Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 2/2012

Mál nr. 2/2012:

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

innanríkisráðherra

 

Skipun í embætti. Hæfnismat.

Innanríkisráðuneytið auglýsti í október 2011 laust embætti sýslumannsins á Húsavík. Kærandi, sem er kona, taldi að brotið hefði verið gegn jafnréttislögum með því að skipa karl í embættið en hún taldi sig vera hæfari en karlinn sem skipaður var. Innanríkisráðherra taldi hins vegar að karlinn hefði verið best til þess fallinn að gegna því embætti sem auglýst var. Kærunefnd jafnréttismála horfði til þess að kærandi hefði verið að minnsta kosti jafn hæf til að gegna embættinu og sá er skipaður var. Við þær aðstæður að embætti sýslumanna voru að miklum meiri hluta skipuð körlum hefði kærða borið, meðal annars með vísan til 18. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, að leitast við að jafna stöðu kynjanna hvað embætti þessi varðar. Innanríkisráðherra taldist því hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við skipun í embætti sýslumannsins á Húsavík.

 

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 28. ágúst 2012 er tekið fyrir mál nr. 2/2012 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dagsettri 12. apríl 2012, kærði A, ákvörðun innanríkisráðherra um að skipa karl í embætti sýslumannsins á Húsavík. Kærandi telur að með skipuninni hafi ráðherra brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 18. apríl 2012. Kærði óskaði ítrekað eftir fresti til að skila greinargerð og barst greinargerð ásamt gögnum 5. júlí 2012, sem kynnt var kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 9. júlí 2012.
  4. Kærunefndin óskaði eftir frekari gögnum frá kærða sem bárust 16. júlí 2012. Gögnin voru send kæranda til kynningar með bréfi nefndarinnar, dagsettu 18. júlí 2012. Nefndinni barst bréf kæranda, dagsett 20. júlí 2012, með athugasemdum við greinargerð kærða og sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 23. júlí 2012.
  5. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina. 

    MÁLAVEXTIR
  6. Innanríkisráðuneytið auglýsti laust embætti sýslumannsins á Húsavík 14. október 2011. Kærandi var einn þriggja umsækjenda um embættið og voru allir boðaðir í viðtal í ráðuneytið. Kærandi og sá sem skipaður var voru boðuð í annað viðtal með ráðherra og ráðuneytisstjóra. Þann 28. desember 2011 var kæranda tilkynnt að ákveðið hefði verið að skipa karlmann í embættið.
  7. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi vegna skipunarinnar auk allra gagna er vörðuðu umsókn hennar og þess sem skipaður var. Kærandi fékk rökstuðning og umbeðin gögn frá ráðuneytinu með bréfi dagsettu 9. janúar 2012. Kærandi kom svo kæru á framfæri við kærunefnd jafnréttismála 12. apríl 2012 eins og áður gat.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA
  8. Kærandi telur að kærði hafi brotið gegn 26. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með því að skipa karlmann í embætti sýslumannsins á Húsavík þann 28. desember 2011. Kærandi telur að hún hafi verið látin gjalda kynferðis síns þegar reynsluminni og minna menntaður karlmaður var skipaður í embættið. Að mati kæranda hafi kærði ekki rökstutt að sá sem skipaður var sé hæfari til að gegna stöðunni en hún.
  9. Kærandi telur að gögn málsins sýni að hún hafi ekki fengið sanngjarna og óhlutdræga meðhöndlun af hálfu ráðuneytisins. Þá telur kærandi að við meðferð málsins hafi vísvitandi verið gert lítið úr hæfni hennar, menntun og reynslu, en að sama skapi hafi verið gert meira úr reynslu þess sem skipaður var á tilteknum sviðum en efni standi til.
  10. Í auglýsingu kom fram að umsækjendur skyldu fullnægja skilyrðum 2. mgr. 5. gr. laga nr. 92/1989, um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, og 2. mgr. 28. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla. Þá skyldu í umsókn koma fram upplýsingar um menntun, reynslu af saksókn mála og/eða annarri meðferð ákæruvalds, reynslu af dómstörfum, reynslu af lögmannsstörfum, reynslu af stjórnsýslustörfum, reynslu af fræðastörfum, reynslu af stjórnun, reynslu af öðrum aukastörfum sem nýtist í embætti sýslumanns, upplýsingar um almenna og sérstaka starfshæfni, upplýsingar sem lúta að andlegu atgervi, áræði, mannlegum samskiptum og sjálfstæði, upplýsingar um þrjá samstarfsmenn sem gætu veitt upplýsingar um störf, samstarfshæfni og aðra hæfni umsækjanda og aðrar upplýsingar sem varpað gætu ljósi á faglega eiginleika og færni umsækjanda sem máli skipta fyrir störf sýslumanns. Jafnframt skyldi fylgja eftir því sem við ætti afrit af prófskírteinum, afrit dóma í munnlega fluttum málum sem umsækjandi hefur samið atkvæði í síðustu tólf mánuði, afrit af ákærum, stefnum og greinargerðum í málum sem umsækjandi hefði samið og flutt munnlega síðustu tólf mánuði, afrit af úrskurðum stjórnvalda og stjórnvaldsákvörðunum sem umsækjandi hefði samið á síðustu tólf mánuðum, útgefin fræðirit og afrit af tímaritsgreinum umsækjanda sem og önnur gögn sem varpa ljósi á faglega færni umsækjanda til starfa sem sýslumaður.
  11. Að mati kæranda er óumdeilt að hún og sá sem skipaður var fullnægja bæði þeim skilyrðum sem tilgreind voru í auglýsingunni til að gegna umræddu embætti. Hins vegar telur kærandi að hún hafi frekari menntun og meiri og fjölbreyttari reynslu og sé því hæfari en sá sem skipaður var til að gegna embættinu.
  12. Kærandi rekur að hún hafi lokið cand. jur. prófi frá Háskóla Íslands í júní 1995, með fyrstu einkunn. Hún hafi öðlast réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi í maí 1998. Þá hafi kærandi lokið meistaragráðu í Evrópurétti frá Stokkhólmsháskóla í júní 1999, en meistararitgerð hennar hafi fjallað um varnir gegn peningaþvætti. Loks hafi kærandi sótt fjölda endurmenntunarnámskeiða á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands og ERA - Academy of European Law í Trier í Þýskalandi. Auk þess hafi kærandi setið námskeið í Lögregluskóla ríkisins til undirbúnings fyrir sumarvinnu vorið 1990.
  13. Sá sem skipaður hafi verið í embættið hafi lokið cand. jur. prófi frá Háskóla Íslands í október 1999. Hann hafi öðlast réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi í júní árið 2000. Þá hafi hann lokið 30 eininga diplómanámi við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands í opinberri stjórnsýslu. Öðru námi hafi hann ekki lokið. Hann virðist hafa setið námskeið við lagadeild Glasgow háskóla haustið 2002, án þess að taka próf. Þá liggi fyrir gögn um að hann sé skráður nemandi í meistaranámi í opinberri stjórnsýslu við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, en hann hafi ekki lokið því námi. Loks liggja fyrir gögn um að sá sem skipaður var hafi setið eitt námskeið við Lögregluskóla ríkisins og annað við Endurmenntun Háskóla Íslands.
  14. Í minnisblaði frá skrifstofu stefnumótunar og þróunar í innanríkisráðuneytinu til ráðherra og ráðuneytisstjóra, dagsett 13. desember 2011, er í samanburði á kæranda og þeim sem skipaður var ekki tekin afstaða til þess hvort þeirra hafi meiri menntun. Ljóst sé að kærandi hafi lokið mun umfangsmeira framhaldsnámi og sótt mun fleiri námskeið til endurmenntunar en sá er skipaður var. Að mati kæranda hafi hún því meiri menntun en sá sem skipaður var.
  15. Kærandi bendir á að hún hafi yfirgripsmikla reynslu af saksókn mála og meðferð ákæruvalds, enda hafi hún unnið við saksókn bæði hjá sýslumanninum á Húsavík og hjá sýslumanninum á Akranesi. Þegar hún hafi unnið sem löglærður fulltrúi og staðgengill sýslumannsins á Húsavík 1996 til 1998 hafi hún meðal annars haft yfirumsjón með lögreglumálum, bæði rannsókn þeirra og saksókn. Hún hafi komið að saksókn fjölda mála á þeim tíma og flutt fjölmörg mál sem sýslumaður gaf út ákæru í, en einnig hafi hún flutt öll mál sem ríkissaksóknari gaf út ákæru í sem voru til meðferðar hjá embætti sýslumanns. Sem settur sýslumaður á Akranesi hafi hún síðan frá því í febrúar 2009 séð alfarið um lögreglumál og haft yfirumsjón með rannsókn þeirra og saksókn. Tekur kærandi fram að á Akranesi sé rannsóknardeild fyrir allt Vesturland og hafi starf hennar í þessum málum því verið umfangsmikið, en ákæruvald hjá þeim embættum sem hafa rannsóknardeild sé mun víðtækara og taki til mun alvarlegri brota en ákæruvald þeirra embætta þar sem engin rannsóknardeild sé. Þannig hafi kærandi séð um að ákæra í öllum málum sem sýslumaðurinn gefi út ákæru í og hafi flutt þau mál sem fari í aðalmeðferð. Kærandi hafi einnig flutt þau mál sem ríkissaksóknari hefur ákæruvald í og átt hafa undir sýslumanninn á Akranesi. Þá hafi ríkissaksóknari einnig falið henni að flytja mál fyrir hans hönd sem átt hafa undir embætti sýslumannsins í Borgarnesi.
  16. Kærandi hafi undirbúið og farið fram á allar rannsóknaraðgerðir lögreglunnar á Akranesi og rannsóknardeildarinnar, svo sem leit, hlerun og gæsluvarðhald. Þá hafi kærandi farið með þau mál fyrir Hæstarétti sem hafi verið kærð þangað.
  17. Auk framangreinds hafi kærandi starfað við sumarafleysingar hjá lögreglunni á Húsavík í þrjú sumur, árin 1990–1992. Kærandi hafi verið sett ríkislögreglustjóri í einu máli og verið sett lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu í einu máli.
  18. Kærandi bendir á að sá sem skipaður var hafi starfað sem fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík 2001–2002 og svo aftur 2003–2004. Þar hafi hann komið að rannsókn, ákærugerð og saksókn sakamála. Frá árinu 2004 hafi hann starfað hjá sýslumanninum á Húsavík þar sem hann hafi sinnt svo til öllum sakamálum sem hafa komið upp í umdæminu. Þá hafi hann líkt og kærandi sinnt flutningi sakamála á Norðurlandi sem ríkissaksóknari gefur út ákæru í. Þá hafi ríkislögreglustjóri tvívegis falið honum saksókn fyrir héraðsdómi.
  19. Kærandi bendir einnig á að í minnisblaði kærða, dagsettu 13. desember 2011, sé að finna samanburð á kæranda og þess sem skipaður var. Þar komi fram að sá sem skipaður var þyki standa framar en kærandi hvað varðar reynslu af saksókn, sérstaklega þegar litið sé til starfa hans hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þessari ályktun kærða mótmælir kærandi. Sá sem skipaður var hafi starfað tvívegis hjá lögreglustjóranum í Reykjavík í eitt ár í hvort skipti. Að mati kæranda verði ekki séð að sú reynsla hans geri það að verkum að hann standi framar en hún sem hafi afar mikla reynslu af saksókn mála og annarri meðferð ákæruvalds.
  20. Þess er getið af hálfu kæranda að rannsóknardeild fyrir Húsavík sé á Akureyri. Eftir lagabreytingar árið 2007 séu einungis gefnar út ákærur í einföldustu málum hjá sýslumanninum á Húsavík. Að mati kæranda sé því ekki hægt að fullyrða að reynsla þess sem skipaður var af saksókn mála og annarri meðferð ákæruvalds sé meiri en reynsla kæranda.
  21. Í þessu sambandi bendir kærandi einnig á reynslu sína af lögreglumálum sem hún hafi öðlast í störfum sínum í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, en þar hafi hún starfað sem sérfræðingur á árunum 2002–2009 og hafi hluta þess tíma haft umsjón með lögreglumálum. Því verði að telja að kærandi hafi að minnsta kosti jafn mikla reynslu og sá sem skipaður var af saksókn mála og annarri meðferð ákæruvalds.
  22. Hvað varðar reynslu af dómstörfum þá hafi kærandi verið í námsvist við Héraðsdóm Norðurlands eystra og skrifað drög að nokkrum dómum. Sá sem skipaður var hafi enga reynslu af dómstörfum.
  23. Hvað snertir reynslu af lögmannsstörfum hafi kærandi starfað á árunum 1999–2002 sem héraðsdómslögmaður á lögmannsstofu. Á þeim tíma hafi hún unnið fjölbreytt lögmannsstörf sem hafi snúið að samningagerð, innheimtu, skiptastjórn o.fl. Einnig hafi hún sinnt málflutningi og flutt 31 einkamál fyrir héraðsdómi. Þá hafi hún aðstoðað við áfrýjun mála til Hæstaréttar og greinargerðarskrif.
  24. Kærandi bendir á að sá sem skipaður var hafi starfað á lögmannsstofu í tæplega tvö ár, 1999–2001. Þá hafi hann sinnt lögmannsstörfum af ýmsum toga, annast skaðabótauppgjör og stundað málflutning, en hann hafi öðlast málflutningsréttindi eftir að hafa starfað í eitt ár á skrifstofunni. Í umsókn hans komi fram að hann hafi flutt á annan tug mála fyrir héraðsdómi.
  25. Kærandi rekur að í samanburði kærða, dagsettum 13. desember 2011, segi um þennan lið að ekki þyki ástæða til að gera upp á milli umsækjenda hvað varðar reynslu af lögmannsstörfum. Þessu mótmælir kærandi. Kærandi nefnir að hún hafi starfað í þrjú ár við lögmennsku, en sá sem skipaður var í tæp tvö ár, þar af hafi hann ekki haft málflutningsréttindi annað árið en kærandi hafi haft málflutningsréttindi allan þann tíma sem hún starfaði á lögmannsstofu. Þá hafi kærandi flutt mun fleiri einkamál fyrir héraðsdómstólum en sá sem skipaður var. Að mati kæranda verði því að telja ljóst að hún hafi mun meiri reynslu af lögmannsstörfum en sá sem skipaður var.
  26. Þá hafi verið óskað eftir upplýsingum um reynslu af stjórnsýslustörfum í auglýsingu um embættið. Kærandi hafi hafið störf sem löglærður fulltrúi í þinglýsingadeild hjá sýslumanninum í Reykjavík árið 1995. Þar hafi hún starfað fram á mitt ár 1996 er hún hóf störf hjá sýslumanninum á Húsavík. Þar hafi hún starfað sem löglærður fulltrúi og staðgengill sýslumanns á árunum 1996–1998. Hún hafi haft yfirumsjón með lögreglumálum, sifjamálum, nauðungarsölum, þinglýsingum, skipaskrá, innheimtu og firmaskrá auk þess sem hún hafi annast ýmsar leyfisveitingar, fjárnám, dánarbú og önnur tilfallandi störf.
  27. Í október 2002 hafi kærandi hafið störf í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, fyrst sem lögfræðingur á einkamálaskrifstofu þar sem hún hafi haft yfirumsjón með ættleiðingarmálum og nauðungarvistunum, auk þess sem hún hafi starfað við mál er vörðuðu barnalög, lögræðislög, lög um mannanöfn, fasteignasala, lögmenn og skipulagsskrár. Þá hafi hún tekið þátt í norrænu og alþjóðlegu samstarfi á framangreindum sviðum. Frá því í nóvember 2006 hafi kærandi starfað á dómsmála- og löggæsluskrifstofu ráðuneytisins. Þar hafi hún haft umsjón með lögreglumálum svo og málum tengdum landamæragæslu. Hún hafi haft umsjón með fangelsismálum í ráðuneytinu í tæpt eitt ár og hafi setið í nefnd um framtíðarrekstur fangelsisins að Litla-Hrauni. Einnig hafi hún haft yfirumsjón með starfsmannamálum stofnana ráðuneytisins um eins og hálfs árs skeið. Flestir þeirra málaflokka sem kærandi hafi starfað við í ráðuneytinu heyri undir starfssvið sýslumanna og nýtist því reynsla hennar úr ráðuneytinu með beinum hætti í starfi sem sýslumaður. Að auki hafi kærandi samið fjöldann allan af úrskurðum á meðan hún starfaði í ráðuneytinu, en við þá vinnu reyni bæði mjög á stjórnsýslurétt svo og faglega þekkingu og telur kærandi að vinna við gerð úrskurða sé mjög góður undirbúningur fyrir starf sýslumanns. Í ráðuneytinu hafi kærandi einnig komið að gerð frumvarpa og reglugerða, vinnslu verkferla og gerð árangursstjórnunarsamninga. Þá hafi hún unnið að úttektum á stofnunum ráðuneytisins og gerð lögfræðilegra álitsgerða.
  28. Í febrúar 2009 var kærandi settur sýslumaður á Akranesi og gegnir hún því embætti enn. Sýslumaðurinn á Akranesi heldur úti sýsluskrifstofu á Akranesi og fer með lögreglustjórn og rannsóknardeild fyrir alvarlegri mál á Vesturlandi. Kærandi nefnir að hún hafi séð um stjórnun og rekstur embættisins, auk þess sem hún hafi alfarið séð um meðferð sakamála, hafi haft yfirumsjón með nauðungarsölum, hafi séð um allar aðfarargerðir er varði kyrrsetningu, lögbann, innsetningu, útburð o.fl. Auk þess hafi hún haft yfirumsjón með innheimtu og hafi starfað mikið með rannsóknardeild embættisins. Þá hafi hún síðan sumarið 2011 leyst af eina löglærða fulltrúa embættisins, sem verið hafi í veikindaleyfi, og hafi sinnt þinglýsingum, sifjamálum, leyfisveitingum o.fl. Þá hafi hún sinnt öllum bakvöktum embættisins vegna lögreglu allan sólarhringinn allt árið um kring.
  29. Sá sem skipaður var starfaði tvívegis um eins árs skeið hjá lögreglunni í Reykjavík 2001–2002 og svo aftur 2003–2004. Frá árinu 2004 hafi hann starfað við sýslumannsembættið á Húsavík, fyrst sem löglærður fulltrúi, en frá 1. nóvember 2005 sem löglærður fulltrúi og staðgengill sýslumanns og frá 31. ágúst 2009 sem settur sýslumaður á Húsavík. Í umsókn hans komi fram að hjá lögreglunni í Reykjavík hafi hann einkum sinnt fíkniefnamálum. Við sýslumannsembættið á Húsavík kveðist hann hafa starfað að öllum málaflokkum og haft faglega umsjón með þeim flestum til lengri eða skemmri tíma.
  30. Kærandi nefnir að í minnisblaði kærða, dagsettu 13. desember 2011, segi meðal annars um reynslu af stjórnsýslustörfum að kærandi hafi um 13 ára reynslu af stjórnsýslustörfum en sá sem skipaður var um tíu ára reynslu. Þá beri einnig að líta til þess að sá sem skipaður var hafi stundað nám í opinberri stjórnsýslu. Hvergi sé dregin ályktun um hæfni þeirra. Að mati kæranda verði að telja augljóst að kærandi standi þeim sem skipaður var mun framar hvað varðar reynslu af stjórnsýslustörfum. Hún hafi starfað við stjórnsýslu mun lengur en hann og hafi mun fjölbreyttari og víðtækari reynslu af slíkum störfum. Að mati kæranda sé ekki unnt að telja nám í opinberri stjórnsýslu sem reynslu af stjórnsýslustörfum. Þá verði það ekki talið til reynslu af stjórnsýslustörfum að lögmannsstofa sú sem sá sem skipaður var starfaði sem fulltrúi á hafi unnið fyrir fyrirtæki í opinberri eigu. Að mati kæranda sé ljóst af framangreindu að hún hafi mun meiri reynslu af stjórnsýslustörfum en sá er embættið hlaut og standi honum mun framan hvað það varðar.
  31. Óskað hafi verið eftir því að umsækjendur gerðu grein fyrir reynslu af fræðastörfum. Hvorugt þeirra hafi fengist mikið við fræðastörf, en bæði hafi skrifað kandídatsritgerðir við Háskóla Íslands. Auk þess hafi kærandi skrifað mastersritgerð við Stokkhólmsháskóla og sá sem skipaður var hafi skrifað ritgerð í meistaranámi í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Auk þess hafi kærandi skrifað grein í blaðið Húseigandann og sá sem skipaður var hafi sinnt stundakennslu í refsirétti við Háskólann á Akureyri í einn vetur auk þess sem hann hafi sinnt hlutverki prófdómara vegna meistaraprófsritgerðar við sama skóla.
  32. Kærandi bendir á að í minnisblaði kærða, dagsettu 13. desember 2011, komi fram að tæpast verði gert upp á milli umsækjenda hvað varði reynslu af fræðastörfum, þó megi segja að sá sem skipaður var standi lítillega framar. Að mati kærandi verði ekki séð að munur sé á reynslu umsækjenda af fræðastörfum og verði því að telja að þau standi jafnfætis að því leyti.
  33. Þá hafi verið óskað eftir því að umsækjendur gerðu grein fyrir reynslu sinni af stjórnun. Kærandi telur sig hafa mikla og víðtæka reynslu af stjórnunarstörfum. Í störfum sínum hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 2002–2009 hafi kærandi öðlast mikla innsýn í rekstur stofnana við yfirferð fjárlagatillagna og rekstraráætlana. Hjá ráðuneytinu hafi kærandi haft meðal annars alla umsjón með starfsmannamálum stofnana ráðuneytisins í eitt og hálft ár og hafi öðlast þar mikla þekkingu og reynslu. Þá hafi kærandi haft mannaforráð í starfi sínu sem fulltrúi og staðgengill hjá sýslumanninum á Húsavík þegar hún hafi starfað þar um tveggja ára skeið. Í því starfi hafi reynt talsvert á hæfileika kæranda til stjórnunar þar sem skipaður sýslumaður hafi verið talsvert mikið fjarverandi vegna veikinda en starfsmenn embættisins hafi verið þá um 20 talsins. Jafnframt hafi reynt mikið á stjórnunarhæfileika kæranda sem settur sýslumaður á Akranesi, en hjá umræddu embætti starfi um 20 manns. Hafi kærandi annast daglega stjórnun embættisins og öðlast þar með mikla og dýrmæta reynslu. Upphaflega hafi verið 12–13 starfsmenn á lögreglustöðinni, en nú séu tíu lögreglumenn fastráðnir auk lausráðins lögreglumanns. Á sýsluskrifstofunni hafi verið níu starfsmenn í fullu starfi þegar hún hafi hafið þar störf, en þar starfi nú sex manns í fullu starfi. Mikið hafi reynt á stjórnunarhæfileika kæranda í starfinu, en mikill niðurskurður hafi verið hjá embætti sýslumannsins á Akranesi og hafi kærandi þurft að leggja mikla vinnu í niðurskurðartillögur og starfsmannamál í tengslum við það.
  34. Kærandi rekur að sá sem skipaður var hafi annast verkefnastjórnun lögfræðilegra viðfangsefna í ávana- og fíkniefnadeild hjá lögreglunni í Reykjavík á árunum 2001–2004 og á síðari hluta tímabilsins sem aðallögfræðingur deildarinnar. Hann hafi verið staðgengill sýslumanns á Húsavík frá 2005 og síðan settur sýslumaður frá 2009. Hjá umræddu sýslumannsembætti starfi níu starfsmenn að meðtöldum sýslumanni og þar að auki séu stöðugildi lögreglumanna um níu talsins. Hjá embætti lögreglustjórans á Húsavík séu reknar þrjár lögreglustöðvar, á Húsavík, Raufarhöfn og Þórshöfn.
  35. Þá bendir kærandi á að í minnisblaði kærða, dagsettu 13. desember 2011, komi fram varðandi reynslu af stjórnun að ekki þyki ástæða til að gera upp á milli umsækjenda. Kærandi gerir athugasemd við þessa niðurstöðu kærða þar sem ljóst sé að kærandi hafi mun meiri og víðtækari reynslu í stjórnun en sá sem skipaður var. Af minnisblaðinu verði ekki séð að við mat á þessum lið hafi verið litið til reynslu þeirrar sem kærandi öðlaðist hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu á árunum 2002–2009. Þá verði ekki séð að tekið hafi verið tillit til þess að kærandi hafi starfað lengur sem settur sýslumaður en sá sem skipaður var og auk þess hafi hún stjórnunarreynslu af fleiri vinnustöðum. Í ljósi alls framangreinds telji kærandi að hún hafi meiri reynslu af stjórnunarstörfum en sá sem skipaður var.
  36. Einnig hafi verið óskað eftir upplýsingum um reynslu af öðrum aukastörfum sem nýtist í embætti sýslumanns. Kærandi hafi í gegnum tíðina sinnt margvíslegum félags- og nefndarstörfum. Þetta hafi gefið henni dýrmæta reynslu í mannlegum samskiptum, úrlausnum erinda og innsýn í marga ólíka málaflokka. Sem dæmi nefnir kærandi að á árunum 2008–2009 hafi hún setið í stjórn Frontex - Landamærastofnunar Evrópu. Á árunum 2006–2009 hafi hún setið í valnefnd Lögregluskóla ríkisins sem fulltrúi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Á árunum 2007–2008 hafi kærandi setið í nefnd norrænna landa um norræna lögreglusamvinnu sem fulltrúi ráðuneytisins. Einnig hafi kærandi verið tilnefnd af Félagi lögreglustjóra árið 2008 til setu í stýrihópi um innleiðingu félagsstuðnings lögreglumanna. Þá hafi kærandi setið í fjölmörgum nefndum sem fulltrúi ráðuneytisins og vísast um það til ferilskrár kæranda. Þá hafi kærandi tekið þátt í fjölmörgum fundum og ráðstefnum erlendis á meðan hún hafi starfað hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu á árunum 2002–2009. Kærandi hafi jafnframt tekið þátt í tveimur ráðstefnum sem settur sýslumaður.
  37. Sá sem skipaður var hafi verið formaður yfirkjörstjórnar á Húsavík og síðar á Norðurþingi frá 2006. Þá hafi hann verið formaður Félags löglærðra fulltrúa ákæruvaldsins frá stofnun þess árið 2004 til ársins 2007. Hann hafi verið stjórnarmaður og síðan varaformaður Húsavíkurdeildar RKÍ á árunum 2006–2009.
  38. Kærandi nefnir að í minnisblaði kærða, dagsettu 13. desember 2011, komi fram hvað varði reynslu af öðrum aukastörfum að kærandi hafi þótt standa nokkuð framar. Kærandi tekur undir þetta sjónarmið enda ljóst að hennar mati að hún hafi mun meiri reynslu af öðrum aukastörfum en sá sem skipaður.
  39. Varðandi almenna starfshæfni sem óskað var eftir upplýsingum um í auglýsingunni telur kærandi sig hafa verið hæfa og í reynd tvímælalaust hæfari en þann sem embættið hlaut. Þetta helgist af því sem áður hafi komið fram, meðal annars um menntun kæranda, reynslu af saksókn mála og annarri meðferð ákæruvalds, reynslu af lögmannsstörfum, reynslu af öðrum aukastörfum og reynslu af stjórnun. Kærandi hafi í störfum sínum meðal annars sýnt sjálfstæði, óhlutdrægni og frumkvæði. Um sérstaka starfshæfni kæranda megi segja að hún hafi mjög gott vald á sakamálaréttarfari auk þess sem kærandi hafi unnið við einkamálaréttarfar.
  40. Þá hafi kærandi víðtæka reynslu af samningu úrskurða, ákvarðana, ákæra, greinargerða, margvíslegra beiðna fyrir dóm o.fl. sem snerti störf sýslumanna og lögreglustjóra. Í umsókn þess sem skipaður var sé að mestu leyti vísað til umsagnaraðila auk þess sem störf hans í embætti sýslumannsins séu rakin. Hann fjalli í umsókn sinni um það hvernig honum hafi tekist að reka embættið við erfiðar aðstæður og niðurskurð. Kærandi minnir í þessu sambandi á að henni hafi í embætti sínu tekist að gera slíkt hið sama.
  41. Kærandi bendir á að af hálfu kærða hafi í minnisblaði hans, dagsettu 13. desember 2011, komið fram að ekki þyki ástæða til að gera upp á milli umsækjenda hvað almenna starfshæfni varði. Kærandi mótmælir þessu, enda telji hún sig tvímælalaust hæfari. Þá telji kærandi sig að öllu leyti uppfylla sérstök starfshæfnisskilyrði.
  42. Í auglýsingu um embættið hafi verið óskað eftir því að umsækjendur gerðu grein fyrir upplýsingum sem snúi að andlegu atgervi, áræði, mannlegum samskiptum og sjálfstæði. Kærandi tiltekur að hún eigi mjög auðvelt með samskipti bæði við samstarfsmenn sem og þá sem eiga erindi við hana í starfi. Líkt og fjallað sé um í minnisblaði kærða, dagsettu 13. desember 2011, beri samstarfsfólk kæranda á Akranesi henni vel söguna. Gott orð fari af kæranda í öllum þeim störfum sem hún hafi tekið sér fyrir hendur. Þá eigi kærandi auðvelt með að vinna sjálfstætt og sé áræðin. Líkt og fram komi í minnisblaðinu hafi kærandi í störfum sínum hjá embættinu á Akranesi sýnt fagleg vinnubrögð.
  43. Sá sem skipaður var vísi í umsókn sinni sem fyrr segir að miklu leyti til umsagnaraðila um framangreind atriði og taki fram að aðlögunar- og samstarfshæfni samhliða sjálfstæði í störfum hafi verið styrkur hans.
  44. Kærandi rekur að í minnisblaði kærða, dagsettu 13. desember 2011, sé vísað til yfirlýsingar frá starfsfólki embættisins á Húsavík þann 22. nóvember 2011 þar sem lýst sé yfir stuðningi við þann sem skipaður var. Þegar gildi yfirlýsingarinnar sé metið beri að hafa í huga að umrædd yfirlýsing hafi verið gefin af undirmönnum hans. Enda þótt yfirlýsingin geti í sjálfu sér verið upplýsandi um störf hans hjá viðkomandi embætti hafi ráðuneytinu ekki verið rétt að ljá henni svo mikið vægi sem það gerði. Í minnisblaði kærða frá 28. desember 2011 um rökstuðning fyrir skipuninni sé meðal annars vísað til yfirlýsingarinnar og tilgreint að með því að skipa hann í embættið verði litlar breytingar á högum starfsfólks og lítið sem ekkert umrót á embættinu.
  45. Kærandi gerir alvarlegar athugasemdir við framangreint enda hljóti það sjónarmið stjórnvalds, að laust starf hjá ríkisstofnun verði einungis fengið aðila sem þegar vinni hjá stofnuninni til þess að valda sem minnstu umróti, að teljast ómálefnalegt, enda sé þá ekki tekið tillit til þeirrar staðreyndar að aðrir og hæfari einstaklingar séu jafnframt tilbúnir til þess að inna starfið af hendi.
  46. Sé litið til tengsla við byggðarlagið þá hafi kærandi ekki síður tengsl við það en sá sem skipaður var. Þó hann hafi búið á Húsavík frá árinu 2004 verði að líta til þess að kærandi sé fædd og uppalin á Laxamýri í Suður-Þingeyjarsýslu. Þá hafi hún búið á þar á meðan hún vann hjá sýslumanninum á Húsavík á árunum 1996–1998.
  47. Kærði hafi óskað eftir því að umsækjendur legðu fram upplýsingar um þrjá samstarfsmenn sem veitt gætu upplýsingar um störf, samstarfshæfni og aðra hæfni umsækjanda. Kærandi hafi uppfyllt þetta skilyrði auglýsingarinnar, enda hafi hún í umsókn gert grein fyrir fjórum einstaklingum sem veitt gætu upplýsingar um störf, samstarfshæfni og aðra hæfni.
  48. Loks hafi í auglýsingunni verið óskað eftir öðrum upplýsingum sem varpað gætu ljósi á faglega eiginleika og færni umsækjanda sem máli skipta fyrir störf sýslumanns. Kærandi telur sig hafa veitt umræddar upplýsingar í viðtali vegna starfsins, en í minnisblaði kærða, dagsettu 13. desember 2011, komi meðal annars fram að kæranda hafi gengið mjög vel í viðtali um embættið og rætt af mikilli þekkingu um rekstur sýslumannsembættisins. Í minnisblaðinu komi fram að ljóst sé að kærandi geti gengið í öll verkefni og þekki eðli embættisins. Kærandi sé jafnframt meðvituð um þá erfiðleika sem embættið standi frammi fyrir, hafi mikinn áhuga á hag sýslumanna og vilji efla sýslumannsembættin frekar með því að afla þeim frekari verkefna.
  49. Að mati kæranda standi hún þeim er skipaður var framar í sjö af þeim níu þáttum sem ráðuneytið virðist hafa byggt mat sitt á. Þannig hafi kærandi meiri menntun en sá sem skipaður var, hún hafi meiri reynslu en hann af dómstörfum og mun meiri reynslu af lögmannsstörfum. Kærandi hafi enn fremur mun meiri reynslu af stjórnsýslustörfum og stjórnunarstörfum. Þá hafi kærandi miklum mun meiri reynslu af ýmiss konar aukastörfum.
  50. Af framangreindri umfjöllun megi einnig sjá að kærandi og sá sem skipaður var standi jafnfætis þegar komi að reynslu af saksókn og fræðastörfum. Hins vegar sé ljóst að hann standi kæranda ekki framar í neinum af þessum flokkum. Athygli veki að kærði hafi lagt mikla áherslu á reynslu hans af saksókn og byggi rökstuðning sinn að stórum hluta á reynslu hans af þeim málaflokki. Með tilliti til þess sem fram hafi komið verði ekki séð að reynsla af ákæruvaldi ætti að vera ráðandi þáttur hvað varðar skipun í embættið.
  51. Í ljósi alls framangreinds telur kærandi að hvergi hafi verið sýnt fram á að sá sem hlotið hafi embætti sýslumannsins á Húsavík sé hæfari en hún. Þvert á móti telur kærandi að hún sé hæfari en sá sem embættið hlaut. Því hafi verið brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
  52. Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn alþingismanns um ákvarðanir kjararáðs um laun og starfskjör embættismanna frá 21. mars 2012 komi fram að meðal sýslumanna og tollstjóra sé hlutfall kvenna einungis 26% á móti 74% karla. Í ljósi tilgangs jafnréttislaganna um að bæta sérstaklega stöðu kvenna á vinnumarkaði hljóti það að teljast sérstaklega mikilvægt að ákvörðun um skipun í embætti sýslumanna sé reist á málefnalegum og forsvaranlegum grundvelli.
  53. Síðari rökstuðningur kærða vegna skipunarinnar er að mati kæranda ekki til þess fallinn að sýna fram á að sá er embættið hlaut hafi verið hæfari til að gegna stöðunni en kærandi nema síður sé. Verði ekki séð að kærandi hafi fengið sanngjarna og óhlutdræga meðhöndlun af hálfu kærða, heldur virðist sem vísvitandi sé gert lítið úr hæfni hennar, menntun og reynslu, en að sama skapi hafi verið gert meira úr reynslu þess er embættið hlaut á ákveðnum sviðum en efni standi til.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA
  54. Kærði rekur ákvæði 26. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í greinargerð með frumvarpi til laganna segi í athugasemdum við 4. mgr. 26. gr. að um sé að ræða nýmæli, þess efnis að umsækjandi um starf geti krafist rökstuðnings atvinnurekanda fyrir ráðningu annars umsækjanda af gagnstæðu kyni. Rökstuðningur atvinnurekanda skuli meðal annars snúa að sömu þáttum og taldir eru upp í 5. mgr. ákvæðis þessa hvað varðar þann sem ráðinn var í starfið. Þar sé meðal annars vísað til annarra sérstakra hæfileika sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verði að komi að gagni í starfinu. Geti atvinnurekandi því auk menntunar, starfsreynslu og sérþekkingar þess sem ráðinn var til starfans tilgreint sérstaklega þá hæfileika sem sá er hann réð til starfans hafi og hann telji að komi að gagni í umræddu starfi.
  55. Kærði áréttar að allir umsækjendur hafi notið jafnræðis í málsmeðferð fyrir ráðuneytinu og eftir vandlega íhugun á grundvelli heildstæðs mats þar sem tekið hafi verið tillit til margvíslegra þátta sem hafi haft mismunandi vægi hafi niðurstaðan orðið sú að sá sem skipaður var hafi verið best til þess fallinn að gegna embættinu. Kærði hafnar því að umsækjendum hafi verið mismunað á grundvelli kyns, aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðuninni en þær komi meðal annars fram í rökstuðningi kærða, dagsettum 9. janúar 2012.
  56. Kærði hafnar því að kærandi hafi ekki fengið sanngjarna eða óhlutdræga meðhöndlun og að vísvitandi hafi verið gert lítið úr hæfni hennar, menntun og reynslu. Vísist í þeim efnum til dæmis til minnisblaða, dagsettra 4. og 13. desember 2011. Í hinu fyrra kemur meðal annars fram um kæranda að hún hafi komið vel fyrir í viðtali og hafi haft mikla þekkingu á rekstri embættisins. Auk þess hafi hún skýra sýn á hlutverk embættisins og geri sér grein fyrir erfiðleikum í rekstri opinberra stofnana. Þá hafi kærandi verið skýr í svörum, sjálfstæð í starfi, skipulögð og vel liðin. Auk þess komi fram að báðir umsækjendur séu vel til þess fallnir að gegna umræddu embætti en lengd starfsferils segi ekki alla söguna. Miklu skipti hvernig sú reynsla sé nýtt til þróunar í starfi og hvernig menntun nýtist við þau verkefni sem unnið sé að í daglegum störfum.
  57. Í gögnum málsins sé að finna upptalningu á staðreyndum varðandi menntun og starfsreynslu þeirra sem sóttu um embætti sýslumannsins á Húsavík og endurspegli minnisblöðin það sem komi fram í umsóknargögnum eða það sem umsækjendur komu á framfæri í viðtölum. Við mat á umsækjendum í vinnugögnum stjórnvalds verði að ljá stjórnvaldi svigrúm til að geta lagt sjálfstætt mat á umsækjendur en því mati kunni umsækjendur ekki að vera sammála, eðli máls samkvæmt.
  58. Kærði getur þess að hann hafi treyst kæranda fyrir mikilvægum og erfiðum verkefnum enda þekki hann vel til starfa kæranda og telji hana vera afbragðsstarfsmann sem sinni verkefnum sínum vel og af fagmennsku. Þannig hafi kærandi frá því í febrúar 2009 verið sett sýslumaður á Akranesi, fyrst án auglýsingar þar sem kærandi hafi ávallt verið sett á ný í embættið. Fyrir um ári síðan hafi verið ákveðið að auglýsa stöðuna með tilliti til ákvæða laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og hafi kærandi verið meðal tveggja hæfra umsækjanda. Í rökstuðningi, dagsettum 14. október 2011, segi að mat ráðuneytisins hafi verið að báðir umsækjendur hafi verið vel hæfir til að gegna starfi setts sýslumanns á Akranesi. Hins vegar hafi niðurstaðan verið sú að kærandi væri betur til þess fallin að gegna embættinu. Þá hafi einkum verið litið til fjölbreyttrar starfsreynslu með hliðsjón af reynslu af stjórnun, stjórnsýslu og flutningi mála fyrir dómi. Kærandi hafi uppfyllt allar þær hæfniskröfur sem gerðar hafi verið.
  59. Að mati kærða sé ekki hægt að halda því fram að lítið hafi verið gert úr menntun og starfsreynslu kæranda. Kærði hafi treyst kæranda til vandasamra verkefna hjá embætti sýslumannsins á Akranesi í um þrjú ár, auk annarra vandasamra verkefna þar sem kærandi hafi verið sett ad hoc til að taka að sér ýmis erfið mál. Þjóni það í engu hagsmunum kærða að gera lítið úr hæfni kæranda.
  60. Umsækjendur hafi notið jafnræðis við meðferð málsins hjá kærða. Að loknum fyrsta samanburði hafi verið ákveðið að kalla alla umsækjendurna þrjá til viðtals. Að loknum þeim viðtölum hafi kærandi og sá sem skipaður var þótt standa fremst og hafi verið ákveðið að gefa þeim tveimur kost á að koma í viðtal með ráðherra og ráðuneytisstjóra sem þau hafi þegið.
  61. Kærði bendir á að í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 92/1989, um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, segi að engan megi skipa sýslumann nema hann fullnægi almennum skilyrðum til að hljóta skipun í embætti héraðsdómara, öðrum en um lágmarksaldur. Í 2. mgr. 28. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, segi að lögreglustjórar skulu fullnægja sömu almennu hæfisskilyrðum og sýslumenn til skipunar í embætti. Í 2. mgr. 12. gr. dómstólalaga, nr. 15/1998, segi að þann einan megi skipa í embætti héraðsdómara sem fullnægir ákveðnum skilyrðum. Kærði nefnir að við gerð auglýsingar hafi verið tekið mið af verklagi sem sé viðhaft við val á dómurum samkvæmt dómstólalögum og reglum nr. 620/2010, um störf dómnefndar sem fjallar um hæfni umsækjenda um dómaraembætti, þar sem hæfisskilyrðin séu þau sömu. Hvað varði athugasemdir um menntun sé meiri menntun almennt fallin til þess að auka starfshæfni en hins vegar verði einnig að líta á að æðri eða meiri menntun segi ekki alla söguna.
  62. Kærða sé skylt við ákvörðun um skipun í embætti að líta til þess með hvaða hætti menntun nýtist í því starfi sem til umfjöllunar er hverju sinni. Í lögum sé gerð sú krafa að viðkomandi hafi lokið embættisprófi í lögfræði eða háskólaprófi í þeirri grein sem metið verður því jafngilt. Því þurfi viðkomandi að hafa lokið fimm ára námi í lögfræði eða teljast vera hæfur til að gegna embættinu í ljósi lögfræðilegrar þekkingar og þar sé talsvert svigrúm til mats.
  63. Í þessu samhengi bendir kærði á að kærunefnd jafnréttismála hafi komist að þeirri niðurstöðu að játa verði atvinnurekanda nokkurt svigrúm við mat á vægi menntunar og starfsreynslu umsækjenda, svo lengi sem sjónarmið atvinnurekanda séu eðlileg og málefnaleg. Af því leiði að lengd starfsreynslu eða hvort viðkomandi hafi aflað sé æðri prófgráðu þýði ekki endilega að viðkomandi verði sjálfkrafa talinn betur til þess fallinn að gegna starfi. Menntun og starfsreynslu þurfi ávallt að skoða með hliðsjón af því starfi sem sé til umfjöllunar hverju sinni og hvernig viðkomandi og aðrir umsækjendur hæfi því starfi sem auglýst hafi verið.
  64. Kærði vísar til menntunar kæranda og þess sem skipaður var. Af orðalagi og efni auglýsingar sé ljóst að tiltekin atriði kunni að vega þyngra en önnur við mat á því hvaða umsækjandi er talinn best til þess fallinn að gegna embættinu. Kærandi hafi gert athugasemd við að ekki sé tekin afstaða til menntunar. Slíkt sé rangt og vísar kærði til minnisblaða, dagsettra 4. og 13. desember 2011.
  65. Að mati kærða komi þar skýrt fram að sú menntun, sem sá sem skipaður var í embættið hafi aflað sér og hafi verið að afla sér, myndi nýtast með beinum hætti í því starfi að reka embætti sem sinni stjórnsýsluverkefnum að stærstum hluta. Menntun kæranda sé afar góð en þó vandséð hvernig menntun í Evrópurétti muni nýtast með jafn beinum hætti við rekstur embættis sýslumanns á Húsavík, líkt og menntun þess sem skipaður var, þrátt fyrir að námi hans hafi ekki verið lokið. Sá sem skipaður var í embættið hafi notað meðal annars reynslu og þekkingu sem hann hafi aflað sér á embættinu með beinum hætti í náminu og námið til reksturs embættisins.
  66. Hvað varði reynslu og saksókn mála og reynslu af meðferð ákæruvalds hafi sá sem skipaður var samfellda og fjölbreytta reynslu frá árinu 2001. Í þessu samhengi verði kærði að benda á að sá sem skipaður hafi verið í embættið hafi starfað á árunum 2001–2004 hjá stærsta lögregluembætti landsins þar sem honum hafi verið falið hlutverk lögfræðings við ávana- og fíkniefnadeild embættisins. Einnig hafi hann sinnt málum auðgunarbrotadeildar og eftir atvikum sérrefsilagabrotum og ofbeldis- og kynferðisbrotum. Í starfinu hafi hann öðlast góða reynslu við stjórnun lögreglurannsókna og meðferð rannsóknarmála fyrir dómi hjá stóru embætti með fjölbreytt verkefni. Hann hafi annast ákærusmíð og almenna saksókn fyrir dómstólum og sótt um fjölda rannsóknarkrafna fyrir dómi sem að hans sögn skipti tugum ef ekki hundruðum.
  67. Kærandi hafi starfaði fyrir sýslumanninn á Húsavík um tveggja ára skeið og hún hafi verið sett sýslumaður á Akranesi frá ársbyrjun 2009 auk þess sem ríkissaksóknari hefur falið henni meðferð mála. Sá sem hlaut embættið hafi hafið störf árið 2004 fyrir embætti sýslumannsins á Húsavík, verið staðgengill frá árinu 2005 og settur sýslumaður á Húsavík frá því í október árið 2009 auk þess að annast mál sem ríkissaksóknari hafi falið honum.
  68. Að mati kærða gerði lengri starfsferill við saksókn mála og meðferð ákæruvalds, auk þess að sá sem hlaut embættið hafi starfað fyrir stærsta lögregluembætti landsins, útslagið þegar kom að mati á þessum þáttum. Kærða var fullkunnugt um hvers konar reynslu lögfræðingar sem starfa fyrir ráðuneytið hafi aflað sér í þessum málum og er ekki sammála því mati kæranda að gefa því eins mikið vægi og gert hafi verið umfram aðra reynslu þess sem skipaður var.
  69. Varðandi reynslu af dómstörfum hafi kærandi í laganámi unnið hjá dómstólum og skrifað drög að nokkrum dómum. Í þessu samhengi bendir kærði á að hæfnisnefnd til að meta hæfni umsækjenda um dómaraembætti taki ekki til mats reynslu sem umsækjendur hafi aflað sér meðan á laganámi stendur nema hún sé afar sérstaks eðlis eða afar mikil. Þannig sé sú reynsla sem getið er um í 7. tölul. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998 ekki metin fyrr en að loknu fullnaðarprófi í lögfræði. Í þessu máli hafi kærði metið reynslu kæranda af dómstörfum þannig að hún væri það óveruleg að ekki væri rétt að hún kæmi til mats og gæti beinlínis ráðið úrslitum. Ekki hefði verið litið til reynslu neinna umsækjenda af lögfræðistörfum fyrr en að loknu laganámi.
  70. Varðandi reynslu af lögmannsstörfum vísar kærði til minnisblaða og rökstuðnings í bréfi, dagsettu 9. janúar 2012. Ekki sé um að ræða að annar umsækjandinn umfram hinn hafi verulega reynslu á þessu sviði svo að talið verði í fjölda ára. Kærði hafi talið rétt að gefa öðrum atriðum meira vægi við mat sitt.
  71. Hvað varði reynslu af stjórnsýslustörfum vísar kærði til minnisblaðs frá 13. desember 2011 og rökstuðnings í bréfi frá 9. janúar 2012, þar sem fram kemur meðal annars að kærandi hafi lengri reynslu af stjórnsýslustörfum, 13 ár, en sá sem skipaður var hafi um tíu ára reynslu, þar af átta á Húsavík. Einnig hafi verið litið til þess að sá sem skipaður var hafi stundað nám í opinberri stjórnsýslu.
  72. Kærði tekur sérstaklega fram að reynsla þess sem skipaður var hafi verið bundin að stórum hluta við embætti sýslumannsins á Húsavík. Kærandi hafi unnið í ráðuneyti og þar öðlast afar góða stjórnsýslureynslu. Á þessi atriði hafi kærði lagt sérstakt mat, auk annarra atriða sem rakin hafa verið, svo sem með hliðsjón af námi þess sem skipaður var í opinberri stjórnsýslu. Rökstuðningi kæranda um að nám í opinberri stjórnsýslu geti ekki skipt máli þegar lagt er mat á þessi atriði er hafnað. Námið hafi beina tilvísun til stjórnsýslustarfa og hefði kærða beinlínis verið óheimilt að líta ekki til þess. Hins vegar geti námið aldrei eitt og sér ráðið úrslitum; önnur atriði þurfi að koma þar til skoðunar, svo sem starfsreynsla, eins og í þessu tilfelli. Á það sé hins vegar lögð áhersla að kærði hafi metið reynslu kæranda fjölbreyttari og betri í ljósi þeirra starfa sem hún gegndi.
  73. Varðandi reynslu af fræðastörfum hafi hún verið það lítil og þess eðlis hjá bæði kæranda og þeim sem skipaður var að hún hafði engin áhrif við matið. Að mati kærða þótti því ekki tilefni að gera upp á milli umsækjenda.
  74. Um stjórnunarreynslu sé kærða vel kunnugt um hvaða og hvers konar reynslu lögfræðingar á skrifstofum hans afli sér í stjórnun. Þá sé kærða einnig vel kunnugt um hvers konar störfum sýslumenn á Akranesi og Húsavík sinni. Öll embætti sýslumanna hafi gengið í gegnum miklar þrengingar á undanförnum þremur árum.
  75. Á öll þessi atriði hafi kærði lagði mat og niðurstaðan hafi verið sú sem fram komi í minnisblaði hans.
  76. Að öðru leyti vísar kærði til gagna málsins, en vegna umfjöllunar kæranda um þá erfiðleika sem hafi verið í rekstri embættisins á Akranesi og stjórnunarhæfileika kæranda í þeim efnum, sem kærði taki vissulega undir, bendir kærði sérstaklega á minnisblað, dagsett 12. desember 2011, þar sem segir um þann sem skipaður var í embættið að hann hafi haft skýra sýn á hlutverk embættisins og greint frá þeim verkefnum sem hann hafði unnið á Húsavík sem einkenndust af niðurskurði og fækkun starfsmanna. Þá hafi hann innleitt nýjar aðferðir við rekstur embættisins, en vegna stöðu embættisins hafi þurft að leita nýrra leiða. Þá komi meðal annars fram í minnisblaði, dagsettu 28. desember 2011, að sé litið til þarfa embættisins á Húsavík sé ljóst að tryggja þurfi ákveðinn stöðugleika í starfsmannahaldi og samfellu í rekstri þess. Ljóst hafi verið að sá sem skipaður var hafi þótt betur til þess fallinn að gegna embættinu en hann þekki vel til starfseminnar, sé vel liðinn af starfsfólki og hafi sýnt í verki að hann geti tryggt nauðsynlega samfellu og stöðugleika.
  77. Kærði gerir ekki athugasemdir við það sem fram kemur um reynslu kæranda af aukastörfum. Reynsla af öðrum aukastörfum geti hins vegar ekki ein og sér ráðið úrslitum þegar mat sé lagt á starfshæfni viðkomandi umsækjenda nema hún sé annaðhvort veruleg eða sérstaks eðlis. Aukastörf séu fallin til þess að sá sem skipar eða ræður í starf geti gert sér grein fyrir með betri hætti hvaða eiginleika viðkomandi umsækjandi hafi til brunns að bera, svo sem hvort viðkomandi sé fús til að taka þátt í verkefnum sem eru umfram það sem skyldan býður og víkka út sjóndeildarhringinn með því að taka þátt í verkefnum sem ekki snerta starfssvið hans með beinum hætti.
  78. Kærði rekur umfjöllun í dómi Hæstaréttar og úrskurðum kærunefndar um þá aðstöðu að tiltekinn hópur fólks hafi tekið afstöðu með einum umsækjanda umfram annan og þá aðstöðu að einn umsækjenda hafi gegnt viðkomandi starfi áður en það er auglýst. Kærði telur í þessu sambandi að við ákvörðun um skipun í embættið hefði verið ómálefnalegt af sér að líta ekki til reynslu þess sem skipaður var sem hann hafði hlotið af störfum sínum fyrir sýslumanninn á Húsavík.
  79. Í þessu samhengi telur kærði ekki verða litið framhjá þeim aðstæðum og staðreyndum sem uppi séu varðandi fyrirhugaðar breytingar á embættum sýslumanna, sbr. frumvarp til laga um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins, er lagt var fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi og lagt verði fyrir Alþingi á ný er það kemur saman, þar sem lagt sé til að fækka embættum sýslumanna úr 24 í átta. Fækkun sýslumannsembætta hafi um nokkurra ára skeið verið til umræðu og eðli máls samkvæmt valdið óvissu meðal starfsmanna embættanna. Í minnisblaði kærða, dagsettu 13. desember 2011, komi meðal annars fram að kærða hafi borist yfirlýsing frá starfsfólki embættisins á Húsavík, dagsett 22. nóvember sama ár, þar sem meðal annars komi fram að lýst sé yfir stuðningi við þann sem hlaut skipun. Jafnframt að viðkomandi hafi stýrt stofnuninni af fagmennsku, ábyrgð og með framtíðarsýn hennar og velferð starfsfólksins að leiðarljósi.
  80. Í minnisblaði kærða, dagsettu 28. desember 2011, segi svo að þegar litið sé til þarfa embættisins á Húsavík sé ljóst að tryggja þurfi þar ákveðinn stöðugleika í starfsmannahaldi og rekstri þess. Undanfarin ár hafi verið embættinu erfið, það hafi sætt niðurskurði, starfsmönnum verið fækkað og óvissa ríkt um framtíð þess. Að því virtu og með hagsmuni embættisins að leiðarljósi hafi sá sem skipaður var þótt betur til þess fallinn að gegna embættinu í ljósi þess að hann þekkti vel til starfseminnar, væri vel liðinn af starfsfólki og hefði sýnt það í störfum sínum að hann gæti tryggt nauðsynlega samfellu og stöðugleika.
  81. Sá sem skipaður var í embættið hafi þannig þegar öðlast traust og trúnað starfsfólks embættisins sem sé nauðsynlegt svo sátt geti skapast á vinnustaðnum. Að mati kærða hafi þetta skipt töluverðu máli, sérstaklega í ljósi þeirrar stuðningsyfirlýsingar sem barst, þótt hún ein og sér hafi ekki endanlega ráðið úrslitum. Þá hafi hins vegar verið ljóst að mati ráðuneytisins að skipun viðkomandi yrði til þess fallin að skapa nauðsynlega ró í starfsemi embættisins.
  82. Kærði hefur ekki athugasemdir um ummæli kæranda um umsagnaraðila en bendir á að störf beggja umsækjanda séu vel þekkt hjá kærða í ljósi starfsreynslu þeirra. Um ummæli um faglega eiginleika og hæfni umsækjenda gerir kærði heldur ekki athugasemdir. Hann telur þá umfjöllun hins vegar styrkja þá afstöðu kærða að ekki hafi verið ætlunin að gera lítið úr verkum kæranda.
  83. Kærði er ósammála því mati kæranda að hún standi þeim er hlaut embættið framar í sjö af þeim níu þáttum sem hafi verið tilgreindir í auglýsingu. Þá beri að geta þess að umsækjendur hafi verið bornir saman með heildstæðum hætti og hver þáttur geti ekki eðli málsins samkvæmt haft sama vægi.
  84. Kærði tekur undir það sjónarmið kæranda að reynsla af ákæruvaldi ætti ekki að vera ráðandi þáttur hvað varðar skipun í embætti sýslumannsins á Húsavík en bendir einnig á að sá sem embættið hlaut hafi ekki eingöngu verið metinn út frá því atriði einu. Í þessu samhengi bendir kærði á að þegar ákvörðun um skipun í starf sé tekin sé skipunarvaldshafa veitt ákveðið svigrúm til mats. Þetta mat sé ekki frjálst en fyrst verði að sýna fram á að viðkomandi fullnægi þeim starfsskilyrðum sem gerð séu í auglýsingu. Samkvæmt almennum grundvallarreglum stjórnsýsluréttar um mat á hæfni umsækjenda um opinber störf verði að ljá veitingarvaldshafa ákveðið svigrúm við mat á vægi einstakra sjónarmiða við samanburð á milli umsækjenda. Veitingarvaldshafi hafi þó ekki algerlega frjálsar hendur um hver verði skipaður í starfið þegar fleiri en einn umsækjandi teljist hæfur en það sé grundvallarregla í stjórnsýslurétti að veitingarvaldshafa beri að velja þann umsækjanda sem hæfastur verði talinn á grundvelli málefnalegra sjónarmiða.
  85. Í ljósi þessarar skyldu hafi umboðsmaður Alþingis lagt til grundvallar að veitingarvaldshafi verði að sýna fram á að heildstæður samanburður á umsækjendum hafi farið fram þar sem megináhersla hafi verið lögð á atriði sem geti varpað ljósi á væntanlega frammistöðu umsækjenda í starfinu út frá þeim málefnalegu sjónarmiðum sem lögð hafi verið til grundvallar við val á umsækjendum af hálfu stjórnvaldsins.
  86. Almennt sé talið að meginreglan sé sú að viðkomandi stjórnvald ákveði á hvaða sjónarmiðum það byggi slíka ákvörðun ef ekki sé sérstaklega mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Þegar þau sjónarmið sem stjórnvaldið hefur ákveðið að byggja ákvörðun sína á leiði ekki öll til sömu niðurstöðu þurfi að meta þau innbyrðis. Við slíkt mat gildi sú meginregla að stjórnvaldið ákveði á hvaða sjónarmið það leggi áherslu. Það stjórnvald sem fari með veitingarvald beri ábyrgð á því að ákvörðun um stöðuveitingu sé lögmæt og forsvaranleg í ljósi gagna máls og að málið sé nægilega upplýst, sbr. rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.
  87. Kærði vísar til nokkurra álita umboðsmanns Alþingis. Hann tiltekur að í stjórnsýslurétti hafi verið byggt á því að unnt verði að vera að staðreyna að veitingarvaldshafinn hafi dregið forsvaranlegar ályktanir af fyrirliggjandi upplýsingum. Kærði telur að sömu sjónarmið og komi fram í álitum umboðsmanns Alþingis eigi við um meðferð kærunefndar jafnréttismála. Kærunefnd hafi í úrskurðum sínum einnig fjallað um þessi atriði og hafi sjálf litið svo á að almennt verði að játa þeim sem tekur ákvörðun um ráðningu í starf nokkurt svigrúm til mats á því hvaða kostir umsækjenda skipti mestu máli við endanlega ákvörðun um ráðningu í starf enda sé við það mat gætt málefnalegra sjónarmiða.
  88. Kærði upplýsir að hann hafi ekki talið hægt að líta framhjá þeirri staðreynd við töku ákvörðunar um að skipa í embættið að sá sem skipaður var hafi haft mun lengri starfsreynslu hjá embætti sýslumannsins á Húsavík. Sá sem skipaður var hafi þar af leiðandi og eðli málsins samkvæmt haft meiri þekkingu á embættinu og hafði myndað nauðsynleg tengsl við núverandi starfsfólk og haft beina skírskotun til þess starfs sem um ræði. Kærandi hafi vissulega mikla og afar góða reynslu af starfsemi sýslumannsembætta og þekki einnig til viðkomandi embættis en þegar málið hafi verið virt í heild sinni að teknu tilliti til allra atriða hafi niðurstaðan verið sú að sá sem skipaður var hafi verið betur til þess fallinn að gegna embættinu til að ná fram þeim markmiðum sem kærði vildi ná hjá sýslumannsembættinu á Húsavík.
  89. Að mati kærða hafi verið sýnt fram á að önnur atriði en kynferði hafi verið þess valdandi hvernig ákvörðun um skipun í embætti sýslumannsins á Húsavík hafi verið tekin. Þegar heildstætt mat hafi verið lagt á það hvaða umsækjandi væri best til þess fallinn að gegna því starfi sem auglýst var, hafi niðurstaðan verið sú að skipa umræddan karl í embættið.
  90. Varðandi kynjahlutföll meðal sýslumanna og lögreglustjóra megi geta þess að kærandi tilheyri hópi sýslumanna og lögreglustjóra, hún sé í Sýslumannafélagi Íslands og sitji einnig í stjórn Lögreglustjórafélags Íslands. Kærandi sé settur sýslumaður á Akranesi fram til 1. janúar 2013 en á þessari stundu sé ekki hægt að segja með fullri vissu hver framtíð þeirrar stöðu sé.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA
  91. Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða voru sjónarmið hennar í kæru áréttuð og gerðar frekari athugasemdir við málatilbúnað kærða. Meðal þess sem fram kemur í athugasemdum kæranda er að hún telur að kærði hafi hvergi sýnt fram á að sá sem skipaður var hafi verið hæfari en kærandi.
  92. Hvað menntunarþáttinn varðar hafi kærði tekið fram að meiri menntun sé almennt fallin til þess að auka starfshæfni og því sé kærandi sammála, en bendir jafnframt á að hún hafi mun meiri menntun en sá sem skipaður var. Auk þess sé kærandi sammála því að játa verði atvinnurekanda upp að vissu marki nokkurt svigrúm við mat á vægi menntunar og starfsreynslu umsækjenda svo lengi sem sjónarmiðin séu eðlileg og málefnaleg. Kærði hafi sagt að einu kröfurnar sem gerðar hafi verið til menntunar hafi verið að viðkomandi hefði lokið fimm ára námi í lögfræði. Auk þess hafi komið fram af hálfu kærða að viðkomandi þurfi ætíð að teljast hæfur til að gegna embættinu í ljósi lögfræðilegrar þekkingar og þar komi inn talsvert svigrúm til mats. Af því leiði að það hvort viðkomandi hafi aflað sér æðri prófgráðu þýði ekki endilega að viðkomandi verði sjálfkrafa talinn betur til þess fallinn að gegna starfi. Kæranda þykir rökstuðningur kærða um það hvers vegna sá sem skipaður var hafi menntun sem nýtist betur í embættið en menntun kæranda í besta falli ósannfærandi. Kærandi telji það jafnframt ráðgátu hvernig kærði hafi getað komist að þeirri niðurstöðu að meistaranám í lögfræði við viðurkenndan háskóla í Svíþjóð geti talist mega sín svo lítils miðað við hálfklárað nám þess sem skipaður var í embættið. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til álits umboðsmanns Alþingis en ekki þykir ástæða til að reifa það hér.
  93. Hvað varði vísun kærða til dóma Hæstaréttar og úrskurða kærunefndarinnar þá sjái kærandi ekki að þeir hafi fordæmisgildi í þessu máli.
  94. Þá hafi kærði gert mikið úr þeirri staðreynd að sá sem skipaður var hafi þekkt vel til embættisins og myndað nauðsynleg tengsl við starfsfólkið. Því hafi verið nauðsynlegt að skipa hann í embættið til að stuðla að stöðugleika í ljósi umróts og breytinga sem framundan hafi verið. Í þessu sambandi vekur kærandi athygli á tilgangi þeim sem búi að baki þeirri reglu að stjórnvöldum beri að auglýsa laus störf hjá ríkinu. Tilgangurinn sé sá að öllum skuli veittur kostur á að sækja um störf og þannig sé ætlunin að tryggja það að hæfustu menn veljist í störf í þjónustu ríkisins. Sé stjórnvöldum gert mögulegt að auglýsa störf þar sem gerðar séu tilteknar kröfur í auglýsingunni, en láti síðan endanlegt mat sitt ráðast af efnisþáttum sem hvergi komi fram í auglýsingu um starfið, sé tilgangur slíkra auglýsinga bersýnilega lítill. Þá fari það einnig á svig við tilgang reglnanna að stjórnvald geti sett aðila í embætti án auglýsinga og svo þegar komi að því að skipa í embættið, skipað viðkomandi á þeim grunni að hann hafi meiri reynslu en aðrir umsækjendur af viðkomandi starfi. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til álits umboðsmanns Alþingis.
  95. Hvað varði rök kærða um yfirlýsingu starfsfólks embættisins er kærandi ósammála og telur ljóst að úrlausn réttarins og þau sjónarmið sem úrlausnin hafi byggst á eigi fullkomlega við um ágreining aðila í þessu máli.
  96. Kærandi mótmælir því að það geti talist til málefnalegra sjónarmiða að það hefði væntanlega þurft að grípa til uppsagna ef utanaðkomandi yrði skipaður í embættið. Raunin sé sú að eftir að karlmaðurinn var skipaður hafi tveir nýir starfsmenn verið ráðnir til embættisins.
  97. Þá getur kærandi þess að þótt hún sé sett sýslumaður á Akranesi sé hún í mun lakari stöðu en ef hún hefði verið skipuð í embættið á Húsavík, enda sé setning hennar aðeins til 1. janúar 2013 og framtíð hennar óljós.
  98. Þá gerir kærandi athugasemd við upplýsingar sem fram komu í bréfi kærða, dagsettu 12. júlí 2012. Kærandi bendir á að samkvæmt lögum séu sýslumannsembætti á landinu 24. Fjórar konur séu skipaðar og kærandi sé að auki sett sýslumaður. Á landinu séu 15 lögregluembætti. Þar við bætist ríkislögreglustjóri og skólastjóri Lögregluskólans sem hafi stöðu lögreglustjóra. Því séu lögreglustjórar alls 17, þar af tvær konur skipaðar auk þess sem kærandi sé sett lögreglustjóri á Akranesi. Ljóst sé því að konur séu í miklum minnihluta í þessum stöðum á landinu.
  99. Loks gerir kærandi þá kröfu að kærði greiði henni kostnað við að hafa kæruna uppi fyrir kærunefndinni, sbr. 5. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008.

    ATHUGASEMDIR KÆRÐA
  100. Kærði kom einnig á framfæri athugasemdum sínum þar sem brugðist var við athugasemdum kæranda og ítrekar fyrri sjónarmið sín.
  101. Meðal þess sem kærði gerir athugasemdir við er að hann hafnar því að dómur Hæstaréttar geti ekki haft fordæmisgildi í þessu máli þar sem niðurstaða réttarins hafi verið skilin svo að lengra nám leiði ekki sjálfkrafa til þess að viðkomandi einstaklingur teljist hæfastur til að gegn starfi. Slíkt verði að skoða með hliðsjón af því starfi sem um ræði, sem og menntun viðkomandi.
  102. Þá telur kærði ekki unnt að vísa til rökstuðnings er kærandi var sett í embætti sýslumannsins á Akranesi þar eð sá sem skipaður var í embættið á Húsavík hafi ekki verið einn umsækjenda um embættið á Akranesi.
  103. Kærði áréttar að ekki sé að finna neinar skýringar á því í lögskýringargögnum eða öðrum gögnum hvaða persónulegu eiginleikar það séu sem skipt geti máli við ákvörðun um ráðningu eða skipun í starf í skilningi 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008.
  104. Kærði hafnar því að hafa látið endanlegt mat sitt ráðast af efnisþáttum sem hvergi komi fram í auglýsingu um embættið.
  105. Jafnframt hafnar kærði að samkvæmt minnisblaði, dagsettu 4. desember 2011, megi draga þá ályktun að kærandi hafi verið hæfari en sá sem skipaður var. Tilvísun kæranda til þess hafi eingöngu varðað frammistöðu kæranda í starfsviðtali en ekki verið samanburður á kæranda og þeim sem skipaður var í embættið.
  106. Hvað varði ráðningu nýrra starfsmanna til embættisins hafi það verið vegna þess að starfsmenn hafi hætt, meðal annars vegna aldurs, eða minnkað við sig vinnu og svigrúm skapast til að breyta skipulagi embættisins. Frá árinu 2009 hafi hins vegar fækkað um eitt og hálft stöðugildi hjá embætti sýslumannsins á Húsavík.
  107. Þá bendir kærði á að tvö embætti lögreglunnar fari ekki með verkefni sýslumanna, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum.
  108. Loks hafi kærði sýnt fram á það að tilteknir persónulegir eiginleikar þess sem skipaður var hafi meðal annars orðið þess valdandi að hann varð fyrir valinu með hliðsjón af þörfum embættisins. Valið hafi ekki byggt á kynferði umsækjenda og því hafi ekki verið brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 við skipun í embættið. Kærði hafi fært rök fyrir því að hér eigi við sérstök sjónarmið sem falli undir ákvæði 5. mgr. 26. gr. laganna. 

    NIÐURSTAÐA
  109. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
  110. Kröfur til umsækjenda um embætti sýslumanna eru að nokkru bundnar í lög, sjá 2. mgr. 5. gr. laga nr. 92/1989, um framkvæmdavald ríkisins í héraði, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga um dómstóla, sjá einnig 2. mgr. 28. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996. Í auglýsingu um embætti sýslumannsins á Húsavík voru þannig tilgreind lögákveðin skilyrði auk annarra atriða sem sérstaklega var óskað upplýsinga um. Nánar var áskilið að í umsókn kæmu fram eftir því sem við ætti upplýsingar um menntun, reynslu af saksókn mála og/eða annarri meðferð ákæruvalds, reynslu af dómstörfum, reynslu af lögmannsstörfum, reynslu af stjórnsýslustörfum, reynslu af fræðastörfum, reynslu af stjórnun, reynslu af öðrum aukastörfum sem nýtist í embætti sýslumanns, upplýsingar um almenna og sérstaka starfshæfni, upplýsingar sem lúta að andlegu atgervi, áræði, mannlegum samskiptum og sjálfstæði, upplýsingar um þrjá samstarfsmenn sem gætu veitt upplýsingar um störf, samstarfshæfni og aðra hæfni umsækjenda sem og aðrar upplýsingar sem varpað gætu ljósi á faglega eiginleika og færni umsækjenda sem máli skipta fyrir störf sýslumanns.
  111. Í minnisblaði kærða, sem dagsett er 13. desember 2011 en mun hafa verið frágengið síðar, er gerð grein fyrir samanburði á kæranda og þeim er embættið hlaut eftir að báðir þessir umsækjendur höfðu komið til viðtals við ráðherra og ráðuneytisstjóra dagana 16. og 20. desember.
  112. Umsækjendurnir höfðu bæði lokið cand. jur. prófi í lögfræði frá Háskóla Íslands. Kærandi lauk meistaranámi í Evrópurétti við Stokkhólmsháskóla í júní 1999 og sá er embættið hlaut lauk diplómanámi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands vorið 2009. Um menntun umsækjenda segir í minnisblaðinu að kærandi hafi lokið prófi í Evrópurétti við háskólann í Lundi (sic) og sá er embættið hlaut hafi aflað sér framhaldsmenntunar í opinberri stjórnsýslu og hyggist ljúka meistaranámi í greininni. Þess er getið að hann hafi notað námið með beinum hætti í sínum störfum. Fyrir kærunefndinni hefur ráðuneytið upplýst að um meistaranám þess er embættið hlaut hafi legið fyrir staðfesting deildarstjóra stjórnmálafræðideildar Háskóla Íslands um nám í opinberri stjórnsýslu við deildina auk eintaks af ritgerð eða draga að ritgerð sem ber með sér að umsækjandinn hafi unnið á haustmisseri 2011 undir stjórn tiltekins kennara við Háskólann á Akureyri. Ekki lá fyrir hvort ritgerðin hafði verið lögð inn sem lokaritgerð í umræddu meistaranámi eða hvort slíkt hafi verið fyrirhugað. Greint var frá því að námslok væru fyrirhuguð á árinu 2012. Með hliðsjón af ofangreindum upplýsingum er að mati kærunefndar jafnréttismála ljóst að kærandi hafði meiri menntun en sá er embættið hlaut á þeim tíma sem ákvörðun um skipun var tekin.
  113. Varðandi reynslu af saksókn mála og meðferð ákæruvalds höfðu umsækjendur bæði slíka reynslu. Kærandi hafði starfað sem staðgengill sýslumannsins á Húsavík um tveggja ára skeið og hafði verið sett sýslumaður á Akranesi í tæp þrjú ár auk þess sem hún hafði haft umsjón með lögreglumálum hluta þess tíma sem hún starfaði í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Sá er embættið hlaut hafði starfað við ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans í Reykjavík í um tvö ár og við embætti sýslumannsins á Húsavík í nærfellt átta ár, þar af sem settur sýslumaður í þrjú ár. Báðir umsækjendur höfðu farið með saksókn mála er ríkissaksóknari fól þeim. Þegar litið er til fjölda mála er umsækjendurnir fóru með saksókn í sést að sá er embættið hlaut hafði farið með saksókn fleiri mála en kærandi, en ekki liggur fyrir greining á inntaki þess málflutnings. Sé höfð hliðsjón af fjölda fluttra mála hafði sá er skipaður var lengri reynslu af saksókn en kærandi.
  114. Kærunefnd telur að þegar reynsla umsækjenda af dómstörfum er metin sé rétt að leggja til grundvallar reynslu sem þau öfluðu sér eftir að þau luku laganámi. Hvorugt umsækjanda höfðu starfað við dómstörf að loknu námi og er því reynslu ekki til að dreifa á þessum vettvangi.
  115. Umsækjendur höfðu bæði starfað á lögmannsstofum, kærandi í þrjú ár en sá er skipaður var í tvö ár. Ekki lágu fyrir nákvæmar upplýsingar um inntak þeirra starfa við skipan í embættið. Stóðu umsækjendur nokkuð jafnt að vígi varðandi reynslu af lögmannsstörfum ef mið er tekið af fyrirliggjandi gögnum, kærandi þó heldur framar þar sem hún hafði lengri reynslu.
  116. Stjórnsýslureynslu kæranda hafði hún aflað sér, auk þess sem að framan greinir um störf við embætti sýslumanns, með starfi í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu um rúmlega sex ára skeið. Á þessum tíma starfaði kærandi fyrst á einkamálaskrifstofu en frá 2006 á dómsmála- og löggæsluskrifstofu. Verkefni hennar voru meðal annars við smíði reglugerða, gerð úttekta á embættum, gerð lögfræðilegra greinargerða og samningu úrskurða, umsjón með lögreglumálum og málum tengdri landamæragæslu, umsjón með fangelsismálum og umsjón með starfsmannamálum stofnana ráðuneytisins. Á þessum tíma var umsækjandi fulltrúi ráðuneytisins í fjölmörgum nefndum, meðal annars í nefnd norrænna landa um norræna lögreglusamvinnu. Sá er skipaður var hafði reynslu af stjórnsýslu af störfum við embætti sýslumanns og lögreglustjóra sem fyrr er getið. Kærði hefur upplýst að við mat á stjórnsýslureynslu hans hafi verið litið til þess að yfirstandandi nám hans í opinberri stjórnsýslu hafi haft beina tilvísun til stjórnsýslustarfa. Að framan eru raktar þær upplýsingar um nám þetta, sem lágu fyrir við skipun í embættið, en þær gefa að mati nefndarinnar ekki tilefni til þess að leggja námið að jöfnu við starfsreynslu á sviði stjórnsýslu. Kærandi bjó tvímælalaust yfir meiri og fjölþættari reynslu af stjórnsýslustörfum en sá er skipaður var.
  117. Hvorugt umsækjenda hafði marktæka reynslu af fræðastörfum umfram námsritgerðir. Kærandi hafði ritað stutta grein í Húseigandann og sá er skipaður var hafði sinnt starfi prófdómara vegna meistaraprófsritgerða og flutt fyrirlestra á námskeiðum við Háskólann á Akureyri. Er að mati kærunefndar ekki tilefni til að gera mun á þeim í þessum efnum.
  118. Hvað stjórnunarreynslu varðar höfðu báðir umsækjendur slíka reynslu. Kærandi hafði haft mannaforráð í starfi sínu sem fulltrúi og staðgengill sýslumanns og sá er skipaður var hafði haft mannaforráð í sams konar starfi, auk þess sem hann sinnti verkefnastjórnun lögfræðilegra viðfangsefna ávana- og fíkniefnadeildar hjá lögreglunni í Reykjavík. Kærandi öðlaðist einnig innsýn í rekstur stofnana við yfirferð rekstraráætlana og fjárlagatillagna í starfi hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Stjórnunarreynsla beggja er því næsta áþekk.
  119. Aukastörf voru meðal þeirra þátta er kærði horfði til við mat á umsækjendum. Að framan eru rakin þau aukastörf sem kærandi og sá sem skipaður var höfðu gegnt. Er það mat kærunefndar að kærandi standi þar nokkru framar þeim sem skipaður var.
  120. Eins og fram er komið var starfsreynsla umsækjendanna tveggja að mörgu leyti áþekk. Sá er skipaður var í embættið hafði lengri reynslu af saksókn en kærandi en kærandi hafði hins vegar fjölbreyttari og talsvert lengri reynslu af stjórnsýslustörfum en sá er skipaður var. Þegar þessir þættir ásamt öðrum þeim þáttum er greindir eru að framan eru metnir heildstætt telur kærunefndin að kærandi hafi verið að minnsta kosti jafn hæf til að gegna embættinu og sá er skipaður var.
  121. Samkvæmt upplýsingum kærða eru á landinu 11 sýslumenn sem ekki eru jafnframt lögreglustjórar, þeim embættum gegna sjö karlar og fjórar konur. Lögreglustjórar eru tveir og er annar þeirra karl en hinn kona. Auk þessa eru á landinu 13 sýslumenn sem einnig eru lögreglustjórar en þeim embættum gegna 11 karlar og tvær konur. Samkvæmt þessu eru embætti sýslumanna að miklum minnihluta skipuð konum. Bar því kærða, með vísan til 18. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, að leitast við að jafna stöðu kynjanna hvað embætti þessi varðar.
  122. Kærði hefur í bréfi til kæranda frá 9. janúar 2012 og fyrir kærunefndinni rökstutt skipun í embætti sýslumannsins á Húsavík með því að tryggja hafi þurft stöðugleika í starfsmannahaldi og samfellu í rekstri embættisins. Bent var á að embættið hefði gengið í gegnum niðurskurð, starfsmönnum verið fækkað og óvissa ríkt um framtíð embættisins eins og með flest áþekk embætti. Hefði sá er skipaður var þótt betur til þess fallinn að gegna embættinu en hann hafi þekkt vel til starfseminnar, verið vel liðinn af starfsfólki og sýnt í verki að hann gæti tryggt nauðsynlega samfellu og stöðugleika. Var í þessu sambandi vísað til meðmælabréfs sem starfsmenn embættisins hafi ritað undir. Kærði hefur jafnframt upplýst að hann hafi vissulega talið kæranda búa yfir mikilli og afar góðri reynslu af starfsemi sýslumannsembætta og vísað til þess að kærandi hafði verið sett sýslumaður í ámóta langan tíma og sá er skipaður var.
  123. Kærði hefur vísað til allmargra fordæma til stuðnings því sjónarmiði að játa verði veitingarvaldshafa svigrúm til mats á vægi einstakra sjónarmiða við skipun í embættið. Kærði hefur leitast við að færa fram persónulega eiginleika sem sá er skipaður var bjó yfir með tilliti til þess að rekstur embættisins hafi krafist sérstakra hæfileika vegna niðurskurðar og fækkunar starfsmanna. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að skerðingar á fjárheimildum og niðurskurður í starfsmannahaldi hjá embætti sýslumannsins á Húsavík hafi skapað því sérstöðu umfram þær aðstæður sem uppi voru við önnur embætti, svo sem sýslumannsins á Akranesi sem kærandi hefur veitt forstöðu. Því er hvorki haldið fram né gögnum stutt að kærandi hafi ekki leyst með fullnægjandi hætti úr rekstrarvanda þess embættis þannig að hún hafi staðið þeim sem starfið hlaut að baki við úrlausn slíkra viðfangsefna. Kærði tilgreinir sjálfur, þrátt fyrir umrædd ummæli sín, að það að óvissa sé um framtíð embættisins eigi við um önnur embætti einnig. Við þær aðstæður sem raktar hafa verið að umsækjendur stóðu nokkuð jafnt að vígi varðandi hlutlæga þætti hæfnismatsins var nauðsynlegt að kærði gætti sérstakrar varkárni við huglægt mat á hæfni sem í auglýsingu var lýst sem almennri og sérstakri starfshæfni, andlegu atgervi, áræði, hæfni í mannlegum samskiptum og sjálfstæði. Er hér horft til þeirra skyldna sem 18. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, leggur á herðar kærða sem atvinnurekanda og setur svigrúmi kærða til huglægs mats lögbundnar skorður.
  124. Í rökstuðningi sínum vísar kærði til meðmælabréfs starfsmanna embættisins á Húsavík sem störfuðu með þeim er embættið hlaut. Bréfið var sent ráðuneytinu en kærði leitaði í engu álits umsagnaraðila kæranda. Kærði hefur ekki svo séð verði lagt málefnalegt mat á hæfni kæranda að þessu leyti og vegið hana á móti hæfni þess er skipaður var. Gjalda verður einnig varhug við að leggja til grundvallar ákvörðun um skipan í embætti meðmælabréf samstarfsmanna og undirmanna andspænis þeim skyldum sem á kærða hvíldu, til dæmis skv. 2. málsl. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008. Kærði hefur heldur ekki tiltekið nein atriði sem komið hafi fram í viðtölum við umsækjendur eða að öðru leyti fært fram einhver þau sjónarmið sem geri það að verkum að kærandi hafi ekki verið jafn hæf og sá er skipaður var til að fást við þá þætti í rekstri embættisins og aðstæður sem uppi kunna að vera sem nefndar voru. Hefur kærði því að mati kærunefndar ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun um skipun í embættið, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008.
  125. Með vísan til framangreinds þykir kærði hafa brotið gegn 1. mgr. 26. gr., sbr. 18. gr., laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við skipun í embætti sýslumannsins á Húsavík.
  126. Með vísan til atvika máls þessa og niðurstöðu nefndarinnar skal kærði greiða kæranda 300.000 krónur í málskostnað.
  127. Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist nokkuð vegna tafa við gagnaöflun og vegna sumarleyfa.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Innanríkisráðherra braut gegn ákvæðum laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við skipun í embætti sýslumannsins á Húsavík í desember 2011.

Innanríkisráðherra greiði kæranda, A, 300.000 krónur í málskostnað.

 

Erla S. Árnadóttir

Björn L. Bergsson

 Þórey S. Þórðardóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta