580/2015. Úrskurður frá 15. maí 2015
Úrskurður
Hinn 15. maí 2015 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 580/2015 í máli ÚNU 15020004.
Kæra og málsatvik
Með erindi 6. febrúar 2015 kærði Gleraugnamiðstöðin ehf. afgreiðslu Isavia ohf. á beiðni fyrrnefnda fyrirtækisins um aðgang að gögnum varðandi samkeppni þess síðarnefnda vegna verslunar- og veitingareksturs í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 76/2008 er Isavia ohf. meðal annars ætlað að annast uppbyggingu Keflavíkurflugvallar og rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, þ.m.t. rekstur verslana með tollfrjálsrar vörur á flugvallarsvæðinu. Gögn málsins benda til þess að ætlun Isavia ohf. með umræddri samkeppni hafi verið að bjóða út leigu á aðstöðu undir verslunar- og veitingarekstur í húsnæði flugstöðvarinnar og að fyrirtækið hafi komið fram sem væntanlegur leigusali. Samskipti um ferlið fóru öll fram á ensku en Isavia ohf. kynnti það undir nafninu „Commercial Opportunities at Keflavik Airport“.
Hefðbundið er að nota orðin „útboð“ og „forval“ þegar verkkaupi eða kaupandi leitar skriflegra tilboða frá væntanlegum seljendum verks, vöru eða þjónustu. Framangreint ferli Isavia ohf. miðaði á hinn bóginn að því að fyrirtækið kæmi sjálft fram sem leigusali. Í ljósi þessa mun úrskurðarnefndin fjalla um umrætt ferli sem „samkeppni“ og að framlög þeirra sem tóku þátt hafi verið „tillögur“.
Af gögnum málsins verður ráðið að 19. mars 2014 hafi Isavia ohf. efnt til samkeppninnar og að hún hafi skipst í tvö stig. Á fyrra stiginu, sem nefndist „Request for Qualification“, skyldi kannað hvort þátttakendur uppfylltu þær kröfur um vörur, vörumerki, þekkingu, reynslu og fleira sem Isavia ohf. gerði til þátttöku í samkeppninni. Þeim sem uppfylltu kröfur fyrirtækisins var svo boðið að taka þátt á seinna stigi samkeppninnar, sem nefndist „Request for Proposal“, og skila inn annars vegar tæknilegri og hins vegar fjárhagslegri tillögu. Af hálfu Isavia ohf. sá sérstök nefnd um að leggja mat á tillögur þátttakenda í samkeppninni. Átti fjárhagslegi hlutinn einungis að koma til skoðunar ef tæknilegi hlutinn yrði metinn fullnægjandi í þeim skilningi að hann fengi tiltekna lágmarkseinkunn matsnefndar. Munu fjárhagslegir hlutar tillagnanna aðeins hafa verið opnaðir af hálfu Isavia ohf. í þeim tilvikum sem tæknilegur hluti náði lágmarkseinkunn en ella voru fjárhagslegu hlutarnir endursendir þátttakendum óopnaðir. Þá mun samkeppnin hafa skipst í efnislega flokka eftir gerð verslunar og þjónustu.
Kærandi skilaði inn tvíþættum tillögum og komst í gegnum fyrra stig samkeppninnar í flokki hennar sem tilgreindur var SR-7. Á hinn bóginn verður af gögnum málsins ráðið að haustið 2014 hafi kæranda verið tilkynnt að tæknilegur hluti tillögu hans hafi ekki verið metinn fullnægjandi og að fjárhagslegur hluti hennar hafi því ekki komið til skoðunar.
Með bréfi 11. desember 2014 var af hálfu kæranda óskað eftir að Isavia ohf. afhenti kæranda tilboð og fylgiskjöl allra þátttakenda samkeppninnar í flokki hennar sem tilgreindar var SR-7 sem og öll þau gögn sem Isavia ohf. hefði undir höndum sem vörðuðu val á tilboðum í umræddum flokki. Í beiðni kæranda var vísað til 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 14/2012. Fram kemur í gögnum málsins að þann 22. október 2014 var kæranda veittur aðgangur að einkunnum sem lutu að tæknilegum hluta tillögu hans.
Með bréfi 8. janúar 2015 brást Isavia ohf. við beiðni kæranda. Í bréfinu er rakið að þátttakendur í samkeppninni hafi sent Isavia ohf. ýmis gögn vegna hennar. Um væri að ræða upplýsingar um fyrirtækin sjálf, starfsemi þeirra og fjárhagslega hagsmuni og tilboð fyrirtækjanna sem fælu í sér upplýsingar, s.s. viðskiptaáætlun og fjárhagslegt tilboð, yrði að telja til viðkvæmra fjárhagslegra hagsmuna. Það væri því mat Isavia ohf. að þau gögn sem kærandi óskaði eftir og lytu að tilboðum annarra aðila en hans sjálfs og mati félagsins á þeim teldust til mikilvægra einkamálefna þeirra aðila sbr. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Hagsmunir þeirra og Isavia ohf. af því að trúnaður ríkti um þær upplýsingar væru ríkari en hagsmunir kæranda af að fá þær afhentar. Aðgangi að gögnunum væri því hafnað. Að því er varðaði gögn er snertu tillögu kæranda sjálfs kom fram í bréfi Isavia ohf. að kæranda hefðu þegar verið afhent, umfram lagaskyldu, einkunnir fyrir tæknilegan hluta tillögu kæranda. Kæranda hefði verið veittur aðgangur að matsblöðum matsnefndarmanna vegna hans sjálfs á grundvelli 11. gr. upplýsingalaga. Þá var kæranda veittur aðgangur að excel-skjali þar sem fram komu einkunnir kæranda samanborið við hinn þátttakandann í flokki SR-7.
Í kæru kemur fram að kærandi krefjist aðgangs að tilteknum upplýsingum og gögnum. Í fyrsta lagi „öllum gögnum og upplýsingum sem varða mat tilboða í útboði Isavia um verslunar- og veitingareksturs í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, nefnt „Commercial Opportunities at Keflavik Airport““. Í öðru lagi „[ö]llum upplýsingum sem lágu að baki þeim forsendum sem mat tilboða fór eftir“. Væri „þannig óskað eftir upplýsingum um það hvernig valforsendur voru nánar útfærðar og hvað lá til grundvallar mati á þeim“. Með þessu væri „t.d., en ekki eingöngu, óskað eftir upplýsingum um það hvað matshópur hafði til hliðsjónar og leiðbeiningar við mat á þeim forsendum að vörur stæðust þarfir viðskiptavina og gæðakröfur (e. customers needs and standard of quality) og að verðlagning væri nægjanlega góð (e.good enough) o.s.frv.“ Í þriðja lagi kom fram að óskað væri eftir „[ö]llum upplýsingum sem lágu að baki mati á“ tillögu kæranda. Væri þannig óskað eftir „upplýsingum um það hvernig valforsendur voru nánar útfærðar og hvað lá til grundvallar mati á þeim stigafjölda“ sem kærandi fékk. Í fjórða lagi væri óskað eftir „upplýsingum um stigafjölda annarra tilboða í útboðinu, sundurliðað eftir valforsendum, og rökstuðningi fyrir einkunnagjöf þeirra“. Í fimmta lagi upplýsinga „um það hvers vegna bjóðendur, sem valdir voru til samningsgerðar, og tilboð þeirra hlutu fleiri stig“ en kærandi og tillaga hans, „sundurliðað eftir valforsendum“. Væri í þessu samhengi „óskað eftir upplýsingum um það hvað var talið betra í tilboðum, sem voru valin, en í tilboðum“ kæranda. Þá væri einnig óskað eftir að upplýsingarnar yrðu „sundurliðaðar eftir valforsendum, í hverjum flokki fyrir sig“. Í sjötta lagi var óskað eftir „[u]pplýsingum um það hvort einkunnagjöf var sú sama fyrir öll tilboð, þ.e. hvort einstakar valforsendur voru metnar til sama stigafjölda óháð því hvers konar verslun eða vörur var að ræða hverju sinni“.
Í kæru kemur fram að kærandi telji ljóst að upplýsingalög gildi um starfsemi Isavia ohf. sbr. 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga, enda taki fyrirtækið á móti beiðnum á grundvelli upplýsingalaga á heimasíðu sinni. Þá verði réttur kæranda reistur á 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga sbr. nánar tiltekna úrskurði úrskurðarnefndarinnar. Beiðni kæranda hafi verið sett fram með skýrum hætti í samræmi við 15. gr. laganna. Réttur til aðgangs taki til allra gagna tiltekins máls, óháð því hvort máli sé lokið eða ekki og óháð því hvort gagnið liggi aðeins fyrir í drögum eða í endanlegri mynd. Þessi réttur sé lögbundinn og verði ekki takmarkaður nema á grundvelli undanþáguákvæða 6.-10. gr. laganna. Umrædd gögn séu fyrirliggjandi í skilningi upplýsingalaga.
Kærandi telur að ekkert af undanþáguákvæðum 6.-10. gr. laganna eigi við um þau gögn sem kærandi hafi óskað eftir aðgangi að, enda byggi synjun Isavia ohf. ekki á því að gögnin séu undanþegin upplýsingarétti með vísan til þessara ákvæða.
Loks vísar kærandi til þess að hinar umbeðnu upplýsingar varði ráðstöfun opinberra gæða. Upplýsingarnar séu forsenda þess að kæranda sé gert fært að átta sig á því hvernig staðið var að mati tilboða í samkeppninni og geti þar með fullvissað sig um að jafnræði allra þátttakenda hafi verið virt. Úrskurðarnefndin hafi margsinnis staðfest að réttur til aðgangs að upplýsingum um ráðstöfun opinberra hagsmuna og gæða sé ríkur og að skýra verði allar takmarkanir á rétti til slíkra upplýsinga þröngt, eins og t.d. komi fram í úrskurði nefndarinnar í máli nr. A-224/2006.
Málsmeðferð
Með bréfi 12. febrúar 2015 var Isavia ohf. gefinn kostur á að tjá sig um kæruna. Þá var þess einnig óskað að úrskurðarnefndinni yrði í trúnaði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að.
Í svari fyrirtækisins 23. febrúar er vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga skuli mál samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laganna borið skriflega undir úrskurðarnefndina innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnum var tilkynnt um ákvörðun. Eins og fram komi í kæru hafi erindi kæranda verið svarað 8. janúar 2015 en í því bréfi hafi kæranda verið leiðbeint um kærufrest. Kærufrestur hafi því runnið út 7. febrúar. Þrátt fyrir að kæra sé dagsett degi fyrr beri hún skýrt með sér með stimpli úrskurðarnefndarinnar að hún hafi ekki verið móttekin fyrr en 10. sama mánaðar. Isavia ohf. fari því fram á að kærunni verði vísað frá á þeim grundvelli að hún hafi borist að liðnum kærufresti sbr. meginreglu 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fallist úrskurðarnefndin ekki á frávísun sé þess óskað að Isavia ohf. verði gefinn kostur á að svara efnislega áður en nefndin taki hana til efnislegrar afgreiðslu.
Þann 13. mars 2015 ritaði úrskurðarnefndin Isavia ohf. bréf þess efnis að kæra málsins hefði verið móttekin í tölvupósti 6. febrúar 2014 en þann 10. sama mánaðar hefði bréf frá kæranda sem innihélt kæruna verið fært til skráningar í skjalasafn nefndarinnar. Þá var ítrekuð beiðni um að nefndinni yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæra málsins laut að svo unnt væri að fella úrskurð í málinu. Þá var Isavia ohf. gefinn kostur á að svara kærunni efnislega. Sama dag var af hálfu kæranda tekin afstaða til umsagnar Isavia ohf. Var þar bent á að kæran hefði verið send úrskurðarnefndinni með tölvupósti áður en kærufrestur var liðinn. Þá var þess krafist að málið yrði þegar tekið til úrskurðar.
Með bréfi 24. mars 2014 brást Isavia ohf. við erindi úrskurðarnefndarinnar. Þar kom fram að tveir aðilar hefðu sent inn tillögur í samkeppnina í flokki „Optical (SR-7)“. Kærandi hefði verið annar þeirra og ekki náð tilskilinni lágmarkseinkunn fyrir tæknilega tillögu sína. Hefði fjárhagsleg tillaga hans því verið endursend óopnuð. Gengið hefði verði til samninga við hinn þátttakandann í flokknum. Það væri mat Isavia ohf. að upplýsingar sem lytu að þátttakendum í umræddri samkeppni teldust til mikilvægra einkamálefna þeirra, sbr. 9. gr. upplýsingalaga og að félaginu væri beinlínis óheimilt að afhenda þær öðrum. Sömu sjónarmið ættu við ef 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga tæki til beiðni kæranda. Eins og fram hefði komið í svarbréfi Isavia ohf. til kæranda 8. janúar 2015 innihéldu þau gögn sem óskað hefði verið eftir ýmsar upplýsingar um það fyrirtæki sem um ræddi, starfsemi þess og fjárhagslega hagsmuni. Þá innihéldu tillögur í forvalinu ýmsar upplýsingar, svo sem viðskiptaáætlun og fjárhagslegt tilboð, sem yrðu að teljast til mikilvægra fjárhags- og viðskiptahagsmuna. Við mat á hagsmunum yrði m.a. að leggja mat á hagsmuni kæranda af því að fá gögnin afhent. Í því samhengi skipti miklu máli hvers konar ferli hefði verið um að ræða. Isavia ohf. vildi því árétta að ekki hefði verið um að ræða útboð á grundvelli laga um opinber innkaup enda ekki um að ræða kaup á vöru, verki eða þjónustu heldur ráðstöfun leiguhúsnæðis til rekstrar. Þessi skilningur hafi verið staðfestur af kærunefnd útboðsmála í máli 14/2014. Þau sjónarmið sem átt gætu við um upplýsingarétt vegna opinberra útboða ættu því ekki við í þessu tilfelli.
Þá kom fram í erindi Isavia ohf. að fyrirtækið teldi að líta yrði til þess að félagið sjálft hefði hagsmuni af því að geta haldið samkeppni sem þessa þar sem gætt væri trúnaðar um þátttakendur og þeirra gögn eins og gengi og gerðist á þeim samkeppnismarkaði sem félagið starfaði. Að öðrum kosti mætti leiða líkur að því að færri aðilar hefðu séð sér fært að taka þátt í forvalinu sem hefði getað leitt til verri niðurstöðu fyrir félagið og komið í veg fyrir að það gæti sinnt hlutverki sínu á sem hagkvæmastan hátt. Í þessu samhengi væri rétt að vísa til ummæla í frumvarpi því sem varð að lögum m. 140/2012 þar sem skýrt komi fram að í þeirri breytingu að fella opinber hlutafélög undir upplýsingalögin fælist ekki sjálfkrafa að allar upplýsingar þeirra aðila skyldu gerðar aðgengilegar.
Isavia ohf. teldi því að hagsmunir þess aðila sem tók ásamt kæranda þátt í forvalinu í flokki Optical (SR-7) og Isavia ohf. af því að trúnaður ríki um tilboð hans væru ríkari en hagsmunir kæranda af að fá þau gögn afhent. Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af því markmiði upplýsingalaga að tryggja gegnsæi stjórnsýslu og gegnsæi við meðferð opinberra hagsmuna væri það niðurstaða Isavia ohf. að hagsmunir kæranda af því að fá aðgang að gögnum með þeim upplýsingum sem um ræði væru ekki slíkir að réttlætt gæti að gengið yrði á hagsmuni annarra, þ.e. annarra þátttakenda í forvalinu og Isavia ohf., af því að þau séu ekki afhent. Á grundvelli þessara sjónarmiða hefði ósk kæranda um aðgang að upplýsingum verið synjað og stæði það mat Isavia ohf. óhaggað. Rétt væri þó að benda á að félagið hefði afhent, umfram lagaskyldu, matsblöð valnefndarmanna og töflu sem sýndi einkunnir kæranda og þess sem valinn var fyrir tæknileg tilboð þeirra. Þar sem samningum væri lokið væri ekki lengur þörf fyrir trúnað um það hverja samið var við og fylgdi listi yfir þá í fylgiskjali með svari þessu.
Þegar svar Isavia ohf. lá fyrir hafði fyrirtækið þegar veitt úrskurðarnefndinni aðgang að öllum tilboðsgögnum vegna samkeppninnar.
Úrskurðarnefndin ritaði bréf til Miðbaugs ehf. 20. apríl 2015 en Isavia ohf. samdi við fyrirtækið í kjölfar samkeppni þeirrar er mál þetta lýtur að. Voru kærandi og Miðbaugur ehf. einu fyrirtækin sem tóku þátt í flokki SR-7 í samkeppninni. Með bréfinu var óskað eftir afstöðu Miðbaugs ehf. til beiðni kæranda. Þann 4. maí sama ár var erindinu svarað af hálfu Miðbaugs ehf. Þar kom fram að þau gögn sem afhent hefðu verið í tengslum við tillögu fyrirtækisins hefðu verið afhent sem trúnaðargögn. Hafi fyrirtækið því talið sig geta treyst því að samkeppnisaðilum yrðu ekki afhent gögnin, en kærandi væri í beinni samkeppni við Miðbaug ehf. um sölu gleraugna.
Í bréfinu er rakið að samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga sé óheimilt að veita aðgang að gögnum sem varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni sem sanngjarnt og eðlilegt sé að leynt fari. Telji fyrirtækið að svo hátti til í máli kæranda. Hagsmunir Miðbaugs ehf. séu augljósir af því að þau gögn sem afhent voru í tengslum við umrætt útboð verði ekki afhent samkeppnisaðila. Verði að telja, sbr. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, að hagsmunir Miðbaugs ehf. af því að halda þeim upplýsingum sem Isavia ohf. voru veittar vegna samkeppninnar fyrir sig og frá kæranda vegi þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá þær afhentar.
Af hálfu Miðbaugs ehf. er rakið að fyrirtækið hafi í um 16 ár starfað með allt öðrum hætti en hefðbundnar gleraugnaverslanir. Þannig sé fyrirtækið eina gleraugnaverslun í heiminum, svo vitað sé til, sem hafi markaðssett sig sem gleraugnaverslun með 15 mínútna sérsmíði á gleraugum á brottfararsvæði í alþjóðlegri flugstöð. Í gögnum málsins séu því meðal annars viðkvæmar upplýsingar um hvernig rekstrarfyrirkomulagi þessu sé háttað. Þar að auki fylgi umsókn fyrirtækisins mjög ítarlegar áætlanir um söluherferðir, fjárhagslegar áætlanir og söluáætlanir. Samkvæmt greinargerð með frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum sé óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Telji Miðbaugur ehf. auðséð að þau gögn sem til greina komi að afhenda innihaldi slíkar upplýsingar og því sé óheimilt að veita kæranda aðgang að þeim. Í versta falli gæti afhending gagnanna leitt til þess að rekstur Miðbaugs ehf. í Flugstöð Leifs Eiríkssonar leggist af með því fjárhagslega tjóni sem því myndi fylgja.
Loks kemur fram í erindi Miðbaugs ehf. að ekki verði séð að rök leiði til þess að aðila sem einnig lagði inn umsókn vegna samkeppninnar, en ekki var samið við, verði veittur aðgangur að upplýsingum úr umsókn samkeppnisaðila. Markmið upplýsingalaga sé að tryggja gagnsæi í stjórnsýslu og við meðferð opinberra hagsmuna. Afhending framangreindra gagna samræmist ekki því markmiði. Hagsmunir samkeppnisaðila af því að komast í allar upplýsingar samkeppnisaðila séu vissulega miklir en það séu ekki hagsmunir sem upplýsingalögum sé ætlað að vernda. Við það megi bæta að kærandi sé hluti af erlendu gleraugnaversluninni Profil Optik sem starfi á alþjóðlegum mörkuðum. Upplýsingalögum sé ekki ætlað að vernda réttindi slíkra samkeppnisaðila til að komast yfir viðskiptaleyndarmál annarra aðila á sama markaði til þess að nýta sér slíka þekkingu í hagnaðarskyni. Verði kæranda veittur aðgangur að þeim gögnum sem hann hafi óskað eftir muni það óneitanlega nýtast honum í öðrum útboðum í framtíðinni, þvert á hagsmuni Miðbaugs ehf. Bendir fyrirtækið í þessu samhengi á að Isavia ohf. semji aðeins til sjö ára í senn. Miðbaugur ehf. hafi lagt mikinn tíma og mikla fjármuni í umrætt umsóknarferli. Það sé því í meira lagi ósanngjarnt að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum. Á grundvelli alls framangreinds og samkvæmt 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga telji Miðbaugur ehf. að óheimilt sé að veita kæranda aðgang að þeim gögnum sem afhent voru í tengslum við samkeppni Isavia ohf.
Niðurstaða
1.
Í beiðni kæranda frá 11. desember 2014 var þess óskað að Isavia ohf. léti kæranda í té „tilboð og fylgiskjöl, allra þátttakenda í útboðinu sem buðu í flokk SR-7 sem og öll þau gögn sem Isavia hefði undir höndum og vörðuðu val á tilboði í umræddum flokki.
2.
Hin kærða ákvörðun var tekin 8. janúar 2015. Kærandi kærði ákvörðunina 6. febrúar sama ár og barst kæran úrskurðarnefndinni í tölvupósti sama dag. Kæran var síðan móttekin bréflega 10. sama mánaðar. Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga skal synjun á beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum borin skriflega undir úrskurðarnefndina innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnum var tilkynnt um ákvörðun. Í samræmi við 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 rann umræddur frestur út 9. febrúar 2015. Frestur kæranda til að kæra synjun Isavia ohf. var því ekki runninn út þegar tölvupóstur hans til nefndarinnar var móttekinn. Verður kærunni þar af leiðandi ekki vísað frá með vísan til 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga.
3.
Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Ákvæðið hefur verið skýrt svo að undir það falli ekki eingöngu þau tilvik þegar einstaklingur eða lögaðili óskar eftir upplýsingum sem beinlínis fjalla um hann sjálfan, heldur taki hún einnig til þeirra tilvika þegar upplýsingarnar varða viðkomandi með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni umfram aðra af því að fá aðgang að gögnunum. Er þessi skýring meðal annars reist á ummælum í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga þar sem fram kemur að með orðalaginu að gagn skuli geyma „upplýsingar um hann sjálfan“ sé vísað til þess að upplýsingar þurfi að varða viðkomandi aðila sérstaklega og verulega umfram aðra. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur litið svo á að þátttakandi í útboði teljist „aðili máls“ í skilningi 14. gr. upplýsingalaga þegar hann fer fram á að fá aðgang að útboðsgögnum, þ. á m. gögnum frá öðrum þátttakendum í útboði, sem verða til áður en að til samninga er gengið við tiltekinn bjóðanda. Vísast um þetta meðal annars til úrskurða nefndarinnar í málum nr. A-307/2009, A-377/2011, A-407/2012, A-409/2012, A-472/2013, 532/2014, 541/2014 og 570/2015. Að öðru leyti, þ.e. eftir það tímamark, fari um upplýsingarétt bjóðanda skv. 5. gr. upplýsingalaga.
Samkeppni sú sem mál þetta lýtur að var ekki hefðbundið útboð, enda leitaði Isavia ohf. ekki skriflegra tilboða í verk, vöru eða þjónustu sem fyrirtækið ætlaði sér að kaupa heldur kom það sjálft fram sem leigusali ákveðins verslunarrýmis. Engu að síður leiða sömu rök til þess að kærandi, sem þátttakandi í umræddri samkeppni, njóti réttar samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga til aðgangs að gögnum með sama hætti og þátttakendur í hefðbundnum útboðum.
Á hinn bóginn var þátttöku kæranda í samkeppninni lokið er honum var tilkynnt að tæknilegur hluti tillögu hans hefði ekki hlotið þá lágmarkseinkunn sem áskilin var til að komast á síðara stig samkeppninnar. Fjárhagslegir hlutar tillagna voru ekki opnaðir fyrr en eftir það tímamark og aðeins í þeim tilvikum þar sem tæknilegir hlutar voru taldir fullnægjandi. Í ljósi þessa og uppbyggingar samkeppninnar naut kærandi réttar samkvæmt 1. mgr. 14. gr. til gagna er vörðuðu tæknilegan hluta samkeppninnar en samkvæmt 1. mgr. 5. gr. til fjárhagslegs hluta hennar.
4.
Í kæru kemur fram að kærandi krefjist aðgangs að tilteknum upplýsingum og gögnum en kröfur kæranda eru að nokkru leyti frábrugðnar beiðni hans til Isavia ohf. 11. desember 2014 sem var synjað með hinni kærðu ákvörðun. Meðal annars krefst kærandi þess fyrir úrskurðarnefndinni að sér verði afhentar allar upplýsingar „sem lágu að baki þeim forsendum sem mat tilboða fór eftir“, upplýsingar „um það hvernig valforsendur voru nánar útfærðar og hvað lá til grundvallar mati á þeim [...] t.d., en ekki eingöngu [...] um það hvað matshópur hafði til hliðsjónar og leiðbeiningar við mat á þeim forsendum að vörur stæðust þarfir viðskiptavina og gæðakröfur (e. customers needs and standard of quality) og að verðlagning væri nægjanlega góð (e.good enough) o.s.frv.“, „[ö]llum upplýsingum sem lágu að baki mati á“ tillögu kæranda [þ. á m.] upplýsingum um það hvernig valforsendur voru nánar útfærðar og hvað lá til grundvallar mati á þeim stigafjölda“ kæranda, upplýsingum „um það hvers vegna bjóðendur, sem valdir voru til samningsgerðar, og tilboð þeirra hlutu fleiri stig“ en kærandi og tilboð hans „sundurliðað eftir valforsendum“, „upplýsingum um það hvað var talið betra í tilboðum, sem voru valin, en í tilboðum“ kæranda „sundurliðuðum eftir valforsendum [...] í hverjum flokki fyrir sig“ og „rökstuðningi fyrir einkunnagjöf“ annarra tillagna. Loks var óskað eftir „[u]pplýsingum um það hvort einkunnagjöf var sú sama fyrir öll tilboð, þ.e. hvort einstakar valforsendur voru metnar til sama stigafjölda óháð því hvers konar verslun eða vörur var að ræða hverju sinni“.
Framangreindar kröfur kæranda verða ekki skildar öðruvísi en svo en hann fari fram á að úrskurðarnefndin hlutist til um að kæranda verði látin í té gögn sem varpi ljósi á þær einkunnir sem tillögur kæranda og Miðbaugs ehf. fengu í samkeppninni, enda þótt slíks hafi ekki beinlínis verið óskað í beiðni kæranda sem var synjað með hinni kærðu ákvörðun. Á hinn bóginn telur úrskurðarnefndin að gagn eða gögn með slíkum rökstuðningi félli undir beiðnina að því leyti sem hún lyti að því að kærandi fengi „öll þau gögn sem Isavia hefur undir höndum sem varða val á tilboði í umræddum flokk“.
Af gögnum málsins verður ráðið að Isavia ohf. álíti sig hafi látið úrskurðarnefndinni í té öll þau gögn sem fyrirtækið telur að falli undir beiðni kæranda. Þá hefur Isavia ohf. upplýst úrskurðarnefndina ítrekað, vegna meðferða annarra kærumála er varða sömu samkeppni, að rökstuðningur sá sem kærandi krefst aðgangs að fyrir úrskurðarnefndinni hafi ekki verið útbúinn og að slík gögn sé ekki að finna í skjalasafni fyrirtækisins. Í ljósi þessa telur úrskurðarnefndin sýnt að kæra kæranda til nefndarinnar beindist að þessu leyti ekki að fyrirliggjandi gögnum í skilningi 1. mgr. 5. gr. eða 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt upplýsingalögum er stjórnvöldum eða lögaðilum sem falla undir lögin er ekki skylt að útbúa ný gögn. Með vísan til þessa verður þessum hluta kærunnar vísað frá úrskurðarnefndinni.
5.
Í beiðni kæranda til Isavia ohf. 11. september 2014 var þess krafist að kæranda yrðu afhent tilboð og fylgiskjöl allra þátttakenda samkeppninnar í flokki SR-7. Í kæru krafðist kærandi þess að sér yrði veittur aðgangur að „[ö]llum gögnum og upplýsingum sem varða mat tilboða í útboði Isavia um verslunar og veitingarekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar“. Í beiðni kæranda var þess óskað að kæranda yrðu afhent „öll þau gögn sem Isavia hefur undir höndum sem varða val á tilboði í umræddum flokk“. Auk þess sem þegar hefur verið rakið um kröfugerð kæranda fyrir nefndinni var í kærunni farið fram á að honum yrðu afhentar upplýsingar um stigafjölda annarra tilboða í útboðinu, sundurliðað eftir valforsendum.
Í ljósi þess hvernig beiðni kæranda til Isavia ohf. og kröfugerð hans fyrir úrskurðarnefndinni eru úr garði gerðar, þeim gögnum úr skjalasafni Isavia ohf. sem fyrirtækið hefur afhent úrskurðarnefndinni og fyrirtækið álítur að falli undir beiðni kæranda og þess sem að framan greinir um kröfur kæranda, að því leyti sem þær lúta að rökstuðningi fyrir niðurstöðu samkeppninnar sem ekki liggur fyrir í vörslum Isavia ohf., telur úrskurðarnefndin að mál þetta lúti efnislega að annars vegar einkunnum annarra þátttakenda samkeppninnar í flokki SR-7 og hins vegar að tillögum þeirra.
Fram er komið að kærandi og Miðbaugur ehf. voru einu þátttakendurnir í þessum flokki samkeppninnar. Isavia ohf. hefur fyrir úrskurðarnefndinni lýst þeirri afstöðu sinni að ekki sé ástæða til að halda nafni Miðbaugs ehf. leyndu fyrir kæranda.
6.
Af hálfu Isavia ohf. hefur verið vísað til þess að mikilvægt sé fyrir fyrirtækið að geta haldið samkeppni eins og þá er mál þetta lýtur að án þess að þátttakendur geti síðar fengið aðgang að gögnum er varða hana og þá meðal annars tillögum annarra þátttakenda. Er í þessu samhengi vísað til þess að Isavia ohf. starfi á samkeppnismarkaði. Ríki ekki trúnaður um tillögur þátttakenda megi leiða líkur að því að færri aðilar sæju sér fært að taka þátt í slíkum samkeppnum. Afleiðingarnar yrðu þær að Isavia ohf. byðust lakari kjör en ella.
Samkvæmt 2. tölulið 2. mgr. 14. gr. upplýsingalaga gildir 1. mgr. sömu lagagreinar ekki um gögn sem hafa að geyma upplýsingar um mikilvæga almannahagsmuni sem leynt eiga að fara samkvæmt 10. gr. laganna. Af 4. tölulið þeirrar lagagreinar leiðir að þetta á við um gögn sem hafa að geyma upplýsingar um „viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra“. Ákvæði þetta takmarkar einnig rétt almennings til aðgangs að gögnum samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga.
Úrskurðarnefndin hefur miðað við að umræddri undantekningarheimild verði aðeins beitt sé a.m.k. þremur skilyrðum fullnægt. Í fyrsta lagi skal starfsemi þess aðila sem upplýsingabeiðni beinist að, eða upplýsingar tengjast að öðru leyti, í heild eða að hluta, vera í samkeppni við aðra aðila. Í öðru lagi þurfa þær upplýsingar sem beðið er um að tengjast þeirri starfsemi viðkomandi aðila sem telst til samkeppnisrekstrar hans. Í þriðja lagi að sú afstaða hafi verið tekin á grundvelli ígrundaðs mats að þeir samkeppnishagsmunir hinnar opinberu stofnunar eða fyrirtækis sem um ræðir séu það verulegir að réttlætanlegt sé að þeir gangi framar hagsmunum og rétti til aðgangs að umræddum upplýsingum. Er fyrsta skilyrðið meðal annars reist á því að í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga kemur fram að það sé einskorðað við þá stöðu þegar opinberir aðilar eru í samkeppni við aðra aðila. Ákvæðinu verði því ekki beitt þegar hið opinbera starfar í skjóli einkaréttar eða ef opinber aðili er einn um rekstur þótt einkaréttar njóti ekki við.
Isavia ohf. var stofnað 1. maí 2010 með sameiningu opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar. Við samrunann yfirtók Isavia ohf. öll réttindi og allar skuldbindingar yfirteknu félaganna sem kveðið er á um í lögum nr. 102/2006 um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands og lögum nr. 76/2008 um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl. sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 153/2009 um samruna opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 102/2006 annast félagið rekstur og uppbyggingu flugvalla og er í því skyni heimilt að gera hvers konar samninga við aðra aðila til að ná tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt. Á grundvelli 1. mgr. 4. gr. laga nr. 76/2008 er félaginu meðal annars ætlað að annast rekstur verslana með tollfrjálsar vörur á Keflavíkurflugvelli.
Ljóst er að á framangreindum lagagrundvelli starfrækir Isaia ohf. alla stærstu flugvelli landsins og að flug til og frá Íslandi fer aðeins um þá flugvelli. Þá hefur Isavia ohf. eitt heimild til að reka fríhafnarsvæði landsins í tengslum við mikilvægasta millilandaflugvöll landsins en mál þetta varðar samkeppni fyrirtækisins vegna útleigu rýmis á því svæði. Að því marki sem fullyrt verður að opinber aðili starfi í skjóli einkaréttar telur úrskurðarnefndin að svo eigi við um framangreindan rekstur Isavia ohf. Verður því ekki talið að gögn sem innihalda upplýsingar um viðskipti Isavia ohf. vegna útleigu á rými á fríhafnarsvæði Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar verði undanþegin upplýsingarétti með vísan til 4. töluliðar 10. gr. upplýsingalaga.
7.
Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga er heimilt að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum. Réttur almennings til aðgangs að upplýsingum samkvæmt 5. gr. laganna sætir á hinn bóginn meðal annars takmörkunum á grundvelli 9. gr. þar sem kveðið er á um að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.
Í málinu reynir á hvort fjárhags- eða viðskiptahagsmunir annarra þátttakenda í samkeppninni standi gegn því að kæranda verði veittur aðgangur að annars vegar einkunnum Miðbaugs ehf. í samkeppninni og hins vegar að tillögum fyrirtækisins. Í athugasemdum í frumvarpi til upplýsingalaga segir um 3. mgr. 14. gr. að þegar fram komi beiðni um upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptamálefni fleiri en eins aðila sé líklegt að reyni á andstæða hagsmuni, annars vegar þess sem upplýsinga óskar og hins vegar annarra þeirra sem hlut eiga að máli og kunna að eiga réttmæta hagsmuni af því að tilteknum atriðum er þá varða sé haldið leyndum. Kjarni reglunnar í 3. mgr. felist í því að vega skuli og meta þessa gagnstæðu hagsmuni, en síðarnefndu hagsmunirnir séu að meginstefnu hinir sömu og liggi að baki 9. gr. laganna.
Í athugasemdunum kemur einnig fram að þegar lögaðilar geri samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað sé opinberum hagsmunum, geti það haft mikið vægi að miklir hagsmunir standi til þess að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Að því leyti sem slíkar upplýsingar kunna að hafa áhrif á samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem semja við opinbera aðila um slíkar ráðstafanir eða taka þátt í útboðum vegna slíkra ráðstafana hefur úrskurðarnefndin miðað við að fyrirtæki og aðrir lögaðilar verði hverju sinni að vera undir það búin að mæta samkeppni frá öðrum aðilum og að upplýsingalög gildi um starfsemi hins opinbera. Vegna ábendinga Isavia ohf. þess efnis að samkeppnin er mál þetta lýtur að hafi ekki verið hefðbundið útboð skal það tekið fram að engu að síður var um að ræða ráðstöfun gæða sem teljast til opinberra hagsmuna.
Eins og að framan greinir var aðeins tæknilegur hluti tillögu kæranda metinn í samkeppninni, enda náði tillagan ekki tiltekinni lágmarkseinkunn. Þótt ráða megi af gögnum málsins að einkunnir sem tillaga kæranda fékk hafi komið til vegna mats á tillögunni einni, án tillits til þess hvernig tillaga Miðbaugs ehf. var úr garði gerð, telur úrskurðarnefndin að kærandi hafi hagsmuni af því að kynna sér einkunnir og tillögu Miðbaugs í því skyni að átta sig á því hvernig staðið var að mati Isavia ohf. Í þessu samhengi ber að líta til þess að aðgangur kæranda að hinum umbeðnu gögnum er honum mikilvægur til að öðlast frekari innsýn á þau efnislegu sjónarmið sem Isavia ohf. beitti í samkeppninni, enda liggur fyrir að þau hafa ekki verið skráð af fyrirtækinu.
Í athugasemdum í frumvarpi til upplýsingalaga segir einnig eftirfarandi um 14. gr.: „Aðgangur að gögnum verður því aðeins takmarkaður ef talin er hætta á því að einkahagsmunir skaðist ef aðila yrði veittur aðgangur að upplýsingunum. Aðila verður því ekki synjað um aðgang að gögnum á grundvelli hugleiðinga um að aðgangur að tiltekinni tegund upplýsinga sé almennt til þess fallinn að valda einhverju tjóni, heldur verður að leggja mat á aðstæður hverju sinni.“ Þá er tekið fram að reglan byggi á því að við hagsmunamatið sé ljóst hverjir verndarhagsmunirnir séu. Oft verði því að leita álits þess sem á andstæðra hagsmuna að gæta, en yfirlýsing hans um að hann vilji ekki að upplýsingarnar séu veittar sé þó ein og sér ekki nægjanleg ástæða til að synja beiðni um upplýsingar.
Réttur sá sem kveðið er á um í 14. gr. upplýsingalaga, um rétt aðila til upplýsinga um sig sjálfan, er eðli máls samkvæmt ríkari en réttur almennings samkvæmt 5. gr. en inntak réttarins kann þó að ráðast af atvikum hverju sinni. Heimilt er að takmarka aðgang almennings samkvæmt síðarnefnda ákvæðinu að gögnum á grundvelli mikilvægra fjárhags- eða viðskiptahagsmuna lögaðila með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Fram kemur í athugasemdum við 9. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga að óheimilt sé samkvæmt ákvæðinu að veita upplýsingar um „atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni“.
Þá hefur verið við það miðað að við beitingu 9. gr. upplýsingalaga skuli metið hvort um sé að ræða svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni að ætla megi, með tilliti til aðstæðna í fyrirliggjandi máli, að það sé til þess fallið að valda hlutaðeigandi fyrirtæki tjóni, verði aðgangur veittur að upplýsingunum. Við matið verði að líta til þess hverju sinni hversu mikið tjónið geti orðið og hvaða líkur séu á því að það muni hljótast, verði upplýsingarnar veittar.
Í ljósi alls framangreinds er ljóst að við mat á því hvort heimilt væri að synja kæranda um aðgang að hinum umbeðnu gögnum á grundvelli 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga var Isavia ohf. nauðsynlegt að leggja mat á efni gagnanna og hvort opinberun þeirra upplýsinga sem þar koma fram væri til þess fallin að skaða hagsmuni annarra þátttakenda í samkeppninni. Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar 24. mars 2015 kom fram að þær upplýsingar sem um ræddi væru um „starfsemi og fjárhagslega hagsmuni“ Miðbaugs ehf. Þá innihéldi tillaga fyrirtækisins „ýmsar upplýsingar svo sem viðskiptaáætlun og fjárhagslegt tilboð“. Ekki var nánar tilgreint hvar í hinum umbeðnu gögnum þessar upplýsingar var að finna. Af gögnum málsins verðu ráðið að Isavia ohf. hafi ekki aflað umsagnar Miðbaugs ehf. um beiðni kæranda.
Af þessum sökum óskaði úrskurðarnefndin eftir því að Miðbaugur ehf. tæki meðal annars afstöðu til þess að hvaða leyti það varðar mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækisins að gögnin sem kærandi óskaði eftir færu leynt. Tekið var fram að mikilvægt væri að fá upplýsingar um það hvort ætla mætti að afhending gagnanna til kæranda væri til þess fallin að valda fyrirtækinu tjóni. Þá var þess óskað að gerð yrði grein fyrir hversu mikið tjónið gæti orðið og hvaða líkur væru á að það myndi hljótast. Mikilvægt væri að fram kæmi hvaða tilteknu upplýsingar það væru sem fyrirtækið teldi að ekki mætti veita aðgang að, enda kynni afhending þeirra að valda tjóni. Miðbaugur ehf. lagðist gegn því að veittur yrði aðgangur að tillögu fyrirtækisins og fylgigögnum hennar en nánar verður gerð grein fyrir röksemdum fyrirtækisins hér síðar.
Í ljósi alls framangreinds er ljóst að ekki skiptir máli þótt Isavia ohf. hafi heitið þátttakendum í samkeppni þeirri er málið lýtur að trúnaði. Er fyrirtækið bundið af ákvæðum upplýsingalaga og getur ekki vikið frá ákvæðum þeirra með yfirlýsingum sínum til þátttakenda.
8.
Fyrir úrskurðarnefndinni gerir kærandi meðal annars þá kröfu að honum verði veittar upplýsingar um stigafjölda annarra tilboða í útboðinu og að þær verði sundurliðaðar eftir valforsendum. Isavia ohf. hefur fyrir úrskurðarnefndinni fallist á að ekki sé ástæða til að halda leyndu nafni þess fyrirtækis sem samið var við í kjölfar samkeppninnar, þ.e.a.s. Miðbaugs ehf. Af gögnum málsins, sem og gögnum annarra mála fyrir úrskurðarnefndinni er varða sömu samkeppni, má ráða að í vörslum Isavia ohf. sé til listi sem inniheldur yfirlit yfir einkunnir allra þátttakenda.
Kærandi hefur hagsmuni af því að fá upplýsingar um einkunnir Miðbaugs ehf. til þess meðal annars að geta lagt mat á það hvernig framkvæmd samkeppninnar var háttað. Hvorki af hálfu Isavia ohf. né Miðbaugs ehf. hefur verið vísað til þess sérstaklega að nauðsynlegt sé að halda einkunnum síðarnefnda fyrirtækisins leyndum á grundvelli 9. gr. eða 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Sér úrskurðarnefndin því ekki hvaða sjónarmið kunna að réttlæta að synja kæranda um aðgang að einkunnunum á grundvelli 9. gr. eða 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga eftir því hvor lagagreinin á við. Verður Isavia ohf. því gert að að veita kæranda aðgang að einkunnum Miðbaugs ehf. í samkeppninni eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.
9.
Kærandi hefur óskað þess að fá aðgang að tillögu og fylgiskjölum Miðbaugs ehf. í samkeppni þeirri er mál þetta lýtur að. Kærandi var þátttakandi í tæknilegum hluta samkeppninnar og nær réttur hans samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga því til þessa hluta tillögu Miðbaugs ehf. Á hinn bóginn var kærandi ekki þátttakandi í fjárhagslegum hluta samkeppninnar og nýtur hann því réttar samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna til þess hluta tillögu Miðbaugs ehf.
Eins og að framan greinir var í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar 24. mars 2015 vísað til þess að þær upplýsingar sem fram kæmu í tillögu Miðbaugs væru um „starfsemi og fjárhagslega hagsmuni“ þess fyrirtækis. Þá innihéldi tillaga fyrirtækisins „ýmsar upplýsingar svo sem viðskiptaáætlun og fjárhagslegt tilboð“. Ekki var nánar tilgreint hvar í hinum umbeðnu gögnum þessar upplýsingar var að finna. Af bréfi Miðbaugs ehf. 4. maí 2015 til úrskurðarnefndarinnar má ráða að fyrirtækið telji að í hinum umbeðnu gögnum komi að þessu leyti fram viðkvæmar upplýsingar um einstakt rekstrarfyrirkomulag fyrirtækisins, en fyrirtækið sé eina gleraugnaverslunin í heiminum, svo vitað sé til, sem hafi markaðssett sig sem gleraugnaverslun með 15 mínútna sérsmíði á gleraugum á brottfararsvæði í alþjóðlegri flugstöð. Þar að auki fylgi tillögu fyrirtækisins mjög ítarlegar áætlanir um söluherferðir, fjárhagslegar áætlanir og söluáætlanir. Þá er vísað til þess að í „versta falli“ kunni afhending gagnanna að leiða til þess að rekstur Miðbaugs ehf. í Flugstöð Leifs Eiríkssonar leggist af með því fjárhagslega tjóni sem því myndi fylgja.
Tæknilegur hluti tillögu Miðbaugs ehf. er 31 blaðsíða. Auk inngangs og lýsingar á innihaldi tillögunnar koma á fyrstu átta síðum þessa hluta tillögunnar fram almennar upplýsingar um starfsemi Miðbaugs ehf. Á síðum níu til tólf er að finna lista yfir vörumerki sem boðin hafa verið til sölu í verslunum fyrirtækisins, myndir af verslunum og einkennisklæðnaði sölustarfsmanna. Að öðru leyti koma fram í gagninu sýnishorn af markaðsefni fyrirtækisins þar sem fram koma vörumerki og þjónusta sem í boði séu í verslun fyrirtækisins. Einnig er að finna yfirlýsingar af hálfu viðskiptaaðila Miðbaugs ehf. um að fyrirtækið sé umboðsaðili eða fulltrúi umræddra gleraugnaframleiðanda á Íslandi.
Að mati úrskurðarnefndarinnar eru gögnin fremur almenns eðlis. Þótt fram komi í tæknilegum hluta tillögunnar að Miðbaugur ehf. bjóði upp á sérstæða þjónustu að því er varðar sérsmíði á gleraugum á brottfararsvæði í alþjóðlegri flugstöð er þjónustunni ekki lýst þar frekar. Virðist raunar sem fyrirtækið sjálft hafi kynnt þjónustuna með sama hætti opinberlega í auglýsingaskyni. Fær úrskurðarnefndin því ekki séð að um sé að ræða viðskiptaleyndarmál sem heimilt sé að synja kæranda um aðgang að.
Að gefnum þeim forsendum sem úrskurðarnefndin hefur til að leggja mat á gögnin, í ljósi þeirra almennu sjónarmiða sem fram hafa komið af hálfu Isavia ohf. og Miðbaugs ehf., verður því ekki talið að tæknilegur hluti tillögu Miðbaugs ehf. innihaldi svo ítarlegar áætlanir að hætta sé á að fyrirtækið verði fyrir tjóni ef veittur verði aðgangur að honum. Kærandi hefur ríka hagsmuni af því að fá aðgang að upplýsingunum sem varða á verulegan hátt ráðstöfun opinberra gæða sem hann sjálfur sóttist eftir. Í ljósi þessa telur úrskurðarnefndin að Isavia ohf. hafi verið óheimilt að synja kæranda um aðgang að tæknilegum hluta tillögu Miðbaugs ehf.
Fjárhagslegur hluti tillögu Miðbaugs ehf. hefur að geyma mikilvægar fjárhagslegar upplýsingar er varða fyrirhugaðan rekstur fyrirtækisins sem byggja á áætlunum þess til fjögurra ára svo sem áætlaðar tekjur og kostnað. Þá koma fram tilboð fyrirtækisins um hlutfall sölutekna sem greitt verði í leigu og lágmarksfjárhæð leigugreiðslna. Um er að ræða viðkvæmar fjárhagslegar upplýsingar er varða fyrirhugaðan rekstur Miðbaugs ehf. á fríhafnarsvæði Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Ætla má að samkeppnisaðilar sem hefðu upplýsingarnar undir höndum fengju mikilvæga innsýn í rekstur Miðbaugs ehf. og ættu auðveldara með keppa við fyrirtækið á samkeppnismarkaði. Þótt tilvísanir Isavia ohf. og Miðbaugs ohf. til þessara upplýsinga séu fremur almennar og að einhverju marki sé óljóst hvernig opinberun gagnanna gæti leitt til tjóns fyrir Miðbaug ehf. telur úrskurðarnefndin nægjanlega sýnt fram á að umræddur hluti tillögu Miðbaugs ehf. hafi að geyma mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækisins. Verður því staðfest sú ákvörðun Isavia ohf. að synja kæranda um aðgang að blaðsíðum 4 til 6 í fjárhagslegum hluta tillögu Miðbaugs ehf. Verður ekki talið að þessi hluti tillögunnar innihaldi að öðru leyti upplýsingar sem rétt sé að leynt fari á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Verður Isavia ohf. því gert að afhenda gagnið eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurðarorð:
Isavia ohf. skal afhenda Gleraugnamiðstöðinni ehf. einkunnir og tillögu Miðbaugs ehf. í samkeppninni „Commercial Opportunities at Keflavik Airport“ að undanskildum blaðsíðum 4 til 6, að báðum síðum meðtöldum, í gagninu „Financial Proposal. Request for Proposal at Keflavik Airport. Stage 2“. Að öðru leyti er kæru Gleraugnamiðstöðvarinnar ehf. vísað frá úrskurðarnefndinni.
Þorgeir Ingi Njálsson
varaformaður
Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson