Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 199/2011

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                             

Miðvikudaginn 22. ágúst 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 199/2011:

A og B

gegn

Íbúðalánasjóði

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A og B, hér eftir nefnd kærendur, hafa með kæru, dags. 20. desember 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, hér eftir nefndur kærði, frá 20. september 2011 vegna synjunar á umsókn um endurútreikning lána hjá sjóðnum.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærendur kærðu ákvörðun um synjun á endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni að C, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.

Samkvæmt endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dags. 20. september 2011, var skráð fasteignamat á íbúð kærenda að C 23.700.000 kr. og 110% af skráðu fasteignamati var 26.070.000 kr. Staða áhvílandi íbúðalána kærenda á lánum Íbúðalánasjóðs þann 1. janúar 2011 var 22.271.260 kr.

 

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 22. desember 2011, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dags. 10. janúar 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 12. janúar 2012, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kærendum til kynningar. Kærendur sendu frekari athugasemdir með bréfi, dags. 26. janúar 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 30. apríl 2012, var kærendum tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst.

 

III. Sjónarmið kærenda

Kærendur kæra synjun Íbúðalánasjóðs um leiðréttingu lána í 110% leiðinni. Í rökstuðningi með kæru til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 20. desember 2011, segja kærendur að helsta röksemd þeirra sé sú að í útreikningum vegna leiðréttingar lána sé ekki tekið með í reikninginn lífeyrissjóðslán sem tengist kaupum á íbúð þeirra með beinum  hætti.

Sé lánið á nafni móður A sökum breytingar á lögum vegna veðleyfis, en lánið hafi verið greitt til þeirra. Afborganir af því séu allar greiddar af þeim auk þess sem lánið sé talið fram í skattframtali þeirra. Ef lánið væri tekið með í útreikninginn hjá Íbúðalánasjóði þá væri leiðrétting á húsnæðislánum þeirra líkt og gert hafi verið hjá bönkum. Þau vilji sitja við sama borð og njóta jafnræðis á við þá sem tekið hafi húsnæðislán hjá bönkum.

Kærendur benda á að fram komi í 65. gr. stjórnarskrár Íslands að allir skuli jafnir fyrir lögum og hafi Hæstiréttur staðfest það og talið að víðtæk, almenn jafnræðisregla felist í ákvæðinu sem tryggi ekki aðeins formlegt jafnrétti heldur einnig efnislegt og geri kröfu til ríkisins að virða og vernda jafnrétti og stuðla að því að jafnrétti náist.

Íbúðalánasjóður sé sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins en ríkið eigi einnig meirihluta í Landsbankanum. Báðar þessar stofnanir veiti húsnæðislán og séu aðilar að samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um aðlögun fasteignalána í þágu yfirveðsettra heimila. Þessar lánastofnanir séu því í eigu sama aðilans sem sé ríkið og beri ríkinu að virða jafnræðisregluna og stuðla að jafnrétti meðal þegna sinna. Hins vegar vinni þessir aðilar hvor á sinn háttinn að útfærslu á 110% leiðinni. Það sé ljóst að viðskiptavinir Landsbankans og annarra viðskiptabanka njóti betri úrræða, kjara og meiri leiðréttingar í útfærslu bankanna á aðlögun fasteignalána. Með meðhöndlun sinni á máli kærenda brjóti Íbúðalánasjóður því jafnræðisregluna og beri lánþegar þeirra skarðan hlut frá borði í samanburði við aðra lánþega húsnæðislána.

 

IV. Sjónarmið kærða

Íbúðalánasjóður áréttar að úrræði laga nr. 29/2011 felist í grunninn í því að færa niður veðkröfur þegar uppreiknuð staða þeirra 1. janúar 2011 hafi verið umfram 110% af verðmæti fasteignar. Aðrar kröfur en veðkröfur komi því ekki til álita til niðurfærslu. Úrræðið taki einvörðungu til veðkrafna og sé því ekki í sjálfu sér tengt greiðsluvanda eða greiðslubyrði vegna annarra lána.

 

V. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Í máli þessu hafa kærendur byggt á því að gæta beri jafnræðis við afgreiðslu umsóknar þeirra meðal annars með vísan til þess að viðskiptavinir Landsbanka Íslands, sem er að hluta til í ríkiseigu, njóti betri úrræða, kjara og meiri leiðréttingar við aðlögun fasteignalána. Úrskurðarnefndin hefur áður tekið afstöðu til þessa álitaefnis, en nefndin hefur verið upplýst um að framkvæmd niðurfærslunnar kunni að vera háttað með mismunandi hætti hjá fjármálastofnunum, og jafnvel fjármálastofnunum sem eru að hluta til í eigu íslenska ríkisins.

Með lögum nr. 29/2011 voru settar reglur um framkvæmd niðurfærslu veðkrafna Íbúðalánasjóðs. Í framangreindum lögum er ekki að finna neinar undanþágur sem gætu átt við vegna framkvæmdar annarra fjármálastofnana á samsvarandi úrræði. Ekki verður því fallist á það með kærendum að þeir eigi á grundvelli slíkrar jafnræðisreglu að hafa hliðsjón af framkvæmd endurútreiknings lána hjá öðrum fjármálastofnunum, þar sem líta verður til þess að skilyrði niðurfærslu og framkvæmd hennar hafa verið lögfest, með lögum nr. 29/2011, en líta verður svo á að Íbúðalánasjóður sé bundinn af lögum við afgreiðslu umsókna um niðurfærslu veðkrafna eftir 110% leiðinni.

Heimild Íbúðalánasjóðs til þess að færa niður kröfur eftir 110% leiðinni er skv. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 einungis bundin við veðkröfur sjóðsins. Undir ákvæðið falla því ekki aðrar skuldir, eftir atvikum lánsveð, sem kunna að hafa verið stofnaðar í tengslum við íbúðarlánakaup, líkt og á við í tilviki kærenda.

Kærða ber að gæta jafnræðis og samræmis í úrlausn þeirra umsókna sem honum berast. Þá ber Íbúðalánasjóði að fylgja fyrrgreindum lögum og þar er ekki að finna undanþágur. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður því að staðfesta hina kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð


Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, um synjun á endurútreikningi á lánum A og B áhvílandi á fasteigninni að C, er staðfest.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                                          Gunnar Eydal

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta