Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 343/2011

Miðvikudaginn 11. apríl 2012

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

A, kærði til úrskurðarnefndar almannatrygginga endurreikning Tryggingastofnunar ríkisins vegna bótagreiðslna ársins 2010.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að við endurreikning Tryggingastofnunar ríkisins vegna bótagreiðslna ársins 2010 reiknaðist stofnuninni að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Með bréfi, dags. 21. júlí 2011, var kæranda tilkynnt um þá niðurstöðu. Kærandi andmælti niðurstöðunni við Tryggingastofnun og var því svarað af hálfu stofnunarinnar með bréfi, dags. 6. september 2011.

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi, dags. 26. september 2011. Í greinargerðinni, dags. 27. október 2011, segir:

 1. Kæruefnið

Kærður er endurreikningur ofgreiddra bóta vegna ársins 2010 sem var kynntur fyrir kæranda með bréfi stofnunarinnar, dags. 21. júlí 2010. Niðurstöðu endurreikningsins var andmælt með bréfi þann 14. ágúst sl. og var þeim svarað þann 6. september sl. Í kæru/andmælum segir að hún geri tekjuáætlanir sínar eftir bestu samvisku með aðstoð eiginmanns síns. Þá segir: „Ástæðan fyrir ofgreiðslu er mér sagt að lífeyrissjóðsgreiðslur hafi fallið niður hjá mér á tekjuáætlun. Þetta er ekki rétt og ég varð ekki var við að mér væri neitt ofgreitt.“

2. Lagarök

Í 16. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 (atl.) er kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. kemur fram að til tekna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Bótagreiðsluár er almanaksár. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna skv. 7. mgr. 16. gr. laganna, sbr. og III. kafla reglugerðar nr. 598/2009.

Samkvæmt 2. mgr.  52. gr. atl. er bótaþega skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Þá er bótaþega og skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á greiðslur bóta.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafa verið vangreiddar eða ofgreiddar fer um það skv. 55. gr. laganna. Þar kemur fram að Tryggingastofnun skuli draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Sú skylda er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

3. Málavaxtalýsing

Uppgjör og endurreikningur tekjutengdra bóta ársins 2010 sem kærandi var upplýstur um þann 21. júlí sl. leiddi til ofgreiðslu að fjárhæð X kr.

Í tillögu Tryggingastofnunar að tekjuáætlun kæranda vegna ársins 2010 var gert ráð fyrir X kr. í lífeyrissjóðsgreiðslur og X kr. í fjármagnstekjur. Þessari áætlun var breytt á Tryggur – mínar síður (þjónustuvef TR) á þann veg að lífeyrissjóðsgreiðslur voru lækkaðar í X kr. en um óbreyttar fjármagnstekjur var að ræða. Miðuðust greiðslur við þær tekjuforsendur sjá bréf, dags. 15. janúar 2010. Þann 12. apríl 2010 barst Tryggingastofnun breytt tekjuáætlun á þjónustuvef stofnunarinnar. Lífeyrissjóðstekjur kæranda voru afmáðar og fjármagnstekjur voru lækkaðar í X kr. Til staðfestingar á þessari breytingu var kæranda sent bréf þess efnis, dags. 13. apríl 2010 og hækkuðu greiðslur til kæranda í kjölfarið. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Þann 16. júní 2010 var kæranda sent bréf þar sem að við reglubundið eftirlit með greiðslum til bótaþega kom í ljós að misræmi var á milli tekjuáætlunar og staðgreiðsluskrár þar sem kærandi var með lífeyrissjóðstekjur. Tekjuáætlun var breytt til samræmis við það. Mynduð var ofgreiðsla að fjárhæð X kr. vegna þessa misræmis og voru greiðslur til kæranda leiðréttar til samræmis við þær tekjuforsendur. Kærandi sendi stofnuninni fyrirspurn vegna þessarar ofgreiðslu og var henni svarað með bréfi dags. 12. júlí sl. og var upplýst um ástæðu ofgreiðslunnar. Þá var tekjuáætluninni breytt í samræmi við óskir kæranda og ofgreiðslukrafan leiðrétt þannig að þá stóð hún í X kr. og beið sú krafa eftir endanlegum endurreikningi ársins 2010. Bótaárið 2010 var svo endurreiknað þegar skattframtal 2011 vegna ársins 2010 lág fyrir og kom þá í ljós að ofgreiðsla ársins var X kr.

Uppgjörinu var andmælt og var þeim svarað með bréfi dags. 6. september 2011. Afrit af andmælunum fylgdu með kæru.

4. Upplýsingaskylda

Á umsóknareyðublaði um bætur, svo og á eyðublöðum fyrir tekjuyfirlýsingar, er texti sem umsækjendur og lífeyrisþegar undirrita, þar sem þeir ábyrgjast að láta Tryggingastofnun vita ef breytingar verða á tekjum þeirra.

Í 2. mgr. 52. gr. atl. felst rík skylda lífeyrisþega að vera vakandi fyrir því að tekjuforsendur bótaútreiknings séu réttar á hverjum tíma og gera viðvart ef svo er ekki. Aftur á móti er einungis um heimild hjá Tryggingastofnun að ræða til að afla tekjuupplýsinga. Slík heimild verður þess ekki valdandi að firra lífeyrisþega ábyrgð á upplýsingagjöf sinni samkvæmt ákvæðinu. Kæranda var í lófa lagið að koma með athugasemdir við bréf Tryggingastofnunar strax í apríl en gerði það ekki.

5. Niðurstaða

Ástæða ofgreiðslu kæranda voru vanáætlaðar tekjur í tekjuáætlun sem greiddar bætur voru reiknaðar út frá eins og sagt er frá hér að framan. Í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 13. apríl 2010, var kæranda bent á hvernig tekjuáætlun hennar var og miðuðust greiðslur hennar við þær breytingar. Greiðslur kæranda voru þá leiðréttar frá janúar það ár og fékk kærandi eingreiðslu vegna þess tímabils að fjárhæð X kr. þ.e. leiðréttingu á tekjutryggingu og sérstaka uppbót. Greiðslur voru svo hækkaðar frá og með aprílmánuði til samræmis við breytta tekjuáætlun. Kæranda hefði hæglega getað gert athugasemd við afgreiðslu Tryggingastofnunar en gerði það ekki fyrr en í kjölfar bréfs stofnunarinnar þann 16. júní 2010. Kærandi ber fyrir sig að hann hafi ekki fengið neinar ofgreiðslur á árinu. Eins og gögn málsins bera með sér er það ekki rétt. Eins og kemur fram í 55. gr. atl. þá ber bótaþega að endurgreiða Tryggingastofnun ef tekjutengdar bætur eru ofgreiddar. Sú skylda er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Með vísun til ofanritaðs telur Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni um innheimtu ofgreiddra bóta.

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 1. nóvember 2011, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Með bréfi, dags. 8. nóvember 2011, bárust svofelldar athugasemdir frá kæranda:

 „Vegna kærumáls A viljum við hjónin taka fram eftirfarandi, sem okkur finnst skipta máli. Í fyrsta lagi gerðum við tekjuáætlun 15. Jan. 2010 fyrir A (sjá meðf, ljósrit) og vissum ekki annað en það væri áætlun fyrir allt árið.

Við mótmælum málavaxtalýsingu TR í máli þessu að tekjuáætlun frá 12. apríl hafi verið afmáð örorkulífeyrissjóðsgreiðslum hennar, en þarna átti bara að koma fram fjármagnstekjulækkun, vegna breyttra laga.

Þessar greiðslur hefur A haft frá 01.12. 2005 og ætti starfsmönnum TR að vera fullkunnugt um það.

Síðan barst svokölluð „ ofgreiðsla „ sérstök uppbót til framfærslu „ og tengdum við hana við örorku maka, B, en hann hafði þá fyrr um árið verið að ganga í gegnum örorkumatsferli sem lauk 30.03. 2010 með varanlegu örorkumati frá 01.02.2010.

Í upplýsingaskyldu TR er lögð rík áhersla á skyldur lífeyrisþega, en er það ekki líka gagnkvæmt TR við bótaþega, ?.

Að lokum viljum við ítreka mótmæli við þessari ákvörðun TR um ofgreiddar bætur,“

 

Athugasemdir kæranda voru kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 11. nóvember 2011. Í bréfi stofnunarinnar, dags. 15. nóvember 2011, segir að eftir að hafa yfirfarið athugasemdir kæranda sjái stofnunin ekki tilefni til sérstakra athugasemda af sinni hálfu og var vísað til fyrri greinargerðar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar endurreikning Tryggingastofnunar ríkisins vegna bótagreiðslna til kæranda á árinu 2010. Endurreikningurinn leiddi í ljós að kærandi hefði fengið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð X kr.

Kærandi greindi frá því að hún hafi gert tekjuáætlun þann 15. janúar 2010 og að hún hafi ekki vitað annað en að það hafi verið áætlun fyrir allt árið. Þeirri málavaxtalýsingu Tryggingastofnunar er mótmælt að í tekjuáætlun frá 12. apríl hafi örorkulífeyrisgreiðslur verið afmáðar, þar hafi aðeins átt að koma fram fjármagnstekjulækkun vegna breytinga á lögum.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að ofgreiðsla bóta á árinu 2010 stafi af vanáætluðum tekjum í tekjuáætlun. Þann 12. apríl 2010 hafi stofnunin móttekið breytta tekjuáætlun á þjónustuvef stofnunarinnar þar sem lífeyrissjóðstekjur kæranda höfðu verið teknar út og fjármagnstekjur lækkaðar. Stofnunin hafi í kjölfarið miðað útreikning bóta við þá tekjuáætlun. Þá hafi stofnunin sent kæranda bréf, dags. 16. júní 2010, þess efnis að við reglubundið eftirlit með greiðslum til bótaþega hafi komið í ljós að misræmi væri á milli tekjuáætlunar og staðgreiðsluskrár. Í staðgreiðsluskránni hafi komið fram að kærandi væri með lífeyrissjóðstekjur á árinu. Tekjuáætlun hafi verið breytt í samræmi við þær upplýsingar en ofgreiðsla hafði þá myndast vegna þessa. 

Kærandi naut tekjutengdra bóta frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2010. Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er umsækjanda og bótaþega skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Þá er Tryggingastofnun heimilt, að fengnu samþykki viðkomandi, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og bótaþega hjá skattyfirvöldum o.fl. Ennfremur er umsækjanda og bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur. 

Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar ber Tryggingastofnun að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Við endurreikning á bótafjárhæð kæranda reiknaðist stofnuninni að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur á árinu 2010.

Tekjuáætlun kæranda gerði upphaflega ráð fyrir X kr. í lífeyrissjóðstekjur og X kr. í fjármagnstekjur. Tryggingastofnun barst þann 12. apríl 2010 leiðrétt tekjuáætlun inn á þjónustuvef stofnunarinnar. Leiðréttingin fólst í því að lífeyrissjóðstekjur kæranda voru teknar út að fullu og fjármagnstekjur voru lækkaðar í X kr. Stofnunin reiknaði í kjölfarið bótagreiðslur út frá þeim forsendum. Við reglubundið eftirlit með greiðslum til bótaþega í júní 2010 kom í ljós samkvæmt staðgreiðsluskrá að kærandi naut lífeyrissjóðstekna á árinu og var tekjuáætlun leiðrétt til samræmis við þær upplýsingar. Lífeyrissjóðstekjur kæranda voru þá skráðar X kr. og fjármagnstekjur óbreyttar. Vegna þessa kom í ljós að ofgreiðsla bóta hafði myndast en ofgreiðslan yrði ekki innheimt fyrr en við endurreikning á árinu 2011. Kærandi var upplýst um þetta með bréfi, dags. 16. júní 2010. Samkvæmt skattframtali kæranda fyrir tekjuárið 2010 reyndust lífeyrissjóðstekjur kæranda síðan vera X kr. og fjármagnstekjur reyndust vera X kr.     

Í 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um að ofgreiddar bætur skuli innheimtar.  Í 2. mgr. kemur m.a. fram að ef tekjutengdar bætur samkvæmt lögunum séu ofgreiddar af Tryggingastofnun skuli það sem sé ofgreitt dregið frá öðrum tekjutengdum bótum sem bótaþegi öðlist síðar rétt til. 

Lögum samkvæmt ber Tryggingastofnun að líta til upplýsinga í skattframtölum við endurreikning bóta, sbr. 7. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Leiði samanburður á tekjuáætlun og skattframtali í ljós að bótaþega hafi verið ofgreiddar bætur ber honum lögum samkvæmt að endurgreiða þann hluta bótafjárhæðinnar sem hann hafði ekki lögbundinn rétt til að njóta. Það liggur fyrir samkvæmt gögnum málsins að tekjuáætlun kæranda var leiðrétt í apríl 2010 inni á þjónustuvef Tryggingastofnunar þar sem lífeyrissjóðstekjur voru teknar út að fullu. Sú leiðrétting hafði þær afleiðingar að bótagreiðslur hækkuðu þangað til Tryggingastofnun leiðrétti tekjuáætlunina á ný við reglubundið eftirlit með bótagreiðslum til bótaþega í júní 2010 vegna upplýsinga úr staðgreiðsluskrá þar sem fram kom að kærandi væri með lífeyrissjóðstekjur á árinu. Endurgreiðslukrafan myndaðist vegna framangreindrar hækkunar á bótagreiðslum til kæranda. Það er á ábyrgð bótaþega sem nýtur tekjutengdra bóta að hafa gætur á því að tekjuáætlun sé rétt og í samræmi við þær tekjur sem kunna að falla til á árinu, sbr. 52. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Tryggingastofnun greiðir út tekjutengdar bótagreiðslur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi bótaþega, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007.

Tryggingastofnun ber að innheimta ofgreiddar bætur lögum samkvæmt, sbr. 55. gr. sömu laga. Í því tilliti hefur stofnunin enga heimild til þess að virða að vettugi upplýsingar skattyfirvalda. Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að staðfesta beri endurreikning Tryggingastofnunar ríkisins þar sem í ljós kom að kæranda voru ofgreiddar bætur að fjárhæð X kr. á bótagreiðsluárinu 2010.

Bent skal á að kærandi getur lagt inn beiðni um niðurfellingu endugreiðslukröfunnar til Tryggingastofnunar ríkisins á grundvelli undanþáguákvæðis 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, telji hún skilyrði ákvæðisins uppfyllt.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Endurreikningur Tryggingastofnunar ríkisins vegna bótagreiðslna A á árinu 2010 er staðfestur.

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson formaður




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta