Hoppa yfir valmynd

Nr. 110/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 24. febrúar 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 110/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU21110032

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 9. nóvember 2021 kærði […], fd. […], ríkisborgari Trínidad og Tóbagó (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. október 2021, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 6. ágúst 2021. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. hinn 1. september 2021 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 21. október 2021, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 9. nóvember 2021. Kærunefnd barst greinargerð kæranda, ásamt fylgiskjölum, hinn 23. nóvember 2021. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála hinn 27. janúar 2022 ásamt talsmanni sínum. Viðbótargögn frá kæranda bárust kærunefnd dagana 1. og 9. febrúar 2022.

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til viðtala hans hjá Útlendingastofnun. Þar hafi kærandi greint frá því að vera fæddur og uppalinn í bænum […] í Trínidad og Tóbagó. Ættingjar kæranda væru upp til hópa hámenntað efnafólk og það hafi skipt þau miklu máli hvernig þau kæmu fyrir út á við. Móðir kæranda hafi starfað fyrir annan af tveimur stærstu stjórnmálaflokkum landsins, People‘s National Movement (PNM), sem nú fari fyrir ríkisstjórn landsins. Pólitískir fundir hafi oft verið haldnir á heimili fjölskyldunnar og þá hafi fjölskyldan t.a.m. þekkt forsætisráðherra landsins. Kærandi hafi greint frá því að fjölskylda sín hafi styrkt flokkinn fjárhagslega og beitt sér fyrir ýmsum pólitískum málefnum, m.a. hafi þau viljað þrengja enn frekar að réttindum LGBT+ einstaklinga í landinu með strangari lagasetningu. Fjölskylda kæranda sé öfgafull í kristinni trú sinni og móðir hans sé sjálfboðaliði innan kirkjunnar […]. Sjálfur sé kærandi trúlaus. Kærandi hafi lýst miklu andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi sem hann hafi orðið fyrir í heimaríki sínu frá unga aldri. Þegar kærandi hafi sagt móður sinni frá ofbeldinu hafi móðir hans sagt honum að hann gæti sjálfum sér um kennt. Brotin hefðu aldrei verið tilkynnt til lögreglu. Kæranda hafi einnig ítrekað verið nauðgað á heimili sínu af meðlimum gengja í hverfinu þar sem hann hafi búið, allt þar til hann hafi flúið landið í byrjun maí 2021. Er kærandi hafi verið um 17 eða 18 ára hafi hann farið að veikjast og hafi í framhaldinu verið greindur með HIV veiruna. Fjölskylda kæranda hafi meinað honum að taka nauðsynleg lyf vegna þessa, en þau hafi glaðst yfir þeim möguleika að losna við kæranda á þennan hátt. Kærandi hafi tekið lyf vegna veikinda sinna í leyni sem hann hafi keypt í Port of Spain.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi kærandi greint frá því að fjölskylda hans hafi talið að illur andi fylgdi honum vegna kynferðisbrotanna sem hann hafi orðið fyrir á dagheimili. Þá hafi hann einnig talað og borið sig öðruvísi en ætlast hafi verið til af honum. Sökum þess hafi kærandi verið sendur í meðferð við hinseginleika (e. conversion therapy) á vegum kirkjunnar er hann hafi verið 11 ára gamall. Þar hafi kærandi m.a. orðið fyrir pyntingum. Kærandi kveðst sjálfur hafa áttað sig á því að hann væri samkynhneigður um 13 ára aldur. Hann hafi verið þvingaður til að halda meðferðinni áfram þar til hann hafi verið um 16 eða 17 ára gamall, en þá hafi hann logið til um að hafa læknast til að komast hjá áframhaldandi meðferð. Fjölskylda kæranda hafi ítrekað látið hann skrifa undir ýmsa samninga, allt frá því að hann hafi verið 12 ára gamall. Samkvæmt þeim hafi hann ekki mátt tala um kynhneigð sína eða hvað um væri að vera á heimilinu. Þá hafi hann skrifað undir samning um að hann myndi ekki taka lyf við HIV veirunni. Bryti kærandi gegn þessum samningum yrði farið í mál við hann eða fjármunir dregnir úr sjóði í hans nafni. Fjölskylda kæranda hafi ráðið lækni til að meta hann geðveikan, auk þess sem lögfræðingur hafi búið þannig um hnútana að kærandi hafi verið metinn óhæfur til að sjá um sig sjálfur og hafi hann því verið áfram undir stjórn fjölskyldunnar eftir að hann hafi náð 18 ára aldri. Kærandi hafi sætt illri meðferð af hálfu móður sinnar, m.a. líkamlegu ofbeldi. Þá hafi hann verið þvingaður til að taka 5-6 töflur daglega sem hafi gert hann veikan. Kærandi hafi ekki vitað hvers konar töflur þetta hafi verið en þær hafi átt að „lækna“ hann. Því til viðbótar hafi fjölskylda kæranda fylgst með símanotkun hans, m.a. innihaldi símtala, en þau hafi haft tengsl við fjarskiptafyrirtæki á svæðinu.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi kærandi greint frá því að hafa í nokkur skipti reynt að tilkynna yfirvöldum um þá illu meðferð sem hann hafi orðið fyrir en að fjölskylda hans, sem hafi ítrekað greitt lögreglumönnum fjármuni, hafi séð til þess að ekkert yrði aðhafst í málum hans. Þá hafi kærandi jafnframt greint frá því að hann hafi hitt forsætisráðherra landsins í matarboði sem hafi sagt við kæranda að hann yrði að fara að fyrirmælum fjölskyldu sinnar og halda áfram þeirri meðferð sem hann væri í. Eftir að kæranda hafi tekist að flýja frá heimaríki sínu hafi hann fengið símtal frá ótilgreindum aðila sem hafi greint kæranda frá því að fé hafi verið sett til höfuðs honum og að hann yrði því myrtur ef hann sneri aftur til Trínidad og Tóbagó. Miklir fordómar séu í garð samkynhneigðra í heimaríki kæranda. Þar verði samkynhneigðir karlmenn fyrir aðkasti og ofbeldi og hafi t.a.m. vinur kæranda verið myrtur vegna kynhneigðar sinnar. Þá sé litið niður á þá sem séu með HIV og mikil fáfræði sé á því sviði, t.a.m. ráði vinnustaðir almennt ekki einstaklinga með HIV þrátt fyrir að lög kveði á um að ekki megi mismuna á þeim grundvelli.

Í greinargerð kæranda eru gerðar ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar. Telur kærandi m.a. að ósanngjörn sönnunarbyrði hafi verið lögð á hann og að skortur hafi verið á rökstuðningi í ákvörðun stofnunarinnar. Þá mótmælir kærandi þeirri staðhæfingu Útlendingastofnunar að kærandi hafi ekki borið fyrir sig að hann hafi sjálfur upplifað mismunun á grundvelli veikinda sinna, en hann hafi greint frá því að einstaklingar í heimaríki hans þurfi alla jafna að sýna fram á heilbrigðisvottorð þegar þeir sæki um störf. Ef fram komi á slíku vottorði að viðkomandi sé smitaður af HIV sé útilokað fyrir hann að fá vinnu. Þá bendir kærandi á að kynferðisbrota- og innflytjendalögum landsins sé ekki fylgt í framkvæmd. Ekki sé nóg að breyting verði á lögum (de jure) heldur sé raunveruleg breyting (de facto) áskilin. Vísar kærandi m.a. til leiðbeiningarsjónarmiða Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna nr. 9 máli sínu til stuðnings.

Í greinargerð kæranda er fjallað um almennar aðstæður og ástand mannréttindamála í Trínidad og Tóbagó. Meðal þess sem fjallað er um er staða samkynhneigðra í ríkinu, þ. á m. meðferðir við hinseginleika, og stöðu einstaklinga með HIV. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi m.a. til alþjóðlegra skýrslna.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður hér á landi, samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Hann eigi á hættu ofsóknir vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi sem samkynhneigður karlmaður, sem og vegna samsafns athafna. Kærandi hafi sætt miklu andlegu og líkamlegu ofbeldi frá unga aldri. Hafi hann m.a. verið látinn undirgangast meðferð við hinseginleika um árabil sökum þess að fjölskylda hans hafi talið hann vera samkynhneigðan. Sú meðferð hafi falið í sér pyntingar líkt og raflostmeðferð, auk þess sem hann hafi verið skorinn á hönd með glerbroti og dúk komið fyrir á andliti hans og vatni hellt yfir. Þá hafi hann verið beittur ofbeldi af fjölskyldu sinni og orðið fyrir aðkasti og fordómum í heimaríki sínu. Í þessu samhengi vísar kærandi m.a. til leiðbeininga Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna nr. 9. Þá sé ljóst að þótt samkynhneigð sé ekki beinlínis bönnuð berum orðum samkvæmt lögum þar í landi þá séu enn til staðar lagaákvæði sem gefi til kynna að LGBT+ einstaklingar séu réttlægri en aðrir. Jafnvel þótt dómur hafi gengið um að ákvæði sem leggi refsingu við kynlífi tveggja karlmanna stangist á við stjórnarskrá landsins hafi yfirvöld gefið út að beðið sé niðurstöðu áfrýjunardómstóls áður en samkynhneigðum verði veitt frekari réttindi. Þá hafi ekki orðið raunveruleg breyting þrátt fyrir framangreindan dóm, en fordómar séu enn rótgrónir í samfélaginu. Íbúar Trínidad og Tóbagó séu upp til hópa trúræknir og trúarleiðtogar landsins hafi barist ötullega gegn auknum réttindum til handa samkynhneigðum þar í landi. Þá séu meðferðir við hinseginleika framkvæmdar í landinu, ýmist af trúarlegum leiðtogum, einkaaðilum eða hinu opinbera. Kærandi hafi greint frá því að vinur hans, […], hafi verið myrtur þar í landi árið 2021 vegna kynhneigðar sinnar og vísar kærandi til fréttagreina um málið því til stuðnings. Þá telur kærandi mikilvægt að tekið sé tillit til þeirrar stöðu sem skapast hafi í máli kæranda og að litið sé heildstætt á aðstæður hans. Telur kærandi að staða hans sé þannig að samkvæmt skilgreiningu samsafns athafna jafngildi hún ofsóknum samkvæmt 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þeir sem standi að baki ofsóknunum séu aðilar sem falli undir a- og c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, þ.e. yfirvöld og aðrir aðilar sem ekki fari með ríkisvald, m.a. fjölskylda kæranda og gengjameðlimir í heimaríki hans.

Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefst kærandi þess til vara að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi eigi á hættu að sæta ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð vegna kynhneigðar sinnar og veikinda verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Auk þess sem að framan hafi verið rakið hafi kærandi mátt þola mikið kynferðislegt ofbeldi frá því hann hafi verið þriggja ára gamall. Yfirvöld hafi ekki aðhafst neitt til að aðstoða hann. 

Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks dvalarleyfis þegar útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Kærandi vísar m.a. til athugasemda við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga. Þar komi fram að með erfiðum almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og tekið sem dæmi viðvarandi mannréttindabrot og sú aðstaða að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Í greinargerð kæranda kemur fram að öryggisástand sé ótryggt í Trínidad og Tóbagó, t.a.m. sé skipulögð glæpastarfsemi útbreidd í landinu og ofbeldistíðni há. Þá eigi kærandi ekkert bakland í heimaríki sínu, en fjölskylda hans hafi beitt hann miklu ofbeldi frá unga aldri. Kærandi hafi einungis lokið grunnmenntun, auk þess sem HIV smitaðir einstaklingar líkt og kærandi eigi erfitt uppdráttar þar í landi. Þá glími kærandi jafnframt við geðhvarfasýki. Þegar aðstæður kæranda séu metnar heildstætt sé ljóst að almennar og félagslegar aðstæður hans í heimaríki séu erfiðar og að hann geti ekki treyst á aðstoð eða vernd stjórnvalda þar í landi. 

Kærandi telur að með endursendingu hans til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingu, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað trínidadísku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé trínidadískur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Trínidad og Tóbagó m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Amnesty International Report 2020/21; The State of the World's Human Rights; Trinidad and Tobago 2020 (Amnesty International, 7. apríl 2021);
  • Annual Report 2020 – Chapter IV.A: Human Rights Development in the Region (IACHR – Inter-American Commission on Human Rights, 2021);
  • BTI 2020 Country Report Trinidad and Tobago (Bertelsmann Stiftung, 29. apríl 2020);
  • Compilation on Trinidad and Tobago; Report of the Office of the United Nations High Commissioner for Human Rights [A/HRC/WG.6/39/TTO/2] (HRC, 26. ágúst 2021);
  • Country Cooperation Strategy at a glance (World Health Organization, maí 2018);
  • Equality Index: LGBT Rights in Trinidad and Tobago (Equaldex, skoðað 16. febrúar 2022);
  • Freedom in the World 2021: Trinidad and Tobago (Freedom House, 2021);
  • Human Rights in the Americas. Review of 2019 - Trinidad and Tobago [AMR 01/1353/2020] (Amnesty International, 27. febrúar 2020);
  • It’s Torture Not Therapy – A Global Overview of Conversion Therapy: Practices, Perpetrators, And the Role of States (International Rehabilitation Council for Torture Victims (IRCT), 2020);
  • PAHO/WHO Trinidad and Tobago Country Cooperation Strategy Report 2017-2021 (Pan American Health Organization/World Health Organization, 28. febrúar 2017);
  • Safety and Security – Trinidad and Tobago (UK Home Office, skoðað 18. febrúar 2022);
  • State-Sponsored Homophobia 2020: Global Legislation Overview Update (ILGA World, 15. desember 2020);
  • The World Factbook – Trinidad and Tobago (CIA, uppfært 15. febrúar 2022);
  • Trinidad & Tobago 2020 Crime & Safety Report (OSAC, 29. apríl 2020);
  • Trinidad and Tobago 2020 Human Rights Report (U.S. State Department, 30. mars 2021);
  • Trinidad and Tobago: Situation and treatment of sexual minorities; state protection and support services; whether Sections 13 and 16 of the Sexual Offences Act and Section 8(1)(e) of the Immigration Act are enforced (2011-July 2015) (Immigration and Refugee Board of Canada, 17. ágúst 2015) og
  • Upplýsingasíða John Hopkins University: Trinidad and Tobago Covid-19 Overview (https://coronavirus.jhu.edu/region/trinidad-and-tobago, skoðað 24. febrúar 2022).

Trínidad og Tóbagó er lýðveldi með þingbundinni stjórn og rúmlega 1,2 milljón íbúa. Ríkið gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum hinn 18. september 1962. Ríkið fullgilti bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1978. Árið 1990 gerðist ríkið aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum. Þá fullgilti ríkið samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1991 og alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1973. Trínidad og Tóbagó gerðist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna hinn 10. nóvember árið 2000.

Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2021 hefur varnarmálaráðuneyti landsins umsjón með lögreglu-, innflytjenda- og varnarmálayfirvöldum. Yfirvöld í Trínidad og Tóbagó hafi verið með skilvirka stjórn yfir öryggissveitum landsins. Meðal helstu mannréttindabrota í ríkinu séu ólögmæt og handahófskennd morð af hálfu lögreglu, ólögmætar endursendingar umsækjenda um alþjóðlega vernd og alvarleg tilvik um spillingu. Yfirvöld hafi tekið skref í áttina að því að greina, rannsaka, ákæra og refsa embættismönnum eða fulltrúum sem hafi framið mannréttindabrot en refsileysi hafi viðgengist, m.a. vegna tafa í málsmeðferð sakamála.

Samkvæmt skýrslu IACHR frá 2021 hafa yfirvöld í ríkinu náð árangri á undanförnum misserum í umbreytingu dómskerfisins og m.a. brugðist við miklum töfum við meðferð sakamála. Í apríl 2020 hafi dómsmálaráðherra komið á fót ríkissaksóknaraembætti (e. Public Defenders Department) sem m.a. hafi það hlutverk að annast sakamál fyrir Hæstarétti landsins og veita ráðgjöf til hlutaðeigandi aðila. Samkvæmt framangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins mæli lög í Trínidad og Tóbagó fyrir um rétt aðila til réttlátrar málsmeðferðar og hafi sá réttur almennt verið virtur af sjálfstæðum dómstólum landsins. Þá njóti íbúar landsins félaga-, funda- og tjáningarfrelsis og sé það almennt virt af yfirvöldum.

Í framangreindri skýrslu IACHR kemur fram að meðal helstu áskoranna sem ríkið standi frammi fyrir sé aukning í dauðsföllum af völdum lögreglumanna, beiting svokallaðra meðferða við kynhneigð (e. conversion therapies) og slæm aðstaða einstaklinga í varðhaldi. Í landinu sé þó starfandi eftirlitsstofnun, the Police Complaints Authority, sem sett hafi verið á laggirnar árið 2006 og hafi það hlutverk að rannsaka kvartanir gegn lögreglumönnum sem sakaðir hafi verið um glæpi, spillingu eða misbeitingu í starfi. Þá sé starfandi embætti umboðsmanns í landinu (e. Office of the Ombudsperson). Ekki sé þó til opinber vefsíða fyrir embættið og upplýsingar um embættið séu af skornum skammti. Í framangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að hlutverk umboðsmanns sé að rannsaka kvartanir almennings vegna stjórnvaldsákvarðana. Þegar brot teljist sannað geti umboðsmaður sent málið til baka til viðkomandi stjórnvalds. Embætti umboðsmanns sé sjálfstætt og birti m.a. ítarlega skýrslu árlega um stöðu mannréttinda í landinu og beri almenningur og yfirvöld mikið traust til embættisins og skýrslnanna.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2021 kemur fram að kynferðislegar athafnir milli einstaklinga af sama kyni séu refsiverðar í Trínidad og Tóbagó. Þó kemur fram að lögunum hafi almennt ekki verið framfylgt af hálfu yfirvalda. Dæmi séu þó um áreitni og hótanir í garð hinsegin einstaklinga í landinu en þolendur hafi veigrað sér við að vekja athygli á því. Samkvæmt stuðli Equaldex fyrir réttindi hinsegin einstaklinga skorar Trínidad og Tóbagó 41 stig af 100 mögulegum, þar sem 100 stig tákna fullt jafnrétti. Meðal þess sem hafi áhrif á stigagjöfina sé skortur á vernd gegn mismunun fyrir hinsegin einstaklinga, m.a. á sviði húsnæðis- og atvinnumála. Sérstaklega sé tekið fram í jafnréttislögum landsins frá árinu 2000 að vernd gegn mismunun nái ekki yfir hinsegin einstaklinga. Þá sé hjónaband samkynhneigðra ekki viðurkennt í landinu samkvæmt skýrslu ILGA World frá 2020. Samkvæmt landaupplýsingum Freedom House frá 2021 er mismunun gagnvart hinsegin einstaklingum útbreidd í Trínidad og Tóbagó og hafi hún m.a. áhrif á getu þeirra einstaklinga til að taka þátt í stjórnmálum og kosningum í landinu. Í skýrslu IACHR kemur fram að borgaraleg samtök í ríkinu hafi lýst yfir áhyggjum vegna skorts á athygli og umræðu á pólitískum vettvangi um mannréttindi hinsegin einstaklinga. IACHR hafi borist upplýsingar frá ríkinu um svokallaðar „bælingarmeðferðir“ eða meðferðir við kynhneigð sem almennt séu stundaðar í leyni. Þær brjóti alvarlega gegn mannréttindum hinsegin einstaklinga og valdi þeim andlegum, líkamlegum og kynferðislegum skaða vegna tilrauna við að „leiðrétta“ kynhneigð þeirra, kynvitund og tjáningu þeirra. Í skýrslu Amnesty International frá 2021 kemur fram að yfirvöld í Trínidad og Tóbagó hafi áfram staðið í áfrýjunarferli tímamótadóms Hæstaréttar ríkisins frá árinu 2018 (Jason Jones v. Attorney General of Trinidad and Tobago) þar sem lagaákvæði, sem mælti fyrir um að kynferðisleg athöfn milli einstaklinga af sama kyni væri refsiverður verknaður, hafi verið talið brjóta í bága við stjórnarskrá landsins. Yfirvöld hafi gefið til kynna að þau hygðust láta æðsta áfrýjunardómstól landsins, réttarfarsnefndina Privy Council í Bretlandi, taka málið fyrir. Við breytingu á lögum sem fjalli um heimilisofbeldi hafi ríkisstjórnin af ásettu ráði ákveðið að gildissvið laganna skyldi ekki ná til samkynhneigðra para, þrátt fyrir tillögur þar um. Dómsmálaráðherra hafi gefið til kynna að ríkisstjórnin hygðist bíða eftir niðurstöðu réttarfarsnefndarinnar í framangreindu dómsmáli áður en hinsegin einstaklingum yrði veitt vernd á öðrum sviðum.

Samkvæmt skýrslu WHO frá 2018 fer heilbrigðiseftirlit landsins með eftirlit með heilbrigðiskerfinu. Það gegni m.a. lykilhlutverki í að tryggja að allar stofnanir sem veiti heilbrigðisþjónustu eða framleiði heilbrigðisvörur uppfylli tiltekna öryggisstaðla. Ríkisborgarar landsins eigi rétt á endurgjaldslausri heilbrigðisþjónustu sem fjármögnuð sé af ríkinu. Þá hafi heilbrigðisráðuneyti landsins virkjað sérstaka áætlun, the Chronic Disease Assistance Programme (CDAP), sem tryggi langveikum einstaklingum lyf, þeim að endurgjaldslausu, bæði í opinberum og einkareknum apótekum. Starf heilbrigðisráðuneytisins sé stutt í gegnum samstarf við bæði svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir og frjáls félagasamtök sem veiti ráðgjöf, þjálfun og leiðsögn, s.s. WHO og aðrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðabankann, neyðaráætlun Bandaríkjaforseta um alnæmi (PEPFAR) og Evrópusambandið. Samkvæmt skýrslu IACHR kom heilbrigðisráðuneyti Trínidad og Tóbagó á fót áætlun til að takast á við heimsfaraldur af völdum Covid-19. Yfirvöld hafi jafnframt komið á fót efnahagslegum aðgerðum til að styrkja fólk sem búi við erfiðar félagslegar aðstæður.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2021 kemur fram að einstaklingar í landinu með HIV eða alnæmi standi frammi fyrir þrálátum fordómum, þá sérstaklega einstaklingar sem séu í áhættuhópum. Ekki er útskýrt nánar í skýrslunni í hvaða tilfellum einstaklingar teljist vera í áhættuhópum. Fordómar hafi m.a. skapað hindranir á aðgengi hinsegin einstaklinga að forvarnar- og meðferðarúrræðum. Þá mæli lög ekki fyrir banni gegn mismunun á grundvelli HIV. Í landinu sé starfrækt sérstök deild sem sjái um málefni tengd HIV og alnæmi og hafi hún m.a. séð um að samræma viðbrögð við sjúkdómnum á landsvísu. Þá hafi verið ráðinn tengiliður fyrir þennan málaflokk í öllum ráðuneytum landsins til að tryggja samræmd viðbrögð í mismunandi geirum. Samkvæmt skýrslu PAHO/WHO er HIV greining og meðferð endurgjaldslaus og er meðferðin aðgengileg á allt að 64 stöðum í landinu.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðsambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019) ásamt leiðbeiningum stofnunarinnar nr. 9 er lýtur að umsóknum einstaklinga um alþjóðlega vernd byggða á kynhneigð og kynvitund. Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir umsókn sína á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna kynhneigðar sinnar, sem og vegna samsafns athafna. Kærandi hafi verið beittur kynferðisofbeldi frá barnsaldri og verið sendur í bælingarmeðferð af fjölskyldu sinni vegna kynhneigðar sinnar þar sem hann hafi m.a. sætt pyndingum. Kærandi sé jafnframt greindur með HIV sem rekja megi til kynferðisbrota gegn honum. Þá hafi verið sett fé til höfuðs kæranda og því verði hann myrtur fari hann aftur til heimaríkis síns.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, viðtali hjá kærunefnd hinn 27. janúar 2022, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda. Kærunefnd telur ekki ástæðu til annars en að leggja til grundvallar að kærandi sé samkynhneigður. Þá verður lagt til grundvallar að kærandi sé greindur með HIV.

Við meðferð málsins hjá bæði Útlendingastofnun og kærunefnd lagði kærandi fram mikið magn gagna, m.a. heilsufarsgögn, skriflegan vitnisburð sinn, vinkonu sinnar, […], og manns sem kærandi kveður vera leiðbeinanda sinn, […], um ástæður flótta hans frá heimaríki og aðstæður hans þar í landi. Þá lagði kærandi fram skjáskot af samskiptum sínum við leiðbeinanda sinn, afrit af ljósmynd sem ráða má að sé auglýsing fyrir kirkjuna […] og ljósmynd af konu og manni sem kærandi kveður vera sóknarpresta. Þá bárust kærunefnd tölvubréf milli talsmanns kæranda og framangreindrar vinkonu kæranda, […], og bréf frá ráðgjafa Samtakanna 78. Stór hluti þeirra gagna sem kærandi hefur lagt fram máli sínu til stuðnings, m.a. vitnisburðir […] og […], grundvallast að mörgu leyti á vitnisburði kæranda sjálfs um atvik sem hann hefur greint frá að hafi átt sér stað í heimaríki og verða þau gögn metin með hliðsjón af því.

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindi kærandi m.a. frá því að fjölskylda hans hafi sent hann í svokallaða bælingarmeðferð vegna kynhneigðar sinnar. Í efnisviðtali hjá stofnuninni kvaðst kærandi hafa verið í meðferðinni frá 11 eða 12 ára aldri og verið til 16 eða 17 ára aldurs, en þá hafi hann þóst vera læknaður til að sleppa úr meðferðinni þar sem hann hafi ekki þolað hana lengur. Það hafi glatt fjölskyldu hans sem hafi trúað því fyrst um sinn og tekið kæranda úr meðferðinni. Kærandi hafi enn þurft að fylgja tilteknum reglum og hafi honum t.a.m. verið bannað að tala um kynhneigð sína og meðferðina.

Í viðtali hjá kærunefnd var kærandi spurður nánar út í bælingarmeðferðina og hve lengi hann hafi verið í henni. Kærandi kvaðst hafa verið í meðferðinni þar til hann hafi yfirgefið heimaríki sitt árið 2020, en með vísan til fæðingardags kæranda var hann þá á […] aldursári. Samrýmist það ekki framburði hans hjá Útlendingastofnun. Kærandi var jafnframt spurður hvort hann hafi þóst vera læknaður af kynhneigð sinni, líkt og hann greindi frá í viðtali hjá Útlendingastofnun. Kærandi kvaðst þá hafa reynt það, t.a.m. hafi hann farið að gera og segja tiltekna hluti sem hafi þóknast fjölskyldu hans í þeirri von að hún myndi hætta að beita hann ofbeldi. Það hafi hins vegar ekki virkað sem skyldi og hafi fjölskylda hans orðið reiðari og grimmari í hans garð og því hafi hann hætt að þykjast vera læknaður. Í ljósi framburðar kæranda í viðtali hjá Útlendingastofnun, um að hann hafi verið tekinn úr meðferðinni eftir að hafa þóst vera læknaður, var kærandi spurður hvort hann hafi á einhverjum tímapunkti hætt í bælingarmeðferðinni. Kærandi kvaðst ekki hafa hætt í meðferðinni fyrr en hann hafi flúið heimaríki sitt.

Í ljósi framburðar kæranda um að hann hafi verið í meðferðinni til ársins 2020, eða þar til hann hafi yfirgefið heimaríki sitt, var hann beðinn um að skýra frá því í viðtali hjá kærunefnd á hvaða tímapunkti hann hafi getað sótt um störf í heimaríki sínu, sem hann kvaðst hafa gert án árangurs vegna kynhneigðar sinnar og HIV veikinda. Kærandi svaraði því að breytingar hefðu orðið á meðferðinni hans þegar hann hafi náð tilteknu námsstigi í skólanum, en þá hafi hann fengið að mæta sjaldnar í meðferðina og í styttri tíma í senn. Þegar hann hafi náð umræddu námsstigi hafi hann óskað eftir því við skólann að fá að vera í tímum frá morgni til kvölds í þeim tilgangi að sleppa við meðferðina. Í kjölfar þeirra breytinga hafi meðferðin verið takmörkuð, en í stað þess að mæta alla daga vikunnar hafi kærandi mætt u.þ.b. fjóra til fimm daga vikunnar og í styttri tíma hverju sinni. Sú breyting sem hafi orðið á meðferðinni hafi komið til sökum þessara miklu breytinga í skólanum.

Að mati kærunefndar er framburður kæranda, sem að framan hefur verið rakinn, talsvert óstöðugur og mótsagnakenndur. Líkt og lýst hefur verið að framan er kærandi m.a. tvísaga um það hvort, og þá hvenær, hann hafi hætt í meðferðinni á einhverjum tímapunkti. Þá er kærandi jafnframt tvísaga um tildrög þess að bælingarmeðferðin hafi endað. Kvaðst hann annars vegar hafa verið í meðferðinni til 16 eða 17 ára aldurs og hins vegar að hann hafi ekki hætt í meðferðinni, þ.e. ekki fyrr en hann hafi yfirgefið heimaríki sitt árið 2020, þá […] ára gamall. Þá greindi kærandi annars vegar ítarlega frá því að hafa hætt í meðferðinni eftir að hafa þóst vera læknaður, þá 16 eða 17 ára gamall, og hins vegar að hann hafi farið að mæta sjaldnar í meðferðina þegar hann hafi verið orðinn 18 eða 19 ára gamall vegna breytts fyrirkomulags í skólanum hans. Að mati kærunefndar er um að ræða ólíkar og óskyldar frásagnir kæranda um upplifun hans af umræddri bælingarmeðferð. Að mati kærunefndar verður að telja óeðlilegt og ótrúverðugt að kærandi sé, þegar á heildina er litið, margsaga um upplifun sína af umræddri bælingarmeðferð, þar sem hann kveðst m.a. hafa orðið fyrir pyndingum og öðru alvarlegu ofbeldi. Dregur það að mati kærunefndar talsvert úr trúverðugleika kæranda þar sem framangreint misræmi fellur nærri kjarna frásagnar hans. Kærandi hefur þá ekki lagt fram nein gögn sem sýna fram á tilvist bælingarmeðferðarinnar, sem hann kveður hafa farið fram í húsnæði í skóglendi. Þá kvaðst kærandi ekki geta lagt fram afrit af lögregluskýrslum vegna meðferðarinnar, þrátt fyrir að hafa að eigin sögn farið oft til lögreglunnar vegna bælingarmeðferðarinnar og þeirrar meðferðar sem hann kvaðst hafa þurft að þola af hálfu fjölskyldu sinnar og annarra aðila. Kærandi kvaðst jafnframt ekki geta lagt fram nein samskipti við fjölskyldumeðlimi sína eða gögn sem sýni fram á tilvist þöggunarsamninganna sem hann kvað fjölskyldu sína hafa neytt hann til að skrifa undir, m.a. í sambandi við meðferðina. Að mati kærunefndar verður ekki hjá því komist að horfa til þess misræmis sem er að finna í framburði kæranda varðandi meðferðina og skort á gögnum sem styðja við framburð hans. Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að frásögn kæranda um að hann hafi verið í bælingarmeðferð í heimaríki sínu vegna kynhneigðar sinnar sé ótrúverðug og verður því ekki byggt á henni við úrlausn málsins.

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun og kærunefnd greindi kærandi frá því að hafa verið beittur kynferðisofbeldi frá barnsaldri. Kvað kærandi kynferðisofbeldið hafa byrjað þegar hann hafi verið þriggja ára gamall. Hann hafi verið í daggæslu og þar hafi honum verið nauðgað af fimm mönnum. Hann hafi sagt móður sinni frá því en hún hafi svarað því að atvikið væri honum að kenna og ekki aðhafst neitt í málinu. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvað kærandi kynferðisofbeldið hafa haldið áfram þegar hann hafi byrjað í grunnskóla, sem samkvæmt landaupplýsingum er við fimm ára aldur. Þá hafi hann yfirleitt verið einn heima og hafi gengjameðlimir komið inn á heimili hans og nauðgað honum. Í viðtali hjá kærunefnd kvað kærandi hins vegar móður sína hafa staðið að baki nauðgununum af hálfu gengjameðlimanna í þeim tilgangi að refsa kæranda fyrir kynhneigð hans. Hann kvað móður sína stundum hafa orðið vitni að nauðgununum og sagt við kæranda að svona hlutir fylgdu því að vera samkynhneigður. Að mati kærunefndar stangast sú frásögn kæranda, að gengjameðlimir hafi mætt heim til hans og nauðgað honum frá því hann hafi verið fimm ára gamall, á við framburð hans hjá kærunefnd um að móðir hans hafi staðið að baki nauðgununum til að refsa honum fyrir kynhneigð hans, enda telur kærunefnd fjarstæðukennt að vitneskja móður kæranda um kynhneigð hans hafi verið til staðar við svo ungan aldur kæranda og að hún hafi brugðist við slíkri vitneskju með því að biðja gengjameðlimi um að nauðga kæranda. Sjálfur kveðst kærandi jafnframt hafa fyrst áttað sig á því að hann væri samkynhneigður þegar hann hafi verið þrettán ára gamall.

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun og kærunefnd var talsvert ósamræmi í framburði kæranda varðandi tímalínu kynferðisbrotanna. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvað kærandi nauðgunarbrotin af hálfu gengjameðlima hafa átt sér stað í hverri viku þar til hann hafi verið settur í bælingarmeðferð, þá 11 ára gamall. Hann kvaðst ekki vita hversu oft í viku eða mánuði brotin hafi átt sér stað. Síðar í sama viðtali hjá Útlendingastofnun, sem og í viðtali hjá kærunefnd, kvað kærandi brotin hafa átt sér stað daglega þar til um viku áður en hann hafi flúið heimaríki sitt. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvað kærandi brotin yfirleitt hafa átt sér stað frá því um klukkan eitt til þrjú á næturnar á því tímabili sem hann hafi verið í meðferðinni. Í viðtali hjá kærunefnd kvað kærandi hins vegar brotin hafa átt sér stað þegar hann hafi komið heim úr meðferðinni á kvöldin. Kvaðst kærandi vita að hann hafi komið heim úr meðferðinni um klukkan tíu eða ellefu á kvöldin því þá hafi móðir hans verið að horfa á tíufréttir í sjónvarpinu. Kvað kærandi móður sína hafa setið í sófanum og leyft gengjameðlimum að koma inn og nauðga honum. Aðspurður hver viðbrögð annarra í húsinu hafi verið kvað kærandi systur sína hafa verið inni í herberginu sínu og jafnframt hafi frændi hans stundum setið í sófanum og horft á íþróttir á meðan brotin hafi átt sér stað. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi yfirleitt hafa verið einn heima á daginn, eftir að hann hafi hætt í meðferðinni um 16 eða 17 ára aldur í kjölfar þess að hafa þóst vera læknaður, og hafi gengjameðlimirnir þá mætt inn á heimilið og nauðgað honum. Í viðtali hjá kærunefnd kvaðst kærandi hins vegar aldrei hafa hætt í meðferðinni og verið í skólanum frá morgni til kvölds. Að mati kærunefndar er framburður kæranda mótasagnakenndur, óstöðugur og á köflum ýkjukenndur. Þá telur kærunefnd ólíklegt og ótrúverðugt að heimili kæranda hafi ávallt verið ólæst og staðið opið fyrir glæpahópum, einkum í ljósi frásagnar kæranda um að fjölskylda hans hafi verið efnuð. Þau gögn sem kærunefnd hefur skoðað benda til þess að umsvif glæpahópa séu mikil í heimaríki kæranda og íbúar almennt hvattir til að sýna aðgæslu. Með vísan til þess sem að framan er rakið og almenns trúverðugleika kæranda er það mat kærunefndar að frásögn kæranda, um að hann hafi daglega verið beittur kynferðisofbeldi á heimili sínu af hálfu gengjameðlima, ótrúverðug og verður hún ekki lögð til grundvallar í málinu.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að búið væri að setja fé til höfuðs honum í Trínidad og Tóbagó og hann yrði því myrtur ef hann færi þangað aftur. Kærandi var spurður í viðtali hjá Útlendingastofnun hvernig hann hafi frétt af fénu. Kærandi kvaðst hafa frétt af því í gegnum óvænt símtal. Aðilinn í símanum hafi sagst vita hver kærandi væri og greint honum frá því að fé hafi verið sett honum til höfuðs. Jafnframt hafi hann greint kæranda frá því að hann yrði drepinn færi hann aftur til heimaríkis og síðan hafi verið skellt á. Í viðtali hjá kærunefnd var kærandi beðinn um að lýsa því hvernig hann hafi frétt af verðlaunafénu. Kærandi kvaðst tvívegis í viðtalinu hafa frétt það frá vinkonu sinni í Flórída, en hún hafi fengið símtal frá systur kæranda sem hafi greint henni frá því. Kæranda var þá bent á framangreindan framburð hans hjá Útlendingastofnun þar sem hann kvaðst hafa frétt af verðlaunafénu í gegnum óvænt símtal frá óþekktum aðila. Kærandi gekkst ekki við þeim framburði og gaf þá skýringu að mögulega hefði verið ranglega haft eftir honum hjá Útlendingastofnun. Hann hafi reglulega þurft að gera pásu á frásögn sinni í viðtalinu og líklegast væri um rangtúlkun að ræða.

Í ljósi framangreinds óskaði kærunefnd eftir hljóðupptöku af viðtalinu við kæranda hjá Útlendingastofnun. Á hljóðupptökunni heyrist kærandi m.a. greina frá því að hafa fengið óvænt símtal frá óþekktum aðila þegar hann hafi dvalið hjá vinkonu sinni í Flórída. Hann kvað vinkonu sína hafa farið með litlu frænku sína (e. „niece“) í ballett- eða sundtíma og því hafi hann svarað símanum. Aðilinn í símanum hafi spurt hvort hann væri [...] og kærandi hafi játað því. Aðilinn hafi þá sagst vita hver hann væri, hvar hann byggi í heimaríki og í hvaða skóla hann hafi gengið. Þá hafi aðilinn greint kæranda frá því að búið væri að setja fé honum til höfuðs og að hann yrði myrtur ef hann færi aftur til heimaríkis. Aðilinn hafi síðan skellt á, en kærandi kvaðst ekki hafa fengið fleiri símtöl eftir þetta.

Í viðbótargögnum sem kærunefnd bárust frá kæranda hinn 1. febrúar 2022 var m.a. að finna tölvubréfssamskipti milli kæranda og talsmanns hans um framangreinda hljóðupptöku þar sem kærandi var beðinn um að útskýra misræmi milli hennar og framburðar hans í viðtali hjá kærunefnd. Í ljósi þess taldi kærunefnd ekki nauðsynlegt að óska eftir skýringum sjálf og leit svo á að kærandi hafi fengið tækifæri til að andmæla samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga. Í skýringum kæranda kom m.a. fram að hann myndi eftir því að vinkona sín hafi greint honum frá stöðunni þar sem hún hafi fengið símtalið. Jafnframt kvað kærandi vinkonu sína hafa gefið sér amerískt símakort í hennar nafni sem hann hafi notað á meðan hann hafi verið í Bandaríkjunum. Hann kvaðst hafa verið kvíðinn og taugaóstyrkur í viðtalinu hjá Útlendingastofnun og hafi reglulega þurft að gera pásu á frásögn sinni. Hann hafi fyrst í viðtalinu hjá kærunefnd getað tjáð sig af meiri dýpt. Loks tók kærandi fram að vinkona hans sé sú sem hafi fengið símtalið frá systur hans og að hún gæti greint frekar frá því þar sem hún hafi átt þetta símtal.

Að mati kærunefndar eru skýringar kæranda ótrúverðugar og ekki til þess fallnar að skýra framangreint misræmi í frásögn hans. Um er að ræða tvær mismunandi og óskyldar frásagnir af hálfu kæranda um það hvernig hann hafi frétt af umræddu fé. Kærandi hefur ekki veitt haldbærar skýringar á því hvers vegna hann greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hafa fengið símtal frá óþekktum aðila sem hafi hótað honum. Ekki verður fallist á það að kærandi hafi verið að lýsa símtali sem vinkona hans hafi fengið og sagt honum frá, enda kvað kærandi aðilann í símanum hafa spurt hvort hann væri að tala við Joshua Lewis og kærandi hafi játað því og spurt hvernig hann gæti aðstoðað viðkomandi. Kærandi lagði fram bréf, eftir viðtal sitt hjá kærunefnd, með vitnisburði vinkonu sinnar, […], þar sem síðari frásögn kæranda, um að hún hafi fengið símtal frá systur kæranda um féð, er staðfest. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að misræmi í framburði kæranda dragi bæði úr trúverðugleika frásagnar hans og úr trúverðugleika vitnisburðar vinkonu hans, enda stangast vitnisburður hennar á við fyrri frásögn kæranda sem ekki hafa verið veittar haldbærar skýringar á. Vitnisburður vinkonu kæranda, sem kærunefnd hefur borist tvö bréf frá, hefur því takmarkað vægi við úrlausn málsins. Þá horfir kærunefnd til þess að á hljóðupptökunni af viðtalinu við kæranda hjá Útlendingastofnun er spurning talsmanns og svar kæranda skýrt. Þá var frásögn kæranda, hvað þennan þátt málsins varðar, ekki trufluð eða stöðvuð af fulltrúa Útlendingastofnunar eða talsmanni kæranda. Það er því mat kærunefndar að ekki hafi verið um rangtúlkun eða misskilning að ræða. Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að frásögn kæranda af umræddu fé sé ótrúverðug og verður því þessi þáttur frásagnar hans ekki lagður til grundvallar í málinu.

Kærandi greindi frá því í viðtölum hjá Útlendingastofnun og kærunefnd að fjölskylda hans hafi tengsl við símafyrirtæki að nafni […] í heimaríki hans. Fjölskyldan hafi því getað fylgst með símtölum hans og rakið ferðir hans. Kærandi kvað fjölskyldu sína jafnframt hafa tengsl við stjórnmálaflokkinn PNM og lögregluyfirvöld, en móðir kæranda hafi verið mjög virk í stjórnmálaflokknum og jafnframt hafi fjölskylda hans greitt lögreglunni fé. Kærandi gæti því ekki leitað aðstoðar lögreglu í heimaríki sínu. En kærandi kvaðst hafa reynt að leita til lögreglu einhverju sinni en vegna kynhneigðar hans og stöðu fjölskyldu hans hefði lögreglan ekkert gert. Kvað hann fjölskyldu sína m.a. vera mjög þekkta í heimaríki sínu. Kærandi gat þó ekki, í viðtali hjá kærunefnd, gefið greinargóðar skýringar á stöðu og starfi fjölskyldunnar aðrar en að móðir hans ynni fyrir flokkinn og að aðrir fjölskyldumeðlimir ynnu stundum sem sjálfboðaliðar fyrir flokkinn. Leit kærunefndar að upplýsingum um fjölskyldumeðlimi kæranda á veraldarvefnum leiddi ekki í ljós að fjölskyldan væri þekkt í Trínidad og Tóbagó og bentu engin gögn til þess að hún væri virk í stjórnmálum. Í viðtali hjá kærunefnd var kærandi spurður hvort hann gæti lagt fram gögn sem sýndu fram á framangreind tengsl fjölskyldu hans við stjórnvöld og símafyrirtækið. Kærandi kvaðst ekki geta gert það. Ætla má að ef fjölskylda kæranda væri þekkt og valdamikil í stjórnmálaflokknum PNM þá væru til upplýsingar sem bentu til þess. Þá telur kærunefnd ekki ósanngjarnt að gera þá kröfu til kæranda að hann leggi fram gögn sem styðja við frásögn hans um að fjölskylda hans sé valdamikil og hafi tengsl við stjórnvöld. Með vísan til trúverðugleika kæranda og skorts á gögnum er það mat kærunefndar að þessi þáttur frásagnar hans sé ótrúverðugur og verður því ekki lagt til grundvallar að kæranda sé ómögulegt að leita sér aðstoðar yfirvalda í heimaríki vegna stöðu fjölskyldu sinnar þurfi hann á vernd þeirra að halda.

Kærandi hefur borið fyrir sig að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki vegna kynhneigðar sinnar. Með vísan til leiðbeininga Flóttamannastofnunar er varða kröfur um alþjóðlega vernd á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar leggur kærunefnd til grundvallar að kærandi, sem samkynhneigður einstaklingur, teljist til sérstaks þjóðfélagshóps, sbr. d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Það eitt að teljast til sérstaks þjóðfélagshóps leiðir ekki sjálfkrafa til þess að einstaklingur teljist eiga rétt á alþjóðlegri vernd heldur verður að skoða hvert mál fyrir sig og meta aðstæður og stöðu einstaklingsins í heimaríki.

Líkt og áður greinir telur kærunefnd ekki ástæðu til að draga í efa að kærandi sé samkynhneigður og greindur með HIV sjúkdóminn. Í viðtali hjá kærunefnd var kærandi spurður hvort hann hafi upplifað mismunun í heimaríki sínu vegna kynhneigðar sinnar og HIV sjúkdóms. Kærandi svaraði því játandi og var þá beðinn um að lýsa einstaka tilvikum. Kærandi lýsti því þá almennt hvernig væri að vera samkynhneigður í Trínidad og Tóbagó. Hann greindi frá því að ef menn væru kvenlegir í útliti þá væru þeir útsettir fyrir stríðni og áreiti. Aðspurður hvort hann hafi persónulega upplifað áreiti kvaðst hann hafa verið kallaður niðrandi orðum úti á götu vegna kynhneigðar sinnar. Kærandi minntist ekki á atvik þar sem hann hafi upplifað mismunun eða fordóma vegna HIV sjúkdómsins. Í skriflegri yfirlýsingu til kærunefndar greindi kærandi þó frá því að hafa upplifað höfnun við atvinnuleit.

Þau gögn sem kærunefnd hefur yfirfarið við meðferð málsins bera með sér að hinsegin einstaklingar og HIV-smitaðir einstaklingar kunni að eiga á hættu fordóma og mismunun í Trínidad og Tóbagó sökum kynhneigðar sinnar og sjúkdómsgreiningar, bæði af hálfu yfirvalda og almennings. Gögnin bera þó ekki með sér að um kerfisbundnar ofsóknir sé að ræða. Þá hefur lagaákvæði sem mælti fyrir um að kynferðislegar athafnir milli samkynja einstaklinga væru refsiverðar verið fellt úr gildi af hæstarétti landsins þar sem það var talið brjóta gegn stjórnarskrá landsins. Yfirvöld í landinu hafa þó áfrýjað niðurstöðunni. Fyrir það hafi lögunum þó almennt ekki verið beitt í framkvæmd af yfirvöldum. Þrátt fyrir að staða hinsegin einstaklinga og HIV-smitaðra einstaklinga sé erfið bendir heildarmat á gögnum málsins ekki til þess að slík mismunun nái því marki að teljast til ofsókna í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna. Kærandi kveður að lögreglan muni ekki veita honum fullnægjandi vernd vegna kynhneigðar hans þar sem að hún hafi ekki viljað aðstoða hann þegar hann hafi leitað til hennar. Ekki er hægt að útiloka að kærandi hafi á einhverjum tímapunkti leitað til lögreglu vegna áreitis eða mismununar vegna kynhneigðar sinnar. Ekkert hefur þó komið fram í frásögn kæranda sem bendir til þess að kærandi hafi reynt að nýta sér önnur úrræði sem honum standa til boða í heimaríki vegna aðgerðarleysis lögreglu. Þá verður ekki ráðið af framburði kæranda, að undanskildum framburði hans er snýr að umræddri bælingarmeðferð og ofbeldi af hálfu fjölskyldu sinnar, sem líkt og að framan greinir hefur verið metin ótrúverðug, að hann hafi persónulega sætt meðferð sem talist geti til ofsókna í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Með vísan til alls framangreinds er mat kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að kærandi eigi á hættu ofsóknir af hálfu stjórnvalda eða að stjórnvöld geti ekki eða vilji ekki veita kæranda viðeigandi vernd, m.a. með því að ákæra og refsa fyrir afhafnir sem kunni að fela í sér ofsóknir, telji hann þörf á því, sbr. 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi byggir á því að almennar aðstæður í heimaríki hans séu erfiðar, en skipulögð glæpastarfsemi sé m.a. útbreitt í landinu og ofbeldistíðni há. Jafnframt byggir kærandi á því að hann muni búa við erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki sínu verði honum gert að snúa aftur. HIV-smitaðir einstaklingar, líkt og kærandi, eigi erfitt uppdráttar þar í landi, auk þess sem kærandi glími við geðhvarfasýki. Þá eigi kærandi ekkert bakland í heimaríki sínu og hafi einungis lokið grunnmenntun. Kærandi geti ekki treyst á vernd eða aðstoð yfirvalda í heimaríki sínu.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindi kærandi m.a. frá því að fjölskylda hans hafi ráðið lækni til að fá það skráð að kærandi væri veikur á geði og væri á lyfjum. Það hafi verið notað gegn kæranda og í þeim tilgangi að stjórna honum. Kærandi kvaðst ekki muna hvaða veikindi læknirinn hafi sagt kæranda þjást af. Í viðtali hjá kærunefnd kvað kærandi lækninn hafa heitið […]. Hún hafi greint hann með ýmsa geðsjúkdóma, m.a. geðhvarfasýki. Aðspurður í viðtali hjá kærunefnd hvort hann teldi sig raunverulega vera með geðhvarfasýki, í ljósi framburðar hans um að hann hafi verið ranglega greindur af henni með geðræna sjúkdóma, kvað hann það hafa verið einu réttu greininguna. Skoðun kærunefndar á Facebook-reikningi […] leiddi í ljós að hún er menntaður tannlæknir, en ljóst er að starfsleyfi og menntun tannlækna nær almennt ekki yfir greiningar á geðsjúkdómum. Hinn 3. febrúar 2022 óskaði kærunefnd eftir skýringu á því hvers vegna hann hafi haldið því fram að […] væri læknir. Jafnframt óskaði nefndin eftir upplýsingum um það hvort greining kæranda hafi verið staðfest af læknum hér á landi. Í svari kæranda sem kærunefnd barst hinn 9. febrúar 2022 kom m.a. fram að engin formleg greining hafi farið fram. Greining færi einungis fram ef sjúklingur væri bersýnilega illa haldinn af veikindum. Í svari kæranda kom jafnframt fram að það væri rétt að […] væri tannlæknir en ekki læknir. Kvaðst hann m.a. hafa farið á tannlæknastofuna hennar sem barn. Kærandi kvaðst hins vegar hafa verið svo ungur að árum að hann hafi ekki haft vitneskju um hver menntun hennar hafi nákvæmlega verið, auk þess sem hann hafi ekki verið í stöðu til að spyrja út í það. Svar kæranda er nokkuð óljóst, enda kvaðst hann annars vegar vita að hún sé tannlæknir þar sem hann hafi farið til hennar sem barn vegna tannskoðana eða tannviðgerða en að hins vegar hafi hann ekki getað vitað sem barn að hún væri tannlæknir. Í framlögðum heilsufarsgögnum kemur fram að kærandi hafi mætt til sálfræðings hjá göngudeild sóttvarna í tvö skipti. Í bæði skipti hafi kærandi mætt of seint og því hafi gefist stuttur tími til að ræða við hann. Sálfræðingurinn hafi þó farið yfir sögu hans af atburðum í heimaríki og líðan hans hér á landi sem kærandi kvað góða. Þá kemur fram að kærandi hafi leitað á bráðaþjónustu geðsviðs Landspítalans eftir að lögfræðingur hans hafði ráðlagt honum að leita þangað sökum erfiðleika hans með svefn. Var rætt við kæranda um líðan hans og fékk hann með sér Quetiapin töflur til þess að hjálpa sér með svefn. Kærandi hefur jafnframt farið í læknisskoðun og fengið lyf hér á landi vegna HIV smits síns. Með vísan til þess sem að framan er rakið og framangreinds mats á trúverðugleika kæranda er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann glími við geðhvarfasýki eða önnur alvarleg andleg eða líkamleg veikindi. Þá kemur fram í þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað um heimaríki kæranda að ríkisborgarar landsins eigi rétt á endurgjaldslausri heilbrigðisþjónustu sem fjármögnuð sé af ríkinu og er því ekkert sem bendir til annars en að hann geti fengið heilbrigðisþjónustu og lyf í heimaríki s.s. vegna HIV smits síns. Hefur kærandi jafnframt greint frá því að hafa fengið læknisaðstoð í heimaríki sínu vegna HIV sjúkdómsins.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Þá segir í athugasemdunum að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur yfirfarið verður ekki ráðið að viðvarandi mannréttindabrot viðgangist í heimaríki kæranda. Þá er ekkert sem bendir til annars en að yfirvöld fari með skilvirka stjórn í landinu og hafi bæði getu og vilja til að veita þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum og glæpum. Telji almennir borgarar sig ekki hafa fengið réttláta meðferð af hálfu yfirvalda standi þeim til boða að leita m.a. til eftirlitsnefndar með störfum lögreglu og umboðsmanns með mál sín. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur yfirfarið verður ekki ráðið að viðvarandi mannréttindabrot viðgangist í heimaríki kæranda. Þá er ekkert sem bendir til annars en að yfirvöld fari með skilvirka stjórn í landinu og hafi bæði getu og vilja til að veita þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum og glæpum. Telji almennir borgarar sig ekki hafa fengið réttláta meðferð af hálfu yfirvalda standi þeim til boða að leita m.a. til eftirlitsnefndar með störfum lögreglu og umboðsmanns með mál sín.

Líkt og áður greinir telur kærandi að hann muni búa við erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki sínu verði honum gert að snúa þangað aftur. Hefur kærandi greint frá því að samkynhneigðir karlmenn sæti fordómum, mismunun og ofbeldi í Trínidad og Tóbagó. Kærandi greindi frá því að séu karlmenn kvenlegir í fari og tjáningu eða falli að öðru leyti undir staðalímynd samkynhneigðra karlmanna séu þeir útsettir fyrir fordómum og áreiti. Þá hefur kærandi jafnframt greint frá því að HIV-smitaðir einstaklingar sæti fordómum og mismunun í ríkinu, þá einkum á vinnumarkaði. Frásögn kæranda fær að þessu leyti vissa stoð í þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað við meðferð málsins. Þær heimildir sem kærunefnd hefur skoðað bera með sér að hinsegin einstaklingar sæti áreiti, hótunum og fordómum og að mismunun gagnvart þeim sé útbreidd í landinu. Það geti m.a. haft áhrif á getu þeirra til að taka þátt í stjórnmálum og kosningum. Jafnframt kemur fram að hinsegin einstaklingar njóti ekki sérstakrar verndar í lögum á sviði húsnæðis- og atvinnumála og þá nái jafnréttislög ekki yfir þá, sem og HIV-smitaða einstaklinga. Þá benda þau gögn sem kærunefnd hefur skoðað til þess að HIV-smitaðir samkynhneigðir karlmenn standi sérstaklega frammi fyrir þrálátum fordómum.

Kærandi greindi frá því í viðtali hjá kærunefnd að hafa verið gagnrýndur af ótilgreindum aðilum fyrir að tjá sig á kvenlegan hátt, líkamlega og í orðum, en hann kvaðst ekki geta ráðið því eða breytt því sjálfur. Kvað kærandi m.a. ókunnuga aðila hafa áreitt sig á götum úti vegna þessa. Að mati kærunefndar er ekki ástæða til að draga þá frásögn hans í efa. Í viðtali hjá kærunefnd greindi kærandi þó ekki frá neinum tilvikum þar sem hann hefði upplifað mismunun eða fordóma vegna HIV veikinda sinna. Í skriflegri yfirlýsingu til nefndarinnar tók kærandi þó fram að hann hafi margoft upplifað mismunun í atvinnuviðtölum í heimaríki sínu eftir að í ljós hafi komið að hann væri með HIV. Líkt og rakið hefur verið samrýmist frásögn kæranda í viðtali hjá kærunefnd, um það hvenær hann hafi sótt um störf í heimaríki sínu, ekki framburði hans að öðru leyti, m.a. er varðar tímaröðun atburða. Þá kvaðst kærandi ítrekað hafa verið bannað að fara út úr húsi án eftirlits og ekki fengið að lifa sjálfstæðu lífi. Samrýmist það til dæmis ekki framburði kæranda um að hann hafi haft tækifæri til að sækja mörg atvinnuviðtöl. Það er því mat kærunefndar að framburður kæranda sé ótrúverðugur að þessu leyti og verður ekki lagt til grundvallar að kæranda hafi ítrekað verið mismunað á vinnumarkaði vegna HIV greiningar sinnar.

Í 74. gr. laga um útlendinga er gerð sú krafa að umsækjandi geti sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd. Þrátt fyrir að gögn beri með sér að HIV-smitaðir samkynhneigðir einstaklingar geti átt erfitt uppdráttar í heimaríki kæranda verður það eitt og sér ekki talið sýna fram á ríka þörf kæranda fyrir vernd. Kærandi kveðst hafa upplifað áreiti og fordóma sökum kynhneigðar sinnar en hefur þó ekki greint frá því að hafa sætt meðferð sem að mati kærunefndar nær því alvarleikastigi sem felst í 74. gr. laganna. Kærunefnd horfir til þess að kærandi hefur lokið menntun í heimaríki sínu sem jafna má við stúdentspróf hér á landi. Þá er kærandi ungur að árum og hefur ekkert komið fram sem bendir til annars en að hann sé vinnufær og fær um að framfleyta sér í heimaríki sínu. Kærandi hefur aðgang að nauðsynlegum lyfjum í heimaríki sínu til að halda HIV sjúkdómnum niðri og verður því talið að kærandi sé almennt við góða heilsu. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi ríka þörf fyrir vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna í heimaríki hans.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 6. ágúst 2021 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Í ljósi Covid-19 faraldursins er athygli kæranda vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu. 

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Sindri M. Stephensen                                                                     Þorbjörg I. Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta