581/2015. Úrskurður frá 15. maí 2015
Úrskurður
Hinn 15. maí 2015 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 581/2015 í máli ÚNU 15010007.
Kæra, málsatvik og málsmeðferð
Með erindi sem barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál þann 19. janúar 2015 kærði A afstöðu Sparisjóðs Vestmannaeyja til gagnabeiðna sinna til sjóðsins, sem hann kvað úrskurðarnefndina hafa undir höndum. Með bréfi dags. 21. janúar 2015 var kæranda tilkynnt að nefndin hefði ekki undir höndum nein slík skjöl. Þann 30. janúar 2015 sagði kærandi að hans eintak hefði farið forgörðum og óskaði eftir því að úrskurðarnefndin leitaði til sparisjóðsins um afrit. Ritari úrskurðarnefndarinnar hafði samband við Sparisjóð Vestmannaeyja, sem sendi nefndinni upphaflegar gagnabeiðnir kæranda og svarbréf sparisjóðsins, dags. 30. janúar 2015.
Bréf kæranda til Sparisjóðs Vestmannaeyja eru fjögur talsins, en eiginlegar beiðnir um gögn og upplýsingar er að finna í bréfum dags. 18. desember 2014 og 5. janúar 2015. Í þeirri fyrrnefndu er óskað eftir upplýsingum um nöfn umsækjenda um starf sparisjóðsstjóra og starfslokasamning fráfarandi sparisjóðsstjóra. Eftir þeirri síðarnefndu er farið fram á upplýsingar um dagsetningu stjórnarfundar þar sem nýr sparisjóðsstjóri var ráðinn, stofnfjáreigendur sjóðsins og afkomu dóttursjóða.
Í svarbréfi Sparisjóðs Vestmannaeyja til kæranda, dags. 30. janúar 2015, kemur fram að sjóðurinn hafi móttekið framangreind bréf kæranda. Hvað fyrri beiðni kæranda varðar er tekið fram að stjórn hafi ákveðið að birta ekki nöfn umsækjenda um stöðu sparisjóðsstjóra. Ekki hafi verið gerður starfslokasamningur við fráfarandi sparisjóðsstjóra heldur hafi ákvæði ráðningarsamnings verið uppfyllt. Um síðari beiðni kæranda segir að skrifað hafi verið undir ráðningarsamning við núverandi sparisjóðsstjóra á stjórnarfundi þann 18. desember 2014. Tíu stærstu stofnfjáreigendur séu tilgreindir í ársreikningi Sparisjóðs Vestmannaeyja, sem aðgengilegur sé á heimasíðu sjóðsins. Sparisjóðurinn eigi ekki dótturfélög en varðandi fjárhagsupplýsingar vísist í ársreikninga sjóðsins á heimasíðu. Loks kemur fram að Sparisjóður Vestmannaeyja sé undanþeginn ákvæðum upplýsingalaga.
Kærandi ritaði úrskurðarnefndinni bréf þann 17. febrúar 2015 og ítrekaði kæru sína með vísan til eignarhalds Sparisjóðs Vestmannaeyja. Þann 20. apríl 2015 barst annað erindi frá kæranda þar sem fram kom að óskað væri eftir úrskurði þess efnis að hann gæti krafist gagna frá sjóðnum, sem Landsbankinn hefði yfirtekið. Um rök fyrir skyldunni vísaði kærandi til þess hver ætti meiri hluta í sjóðnum.
Niðurstaða
Samkvæmt 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er heimilt að bera undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál synjun á beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt þeim lögum. Samkvæmt 2. gr. taka lögin til allrar starfsemi lögaðila sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera. Það á bæði við um Sparisjóð Vestmannaeyja og Landsbankann hf., en fjármálafyrirtækin tvö voru sameinuð með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þann 29. mars 2015.
Í 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga segir:
Ef starfsemi lögaðila sem fellur undir 2. mgr. er að nær öllu leyti í samkeppni á markaði getur ráðherra, að fenginni tillögu hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórnar og umsögn Samkeppniseftirlitsins, ákveðið að hann skuli ekki falla undir gildissvið laga þessara eða dregið slíka ákvörðun til baka. Ráðuneytið skal halda opinbera skrá yfir þá lögaðila sem hafa fengið undanþágu samkvæmt málsgreininni, og skal undanþága einstakra aðila endurskoðuð á þriggja ára fresti. Ákvörðun samkvæmt þessari málsgrein tekur gildi við birtingu hennar í B-deild Stjórnartíðinda.
Á grundvelli þessarar heimildar hefur ráðherra birt tvær auglýsingar um undanþágur lögaðila frá upplýsingalögum, sbr. auglýsingar nr. 600/2013 og nr. 1211/2013. Sparisjóður Vestmanneyja og Landsbankinn hf. eru báðir meðal þeirra lögaðila sem þar eru nefndir. Upplýsingalög nr. 140/2012 taka því ekki til þeirra. Þegar af þeirri ástæðu er ekki unnt að skjóta afstöðu þessara aðila til gagnabeiðna kæranda til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá nefndinni.
Úrskurðarorð:
Beiðnum A um aðgang að upplýsingum og gögnum frá Sparisjóði Vestmannaeyja er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson