Matsmál nr. 1/2021, úrskurður 21. desember 2021
Þriðjudaginn 21. desember 2021 var í matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 1/2021
Umhverfis- og auðlindaráðherra
gegn
Guðrúnu Maríu Valgeirsdóttur
R3 ehf.
Bryndísi Jónsdóttur
Sigurði Jónasi Þorbergssyni
Sigurði Baldurssyni
Garðari Finnssyni
Hilmari Finnssyni
og Gísla Sverrissyni
og kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r :
I
Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:
Matsnefnd eignarnámsbóta er í máli þessu skipuð Valgerði Sólnes, dósent, formanni, ásamt þeim Daða Má Kristóferssyni, prófessor, og Karli Axelssyni, prófessor og hæstaréttardómara, sem formaður kvaddi til starfans samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.
II
Matsbeiðni, eignarnámsheimild, aðilar og matsandlag:
Með bréfi matsþola 17. september 2021 fór meirihluti eigenda jarðarinnar Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi, nánar tiltekið eigendur lögbýlanna Reykjahlíðar I, Reykjahlíðar II, Reykjahlíðar III, Reykjahlíðar IV og Víðihlíðar (hér eftir matsþolar), þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að endurupptekið yrði mál matsnefndar nr. 1/2021 á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Eignarhald 76,5625% hluta jarðarinnar Reykjahlíðar skiptist á hendur eftirgreindra matsþola í óskiptri sameign: Í fyrsta lagi Guðrún María Valgeirsdóttir, kt. […], eigandi jarðarinnar Reykjahlíðar I og 25% hluta jarðarinnar Reykjahlíðar. Í öðru lagi R3 ehf., kt. 650707-1090, og Bryndís Jónsdóttir, kt. […], eigendur jarðarinnar Reykjahlíðar III og hvort um sig 8,3333% hluta Reykjahlíðar (samtals 16,6666%). Í þriðja lagi Sigurður Jónas Þorbergsson, kt. […], eigandi jarðarinnar Reykjahlíðar II og 17,7778% hluta Reykjahlíðar. Í fjórða lagi Sigurður Baldursson, kt. […], Garðar Finnsson, kt. […] og Hilmar Finnsson, kt. […], eigendur jarðanna Reykjahlíðar II-IV, og 7,7778%, 3,8889% og 3,8889% hluta Reykjahlíðar í áðurgreindri röð (samtals 15,5556%). Í fimmta lagi Gísli Sverrisson, kt. […], eigandi jarðarinnar Víðihlíðar og 1,5625% hluta Reykjahlíðar.
Matsandlagið er nánar tiltekið:
Landsvæði jarðarinnar Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi á háhitasvæði Gjástykkis sem friðlýst var með auglýsingunum 1. apríl 2020 og 16. júní 2021. Samkvæmt matsþolum eru þeir sem fyrr greinir eigendur 76,5625% hluta Reykjahlíðar í óskiptri sameign og samkvæmt matsþolum fylgir landi jarðarinnar eignarréttur að 52,98% háhitasvæðisins sem sætti friðlýsingu og 23,72% alls verndarsvæðis friðlýsingarinnar. Í 3. gr. auglýsingarinnar 1. apríl 2020 segir meðal annars að mörk verndarsvæðisins séu sýnd á korti og afmarkist af nánar tilgreindum hnitum og að afmörkun jarðhita sé dregin eftir útbreiðslu háhita samkvæmt viðnámsmælingum og landslagi, þar sem friðlýsing Gjástykkjasvæðis markist af Einbúa í vestri, Gæsafjöllum í suðvestri, Hrútafjöllum í austri og fylgi hrauninu til norðurs. Í 4. gr. auglýsingarinnar, 1. apríl 2020, eins og henni var breytt með 1. gr. auglýsingarinnar 16. júní 2021, er tiltekið að orkuvinnsla jarðvarma með uppsett varmaafl 50 MW eða meira og jarðvarma með uppsett rafafl 10 MW eða meira innan marka svæðisins sé óheimil, svo og að ekki sé heimilt að veita leyfi tengd orkurannsóknum eða orkuvinnslu á verndarsvæðinu vegna virkjunar jarðvarma með uppsett varmaafl 50 MW eða meira og virkjunar jarðvarma með uppsett rafafl 10 MW eða meira.
III
Málsmeðferð:
Með úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta 27. ágúst 2021 var kveðinn upp úrskurður í fyrrnefndu máli nr. 1/2021. Niðurstaða hans varð á þá leið að hafnað var kröfu matsþola um bætur úr hendi ráðherra vegna þess að með auglýsingum ráðherrans 1. apríl 2020 367/2020, um verndarsvæði á Norðausturlandi - háhiti Gjástykkissvæðis í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar, og 16. júní 2021 nr. 720/2021, um breytingu á auglýsingu nr. 367/2020, hefðu matsþolar verið sviptir rétti sínum til orkurannsókna og orkuvinnslu jarðvarma með uppsett varmaafl 50 MW eða meira og jarðvarma með uppsett rafafl 10 MW eða meira fyrir landi jarðar þeirra Reykjahlíðar innan marka verndarsvæðis samkvæmt auglýsingunum. Þá var ráðherra gert að greiða samtals 9.200.315 krónur málskostnað, svo og 2.000.000 krónur í ríkissjóð vegna kostnaðar við matsnefnd í málinu. Í úrskurðinum taldi matsnefnd að matsþolum bæri réttur til bóta úr hendi ráðherra vegna friðlýsingarinnar. Á hinn bóginn var það niðurstaða matsnefndar að slík óvissa væri um hlutdeild matsþola í þeim réttindum sem sættu friðlýsingu, og þar með hlutdeild í bótum vegna tjóns af völdum þeirrar eignarskerðingar sem fólst í friðlýsingu réttindanna umrætt sinn, að ófært væri að ákveða að svo komnu máli bætur fyrir ætlað tjón af þessum völdum líkt og matsþolar hefðu krafist.
Með bréfi matsþola 17. september 2021 var krafist endurupptöku máls matsnefndar á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Með bréfi matsnefndar 27. október 2021 var lögmönnum ráðherra og matsþola gefinn frestur til að skila til nefndarinnar athugasemdum um fram komna beiðni matsþola um hvort skilyrði stæðu til endurupptöku samkvæmt tilvitnuðu ákvæði stjórnsýslulaga. Einnig var í bréfinu upplýst um að við svo búið myndi matsnefnd eftir atvikum úrskurða um frávísun málsins eða boða til fyrirtöku í því stæðu skilyrði til endurupptöku.
Með bréfi matsþola 11. nóvember 2021 bárust frekari athugasemdir í tilefni af beiðni þeirra um endurupptöku málsins.
Með tölvubréfi 18. nóvember 2021 var upplýst um að ráðherra legði það í hendur matsnefndar hvort forsendur væru til að endurupptaka málið.
IV
Sjónarmið matsþola:
Um endurupptökukröfu sína vísa matsþolar meðal annars til þess að málið varði beiðni þeirra til matsnefndar um að ákveðnar verði bætur þeim til handa á grundvelli 3. mgr. 42. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd vegna friðlýsingar ráðherra á háhitasvæði Gjástykkis í samræmi við auglýsingu 1. apríl 2020 nr. 367/2020, sem birt var í B-deild Stjórnarstíðinda 22. apríl 2020. Óumdeilt sé að flatarmál hins friðað landsvæðis nemi 5.200 hekturum. Þar af séu 1.805,18 hektarar innan landamerkja Reykjahlíðar (34,72%) og 3.394,82 hektarar innan landamerkja Þeystareykja, Áss og Svínadals (65,29%). Háhitasvæði Gjástykkis sé staðsett innan marka þessa verndarsvæðis friðlýsingarinnar, þar af séu 590,62 hektarar innan marka Reykjahlíðar (52,98%) og 524,23 hektarar innan marka Þeystareykja, Áss og Svínadals (47,02%).
Matsþolar hafi talið sig eiga rétt til bóta samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga nr. 60/2013 og því borið fram bótakröfu sína við ráðherra í samræmi við lagaákvæðið. Engir aðrir landeigendur eða rétthafar en matsþolar hafi talið sig verða fyrir bótaskyldu tjóni vegna friðlýsingarinnar eða borið fram kröfu við ráðherra vegna hennar. Matsþolar hafi því verið einir um að óska mats á grundvelli 3. mgr. 42. gr. laga nr. 60/2013. Benda matsþolar á að íslenska ríkið sé eigandi jarðarinnar Áss, sem eigi hluta friðlýsta svæðisins, og að þess sé ekki getið í málatilbúnaði ráðherra í málinu fyrir matsnefnd að ríkið hafi orðið fyrir bótaskyldu tjóni vegna friðlýsingarinnar.
Matsþolar vísa til forsendna matsnefndar í úrskurðinum 27. ágúst 2021, þar sem fram komi að slík óvissa væri um hlutdeild matsþola í réttindunum sem sættu friðlýsingu, og þar með hlutdeild í þeim bótum vegna tjóns af völdum eignarskerðingarinnar sem falist hefði í friðlýsingu réttindanna, að ófært væri að ákveða bætur fyrir ætlað tjón af þess völdum líkt og krafist hefði verið.
Matsþolar byggja á því að auk eigenda Reykjahlíðar séu það eftirtaldir aðilar sem eigi þau landsréttindi og aðra hagsmuni sem sættu friðlýsingu með auglýsingu ráðherra nr. 367/2020, þ. á m. réttinn til að nýta jarðhitageyminn í Gjástykki: Í fyrsta lagi sé Þingeyjarsveit eigandi jarðarinnar Þeystareykja, landnúmer 153979. Í öðru lagi sé ríkissjóður eigandi jarðanna Áss, landnúmer 154067, og Svínadals, landnúmer 154123. Í þriðja lagi sé Landsvirkjun „hagsmunaaðili að virkjun Gjástykkis. Matsþolar árétta að þessir eigendur hafi ekki haft uppi bótakröfur vegna friðlýsingarinnar.
Matsþolar tiltaka að málatilbúnaður þeirra í máli matsnefndar nr. 1/2021 hafi verið byggður á því að matsnefnd myndi ákveða þær bætur sem þeir ættu rétt til samkvæmt lögum „með aðgreindum hætti eða meta tjónbætur til allra sem ættu hlut að máli og láta tjónþolum eftir að staðreynda hlut hvers og eins.“ Niðurstaða nefndarinnar hafi á hinn bóginn orðið sú sem áður greinir.
Matsþolar óska eftir því að matsmálið nr. 1/2021 verði endurupptekið og það þá borið undir fyrrgreinda eigendur hvort þeir geri ágreining um eignarhald bótakröfu matsþola. Komi til ágreinings milli eigendanna sem ekki verði jafnaður, þ. á m. um nýtingu jarðhitaauðlindarinnar teljist hún ekki ekki aðskiljanleg, óska matsþolar þess að þeim verði gefið færi á að afla matsgerðar dómkvaddra manna um hver sé hlutfallslegur réttur hvers og eins til nýtingar auðlindarinnar, sem síðan yrði lögð fram í málinu. Þegar skorið hafi verið úr óvissu um hlutdeild matsþola í réttindunum sem sættu friðlýsingu með auglýsingu ráðherra, sé þess óskað af hálfu matsþola að matsnefnd meti fjárhagslegt tjón þeirra á þeim grundvelli sem nú þegar liggi fyrir í málinu.
Matsþolar vísa til þess að skilyrði endurupptöku máls samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga sé að ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Það er álit matsþola að niðurstaða matsnefndar, um að óvissa ríki um hlutdeild matsþola í friðlýstu réttindunum, byggi bæði á röngum og ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik í þeim skilningi.
Matsþolar telja annars vegar að úrskurður matsnefndar byggi á röngum upplýsingum að því er varðar umfjöllun um matsgerð dómkvaddra manna 29. júní 2017, með viðbót frá 21. ágúst 2017, og þær ályktanir sem dregnar eru af matsgerðinni. Telja matsþolar að matsnefnd sýnist ranglega draga þá ályktun af niðurstöðu matsgerðarinnar 2017, að uppi sé vafi um hlutfallslegan rétt hvers og eins fasteignareiganda til nýtingar jarðhita á því svæði sem málið varðar, sbr. orðalag í úrskurði matsnefndar þar sem segir: „Af matsgerðinni verður ráðið að hún hafi lotið að nánar tilteknum landsvæðum og að það sé landsvæði sem stafmerkt hafi verið C sem taki til þess landsvæðis, Gjástykkis, sem mál þetta varðar.“ Matsþolar telja að þessi umfjöllun í úrskurðinum virðist byggjast á misskilningi því umrædd matsgerð hafi í engu varðað svæðið sem var til meðferðar í máli matsnefndar nr. 1/2021 og ekki á því byggt af hálfu matsþola. Líkt og titill matsgerðarinnar („Nýting jarðhita á Námafjalls- og Kröflusvæði“) beri með sér, varði hún Námafjalls- og Kröflusvæðið sem sé talsvert sunnan við Gjástykki. Landsvæðið sem stafmerkt sé C á kortum í matsgerðinni taki til svonefndra Sandbotna, vestan við fjallið Jörund, sem sé um 9-10 km í beinni loftlínu sunnan við suðurmörk friðlýsta svæðisins við Gjástykki. Matsgerðin fjalli því ekki um svæðið sem var til meðferðar í máli nr. 1/2021. Engar ályktanir sé því hægt að draga af henni um hlutfallslegan rétt hvers og eins fasteignareiganda á Gjástykkissvæðisins eða að vafi sé um hann. Að þessu leyti byggi úrskurður matsnefndar á röngum upplýsingum í merkingu 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.
Matsþolar telja að 27. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, sem varðar öflun mats dómkvaddra manna um hlutfallslegan rétt mismunandi rétthafa til nýtingar auðlindar, taki aðeins til þeirra aðstæðna að ágreiningur sé uppi milli rétthafa um nýtingu auðlindarinnar. Í þessu máli liggi ekkert fyrir að slíkur ágreiningur sé uppi. Af ákvæðinu verði jafnframt gagnályktað á þá leið að sé ekki ágreiningur um nýtingu auðlindar, þurfi ekki að afla mats dómkvaddra manna, þótt t.d. landamerki tveggja eða fleiri rétthafa liggi þannig að nýting verði ekki aðskilin.
Matsþolar byggja hins vegar á því að úrskurður matsnefndar sé byggður á ófullnægjandi upplýsingum að því er varðar hugsanlega sameigendur matsþola að þeim réttindum sem sættu friðlýsingu. Um þá umfjöllun í úrskurði matsnefndar 27. ágúst 2021, sem tekur til þessa, telja matsþolar að ályktun nefndarinnar um að hlutdeild jarðarinnar Reykjahlíðar í réttindum sem sættu friðlýsingu sé óútkljáð, virðist byggja á matsgerðinni 2017. Matsgerðin varði ekki, svo sem fyrr greinir, það svæði sem var til meðferðar í málinu. Þá vísi matsnefnd til þess að sameigendur matsþola að réttindunum hafi ekki átt aðild að málinu og þar með ekki haft tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum að í málinu. Matsþolar hafna því að þeir verði látnir bera hallann af því að aðrir rétthafar á svæðinu hafi ákveðið að gæta ekki réttar síns vegna friðlýsingar Gjástykkis. Matsþolar hafi engin ráð eða heimildir til að tryggja aðild annarra rétthafa að málinu. Þótt aðrir rétthafar hafi ekki borið fram bótakröfu við ráðherra innan tímamarka 42. gr. laga nr. 60/2013 og þannig ekki öðlast aðild að málinu fyrir matsnefnd, telja matsþolar að matsnefnd geti kallað eftir afstöðu rétthafanna sem lið í rannsókn málsins samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga, og veita þeim þannig tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum að. Þetta telja matsþolar ekki síst eiga við í því ljósi að samkvæmt úrskurði matsnefndar sé um úrslitaatriði að ræða í málinu sem og því að 3. mgr. 42. gr. laga nr. 60/2013 mæli svo fyrir að bætur skuli ákvarða með eignarnámsmati, náist ekki samkomulag um þær. Mjög miklir hagsmunir matsþola séu undir í málinu, sem varði umfangsmikla skerðingu stjórnarskrárvarinna eignarréttinda þeirra. Matsþolar telja ótækt að þeim sé ókleift að sækja lögbundinn rétt sinn til bóta á fyrrgreindum forsendum. Þannig er á því byggt að úrskurður matsnefndar sé reistur á ófullnægjandi upplýsingum í merkingu 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.
Matsþolar telja því að uppfyllt séu skilyrði til endurupptöku samkvæmt tilvitnuðu ákvæði stjórnsýslulaga.
V
Niðurstaða matsnefndar:
Matsþolar krefjast endurupptöku á máli matsnefndar nr. 1/2021, sem lokið var með úrskurði 27. ágúst 2021. Er krafa um endurupptöku reist á 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þar segir að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Um ákvæðið segir í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum:
„Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. á aðili máls rétt á því að mál verði tekið til meðferðar á ný ef stjórnvaldsákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Hér verður því að vera um að ræða upplýsingar sem byggt var á við ákvörðun málsins en ekki rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atvik sem mjög litla þýðingu höfðu við úrlausn þess.“ (Alþt. 1992-1993, A-deild, þskj. 505- 313. mál.)
Í matsgerð dómkvaddra manna frá í júní 2017, sem aflað var meðal annars af matsþolum að gengnum dómi Hæstaréttar 5. september 2016 í máli nr. 458/2016, segir í viðauka I á bls. 43: „Þriðja svæðið sem afmarkað er á uppdráttinn er stafmerkt C og sýnir landsvæði sem landeigendur jarðarinnar [Reykjahlíðar] eiga en þeir sömdu við Landsvirkjun um rannsóknir og vinnslu jarðhitaréttinda á því svæði með samningi dagsettum 6. nóvember 2005.“ Matsgerð þessi barst matsnefnd í tilefni af fyrirspurn nefndarinnar við munnlegan flutning máls nr. 1/2021. Í málatilbúnaði matsþola var á því byggt að orkunýting friðlýsta svæðisins væri möguleg einkum á þeim grunni að þegar hefði verið samið við Landsvirkjun um þá nýtingu með samkomulagi 6. nóvember 2005. Á þeirri forsendu var í úrskurðinum 27. ágúst 2021 byggt á því af hálfu matsnefndar að svæði stafmerkt C í matsgerðinni tæki til friðlýsta svæðisins. Að fram kominni athugasemd matsþola er nú staðfest af matsnefnd að matsgerðin nær ekki til þrætusvæðisins.
Hvað sem því líður er óumdeilt að þau réttindi sem sættu friðlýsingu, þ. á m. réttur til orkunýtingar háhitasvæðis Gjástykkis, er á hendi fleiri aðila en eigenda jarðarinnar Reykjahlíðar, þ. á m. matsþola. Í úrskurði matsnefndar 27. ágúst 2021 var ályktað af dómum Hæstaréttar 26. september 2013 í máli nr. 547/2012 og 5. september 2016 í máli nr. 458/2016, sbr. og matsgerðina frá í júní 2017, að handhafar þessara réttindinda kynnu að vera eigendur jarðarinnar Reykjahlíðar auk sveitarfélaganna Norðurþings, Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps vegna tilgreindra jarða. Undir meðferð endurupptökubeiðninnar hefur af hálfu matsþola verið upplýst að handhafar réttindanna séu auk eigenda Reykjahlíðar, Þingeyjarsveit (eigandi jarðarinnar Þeystareykja), íslenska ríkið (eigandi jarðanna Áss og Svínadals) og Landsvirkjun (sem „hagsmunaaðili að virkjun Gjástykkis“). Þótt aðild að eignarréttindunum, sem sættu skerðingu með friðlýsingu ráðherra 1. apríl 2020, sé því orðin skýrari stendur sú grundvallarforsenda óröskuð að umræddur orkunýtingarréttur er í sameign matsþola og fleiri aðila og í málinu liggur hvorki fyrir samkomulag þessara aðila um skiptingu réttindanna né matsgerð, dómur eða annað haldbært sönnunargagn fyrir hlutdeild hvers og eins þeirra, þ. á m. matsþola, í þeim eignarréttindum.
Það er álit matsnefndar að þótt á henni hvíli rannsóknarskylda verði sú skylda ekki talin ná til þess að rannsaka og leysa úr hlutdeild eiganda sameignar gagnvart sameigendum hans við þær aðstæður sem hér eru uppi. Úrlausn um slíkt fellur utan valdsviðs nefndarinnar. Þetta kom skýrt fram í úrskurðinum 27. ágúst 2021, þar sem segir meðal annars:
„Til þess er að líta að valdsvið matsnefndarinnar einskorðast við úrlausn ágreinings um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögum nr. 11/1973, og það er þannig ekki nefndarinnar að taka afstöðu til ágreinings um eignarhald á þeirri jarðrænu auðlind sem bótaákvörðun snýr að og þar með hlutfallslegan rétt hvers og eins til nýtingar.“
Í úrskurði matsnefndar 27. ágúst 2021 kom þannig meðal annars fram að það sé ekki nefndarinnar að taka afstöðu til ágreinings um eignarhald á þeirri jarðræðu auðlind sem bótaákvörðun sneri að og þar með hlutfallslegan rétt hvers og eins til nýtingar. Á hinn bóginn var í úrskurðinum byggt á því að hlutdeild jarðarinnar Reykjahlíðar, og þ. á m. matsþola, í þeim réttindum sem sættu friðlýsingu, væri óútkljáð og að friðlýsta auðlindin væri óumdeildanlega í sameign Reykjahlíðar og annarra þeirra jarða sem land ættu á svæðinu. Hefðu sameigeindur matsþola að þeim réttindum sem sættu friðlýsingu ekki átt aðild að málinu fyrir matsnefnd og þar með ekki haft tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Væri slík óvissa um hlutdeild matsþola í réttindunum sem sættu friðlýsingu, og þar með hlutdeild í bótum vegna tjóns af völdum þeirrar eignarskerðingar sem falist hefði í friðlýsingu réttindanna, að ófært væri að ákveða bætur fyrir ætlað tjón af þessum völdum líkt og matsþolar kröfðust í málinu. Það er álit matsnefndar að upplýsingarnar, sem matsþolar byggja á að hafi verið rangar eða ófullnægjandi samkvæmt framangreindu, og varða tilvísun til umræddrar matsgerðar, breyti engu um þessar veigamiklu forsendur úrskurðarins og hafi þannig aðeins haft litla eða óverulega þýðingu við úrlausn málsins.
Að öllu framangreindu gættu er það því niðurstaða matsnefndar að skilyrði 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, fyrir því að stjórnsýslumál verði endurupptekið, séu ekki fyrir hendi í þessu tilviki og verður því hafnað kröfu eignarnámsþola um endurupptöku á máli nr. 1/2021, sbr. úrskurð matsnefndar 27. ágúst 2021.
Ekki eru skilyrði til þess að eignarnemi beri kostnað af endurgjaldi til handa eignarnámsþola vegna reksturs matsmálsins, sbr. 11. gr. laga nr. 11/1973.
Rétt þykir að eignarnemi greiði í ríkissjóð 450.000 krónur vegna starfa matsnefndar í máli þessu.
ÚRSKURÐARORÐ:
Hafnað er kröfu matsþola, Guðrúnar Maríu Valgeirsdóttur, R3 ehf., Bryndísar Jónsdóttur, Sigurðar Jónasar Þorbergssonar, Sigurðar Baldurssonar, Garðars Finnssonar, Hilmars Finnsonar og Gísla Sverrissonar, um endurupptöku máls matsnefndar eignarnámsbóta nr. 1/2021.
Eignarnemi skal greiða 450.000 krónur í ríkissjóð vegna kostnaðar við matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu.
Valgerður Sólnes
Daði Már Kristófersson Karl Axelsson