Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 105/2013

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 27. maí 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 105/2013.

 1.      Málsatvik og kæruefni

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur borist kæra A, með bréfi, dags. 18. september 2013. Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 2. febrúar 2009 samhliða minnkuðu starfshlutfalli hjá B. Hún var í 75% starfi og fékk því greiddar 25% atvinnuleysisbætur á móti því skv. 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur til 20. ágúst 2010, en sótti um bætur að nýju 8. ágúst 2012. Í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 22. ágúst 2013, segir að um áramótin 2012–2013 hafi fallið úr gildi bráðabirgðaákvæði laga um atvinnuleysistryggingar þar sem bótaréttur einstaklingar hafi farið úr 48 mánuðum í 36 mánuði. Bótaréttur kæranda styttist því um tólf mánuði. Kæranda var í bréfinu tilkynnt að ekki væri hægt að verða við beiðni hennar um afturköllun ákvörðunar um styttingu bótatímabils, þar sem bótaréttur einstaklings væri bundinn við 36 mánuði í 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Af kæru kæranda, dags. 18. september 2013, verður ráðið að hún vænti þess í fyrsta lagi að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að greiða henni ekki vexti á bætur sem var haldið eftir vegna greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir ágústmánuð 2013 í tíu virka daga, eða til 12. september 2013, verði endurskoðuð. Í öðru lagi óskar kærandi þess að fallist verði á þá skoðun hennar að tvö tímabil, með 24 mánaða fullu starfi á milli þeirra, sé að ræða í máli hennar og að hún eigi því rétt á 36 mánaða bótarétti miðað við 1. ágúst 2012, en Vinnumálastofnun samþykkti umsókn kæranda frá 8. ágúst 2012 þann 24. ágúst 2012. Fallist úrskurðarnefndin ekki á þetta er þess krafist að gerður verði endurútreikningur á bótatímabilinu og fullt tillit tekið til þess tímabils (18 mánaða) sem hún hlaut 25% bætur auk þeirra starfa sem hún hefur sinnt frá nóvember 2012 til dagsins í dag, verði litið þannig á að kærandi hafi fengið greiddar fullar bætur fyrir 4,5 mánuði á tímabilinu 2. febrúar 2009 til 1. ágúst 2010, en ekki bætur fyrir 18 mánuði. Vinnumálastofnun telur að vísa eigi máli þessu frá.

Í bréfi kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 16. ágúst 2013, óskaði kærandi eftir skýringum á ástæðu þess að bótaréttur hennar hefði verið styttur úr 25,67 mánuðum í 12,67 mánuði í janúar 2013. Vinnumálastofnun svaraði kæranda með bréfi, dags. 22. ágúst 2013, þar sem fram kom að um áramótin 2012–2013 hafi fallið úr gildi bráðabirgðaákvæði X með lögum um atvinnuleysistryggingar þar sem mælt var fyrir um lengingu bótatímabils um tólf mánuði. Kæranda var tilkynnt að þar sem bótaréttur væri bundinn við 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar væri ekki unnt að verða við beiðni hennar um afturköllun ákvörðunar um styttingu bótatímabils.

Í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 22. ágúst 2013, var óskað eftir vottorði um vinnufærni kæranda skv. a-lið 1. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 14 gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í erindi kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 27. ágúst 2013, kemur fram að hún telji að ónýttur bótaréttur hennar sé lengri en 6,67% eins og fram komi á greiðsluseðli nr. 2013050107, dags. 1. ágúst 2013. Hún hafi ekki beðið um afturköllun ákvörðunar um styttingu bótatímabils, heldur að ónýttur bótaréttur hennar verði ákvarðaður að nýju út frá 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með erindi kæranda fylgdi umbeðið læknisvottorð um vinnufærni hennar.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 18. desember 2013, kemur fram að sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að samþykkja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur sem barst 8. ágúst 2012, og að það bótatímabil sem hófst 2. febrúar 2009 héldi áfram að líða hafi verið tekin á fundi Vinnumálastofnunar 24. ágúst 2012. Fari kærandi fram á að litið verði svo á að hún hafi áunnið sér rétt til nýs bótatímabils þegar hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur 8. ágúst 2012. Til vara fari kærandi fram á að endurútreikningur á bótatímabili sínu verði gerður og fullt tillit verði tekið til þess 18 mánaða tímabils sem hún hlaut 25% atvinnuleysisbætur. Þá megi einnig ráða af erindi kæranda að kærð sé sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að greiða ekki vexti með þeirri greiðslu atvinnuleysisbóta sem haldið hafi verið eftir vegna ágústmánaðar 2013 í samræmi við 3. mgr. 35. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar segir einnig að sú ákvörðun stofnunarinnar að samþykkja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur, dags. 8. ágúst 2012, og að það bótatímabil sem hófst 2. febrúar 2009 héldi áfram að líða hafi verið tekin á fundi stofnunarinnar 24. ágúst 2012. Þar sem þriggja mánaða kærufrestur skv. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé liðinn sé það mat Vinnumálastofnunar að vísa skuli þessum lið kæru kæranda frá.

 Kærandi fari til vara fram á gerð endurútreiknings á bótatímabili sínu og að fullt tillit verði tekið til þess 18 mánaða tímabils sem hún hlaut 25% atvinnuleysisbætur, auk þeirra starfa sem hún hafi sinnt frá nóvember 2012 til dagsins í dag. Verði þá litið svo á að hún hafi fengið greiddar fullar bætur fyrir 4,5 mánuði á tímabilinu 2. febrúar 2009 til 1. ágúst en ekki bætur fyrir 18 mánuði. Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að stofnuninni hafi ekki borist umsókn um endurútreikning á bótatímabili samkvæmt bráðabirgðaákvæði XII með lögum um atvinnuleysistryggingar. Bráðabirgðaákvæði XII kveði á um að sá sem hafi verið tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða V á gildistíma þess geti sótt um og fengið viðurkennt að sá tími teljist hluti tímabils skv. 29. gr. laganna þannig að einungis skuli reikna hvern dag sem viðkomandi hafi fengið greiddar hlutfallslegar atvinnuleysisbætur sem hálfan dag. Fyrir liggi að kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli á tímabilinu 2. febrúar 2009 til 20. ágúst 2010. Berist stofnuninni beiðni um endurútreikning á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XII verði skoðað hvort kærandi eigi rétt á lengingu bótatímabils síns. Geti Vinnumálastofnun því ekki tekið afstöðu að svo stöddu til þess liðar kærunnar sem snúi að kröfu hennar um gerð endurútreiknings á bótatímabili sínu og sé það mat Vinnumálastofnunar að vísa eigi þeim lið frá, enda liggi engin stjórnvaldsákvörðun fyrir í málinu varðandi þann þátt.

 2.      Niðurstaða

Kærandi krefst þess að fá greidda vexti á atvinnuleysisbætur henni til handa fyrir ágústmánuð 2013 sem haldið hafði verið eftir, skv. 35. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, á meðan beðið var eftir læknisvottorði sem kærandi hafði verið beðin um að leggja fram. Málið var tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar 6. september 2013 og framlagt vottorð samþykkt. Kærandi fékk greitt næsta greiðsludag eftir það, eða 12. september 2013. Í 35. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um tilhögun greiðslna atvinnuleysisbóta. Í 2. mgr. lagagreinarinnar segir að Vinnumálastofnun sé heimilt að halda eftir greiðslu atvinnuleysisbóta sem hinum tryggða hafi áður verið ákvörðuð í allt að einn mánuð frá því að greiðsluna hafi átt að inna af hendi þegar stofnunin hafi rökstuddan grun um að hinn tryggði uppfylli ekki lengur skilyrði laganna eða hafi þegar fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Í 3. mgr. 35. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að komist Vinnumálastofnun að því eftir að hafa upplýst málið nægjanlega að hinn tryggði hafi átt rétt á þeirri greiðslu, að hluta eða öllu leyti, sem haldið hafi verið eftir skv. 2. mgr. beri stofnuninni að greiða þá fjárhæð í síðasta lagi næsta greiðsludag skv. 1. mgr. ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð hafi verið í vörslu Atvinnuleysistryggingasjóðs. Með vísan til framanskráðs og skv. 2. og 3. mgr. 35. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber Vinnumálastofnun að greiða kæranda vexti af greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir ágústmánuð 2013 frá tilskildum greiðsludegi skv. 1. mgr. 35. gr. laga um atvinnuleysistryggingar til 12. september 2013 þegar greiðslan var innt af hendi.

Vinnumálastofnunar tók á fundi sínum 24. ágúst 2012 ákvörðun um að staðfesta umsókn kæranda frá 8. ágúst 2012 en með þeirri staðfestingu hélt bótatímabil sem hófst 2. febrúar 2009 áfram að líða skv. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæra kæranda er dagsett 18. september 2013 og var þriggja mánaða kærufrestur skv. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar því liðinn og er þessum lið kæranda því vísað frá.

Kærandi krefst þess að gerður verði endurútreikningur á umræddu bótatímabili og að fullt tillit verði tekið til þess tímabils (18 mánaða) sem hún hlaut 25% bætur auk þeirra starfa sem hún hefur sinnt frá nóvember 2012 til dagsins í dag, verði litið þannig á að kærandi hafi fengið greiddar fullar bætur fyrir 4,5 mánuði á tímabilinu 2. febrúar 2009 til 1. ágúst 2010, en ekki bætur fyrir 18 mánuði. Í bráðabirgðaákvæði XII í lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að sá sem hefur verið tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða V á gildistíma þess getur sótt um og fengið viðurkennt að sá tími teljist hluti tímabils skv. 29. gr. þannig að einungis skal reikna hvern dag sem viðkomandi fékk greiddar hlutfallslegar atvinnuleysisbætur sem hálfan dag. Vinnumálastofnun hefur ekki borist umsókn um framanskráð frá kæranda og þ.a.l. liggur ekki fyrir kæranleg stjórnvaldsákvörðun skv. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, varðandi þennan þátt málsins. Þeim þætti er því vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Úr­skurðar­orð

 Vinnumálastofnun greiði A vexti af greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir ágústmánuð 2013 frá fyrsta virkum degi septembermánaðar 2013 til 12. september 2013.

Kæru varðandi bótatímabil sem hófst 2. febrúar 2009 er vísað frá.

Kæru varðandi endurútreikning atvinnuleysisbóta kæranda er vísað frá.

 

 Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta