglýsingu. Ekkert í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5466/2008 sem kærði vísi til gefi ástæðu til þeirrar túlkunar að heimilt sé að skipa umsækjanda sem uppfylli ekki þær menntunarkröfur sem gerðar eru í auglýsingu. Bendir kærandi á að í því máli hafi einmitt sá umsækjandi sem hafði mesta menntun verið skipaður í embættið.
  20. Kærandi tekur fram að það að umsækjandi sýni persónutöfra og komi vel fyrir í viðtali geti ekki trompað þær kröfur sem gerðar eru í auglýsingu. Hann fái ekki betur séð en að mat ráðherra hafi fyrst og fremst grundvallast á því að konan sem var skipuð í embættið hafi sjálf rökstutt hæfni sína með skýrum og viðeigandi dæmum í viðtali. Ekki liggi þó fyrir að þessi dæmi hafi verið staðfest enda erfitt að sannreyna árangur sem sé ekki mælanlegur. Þá getur kærandi ekki séð að þessi dæmi séu skýrari eða meira viðeigandi en þau dæmi sem hann nefndi í viðtali um sinn árangur í starfi sem eru bæði mælanleg og skjalfest, auk þess sem auðvelt hafi verið að ganga úr skugga um sannleiksgildi þeirra. Þannig hafi hann bent á starfsánægjukannanir, aðsókn að Þjóðleikhúsinu og fjölda verðlauna sem starfsfólk Þjóðleikhússins vann til á þeim tíma sem hann var þar við stjórn.
  21. Kærandi telur að gögn málsins sýni svo ekki verði um villst að ráðningarferlið hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga og reglna. Hafi mat kærða og hæfnisnefndar verið óforsvaranlegt og engar málefnalegar forsendur til að taka þann umsækjanda sem skipuð var í embættið fram yfir kæranda. Kærandi hafi ekki fengið sanngjarna og óhlutdræga meðhöndlun af hálfu kærða, þar sem vísvitandi hafi verið gert lítið úr hæfni hans, menntun og reynslu við meðferð málsins en að sama skapi meira verið gert úr reynslu konunnar á ákveðnum sviðum en efni hafi staðið til. Kærandi hafi frekari menntun og meiri og fjölbreyttari starfsreynslu og sé því hæfari en sú sem var skipuð til að gegna umræddu embætti.
  22. Kærandi telur bersýnilegt að kynjasjónarmið hafi ráðið för við skipun í embættið en að öðrum kosti hljóti skýringin að vera sú að kærði hafi illilega kastað til höndum við skoðun gagna og samanburð á umsækjendum.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

     

  23. Kærði hafnar því að ómálefnalegar ástæður, þ.e. kyn umsækjenda, hafi legið til grundvallar ákvörðun við skipun í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu félags- og lífeyrismála og að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Hafi þau sjónarmið sem lágu til grundvallar við ákvörðun um veitingu embættisins verið málefnaleg og mat á þeim verið forsvaranlegt.
  24. Kærði bendir á að samkvæmt almennum grundvallarreglum stjórnsýsluréttar um mat á hæfni umsækjenda um opinber störf verði að ljá veitingarvaldshafa töluvert svigrúm við mat á vægi einstakra sjónarmiða við samanburð á milli umsækjenda og hvernig einstakir umsækjendur falli að slíkum sjónarmiðum, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5466/2008. Veitingarvaldshafa beri að velja þann umsækjanda sem sé talinn hæfastur á grundvelli málefnalegra sjónarmiða. Í ljósi þeirrar skyldu hafi umboðsmaður Alþingis lagt til grundvallar að veitingarvaldshafi verði að sýna fram á að heildstæður samanburður á umsækjendum hafi farið fram þar sem megináhersla hafi verið lögð á atriði sem geta varpað ljósi á væntanlega frammistöðu umsækjenda í starfinu út frá þeim málefnalegu sjónarmiðum sem lögð hafi verið til grundvallar við val á umsækjendum af hálfu stjórnvaldsins. Kærði tekur fram að hæfasti umsækjandinn hafa verið valinn eftir heildarmat og samanburð á hæfni, þekkingu og reynslu umsækjenda, byggt á öllum gögnum málsins og þeim hæfniþáttum sem lagðir voru til grundvallar.
  25. Kærði tekur fram að hæfnisnefnd, sem skipuð var á grundvelli 19. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, hafi komist að þeirri niðurstöðu í álitsgerð sinni að tveir umsækjendur teldust mjög vel hæfir til gegna embættinu en þrír vel hæfir. Álitsgerðin hafi verið send umsækjendum til athugasemda 6. október 2022 og hafi athugasemdir borist frá tveimur umsækjendum, kæranda og konunni sem hlaut embættið. Athugasemdir kæranda hafi verið umfangsmiklar og hafi því verið óskað afstöðu hæfnisnefndar til þeirra. Hafi nefndin ekki talið tilefni til þess að endurskoða afstöðu sína varðandi hæfni kæranda og voru kæranda send þau svör ásamt viðbótargögnum. Athugasemdir konunnar sem hlaut embættið hafi varðað umfjöllun nefndarinnar um stjórnunarreynslu hennar og leiðtogahæfni. Að lokinni yfirferð allra gagna málsins hafi ráðherra ákveðið að boða í viðtal þá fimm umsækjendur sem hæfnisnefndin hafði metið vel hæfa og mjög vel hæfa til að gegna embættinu.
  26. Kærði tekur fram að viðtöl hafi verið stöðluð og hafi allir umsækjendur fengið sömu spurningar en helstu punktar úr svörum þeirra voru skráðir. Lögð hafi verið áhersla á farsæla reynslu umsækjenda af stjórnun og mannaforráðum, hæfni í mannlegum samskiptum og leiðtogafærni og þekkingu og reynslu af opinberri stjórnsýslu. Þá hafi einnig verið spurt hvernig umsækjendur myndu takast á við þær krefjandi aðstæður sem höfðu ríkt innan félags- og vinnumarkaðsráðuneytis undanfarna mánuði vegna skipulagsbreytinga. Ekki hafi verið gefið tölulegt mat fyrir frammistöðu í viðtali heldur hafi frammistaða hvers umsækjanda fyrir sig verið rædd og metin heildstætt.
  27. Kærði tekur fram að ráðherra hafi í framhaldinu lagt heildstætt mat á hæfni, þekkingu og reynslu umsækjenda á grundvelli fyrirliggjandi gagna og þeirra krafna sem komu fram í auglýsingu. Hann hafi farið yfir öll gögn málsins, þ.m.t. umsóknargögn umsækjenda, álitsgerð og gögn hæfnisnefndar, athugasemdir umsækjenda, upplýsingar sem fram komu í viðtölum við umsækjendur og viðbótarupplýsingar sem kærandi sendi eftir viðtalið með tölvupósti 1. nóvember 2022. Við mat á hæfni umsækjenda hafi verið leitast eftir því að þeir sýndu fram á hæfni sína út frá hæfniskröfum embættisins. Lögð hafi verið áhersla á starfstengda þekkingu og reynslu umsækjenda sem studd væri skýrum og viðeigandi dæmum úr fyrri störfum og hvernig umsækjandi kom fyrir í viðtali og hversu vel hann svaraði spurningum. Að loknu heildarmati og samanburði á hæfni umsækjenda á grundvelli allra fyrirliggjandi gagna málsins hafi það verið niðurstaða kærða að sú sem var skipuð væri hæfust til að gegna embættinu.
  28. Kærði tekur fram að við heildarmat á hæfni umsækjenda hafi verið lögð áhersla á farsæla stjórnunarreynslu konunnar á málefnasviði umræddrar skrifstofu og þekkingu hennar og reynslu á sviði opinberrar stjórnsýslu en hún hafi þar verið talin standa öðrum umsækjendum framar. Þrátt fyrir að aðrir umsækjendur hefðu lengri stjórnunarreynslu, en hún hefði það verið mat ráðherra að stjórnunarreynsla hennar væri farsæl og að reynsla hennar af stjórnun innan Stjórnarráðsins ætti að fá sérstakt vægi, en hún hefði starfað þar frá árinu 2018. Hún hafi rökstutt hæfni sína varðandi þennan hæfniþátt með skýrum og viðeigandi dæmum í viðtali við ráðherra og í athugasemdum við álitsgerð hæfnisnefndar. Þá hafi hún verið talin hafa meiri metnað og vilja til að ná árangri en aðrir umsækjendur auk hæfni í mannlegum samskiptum sem hún hafi sýnt fram á með skýrum og viðeigandi dæmum en þetta væru mikilvægir þættir í störfum skrifstofustjóra.
  29. Kærði tekur fram að álit hæfnisnefndar á hæfni umsækjenda sé ráðgefandi fyrir ráðherra en ekki bindandi, sbr. 19. gr. laga nr. 115/2011. Það sé ráðherra sem taki ákvörðun um skipun í embætti og beri hann ábyrgð á ráðningarferlinu. Álit hæfnisnefndar hafi því verið eitt þeirra gagna sem legið hafi til grundvallar við heildarmat og samanburð á umsækjendum um embættið og töku ákvörðunar um skipun í embættið. Telur kærði fullnægjandi gögn og upplýsingar hafa legið til grundvallar við mat á hæfni kæranda miðað við þær hæfniskröfur sem gerðar voru.
  30. Kærði bendir á að þó svo að einstaklingur sé metinn hæfastur til að sinna tilteknu embætti út frá menntun, hæfni og reynslu sinni sé ekki sjálfgefið að hann verði talinn jafn hæfur til að sinna öðru embætti. Hæfnisskilyrði, hlutverk og starfssvið séu mismunandi á milli embætta, auk þess sem umsækjendahópurinn geti skipt máli.
  31. Kærði tekur fram að konan sem hlaut embættið hafi lokið námi til starfsréttinda í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands árið 2005 með 254 ECTS-einingum og námi í foreldrafærniþjálfun (PMTO-meðferð og -kennsla) árið 2012. Það nám sé ígildi diplómanáms sem sé kennt í Háskólanum í Reykjavík í dag. Í auglýsingu hafi ekki verið gerð krafa um framhaldsmenntun úr háskóla og ekki heldur tiltekna háskólagráðu. Við matið hafi verið horft til þess hvernig framhaldsmenntun umsækjenda nýttist í embættinu. Var konan sem var skipuð talin uppfylla hæfniþáttinn um háskólamenntun sem nýtist í starfi og framhaldsmenntun.
  32. Kærði hafnar því að hafa vísvitandi gert lítið úr hæfni kæranda, menntun og reynslu og meira úr reynslu þeirrar, sem var skipuð, á ákveðnum sviðum. Kærandi sé meðal þeirra fimm umsækjenda sem ráðherra ákvað að boða í seinna viðtal og ljóst sé að kærandi búi yfir góðri hæfni og reynslu, þ. á m. m.t.t. menntunar hans og reynslu. Hins vegar hafi annar umsækjandi verið metinn hæfastur til að gegna embættinu.
  33. Kærði tekur fram að stjórnunarreynsla konunnar sem var skipuð hafi verið af verkefnastjórn á skrifstofu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar árin 2011–2015 og deildarstjórn húsnæðis- og búsetudeildar hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar árin 2015–2018. Hún hafi starfað í félagsmálaráðuneytinu frá árinu 2018 en hún hafi verið sérfræðingur á skrifstofu barna- og fjölskyldumála, nú skrifstofu félags- og lífeyrismála, og teymisstjóri félagsþjónustu árin 2018–2021. Hún hafi verið settur skrifstofustjóri skrifstofunnar frá ársbyrjun 2022 þar til hún tók við embættinu. Í starfi sínu sem deildarstjóri hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar hafi hún haft mannaforráð og á tímabilum verið staðgengill skrifstofustjóra. Þá hafi hún stýrt umfangsmiklum verkefnum. Sem settur skrifstofustjóri skrifstofu félags- og lífeyrismála hafi hún haft mannaforráð og sem stjórnandi tekist á við krefjandi verkefni tengd skipulags­breytingum ráðuneytisins.
  34. Kærði bendir á að konan sem var skipuð hafi sinnt störfum í opinberri stjórnsýslu meira og minna frá árinu 2005. Hún hafi starfað innan Stjórnarráðs Íslands frá árinu 2018 og þar áður starfað hjá Reykjavíkurborg um tíu ára skeið. Hún hafi að mati kærða, sem hann hafi byggt á gögnum málsins, góða þekkingu og reynslu á sviði opinberrar stjórnsýslu sem hefði þýðingu fyrir starfið og hefði hún staðið þar framar öðrum umsækjendum.
  35. Kærði tekur fram að við heildarmat og samanburð á milli umsækjenda hafi starfsreynsla verið metin efnislega og horft til þess hversu viðeigandi hún væri fyrir starf skrifstofustjóra á skrifstofu félags- og lífeyrismála. Heildstæður og efnislegur samanburður á umsækjendum hafi farið fram með tilliti til væntanlegrar frammistöðu þeirra í starfinu. Kærði ítrekar að konan sem var skipuð hafi verið talin hæfasti umsækjandinn eftir heildarmat og samanburð við aðra umsækjendur. Stjórnunarreynsla hennar innan Stjórnarráðsins hafi verið talin viðeigandi fyrir embættið og hafi því fengið sérstakt vægi, auk þess sem stjórnunarreynslan var á því málefnasviði sem heyrði undir skrifstofu félags- og lífeyrismála. Hafi matið verið forsvaranlegt, byggt á málefnalegum sjónarmiðum og fallið innan þess svigrúms sem ráðherra hefur. Ljóst sé að kyn hafði engin áhrif á niðurstöðu um veitingu embættisins.

     

    NIÐURSTAÐA

     

  36. Mál þetta beinist að því hvort kærði hafi brotið gegn 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, með skipun konu í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu félags- og lífeyrismála.
  37. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2020 kemur fram að markmið laganna sé að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
  38. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 19. gr. laganna kemur það í hlut umsækjanda sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns. Takist sú sönnun ber atvinnu­rekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á skipun í embættið sem um ræðir í málinu hjá kærða.
  39. Við mat á því hvort ákvæði 19. gr. laga nr. 150/2020 hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Árétta ber að framangreint verður ekki talið fela í sér sjálfstæða heimild fyrir nefndina til að byggja á öðrum sjónarmiðum en kærði hefur sjálfur lagt til grundvallar og ekki heldur heimild til að endurmeta innbyrðis vægi þessara sjónarmiða með sjálfstæðum hætti, svo lengi sem þau voru málefnaleg og innan þess svigrúms sem kærði hefur, sbr. athugasemdir við 19. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 150/2020. Þá fellur það ekki undir valdsvið kærunefndarinnar að endurskoða mat kærða á því hvaða umsækjandi fellur best að þeim sjónarmiðum sem lögð var áhersla á við ráðninguna nema draga megi þá ályktun af gögnum málsins að matið hafi ekki verið forsvaranlegt.
  40. Í auglýsingu um embætti skrifstofustjóra á skrifstofu félags- og lífeyrismála kom fram að hlutverk skrifstofunnar væri að undirbyggja stefnumarkandi ákvarðanir ráðherra og hafa heildarsýn yfir verkefni skrifstofunnar. Í starfinu fælist stjórnun, áætlanagerð, stefnumótun, markmiðssetning og mat á árangri og í því væri lögð áhersla á nýsköpun og gott samráð og samstarf við stofnanir ráðuneytisins og aðra hagaðila á málefnasviðum þess. Verkefni skrifstofunnar næðu m.a. til þjónustu við fatlað fólk, málefna eldra fólks, félagsþjónustu sveitarfélaganna og almannatrygginga auk gæðaeftirlits í málaflokknum. Um væri að ræða áhugavert og fjölbreytt starf í krefjandi starfsumhverfi þar sem reynir á öguð vinnubrögð, ábyrgð og sjálfstæði. Gerð var krafa um háskólamenntun sem nýtist í starfi, framhaldsmenntun, farsæla reynslu af stjórnun og mannaforráðum, mjög góða hæfni í mannlegum samskiptum og leiðtogafærni, þekkingu og reynslu á sviði opinberrar stjórnsýslu, metnað og vilja til að ná árangri, þekkingu og reynslu af áætlanagerð og stefnumótun, skipulagsfærni, frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum, gott vald á íslensku og færni til að tjá sig í ræðu og riti og góða kunnáttu í ensku.
  41. Alls sóttu 15 um embættið. Eftir mat á umsóknargögnum var það niðurstaða ráðgefandi hæfnisnefndar, að höfðu samráði við ráðherra, að boða fimm umsækjendur í viðtöl sem að mati hennar uppfylltu betur öll skilyrði auglýsingar en aðrir umsækjendur. Að loknum viðtölum var niðurstaða hæfnisnefndar að tveir þeirra væru mjög vel hæfir til að gegna embættinu en þrír vel hæfir. Af gögnum málsins má ráða að hæfnisnefndin hafi skilgreint fimm hæfniþætti við mat á umsóknargögnum og tíu hæfniþætti við matið eftir viðtölin, út frá auglýsingu um embættið. Í viðtölum var notaður staðlaður viðtalsrammi og voru sömu spurningarnar lagðar fyrir alla umsækjendurna.
  42. Álitsgerð hæfnisnefndar var send umsækjendum til athugasemda en í tilefni af athugasemdum kæranda var óskað afstöðu hæfnisnefndar til þeirra sem taldi ekki tilefni til þess að endurskoða mat sitt á kæranda. Var kærandi upplýstur um það og honum send öll viðbótargögn. Ráðherra ákvað í framhaldinu að boða í viðtöl fimm efstu umsækjendurna að mati hæfnisnefndar. Hefur kærði lýst því að það sem hafi ráðið úrslitum við mat á hæfni umsækjandans sem var skipaður hafi verið heildstætt mat á öllum matsþáttum. Hafi kærði byggt mat sitt einkum á upplýsingum í umsóknum, þ.m.t. fylgigögnum, niðurstöðu ráðgefandi hæfnisnefndar auk athugasemda og upplýsinga sem umsækjendur höfðu gert við mat hæfnisnefndar og frammistöðu í viðtali. Kærunefndin bendir á að þar sem ekki er mælt fyrir um hæfniskröfur í lögum sé það kærða að ákveða þær í ljósi þeirra þarfa sem hann telur nauðsynlegt að uppfylla til starfrækslu þeirra verkefna sem um ræðir með hagsmuni kærða að leiðarljósi. Að mati kærunefndar verður ekki betur séð en að þessar hæfniskröfur hafi verið málefnalegar.
  43. Af matsblöðum hæfnisnefndar sem liggja fyrir í málinu er ljóst að kærandi fékk fleiri heildarstig en sú sem var skipuð í embættið við mat á umsóknargögnum en að þau hafi fengið jafn mörg heildarstig eftir viðtölin þótt konan hafi fengið fleiri stig fyrir tvo matsþætti af sjö en kærandi fleiri stig fyrir einn matsþáttinn. Að loknu heildarmati hæfnisnefndar á öllum matsþáttum hafi þau bæði verið talin vel hæf ásamt einum öðrum umsækjanda og því staðið tveimur konum að baki sem voru metnar mjög vel hæfar. Af fyrirliggjandi áliti hæfnisnefndar verður ekki annað ráðið en að lagt hafi verið mat á efnislegt inntak þessara þátta þótt niðurstaðan hafi mátt vera skýrari. Tekið skal fram að jafnvel þótt einhver munur kunni að vera á stigagjöf á milli umsækjenda er það einungis hluti af margþættu og heildstæðu mati ráðningaraðila á umsækjendum.
  44. Þá verður að mati kærunefndar ekki annað séð af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu en að niðurstaða um hvað félli undir þessa matsþætti hafi verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum og að mat á þeim hafi verið forsvaranlegt. Þannig verður miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir í málinu, þær kröfur sem gerðar voru í auglýsingu sem og skilgreiningu á hæfniþáttum og vægi þeirra fyrir fyrsta mat samkvæmt viðauka I við áætlun um skipunarferlið, sem staðfest var af settum ráðherra, að ganga út frá því að sú sem var skipuð í embættið hafi a.m.k. uppfyllt kröfu um að hafa lokið framhaldsnámi sem teljist að lágmarki til 30 eininga. Í gögnum málsins kemur fram að hún lauk 254 ECTS-einingum í námi til starfsréttinda í félagsráðgjöf árið 2005 samkvæmt eldra fyrirkomulagi auk náms í foreldrafærniþjálfun (PMTO-meðferð og -kennsla) árið 2012.
  45. Fyrir liggur að samræmdar spurningar voru lagðar fyrir umsækjendur í viðtölum ráðherra og fengu upplýsingar sem komu fram í þeim vægi í mati kærða. Af viðtalsrammanum má ráða að lögð hafi verið áhersla á hæfni í mannlegum samskiptum, reynslu af stjórnun og mannaforráðum, leiðtogafærni og þekkingu og reynslu af opinberri stjórnsýslu. Engin matsblöð voru sérstaklega útbúin við þetta mat ráðherra. Hvorki verða gerðar athugasemdir við það að upplýsingar í viðtölum hafi verið hluti af heildarmati kærða á umsækjendum né talið ómálefnalegt að byggja á þeim upplýsingum sem þar komu fram.
  46. Með vísan til þessa og gagna málsins, þ.m.t. skráningar viðtala, verður ekki betur séð en að val kærða á þeim umsækjanda sem var skipuð í embættið hafi fallið vel að þeim sjónarmiðum sem kærði hafði lagt áherslu á og ekkert sem bendir til að valið hafi ekki verið forsvaranlegt. Ekki verður talið að það hafi verið ómálefnalegt að byggja á því að sú sem var skipuð hafi áður verið sett í sama starf um skamman tíma og hún var skipuð til að gegna hjá kærða enda hluti af heildarmati á hæfni hennar. Að sama skapi verður það ekki heldur talið ómálefnalegt að ljá þessari reynslu hennar aukið vægi við heildarmatið.
  47. Að framangreindu virtu verður að mati kærunefndar að telja að mat kærða á þeim sjónarmiðum sem hann lagði til grundvallar við val á hæfasta umsækjandanum hafi verið málefnalegt, forsvaranlegt og innan þess svigrúms sem hann hafði. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að málsmeðferð kærða við skipun í umrætt embætti hafi að öðru leyti verið ómálefnaleg eða farið gegn lögum nr. 150/2020. Telur kærunefnd því að mat kærða á umsækjendum, eins og það birtist í gögnum málsins, leiði ekki líkur að því að við skipunina hafi kæranda verið mismunað á grundvelli kyns, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020.
  48. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns við skipun í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu félags- og lífeyrismála kærða. Samkvæmt því verður ekki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 150/2020.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, settur félags- og vinnumarkaðsráðherra, braut ekki gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, við skipun í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu félags- og lífeyrismála.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Ari Karlsson

 

Anna Mjöll Karlsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta