Hoppa yfir valmynd

Nr. 497/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 5. október 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 497/2021

í stjórnsýslumálum nr. KNU21090039 og KNU21090092

 

Beiðni um frestun réttaráhrifa og endurupptöku í máli […]

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í stjórnsýslumáli nr. KNU21060055, dags. 30. ágúst 2021, var staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um að brottvísa [...], fd. [...], ríkisborgara Georgíu (hér eftir nefndur kærandi), og ákveða honum tveggja ára endurkomubann.

Niðurstaða kærunefndar var birt fyrir kæranda þann 6. september 2021 og 13. september 2021 barst beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Þann 20. september 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins og barst greinargerð kæranda þann sama dag.

Kærandi krefst þess að réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar útlendingamála verði frestað á meðan hann fer með mál sitt fyrir dómstóla, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Þá byggir endurupptökubeiðni kæranda á 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð byggir kærandi á því að kærunefnd hafi ekki fylgt málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar, í fyrsta lagi hafi nefndin ekki gætt að skyldu sinni til að tryggja honum réttláta málsmeðferð, sbr. m.a. meginreglu stjórnsýsluréttar um góða og vandaða stjórnsýsluhætti sem og réttmætar væntingar, sem leiði jafnframt til þess að kærandi hafi ekki fengið réttláta málsmeðferð líkt og 70. gr. stjórnarskrárinnar kveði á um, sbr. 6. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Í öðru lagi hafi nefndin brotið í bága við rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, í þriðja lagi hafi nefndin vegna framangreinds ekki gætt að meðalhófsreglunni, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga og brotið gegn rétti hans til fjölskyldulífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Loks byggir kærandi á því að hann eigi rétt á að fá mál sitt endurupptekið á grundvelli 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Rekur kærandi með ítarlegum hætti málsástæður sínar um hverja og eina kröfu í greinargerð. Vísar kærandi m.a. til þess að hann hafi í kæru sinni til kærunefndar haldið því fram að hann hafi verið í góðri trú um heimild til dvalar á Ísland eftir að hann gekk í hjúskap með maka sínum hinn 20. maí 2021. Hafi kærandi fengið þessar upplýsingar frá túlkinum […] en sá túlkur hafi verið kallaður til af lögreglunni við birtingu tilkynningar Útlendingastofnunar um hugsanlega brottvísun og endurkomu­bann, dags. 15. maí 2021. Nánar tiltekið hafi túlkurinn fullyrt við kæranda að ef hann myndi giftast íslenskum ríkisborgara, líkt og kærandi hefði þá upplýst lögreglu um, og legði fram umsókn um dvalarleyfi væri dvalarleyfis mál hans komið í lag. Hafi fyrirmæli túlksins verið eftirfarandi: „Þú þarft að skrá þig hjá lögreglunni á hverjum degi og klára mál þín, þ.e. skráning hjónabands og leggja fram öll skjöl til Útlendingastofnunar, og sækja um dvalarleyfi. Einnig þarftu að koma með sönnunargögn til lögreglu og þau munu skila vegabréfinu.“ Þessum fyrirmælum hafi kærandi fylgt í hvívetna rétt eins og gögn málsins bendi til. Byggir kærandi á því að stjórnvöld beri ábyrgð á gæðum túlkaþjónustu sem honum hafi verið veitt, þ.m.t. rangra upplýsinga frá túlkinum. Kærandi hafnar rökstuðningi kærunefndar í úrskurði hennar máli sínu enda hafi hann fengið rangar upplýsinga auk þess sem það hafi staðið Útlendingastofnun nær að afla sér sönnunar um hið gagnstæða, þ.e. að hann hafi ekki fengið rangar upplýsingar. Jafnframt byggir kærandi á því að rökstuðningur kærunefndar, sem legið hafi til grundvallar niðurstöðu hennar, virðist byggjast á öðrum forsendum en þeim sem hann hafi byggt á í kæru sinnu. Vísar kærandi til þess að hann hafi ekki misskilið túlkinn heldur þvert á móti hafi hann fengið beinlínis rangar upplýsingar frá honum. Þannig hafi stjórnvaldið ekki tryggt að hann fengi fullnægjandi túlkaþjónustu og hafi sú vanræksla leitt til slæmra afleiðinga fyrir kæranda og fjölskyldu hans. Með vísan til framangreinds hafi stjórnvöld ekki tryggt honum fullnægjandi túlkaþjónustu hafi stjórnvöld brotið á rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar. Í því samhengi vísar kærandi m.a. til tilgreindra fræðaskrifa, dóma Mannréttindadómstóls Evrópu og álits umboðsmanns Alþingis.

Kærandi byggir á því að við meðferð á kæru hans hafi rannsóknarreglan, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, jafnframt verið brotin. Í kæru sinni hafi kærandi skorað á kærunefnd að kalla eftir upptöku vegna birtingu tilkynningar um hugsanlega brottvísun og endurkomubann. Kærandi hafi enga aðra forsendu en að trúa því að upptaka sé til af skýrslutökunni en þrátt fyrir það komi fram í úrskurði kærunefndar að „samkvæmt upplýsingum sem kærunefnd aflaði frá Útlendingastofnun var birtingin ekki tekin upp í hljóð eða mynd,“ Fyrir utan framangreint ósamræmi milli stjórnvalda sem einkum sé til þess fallið að grafa undan trúverðugleika stjórnsýslunnar vísar kærandi til þess að hann hafi ekkert að fela um hvað hafi farið fram milli hans og túlksins. Byggir kærandi á því að það standi stjórnvöldum nær að sanna að túlkurinn hafi ekki veitt honum rangar upplýsingar sem ráðið hafi úrslitum í máli hans, einkum að hann yfirgæfi ekki landið innan sjö daga og kæmi þannig í veg fyrir brottvísun og endurkomubann til tveggja ára. Rannsóknarreglan sé svokölluð öryggisregla og því byggir kærandi á því að brot gegn henni teljist verulegur annmarki á ákvörðun kærunefndar, sem leiði til þess að hún teljist hvorki rétt né lögmæt. Sé því mikilvægt að dómstólar fái tækifæri til að skera úr um lögmæti slíkrar ákvörðunar.

Loks byggir kærandi á því kærunefnd hafi byggt ákvörðun sína á allt öðrum forsendum en kæra hans grundvallaðist á. Kærandi bendir á að í kæru sinni hafi hann, líkt og áður greini, ekki byggt á því að hafa misskilið túlkinn heldur þvert á móti skilið hann fullkomlega. Þar sem forsendur kærunefndar fyrir ákvörðun sinni séu ekki í samræmi við þær sem kærandi byggði á í kæru sinni telur kærandi að hann eigi rétt á því að mál hans verði endurupptekið, sbr. 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

i.Krafa um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði nr. 415/2021 frá 30. ágúst 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann til landsins í tvö ár. Komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að kærandi hafi notið fullnægjandi túlkaþjónustu við birtingu tilkynningar um hugsanlega brottvísun og endurkomubann, dags. 15. maí 2021, en tilkynningin var skýr að formi og efni til um skyldu kæranda til þess að yfirgefa landið innan sjö daga frá afhendingu bréfsins. Kærandi ber fyrir sig sömu málsástæðu í beiðni sinni um endurupptöku og við meðferð brottvísunarmálsins hjá kærunefnd, þ.e. að umræddur túlkur hafi gefið kæranda leiðbeiningar þess efnis að ef hann gengi í hjúskap og legði fram dvalarleyfisumsókn á þeim grundvelli væru mál hans komin „í lag“. Líkt og greinir í fyrrgreindum úrskurði kærunefndar var efni tilkynningarinnar túlkað fyrir kæranda en það hins vegar ekki tekið upp í hljóði eða mynd, en gögn málsins bera ekki annað með sér en að umrædd tilkynning hafi verið kynnt kæranda eftir að skýrslutöku lögreglu lauk. Í skýrslutöku hjá lögreglu hinn 15. maí 2021 kvaðst kærandi „vera ólöglegur í landinu og muna samþykkja að vera vísað frá landinu“ en þurfa frest til 25. maí 2021 til að yfirgefa landið. Í umræddri tilkynningu merkti kærandi í flipann „Ég mun ekki leggja fram greinargerð heldur mun nýta mér rétt minn til að snúa heim af sjálfsdáðum og leggja fram staðfestingu þess efnis“. Er afstaða kæranda eins og hún birtist hér að framan á skjön við þá málsástæðu hans að hann hafi talið sig hafa heimild til áframhaldandi dvalar á landinu í samræmi við meintar leiðbeiningar viðstadds túlks. Þá er ljóst að ákvörðun Útlendingastofnunar var birt fyrir kæranda rúmlega mánuði síðar, eða hinn 18. júní 2021, og gafst kæranda því nægt ráðrúm til þess að yfirgefa landið. Er það mat kærunefndar að þegar hafi verið tekin afstaða til þeirra málsástæðna sem hann ber fyrir sig í beiðni sinni um endurupptöku málsins.

Í ljósi framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 30. ágúst 2021, hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að fyrrgreindur úrskurður var kveðinn upp, sbr. 1. og 2. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.

ii. Krafa um frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndar útlendingamála samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga

Í íslenskum rétti gildir sú meginregla að málskot til dómstóla frestar ekki réttaráhrifum endanlegra ákvarðana stjórnvalda, sjá til hliðsjónar 2. ml. 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Reglan er áréttuð í 1. ml. 6. mgr. 104. laga um útlendinga nr. 80/2016 en þar segir að málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun á stjórnsýslustigi um að útlendingur skuli yfirgefa landið fresti ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess, sbr. 2. ml. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Frestun á réttaráhrifum skal bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að málið hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Niðurstaða um hvort ástæða sé til að fresta réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar ræðst af heildstæðu mati á hagsmunum kæranda af því að réttaráhrifum úrskurðarins verði frestað og sjónarmiðum sem mæla gegn slíkri frestun. Meðal þeirra sjónarmiða sem líta ber til við þetta mat er hvort framkvæmd úrskurðarins valdi kæranda óafturkræfum skaða, hvort framkvæmdin feli í sér verulegar hindranir á aðgengi kæranda að dómstólum, hvort aðstæður sem þýðingu geta haft fyrir málið hafi breyst verulega eða hvort þörf sé á sérstakri varúð, m.a. með tilliti til hagsmuna barna. Þá lítur kærunefnd til þess hlutverks stjórnvalda að tryggja skilvirka framkvæmd laga um útlendinga. Kærunefnd hefur jafnframt litið til þess að heimild til frestunar réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar er undantekning frá meginreglu sem aðeins sé ætlað að ná til tilvika þar sem ástæða er til þess að fresta framkvæmd. Réttaráhrifum úrskurðar verði því ekki frestað af þeirri ástæðu einni að úrskurðurinn verði borinn undir dómstóla heldur þurfi að liggja fyrir tilteknar ástæður í fyrirliggjandi máli svo kærunefnd fallist á slíka beiðni.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, sem er sjálfstæð stjórnsýslunefnd, hefur verið tekin afstaða til málsástæðna aðila varðandi ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann til Íslands í tvö ár. Kærunefnd ítrekar það sem kemur fram í úrskurði í máli aðila en að mati nefndarinnar eru þær málsástæður sem kærandi hefur lagt fram með beiðni um frestun réttaráhrifa ekki til þess fallnar að breyta fyrri ákvörðun nefndarinnar. Kærunefnd tekur fram að tiltölulega skammur tími er liðinn síðan nefndin úrskurðaði í máli aðila. Ekkert bendir til þess að aðstæður aðila hafi breyst verulega síðan nefndin úrskurðaði í málinu á þann hátt að nefndin telji að það gæti haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins eða að tengsl aðila hér á landi sé þess eðlis að hagsmunir hans krefjist þess að úrskurði nefndarinnar um brottvísun aðila verði frestað. Þá er ekkert í gögnum málsins sem gefur til kynna að framkvæmd úrskurðar kærunefndar frá 30. ágúst 2021 kunni að valda kæranda óafturkræfum skaða.

Þá áréttar kærunefnd að vera aðila á landinu er ekki forsenda fyrir því að mál sem hann höfðar til ógildingar á úrskurði kærunefndar sé tækt til meðferðar hjá dómstólum. Þá hefur aðili möguleika á að gefa skýrslu fyrir dómi þótt hann sé ekki hér á landi, sbr. 2. mgr. 49. gr. og 3. og 4. mgr. 51. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að ekki sé ástæða til að fallast á beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndar í máli hans.

Samantekt

Samkvæmt framansögðu eru hvorki forsendur til að endurupptaka mál kæranda á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga né fresta réttaráhrifum samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

 

 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda um endurupptöku samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er hafnað.

Kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa samkvæmt lögum um útlendinga nr. 80/2016 er hafnað.

 

The request of the appellant for the reopening of the ruling of the Asylum Appeals Board in accordance with the Administrative Procedure Act no. 37/1993 is denied.

The request of the appellant for suspension of legal effects in accordance with the Act on Foreigners no. 80/2016 is denied.

 

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson, varaformaður

               

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta