Hoppa yfir valmynd

Nr. 418/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 5. september 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 418/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19060027

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 18. júní 2019 kærði […], fd. […], ríkisborgari Pakistan (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. maí 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 19. febrúar 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 15. maí 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 28. maí 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 18. júní 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 1. júlí 2019, ásamt fylgigögnum. Þá bárust viðbótarathugasemdir þann 19. ágúst sl.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að kærandi sé í hættu í heimaríki vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi sem þolandi heiðurstengds ofbeldis.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi. Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram hann hafi starfað […] frá árinu 2014 og hafi kærandi kynnst eiginkonu sinni, […], árið 2015. Faðir kæranda hafi beðið föður […] um hönd hennar í ágúst 2017 en faðir hennar hafi neitað. Vegna þess hafi kærandi og […] hlaupist á brott og kvænst í leyfisleysi […]. Um tíu til fimmtán dögum eftir að þau hafi flúið hafi fjölskylda eiginkonu kæranda lagt fram kæru á lögreglustöð þar sem þau hafi ásakað kæranda um að hafa rænt henni. Kærandi heldur því fram að fjölskylda eiginkonu hans hafi greitt lögreglunni fyrir að handtaka föður kæranda en fjölskylda eiginkonu kæranda sé valdamikil og sterkefnuð. Kærandi kveður lögregluna hafa komið illa fram við föður sinn og hafi hún m.a. beitt hann líkamlegu ofbeldi. Föður kæranda hafi síðar verið sleppt gegn framvísun hjúskaparvottorðs kæranda og eiginkonu hans. Kærandi heldur því fram í greinargerð að öll fjölskylda eiginkonu hans sé á eftir honum og að hann og eiginkona hans hafi verið á flótta í Pakistan. Þá hafi einstaklingar á vegum fjölskyldu eiginkonu kæranda ítrekað skotið í átt að kæranda og konu hans. Kærandi óttist að vera tekinn af lífi verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Hann hafi leitað til lögreglunnar í heimaríki vegna ofsóknanna en lögregluyfirvöld hafi ekkert aðhafst í máli hans. Þá óttist kærandi einnig um líf konu sinnar og dóttur en þær séu í felum í borginni […].

Í greinargerð kæranda kemur fram að faðir hans hafi orðið fyrir tveimur alvarlegum árásum á síðastliðnum tveimur misserum þar sem árásarmennirnir hafi óskað eftir upplýsingum um kæranda. […]. Mennirnir hafi í tvígang gengið í skrokk á föður kæranda og kveðst kærandi ekki vita hverjir hafi verið þar að verki. Þá sé ekki vitað hvernig umræddir einstaklingar hafi fengið upplýsingar um að kærandi sé á Íslandi. Kærandi hafi fengið undarlegar símhringingar úr leyninúmeri þar sem viðkomandi hafi talað við kæranda á ensku, einstaklingurinn hafi sagt kæranda að hann viti hvar kærandi sé niður kominn og að hann hyggist drepa kæranda.

Í greinargerðinni er tekið fram að kærandi hafi ekki sagt rétt frá ástæðum flótta frá heimaríki í þjónustuviðtali hjá Útlendingastofnun þann 27. febrúar 2018 og hjá lögreglu er hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi. Kærandi kveðst hafa fengið upplýsingar hjá manni hér á landi um að til þess að fá vernd á Íslandi hafi kærandi þurft að segjast hafa gifst […] í heimaríki. Kæranda hafi síðar snúist hugur og viljað segja sannleikann enda hafi kærandi fundið fyrir mikilli vanlíðan eftir að hafa sagt rangt frá. Kærandi hafi haft frumkvæði af því að segja sannleikann í efnisviðtölum við Útlendingastofnun, þann 20. og 28. mars og 3. apríl 2019.

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður og stöðu mannréttinda í heimaríki hans sem og öryggisástand landsins. Þá er einnig fjallað um heiðursglæpi í Pakistan. Kærandi vísar til skýrslna sem hann telji styðja mál sitt.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann sæti ofsóknum í heimaríki sínu og grundvallarmannréttindi hans séu ekki tryggð af hálfu stjórnvalda. Kærandi heldur því fram að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem ofsóknir í hans garð megi rekja til aðildar kæranda að tilteknum þjóðfélagshópi. Í greinargerð kæranda er byggt á því að kærandi tilheyri hópi einstaklinga sem hafi, eða séu taldir hafa, tekið þátt í athæfi sem sé fordæmt af samfélaginu og verði ekki tekið til baka. Hafi þessi hópur einstaklinga ástæðu til að óttast heiðursmorð eða aðra heiðursglæpi vegna umrædds athæfis. Kærandi telji að líta beri svo á að þessir einstaklingar séu sérstakur þjóðfélagshópur í Pakistan samkvæmt skilgreiningu d-liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi heldur því fram að heiðursglæpir og heiðursmorð tíðkist enn í miklum mæli, einkum í heimahéraði kæranda, […], þrátt fyrir löggjöf sem banni slíka glæpi. Þá beinist heiðursmorð ekki einungis að stúlkum og konum, þó það sé algengara, en vel þekkt sé að karlmenn séu þolendur slíkra glæpa. Kærandi heldur því fram í greinargerð að yfirvöld í heimaríki hafi hvorki vilja né getu til að veita honum vernd jafnframt sem þau taki þátt í ofsóknum á þeim þjóðfélagshópi sem kærandi tilheyri. Kærandi óttist bæði yfirvöld sem og fjölskyldumeðlimi eiginkonu sinnar í heimaríki, sbr. a- og c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Af þessu telji kærandi ljóst að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi, sbr. 1. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Verði kæranda gert að snúa aftur til heimaríkis telji hann að það brjóti gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Auk þess sem slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Til vara heldur kærandi því fram í greinargerð að hann uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Heimildir beri með sér að almennt öryggisástand í Pakistan sé mjög ótryggt og að yfirvöld beiti pyndingum og brjóti á mannréttindum borgaranna. Verði kæranda gert að snúa aftur til heimaríkis eigi hann á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögum komi fram að taka verði mið af svipuðum sjónarmiðum og gert sé við mat á öðrum ákvæðum kaflans s.s. almennra aðstæðna í heimaríki, þ. á m. hvort grundvallarmannréttindi séu nægilega tryggð. Í fyrrgreindum athugasemdum komi fram að með erfiðum félagslegum aðstæðum sé m.a. vísað í að einstaklingur hafi þörf á vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna í heimaríki. Með almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti þegnum sínum ekki vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með hliðsjón af öllu því sem þegar hefur verið rakið telji kærandi ljóst að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og því beri að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Að lokum gerir kærandi athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar og hvernig trúverðugleikamati hafi verið háttað í máli kæranda. Í fyrsta lagi ítrekar kærandi að hann hafi að eigin frumkvæði greint satt og rétt frá ástæðum flótta í fyrsta efnisviðtali hjá Útlendingastofnun. Í þjónustuviðtali hans við Útlendingastofnun hafi hann ekki fengið aðstoð lögfræðings og hafi kærandi frá upphafi skýrt lögfræðingi sínum frá raunverulegum ástæðum flótta síns. Í öðru lagi mótmælir kærandi þeirri staðhæfingu Útlendingastofnunar að tölublað það sem kærandi skilaði inn til stofnunarinnar sé falsað. Kærandi lagði fram afrit af blaðsíðu úr dagblaðinu […] í framhaldsviðtali við Útlendingastofnun þann 3. apríl 2019 og þann 4. apríl 2019 lagði kærandi fram frumrit blaðsins til Útlendingastofnunar. Útlendingastofnun haldi því fram að innlegg á facebook síðu […] sé nákvæmlega eins og tölublaðið sem kærandi hafi lagt fram ef frá væri talin fréttin um kæranda sem og dagsetning á blaðinu. Þá hafi Útlendingastofnun ekki getað fundið afrit af tölublaði […] á facebook síðu dagblaðsins. […]. Kærandi leggi til að kærunefnd hafi samband við blaðamann […] og spyrjist fyrir um framangreint misræmi, en íslenskum stjórnvöldum beri að rannsaka málið til hlítar skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi hafi lagt fram gögn til kærunefndar máli sínu til stuðnings. Þá ítreki kærandi að meginregla flóttamannaréttar um að allan vafa beri að túlka umsækjenda í hag nema góðar og gildar ástæður mæli því á móti. Í þriðja lagi mótmæli kærandi mati Útlendingastofnunar um að framlögð fæðingarvottorð séu fölsuð. Í fjórða lagi mótmælir kærandi þeirri staðhæfingu Útlendingastofnunar að framlagðar kærur séu ekki í samræmi við landaupplýsingar um FIR-skýrslur í Pakistan. Heimildir beri með sér að FIR-skýrslur séu oft illa gerðar eða jafnvel ekki skráðar, en spilling innan lögreglunnar sé mikil.

Þann 19. ágúst 2019 barst kærunefndinni viðbótargreinargerð kæranda þar sem hann gerir þrautaþrautavarakröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi þann 19. febrúar 2018. Frá þeim tíma séu liðnir rúmir 18 mánuðir, en í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga komi fram að heimilt sé að veita þeim útlendingi sem sótt hafi um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, uppfylli hann ekki skilyrði 37. og 39. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði dvalarleyfi samkvæmt 2. mgr. ekki veitt nema að tilteknum skilyrðum uppfylltum, en kærandi heldur því fram að skilyrðin séu uppfyllt í tilviki hans. Líkt og komið hefur fram telji kærandi ekki forsendur fyrir því að gögn þau sem hann hafi lagt fram séu metin fölsuð án þess að annað og meira komi til. Þá hafi kærandi ekki haft ástening til að leggja fram fölsuð gögn. Kærandi heldur því jafnframt fram að útilokunarástæður í a- til d-lið 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga eigi ekki við um mál hans.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.AuðkenniÍ ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað pakistönsku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé pakistanskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Pakistan m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Pakistan 2018 Human Rights Report (U.S. Department of State, 13. mars 2019);
  • Freedom in the World 2019 – Pakistan (Freedom House, 4. febrúar 2019);
  • World Report 2019 – Pakistan (Human Rights Watch, 18. janúar 2019);
  • Country Policy and Information Note: Medical and Healthcare Issues: Pakistan (UK Home Office, ágúst 2018);
  • State of Human Rights in 2017 (Human Rights Commission of Pakistan, 16. apríl 2018);
  • Pakistan - Country Fact Sheet 2017 (version 1) (Bundesamt für Migration und Flüchtlinge, 9. apríl 2018);
  • Mänskliga rättigheter, demokrati och rättstatens principer i Pakistan 2015–2016 (Utrikesdepartimentet, 26. apríl 2017);
  • Country Policy and Information Note Pakistan: Background information, including actors of protection, and internal relocation (UK Home Office, júní 2017);
  • EASO Country of Origin Report – Pakistan Security Situation (EASO, ágúst 2017);
  • Country Information and Guidance Pakistan: Women fearing gender-based harm / violence (UK Home Office, febrúar 2016);
  • Pakistan: First Information Reports (FIRs) (2010-December 2013) (Immigration and Refugee Board of Canada, 10. janúar 2014);
  • Pakistan: Honour killings targeting men and women (Immigration and Refugee Board of Canada, 15. janúar 2013);
  • […];
  • Vefsíða Human Rights Commission of Pakistan (http://hrcp-web.org/hrcpweb/, sótt 21. ágúst 2019); 
  • […];
  • […] og
  • Stjórnarskrá Pakistan (http://na.gov.pk/uploads/documents/1333523681_951.pdf).

Samkvæmt ofangreindum gögnum er Pakistan sambandslýðveldi með rúmlega 200 milljónir íbúa. Þann 30. september 1947 gerðist Pakistan aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi árið 2010 og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 2008. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1966 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2010. Þá fullgilti ríkið jafnframt samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1996, en ríkið hefur hins vegar ekki undirritað valfrjálsa viðbótarbókun við samninginn. Pakistan fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1990.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að þrátt fyrir að pakistönsk löggjöf banni handahófskenndar handtökur og varðhald jafnframt sem lögin kveði á um rétt til að vefengja lögmæti handtöku fyrir dómi þá sé spilling innan lögreglunnar vandamál í Pakistan, en spilling á lægri stigum lögreglunnar sé algeng og séu dæmi um að lögreglan þiggi mútur. Einstaklingar tilkynni um meinta glæpi eða brot til lögreglunnar með svokallaðri FIR skýrslu (e. first instance report). FIR skýrslan sé fyrsta skrefið við rannsókn sakamáls og sé hún oftast lögð fram af þriðja aðila þó svo að lögreglan hafi heimild til að gera slíka skýrslu sjálf. FIR skýrslan veiti lögreglunni heimild til að halda meintum brotamanni í gæsluvarðhaldi í 24 klukkustundir á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Hægt sé að leggja fram slíka skýrslu hjá lögreglumanni, á lögreglustöð og á vefsíðum ákveðinna lögregluembætta í Pakistan. […].

Þrátt fyrir að pakistönsk lög kveði á um sjálfstætt dómskerfi, réttláta málsmeðferð og að enginn skuli sviptur lífi, eignum eða frelsi án dóms og laga þá hafi dómskerfið verið gagnrýnt fyrir spillingu. Spilling sé innan héraðsdómstóla, þeir séu afkastalitlir og undir þrýstingi frá auðugum og áhrifamiklum einstaklingum einkum á sviði trúar eða stjórnmála. Þá kemur fram að þrátt fyrir að veikleikar séu í réttarkerfinu í Pakistan þá sé spilling refsiverð samkvæmt lögum, en ábyrgðarskrifstofa ríkisins (e. National Accountability Bureau (NAB)) hafi það hlutverk að útrýma spillingu í stjórnkerfum landsins með vitundarvakningu, forvörnum, rannsókn spillingarmála jafnframt sem skrifstofan ákæri í slíkum málum. NAB hafi heimild samkvæmt lögum að halda einstaklingum í 15 daga án þess að ákæra og mögulegt sé að framlengja varðhaldið með samþykki dómstóla. Synja megi einstaklingnum um leyfi til að ráðfæra sig við lögmann meðan á rannsókn standi. Þá sé ekki unnt að greiða tryggingu til að losna úr varðhaldi heldur sé það einungis ákvörðun formanns NAB að láta einstakling lausan.

Í lok árs 2016 hafi hæstiréttur Pakistans boðað til fundar þar sem hann hafi tilkynnt um rannsókn á ásökunum um spillingu sem hafi snúið að forsætisráðherra landsins, Sharif, og fjölskyldu hans. Þá hafi NAB verið falið að rannsaka og ákæra forsætisráðherrann og fjölskyldumeðlimi hans. Þann 28. desember 2018 var Sharif dæmdur í fangelsi í sjö ár vegna spillingar.

[…].

Í skýrslu sænska utanríkisráðuneytisins kemur fram að heilbrigðiskerfið í Pakistan einkennist af lélegum innviðum jafnframt sem litlar kröfur séu gerðar til heilsugæslustöðva og almennra sjúkrahúsa. Þrátt fyrir að heilbrigðisaðstoð sé í boði fyrir alla þá sé góð læknisaðstoð forréttindi og eingöngu aðgengileg þeim sem geti greitt fyrir hana.

Þá kemur fram í gögnum málsins að um 15 milljónir manna í Pakistan glími við geðræn vandamál en af skýrslum breska innanríkisráðuneytisins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar má ráða að í landinu séu 11 geðsjúkrahús, um 800 geðdeildir á almennum spítölum og 578 dvalarheimili fyrir þá sem þjást af geðröskunum. Um 3-400 starfandi geðlæknar eru í landinu. Þá kemur fram að fordómar í garð einstaklinga með geðraskanir komi í veg fyrir að fólk leiti sér viðeigandi aðstoðar. Samkvæmt upplýsingum frá breska innanríkisráðuneytinu skorti á pólitískan vilja til að sinna þessum málaflokki.

Af gögnum málsins má einnig ráða að frjáls félagasamtök aðstoði andlega veika einstaklinga með því að veita þeim ráðgjöf, húsaskjól og skipuleggja stuðningshópa. Á undanförnum árum hafi stjórnvöld unnið að framkvæmdaáætlunum sem eigi að vinna gegn fordómum í garð einstaklinga sem glími við geðræn veikindi. Á vefsíðu Daily Pakistan kemur fram að árið 2017 hafi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin komið af stað geðheilbrigðisáætlun (e. mental health Gap Action Program) sem hafi m.a. að markmiði að þróa stefnu og lagaumhverfi til að veita samþætta heilbrigðisþjónustu. 

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi kveðst óttast heiðurstengt ofbeldi í heimaríki af hálfu fjölskyldu eiginkonu sinnar. Kærandi hafi gifst eiginkonu sinni […] í óþökk fjölskyldu hennar og hafi þau eignast dóttur […]. Greindi kærandi frá þeim hótunum sem hann kveðst hafa orðið fyrir af hálfu fjölskyldu eiginkonunnar, en faðir kæranda hafi einnig þurft að þola hótanir og ofbeldi vegna hjónabands kæranda. Kærandi kveður lögreglu í heimaríki hans ekki geta veitt honum fullnægjandi vernd. Kærandi hafi leitað til lögreglunnar en hún hafi ekkert aðhafst í málinu þar sem kærandi hafi ekki mútað lögreglunni. Til stuðnings frásögn sinni lagði kærandi fram ýmis gögn, m.a. ljósmyndir sem kærandi segir vera af sér og eiginkonu sinni og dóttur, skjöl sem kærandi segir vera kæru tengdaföður kæranda gegn honum vegna mannráns, dags. 27. ágúst 2017, afrit af fæðingarvottorði dóttur sinnar, afrit af hjúskaparvottorði sem og blaðagrein úr dagblaði […].

Í trúverðugleikamati Útlendingastofnunar kemur m.a. fram að bæði í umsókn sinni um alþjóðlega vernd hér á landi sem og í þjónustuviðtali kæranda hjá Útlendingastofnun þann 27. febrúar 2018 kvaðst kærandi óttast ofsóknir í Pakistan af hálfu fjölskyldu sinnar vegna áætlana kæranda um að giftast svonefndum […] þar í landi. Í efnisviðtali kæranda hjá Útlendingastofnun þann 20. mars 2019 dró kærandi fyrri frásögn sína til baka og gekkst við að hafa sagt rangt frá ástæðum flótta frá heimaríki. Í viðtalinu kvaðst kærandi óttast að verða þolandi heiðursglæps í heimaríki af hálfu tengdafjölskyldu sinnar. Frásögn sinni til stuðnings lagði kærandi fram frumrit af fæðingarvottorði sínu, dags. 3. nóvember 2018. Að mati Útlendingastofnunar bentu ýmis atriði til þess að fæðingarvottorð kæranda hafi verið falsað, […].

Máli sínu til stuðnings lagði kærandi einnig fram skjal sem hann kveður vera frumrit af tölublaði dagblaðsins […], hjá Útlendingastofnun. Í viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun var túlkurinn m.a. beðinn um að þýða upplýsingadálk undir nafni dagblaðsins. Túlkurinn kvað þar koma fram […]. Í kjölfar viðtalsins við kæranda rannsakaði Útlendingastofnun m.a. samfélagsmiðlasíðu dagblaðsins á facebook. […].

Útlendingastofnun fékk túlk til að þýða upplýsingardálk undir nafni dagblaðsins á samfélagsmiðlasíðu dagblaðsins á facebook. Túlkurinn kvað að þar komi fram […]. Þann 15. maí 2019 var kæranda gefið tækifæri á að koma að athugasemdum við ofangreinda rannsókn Útlendingastofnunar og kvaðst kærandi hvorki vita hvers vegna tölublaðið á samfélagsmiðlasíðu dagblaðsins sé nánast eins og það tölublað sem kærandi lagði fram né hvers vegna tölublaðsnúmer og árgangsnúmer tölublaðsins sé ekki í samræmi við þá dagsetningu sem blaðið kom út. Kærandi kvað óvini sína, fjölskyldu eiginkonu sinnar, mögulega hafa fengið dagblaðið til að breyta tölublaðinu þannig að grein kæranda hafi verið tekin út. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi ekki gefið greinagóða skýringu á því misræmi sem sé að finna í þeim gögnum sem hann hafi skilað inn til Útlendingastofnunar og þeim gögnum sem Útlendingastofnun hafi fundið á samfélagsmiðlasíðu dagblaðsins. Útlendingastofnun telji að augljóslega hafi verið átt við frumrit tölublaðsins sem kærandi lagði fram með þeim hætti að afmá dagsetningu útgáfunnar efst fyrir miðju á blaðsíðu tvö og þrjú. Var það heildstætt mat Útlendingastofnunar að frumrit af dagblaði sem kærandi skilaði inn til stofnunarinnar hafi verið falsað.

Kærandi lagði einnig fram frumrit af tveimur kærum, annars vegar kæru tengdaföður kæranda á hendur honum vegna mannráns, […], og hins vegar kæru föður kæranda á hendur tengdaföður kæranda vegna innbrots og árásar, […]. Við skoðun á kærunum og þegar þær voru bornar saman við upplýsingar um FIR-skýrslur í Pakistan var það mat Útlendingastofnunar að í þeim vanti tilvísun í lagaákvæði sem gildi um verknaðinn, kenninúmer FIR-skýrslnanna og undirskrift kæranda og lögreglumanns er ritaði skýrsluna. Taldi Útlendingastofnun ekki tækt að byggja á kærunum með hliðsjón af því að kærandi hafi lagt fram önnur gögn sem Útlendingastofnun telji fölsuð. Í ljósi alls framangreinds var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi ekki lagt fram trúverðug gögn um að hann eigi á hættu að vera þolandi heiðurstengds ofbeldis í heimaríki. Það að kærandi viðurkenndi að hafa logið til um ástæður flótta frá heimaríki í umsókn sinni var ekki til þess fallið að byggja undir trúverðugleika breyttrar frásagnar hans. Var kærandi því ekki talinn hafa sýnt fram á eða gert sennilegt að hann eigi í hættu ofsóknir í heimaríki.

Af ofangreindu er ljóst að frásögn kæranda tók breytingum eftir að þjónustuviðtal var tekið. Kærunefnd telur að við mat á því hvaða áhrif slíkar breytingar hafa á trúverðugleika kærandi verði að líta heildstætt til annarra þátta í frásögn kæranda og þeirra gagna sem hann lagði fram.

Kærunefnd hefur framkvæmt sjálfstætt mat á þeim gögnum sem kærandi lagði fram frásögn sinni til stuðnings og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Er það mat kærunefndar að ótvírætt sé að það skjal sem kærandi lagði fram sem frumrit dagblaðs hafi verið falsað. Ljóst sé að skjalið sem kærandi lagði fram hafi verið unnið úr sniðmáti eldra dagblaðs sem aðgengilegt er á facebook síðu dagblaðsins. Þá telur kærunefnd að ljóst sé að kærandi eða einhver á hans vegum hafi lagt talsverða vinnu í að útbúa ætlað dagblað og lagt það fram í því skyni að blekkja íslensk stjórnvöld við málsmeðferð umsóknar hans um alþjóðlega vernd.

Þá hefur kærunefnd skoðað fæðingarvottorð sem kærandi lagði fram og telur þau ótrúverðug þar sem þau innihalda ekki þá öryggisþætti sem slík skjöl eiga að hafa, svo sem vatnsmerki og öryggislínu. Er það því mat kærunefndar að gögnin séu ekki trúverðug.

Kærunefnd hefur ekki forsendur til annars en að fallast á mat Útlendingastofnunar um að hjúskaparvottorð það sem kærandi lagði fram sé ófalsað og að kærandi hafi á þeim degi sem þar kemur fram gengið í hjúskap.

Þá lagði kærandi fram ljósmyndir sem hann telur sýna blaðagreinar sem fjalli um árás sem faðir hans hafi orðið fyrir. Ekki er unnt að leggja mat á trúverðugleika þeirrar mynda en í ljósi annarra atvika málsins telur kærunefnd að þær leggi ekki frekari grundvöll að frásögn kæranda sem þýðingu kann að hafa fyrir mál hans.

Kærandi hefur ekki fært fram frekari trúverðug gögn sem þykja til þess fallin að styðja við frásögn hans af aðstæðum hans í heimaríki hans. Jafnframt sem kærandi hafi ekki fært fram trúverðugar útskýringar á þeim athugasemdum sem Útlendingastofnun hafi gert við þau gögn sem kærandi lagði fram. Það er því mat kærunefndar að framangreint misræmi í frásögn kæranda, skortur á vilja til samstarfs í ljósi misvísandi gagna sem samræmast ekki frásögn hans, og skortur á gögnum til stuðnings öðrum þáttum frásagnar hans leiði til þess, heildstætt metið, að framburður hans og lýsingar á ástæðum flótta sé með öllu ótrúverðug og verði því ekki lögð til grundvallar í máli hans.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. 

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Í sálfræðivottorði kæranda, dags. 25. mars 2019, kemur fram að kærandi hafi verið lagður inn á geðdeild Landspítala […] og fengið stuðning og lyfjagjöf. Eftir innlögnina hafi kæranda liðið betur, þrátt fyrir að hann finni enn fyrir kvíða og vonleysi. Þá hafi hann ekki verið metinn í sjálfsvígshættu. Að mati kærunefndar hefur kærandi ekki sýnt fram á að sá andlegi heilsufarsvandi sem gögn málsins bera með sér að kærandi glími við sé nægilega alvarlegur til að skilyrði séu fyrir hendi til útgáfu dvalarleyfis á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd telur auk þess, með vísan til þess sem komið hefur fram að framan og á grundvelli heildstæðs mats á aðstæðum kæranda að honum standi til boða geðheilbrigðisþjónusta í Pakistan vegna andlegra veikinda hans, reynist þau fyrir hendi eftir heimkomu.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild og að teknu tilliti til mats á trúverðugleika frásagnar kæranda er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt er að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að hann uppfylli ekki skilyrði 37. og 39. gr. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a- til d-liðum 2. mgr. 74. gr. laganna en þau eru að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd þann 19. febrúar 2018. Kærandi hefur ekki enn fengið niðurstöðu í máli sínu hjá kærunefnd útlendingamála. Frá því að kærandi sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi þar til úrskurður þessi er kveðinn upp, dags. 5. september 2019, eru liðnir rúmir 18 mánuðir. Kærandi telst því ekki hafa fengið niðurstöðu í máli sínu innan þeirra tímamarka sem getið er í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Að mati kærunefndar hefur kærandi ekki veitt aðstoð við úrlausn málsins m.a. þar sem frásögn kæranda hefur tekið breytingum hjá íslenskum stjórnvöldum jafnframt sem kærandi hefur lagt fram fölsuð gögn máli sínu til stuðnings. Að mati kærunefndar eru skilyrði d-liðar 2. mgr. 74. gr. því ekki fyrir hendi. Kærunefnd hefur að framan fjallað um frásögn kæranda og fallist á trúverðugleikamat Útlendingastofnunar.

Samkvæmt 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að víkja frá ákvæðum 3. mgr. greinarinnar en þar eru raktar nokkrar ástæður sem gætu útilokað veitingu dvalarleyfis á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laganna. Engin heimild er til að víkja frá skilyrðum 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd telur því ljóst að þar sem kærandi uppfylli ekki öll skilyrði 2. mgr. 74. gr. laganna sé ekki heimilt að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga með vísan til þess tíma sem mál hans hefur tekið.

Í a- til d-lið 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga eru raktar tilteknar ástæður sem geta komið í veg fyrir að útlendingur sem annars gæti átt rétt á dvalarleyfi samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laganna hljóti slíkt leyfi. Af a-lið má ráða að leggi útlendingur fram fölsuð skjöl með það að markmiði að styrkja umsókn sína verði leyfi samkvæmt 2. mgr. 74. gr. ekki veitt. Þá má ráða af d-lið 3. mgr. 74. gr. laganna að dvalarleyfi samkvæmt 2. mgr. 74. gr. verði ekki veitt útlendingi sem sjálfur á þátt í að niðurstaða hafi ekki fengist innan tímamarka.

Kærunefnd hefur þegar fallist á mat Útlendingastofnunar um að kærandi hafi lagt fram fölsuð gögn með því markmiði að styrkja umsókn sína um alþjóðlega vernd hér á landi. Þá er það mat kærunefndar að athæfi kæranda, framlagning falsaðra gagna sem og breyting á frásögn, hafi leitt til tafa á málinu og að kærandi teljist því hafa átt þátt í að niðurstaða hafi ekki fengist innan tímamarka. Kærunefnd telur að undanþáguákvæði 4. mgr. 74. gr. laganna verði ekki beitt í ljósi aðstæðna þessa máls.

Það er því niðurstaða kærunefndar að kæranda verði ekki veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.  

Rannsóknarregla stjórnsýslulaga

Líkt og áður segir gerir kærandi athugasemd við ákvörðun Útlendingastofnunar, en kærandi telur að rannsókn Útlendingastofnunar á stöðu hans í heimaríki og þeirrar hættu sem bíði hans verði hann endursendur til Pakistan sé ófullnægjandi. Kærandi telji því að Útlendingastofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga við meðferð máls hans.

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga.

Kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem aflað var við rekstur málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Það er mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi bar því við að hafa komið hingað til lands þann 18. febrúar 2018 og sótti um alþjóðlega vernd daginn eftir. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og til atvika málsins teljast 7 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 7 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 7 days to leave the country voluntarily.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                          Bjarnveig Eiríksdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta