Hoppa yfir valmynd

Nr. 25/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 17. febrúar 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 25/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU19110017

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 12. nóvember 2019 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Sýrlands (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. október 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar hér á landi með vísan til sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 17. september 2019. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun, m.a. þann 7. október 2019, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann 18. september 2019, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Þýskalandi. Þann 8. október 2019 var beiðni um upplýsingar um stöðu kæranda beint til yfirvalda í Þýskalandi, sbr. 34. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá þýskum yfirvöldum, dags. 16. október 2019, kom fram að honum hefði verið veitt réttarstaða flóttamanns þann 6. febrúar 2016 og að hann væri með gilt dvalarleyfi þar í landi til 28. febrúar 2022. Útlendingastofnun ákvað þann 28. október 2019 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 29. október 2019 og kærði kærandi ákvörðunina þann 12. nóvember 2019 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 21. nóvember 2019 ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kæranda hefði verið veitt alþjóðleg vernd í Þýskalandi. Umsókn hans um alþjóðlega vernd yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Þýskalands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Þýskalands.

Var kæranda veittur 7 daga frestur til að yfirgefa landið og athygli hans vakin á því að yfirgæfi hann ekki landið innan frests væri heimilt að brottvísa honum. Í brottvísun fælist bann við komu til landsins síðar og endurkomubann skyldi að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi eigi tvær eiginkonur, önnur sé staðsett í Írak og hin í Marokkó. Þá eigi hann átta börn og séu þau staðsett í Írak. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi kærandi greint frá því að hann vilji ekki snúa aftur til Þýskalands. Aðstæður hans þar í landi hafi verið ágætar en honum hafi verið synjað um fjölskyldusameiningu og hann sé staðsettur hér á landi fyrst og fremst til að auka líkur sínar á að sameinast fjölskyldu sinni.

Í greinargerð kæranda er fjallað um möguleika einstaklinga sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Þýskalandi til fjölskyldusameiningar með vísan til alþjóðlegra skýrslna. Kemur fram að lagalegar takmarkanir sem þessum einstaklingum séu settar við að fá nákomna aðila til landsins og álag á þýska kerfinu geri fólkinu erfitt að njóta réttar síns. Er vísað til viðtals kæranda hjá Útlendingastofnun þar sem hann hafi greint frá því að hann hafi verið illa upplýstur um rétt sinn til fjölskyldusameiningar. Hafi hann fengið synjun á umsókn um fjölskyldusameiningu í Þýskalandi, m.a. sökum þess að hann hafi ekki getað sýnt fram á að hann gæti staðið undir framfærslukostnaði. Þá hafi hann greint frá því að hann hafi ekki verið með atvinnu í Þýskalandi vegna lítillar þýskukunnáttu. Þá er einnig fjallað um þær hindranir sem einstaklingar með réttarstöðu flóttamanns þurfi að yfirstíga til að fá atvinnu í Þýskalandi.

Krafa kæranda er byggð á því að ótækt sé að beita heimild a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og að taka skuli mál hans til efnislegrar meðferðar í ljósi sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til nánar tiltekinna úrskurða kærunefndar sem gefi í skyn að viðkvæm staða umsækjenda skuli hafa aukið vægi andspænis sjónarmiðum sem tengjast m.a. skilvirkni við meðferð umsóknar og mikilvægis samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins. Þá fjallar kærandi um reglugerð nr. 276/2018, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, og vísar til þess að skilyrði sem koma fram í ákvæðum hennar geri ríkari kröfur en ákvæði laga um útlendinga og gangi í sumum tilvikum gegn vilja löggjafans. Kærandi byggir á því að aðstæður hans séu það einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði framhjá þeim litið. Hann muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna andlegrar líðanar sinnar og ótta við að geta ekki sameinast fjölskyldu sinni þar í landi. Kærandi vísar til 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og vísar til þess að með endursendingu kæranda til Þýskalands séu líkur á að kærandi muni ekki fá notið réttinda sem felast í fyrrgreindum ákvæðum um friðhelgi einkalífsins. Einnig vísi kærandi til þess að ljóst sé að við setningu laga um útlendinga hafi löggjafinn viljað tryggja að meginreglan um einingu fjölskyldunnar sé að fullu virt og endurspeglist það m.a. í 2. mgr. 45. gr. laganna. Í ljósi frásagnar kæranda um vanlíðan hans yfir því að vera ekki nærri fjölskyldu sinni og þess að nánast ótækt sé fyrir hann að vera sameinaður fjölskyldu sinni, þeirrar staðreyndar að kærandi hafi ekki hlotið menntun og sé ólæs sem hafi áhrif á atvinnuþátttöku hans í viðtökuríki, byggir kærandi á því að staða hans muni verða verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var kæranda veitt alþjóðleg vernd í Þýskalandi þann 6. febrúar 2016 og hefur gilt dvalarleyfi þar í landi til 28. febrúar 2022. Að mati kærunefndar felur sú vernd sem kærandi nýtur Í Þýskalandi í sér virka alþjóðlega vernd í skilningi a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi [...] ára gamall karlmaður sem staddur er einsamall hér á landi. Í gögnum um heilsufar kæranda kemur m.a. fram að hann sé almennt heilbrigður en kveði sig hafa bak- og höfuðverki. Þá hafi kærandi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann finni fyrir andlegri vanlíðan og þreytu vegna aðstæðna sinna. Þá kemur fram í gögnum málsins að kærandi segist vera ólæs.

Aðstæður í Þýskalandi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Þýskalandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • 2018 Human Rights Report – Germany (United States Department of State, 13. mars 2019),
  • 2017 Human Rights Report – Germany (United States Department of State, 20. apríl 2018),
  • Amnesty International Report 2017/18 - Germany (Amnesty International, 22. febrúar 2018),
  • Asylum Information Database, Country Report: Germany (European Council on Refugees and Exiles, 16. apríl 2019),
  • Freedom in the World 2019 – Germany (Freedom House, 2019),
  • National Action Plan Against Racism (The Federal Government, 14. júní 2017)
  • Report by Nils Muižnieks Commissioner for Human Rights of the Council Of Europe Following his Visit to Germany on 24th April and from 4 to 8 May 2015 (Council of Europe: Commissioner for Human Rights, 1. október 2015),
  • Upplýsingar af heimasíðu þýsku útlendingastofnunarinnar (www.bamf.de) og
  • World Report 2020 – European Union (Human Rights Watch, 2020).

Í framangreindum skýrslum kemur m.a. fram að dvalarleyfi einstaklinga með réttarstöðu flóttamanns séu gefin út til þriggja ára og dvalarleyfi einstaklinga með viðbótarvernd til eins árs með möguleika á endurnýjun til tveggja ára, samtals þrjú ár. Í gögnum málsins kemur fram að þar sem grundvöllur endurnýjunar dvalarleyfis sé sá sami og veiting slíks leyfis fáist leyfið að jafnaði endurnýjað ef aðstæður einstaklingsins hafa ekki breyst. Einstaklingur með stöðu flóttamanns geti sótt um varanlegt dvalarleyfi að þremur árum liðnum og einstaklingur með viðbótarvernd að fimm árum liðnum frá því að hann kom til Þýskalands. Þá geta einstaklingar með alþjóðlega vernd í Þýskalandi sótt um ríkisborgararétt eftir átta ára löglega dvöl þar í landi.

Þá kemur fram að einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Þýskalandi geta sótt um fjölskyldusameiningu. Handhafi alþjóðlegrar verndar sem sækir um fjölskyldusameiningu að liðnum þremur mánuðum eftir veitingu alþjóðlegrar verndar þarf að lúta almennum reglum við umsóknarferlið. Viðkomandi þarf að sýna fram á að hann geti staðið undir framfærslukostnaði og að fjölskyldan hafi aðgengilegt húsnæði.

Í framangreindum skýrslum kemur ennfremur fram að einstaklingar með alþjóðlega vernd í Þýskalandi eigi sama rétt á opinberri heilbrigðisþjónustu og þýskir ríkisborgarar en þeir þurfa að skrá sig í heilbrigðiskerfið. Sjúklingar þurfa almennt að greiða hluta af þeim kostnaði sem fellur til vegna þeirrar heilbrigðisþjónustu sem þeir njóta en frá því eru þó undantekningar, t.d. í þeim tilvikum þegar sjúklingar geta ekki greitt fyrir slíka þjónustu. Þá kemur fram í framangreindum skýrslum að einstaklingar með alþjóðlega vernd í Þýskalandi eigi sama rétt og þýskir ríkisborgarar til þess að fá nauðsynlega félagslega aðstoð, svo sem atvinnuleysisbætur, en þjónustan er bundin við búsetusvæði einstaklingsins sem getur þýtt að einstaklingar með alþjóðlega vernd verði að lúta ákveðnum skilyrðum varðandi búsetu. Af framangreindum gögnum má ráða að einstaklingar með alþjóðlega vernd geti leitað ásjár lögregluyfirvalda og annarra þar til bærra stjórnvalda telji þeir á sér brotið og jafnframt leitað réttar síns fyrir dómstólum. Þá kemur fram að glæpum gegn innflytjendum í Þýskalandi hafi fjölgað á undanförnum árum og þýsk stjórnvöld verið álitin hafa vanrækt hlutverk sitt að stemma stigu við slíkum glæpum, þ. á m. veita lögregluvernd í þeim tilvikum. Þá kemur fram að nýlega hafi stjórnvöld brugðist við því og gert aðgerðaráætlun til að sporna gegn kynþáttafordómum og annars konar mismunun í Þýskalandi.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun aðildarríkis um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

Með vísan til umfjöllunar um aðstæður einstaklinga sem njóta alþjóðlegrar verndar í Þýskalandi er það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þar sem kærandi nýtur alþjóðlegrar verndar í Þýskalandi telur kærunefnd að tryggt sé að hann verði ekki sendur áfram til annars ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Áður hefur verið greint frá aðstæðum kæranda. Af framangreindum skýrslum og gögnum má ráða að kærandi hafi heimild til að stunda atvinnu í Þýskalandi og eigi rétt á félagslegri aðstoð. Samkvæmt gögnum málsins hafa einstaklingar með réttarstöðu flóttamanns möguleika á fjölskyldusameiningu í Þýskalandi að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Kærunefnd telur að ekkert bendi til þess að skilyrðin fyrir fjölskyldusameiningu í Þýskalandi séu í ósamræmi við regluverk Evrópusambandsins, sbr. tilskipun nr. 2003/86/EC frá 22. september 2003 um fjölskyldusameiningu. Að mati kærunefndar eru reglur um fjölskyldusameiningu í Þýskalandi ekki þess eðlis að litið verði svo á að kærandi eigi erfitt uppdráttar af þeim sökum. Telur kærunefnd að gögn málsins beri ekki með sér að aðstæður kæranda séu með þeim hætti að hann muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að hann geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga.

Þá er það mat nefndarinnar að ekki sé fyrir hendi ástæða í máli kæranda er varðar heilsufar hans sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga.

Það er jafnframt mat kærunefndar að málsástæður kæranda að öðru leyti verði ekki taldar til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 7. október 2019 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 17. september 2019.

Athugasemd kæranda

Svo sem fram hefur komið gerir kærandi fyrirvara við lagastoð reglugerðar nr. 276/2018 og telur hana ekki eiga sér lagastoð. Áður hefur komið fram í úrskurðum kærunefndar að reglugerðina skortir ekki lagastoð. Kærunefnd hefur endurskoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Að mati kærunefndar er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um athugasemdir kæranda.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd þann 17. september 2019. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda bendir allt til þess að hann hafi verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Í ljósi þess að þegar ákvörðun Útlendingastofnunar liggur fyrir hefur kærandi 15 daga kærufrest samkvæmt 7. gr. laga um útlendinga og að réttaráhrif hinnar kærðu ákvörðunar frestast við kæru skv. 35. gr. sömu laga telur kærunefnd rétt að frestur til að yfirgefa landið sé ákvarðaður í samræmi við þann frest. Kærunefnd beinir því til Útlendingastofnunar að ákveða slíkan frest m.t.t. framangreinds og veita rýmri frest til að yfirgefa landið að loknum kærufresti. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 21 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið í þessu máli.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin. 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Áslaug Magnúsdóttir

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                          Árni Helgason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta