Hoppa yfir valmynd

Nr. 91/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 28. febrúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 91/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU18120042

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 17. desember 2018 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. nóvember 2018, um að afturkalla dvalarleyfi á grundvelli skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að málinu verði vísað aftur til Útlendingastofnunar til frekari rannsóknar.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk útgefið dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi vegna skorts á starfsfólki þann 22. júní 2018 með gildistíma til 17. júní 2019. Þann 9. ágúst 2018 afturkallaði Útlendingastofnun dvalarleyfið á grundvelli þess að Vinnumálastofnun hefði afturkallað atvinnuleyfi hans þann 3. ágúst 2018. Kærandi lagði fram nýja umsókn um atvinnuleyfi ásamt nýjum ráðningarsamningi þann 17. ágúst 2018. Þann 3. september 2018 óskaði kærandi eftir því að mál hans yrði endurupptekið hjá Útlendingastofnun á grundvelli nýrra gagna og féllst stofnunin á endurupptöku málsins. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. nóvember 2018, var dvalarleyfi kæranda afturkallað á ný. Þáverandi umboðsmanni kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 26. nóvember 2018. Kærandi kærði ákvörðunina þann 17. desember 2018 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 18. febrúar 2019 ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að ákvæði 59. gr. laga um útlendinga heimili stofnuninni að afturkalla dvalarleyfi sé skilyrðum fyrir veitingu leyfisins ekki lengur fullnægt. Sé dvalarleyfi á grundvelli skorts á starfsfólki, sbr. b-lið 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga, háð því skilyrði að atvinnuleyfi hafi verið veitt áður samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002. Þann 3. ágúst sl. hafi Vinnumálastofnun afturkallað atvinnuleyfi kæranda og ákveðið að endurupptaka það mál ekki þrátt fyrir framlagningu nýrrar atvinnuleyfisumsóknar og ráðningarsamnings af hálfu kæranda þann 17. ágúst 2018. Jafnframt hafi fyrrgreindri atvinnuleyfisumsókn verið synjað af Vinnumálastofnun þann 24. október 2018. Því væri ljóst að kærandi fullnægði ekki lengur skilyrðum fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli skorts á starfsfólki og væru forsendur fyrir útgáfu dvalarleyfis hinn 22. júní 2018 því ekki lengur fyrir hendi. Var ákvörðun Útlendingastofnunar sú að afturkalla dvalarleyfi kæranda.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi mótmæli ákvörðun Útlendingastofnunar. Hann hafi hvorki fengið upplýsingar um hina fyrri ákvörðun stofnunarinnar og þá hafi hin kærða ákvörðun ekki verið send kæranda með réttum hætti. Þá hafi kærandi þegar verið búinn að leggja inn nýja umsókn um atvinnuleyfi og telur hann að Útlendingastofnun hafi borið leiðbeina honum með sama hætti og vegna fyrri umsóknar hans, annað hvort með því að endurupptaka mál hans með sama hætti eða upplýsa hann um að forsendur fyrir endurupptöku væru ekki fyrir hendi. Telur kærandi að málsmeðferð stofnunarinnar hafi falið í sér brot á leiðbeiningarskyldu, sbr. 11. gr. laga um útlendinga, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og andmælarétti kæranda, sbr. 12. gr. laga um útlendinga, sbr. IV. kafla stjórnsýslulaga. Þá hafi stofnuninni borið að endurupptaka mál kæranda eftir móttöku nýjustu umsóknar hans, sbr. 11 og 24. gr. stjórnsýslulaga.Vísar kærandi til þess að hann hafi fengið útgefið dvalarleyfi á Íslandi vegna skorts á starfsfólki með gildistíma frá 22. júní 2018 til 17. júní 2019. Hafi kærandi verið skráður til heimilis hjá fyrsta vinnuveitanda en verið sagt þar upp störfum rétt um mánuði efir að hann hóf störf. Í kjölfarið hafi hann hafið atvinnuleit og lagt inn aðra umsókn eftir að dvalarleyfi hans hafi verið afturkallað. Hafi Útlendingastofnun leiðbeint honum um að óska eftir endurupptöku málsins og hafi sú beiðni verið samþykkt. Í kjölfar synjunar á annarri umsókn hafi kærandi farið aftur í atvinnuleit og lagt inn þriðju umsókn sína, aftur eftir að dvalarleyfi hans hafði verið afturkallað. Telur kærandi að Útlendingastofnun hafi borið að endurupptaka hina kærðu ákvörðun með sama hætti og áður og taka þriðju umsókn hans til efnislegrar meðferðar. Vísar kærandi til þess að vinnuveitandi vegna þriðju umsóknarinnar hafi auglýst starfið hjá Vinnumálastofnun og því séu allar forsendur til að taka umsókn hans til meðferðar.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Kærufrestur

Ákvörðun Útlendingastofnunar var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra ákvarðanir Útlendingastofnunar til kærunefndar innan 15 daga frá því að útlendingi var tilkynnt um ákvörðunina.

Hin kærða ákvörðun var tilkynnt fyrrverandi vinnuveitanda kæranda þann 26. nóvember 2018. Kæra var lögð fram til kærunefndar þann 17. desember sl. eða sex dögum utan lögmælts kærufrests sé miðað við dagsetningu tilkynningarinnar.

Með tölvupósti kærunefndar, dags. 19. desember 2018, var kæranda veittur frestur til að gera grein fyrir ástæðum þess að kæran barst ekki fyrr. Í athugasemdum með kæru, dags. 17. desember 2018, og með tölvupósti, dags. 23. desember 2018, gerði kærandi grein fyrir því af hverju kæran barst utan lögmælts frests. Byggir kærandi á því að fyrrum atvinnuveitandi hans hafi fengið ákvörðun Útlendingastofnunar afhenta en hafi hins vegar ekki tilkynnt kæranda um ákvörðunina eða sent hana áfram á kæranda. Því hafi kæranda ekki verið kunnugt um úrslit málsins hjá Útlendingastofnun fyrr en honum hafi borist ákvörðun Útlendingastofnunar þann 17. desember 2018 með tölvupósti frá stofnuninni og hafi hann þá kært ákvörðunina samdægurs.

Í greinargerð kæranda, dags. 18. febrúar 2019, kemur m.a. fram að kærandi hafi í byrjun ágúst 2018 lagt inn umsókn um atvinnuleyfi og tilgreint þar skýrlega nýtt heimilisfang á Íslandi, þ.e. [...]. Hins vegar hafi ákvörðun Vinnumálastofnunar, líkt og ákvörðun Útlendingastofnunar, verið send á heimilisfang hjá fyrrum vinnuveitanda kæranda, þ.e. [...]. Á þeirri stundu hafi fyrrum vinnuveitandi hans hins vegar þegar sent Útlendingastofnun tölvupóst þess efnis að hann hefði engin frekari afskipti af kæranda. Þá tekur kærandi fram að hann hafi verið í tölvupóstsamskiptum við stofnunina á sama tíma en engar upplýsingar um fyrirhugaða ákvörðun eða birtingu hennar hafi verið sendar honum.

Kærunefnd leggur til grundvallar, í samræmi við skýringar kæranda, að honum hafi tilkynnt um ákvörðun Útlendingastofnunar 17. desember 2018 og hafi kæran því borist kærunefnd innan lögmælts frests, sbr. 7. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga

Í 62. gr. laga um útlendinga er fjallað um heimildir til útgáfu dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 1. mgr. 62. gr. laganna eru m.a. þau að útlendingur fullnægi grunnskilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna, sbr. a-lið 1. mgr. 62. gr., og að tímabundið atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki hafi verið veitt á grundvelli laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. b-lið 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga.

Í 1. mgr. 52. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að Útlendingastofnun taki ákvörðun um veitingu dvalarleyfis en Vinnumálastofnun um veitingu atvinnuleyfis. Af ákvæðinu er ljóst að ákveðin verkaskipting er milli Útlendingastofnunar annars vegar og Vinnumálastofnunar hins vegar. Er hlutverk Útlendingastofnunar m.a. fólgið í að kanna hvort skilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfis samkvæmt umsókn þar að lútandi séu fyrir hendi í samræmi við ákvæði laga um útlendinga á meðan Vinnumálastofnun annast m.a. framkvæmd laga um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002, þ.m.t. hvort útlendingi skuli veitt atvinnuleyfi.

Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga um útlendinga er Útlendingastofnun heimilt að afturkalla dvalarleyfi útlendings, m.a. ef ekki eru lengur uppfyllt skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis eða ótímabundins dvalarleyfis. Í máli þessu liggur fyrir að með ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 3. ágúst 2018 var atvinnuleyfi kæranda vegna skorts á starfsfólki afturkallað. Þá synjaði Vinnumálastofnun umsókn kæranda, dags. 17. ágúst 2018, um atvinnuleyfi á grundvelli skorts á starfsfólki með ákvörðun sinni þann 24. október 2018. Engin gögn liggja fyrir í málinu um að þeim ákvörðunum hafi verið hnekkt. Kærandi uppfyllir því ekki lengur skilyrði b-liðar 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga og er því heimilt að afturkalla dvalarleyfi kæranda, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga um útlendinga. Að framangreindu virtu er ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

Í greinargerð gerir kærandi athugasemdir við að Útlendingastofnun hafi ekki leiðbeint honum um mögulega endurupptöku á máli sínu, líkt og stofnunin hafi gert eftir að hann lagði fram aðra atvinnuleyfisumsókn sína hjá Vinnumálastofnunar. Samkvæmt gögnum málsins hefur ákvörðunum Vinnumálastofnunar um að endurupptaka ekki mál kæranda auk þess að synja honum um atvinnuleyfi, ekki verið hnekkt. Þá liggur ekki fyrir niðurstaða Vinnumálastofnunar vegna þriðju umsóknar kæranda um atvinnuleyfi. Eru skilyrði fyrir endurupptöku máls, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga, því ekki uppfyllt enda byggðist ákvörðun Útlendingastofnunar ekki á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum, sbr. 1. tölul. ákvæðisins, og þá hafa atvik máls ekki breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölul. ákvæðisins. Þegar Útlendingastofnun tók ákvörðun um að endurupptaka mál kæranda þann 3. september 2018 voru skilyrði fyrir endurupptöku jafnframt ekki uppfyllt. Að mati kærunefndar hefði það hins vegar verið í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, að Útlendingastofnun hefði tilkynnt kæranda að stofnunin teldi skilyrði fyrir endurupptöku vegna þriðju umsóknar hans ekki vera uppfyllt, m.t.t. að stofnunin hafði þá áður fallist á að endurupptaka mál kæranda þann 3. september 2018. Að mati kærunefndar er ekki tilefni til frekari umfjöllunar um þær athugasemdir sem kærandi gerir við málsmeðferð Útlendingastofnunar.

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi ekki dvalarleyfi hér á landi. Kæranda er því ekki heimil áframhaldandi dvöl hér á landi og ber honum að yfirgefa landið innan 15 daga frá móttöku úrskurðarins. Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa honum, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                             Anna Valbjörg Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta