Hoppa yfir valmynd

Nr. 137/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 24. mars 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 137/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22030006

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.          Málsatvik og málsmeðferð

Hinn 11. júlí 2019 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar dags. 3. maí 2019, um að synja einstaklingi er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Íraks, um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda hinn 15. júlí 2019.

Hinn 3. mars 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku. Kærandi óskar eftir endurupptöku á úrskurði kærunefndar útlendingamála með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir aðallega á því að aðstæður hans hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar hafi verið birtur honum, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi byggir einnig á því að ákvarðanir stjórnvalda í máli hans hafi verið byggðar á ófullnægjandi upplýsingum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Í því sambandi vísar kærandi m.a. til röksemda í greinargerð til kærunefndar, dags. 27. maí 2019.

Í greinargerð er vísað til ákvæðis 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga sem veitir heimild til útgáfu dvalarleyfis fái útlendingur ekki niðurstöðu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða frá því að umsókn var fyrst lögð fram. Kærandi telur að almenn túlkun á ákvæði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga þess efnis að framangreindum 18 mánaða fresti ljúki þegar kærunefnd útlendingamála kveði upp úrskurð sinn standist ekki. Kærandi telur að slík túlkun geti eðli málsins samkvæmt ekki átt rétt á sér þegar endursending umsækjanda um alþjóðlega vernd dragist úr hófi fram. Í þeim tilvikum sé eðlilegra, með hliðsjón af tilgangi ákvæðisins og hvernig önnur sambærileg ákvæði laganna séu túlkuð, að miða tímafrestinn við það tímamark þegar endursending hafi átt sér stað. Að öðrum kosti sé hætt við að umsækjendur festi rætur hér á landi án þess að þeim verði sjálfum um kennt. Á þeim tæpu 44 mánuðum sem kærandi hafi dvalist hér á landi hafi hann skotið föstum rótum hér á landi og aðlagast íslensku samfélagi. Að mati kæranda myndi endursending hans til heimaríkis brjóta gegn þeim grundvallarsjónarmiðum sem 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga byggi á.

Kærandi vísar til túlkunar kærunefndar á málsmeðferðartíma samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laganna og að þar sé miðað við dvöl í landinu. Færa megi rök fyrir því að vilji löggjafans sé sá sami varðandi málsmeðferðartíma í báðum þessu ákvæðum, þ.e. að ómannúðlegt sé að einstaklingur aðlagist íslensku samfélagi en sé svo fluttur úr landi. Því eigi að túlka tímabil 1. málsl. 2. mgr. 74. gr. líkt og 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Nú séu liðnir tæplega 44 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi og sé áðurnefndur 18 mánaða frestur því löngu liðinn. Kærandi beri ekki ábyrgð á því að hann hafi ekki enn verið endursendur til heimaríkis og uppfylli skilyrði 74. gr. laga um útlendinga fyrir veitingu dvalarleyfis.

Þá byggir kærandi á því að telji kærunefnd útlendingamála að ekki sé tilefni til að beita 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga í málinu þá ætti að koma til skoðunar að beita 1. mgr. 74. gr. laganna. Kærandi vísar til þess að ákvæðið feli í sér nokkuð víðtæka og matskennda heimild til veitingar dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærandi byggir framangreint einkum á því sjónarmiði, sem hafi verið rakið að framan, að ómannúðlegt sé að senda mann úr landi sem hafi fest rætur hér á landi og aðlagast íslensku samfélagi. Þá byggir kærandi á því að hann glími við langvarandi kviðverki vegna andlegs álags. Í því sambandi vísar kærandi til framlagðs læknisvottorðs, dags. 15. febrúar 2022.

Kærandi byggir einnig á því að kærunefnd hljóti að þurfa að taka tillit til þeirrar þróunar sem hafi átt sér stað undanfarið á málaflokki umsækjenda um alþjóðlega vernd. Miða ætti við þann tíma sem líði frá því að umsókn um alþjóðlega vernd er lögð fram og þar til brottvísun sé framkvæmd, enda skipti það umsækjanda litlu hvort niðurstaða fáist í málið á stjórnsýslustigi ef brottvísun sé ekki framkvæmd. Kærandi telur að líta verði á þau stjórnvöld sem komi að málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd sem eitt heildstætt kerfi sem beri sameiginlega ábyrgð á málsmeðferðartíma og vísar í því sambandi til álits umboðsmanns Alþingis nr. 9722/2018.

Kærandi telur að fyrirliggjandi gögn bendi til þess að hann hafi engan hug á öðru en að gerast íslenskur ríkisborgari, gefa af sér til íslensks samfélags og hefja nýtt líf í öruggu umhverfi þar sem hann geti leitað lausna við langvarandi verkjum sínum. Þá telur kærandi að endursending kunni að hafa óafturkræfar afleiðingar í för með sér. Að lokum telur kærandi, með hliðsjón af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, þeim hagsmunum sem í húfi eru og áhrif framangreindra upplýsinga á niðurstöðu málsins að fullt tilefni sé til endurupptöku málsins.

III.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði kærunefndar í máli kæranda, dags. 11. júlí 2019, var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærandi byggir endurupptökubeiðni sína aðallega á því að aðstæður hans hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar hafi verið kveðinn upp fyrir tæpum þremur árum síðan, án þess að komið hafi til flutnings hans af landinu. Til stuðnings beiðni sinni vísar kærandi m.a. til 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 6. júlí 2018 og var úrskurður kærunefndar í máli hans kveðinn upp hinn 11. júlí 2019, eða rúmum 12 mánuðum eftir að hann lagði fram umsókn sína. Mál kæranda var því lokið á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða. Kærandi hefur ekki farið af landi brott líkt og lagt var fyrir hann með úrskurði kærunefndar og hefur hann því dvalið hér á landi í tæpa 32 mánuði.

Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt sé að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu, að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að hann uppfylli ekki skilyrði skv. 37. og 39. gr. laganna. Samkvæmt orðanna hljóðan miðast lokadagur frests skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga við ákvörðun á stjórnsýslustigi. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram um 2. mgr. 74. gr. laganna að: „[þ]essi grein kveður á um heimild til að veita umsækjanda um alþjóðlega vernd dvalarleyfi af mannúðarástæðum hafi hann ekki fengið niðurstöðu í máli sínu innan 18 mánaða. Er hér um að ræða endanlega niðurstöðu hjá stjórnvöldum, þ.e. innan 18 mánaða á báðum stjórnsýslustigum.“ Af framangreindu er ljóst að miða verður við þann dag sem efnislegur úrskurður kærunefndar um umsókn útlendings um alþjóðlega vernd er birtur honum.

Vegna málsástæðu kæranda um að veita beri honum dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, sem skýra beri með sama hætti og 2. mgr. 36. gr. sömu laga, bendir kærunefnd á að túlkun nefndarinnar á lokadegi frests skv. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga hefur byggst á ívilnandi sjónarmiðum þar sem orðalag þess ákvæðis er ekki skýrt um hvaða tímamark eigi að miða við. Orðalag ákvæðisins er annað en 2. mgr. 74. gr. laganna og réttaráhrif þess að frestur samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laganna líður tengist málsmeðferðarreglum. Í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 9722/2018 er að finna sömu túlkun á inntaki 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Framangreint haggar hins vegar ekki skýrum fyrirmælum 2. mgr. 74. gr. laganna sem ná til stöðu kæranda.

Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að þótt kærandi hafi dvalið hér á landi í þó nokkurn tíma eftir að hann fékk endanlega niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi verður ekki ráðið af gögnum málsins að atvik málsins hafi breyst verulega á þann veg að tilefni sé til að verða við beiðni hans um endurupptöku málsins á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá bendir kærunefnd á að kæranda var veittur 15 daga frestur til sjálfviljugrar heimfarar sem hann hefur ekki virt. Enn fremur telur kærunefnd að ekkert bendi til þess að þróun í málaflokknum leiði til þess að heimilt sé að endurupptaka mál kæranda vegna umræddra atvika.

Vegna umfjöllunar í greinargerð um 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga bendir kærunefnd á að ákvæðið lýtur eingöngu að þeim aðstæðum þar sem útlendingur hefur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra aðstæðna í heimaríki. Hafa málsástæður um tengsl kæranda við Ísland því ekki vægi við mat á rétti hans til dvalarleyfis samkvæmt síðastnefndu ákvæði. Til stuðnings kröfu sinni um endurupptöku framvísaði kærandi læknisvottorði, dags. 15. febrúar 2022. Kemur þar m.a. fram að kærandi hafi leitað á heilsugæsluna í Glæsibæ hinn 9. febrúar 2022 vegna kviðverkja og hafi skoðun læknis ekki leitt neitt óeðlilegt í ljós. Þá hafi kærandi nýverið leitað á bráðamóttöku vegna sömu verkja og hafi blóð- og þvagrannsóknir ekki kallað á bráðameðferð. Í úrskurði kærunefndar nr. 343/2019 frá 11. júlí 2019 voru aðstæður kæranda í tengslum við ákvæði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga skoðaðar, m.a. hvað varðar heilsufar hans. Við meðferð máls kæranda hjá íslenskum stjórnvöldum kvaðst kærandi almennt heilsuhraustur en kvartaði undan verkjum í hálsi og öxlum. Að virtu framangreindu læknisvottorði er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á að heilsa hans hafi versnað verulega þannig að aðstæður hans teljist verulega breyttar frá því að kærunefnd kvað upp úrskurð sinn hinn 11. júlí 2019. Þá er ljóst, að teknu tilliti til frásagnar kæranda sjálfs og gagna um heimaríki hans, s.s. skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2021 (Country Policy and Information Note – Iraq: Medical and healthcare provision), að hann geti leitað sér heilbrigðisaðstoðar vegna framangreindrar veikinda í heimaríki.

Eins og að framan greinir byggir kærandi einnig á því að ákvarðanir stjórnvalda í máli hans hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum. Að mati kærunefndar hefur kærandi ekki rökstutt af hverju ákvarðanir stjórnvalda hafi byggt á ófullnægjandi upplýsingum. Þá hefur kærandi ekki vísað til heimilda eða upplýsinga sem stjórnvöld hefðu átt að byggja á við meðferð máls hans.

Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður nefndarinnar frá 11. júlí 2019 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að aðstæður kæranda hafi breyst verulega.

Samantekt

Að framangreindu virtu ert það mat kærunefndar að atvik í máli kæranda hafi ekki breyst verulega þannig að taka beri mál hans upp að nýju á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er ekkert sem bendir til þess að niðurstaða í máli kæranda hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta