Hoppa yfir valmynd

Nr. 154/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 23. mars 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 154/2023

í stjórnsýslumálum nr. KNU23010054, KNU23020010, KNU23020011,

KNU23020012 og KNU23020013

 

Kæra  [...], […],

[...], [...] og [...]

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 24. janúar og 2. febrúar 2023 kærðu einstaklingar er kveðast heita [...], vera fædd [...] og vera ríkisborgari Íraks (hér eftir A), [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Íraks (hér eftir B), [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Íraks (hér eftir C), [...], vera fædd [...] og vera ríkisborgari Íraks (hér eftir D) og [...], vera fædd [...] og vera ríkisborgari Íraks (hér eftir E), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 19. janúar 2023, um að vísa frá umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd.

Kærendur krefjast þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd á Íslandi verði teknar til málsmeðferðar hjá Útlendingastofnun.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og bárust kærurnar fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærendur lögðu upphaflega fram umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi 8. desember 2020. Við leit að fingraförum kærenda í Eurodac gagnagrunninum dagana 15. og 16. desember 2020, kom í ljós að fingraför þeirra höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Grikklandi og að þeim hafi verið veitt alþjóðleg vernd þar í landi dagana 25. og 28. janúar 2019. Kærendur komu til viðtals hjá Útlendingastofnun, dagana 18., 19. og 20. janúar 2021, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað 8. apríl 2021 að taka ekki umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að þeim skyldi vísað frá landinu. Kærendur kærðu ákvarðanirnar 26. apríl 2021 til kærunefndar útlendingamála. Með úrskurðum kærunefndar nr. 397/2021 og 398/2021, dags. 26. ágúst 2021 voru ákvarðanir Útlendingastofnunar staðfestar. Hinn 6. september 2021 lögðu kærendur fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar og endurupptöku málsins. Hinn 4. nóvember 2021 synjaði kærunefnd kærendum um endurupptöku og frestun réttaráhrifa með úrskurðum kærunefndar nr. 545/2021 og 546/2021. Hinn 9. desember 2021 barst kærunefnd beiðni kærenda um endurupptöku að nýju. Með úrskurðum kærunefndar nr. 39/2022 og 40/2022, dags. 3. febrúar 2022, var beiðnum kærenda um endurupptöku hafnað. Með stefnu, dags. 30. mars 2022, var íslenska ríkinu stefnt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af hálfu kærenda. Þá lagði C fram beiðni um endurupptöku í þriðja sinn 2. ágúst 2022. Með úrskurði kærunefndar nr. 377/2022, dags. 22. september 2022, var beiðni C hafnað. Hinn 2. nóvember 2022 lögðu kærendur fram beiðni um frestun á framkvæmd vegna flutnings þeirra úr landi til viðtökuríkis. Var þeirri beiðni vísað frá af kærunefnd með úrskurðum nr. 457/2022 og 458/2022, dags. 17. nóvember 2022. Hinn 3. nóvember 2022 voru kærendur fluttir til Grikklands með stoðdeild ríkislögreglustjóra. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 12. desember 2022, mál nr. E-1545/2022 voru úrskurðir kærunefndar frá 3. febrúar 2022 felldir úr gildi. Dómnum hefur verið áfrýjað til Landsréttar. Kærendur snéru aftur til Íslands og lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd að nýju 10. desember 2022. Með ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 19. janúar 2023, var umsóknum kærenda um alþjóðlega vernd vísað frá. Kærendur kærðu ákvarðanirnar 24. janúar og 2. febrúar 2023 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kærenda barst kærunefnd 6. febrúar 2023.

III.      Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að með vísan til litis pendens áhrifa skuli ekki fjalla efnislega um mál fyrir tveimur handhöfum ríkisvalds á sama tíma og í ljósi þess að Landsréttur hafi sama úrlausnarefni til meðferðar sé það niðurstaða stofnunarinnar að rétt sé að vísa umsóknum þeirra frá.

IV.      Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð kærenda kemur fram að í ákvörðunum Útlendingastofnunar sé að finna afar takmarkaðan rökstuðning. Í þeim komi fram að vegna þess að nú séu dómsmál rekin vegna fyrri umsókna kærenda um alþjóðlega vernd verði hinar nýju umsóknir ekki teknar til málsmeðferðar hér á landi vegna litis pendens áhrifa. Kærendur telja að ógilda beri hinar kærðu ákvarðanir á grundvelli brota gegn 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um efni rökstuðnings sem og vegna brota gegn rannsóknarreglu 10. gr. sömu laga og sambærilegrar reglu í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Við skoðun litis pendens áhrifa eða meginreglunnar um valdmörk dómstóla og stjórnvalda hafi Útlendingastofnun þurft að líta til þeirra meginsjónarmiða sem ráðandi hafi verið við matið á áhrifum hinna nefndu dómsmála, framkvæma nauðsynlega rannsókn og taka svo ákvörðun. Kærendur telja að við lestur ákvarðananna hafi stofnunin sleppt framangreindu og aðeins tekið hinar kærðu ákvarðanir af hentisemi. Engin meginsjónarmið séu rakin í ákvörðununum og engin rannsókn hafi farið fram á grundvelli hinna nýju umsókna kærenda eða hvort þær umsóknir væru frábrugðnar hinum fyrri að einhverju leyti.

Kærendur vísa til þess að reglan um litis pendens sé lögfest í 4. mgr. 94. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Ljóst sé af reynslu að regluna skuli túlka þröngt og vísa kærendur til dóms Hæstaréttar nr. 138/2006. Þá sé reglan fyrst og fremst réttarfarsregla. Jafnframt vísa kærendur til sjónarmiða sem fram koma í ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 10/2018 hvað regluna varðar. Kærendur vísa til þess að reglunni skuli aðeins beita í undantekningartilvikum og þá aðeins að undangengnu heildarmati. Málsmeðferð umsókna kærenda hafi lokið þegar þau hafi verið flutt úr landi til Grikklands 3. nóvember 2022. Nýjar umsóknir þeirra hafi byggt á reynslu þeirra í Grikklandi eftir að þau hafi verið flutt þangað frá Íslandi. Því sé ljóst að málsástæður þeirra séu aðrar en þær voru áður. Um þær málsástæður hafi íslensk stjórnvöld ekki fjallað um áður og þar af leiðandi ekki íslenskir dómstólar. Kærendur telja að Útlendingastofnun hafi ekki aðeins brotið gegn stjórnsýslulögum með hinum kærðu ákvörðunum heldur hafi stofnunin ranglega talið meginregluna um valdmörk dómstóla og stjórnvalda útiloka málsmeðferð hinna nýju umsókna um alþjóðlega vernd á Íslandi. Því beri að fella hinar kærðu ákvarðanir úr gildi og fela Útlendingastofnun að taka umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd til málsmeðferðar.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Líkt og að framan greinir kom fram í ákvörðunum Útlendingastofnunar að með vísan til litis pendens áhrifa og í ljósi þess að Landsréttur hefði sama úrlausnarefni til meðferðar væri það niðurstaða stofnunarinnar að vísa umsóknum kærenda sem lagðar voru fram 10. desember 2022 frá.

Kærendur lögðu upphaflega fram umsóknir um alþjóðlega vernd 8. desember 2020. Báru kærendur m.a. fyrir sig að þau hefðu ekki haft aðgang að framfærslu, húsnæði eða atvinnu í Grikklandi. Þá hafi C ekki haft aðgengi að heilbrigðisþjónustu en hann glími við fötlun. Í úrskurðum kærunefndar nr. 397/2021 og 398/2021 var það m.a. mat kærunefndar, með teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kærenda, að ekki væru sérstakar ástæður fyrir hendi sem mæltu með því að mál þeirra skyldu tekin til efnismeðferðar. Þá væri synjun á efnismeðferð umsókna kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi og flutningur þeirra til viðtökuríkis ekki talinn leiða til brots gegn 1. og 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Samkvæmt gögnum málsins voru kærendur fluttir til Grikklands 3. nóvember 2022 með stoðdeild ríkislögreglustjóra. Þá lögðu kærendur fram umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi að nýju 10. desember 2022.

Kærunefnd fellst á með kærendum að hinar nýju umsóknir hafi byggt á reynslu þeirra í Grikklandi eftir að þau hafi verið flutt þangað frá Íslandi. Telur kærunefnd að því sé um að ræða nýjar málsástæður sem leggja þurfi mat á. Um þær málsástæður hafa íslensk stjórnvöld ekki fjallað um áður og eru því frábrugðnar þeim málsástæðum sem uppi eru í fyrrnefndu dómsmáli. Kærunefnd telur að Útlendingastofnun hafi borið taka mál kærenda til meðferðar og veita kærendum tækifæri á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, t.a.m. með því að boða kærendur í viðtöl á nýjan leik og gefa þeim færi á að leggja fram greinargerð í málinu.

Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgara með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Eins og að framan greinir telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á málsmeðferð Útlendingastofnunar í málum kærenda. Kærunefnd telur jafnframt í ljósi aðstæðna að ekki sé unnt að bæta úr þeim annmörkum á kærustigi og því rétt að mál kærenda verði tekið til meðferðar hjá Útlendingastofnun. Er það mat kærunefndar að með framangreindum annmörkum á málsmeðferð kærenda hjá Útlendingastofnun hafi stofnunin ekki fullnægt skyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri ákvarðanir Útlendingastofnunar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kærenda til meðferðar.

 

Úrskurðarorð:

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kærenda til meðferðar.

 

The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate is instructed to examine the cases.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta