Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 26/2011

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 16. febrúar 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 26/2011.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur þann 11. ágúst 2009. Hún sótti að nýju um atvinnuleysisbætur þann 3. janúar 2011 og kom þá inn á sama bótatímabil skv. 3. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi er ósátt við að njóta ekki tekjutengdra atvinnuleysibóta. Hún vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með ódagsettu erindi, en mótteknu 7. febrúar 2011. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið staðið að útreikningi atvinnuleysisbóta í máli kæranda.

Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá 11. ágúst 2009. Hún fór til útlanda 5. október 2009 með E-303 vottorð og kom aftur til landsins þann 17. nóvember 2009. Hún var afskráð af atvinnuleysisskrá þann 27. nóvember 2009 er hún hóf störf að nýju. Þann tíma sem kærandi þáði atvinnuleysisbætur uppfyllti hún ekki skilyrði 2. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar til að fá greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur, þar sem 70% af meðaltali heildarlauna hennar á viðmiðunartímabilinu var undir grunnatvinnuleysisbótum. Þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur á ný þann 3. janúar 2011 kom hún inn á sama bótatímabil skv. 3. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi kveðst hafa fengið atvinnuleysisbætur haustið 2009 rétt eftir að hún hafi útskrifast úr skóla. Hún hafi aðeins fengið lágmarksbætur, þar sem hún hafi ekki áður verið með laun heldur styrk sem hafi verið lægri en lágmarkslaun. Henni hafi nú verið sagt upp störfum eftir 13 mánaða starf og hafi henni verið tjáð að hún ætti rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum. Þegar fyrsta greiðsla hafi komið frá Vinnumálastofnun hafi komið í ljós að ekki hafi verið reiknað með þeim tekjum sem hún hafi haft á síðasta ári.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 7. júní 2011, kemur fram að skv. 1. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar öðlist atvinnuleitandi sem skráður er atvinnulaus rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur skv. 33. gr. hafi verið greiddar í samtals tíu virka daga nema annað leiði af lögunum. Af því leiði að réttur bótaþega til tekjutengdra atvinnuleysisbóta sé aðeins til staðar í upphafi bótatímabils. Kærandi hafi fyrst komið inn á bótaskrá í ágúst 2009 og fengið greiddar atvinnuleysisbætur í rúma þrjá mánuði. Af þeim sökum sé réttur hennar til tekjutengdra atvinnuleysisbóta fullnýttur á bótatímabilinu skv. 1. mgr. 32. gr. laganna. Í athugasemdum með 32. gr. í frumvarpi því er orðið hafi að lögum um atvinnuleysistryggingar segi að eingöngu sé gert ráð fyrir að umsækjandi öðlist rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í upphafi hvers tímabils skv. 29. gr. frumvarpsins. Þannig sé gert ráð fyrir því að hinn tryggði sem fari aftur inn í kerfið eftir skemmri tíma en 24 mánuði á vinnumarkaði eigi ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum heldur grunnatvinnuleysisbótum í samræmi við hlutfallslegar rétt hans til atvinnuleysistrygginga.

Kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur á ný 3. janúar 2011 og hafi hún ekki átt rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum skv. 8. mgr. 32. laganna, sem kveði á um að þegar tímabil skv. 29. gr. haldi áfram að líða þegar hinn tryggði sæki að nýju um atvinnuleysisbætur eigi hann ekki rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæði þessu enda hafi hann áður fullnýtt rétt sinn skv. 1. mgr. Samkvæmt 3. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistrygginga haldi tímabil skv. 1. mgr. 29. gr. áfram að líða þegar sá tryggði sæki aftur um atvinnuleysisbætur eftir að hafa starfað skemur en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Skilyrði 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar fyrir því að nýtt tímabil skv. 29. gr. hefjist áður en fyrra tímabili ljúki að fullu sé að hinn tryggði sæki að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Þannig sé gert ráð fyrir að umsækjandi um atvinnuleysisbætur sem fer aftur inn í kerfið eftir skemmri tíma en 24 mánuði á vinnumarkaði eigi ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum heldur grunnatvinnuleysisbótum.

Kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur til 27. nóvember 2009. Hún hafi sótt að nýju um atvinnuleysisbætur þann 3. janúar 2011 sem sé skemmri tími en 24 mánuðir frá því að hún fékk síðast greiddar bætur frá Vinnumálastofnun. Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi starfað á innlendum vinnumarkaði í 13 mánuði frá því að hún fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Skilyrði 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar fyrir því að nýtt tekjutengt tímabil skv. 29. gr. hefjist áður en fyrra tímabili ljúki að fullu, sé því ekki uppfyllt.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 10. júní 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 24. júní 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að ágreiningi um tekjutengdar atvinnuleysisbætur. Í 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að sé sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum. Í 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um tekjutengdar atvinnuleysisbætur. Í 8. mgr. lagagreinarinnar kemur fram að þegar tímabil skv. 29. gr. haldi áfram að líða þegar hinn tryggði sæki að nýju um atvinnuleysisbætur eigi hann ekki rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæði þessu enda hafi hann áður fullnýtt rétt sinn skv. 1. mgr.

Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur til frá 11. ágúst  til 27. nóvember 2009. Hún sótti að nýju um atvinnuleysisbætur þann 3. janúar 2011 eða rúmum 13 mánuðum síðar. Þá hafði kærandi starfað á innlendum vinnumarkaði í 13 mánuði frá því hún fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Í athugasemdum við 32. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segir að eingöngu sé gert ráð fyrir að umsækjandi öðlist rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í upphafi hvers tímabils skv. 29. gr. frumvarpsins. Þannig sé gert ráð fyrir að hinn tryggði sem fer aftur inn í kerfið eftir skemmri tíma en 24 mánuði á vinnumarkaði eigi ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum heldur grunnatvinnuleysisbótum í samræmi við hlutfallslegan rétt hans til atvinnuleysistrygginga.

Með vísan til þess sem hér hefur komið fram, og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar þess efnis að réttur A til tekjutengdra atvinnuleysisbóta sé fullnýttur er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta