Hoppa yfir valmynd

Nr. 36/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 17. febrúar 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 36/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU19100034

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 8. október 2019 kærði einstaklingur [...], [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. september 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka ofangreinda umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 31. maí 2019. Þar sem kærandi hafði fengið útgefna vegabréfsáritun til Póllands var þann 30. júlí 2019 send beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd til yfirvalda í Póllandi, sbr. 2. eða 3. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá pólskum yfirvöldum, dags. 5. ágúst 2019, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli 4. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 24. september 2019 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 24. september 2019 og kærði kærandi ákvörðunina þann 8. október 2019 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 17. október 2019 ásamt fylgigögnum. Þá bárust viðbótargögn þann 30. janúar 2020.III. Ákvörðun ÚtlendingastofnunarÍ ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að pólsk stjórnvöld bæru ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Póllands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Póllands.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greingargerð kæranda kemur fram að hann hafi í viðtölum hjá Útlendingastofnun m.a. greint frá því að hann hafi lifað ágætu lífi í heimaríki sínu. Eftir að hann [...] hafi hann þurft að flýja heimaríki sitt [...]. Þá greindi kærandi frá því að hann sé mjög þreyttur og sorgmæddur vegna [...] og stöðu sinnar. Þá vilji kærandi ekki vera sendur aftur til Póllands enda hafi heimaríki hans sendiráð eða ræðismann þar í landi og hann óttist að [...] geti fundið sig þar stöðu sinnar vegna. Þá hafi hann þrátt fyrir stutta dvöl í Póllandi orðið fyrir fordómum og mismunun en að öðru leyti þekki hann ekki til hæliskerfisins í Póllandi.Í greinargerð kæranda eru gerðar athugasemdir við vinnubrögð Útlendingastofnunar, einkum þess að hafa ekki aflað samþykkis viðtökuríkis um endurviðtöku á kæranda og umsóknar hans á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, áður en viðtal hafi verið tekið við kæranda. Vísar kærandi til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar er þetta varðar. Kærandi gerir í fyrsta lagi athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar og vísar í því sambandi til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga þar sem kveðið sé á um að stjórnvaldi beri að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því og skuli stjórnvald afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga við meðferð máls. Vísar kærandi til þess að samþykki annarra aðildarríkja teljist í þessu sambandi til nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Í öðru lagi gerir kærandi athugasemd við að hafa ekki notið andmælaréttar hjá Útlendingastofnun samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga og telur hann að það sé alvarleg afbökun á andmælarétti hans þegar stofnunin leggi fram ófullkomin gögn sem ríki misskilningur um og spyrji kæranda út í mögulega ábyrgð tveggja ríkja í viðtali. Í þriðja lagi gerir kærandi athugasemd við að Útlendingastofnun hafi gengið út frá því og gert honum að skila greinargerð á þeim forsendum að Holland bæri ábyrgð á umsókn hans þegar verulegur vafi hafi leikið á ábyrgð Hollands. Telji hann slík vinnubrögð ekki til þess fallin að auka traust aðila máls á meðferð málsins auk þess sem þau leiði til tafa á málsmeðferðinni. Að lokum gerir kærandi athugasemd við reglugerð nr. 276/2018, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, þar sem hún eigi sér ekki fullnægjandi stoð í lögum um útlendinga.

Í greinargerð kæranda er vísað til umfjöllunar um aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í Póllandi úr greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar. Þar hafi kærandi vísað til ýmissa alþjóðlegra skýrslna og gagna þar sem fram komi m.a. að Pólland sé meðal þeirra ríkja Evrópu sem hafni flestum umsóknum um alþjóðlega vernd á fyrsta stjórnsýslustigi og að aðgangur að hæliskerfinu sé vandkvæðum bundinn. Þá hefur andúð í garð innflytjenda í Póllandi aukist verulega með auknum fjölda flóttamanna í Evrópu. Þá rekur kærandi í greinargerð sinni upplýsingar um óhóflega beitingu varðhaldsvistar gagnvart umsækjendum um alþjóðlega vernd í Póllandi og að skortur sé á að skimað sé eftir einstaklingum í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Krafa kæranda er reist á því að ótækt sé að beita heimild c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þar sem íslenskum stjórnvöldum sé skylt að taka mál hans til efnismeðferðar vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í þeim efnum fjallar kærandi almennt um og gerir grein fyrir inntaki og túlkun á ákvæðinu, m.a. með hliðsjón af lögskýringargögnum. Kærandi telur að frásögn hans bendi til þess að hann sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu með vísan til 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Til grundvallar þeirri fullyrðingu áréttar kærandi frásögn hans af eigin líðan og þeim sviplegu atburðum sem hann hafi orðið fyrir, [...] og hótana sem hann hafi orðið fyrir. Þá vísar kærandi einnig til lýsingar starfsmanns Göngudeildar sóttvarna en þar komi fram að kærandi sé [...]. Á grundvelli heimilda um aðstæður í Póllandi og ástand flóttamannamála þar í landi, fordómum gagnvart [...] og umsækjendum um alþjóðlega vernd og stöðu kæranda í heild telji kærandi að hann muni eiga erfitt uppdráttar í Póllandi og að staða hans verði mun síðri en staða almennings í Póllandi. Að teknu tilliti til þessa þá séu fyrir hendi sérstakar ástæður í máli hans, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Póllands á umsókn kæranda er byggð á 4. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi hafi fengið útgefna vegabréfsáritun til Póllands. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja pólsk stjórnvöld um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi karlmaður [...]. Í gögnum um heilsufar kæranda kemur fram að hann sé almennt heilbrigður en að hann hafi greint frá [...] auk þess sem að hann hafi glímt við [...] sem hann hafi fengið ávísað lyfjum við. Þá hafi kærandi lýst andlegri vanlíðan fyrir heilbrigðisstarfsfólki og í viðtölum hjá Útlendingastofnun. Kærandi hafi hitt sálfræðing á Göngudeild sóttvarna í nokkur skipti og fengið ráðleggingar vegna andlegrar vanlíðanar hjá hjúkrunarfræðingi. Í framlögðum heilsufarsgögnum kemur fram að kærandi hafi m.a. fengið lyf vegna þess að hann hafi átt erfitt með svefn auk þess sem hann hefur verið skráður með greiningarnar [...], sbr. m.a. samskiptaseðill Göngudeildar sóttvarna dags. 4. desember 2019. Í samskiptaseðli sálfræðings á Göngudeild sóttvarna, dags. 29. janúar 2020 kemur fram að kæranda sé ráðlagt að panta tíma hjá lækni og í framhaldi af því muni ráðast hvort kærandi fái tíma hjá nýjum sálfræðingi.

Í málinu liggja fyrir gögn um heilsufar kæranda, sem hann hefur lagt fram við meðferð málsins. Það er mat kærunefndar, með vísan til þeirra gagna sem liggja fyrir, að málið sé nægjanlega upplýst með tilliti til heilsufars.

Aðstæður í Póllandi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Póllandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • 2018 Country Reports on Human Rights Practices – Poland (United States Department of State, 13. mars 2019);
  • 2018 Report on International Religious Freedom: Poland (United States Department of State, 21. júní 2019);
  • Amnesty International Report 2017/18 – Poland (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Asylum Information Database, Country Report: Poland (European Council on Refugees and Exiles, 11. mars 2019);
  • Current migrant situation in the EU: Oversight of reception facilities (European Union: European Agency for Fundamental Rights, 22. september 2017);
  • The Detention of asylum seekers in Europe. Constructed on shaky ground? (European Council on Refugees and Exiles, júní 2017);
  • ECRI conclusions on the implementation of the recommendations in respect of Poland. Subject to Interim follow-up (European Commission against Racism and Intolerance, 15. maí 2018);
  • ECRI Report on Poland (fifth monitoring cycle) (European Commission against Racism and Intolerance, 9. júní 2015);
  • Freedom in the World 2019 – Poland (Freedom House, 4. febrúar 2019);
  • Upplýsingar af vefsíðu Mannréttinda- og lýðræðisstofnunar ÖSE (Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, http://hatecrime.osce.org/poland) og gagnagrunns Evrópuráðsins um flóttamenn og útlaga (http://www.asylumineurope.org/reports/country/poland/statistics);
  • Victims, suspects, accused: Rights of foreigners in criminal proceedings – a guide (Helsinki Foundation for Human Rights, 18. apríl 2017) og
  • World Report 2020 – European Union (Human Rights Watch, 2020).

Í framangreindum skýrslum kemur fram að einstaklingar geti óskað eftir alþjóðlegri vernd í Póllandi hjá pólsku landamæravörslunni (p. Straz Graniczna). Pólska útlendingastofnunin (p. Szef Urzędu do Spraw Cudzoziemców) tekur ákvarðanir varðandi umsóknir um alþjóðlega vernd. Samkvæmt pólskum lögum skulu ákvarðanir liggja fyrir innan sex mánaða frá því að umsókn var lögð fram. Í undantekningartilfellum er hægt að framlengja þann frest í 15 mánuði. Umsækjendur eiga rétt á viðtali hjá pólsku útlendingastofnuninni og þá skal stofnunin tryggja fullnægjandi túlkaþjónustu. Umsækjendur eiga þá rétt á að fá afrit af skýrslu þar sem allar spurningar og svör umsækjenda koma fram, þó ekki sé um beint endurrit að ræða. Þó kemur fram að umsækjendur átta sig oft ekki á mikilvægi viðtalsins, m.a. að þeir skuli gera ítarlega grein fyrir umsókn sinni og hvernig svör þeirra eru rituð í skýrsluna. Ákvarðanir pólsku útlendingastofnunarinnar eru kæranlegar til kærunefndar (p. Rada do Spraw Uchodźców). Úrskurði nefndarinnar er þá hægt að bera undir stjórnsýsludómstól (p. Wojewódzki Sąd Administracyjny w Warszawie), um lagaleg atriði, og dómum hans er hægt að áfrýja til áfrýjunardómstóls (p. Naczelny Sąd Administracyjny). Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga almennt ekki rétt á gjaldfrjálsri lögfræðiaðstoð á fyrsta stjórnsýslustigi umfram leiðbeiningar frá starfsfólki útlendingastofnunar en slík aðstoð á að vera í boði þegar ákvarðanir eru kærðar til kærunefndar, lögum samkvæmt. Heimildir bera með sér að erfitt geti verið að nálgast slíka þjónustu. Af framangreindum gögnum verður ráðið að einstaklingar sem eru endursendir til Póllands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar hafa aðgang að viðhlítandi málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd þar í landi.

Þá verður ekki annað ráðið af framangreindum skýrslum en að fáar hindranir séu í reynd á aðgengi að hæliskerfinu í Póllandi og útlendingum sé almennt ekki meinað að sækja um alþjóðlega vernd þar í landi. Þó séu dæmi um að á landamærum Póllands og Hvíta-Rússlands hafi einstaklingum verið meinað að sækja um alþjóðlega vernd í landinu. Umsóknir einstaklinga, sem yfirgefa landið áður en ákvörðun er tekin í máli þeirra og eru fjarverandi í meira en níu mánuði, sæta í kjölfarið ekki hefðbundinni málsmeðferð við endurkomu til Póllands heldur er litið á þær sem viðbótarumsóknir. Þá tekur pólska útlendingastofnunin ákvörðun um hvort taka skuli umsókn til efnismeðferðar eða ekki, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, m.a. hvort nýjar málsástæður liggi fyrir.

Af framangreindum gögnum má ráða að umsækjendur um alþjóðlega vernd í Póllandi eiga rétt á húsnæði og annarri þjónustu þegar þeir hafa lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd þar í landi og skráð sig í eina af móttökumiðstöðvum landsins, þ. á m. félagslegri þjónustu sem einkum felst í fjárhagslegri aðstoð. Lögum samkvæmt eiga umsækjendur rétt til heilbrigðisþjónustu, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu, til jafns við sjúkratryggða pólska ríkisborgara. Heilbrigðisþjónusta er veitt að nokkru leyti í móttökumiðstöðvum en einnig geta umsækjendur leitað til sjúkrastofnana. Tungumálaerfiðleikar gera þó bæði umsækjendum og heilbrigðisstarfsfólki erfitt fyrir, en engin gjaldfrjáls túlkaþjónusta er í boði nema þá einkum í gegnum frjáls félagasamtök. Þá eru dæmi um að fjarlægð frá móttökumiðstöðvum að sjúkrastofnunum sé mikil, sem gerir umsækjendum erfitt fyrir að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Þeir umsækjendur sem endursendir eru til Póllands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar eiga sama rétt á þjónustu og aðstoð og aðrir umsækjendur þar í landi, en árið 2015 tóku í gildi lög í Póllandi sem innleiddu tilskipanir Evrópusambandsins nr. 2013/32/ESB og 2013/33/ESB um málsmeðferð og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Umsækjendur um alþjóðlega vernd fá ekki aðgang að vinnumarkaðnum í Póllandi fyrr en sex mánuðum eftir að þeir lögðu fram umsókn sína þar í landi en umsækjendur fá þá útgefin tímabundin skilríki sem veitir þeim heimild til að vinna í landinu. Fullorðnir umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga almennt ekki rétt til menntunar innan pólska menntakerfisins en í móttökumiðstöðvunum eru þó í boði tungumálakennsla í pólsku. Þá bjóða frjáls félagasamtök upp á ýmis konar námskeið og starfsþjálfun en sökum skorts á fjármagni eru slík námsskeið oft af skornum skammti.

Samkvæmt nýjustu ársskýrslu Asylum Information Database sætti hluti umsækjenda um alþjóðlega vernd varðhaldi í Póllandi árið 2018. Samkvæmt pólskum lögum er einungis heimilt að beita varðhaldi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, s.s. þegar auðkenni umsækjenda er ekki staðfest, vegna hættu á flótta, vegna öryggisráðstafana og þegar fara á fram endursending til annars ríkis á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Frjáls félagasamtök hafa gagnrýnt pólsk yfirvöld á undanförnum árum fyrir að meina umsækjendum um alþjóðlega vernd, sem koma landleiðina í gegnum Hvíta-Rússlandi, um inngöngu í landið en í tengslum við slíkar aðgerðir hefur varðhaldi stundum verið beitt. Varðhald má samkvæmt úrskurði dómstóla almennt ekki vara lengur en í 60 daga í senn og að hámarki sex mánuði.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um mannréttindi í Póllandi árið 2018 kemur fram að fordómar og útlendingahatur sé vandamál þar í landi. Á vefsíðu Mannréttinda- og lýðræðisstofnunar ÖSE kemur fram að fá mál sem varða hatur sem tilkynnt eru til lögreglu enda með sakfellingu fyrir dómi en meðal skráðra hatursglæpa á árinu 2017 hafi verið líkamsárásir, eignatjón, íkveikjur, röskun á grafhelgi og árásir á tilbeiðslustaði. Þá kemur fram, m.a. í framangreindri skýrslu Helsinki mannréttindastofnunarinnar í Varsjá frá árinu 2017, að útlendingar sem eru þolendur glæpa, þ. á m. glæpa af völdum kynþáttahyggju, geta leitað til löggæsluyfirvalda í Póllandi sem hafa yfir að ráða fullnægjandi úrræðum til að veita umsækjendum um alþjóðlega vernd aðstoð og vernd. Þá eiga útlendingar rétt á túlki við meðferð mála fyrir dómstólum, auk þess sem þeir geta átt rétt á endurgjaldslausri réttaraðstoð, t.d. í þeim tilvikum þegar þeir hafa ekki efni á að greiða sjálfir fyrir slíka þjónustu. Umsækjendur um alþjóðlega vernd geta þá leitað til umboðsmanns (p. Rzecznik Praw Obywatelskich) telja þeir á sér brotið í samskiptum sínum við stjórnvöld.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun aðildarríkis um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Með vísan til umfjöllunar um aðstæður og móttökuskilyrði umsækjenda um alþjóðlega vernd í Póllandi er það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að kærandi hafi raunhæf úrræði í Póllandi, bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. jafnframt 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að hann verði ekki sendur áfram til annars ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Aðstæðum kæranda hefur þegar verið lýst en meðal annars liggur fyrir að kærandi hafi glímt við andlega erfiðleika. Kærunefnd telur þó að aðstæður hans séu ekki þess eðlis að þær teljist til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eða samkvæmt þeim viðmiðum sem talin eru upp í dæmaskyni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Í því sambandi hefur nefndin m.a. litið til þess að heilsufar kæranda sé ekki með þeim hætti að hann teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki, eins og segir í 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar. Þá telur nefndin að heilbrigðisaðstæður hans geti ekki talist til ástæðna sem séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði framhjá þeim litið, líkt og segir í 3. mgr. sömu greinar. Framangreind gögn um aðstæður í Póllandi benda að auki til þess að kærandi hafi aðgang að fullnægjandi heilbrigðisþjónustu í samræmi við pólsk lög.

Þá telur kærunefnd að gögn málsins beri ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að hann geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. viðmið 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda til þess að telji kærandi sér mismunað eða óttist hann um öryggi sitt að einhverju leyti í Póllandi geti hann leitað ásjár löggæsluyfirvalda eða annarra þar til bærra pólskra stjórnvalda.Þá tekur kærunefnd fram að þau gögn sem nefndin hefur kynnt sér um aðstæður í Póllandi benda ekki til þess að umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem endursendir eru til Póllands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, séu almennt hnepptir í varðhald við komuna til landsins. Kærunefnd tekur einnig fram að staðhæfing kæranda þess efnis að einstaklingum sé ítrekað meinað um að sækja um alþjóðlega vernd í Póllandi, svo sem fram kemur í greinargerð kæranda fái ekki stoð í þeim skýrslum sem kærunefnd hefur kynnt sér. Í þeim skýrslum sem kærandi vísar til í greinargerð sinni er fjallað um afmörkuð tilvik á landamærastöð í Terespol við landamæri Póllands og Hvíta-Rússlands og verður að mati kærunefndar ekki jafnað við stöðu almennra umsækjenda um alþjóðlega vernd í Póllandi. Þá er um það fjallað í greinargerð kæranda að umsóknir einstaklinga sem yfirgefa landið áður en ákvörðun er tekin í máli þeirra og eru fjarverandi í meira en níu mánuði sæti ekki hefðbundinni málsmeðferð við endurkomu til Póllands. Ábyrgð Póllands á umsókn kæranda er á grundvelli vegabréfsáritunar sem þarlend stjórnvöld gáfu út honum til handa. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu verður því ekki ráðið að kærandi hafi áður sótt um alþjóðlega vernd þar í landi og því á þessi málsmeðferð pólskra stjórnvalda ekki við í tilefni kæranda.

Það er jafnframt mat kærunefndar að málsástæður kæranda að öðru leyti verði ekki taldar til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 2. júlí 2019 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 31. maí 2019.

Athugasemdir kæranda við hina kærðu ákvörðun

Svo sem fram hefur komið gerir kærandi nokkrar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar, m.a. við beitingu stofnunarinnar á reglugerð nr. 276/2018, um breytingu á reglugerð um útlendinga sem hann telur að skorti lagastoð.

Eins og að framan greinir hefur kærunefnd lagt einstaklingsbundið mat á umsókn kæranda og komist að niðurstöðu um að synja honum um efnismeðferð með vísan til ákvæða laga um útlendinga eins og þau hafa verið útfærð í reglugerð um útlendinga. Er niðurstaða í málinu byggð á túlkun kærunefndar á framangreindum ákvæðum og sjónarmiðum sem nefndin telur málefnaleg en áður hefur komið fram í úrskurðum kærunefndar að reglugerðina skorti ekki lagastoð. Kærunefnd telur því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um athugasemd kæranda er þetta varðar.

Þá gerir kærandi athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar en hann telur að stofnunin hafi hvorki virt rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar né andmælarétt kæranda og telur hann að vinnubrögð stofnunarinnar geti ekki talist til vandaðra stjórnsýsluhátta og hafi haft í för með sér töf á málsmeðferðinni.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 6. júní 2019, kvaðst kærandi hafa fengið vegabréfsáritun til Hollands. Þá kemur fram í ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. september 2019, að samkvæmt VIS gagnagrunninum (e. Visa Information System) hafi hollenska sendiráðið í [...] gefið út áritunina. Á grundvelli þessara upplýsinga sendi Útlendingastofnun beiðni um viðtöku kæranda á hollensk yfirvöld þann 6. júní 2019. Kærandi mætti í viðtal hjá Útlendingastofnun, dags. 2. júlí 2019, og var upplýstur um að Útlendingastofnun teldi Holland bera ábyrgð á umsókn hans um alþjóðlega vernd. Þessu andmælti kærandi og taldi Pólland bera ábyrgð á umsókn hans um alþjóðlega vernd. Andmæli kæranda voru bókuð og tekin til greina og í framhaldinu var kærandi spurður út í aðstæður sínar í báðum ríkjum með hliðsjón af athugasemd kæranda. Kærandi skilaði inn greinargerð þann 29. júlí 2019 þar sem byggt var á því að hollensk yfirvöld bæru ábyrgð á umsókn hans. Þann 30. júlí 2019 barst hins vegar svar frá hollenskum yfirvöldum við viðtökubeiðninni þar sem fram kom að hollenska sendiráðið í heimaríki kæranda hefði gefið út umrædda vegabréfsáritun fyrir hönd pólskra yfirvalda. Pólskum yfirvöldum var í kjölfarið send beiðni um viðtöku kæranda sem þau samþykktu þann 5. ágúst 2019. Jafnframt var kærandi upplýstur um svar hollenskra yfirvalda samdægurs og veittur nýr greinargerðarfrestur. Kærandi skilaði nýrri greinargerð þann 16. ágúst 2019.

Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar hafi ekki verið ábótavant hvað þetta varðar. Þegar stofnunin hafi þann 6. júní 2019 sent viðtökubeiðni til Hollands hafi gögn málsins, þ.e. leitarniðurstaða í VIS gagnagrunninum, bent til þess að Holland bæri ábyrgð á umsókn kæranda. Einnig hafi kærandi greint sjálfur frá því að hann hafi fengið útgefna vegabréfsáritun til Hollands í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 6. júní 2019. Þá kemur fram í lögregluskýrslu, dags. 31. maí 2019, að kærandi hafi greint frá ferðaleið sinni til Íslands frá heimaríki og hafi Pólland ekki verið þar á meðal. Ekkert í gögnum málsins benti til þess að Pólland bæri ábyrgð á umsókn kæranda, þar til kærandi hafi haldið því fram í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 2. júlí 2019, eða 26 dögum eftir að viðtökubeiðni hafði verið send á hollensk yfirvöld. Að mati kærunefndar hafi Útlendingastofnun með því að spyrja kæranda út í aðstæður bæði í Hollandi og Póllandi, í ljósi nýrra upplýsinga frá kæranda, gengið úr skugga um að sem mestar líkur væru á því að aðstæður sem gætu haft þýðingu fyrir úrlausn málsins upplýstust, sbr. 2. mgr. 28. gr. laga um útlendinga og 10. gr. stjórnsýslulaga. Þá tekur kærunefnd fram að það er ekki skilyrði, sbr. 28. gr. laga um útlendinga, að samþykki móttökuríkis fyrir viðtöku umsækjanda um alþjóðlega vernd liggi fyrir áður en viðtal fer fram. Í 1. mgr. ákvæðisins segi aðeins að viðtal við umsækjanda skuli fara fram hjá Útlendingastofnun eins fljótt og unnt er eftir skráningu umsóknar. Þá fellst kærunefnd ekki á að Útlendingastofnun hafi valdið töfum á meðferð málsins, m.a. með því að bíða eftir svari hollenskra yfirvalda við viðtökubeiðni á umsókn kæranda. Enn fremur telur kærunefnd að gögn málsins beri með sér að kæranda hafi verið veittur fullnægjandi andmælaréttur í tengslum við atriði sem höfðu þýðingu fyrir úrlausn máls hans, s.s. aðstæður í mögulegum viðtökuríkjum, ásamt því að tillit hafi verið tekið til þeirra. Er það mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar hafi hvorki brotið gegn rannsóknarreglunni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, né andmælarétti kæranda, sbr. 13. gr. sömu laga.

Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun og málsmeðferð stofnunarinnar og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við hana. Kærunefnd hefur endurskoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun.

Frávísun

Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi komið hingað til lands þann 11. maí 2019 og sótt um alþjóðlega vernd þann 31. maí 2019. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi skal fluttur til Póllands innan tilskilins frests nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Í máli þessu hafa pólsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Póllands með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin. 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Áslaug Magnúsdóttir

 

Árni Helgason                                                                             Bjarnveig Eiríksdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta