Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 25. júlí 2003
Föstudaginn 25. júlí 2003 var tekið fyrir hjá Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 3/2003
Vegagerðin
gegn
Niðjafélaginu Hjarðarbóli ehf.
og kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r :
I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:
Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafr. og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.
II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:
Með matsbeiðni dags. 10. febrúar 2003, sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 4. mars 2003, fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík (eignarnemi), þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms í tilefni af lagningu nýs vegar og fyrirhugaðs malarnáms í landi Hjarðarbóls, Eyrarsveit. Eigandi Hjarðarbóls er Niðjafélagið Hjarðarbóli ehf., kt. 580402-2670 (eignarnámsþoli).
Hið eignarnumda sundurliðast þannig:
Landspilda undir fyrirhugaðan veg 5,0 ha.
Land undir tengingu við sumarbústað
í landi Hjaðarbóls 2,4 ha.
Samtals eignarnumið land 7,4 ha.
Fyllingarefni 330.000 m³
Burðarlagsefni 40.000 m³
Samtals eignarnumið malarefni 370.000 m³
Þá er krafist mats á hæfilegum bótum til handa eignarnámsþola vegna tímabundinna afnota eignarnema á 1-2 ha. svæði undir athafnasvæði verktaka og umferð um vegslóða í landi eignarnámsþola meðan á framkvæmdum stendur.
Eignarnámið byggist á 45. gr. vegalaga nr. 45/1994.
III. Málsmeðferð:
Mál þetta var fyrst tekið fyrir þriðjudaginn 4. mars 2003. Þá lagði eignarnemi fram matsbeiðni ásamt fylgiskjölum. Málinu var að því búnu frestað til vettvangsgöngu til 17. mars 2003.
Mánudaginn 17. mars 2003 var málið tekið fyrir. Farið var á staðinn og gengið á vettvang. Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema til 26. mars 2003.
Miðvikudaginn 26. mars 2003 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnema var lögð fram greinargerð ásamt fylgiskjölum og málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola til 14. apríl 2003.
Mánudaginn 14. apríl 2003 var málið tekið fyrir. Eignarnámsþoli lagði fram greinargerð ásamt fylgiskjölum. Eignarnemi óskaði eftir að fá að skila skriflegum svörum við greinargerð eignarnámsþola og var honum veittur frestur til 12. maí 2003 til að leggja svörin fram.
Mánudaginn 12. maí 2003 var málið tekið fyrir. Eignarnemi lagði fram viðbótargreinargerð og var málinu að því búnu frestað til munnlegs flutnings þess.
Þriðjudaginn 3. júní 2003 var málið tekið fyrir og flutt munnlega fyrir nefndinni. Sættir voru reyndar án árangurs og var málið því tekið til úrskurðar að flutningi þess loknum.
IV. Sjónarmið eignarnema:
Eignarnemi kveður ástæður eignarnámsins vera þær að fyrir liggi að þvera eigi Kolgrafarfjörð með vegfyllingu og brú. Framkvæmdin muni stytta leiðina um fjörðinn um 6,2 km. og auka umferðaröryggi verulega þar sem hæðarlega hins nýja vegar verður betri og jafnari auk þess sem veðurlag er þar hagstæðara en á gamla veginum.
Eignarnemi kveðst hafa boðið eignarnámsþola bætur með vísan til orðsendingar nr. 8/2002 um landbætur o.fl. Að auki hafi verið boðnar bætur að álitum vegna skiptingar landsins og vegna jarðrasks og átroðnings af völdum vegarlagningarinnar. Fjárhæð tilboðsins hafi verið kr. 2.700.000, en þar sem eignarnámsþoli hafi hafnað því telur eignarnemi sig óbundinn af því. Hann kveðst engu að síður tilbúinn til að standa við það snúist eignarnámsþola hugur.
Eignarnemi kveður hið eignarnumda land einkum vera malarfjöru og ógróið eða lítt gróið land og kveður það nú vera notað til hefðbundinna landbúnaðarnota, þ.e. til beitar búsmala og við þá nýtingu beri að miða við matið. Eignarnemi kveður lagningu hins nýja vegar muni ekki breyta þeim nýtingarmöguleikum landsins á nokkurn hátt, enda verði gerð undirgöng fyrir búsmala undir veginn í landi eignarnámsþola og muni það draga úr áhrifum sem skipting landsins með uppbyggðum vegi hefur í för með sér.
Eignarnemi telur að gerð hins nýja vegar muni hafa það að verkum að land Hjarðarbóls verði aðgengilegra en áður og það geti haft áhrif á notkun þess í framtíðinni. Hann telur hins vegar að miða beri bætur við núverandi verðmæti landsins og hlunninda sem á því kunna að finnast og verðlag á matsdegi. Af þessum sökum verði ekki séð að malarefni í landi Hjarðarbóls hafi teljandi fjárhagslegt verðgildi fyrir eignarnámsþola. Honum sé ókleift að selja efnið úr námunni vegna mikils flutningskostnaðar, engin mannvirkjagerð sé í nágrenni námunnar og hin litla sala sem hugsanlega gæti átt sér stað úr námunni standi ekki undir flutningskostnaði eða kostnaði við vegagerð til að bæta aðgengi að henni.
Eignarnemi telur að miða beri við orðsendingu nr. 8/2002 við ákvörðun bóta í máli þessu, en orðsendingin sé gefin út árlega af hálfu eignarnema að höfðu samráði við Bændasamtök Íslands. Í orðsendingunni sé að finna viðmiðun sem almennt sé stuðst við þegar bændum eru boðnar bætur fyrir landbúnaðarland, þegar það er í meðallagi verðmætt og skerðing á ræktunarlandi hefur ekki tilfinnanleg áhrif á heildarstærð ræktanlegs lands viðkomandi jarðar. Eignarnemi kveður lágmarksbætur fyrir ræktunarhæft land undir veg skv. orðsendingunni vera kr. 21.500 pr. ha., en óræktunarhæft gróið land kr. 8.100 pr. ha. Þá séu greiddar kr. 229.300 pr. ha. þegar um ræktað land er að ræða. Eignarnemi segir að einnig sé kveðið á um verð malarefnis í orðsendingunni og að verðmæti þess sé mismunandi eftir því hvort viðkomandi náma sé á markaðssvæði eða utan þess. Eignarnemi kveðst miða við að náma eignarnámsþola í máli þessu sé utan markaðssvæða og kveður eignarnámið ekki breyta á nokkurn hátt möguleikum eignarnámsþola til að selja efni úr námunni, enda nóg efni þar að fá.
Eignarnemi kveðst hafa stuðst við orðsendinguna þegar tilboð hans til eignarnámsþola var gert, en að auki var bætt við það verð ákveðin fjárhæð að álitum vegna skiptingar lands, jarðrasks og átroðnings.
Eignarnemi bendir sérstaklega á að skv. fasteignamati sé fasteignamat óræktaðs lands Hjarðarbóls kr. 234.000 og 3,6 ha. ræktaðs lands séu metnir á rúmlega 125.000 eða tæpar kr. 34.000 pr. ha., en engin hlunnindi séu metin af námuréttindum. Þá vísar eignarnemi einnig til úrskurða Matsnefndar eignarnámsbóta og þeirrar venju sem skapst hafi við bótaákvörðun í sambærilegum málum. Í þessu sambandi er sérstaklega vísað til úrskurða matsnefndarinnar í málum nr. 6/2000 og nr. 7/2000. Þá vísar eignarnemi til nokkurra úrskurða Matsnefndarinnar í málum er varða mat á malarefni.
Eignarnemi mótmælir sérstaklega að honum verði gert að greiða fyrir meira land en hann taki eignarnámi. Eignarnámið nái til spildu sem sé 20 m. frá miðlínu hins nýja Snæfellsnesvegar og 12 m. frá miðlínu nýs vegar að sumarbústað í landi Hjarðarholts. Kröfum eignarnámsþola um greiðslu fyrir stærri spildu sé því hafnað.
Eignarnemi mótmælir sérstaklega að hægt sé að leggja landverð á Suðurlandsundirlendinu til grundvallar við mat á bótum í máli þessu, enda sé alkunna að landverð á því svæði hafi hækkað verulega undanfarin ár, en ekkert liggi fyrir um að slík verðhækkun hafi orðið á landi á norðanverðu Snæfellsnesi.
Eignarnemi vísar sérstaklega til IX. kafla vegalaga nr. 45/1994, laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms og 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 með síðari breytingum.
V. Sjónarmið eignarnámsþola:
Eignarnámsþoli gerir þær kröfur að við ákvörðun bóta vegna eignarnáms á landi, og aðstöðu við gerð nýs Snæfellsvegar um Kolgrafarfjörð í landi hans komi fullar bætur. Bótakröfuna sundurliðar eignarnámsþoli með eftirfarandi hætti:
1. Eignarnámsþoli krefst þess í fyrsta lagi að fullar bætur komi fyrir allt land sem fer undir nýjan veg og land sem ekki má staðsetja byggingar, leiðslur eða önnur mannvirki á, þ.e. 30 metra frá miðlínu vegar til beggja hliða. Samtals er þetta 60 metra breið og 1240 metra löng landspilda, en nýr vegur liggur á 1240 metra kafla um land eignarnámsþola. Land það sem krafist er bóta fyrir skv. þessum lið er því 7,4 hektarar að flatarmáli.
2. Eignarnámsþoli krefst þess í öðru lagi að fullar bætur komi fyrir allt land sem fer undir nýjan veg (heimreið að Hjarðarbóli) og land sem ekki má staðsetja byggingar, leiðslur eða önnur mannvirki á, þ.e. 20 metra frá miðlínu þess vegar til beggja hliða. ásamt landi sem raskað verður. Land það sem krafist er bóta fyrir skv. þessum lið er því 2,4 hektarar að flatarmáli.
3. Þá krefst eignarnámsþoli þess í þriðja lagi að fullar bætur komi fyrir rýrnun á því landi jarðarinnar sem liggur beggja vegna við hið eignarnumda land og er nú nýtt sem tún, beitarland og æðarvarp. Það er álit eignarnámsþola að land jarðarinnar utan helgunarsvæðis akveganna rýrni verulega í verði vegna skiptingar á landinu í tvö nýtingarsvæði.
4. Eignarnámsþoli krefst þess í fjórða lagi að honum verði bætt tímabundin og varanleg óþægindi vegna lagningar vegarins og afnot af landi fyrir starfsstöð tímabundið jarðrask, umferð stórvirkra vinnuvéla o.fl.
5. Þá krefst eignarnámsþoli þess í fimmta lagi að honum verði bætt að fullu öll efnistaka sem fyrirhuguð er í landi hans og mótmælir að við verðákvörðun verði lögð til grundvallar svokölluð orðsending um landbætur o.fl. nr 8. 2002. Gerð er krafa um að lagt verði til grundvallar markaðsverð á samsvarandi efni á markaðssvæði Grundarfjarðar.
6. Að lokum krefst eignarnámsþoli bóta vegna þess kostnaðar mál þetta veldur honum.
Eignarnámsþoli telur með vísan til 33. gr. vegalaga nr. 45/1994 að í raun sé hann sviptur umráðum á landi sem nær 30 m. frá miðlínu hins nýja vegar, enda sé óheimilt að koma fyrir á þeirri spildu byggingum, leiðslum eða öðrum mannvirkjum, föstum eða lausum, nema með leyfi eignarnema. Þá bendir eignarnámsþoli á að loft- og hávaðamengun frá veginum verði mikil og komi til með að ná langt út fyrir 30 m. mörkin. Þá telur eignarnámsþoli vera töluverð brögð af því að girðingar sem vegagerðin hafi komið fyrir í 20 m. fjarlægð frá miðlínu stofnvega hafi fallið um koll við snjóruðning af vegum og snjóblástur.
Eignarnámsþoli mótmælir því að orðsending eignarnema nr. 8/2002 verði lögð til grundvallar við matið. Ekki sé hægt að staðla eignarnámsbætur með þeim hætti sem gert sé í þeirri orðsendingu, heldur verði að miða við aðstæður á hverjum stað til að fullt verð komi fyrir eignarnumin verðmæti. Eignarnámsþoli telur að við mat á því hvað sé fullt verð fyrir hið eignarnumda land skuli líta til þess að landið hafi í raun öðlast verðmæti miðað við að búið sé að skipuleggja á því stofnveg og það því í raun verið tekið úr landbúnaðarnotum. Þá muni landið einnig verða notað til að flytja um það rafmagn og síma og komi til nýtingar á heitu vatni sem fundist hefur í nágrenninu muni það einnig verða flutt eftir landi eignarnámsþola. Landið hafi því augljóslega öðlast töluvert virði þegar af þessari ástæðu umfram það sem væri ef það gengi kaupum og sölum eingöngu til landbúnaðarnota.
Eignarnámsþoli bendir á að hið eignarnumda land sé allt vel gróið. Í þessu sambandi bendir eignarnámsþoli á að skv. úrskurðum Matsnefndar eignarnámsbóta vegna eignarnáms í tengslum við lagningu Búrfellslínu 3A og á vegstæði Hringvegarins á jörðinni Þjórsártúni í Ásahreppi, hafi sambærileg lönd og land eignarnámsþola verið metin á kr. 150.000-400.000 pr. ha. Með hliðsjón af þessu telur eignarnámsþoli að miða eigi við að verðmæti ræktanlegs lands hans sé kr. 150.000 pr. ha. og ræktaðs lands kr. 400.000 pr. ha.
Með hliðsjón af framangreindu telur eignarnámsþoli að bæta eigi honum land sem fer undir nýjan Snæfellsnesveg með kr. 1.110.000 eða kr. 150.000 pr. ha. x 7,4 ha.
Varðandi mat á bótum fyrir land undir nýja heimreið að sumarhúsi í landi Hjarðarbóls getur eignarnámsþoli ekki fallst á að miðað sé við að eignarnámið taki einungis til 12 m. frá miðlínu vegarins. Eignarnámsþoli telur að miða eigi við 20 m. frá miðlínu vegar eða alls 2,4 ha. Eignarnámsþoli telur hæfilegar bætur fyrir þennan hluta landsins vera kr. 360.000 eða kr. 150.000 pr. ha.
Eignarnámsþoli gerir sérstaka kröfu um bætur vegna rýrnunar lands utan 30 m. helgunarsvæði vegarins. Hin nýja veglögn eftir endilöngu landinu, annars vegar með Snæfellsnesvegi og hins vegar með heimreið að sumarhúsinu skipti landinu í raun í tvo hluta. Hinn nýji vegur komi til með að skera verðmætan hluta landsins sem hafi í för með sér tilfinnanlegt tjón fyrir eignarnámsþola. Vegurinn komi til með að vera mikil hindrun í nýtingu landsins og leiði augljóslega til verðrýrnunar á jörðinni í heild. Eignarnámsþoli gerir kröfu til kr. 2.000.000 bóta vegna þessa þáttar.
Eignarnámsþoli gerir kröfu um kr. 500.000 í bætur vegna tímabundinna og varanlegra óþæginda sem veglagningin og síðari tíma umferð um veginn muni hafa í för með sér.
Varðandi bætur fyrir hið eignarnumda malarefni telur eignarnámsþoli ekki koma til greina að eignarnemi borgi mismunandi verð fyrir efnið eftir því í hvað það er nýtt. Það sem máli skipti að efnið sé allt nýtanlegt sem burðarlagsefni beri að verðmeta það miðað við það. Eignarnámsþoli telur verð malarefnis sem fram kemur í orðsendingu nr. 8/2002 ekki gefa rétta mynd af verðmæti efnisins. Miða eigi við verð fyrir sambærilegt efni á Grundarfirði eða kr. 50 pr. m³ auk virðisaukaskatts, enda sé náman á markaðssvæði miðað við landfræðilega legu hennar. Eignarnámsþoli bendir sérstaklega á að efnið sé mjög aðgengilegt fyrir eignarnema og staðsetning námunnar valdi því að hann þurfi ekki að greiða neitt í flutningskostnað á efninu.
Með hliðsjón af framangreindu telur eignarnámsþoli hæfilegar bætur fyrir hið eignarnumda malarefni vera kr. 18.500.000- auk virðisaukaskatts.
Eignarnámsþoli gerir þá kröfu að fullar bætur verði greiddar vegna eignarnámsins eins og skylt er skv. 72. gr. stjórnarskránni nr. 33/1944.
VI. Niðurstaða matsnefndar:
Fullnægjandi lagaheimild er til eignarnámsins og hefur matsnefndin farið á vettvang og kynnt sér aðstæður svo sem fram hefur komið. Stærð, lega og lögun hinnar eignarnumdu spildu er óumdeild. Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms er svohljóðandi ákvæði:
“Skerðist fasteign með þeim hætti við eignarnám, að sá hluti hennar, sem eftir er, verður ekki nýttur á eðlilegan hátt sem sjálfstæð eign, getur matsnefnd ákveðið að kröfu eiganda, að eignarnámið skuli ná til eignarinnar allrar.”
Ekki þykja efni eins og á stendur í máli þessu að gera eignarnema að taka stærri spildu eignarnámi en krafist er mats á í matsbeiðninni, þ.e. 40 m. breiða spildu vegna Snæfellsnessvegar og 24 m. breiða spildu vegna nýrrar heimreiðar að sumarhúsi í landi Hjarðarbóls. Við matið er þó litið til þess að nýtingarréttur eignarnámsþola á 60 m. breiðri spildu við Snæfellsnesveg takmarkast vegna ákvæða í vegalögum, þó spildan utan hins eignarnumda svæðis nýtist áfram til hefðbundinna landbúnaðarnota sem fyrr. Sama má segja um svæðið næst hinni eignarnumdu spildu sem nýtt verður undir heimreið að sumarhúsinu.
Hið eignarnumda svæði er að hluta til gróið, en að hluta til fjara. Gróni hluti landsins er nýttur til hefðbundinna landbúnaðarnota og telur matsnefndin ekki raunhæft að landið sé eftirsóknarvert til annarra hluta s.s. til sumarhúsabyggðar. Hinn nýji vegur um land eignarnámsþola kemur til með að skipta landi eignarnámsþola á hluta svæðisins og mun sú skipting landsins valda óhagræði við nýtingu landsins sem rétt þykir að gera eignarnema að bæta sérstaklega.
Með hliðsjón af framangreindu þykja hæfilegar bætur fyrir 7,4 ha. lands eignarnámsþola vera kr. 550.000. Þá þykir rétt að gera eignarnema að greiða eignarnámsþola að auki kr. 400.000 vegna skiptingar landsins vegna framkvæmdarinnar og í leigu vegna tímabundinna afnota af landi undir vinnubúðir meðan á framkvæmdum stendur. Ekki þykja efni til að greiða sérstakar bætur vegna ónæðis meðan á framkvæmdatíma stendur, enda hefur engin búsetu á jörðinni.
Fyrir liggur að efnistaka hefur verið nokkur á svæðinu þó eignarnámsþoli hafi ekki sýnt fram á að um stöðuga og trygga eftirspurn eftir efninu sé að ræða. Við mat á verðmæti efnisins ber því að mati nefndarinnar að líta til orðsendingar eignarnema nr. 8/2002. Eins og á stendur í máli þessu þykir rétt að miða verð malarefnisins við raunveruleg gæði þess, en stærstur hluti þess getur nýst sem burðarlagsefni þó eignarnemi hyggi á aðra notkun þess. Við matið ber að taka tillit til þess að efnisnáman er sérstaklega aðgengileg fyrir eignarnema og staðsetning námunnar hentar einkar vel fyrir fyrirhugaða framkvæmd. Með hliðsjón af framangreindu telur matsnefndin hæfilegt jafnaðarverð fyrir hið eignarnumda malarefni vera kr. 12 pr. m³, eða samtals kr. 4.440.000-.
Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþola kr. 300.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna rekstur máls þessa og kr. 600.000- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta að máli þessu.
ÚRSKURÐARORÐ:
Eignarnemi, Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, greiði eignarnámsþola, Niðjafélaginu Hjarðarbóli ehf., kt. 580402-2670, kr. 5.390.000 í eignarnámsbætur og kr. 300.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs máls þessa.
Þá skal eignarnemi greiða kr. 600.000- í ríkissjóð vegna kostnaðar við störf Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.
_______________________________
Helgi Jóhannesson
__________________________ ____________________________
Vífill Oddsson Kristinn Gylfi Jónsson