Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 293/2016 - Endurupptaka

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Endurupptekið mál nr. 293/2016

Fimmtudaginn 17. ágúst 2017

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með tölvupósti þann 28. júní 2017, óskaði A, eftir endurupptöku máls nr. 293/2016 sem lokið var með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 8. desember 2016.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 14. október 2015 og var umsóknin samþykkt 16. nóvember s.á. Kærandi fékk greiddan makalífeyri frá þremur lífeyrissjóðum og dánarbætur frá Tryggingastofnun ríkisins samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta og Vinnumálastofnun skerti greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar af þeim sökum í samræmi við reiknireglu 1. málsl. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi bar þá ákvörðun undir úrskurðarnefnd velferðarmála sem staðfesti ákvörðunina með úrskurði 25. ágúst 2016. Kærandi fékk ákvarðaðar áframhaldandi dánarbætur frá Tryggingastofnun í maí 2016 á grundvelli sérstakra aðstæðna, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Þær greiðslur komu einnig til frádráttar frá greiðslum atvinnuleysisbóta kæranda, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006.

Kærandi bar þá ákvörðun Vinnumálastofnunar undir úrskurðarnefnd velferðarmála sem staðfesti ákvörðun stofnunarinnar með úrskurði 8. desember 2016. Kærandi leitaði til umboðsmanns Alþingis vegna niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og í áliti umboðsmanns, dags. 26. júní 2017, var komist að þeirri niðurstöðu að afstaða úrskurðarnefndarinnar væri ekki í samræmi við lög. Umboðsmaður Alþingis mæltist til þess að úrskurðarnefndin tæki mál kæranda til nýrrar meðferðar, kæmi fram beiðni frá henni þess efnis, og leysti úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu. Þann 28. júní 2017 barst nefndinni beiðni kæranda um endurupptöku málsins með vísan til fyrrnefnds álits umboðsmanns Alþingis. Úrskurðarnefndin féllst á beiðni kæranda um endurupptöku og með bréfi nefndarinnar, dags. 28. júní 2017, var óskað eftir greinargerð Vinnumálastofnunar vegna málsins. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 4. júlí 2017, var úrskurðarnefndinni tilkynnt að stofnunin teldi ekki þörf á að færa fram nýja greinargerð í málinu. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. júlí 2017, var bréf Vinnumálastofnunar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að Tryggingastofnun ríkisins hafi samþykkt að framlengja greiðslu dánarbóta til hennar á grundvelli 6. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Þær bætur séu í eðli sínu félagsleg aðstoð, sem komi oftast frá sveitarfélögum en ekki ríkinu, en slíkar greiðslur skerði ekki atvinnuleysisbætur. Kærandi telur þær greiðslur sem hún fái frá Tryggingastofnun vera sambærilegar og félagsleg aðstoð sveitarfélaga og því sé henni mismunað með skerðingu á atvinnuleysisbótum. Kærandi bendir á að dánarbætur séu ekki greiddar nema Tryggingastofnun telji að sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Stofnunin hafi metið það svo að hennar aðstæður væru sérstakar og því hafi dánarbætur til hennar verið framlengdar um 12 mánuði. Að mati kæranda hafi ákvörðun um framlengingu dánarbóta verið tekin á allt öðrum forsendum en fyrri ákvörðun um greiðslu dánarbóta í sex mánuði.

Kærandi telur að ekki sé lagaheimild fyrir því að skerða atvinnuleysisbætur hennar með framangreindum hætti. Þær greiðslur sem hún fái frá Tryggingastofnun komi ekki á nokkurn hátt í veg fyrir að hún geti sinnt vinnu, ólíkt öðrum greiðslum eins og umönnunarbótum, sjúkradagpeningum og endurhæfingarlífeyri. Þá sé fráleitt að telja greiðslurnar ætlaðar henni til framfærslu, enda sé um óverulega fjárhæð að ræða.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að ákvörðun um skerðingu atvinnuleysistrygginga kæranda vegna makalífeyrissgreiðslna og dánarbóta sé tekin á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Í ákvæðinu séu taldir upp einstakir tekjuliðir sem skuli koma til frádráttar atvinnuleysisbótum. Hvorki makalífeyrissgreiðslur né dánarbætur séu þar á meðal. Af efni 1. mgr. 36. gr. laganna megi þó ráða að þrátt fyrir upptalningu einstakra tekjuliða, sem komi til frádráttar greiðslu atvinnuleysistrygginga, sé ákvæðinu einnig ætlað að ná til annarra greiðslna sem hinn tryggði kunni að fá frá öðrum aðilum.

Í 2. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 sé sérstaklega gerð grein fyrir þeim greiðslum sem ekki komi til frádráttar greiðslum atvinnuleysistrygginga. Samkvæmt ákvæðinu skuli Vinnumálastofnun meta í hverju tilviki hvort greiðsla, sem ekki sé sérstaklega talin upp í ákvæðinu og sé ekki ætluð til framfærslu hins tryggða, skuli koma til frádráttar samkvæmt 1. mgr. sama ákvæðis. Þar sem dánarbætur sem kærandi fái frá Tryggingastofnun ríkisins séu ætlaðar til framfærslu eftirlifandi maka verði ekki séð að slíkar greiðslur geti fallið undir undanþáguákvæði 2. mgr. 36. gr. laganna. Vinnumálastofnun bendir á að barnalífeyrisgreiðslur hafi ekki komið til skerðingar á atvinnuleysisbótum samkvæmt 36. gr. laga nr. 54/2006, enda séu slíkar greiðslur ekki ætlaðar til framfærslu hins tryggða heldur barna hans.

Samkvæmt skýru fordæmi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skuli dánarbætur koma til frádráttar á atvinnuleysisbótum samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laganna þar sem um sé að ræða aðrar greiðslur sem ætlaðar séu til framfærslu hins tryggða. Úrskurðarnefndin hafi kveðið upp úrskurð í sambærilegum deilumálum og nú sé til umfjöllunar hjá úrskurðarnefnd velferðarmála. Vinnumálastofnun bendi til dæmis á mál nr. 77/2012, 19/2015 og 20/2016 þar sem nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að dánarbætur og makalífeyrir ættu að koma til frádráttar atvinnuleysisbótum samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006. Í máli kæranda nr. 20/2016 hafi úrskurðarnefnd velferðarmála talið að dánarbætur sem greiddar séu af Tryggingastofnun falli utan 2. mgr. 36. gr. laganna og að mati Vinnumálastofnunar sé eðli dánarbóta óbreytt, þrátt fyrir framlengingu þeirra vegna sérstakra aðstæðna. Slíkar bætur falli því áfram undir 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006. Vinnumálastofnun bendir á að við mat á því hvort heimilt sé að framlengja dánarbætur, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 99/2007, hafi Tryggingastofnun lagt það til grundvallar að ef fjárhags- og félagslegar aðstæður eftirlifandi maka væru mjög slæmar gæti viðkomandi sótt um framlengingu dánarbóta. Það sé mat Vinnumálastofnunar að framlengdar dánarbætur séu ætlaðar til framfærslu maka þar sem allir sem missi maka innan 67 ára geti fengið greiddar dánarbætur óháð þeim kostnaði sem fylgi andláti. Þá sé enn fremur litið sérstaklega til fjárhags- og félagslegra aðstæðna við ákvörðun á framlengingu bóta. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið að skerða greiðslur atvinnuleysisbóta til handa kæranda vegna dánarbóta á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006.

IV. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að skerða greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um gildissvið laganna en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 36. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um frádrátt frá atvinnuleysisbótum vegna tekna hins tryggða. Þar segir í 1. mgr.:

„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“

Vinnumálastofnun skerti atvinnuleysisbætur kæranda á grundvelli framangreinds ákvæðis vegna dánarbóta sem hún fékk greiddar frá Tryggingastofnun ríkisins á grundvelli laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 er ekki sérstaklega kveðið á um að dánarbætur skerði atvinnuleysisbætur og kemur því til skoðunar hvort niðurlag 2. málsl. 1. mgr. 36. gr. eigi við um slíkar greiðslur. Dánarbætur kæranda voru greiddar af Tryggingastofnun ríkisins, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 99/2007, sem greiðir einnig elli- og örorkulífeyri samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar. Að því virtu að kærandi fékk dánarbæturnar greiddar frá Tryggingastofnun er það mat úrskurðarnefndarinnar að þær uppfylli ekki skilyrði ákvæðisins um að vera „aðrar greiðslur […] frá öðrum aðilum“. Vinnumálastofnun var því óheimilt að skerða atvinnuleysisbætur kæranda vegna þeirra.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að skerðing á atvinnuleysisbótum kæranda vegna dánarbóta frá Tryggingastofnun ríkisins hafi ekki verið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, í máli A, um að skerða greiðslur atvinnuleysisbóta á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er felld úr gildi og málinu vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta