Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 168/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 168/2017

Fimmtudaginn 17. ágúst 2017

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 28. apríl 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. mars 2017, um að fella niður bótarétt hennar í tvo mánuði og innheimta ofgreiddar bætur.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 5. apríl 2016 og var umsóknin samþykkt. Með bréfi, dags. 22. febrúar 2017, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnuninni hefðu borist upplýsingar um að hún hefði verið í starfi á [...] í nóvember 2016 samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt um það til stofnunarinnar. Kæranda var veittur sjö daga frestur til að skila inn skýringum og athugasemdum. Skýringar bárust þann 23. febrúar og 8. mars 2017. Með bréfi, dags. 14. mars 2017, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hennar yrði felldur niður frá og með 13. mars 2017 í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi var einnig krafin um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 að fjárhæð 5.545 kr. að meðtöldu 15% álagi, fyrir tímabilið 10. nóvember 2016. Kærandi lagði fram frekari gögn og fór fram á að mál hennar yrði tekið fyrir að nýju. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 12. apríl 2017, var kæranda tilkynnt um synjun á endurupptöku máls hennar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 3. maí 2017 og fullnægjandi gögn þann 2. júní 2017. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 22. júní 2017. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að það sé ekki rétt að hún hafi starfað á [...] samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Hún hafi lagt fram staðfestingu frá fyrrum vinnuveitanda sínum þess efnis ásamt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra. Kærandi fer því fram á að úrskurðarnefnd velferðarmála taki mál hennar til skoðunar til að leiða hið rétta í ljós.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að tilgangur laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim, sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Með lögunum sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi og því sé gert ráð fyrir að hinir tryggðu séu í virkri atvinnuleit þann tíma. Atvinnuleysistryggingar veiti hinum tryggðu fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi. Í 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 sé kveðið á um viðurlög við brotum á upplýsingaskyldu hins tryggða. Ákvæðið taki meðal annars til þess er einstaklingur lætur hjá líða að tilkynna um vinnu sína, til lengri eða skemmri tíma, án þess að upplýsa stofnunina um störf sín líkt og skylt sé samkvæmt 9., 10., 14. og 35. gr. a laganna.

Vinnumálastofnun tekur fram að á þeim sem fái greiddar atvinnuleysisbætur hvíli rík skylda til að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar um hagi viðkomandi, sbr. meðal annars 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006. Vinnumálastofnun hafi borist þær upplýsingar frá stéttarfélagi að kærandi hefði verið við störf á [...] þann 10. nóvember 2016 þegar eftirlitsfulltrúar hafi hitt hana við hefðbundið vinnumarkaðseftirlit og hún hafi framvísað vinnustaðaskilríkjum sem auðkenni. Vinnumálastofnun, Ríkisskattstjóri og stéttarfélög starfræki samstarf um vinnumarkaðseftirlit og heimsóknir frá fulltrúum þeirra aðila á vinnustaði sé liður í hefðbundnu eftirliti með íslenskum vinnumarkaði. Hvorki kærandi né forsvarsmenn [...] hafi gefið skýringar á því hvers vegna hún hafi verið við störf þann dag sem eftirlitið átti sér stað. Það sé mat Vinnumálastofnunar að upplýsingar frá opinberum eftirlitsaðilum hljóti að vega þungt við mat á gögnum um atvinnuþátttöku einstaklinga á vinnumarkaði. Kærandi hafi verið stödd á starfsstöð [...] og gert grein fyrir sér við eftirlitsaðila að hans ósk. Enn fremur hafi hvorki kærandi né atvinnurekandi lagt fram gögn sem hreki upplýsingar eftirlitsaðila.

Vinnumálastofnun vísar til þess að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem henni beri að endurgreiða, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Skuld kæranda verði skuldajafnað við síðari tilkomnar atvinnuleysisbætur í samræmi við 3. mgr. 39. gr. laganna.

IV. Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og innheimta ofgreiddar bætur samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laganna.

Ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur … látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Ákvæðið ber meðal annars að túlka með hliðsjón af ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 en samkvæmt því skal sá sem telst tryggður á grundvelli laganna upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir. Í 2. mgr. 14. gr. laganna kemur einnig fram að hinn tryggði skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr., án ástæðulausrar tafar. Þá er kveðið á um tilkynningarskyldu til Vinnumálastofnunar um tilfallandi vinnu hins tryggða í 35. gr. a laga nr. 54/2006 en ákvæðið er svohljóðandi:

„Þeim sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum ber að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem hann tekur á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum. Heimilt er þó að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem er þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um hver vinnan er, um vinnustöðina og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu er ætlað að vara.“

Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir staðfesting þess efnis að kærandi var stödd á [...] þann 10. nóvember 2016 og framvísaði þar vinnustaðaskilríki. Að því virtu verður ekki annað séð en að kærandi hafi verið við störf á [...] þann dag. Í ljósi þeirrar upplýsingaskyldu sem greint hefur verið frá verður fallist á með Vinnumálastofnun að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum gagnvart stofnuninni er hún tilkynnti ekki um vinnuna á [...]. Að því virtu bar Vinnumálastofnun að láta kæranda sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laganna. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 er því staðfest.

Mál þetta lýtur einnig að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að endurkrefja kæranda um ofgreiddar bætur samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 vegna þess dags sem hún var í starfi, að fjárhæð 5.545 kr. að meðtöldu 15% álagi. Í 2. mgr. 39. gr. laganna kemur fram að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Þegar kærandi var við störf á [...] þann 10. nóvember 2016 uppfyllti hún ekki skilyrði 14. gr. laga nr. 54/2006 um að vera í virkri atvinnuleit. Að því virtu átti hún ekki rétt á greiðslum frá Vinnumálastofnun fyrir þann dag en ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Hins vegar skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Þar sem kærandi tilkynnti ekki Vinnumálastofnun fyrir fram um starf sitt á […] er að mati úrskurðarnefndarinnar ekki tilefni til að fella niður álagið. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. mars 2017, um að fella niður bótarétt A, í tvo mánuði og innheimta ofgreiddar bætur er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta