03/1997 - Úrskurður frá 30. janúar 1997 í málinu nr. A-3/1997
Hinn 30. janúar 1997 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-3/1997:
Með bréfi, dags. 16. janúar sl., kærði [...] "synjun Súðavíkurhrepps um að afhenda [sér] fundargerðir tveggja hreppsnefndarfunda; þann 17. desember og 29. desember 1996", dags. 2. janúar sl.
Skýra verður kæruna svo að kærandi geri þá kröfu að fá aðgang að bókunum í fyrrgreindum tveimur fundargerðum, sem varða umfjöllun um drög að viðskiptasamkomulagi á milli Súðavíkurhrepps, stjórnar [A] hf., [B] hf. og Landsbanka Íslands, svo og aðgang að umræddum drögum sem eru hluti af síðari fundargerðinni.
Með bréfi, dags. 21. janúar sl., var kæran send Súðavíkurhreppi og hreppnum gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun fyrir kl. 12 á hádegi hinn 24. janúar sl. Jafnframt var þess óskað að hreppurinn léti úrskurðarnefnd í té sem trúnaðarmál þau gögn, sem kæran lýtur að, innan þessa frests. Frestur þessi var síðan, að beiðni sveitarstjóra, framlengdur til kl. 10 árdegis hinn 27. janúar sl. Þann dag barst nefndinni umsögn Súðavíkurhrepps, dags. 25. janúar sl., ásamt umræddum gögnum.
Í forföllum Elínar Hirst tók Ólafur E. Friðriksson sæti hennar í nefndinni við úrlausn þessa máls.
Atvik þessa máls eru í stuttu máli þau að með bréfi, dags. 2. janúar sl., óskaði kærandi "eftir fundargerð tveggja síðustu funda hreppsnefndar Súðavíkurhrepps ... bæði það sem bókað hefur verið með hefðbundnum hætti og það sem undirr. er kunnugt um að hafi verið ritað í svokallaða trúnaðarbók." Í upphafi bréfsins kemur fram að beiðnin varðaði samkomulag "Súðavíkurhrepps, [A] hf. og Landsbankans vegna vangreidds hlutafjár [B] og fleiri til [A] ...".
Lögmaður Súðavíkurhrepps svaraði beiðni kæranda með bréfi, dags. 2. janúar sl., þar sem segir m.a.: "Skv. 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni fyrirtækja eða lögaðila, og sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. - Bókanir hreppsnefndar varða fjárhagshagsmuni tiltekinna fyrirtækja og þar sem ákveðið var á fundi hreppsnefndar, að gætt skyldi trúnaðar í umrætt sinn, og þar sem ekki liggur fyrir samþykki þeirra aðila sem hlut eiga að því máli sem um ræðir í bréfi yðar, er ekki unnt að láta yður í té umræddar fundargerðir."
Fyrrgreindri umsögn Súðavíkurhrepps fylgdu dagskrár hreppsnefndarfundanna 17. og 29. desember sl. og ljósrit af bókunum í fundargerðum hreppsnefndar frá þessum fundum, þar sem fjallað var um drög að viðskiptasamkomulagi á milli Súðavíkurhrepps, stjórnar [A] hf., [B] hf. og Landsbanka Íslands. Fram kemur í síðari fundargerðinni að drögin eru hluti af henni. Þá liggur fyrir, svo sem fram kemur í umsögn hreppsins, að Landsbanki Íslands hefur ekki fallist á að opinbera umrætt viðskiptasamkomulag og forsvarsmenn þeirra fyrirtækja sem um ræðir hafa heldur ekki samþykkt að upplýsingar um samkomulagið verði gerðar opinberar.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Í 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr." Í 5. gr. laganna segir síðan: "Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila." Í athugasemdum, er fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, er m.a. tekið fram, til skýringar á niðurlagsákvæði greinarinnar, að óheimilt sé að veita almenningi "viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu" fyrirtækja. Þá segir þar ennfremur að oft komi sérstakar reglur um þagnarskyldu í veg fyrir að aðgang megi veita að upplýsingum.
Þótt Súðavíkurhreppur eigi hlut í [A] hf. eiga aðrir aðilar hlut í félaginu, þ. á m. [B] hf. sem mun eiga meira en helming hlutafjár í því. Ákvæði 5. gr. upplýsingalaga, sem takmarka aðgang að upplýsingum vegna einkahagsmuna, eiga jafnt við um [A] hf. og aðra þá einkaaðila sem eru hluthafar í félaginu. Hins vegar tekur 5. gr. ekki til Súðavíkurhrepps eða Landsbanka Íslands, sem er stofnun í eigu ríkisins, heldur 6. gr. laganna sem mælir fyrir um takmarkanir á upplýsingarétti vegna almannahagmuna. Í upphafi 6. gr. og 3. tölul. hennar segir orðrétt: "Heimilt er að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um: ... viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra".
Í 43. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, er að finna svofellt ákvæði: "Bankaráðsmenn, stjórnarmenn sparisjóðs, bankastjórar og sparisjóðsstjórar, endurskoðendur og aðrir starfsmenn viðskiptabanka eða sparisjóðs eru bundnir þagnarskyldu um allt það er varðar hagi viðskiptamanna hlutaðeigandi stofnunar og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé til að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi." Þótt ákvæði þetta um þagnarskyldu sé fremur almennt orðað er það, eðli máls samkvæmt, sérstakt þagnarskylduákvæði í skilningi 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga sem getur, eins og að framan segir, staðið í vegi fyrir almennum aðgangi að upplýsingum um hagi viðskiptamanna banka og sparisjóða og önnur atriði sem fyrirsvarsmenn og trúnaðarmenn þeirra fá vitneskju um í starfi sínu.
Með vísun til alls þess, sem að framan segir, fellst úrskurðarnefnd á það sjónarmið Súðavíkurhrepps að í drögum þeim að viðskiptasamkomulagi á milli hreppsins, stjórnar [A] hf., [B] hf. og Landsbanka Íslands, sem fjallað var um á fundum hreppsnefndar 17. og 29. desember sl., sé að finna upplýsingar um svo mikilvæga fjárhagsmuni [A] hf. og [B] hf. að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt, sbr. 5. gr. upplýsingalaga. Ennfremur er það álit nefndarinnar að drögin hafi að geyma upplýsingar er kynnu að geta skaðað samkeppnisstöðu Landsbanka Íslands ef þær væru á almanna vitorði, sbr. 3. tölul. 6. gr. laganna. Upplýsingar þessar er að finna svo víða í drögunum að ekki er fært að veita aðgang að hluta þeirra skv. 7. gr. upplýsingalaga.
Í bókunum þeim frá fundum hreppsnefndar 17. og 29. desember sl., sem beiðni kæranda lýtur annars að, er skýrt frá formlegri afgreiðslu á umræddum drögum, auk þess sem færð eru til bókar þau skilyrði sem hreppsnefnd setti fyrir samþykkt viðskiptasamkomulagsins af sinni hálfu. Lítur úrskurðarnefnd svo á að í skilyrðum þessum felist ekki upplýsingar varðandi [A] hf. eða aðra einkaaðila, sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari skv. 5. gr. upplýsingalaga, heldur komi þar fram sjónarmið Súðavíkurhrepps sem hluthafa í félaginu. Þó er skylt, að áliti nefndarinnar, að afmá úr bókun frá hreppsnefndarfundinum 29. desember sl. fjárhæð á fyrirhuguðu láni frá Landsbanka Íslands til félagsins. Með vísun til 3. gr., sbr. 7. gr. upplýsingalaga er hreppnum samkvæmt þessu skylt að veita kæranda aðgang að bókunum þeim, sem hér um ræðir, með þeim takmörkunum sem að framan greinir. Af 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga leiðir að ekki skiptir máli þótt hreppsnefnd hafi, með heimild í 3. mgr. 48. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, ákveðið að ræða málið fyrir luktum dyrum og hreppsnefndarmenn skuli skv. 42. gr. laganna gæta þagnarskyldu um það sem þeir verða áskynja í starfi sínu og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls.
Úrskurðarorð:
Súðavíkurhreppi ber að veita kæranda aðgang að bókunum í fundargerðum frá fundum hreppsnefndar 17. og 29. desember 1996, sem varða umfjöllun um drög að viðskiptasamkomulagi á milli Súðavíkurhrepps, stjórnar [A] hf., [B] hf. og Landsbanka Íslands, að undanskilinni fjárhæð á fyrirhuguðu láni frá Landsbanka Íslands til [A] hf. og drögunum sjálfum sem eru hluti af síðari fundargerðinni.
Eiríkur Tómasson, formaður
Ólafur E. Friðriksson
Valtýr Sigurðsson