Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 49/2013

Fimmtudaginn 3. september 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 22. mars 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 8. mars 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 20. ágúst 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 21. ágúst 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 6. október 2014 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Kæranda voru veittir ítrekaðir frestir til athugasemda en engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1955. Hún býr ásamt maka sínum í 250,8 fermetra húseign að B götu nr. 15A í sveitarfélaginu C. Kærandi á helmingshlut í húsinu á móti einum sona sinna.

Kærandi er í námi við Háskólann á Akureyri en samhliða því er hún í um 40% starfi. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kæranda eru 368.017 krónur vegna launa og vaxtabóta.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara 2. nóvember 2011 eru 50.591.074 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2006-2008.

Að mati kæranda má rekja fjárhagsvandræði hennar til kaupa  á fasteigninni að B götu nr. 15A í sveitarfélaginu C árið 2006. Fljótlega eftir afhendingu eignarinnar hafi hitalagnir gefið sig og mikið tjón hafi orðið af því. Árið 2009 hafi lán, sem hún hafði tekið í erlendri mynt vegna kaupa og framkvæmda á húseigninni, hækkað og hafi þá byrjað erfiðleikar hennar með að standa í skilum.

Kærandi lagði fram umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar 28. júní 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. nóvember 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 1. nóvember 2012 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. þar sem hann teldi að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í bréfi umsjónarmanns kemur fram að kærandi hafi ekki lagt neina fjármuni til hliðar á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls. Í drögum að frumvarpi til greiðsluaðlögunarsamnings hafi verið gert ráð fyrir að 1.000.000 króna væri tiltæk til þess að greiða kröfuhöfum í upphafi. Þar sem engir fjármunir hefðu verið lagðir til hliðar hafi umsjónarmaður lagt til niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 28. nóvember 2012 var henni gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmanni skuldara barst svar kæranda með bréfi 5. febrúar 2013. Þar kom fram að kærandi hefði ekki vitað að hún hefði átt að leggja til hliðar í greiðsluskjóli. Hefði auk þess verið fyrirséð í upphafi samningsumleitana að ekki væri mikið fé aflögu til sparnaðar. Kærandi hefði ekki getað lagt neitt til hliðar vegna ýmissa óvæntra og nauðsynlegra útgjalda á tímabilinu. Var kæranda aftur sent bréf 15. febrúar 2013 og henni á ný boðið að gera athugasemdir eða leggja fram gögn í málinu. Þann 25. febrúar 2013 hafi kærandi staðfest móttöku þess bréfs og tilkynnt að hún væri að vinna að svarbréfi. Umboðsmanni skuldara barst ekkert svar.

Með bréfi til kæranda 8. mars 2013 felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hennar þannig að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Enginn rökstuðningur fylgdi kæru og hann hefur ekki komið fram síðar fyrir kærunefndinni.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Kærandi hafi sótt um heimild til greiðsluaðlögunar 28. júní 2011 og hafi frestun greiðslna, þ.e. greiðsluskjól, tekið gildi frá þeim degi. Öllum umsækjendum sem sótt hafi greiðsluaðlögun hafi verið kynntar skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge. við umsókn. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun 4. nóvember 2011 sem henni hafi borist með ábyrgðarbréfi. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Umræddar upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Hafi kæranda því vel mátt vera ljóst að hún skyldi halda til haga þeim fjármunum sem hún hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í 19 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. júlí 2011 til 31. janúar 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 1. júlí 2011 til 31. janúar 2013 að frádregnum skatti 4.128.874
Vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2011 430.347
Vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2012 498.287
Samtals 5.057.508
Mánaðarlegar meðaltekjur 266.185
Framfærslukostnaður á mánuði 166.825
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 99.360
Samtals greiðslugeta í 19 mánuði 1.887.833

 

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærandi hafi haft 266.185 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á 19 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærandi naut greiðsluskjóls.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir umsækjendur með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli sé honum jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. sem skuldari geti fært sönnur á með haldbærum gögnum.

Miðað við framangreindar forsendur megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi mest verið um 166.825 krónur á mánuði á meðan hún hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kæranda sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum. Samkvæmt þessu sé miðað við framfærslukostnað janúarmánaðar 2013 fyrir fullorðinn einstakling. Þar með sé gengið út frá því að kærandi hafi haft getu til að leggja fyrir 1.887.833 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðal greiðslugetu að fjárhæð 99.360 krónur á mánuði í 19 mánuði.

Kærandi hafi greint frá því að jafnt fyrirséð og ófyrirséð útgjöld hafi komið til á tímabili greiðslufrests og hafi hún því ekki séð sér fært að leggja til hliðar samkvæmt fyrirmælum a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Kærandi hafi þó ekki stutt þetta með gögnum. Hafi hún borið við samskiptaörðugleikum við umsjónarmann en hún kveðst hafa  látið umsjónarmann vita á fyrsta fundi þeirra að hún hefði ekki getað lagt fyrir. Umboðsmaður skuldara vísar til þess að hvorugt þessara atriða geti skýrt vöntun á sparnaði kæranda samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 1. nóvember 2012 að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem bentu til þess að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja fé til hliðar í greiðsluskjóli. Lagði hann því til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 8. mars 2013.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi hafi ekkert lagt til hliðar á því tímabili sem hún naut greiðsluskjóls eins og henni hafi verið skylt. Kærandi kveðst ekki hafa verið upplýst um skyldu sína til sparnaðar á tímabilinu. Þá hefur hún tiltekið ýmsan kostnað sem hún kveðst hafa greitt í greiðsluskjóli.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kæranda því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hennar var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara bar kæranda að leggja til hliðar 1.887.833 krónur frá því að umsókn hennar um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 28. júní 2011 til 31. janúar 2013. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að greiðslugeta kæranda hafi að meðaltali verið 99.360 krónur á mánuði í greiðsluskjóli. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi enga fjármuni lagt til hliðar.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. desember 2011: Sex mánuðir
Nettótekjur 1.528.711
Mánaðartekjur alls að meðaltali 254.785


Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur 2.382.618
Mánaðartekjur alls að meðaltali 198.552


Tímabilið 1. janúar 2013 til 28. febrúar 2013: Tveir mánuðir
Nettótekjur 358.894
Mánaðartekjur alls að meðaltali 179.447


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 4.270.223
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 213.511

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kæranda og bætur var greiðslugeta kæranda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. júlí 2011 til 28. febrúar 2013: 20 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 4.270.223
Vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2011 600.000
Vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2012 600.000
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 5.470.223
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 273.511
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 166.825
Greiðslugeta kæranda á mánuði 106.686
Alls sparnaður í 20 mánuði í greiðsluskjóli x 106.686 2.133.723

 

Í málinu liggur fyrir að kærandi hefur ekki lagt neina fjármuni til hliðar á greiðsluaðlögunartímanum á tímabili greiðsluskjóls. Það er mat kærunefndarinnar að kæranda hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem kærandi fékk í hendur, að henni hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Í málinu hefur kærandi borið því við að ýmis útgjöld hafi komið til á tímabili greiðslufrestunar, bæði fyrirséð og ófyrirséð. Því hafi hún ekki séð sér fært að leggja til hliðar samkvæmt fyrirmælum a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Kærandi hefur þó ekki lagt fram nein gögn sem styðja þær fullyrðingar og er þar af leiðandi ekki hægt að líta til þeirra óvæntu útgjalda sem kærandi kveðst hafa orðið fyrir í málinu.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Þar sem kærandi hefur með fyrrgreindum hætti brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. bar umboðsmanni skuldara, með vísan til þess og samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna, að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta