Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 175/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 175/2017

Þriðjudaginn 15. ágúst 2017

AgegnDalvíkurbyggð

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 24. apríl 2017, kærir A, ákvörðun Dalvíkurbyggðar, dags. 14. febrúar 2017, um synjun á umsókn hans um ferðaþjónustu fatlaðra.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi óskaði eftir ferðaþjónustu fatlaðra vegna ferða frá heimili hans að B vegna náms. Beiðni kæranda var tekin fyrir á fundi félagsmálaráðs Dalvíkurbyggðar 14. febrúar 2017 sem hafnaði erindinu á þeirri forsendu að hann væri með tekjur og gæti sjálfur greitt fyrir aksturinn.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála með kæru, móttekinni 4. maí 2017. Með bréfi, dags. 9. maí 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Dalvíkurbyggðar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Dalvíkurbyggðar barst með bréfi, dags. 6. júní 2017, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. júní 2017. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 24. júní 2017, og voru þær sendar sveitarfélaginu til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. júlí 2017. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann stundi nám í framhaldsskóla á C en sé búsettur í þéttbýliskjarna X kílómetrum frá B. Kærandi vísar til þess að hann sé ekki með bílpróf vegna fötlunar sinnar og þurfi því á ferðaþjónustu fatlaðra að halda. Kærandi tekur fram að hann fari í skólann með rútu frá B til C en ekki sé boðið upp á ferðir frá hans heimabæ. Undanfarin ár hafi kærandi fengið far með grunnskólarútunni til B en haustið 2016 hafi hann fengið þær upplýsingar að vegna plássleysis yrði það ekki lengur í boði fyrir framhaldsskólanema. Þær forsendur hafi svo breyst þegar ákveðið hafi verið að fá stærri rútu í aksturinn. Faðir kæranda hafi þá sjálfur greitt fyrir rútuferðirnar þar sem sveitarfélagið hafi aldrei séð um að greiða fyrir framhaldsskólanemana. Í byrjun árs 2017 hafi Dalvíkurbyggð gert þá kröfu að alltaf yrði ákveðinn fjöldi lausra sæta í grunnskólarútunni og því hafi framhaldsskólanemar ekki lengur haft kost á því að nýta rútuferðina. Frá þeim tíma hafi foreldrar kæranda og annars nemanda í sama skóla deilt kostnaði vegna aksturs til og frá B alla virka daga en sveitarfélagið hafi neitað að taka þátt í þeim kostnaði. Kærandi tekur fram að ítrekað hafi verið sótt um ferliþjónustu fyrir hann en sveitarfélagið hafi ávallt synjað þeirri beiðni.

III. Sjónarmið Dalvíkurbyggðar

Í greinargerð Dalvíkurbyggðar kemur fram að í gegnum tíðina hafi verið stutt við bakið á kæranda og fjölskyldu hans vegna þess kostnaðar sem fallið hafi til vegna ferða í tengslum við skólasókn kæranda. Fyrst um sinn hafi kærandi getað nýtt sér ferðir í skólarútu fyrir grunnskólabörn en Dalvíkurbyggð hafi einnig greitt foreldrum kæranda akstursstyrk í samræmi við reglur sveitarfélagsins vegna erfiðrar fjárhagsstöðu fjölskyldunnar. Synjun sveitarfélagsins á áframhaldandi greiðslum byggi á því að í upphafi hafi greiðslur tekið mið af slæmri fjárhagsstöðu fjölskyldunnar en þær forsendur hafi breyst. Frá ársbyrjun 2017 hafi kærandi auk þess fengið greiddar örorkubætur og því um verulega breyttar forsendur að ræða.

Dalvíkurbyggð vísar til þess að lykilatriði varðandi þjónustu sveitarfélaga til handa fötluðum íbúum þeirra sé að jafna aðstöðumun og sjá til þess að fatlaðir njóti sömu tækifæra og aðrir íbúar, hvort heldur til vinnu eða náms. Sveitarfélagið telji að með því að hafna beiðni kæranda sé ekki brotið gegn þeim meginreglum sem gildi um jöfn tækifæri fatlaðra á við ófatlaða og að afgreiðsla málsins sé í samræmi við reglur þess um ferðaþjónustu fatlaðra. Tekið er fram að fötlun kæranda sé ekki þess eðlis að hann falli undir skilyrði reglnanna. Sveitarfélagið bendir á að ekki sé boðið upp á ferðir fyrir framhaldsskólanema frá heimabæ kæranda til B og því sé ekki um það að ræða að kærandi njóti ekki jafnra tækifæra á við aðra íbúa sveitarfélagsins.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um ákvörðun Dalvíkurbyggðar um að synja umsókn kæranda um ferðaþjónustu fatlaðra vegna ferða frá heimili hans að B vegna náms.

Fjallað er um réttindi fatlaðs fólks í lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Markmið laga um málefni fatlaðs fólks er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Samkvæmt 7. gr. laganna skal fatlað fólk eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Ávallt skuli leitast við að veita fötluðu fólki þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Reynist þjónustuþörf fatlaðs einstaklings meiri en svo að henni verði fullnægt innan almennrar þjónustu skal hann fá þjónustu samkvæmt lögunum. Við framkvæmd laganna skal tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Í 4. gr. laganna kemur fram að sveitarfélög beri ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar sem og kostnaði vegna hennar, samkvæmt lögum þessum nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 59/1992 á fatlaður einstaklingur rétt á þjónustu þar sem hann kýs að búa og komi fram umsókn um slíka þjónustu skal samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laganna meta þá umsókn af teymi fagfólks sem meti heildstætt þörf fatlaðs einstaklings fyrir þjónustuna og jafnframt hvernig koma megi til móts við óskir hans.

Í 35. gr. laga um málefni fatlaðs fólks er fjallað um rétt fatlaðs fólks til ferðaþjónustu en þar segir í 1. mgr. að sveitarfélög skuli gefa fötluðu fólki kost á ferðaþjónustu en markmið hennar sé að gera þeim sem ekki geti nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Þá kemur fram í 2. mgr. 35. gr. að fatlað fólk skuli eiga rétt á ferðaþjónustu á vegum sveitarfélaga vegna aksturs á þjónustustofnanir og vegna annarrar sértækrar þjónustu sem því er veitt sérstaklega.

Í 3. mgr. 35. gr. laga nr. 59/1992 kemur fram að ráðherra sé heimilt að gefa út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélögin um rekstur ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk á grundvelli ákvæðisins. Sveitarstjórnum sé jafnframt heimilt að setja reglur um þjónustuna á grundvelli ákvæðisins og leiðbeinandi reglna ráðherra. Í leiðbeinandi reglum velferðarráðuneytisins fyrir sveitarfélög um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk kemur fram að reglunum sé ætlað að vera til hliðsjónar og stuðla að samræmi á milli sveitarfélaga og þjónustusvæða. Í 3. gr. reglnanna segir meðal annars að viðmið um ferðafjölda skuli taka mið af þörfum hvers og eins. Þá segir að ferðir vegna afþreyingar eða tómstunda skuli metnar í samráði við hvern og einn og í öllum tilfellum skuli meta þarfir og markmið viðkomandi einstaklings og getu hans til að ná þeim markmiðum. Í 8. gr. reglnanna kemur fram að framkvæmd ferðaþjónustu skuli styðja við það markmið að efla vald fatlaðs fólks yfir aðstæðum sínum og lífi, styrkja félagslega stöðu þess, sjálfsvirðingu og lífsgæði. Reglur sveitarfélags skuli ganga út frá því að aðstæður hvers einstaklings eigi að meta sérstaklega. Þar beri að meta markmið einstaklingsins, meðal annars hvað varðar atvinnu, nám og tómstundir og hvaða þarfir hann hafi fyrir ferðaþjónustu sem myndi gera honum kleift að ná þeim markmiðum.

Dalvíkurbyggð hefur útfært nánar framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, meðal annars með reglum sveitarfélagsins um ferðaþjónustu fatlaðra sem samþykktar voru í bæjarstjórn 1. febrúar 2000. Í 1. gr. reglnanna kemur meðal annars fram að markmið ferðaþjónustu fatlaðra sé að gera þeim sem eru andlega eða líkamlega fatlaðir og geti ekki nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar sinnar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Í 1. mgr. 2. gr. reglnanna kemur fram að ferðaþjónustan sé ætluð til afnota fyrir þá íbúa sveitarfélagsins sem séu bundnir hjólastól, blindir eða ófærir um að nota almenningsvagnaþjónustu vegna annarrar fötlunar. Í 1. mgr. 4. gr. reglnanna segir að sækja þurfi um ferðaþjónustu til félagsmálastjóra á sérstökum umsóknareyðublöðum. Félagsmálastjóri afgreiði umsóknir samkvæmt reglunum en umsókn skuli metin á grundvelli möguleika umsækjanda til að nýta sér þjónustu almenningsvagna og eða aðra ferðamöguleika. Meta skuli aðstæður hverju sinni og heimilt sé að óska viðeigandi vottorða og upplýsinga er veitt geti upplýsingar um ástand og þörf hins fatlaða fyrir þjónustu.

Dalvíkurbyggð hefur vísað til þess að fötlun kæranda sé ekki þess eðlis að hann falli undir skilyrði framangreindra reglna. Sú staðhæfing sveitarfélagsins er hins vegar hvorki rökstudd nánar né studd neinum gögnum. Dalvíkurbyggð hefur einnig vísað til þess að greiðslur til foreldra kæranda hafi tekið mið af slæmri fjárhagsstöðu þeirra en þær forsendur hafi breyst. Þá kemur fram í hinni kærðu ákvörðun að kærandi sé með tekjur og geti hæglega borgað sjálfur fyrir aksturinn. Úrskurðarnefndin tekur fram að samkvæmt lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks er ekki gert ráð fyrir að heimilt sé líta til fjárhagslegra sjónarmiða þegar tekin er ákvörðun um ferðaþjónustu fatlaðra einstaklinga.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga hvílir sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði að mál séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Að mati úrskurðarnefndarinnar liggur fyrir að aðstæður kæranda voru ekki rannsakaðar með fullnægjandi hætti, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, þannig að hægt væri að taka upplýsta ákvörðun um hvort hann ætti rétt á ferðaþjónustu fatlaðra. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Dalvíkurbyggð að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar þar sem tekið er mið af framangreindum sjónarmiðum.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Dalvíkurbyggðar, dags. 14. febrúar 2017, um synjun á umsókn A, um ferðaþjónustu fatlaðra er felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta