Hoppa yfir valmynd

Nr. 291/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 6. júní 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 291/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19050030

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 524/2018, dags. 28. nóvember 2018, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. október 2018, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Fyrir liggur að kærandi nýtur alþjóðlegrar verndar í Grikklandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 3. desember 2018. Kærandi lagði fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 7. desember sl. og þann 12. desember sl. barst beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Beiðnum kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar og endurupptöku málsins var synjað af kærunefnd með úrskurðum nr. 9/2019 og 21/2019, dags. 15. janúar 2019. Þann 4. apríl sl. lagði kærandi öðru sinni fram beiðni um endurupptöku máls síns og var henni synjað af kærunefnd með úrskurði nr. 195/2019, dags. 9. maí 2019.

Þann 16. maí sl. lagði kærandi enn fram beiðni um endurupptöku máls síns fyrir kærunefnd. Þá barst kærunefnd fylgigagn í málinu þann 17. maí sl. Dagana 17., 20., 22. og 23. maí sl. bárust kærunefnd jafnframt upplýsingar frá Útlendingastofnun og Stoðdeild ríkislögreglustjóra um málsmeðferð í máli kæranda. Þá bárust nefndinni andmæli kæranda vegna upplýsinganna, viðbótarathugasemdir og fylgigögn dagana 21. og 24. maí sl. Kærunefnd bárust þá frekari upplýsingar frá Útlendingastofnun vegna máls kæranda þann 31. maí sl. og andmæli kæranda vegna þeirra upplýsinga með tölvupósti, dags. 3. júní sl.

II. Málsástæður og rök kæranda

Í beiðni kæranda um endurupptöku er byggt á því að meira en 12 mánuðir hafi nú liðið frá því að umsókn hans um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og að tafir á afgreiðslu umsóknarinnar séu ekki á hans ábyrgð, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Því beiðist kærandi þess að hann verði ekki fluttur til Grikklands heldur verði umsókn hans um alþjóðlega vernd tekin til efnismeðferðar hér á landi.

Vegna áðurnefndra upplýsinga sem kærunefnd bárust frá Útlendingastofnun, um ætlaðar tafir kæranda á málsmeðferðinni fyrir stjórnvöldum, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, lagði kærandi fram viðbótarathugasemdir og fylgigögn þann 24. maí sl.

Í viðbótarathugasemdum kæranda kemur fram að í kjölfar þess að honum hafi verið birtur úrskurður þann 21. janúar sl., um að endurupptökubeiðni hans hafi verið hafnað, hafi hann leitað örvæntingarfullur og í áfalli til núverandi talsmanns síns (hér eftir S). S og móðir hans (hér eftir Á) hafi skotið yfir hann skjólshúsi í ljósi andlegs ástands hans. Kærandi hafi samdægurs tjáð þáverandi talsmönnum sínum (hér eftir R) að hann hygðist gista hjá vinafólki og beðið þá að láta þjónustufulltrúa sinn hjá Félagsþjónustunni í Reykjavík vita, sem þeir hafi og gert. Daginn eftir, þann 22. janúar sl., hafi kærandi vaknað um hádegisbil og reynt að hringja í R en ekki kunnað á heimasímann. Á hafi þá aðstoðað hann við að hringja og hafi R tjáð henni að Reykjavíkurborg hafi rift þjónustusamningi sínum við kæranda. Aðspurð um ástæður samningsrofsins hafi fulltrúi Reykjavíkurborgar kveðið að kæranda hefði borið að hringja fyrr um morguninn. Í kjölfarið hafi R upplýst fulltrúa Reykjavíkurborgar um að kærandi dveldi hjá vinafólki sínu, óskað eftir leiðréttingu á því að kærandi teldist horfinn og að þjónustusamningur hans yrði virkjaður á ný. Þá hafi fulltrúi Reykjavíkurborgar ráðlagt R að hafa samband við fulltrúa Útlendingastofnunar, sem þeir hafi og gert.

R hafi loks tilkynnt Útlendingastofnun, með tölvupósti dags. 25. janúar sl., um að kærandi hygðist dvelja áfram í húsnæði hjá vinafólki sínu og þyrfti því ekki búsetuúrræði á vegum Útlendingastofnunar. Kærandi hafi þá hvorki treyst sér til né þurft að sækja framfærslu hjá Útlendingastofnun þar sem S og Á hafi séð honum fyrir uppihaldi.

Í fyrirliggjandi upplýsingablaði um framfærslufé hafi komið fram að kærandi fengi framfærslu ekki greidda ef hann tilkynnti sig ekki til stofnunarinnar vikulega. Í samningi milli kæranda og Útlendingastofnunar hafi hins vegar hvergi verið tekið fram að ef hann tilkynnti sig ekki væri, af hálfu stofnunarinnar, litið svo á að hann væri horfinn. Stjórnvöld hafi þegar verið upplýst um og samþykkt að kærandi dveldi í húsnæði vinafólks síns hérlendis. Útlendingastofnun hafi því mátt vita hvar kærandi væri, enda hafi aldrei verið farið leynt með þær upplýsingar. Að mati kæranda sé ekkert sem skýri ástæður þess að hann hafi ekki fundist og verið eftirlýstur af Stoðdeild ríkislögreglustjóra. Þá hefði fulltrúi Stoðdeildar getað óskað eftir nánari upplýsingum frá talsmönnum kæranda um dvalarstað hans en það hefði hann ekki gert.

Bæði Stoðdeild ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnun hafi fengið fjölmörg tækifæri til að ljúka máli kæranda innan 12 mánaða, enda hafi kærandi og talsmenn hans aldrei farið leynt með upplýsingar um dvalarstað hans. Í því sambandi tekur kærandi fram að Á hafi verið í sambandi við Þjónustumiðstöð Breiðholts vegna eigna kæranda sem hafi orðið eftir í búsetuúrræði á þeirra vegum og þá hafi kærandi lagt fram umsókn hjá Útlendingastofnun um ríkisborgararétt með tilheyrandi upplýsingum. Enn fremur hafi kærandi og talsmenn hans ekki haft vitneskju um að lýst hefði verið eftir honum í upplýsingaskrá lögreglu fyrr en þeim hafi borist tölvupóstur frá kærunefnd þess efnis, dags. 22. maí sl., og eigi það jafnt við um S og R. Kærandi hafi þá lagt fram beiðni um endurupptöku öðru sinni þann 4. apríl sl. og hafi S lagt fram beiðni sem talsmaður kæranda. Þá þegar hafi legið ljóst fyrir hvernig unnt væri að ná sambandi við kæranda og hafi Útlendingastofnun, Stoðdeild ríkislögreglustjóra og kærunefnd útlendingamála haft góða yfirsýn yfir mál kæranda. Samkvæmt dagbókarfærslu Útlendingastofnunar, dags. 11. apríl sl., hafi Stoðdeild verið beðin um að endurvekja framkvæmd vegna flutnings kæranda, sem hún hafi ekki gert. Þá hefði kærunefnd útlendingamála ýmist getað upplýst lögreglu um stöðu mála eða lokið málsmeðferðinni innan 12 mánaða frestsins.

Með beiðni sinni um endurupptöku lagði kærandi m.a. fram meðmælabréf, vikudagskrá sína, ýmis tölvupóstsamskipti, þ. á m. við Útlendingastofnun og Reykjavíkurborg, upplýsingablað og samning um vikulegar greiðslur Útlendingastofnunar til kæranda vegna framfærslu, dagbókarfærslur Útlendingastofunar og bréf og fylgigögn með umsókn hans um íslenskan ríkisborgararétt. Þá lagði kærandi fram vottorð bæklunarskurðlæknis, dags. 16. maí 2019, þar sem fram kemur að hann sé að jafna sig eftir skurðaðgerð á hné og að ekki sé mælt með ferðalögum fyrstu 6-8 vikurnar eftir aðgerð.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar.

Í ljósi framangreindra lagaákvæða, svo og samfelldrar dvalar kæranda hér á landi síðan hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd þann 11. maí 2018, og annarra atvika málsins sem nánar eru rakin í kafla IV í þessum úrskurði, er það mat kærunefndar að tilefni sé til þess að taka málið til meðferðar á ný þar sem atvik hafi breyst verulega frá því ákvörðun var tekin í málinu. Kærunefnd fellst því á að kærandi eigi rétt á því að mál hans verði endurupptekið hjá nefndinni, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi

Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöld geta þó, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, synjað því að taka til efnismeðferðar umsókn á grundvelli 40. gr. við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum. Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar. Af 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hefur kærunefnd útlendingamála túlkað ákvæðið með þeim hætti að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis enda sé flutningurinn á ábyrgð stjórnvalda, sbr. t.d. úrskurð nefndarinnar nr. 68/2018 frá 6. febrúar 2018. Samkvæmt 7. mgr. 104. gr. laga um útlendinga annast lögregla og Útlendingastofnun framkvæmd ákvarðana um frávísun og brottvísun.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 11. maí 2018 og hefur enn ekki yfirgefið landið. Því eru liðnir rúmlega 12 mánuðir frá því að umsókn kæranda barst fyrst íslenskum stjórnvöldum. Kemur því til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hans sjálfs, sbr. 2. máls. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Af gögnum sem bárust kærunefnd frá Útlendingastofnun og stoðdeild ríkislögreglustjóra má ráða að engar ráðstafanir hafi verið gerðar varðandi framkvæmd úrskurðar kærunefndar og flutning kæranda frá landinu þar sem hann hafi verið skráður „horfinn“ hjá stofnununum. Ástæða þessarar skráningar hafi verið að kærandi dvaldi ekki í búsetuúrræði Útlendingastofnunar frá tilgreindum tíma og mætti ekki í nafnakall hjá stofnuninni. Þá hafi Útlendingastofnun tilkynnt talsmanni sem fór með mál kæranda hjá stjórnvöldum um að stofnunin liti á hann sem „horfinn“.

Kærunefnd útlendingamála telur að þegar ekki er unnt að framkvæma endanlega ákvörðun um að einstaklingur skuli yfirgefa landið vegna þess að stjórnvöld geta ekki náð til einstaklingsins séu þær tafir sem leiða af því almennt á ábyrgð umsækjanda sjálfs, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Aftur á móti má ráða af skýringum kæranda að hann sé ósammála því mati Útlendingastofnunar að ekki hefði verið unnt að framkvæma úrskurð nefndarinnar þar sem hann hafi ekki verið „horfinn“. Í því sambandi vísar kærandi m.a. til þess að þótt fyrir liggi að kærandi hafi ekki dvalið í búsetuúrræðum á vegum stjórnvalda hafi hann, eftir að kærunefnd útlendingamála kvað upp úrskurð um að hann skyldi yfirgefa landið, veitt stjórnvöldum, þ.m.t. Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála, upplýsingar um að hann dveldi hjá hjá venslafólki sínu, S og Á, hér á landi.

Samkvæmt gögnum málsins ritaði lögmaður, sem fór með mál kæranda hjá stjórnvöldum, Útlendingastofnun tölvupóst þann 25. janúar 2019 þar sem fram kom að kærandi hygðist dvelja hjá venslafólki sínu. Ekki koma fram í tölvupóstinum nánari upplýsingar um þetta venslafólk. Samkvæmt gögnum frá Útlendingastofnun lagði Á fram umsókn um ríkisborgararétt þann 1. mars 2019 hjá Útlendingastofnun. Meðal gagna sem fylgdu umsókninni er bréf, dags. 21. febrúar 2019, sem er undirritað af S og Á þar sem fram kemur að þau ábyrgist að veita honum húsaskjól eftir þörfum. Þá lagði S fram beiðni um endurupptöku máls kæranda hjá kærunefnd Útlendingamála þann 4. apríl 2019. Í gögnum sem fylgdu beiðni um endurupptöku er högum kæranda lýst með ítarlegum hætti, þ.m.t. reglulegum tómstundum hans, auk þess sem í beiðninni kemur fram yfirlýsing frá S um stuðning hans við kæranda. Upplýsingum um beiðni kæranda um endurupptöku og að S færi með málið fyrir hans hönd var miðlað frá kærunefnd til Útlendingastofnunar þann 11. apríl sl., sbr. skráningu í dagbók Útlendingastofnunar.

Þótt kærandi hafi ekki með formlegum hætti tilkynnt stjórnvöldum um dvalarstað sinn er að mati kærunefndar ljóst af gögnum málsins að hann fór ekki í felur með dvalarstað sinn. Þá er það mat kærunefndar að Útlendingastofnun hefði, af þeim gögnum sem lágu fyrir hjá stofnuninni, mátt vera ljóst hvar kærandi dvaldi eða í það minnsta haft ríka möguleika á að komast að dvalarstað hans.

Þegar litið er til þess að umsækjendum um alþjóðlega vernd er ekki skylt að dvelja í búsetuúrræðum Útlendingastofnunar og að kærandi fékk hvorki leiðbeiningar frá stjórnvöldum um að hann skyldi tilkynna breyttan dvalarstað sinn né um að fjarvera hans í nafnakalli myndi leiða til þess að stofnunin teldi hann „horfinn“ er það mat kærunefndar að ekki verði litið svo á að ekki hafi verið unnt að framkvæma úrskurð kærunefndar útlendingamála þar sem ekki hafi verið unnt að ná til kæranda.

Að mati kærunefndar verða þær tafir sem urðu á meðferð máls kæranda fyrir stjórnvöldum því ekki taldar á ábyrgð kæranda, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, og eru skilyrði ákvæðisins því uppfyllt í máli hans. Það er því niðurstaða kærunefndar að leggja fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Það er niðurstaða kærunefndar að endurupptaka mál kæranda. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál hans til efnismeðferðar.

 

Úrskurðarorð

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

The appellant’s request for re-examination of his case is granted.The Directorate of Immigration shall examine the merits of the applicant’s application for international protection in Iceland.

 

Anna Tryggvadóttir

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                     Laufey Helga Guðmundsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta