Mál nr. 6/2011
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 2. febrúar 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 6/2011.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi dags. 13. desember 2010 tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum þann 29. nóvember 2010 tekið ákvörðun um að stöðva greiðslur atvinnuleysistrygginga til hennar. Ástæðan var sú að kærandi hafði stundað nám samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysistrygginga, án þess að tilkynna það til Vinnumálastofnunar og án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Jafnframt taldi Vinnumálastofnun að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 1. september til 20. september 2010 að fjárhæð 91.894 kr. sem henni bæri að endurgreiða með 15% álagi skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 3. janúar 2011. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun þann 26. október 2009.
Við samkeyrslu á gagnagrunnun Vinnumálastofnunar við nemendaskrár menntastofnana sem gerð var skv. 4. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, kom í ljós að kærandi var skráð í nám við Háskóla Íslands, samhliða því að fá greiddar atvinnuleysistryggingar, en án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina.
Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 21. október 2010, var því beint til kæranda að hafa samband við Vinnumálastofnun ásamt því að færa fram skýringar á náminu. Ákveðið var á fundi Vinnumálastofnunar þann 29. nóvember 2010 að synja kæranda um áframhaldandi greiðslur atvinnuleysistrygginga þar sem hún lagði stund á nám samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Henni var jafnframt tilkynnt, í bréfi dags. 13. desember 2010, að henni bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, sem hún hafði fengið fyrir tímabilið 1. september til 20. september 2010, samtals að fjárhæð 91.894 kr.
Í rökstuðningi með kæru til úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. janúar 2011, segir kærandi að hún sé sammála því að hún hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur þar sem hún hafi verið að hefja nám í Háskóla Íslands. Hún viti vel að það sé ekki hægt að vera á atvinnuleysisbótum á meðan verið sé í lánshæfu námi enda hafi hún ekki ætlað sér það og það séu í raun ekki hennar mistök. Það hafi ekki átt að koma á óvart að hún væri að fara í skóla enda hafi hún látið vita af því að ef hún fengi enga vinnu þá færi hún í nám. Hún kveðst hafa rætt þetta við konu á Engjateigi þegar hún hafi gert við hana námssamning.
Varðandi endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta gerir kærandi þá kröfu, fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, að bótaréttur hennar verði endurmetinn til hækkunar á grundvelli náms í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði. Hún kveðst telja að nám þetta eigi að koma til hækkunar á bótarétti hennar þar sem hún hafi stundað námið samhliða 20% starfi hjá B ehf. áður en hún hóf fullt starf.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 27. maí 2011, kemur fram að kærandi hafi stundað 24 eininga nám við Háskóla Íslands á haustönn 2010. Námið sé lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Þar sem nám kæranda nemi 24 ECTS einingum teljist það vera það umfangsmikið að ekki séu fyrir hendi skilyrði til gerðar námssamnings. Kærandi uppfylli því ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar skv. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og hafi hún fengið greiddar atvinnuleysistryggingar á tímabili er hún átti ekki rétt til þeirra. Kæranda hafi verið greiddar atvinnuleysistryggingar á tímabilinu 1. september til 20. september 2010 að fjárhæð 79.908 kr. Beri henni, með vísan til 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysistryggingar ásamt 15% álagi, samanlagt 91.894 kr.
Vinnumálastofnun bendir á að kærandi óski einnig eftir endurútreikningi á bótarétti með tilliti til vottorðs frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði. Fram komi að kærandi telji að þetta nám eigi að koma til hækkunar á bótarétti þar sem hún hafi stundað námið samhliða 20% starfi hjá B ehf. Af 3. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar megi ráða að nám geti einungis talist til ávinnslutímabils í þeim tilvikum þegar því hafi sannanlega verið lokið í formi brautskráningar frá viðkomandi menntastofnun. Í 6. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi enn fremur að í þeim tilvikum þar sem um útskrift sé að ræða sé heimilt að taka tillit til starfs sem unnið sé með námi við útreikning á atvinnuleysistryggingum launamanns en þá teljist námið ekki til vinnuframlags á ávinnslutímabilinu. Sé því ekki unnt að fallast á hækkun á bótarétti kæranda á grundvelli framlagðra gagna.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. júní 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. júní 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
2.
Niðurstaða
Kærandi er sammála þeirri niðurstöðu Vinnumálastofnunar að hún hafi á tímabilinu 1. september til 21. september 2010 ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum þar sem hún hafi verið í 24 ECTS-eininga námi við Háskóla Íslands.
Meginregla 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á við um kæranda, þ.e. hún stundar nám í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Undanþáguheimildir 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna koma til skoðunar þegar nám er ekki lánshæft samkvæmt reglum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Nám kæranda var 24 ECTS-einingar og telst lánshæft samkvæmt reglum Lánasjóðsins. Undanþáguheimildirnar eiga því ekki við í máli hennar.
Af framansögðu er ljóst að þar sem nám kæranda er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna á hún ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta. Því ber að staðfesta niðurstöðu Vinnumálastofnunar um stöðvun greiðslna atvinnuleysistrygginga til kæranda.
Kærandi fer fram á endurútreikning á bótarétti hennar með tilliti til skólavottorðs frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði vegna náms hennar þar á tímabilinu 2004 til haustannar 2007. Hún krefst þess að nám þetta komi til hækkunar á bótarétti þar sem hún hafi stundað námið samhliða 20% starfi hjá B ehf.
Þessar málsástæður kæranda eru reistar á stjórnvaldsákvörðunum sem annars vegar voru teknar á grundvelli upphaflegrar umsóknar hennar um atvinnuleysisbætur, dags. 30. október 2008, og hins vegar á grundvelli umsóknar hennar um endurkomu í atvinnuleysistryggingakerfið, dags. 26. október 2009. Af gögnum málsins verður ráðið að kæranda hafi verið tilkynnt um þessar ákvarðanir enda gat hún sjálf rýnt í efni þeirra áður en hún lagði kæru þessa fram.
Kærufrestur til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er þrír mánuðir frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærufrestur vegna þessara tveggja stjórnvaldsákvarðana er því löngu liðinn, sbr. fyrrnefnt ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar og 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Með vísan til 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga er óhjákvæmilegt að vísa þessu kæruatriði frá.
Með vísan til framanritaðs verður hin kærða ákvörðun staðfest.
Úrskurðarorð
Sá hluti kærunnar, sem lýtur að ákvörðunum um bótahlutfall kæranda, A, sbr. umsókn hennar, um atvinnuleysisbætur, dags. 30. október 2008 og umsókn hennar um endurkomu í atvinnuleysistryggingakerfið, dags. 26. október 2009, er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.
Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda, er staðfest. Kærandi skal endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 91.894 kr.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson