Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurðir 5. ágúst 2003

Þriðjudaginn 5. ágúst 2003 var tekið fyrir hjá Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 2/2003

 

Vegagerðin

gegn

Hreini Bjarnasyni

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.  Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

 

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafr. og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.

 

II.  Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:

 

Með matsbeiðni dags. 10. febrúar 2003, sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 4. mars 2003, fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík (eignarnemi), þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms í tilefni af lagningu nýs vegar og fyrirhugaðs malarnáms í landi Berserkseyrar, Eyrarsveit.  Eigandi hins eignarnumda er Hreinn Bjarnason, kt. 250932-4219, Berserkseyri, Eyrarsveit (eignarnámsþoli).

 

Hið eignarnumda land sundurliðast þannig:

 

Landspilda undir fyrirhugaðan veg                                            7,0 ha.

Land undir heimreið að Kolgröfum                                           1,3 ha.

Samtals                                                                                   8,3 ha.

Til frádráttar gamalt vegsvæði                                                  1,6 ha.

Samtals eignarnumið land                                                         6,7 ha.

 

Að auki er gert ráð fyrir að 0,7 ha. ræktaðs lands verði óhagkvæmt til heyöflunar en verði áfram nothæft til landbúnaðar.

 

Hið eignarnumda malarefni sundurliðast þannig:

 

Fyllingarefni                                                                       20.000 m³

Burðarlagsefni                                                                    10.000 m³

Samtals eignarnumið malarefni                                            30.000 m³

 

Þá er krafist mats á hæfilegum bótum til handa eignarnámsþola vegna tímabundinna afnota eignarnema á 2 ha. svæði sem verktaki mun hafa til afnota næst námu.   Ennfremur tímabundin afnot lands vegna gerðar bráðabirgðatengingar að námu við Mjósund, og vegna umferðar efnisflutningabíla meðfram Snæfellsnesvegi. 

 

Eignarnámið byggist á 45. gr. vegalaga nr. 45/1994.

 

III.  Málsmeðferð:

 

Mál þetta var fyrst tekið fyrir þriðjudaginn 4. mars 2003.  Þá lagði eignarnemi fram matsbeiðni ásamt fylgiskjölum.  Málinu var að því búnu frestað til vettvangsgöngu til 17. mars 2003.

 

Mánudaginn 17. mars 2003 var málið tekið fyrir.  Farið var á staðinn og gengið á vettvang.  Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema til 26. mars 2003.

 

Miðvikudaginn 26. mars 2003 var málið tekið fyrir.  Af hálfu eignarnema var lögð fram greinargerð ásamt fylgiskjölum og málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola til 14. apríl 2003.

 

Mánudaginn 14. apríl 2003 var málið tekið fyrir.  Eignarnámsþoli lagði fram greinargerð ásamt fylgiskjölum.  Eignarnemi óskaði eftir að fá að skila skriflegum svörum við greinargerð eignarnámsþola og var honum veittur frestur til 12. maí 2003 til að leggja svörin fram.

 

Mánudaginn 12. maí 2003 var málið tekið fyrir.  Eignarnemi lagði fram viðbótargreinargerð og var málinu að því búnu frestað til munnlegs flutnings þess.

 

Þriðjudaginn 3. júní 2003 var málið tekið fyrir og flutt munnlega fyrir nefndinni.  Sættir voru reyndar án árangurs og var málið því tekið til úrskurðar að flutningi þess loknum.

 

IV.  Sjónarmið eignarnema:

 

Eignarnemi kveður ástæður eignarnámsins vera þær að fyrir liggi að þvera eigi Kolgrafarfjörð með vegfyllingu og brú.  Framkvæmdin muni stytta leiðina um fjörðinn um 6,2 km. og auka umferðaröryggi verulega þar sem hæðarlega hins nýja vegar verður betri og jafnari auk þess sem verðurlag er það hagstæðara en á gamla veginum.

 

Eignarnemi kveðst hafa boðið eignarnámsþola bætur með vísan til orðsendingar nr. 8/2002 um landbætur o.fl.  Að auki hafi verið boðnar bætur að álitum vegna skiptingar landsins og vegna jarðrasks og átroðnings af völdum vegarlagningarinnar.  Fjárhæð tilboðsins hafi verið kr. 1.000.000, en þar sem eignarnámsþoli hafi hafnað því telur eignarnemi sig óbundinn af því.  Hann kveðst engu að síður tilbúinn til að standa við það snúist eignarnámsþola hugur.  Ennfremur kveðst eignarnemi reiðubúinn til að greiða viðbótarbætur vegna tímabundinna afnota verði sýnt fram á tjón af þeim völdum.

 

Eignarnemi kveður hið eignarnumda land skiptast þannig eftir gæðum þess:

 

Ræktunarhæft land og fjara                                                      7,2 ha.

Ræktað land                                                                           1,1 ha.

Samtals                                                                                   8,3 ha.

 

Þá kveður eignarnemi 0,7 ha. ræktunar muni ónýtast, en hann muni skila 1,6 ha. lands til baka með gamla vegsvæðinu.

 

Eignarnemi kveður hið eignarnumda land vera nýtt til hefðbundinna landbúnaðarnota og við þá nýtingu þess beri að miða matið, enda liggi ekki fyrir að eftirspurn sé eftir landinu til annars konar nýtingar þess.  Þá kveður hann eignarnámsþola haft einhver hlunnindi af dúntekju, en framkvæmdin muni hafa lítil sem engin áhrif á æðavarp á svæðinu, enda mun þess gætt að ekki verði unnið við undirbyggingu vegar og skeringu á varpsvæðum á tímabilinu 1. maí til 15. júlí.

 

Eignarnemi mun gera tvenn sauðfjárræsi undir veginn til að draga úr hættu á hugsanlegum neikvæðum áhrifum vegarins á nýtingu landsins til beitar.

 

Eignarnemi telur að miða beri við orðsendingu nr. 8/2002 við ákvörðun bóta í máli þessu, en orðsendingin sé gefin út árlega af hálfu eignarnema að höfðu samráði við Bændasamtök Íslands.  Í orðsendingunni sé að finna viðmiðun sem almennt sé stuðst við þegar bændum eru boðnar bætur fyrir landbúnaðarland, þegar það er í meðallagi verðmætt og skerðing á ræktunarlandi hefur ekki tilfinnanleg áhrif á heildarstærð ræktanlegs lands viðkomandi jarðar.  Eignarnemi kveður lágmarksbætur fyrir ræktunarhæft land undir veg skv. orðsendingunni vera kr. 21.500 pr. ha., en óræktunarhæft gróið land kr. 8.100 pr. ha.  Þá séu greiddar kr. 229.300 pr. ha. þegar um ræktað land er að ræða.   Eignarnemi segir að einnig sé kveðið á um verð malarefnis í orðsendingunni og að verðmæti þess sé mismunandi eftir því hvort viðkomandi náma sé á markaðssvæði eða utan þess.  Eignarnemi kveðst miða við að náma eignarnámsþola í máli þessu sé utan markaðssvæða og kveður eignarnámið ekki breyta á nokkurn hátt möguleikum eignarnámsþola til að selja efni úr námunni, enda nóg efni þar að fá.

 

Eignarnemi kveðst hafa stuðst við orðsendinguna þegar tilboð hans til eignarnámsþola var gert, en að auki var bætt við það verð ákveðin fjárhæð að álitum vegna skiptingar lands, jarðrasks og átroðnings. 

 

Eignarnemi bendir á að fasteignamat óræktaðs lands Berserkseyrar sé kr. 214.000 og 24 ha. ræktaðs lands séu metnir á kr. 813.000 eða tæpa kr. 34.000 pr. ha.  Engin hlunnindi séu metin af námuréttindum, en hlunnindi af æðavarpi á kr. 1.600.000.

 

Eignarnemi vísar sérstaklega til úrskurða Matsnefndar eignarnámsbóta í málum nr. 7/2000 og 18/1998.

 

V.  Sjónarmið eignarnámsþola:

 

Eignarnámsþoli gerir þær kröfur að við ákvörðun bóta vegna eignarnáms á landi, og aðstöðu við gerð nýs Snæfellsvegar um Kolgrafarfjörð í landi hans komi fullar bætur.  Bótakröfuna sundurliðar eignarnámsþoli með eftirfarandi hætti:

 

1.                  Eignarnámsþoli krefst þess í fyrsta lagi að fullar bætur komi fyrir allt land sem fer undir nýjan veg og land, sem ekki má staðsetja byggingar, leiðslur eða önnur mannvirki á, þ.e. 30 metra frá miðlínu vegar til beggja hliða. Samtals er þetta 60 metra breið og 1740 metra löng landspilda, en nýr vegur liggur á 1740 metra kafla um land umbjóðanda míns. Land það sem krafist er bóta fyrir skv. þessum lið er því 10,4 hektarar að flatarmáli.

2.                  Eignarnámsþoli krefst þess í öðru lagi að fullar bætur komi fyrir allt land sem fer undir nýjan veg (heimreið að Kolgröfum) og land sem ekki má staðsetja byggingar, leiðslur eða önnur mannvirki á, þ.e. 20 metra frá miðlínu þess vegar til beggja hliða. Samtals er þetta 40 metra breið og 530 metra löng landspilda, en nýja heimreiðin liggur á 530 metra kafla um land umbjóðanda míns . Land það sem krafist er bóta fyrir skv. þessum lið er því 2,1 hektari að flatarmáli.

3.                  Þá krefst eignarnámsþoli þess í þriðja lagi að fullar bætur komi fyrir rýrnun á því landi jarðarinnar sem liggur beggja vegna við hið eignarnumda land og er nú nýtt sem tún, beitarland og æðarvarp. Það er álit matsþola að land jarðarinnar utan helgunarsvæðis akveganna rýrni verulega í verði vegna skiptingar á landinu í tvö nýtingarsvæði. Sérstaklega er bent á að land sjávarmegin við heimtröð að Kolgröfum (Hópmýrar) lokast af og verður lítt nýtanlegt.

4.                  Eignarnámsþoli krefst þess í fjórða lagi að honum  verði bætt tímabundin og varanleg óþægindi vegna lagningar vegarins og afnot af landi fyrir starfsstöð tímabundið jarðrask, umferð stórvirkra vinnuvéla o.fl.

5.                  Þá krefst eignarnámsþoli þess í fimmta lagi að honum verði bætt að fullu öll efnistaka sem fyrirhuguð er í landi hans og mótmælir að við verðákvörðun verði lögð til grundvallar svokölluð orðsending um landbætur o.fl. nr 8. 2002.  Gerð er krafa um að lagt verði til grundvallar markaðsverð á samsvarandi efni á markaðssvæði Grundarfjarðar og nágrennis.

6.                  Þá mótmælir eignarnámsþoli því að frá bótum til hans vegna eignarnumins lands verði dregið andvirði svokallaðs skilaðs lands vegna eldri vegar.

7.                  Þá krefst eignarnámsþoli þess að honum verði bætt að fullu tjón sem hann kann að verða fyrir vegna rýrnunar á tekjum af æðarvarpi sem hann stundar á því landi sem veginum er ætlað að fara yfir og kostnaðarauka sem hann mun hafa af því að umönnun verður meiri og torveldari.

8.                  Að lokum krefst eignarnámsþoli bóta vegna þess kostnaðar mál þetta veldur honum.

 

 

Eignarnámsþoli telur með vísan til 33. gr. vegalaga nr. 45/1994 að í raun sé hann sviptur umráðum á landi sem nær 30 m. frá miðlínu hins nýja vegar, enda sé óheimilt að koma fyrir á þeirri spildu byggingum, leiðslum eða öðrum mannvirkjum, föstum eða lausum, nema með leyfi eignarnema.  Þá bendir eignarnámsþoli á að loft- og hávaðamengun frá veginum verði mikil og komi til með að ná langt út fyrir 30 m. mörkin.  Þá telur eignarnámsþoli vera töluverð brögð af því að girðingar sem vegagerðin hafi komið fyrir í 20 m. fjarlægð frá miðlínu stofnvega hafi fallið um koll við snjóruðning af vegum og snjóblástur.

 

Eignarnámsþoli mótmælir því að orðsending eignarnema nr. 8/2002 verði lögð til grundvallar við matið.  Ekki sé hægt að staðla eignarnámsbætur með þeim hætti sem gert sé í þeirri orðsendingu, heldur verði að miða við aðstæður á hverjum stað til að fullt verð komi fyrir eignarnumin verðmæti.  Eignarnámsþoli telur að við mat á því hvað sé fullt verð fyrir hið eignarnumda land skuli líta til þess að landið hafi í raun öðlast verðmæti miðað við að búið sé að skipuleggja á því stofnveg og það því í raun verið tekið úr landbúnaðarnotum.  Þá muni landið einnig verða notað til að flytja um það rafmagn og síma og komi til nýtingar á heitu vatni sem fundist hefur í nágrenninu muni það einnig verða flutt eftir landi eignarnámsþola.  Landið hafi því augljóslega öðlast töluvert virði þegar af þessari ástæðu umfram það sem væri ef það gengi kaupum og sölum eingöngu til landbúnaðarnota.

 

Eignarnámsþoli bendir á að hið eignarnumda land sé allt vel gróið.  Í þessu sambandi bendir eignarnámsþoli á að skv. úrskurðum Matsnefndar eignarnámsbóta vegna eignarnáms í tengslum við lagningu Búrfellslínu 3A og á vegstæði Hringvegarins á jörðinni Þjórsártúni í Ásahreppi, hafi sambærileg lönd og land eignarnámsþola verið metin á kr. 150.000-400.000 pr. ha.  Með hliðsjón af þessu telur eignarnámsþoli að miða eigi við að verðmæti ræktanlegs lands hans sé kr. 150.000 pr. ha. og ræktaðs lands kr. 400.000 pr. ha.

 

Með hliðsjón af framangreindu telur eignarnámsþoli að bæta eigi honum land sem fer undir nýjan Snæfellsnesveg sem hér segir:

 

Ræktað land 2,7 ha. x kr. 400.000-                           kr.        1.080.000-

Ræktanlegt land 7,7 ha. x kr. 150.000-                      kr.        1.155.000-

Samtals                                                                     kr.        2.235.000-

 

Varðandi mat á bótum fyrir land undir nýja heimreið að Kolgröfum getur eignarnámsþoli ekki fallst á að miðað sé við að eignarnámið taki einungis til 12 m. frá miðlínu vegarins.  Eignarnámsþoli telur að miða eigi við 20 m. frá miðlínu vegar eða alls 2,1 ha.  Eignarnámsþoli telur hæfilegar bætur fyrir þennan hluta landsins vera kr. 315.000 eða kr. 150.000 pr. ha.

 

Eignarnámsþoli gerir sérstaka kröfu um bætur vegna rýrnunar lands utan 30 m. helgunarsvæði vegarins.  Hin nýja veglögn eftir endilöngu landinu, annars vegar með Snæfellsnesvegi og hins vegar með heimreið að Kolgröfum skipti landinu í raun í tvo hluta.  Hinn nýji vegur komi til með að skera verðmætan hluta landsins sem hafi í för með sér tilfinnanlegt tjón fyrir eignarnámsþola.  Vegurinn komi til með að vera mikil hindrun í nýtingu landsins og leiði augljóslega til verðrýrnunar á jörðinni í heild.  Eignarnámsþoli gerir kröfu til kr. 3.000.000 bóta vegna þessa þáttar.

 

Eignarnámsþoli gerir kröfu um kr. 500.000 í bætur vegna tímabundinna og varanlegra óþæginda sem veglagningin og síðari tíma umferð um veginn muni hafa í för með sér.

 

Varðandi bætur fyrir hið eignarnumda malarefni telur eignarnámsþoli ekki koma til greina að eignarnemi borgi mismunandi verð fyrir efnið eftir því í hvað það er nýtt.  Það sem máli skipti að efnið sé allt nýtanlegt sem burðarlagsefni beri að verðmeta það miðað við það.  Eignarnámsþoli telur verð malarefnis sem fram kemur í orðsendingu nr. 8/2002 ekki gefa rétta mynd af verðmæti efnisins.  Miða eigi við verð fyrir sambærilegt efni á Grundarfirði eða kr. 50 pr. m³ auk virðisaukaskatts, enda sé náman á markaðssvæði miðað við landfræðilega legu hennar.   Eignarnámsþoli bendir sérstaklega á að efnið sé mjög aðgengilegt fyrir eignarnema og staðsetning námunnar valdi því að hann þurfi ekki að greiða neitt í flutningskostnað á efninu.

 

Með hliðsjón af framangreindu telur eignarnámsþoli hæfilegar bætur fyrir hið eignarnumda malarefni vera kr. 1.500.000 auk virðisaukaskatts.

 

Eignarnámsþoli mótmælir sérstaklega að eldra vegsvæði komi til frádráttar bótum til eignarnámsþola.  Bendir hann á að eldri vegurinn liggi undir fjallsrótum og það land sem skilað verði komi ekki til með að nýtast honum, a.m.k. ekki um ófyrirsjáanlega framtíð og sé honum þannig verðlaust.  Landið sem tekið er eignarnámi nú sé honum hins vegar dýrmætt í atvinnurekstri hans.

 

Gerð er sérstök krafa um bætur vegna aukinnar umönnunar við æðavarp eignarnámsþola vegna framkvæmdarinnar auk þess sem eignarnámsþoli áskilur sér rétt til að gera frekari kröfur vegna þessa síðar komi í ljós að framkvæmdin komi til með að hafa neikvæð áhrif á æðavarpið.

 

Eignarnámsþoli gerir þá kröfu að fullar bætur verði greiddar vegna eignarnámsins eins og skylt er skv. 72. gr. stjórnarskránni nr. 33/1944.

 

 

 

VI.  Niðurstaða matsnefndar:

 

Fullnægjandi lagaheimild er til eignarnámsins og hefur matsnefndin farið á vettvang og kynnt sér aðstæður svo sem fram hefur komið.  Stærð, lega og lögun hinnar eignarnumdu spildu er óumdeild.  Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms er svohljóðandi ákvæði:

 

“Skerðist fasteign með þeim hætti við eignarnám, að sá hluti hennar, sem eftir er, verður ekki nýttur á eðlilegan hátt sem sjálfstæð eign, getur matsnefnd ákveðið að kröfu eiganda, að eignarnámið skuli ná til eignarinnar allrar.”

 

Ekki þykja efni eins og á stendur í máli þessu að gera eignarnema að taka stærri spildu eignarnámi en krafist er mats á í matsbeiðninni, þ.e. 40 m. breiða spildu vegna Snæfellsnessvegar og 24 m. breiða spildu vegna nýrrar heimreiðar að sumarhúsi í landi Hjarðarbóls.  Við matið er þó litið til þess að nýtingarréttur eignarnámsþola á 60 m. breiðri spildu við Snæfellsnesveg takmarkast vegna ákvæða í vegalögum, þó spildan utan hins eignarnumda svæðis nýtist áfram til hefðbundinna landbúnaðarnota sem fyrr.  Sama má segja um svæðið næst hinni eignarnumdu spildu sem nýtt verður undir heimreið að Kolgröfum.

 

Land eignarnámsþola er nýtt til hefðbundinna landbúnaðarnota og telur matsnefndin ekki raunhæft að landið sé eftirsóknarvert til annarra hluta s.s. til sumarhúsabyggðar.  Hinn nýji vegur um land eignarnámsþola kemur til með að skipta landi eignarnámsþola á stóru svæði og mun sú skipting landsins valda óhagræði við nýtingu landsins sem rétt þykir að gera eignarnema að bæta sérstaklega.  Í þessu sambandi er sérstaklega haft í huga að undirlendi á jörð eignarnámþola er nokkuð takmarkað af fjalli og fjöru og því öll skerðing á því bagalegri en ef aðstæður væru með öðrum hætti.  Þá þykir og eðlilegt að greiða eignarnámsþola bætur fyrir óþægindi og rask sem framkvæmd eignarnema kemur til með að valda og fyrir tímabundin afnot af landi til efnisflutninga.

 

Rétt þykir að eldra vegsvæði komi til frádráttar bótum til eignarnámsþola, en að mati nefndarinnar er sá hluti landsins ekki eins verðmætur og sá sem tekinn hefur verið eignarnámi nú.

 

Með hliðsjón af framangreindu þykja hæfilegar bætur fyrir hið eignarnumda land vera sem hér segir:

 

 

Bætur fyrir 7,2 ha. ræktunarhæfs lands og beitilands                  kr.           648.000-

Bætur fyrir 1,1 ha. ræktaðs lands                                              kr.           319.000-

Bætur fyrir 0,7 ha. ónýtrar ræktunar                                          kr.           140.000-

Bætur fyrir tímabundin afnot af landi, aukna umönnun m.

varpi á framkvæmdatíma, óhagræði vegna skiptingar lands

og vegna rasks meðan á framkvæmdum stendur                        kr.           800.000-

Samtals                                                                                    kr.        1.907.000-

Eldra vegsvæði skilað 1,6 ha.                                                    kr.             80.000-

Samtals bætur fyrir eignarnumið land                                         kr.        1.827.000-

 

 

Ekki liggur fyrir að um stöðuga né trygga eftirspurn sé að ræða eftir malarefni úr námum eignarnámsþola.  Við mat á verðmæti hins eignarnumda efnis ber því að mati nefndarinnar að líta til orðsendingar eignarnema nr. 8/2002.  Eins og á stendur í máli þessu þykir rétt að miða verð malarefnisins við raunveruleg gæði þess, en stærstur hluti þess getur nýst sem burðarlagsefni þó eignarnemi hyggi á aðra notkun þess.  Við matið ber að taka tillit til þess að efnisnáman er sérstaklega aðgengileg fyrir eignarnema og staðsetning námunnar hentar einkar vel fyrir fyrirhugaða framkvæmd.  Með hliðsjón af framangreindu telur matsnefndin hæfilegt jafnaðarverð fyrir hið eignarnumda malarefni vera kr. 12 pr. m³, eða samtals kr. 360.000-.

 

Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþola kr. 300.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna rekstur máls þessa og kr. 600.000- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta að máli þessu.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Eignarnemi, Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, greiði eignarnámsþola, Hreini Bjarnasyni, kt. 250932-4219, Berserkseyri, Eyrarsveit,  kr. 2.187.000 í eignarnámsbætur og kr. 300.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs máls þessa.

Þá skal eignarnemi greiða kr. 600.000- í ríkissjóð vegna kostnaðar við störf Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 

_______________________________
Helgi Jóhannesson

 

__________________________                    ____________________________

Vífill Oddsson                                                   Kristinn Gylfi Jónsson

 

 

Þriðjundaginn 5. ágúst  2003 var tekið fyrir hjá Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 4/2003

 

Vegagerðin

gegn

Guðrúnu Lilju Arnórsdóttur

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.  Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

 

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafr. og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.

 

II.  Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:

 

Með matsbeiðni dags. 10. febrúar 2003, sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 4. mars 2003, fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík (eignarnemi), þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms í tilefni af lagningu nýs vegar um land Eiðis, Eyrarsveit.  Eigandi Eiðis er Guðrún Lilja Arnórsdóttir, kt. 070964-4739, Eiði, Eyrarsveit (eignarnámsþoli).

 

Hið eignarnumda er samtals 11,1 ha. spilda sem sundurliðast þannig:

 

Land undir Snæfellsveg                                                            9,8 ha.

Land undir heimreið að Eiði                                                     0,7 ha.

Land undir veg inn Kolgrafarfjörð                                            0,7 ha.

Samtals                                                                                 11,2 ha.

 

Af framangreindu er ræktað land 2,1 ha. en ræktunarhæft land og beitiland 9,1 ha.  Að auki telur eignarnemi að 0,9 ha. af ræktuðu landi utan eignarnuminnar spildu skerðist vegna framkvæmdarinnar og er óskað mats á bótum fyrir þá spildu einnig.

 

Eignarnámið byggist á 45. gr. vegalaga nr. 45/1994.

 

III.  Málsmeðferð:

 

Mál þetta var fyrst tekið fyrir þriðjudaginn 4. mars 2003.  Þá lagði eignarnemi fram matsbeiðni ásamt fylgiskjölum.  Málinu var að því búnu frestað til vettvangsgöngu til 17. mars 2003.

 

Mánudaginn 17. mars 2003 var málið tekið fyrir.  Farið var á staðinn og gengið á vettvang.  Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema til 26. mars 2003.

 

Miðvikudaginn 26. mars 2003 var málið tekið fyrir.  Af hálfu eignarnema var lögð fram greinargerð ásamt fylgiskjölum og málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola til 14. apríl 2003.

 

Mánudaginn 14. apríl 2003 var málið tekið fyrir.  Eignarnámsþoli lagði fram greinargerð ásamt fylgiskjölum.  Eignarnemi óskaði eftir að fá að skila skriflegum svörum við greinargerð eignarnámsþola og var honum veittur frestur til 12. maí 2003 til að leggja svörin fram.

 

Mánudaginn 12. maí 2003 var málið tekið fyrir.  Eignarnemi lagði fram viðbótargreinargerð og var málinu að því búnu frestað til munnlegs flutnings þess.

 

Þriðjudaginn 3. júní 2003 var málið tekið fyrir og flutt munnlega fyrir nefndinni.  Sættir voru reyndar án árangurs og var málið því tekið til úrskurðar að flutningi þess loknum.

 

IV.  Sjónarmið eignarnema:

 

Eignarnemi kveður ástæður eignarnámsins vera þær að fyrir liggi að þvera eigi Kolgrafarfjörð með vegfyllingu og brú.  Af þessum sökum verði að færa Snæfellsnesveg, sem í dag liggi um land Eiðis, á tæplega 2,5 km. kafla.  Andlag eignarnámsins sé spilda undir fyrirhugaðan veg, 9,8 ha., land undir heimreið að Eiði, 0,7 ha. og land undir veg inn Kolgrafarfjörð 0,7 ha., eða alls 11,2 ha.  Til viðbótar telur eignarnemi að gera megi ráð fyrir að 0,9 ha. af ræktuðu landi utan eignarnámsspildunnar muni verða óhagkvæmt ræktunarland vegna stærðar þess, legu og lögnar og telur eignarnemi eignarnámið muni skerða ræktun sem því nemi.

 

Eignarnemi telur hið eignarnumda land skipast þannig:

 

Rætunarhæft beitiland                                                              9,1 ha.

Ræktað land                                                                           2,1 ha.

Samtals                                                                                 11,2 ha.

 

Eignarnemi kveður hið eignarnumda land nú vera notað til hefðbundinna landbúnaðarnota og við þá nýtingu beri að mið við matið.  Eignarnemi kveðst hafa gert eignarnámsþola tilboð upp á kr. 983.550- í bætur vegna eignarnámsins, en því boði hafi verið hafnað.  Eignarnemi telur sig því óbundinn af því tilboði nú, en kveðst þó reiðubúinn til að standa við það ef áhugi er fyrir hendi af hálfu eignarnámsþola.

 

Af hálfu eignarnema er því haldið fram að hin nýja lega Snæfellsnesvegar muni ekki á neinn hátt breyta nýtingarmöguleikum eignarnámsþola á landi sínu, enda þó hinn nýji vegur muni skipta jörðinni með nokkuð öðrum hætti en nú er.  Að kröfu eignarnámsþola kveðst eignarnemi muni gera undirgöng fyrir búsmala undir nýja veginn á þeim stað sem eignarnámsþoli hefur sjálfur óskað eftir, þ.e. í landi Hjarðarbóls.

 

Eignarnemi telur að miða beri við orðsendingu nr. 8/2002 við ákvörðun bóta í máli þessu, en orðsendingin sé gefin út árlega af hálfu eignarnema að höfðu samráði við Bændasamtök Íslands.  Í orðsendingunni sé að finna viðmiðun sem almennt sé stuðst við þegar bændum eru boðnar bætur fyrir landbúnaðarland, þegar það er í meðallagi verðmætt og skerðing á ræktunarlandi hefur ekki tilfinnanleg áhrif á heildarstærð ræktanlegs lands viðkomandi jarðar.  Eignarnemi kveður lágmarksbætur fyrir ræktunarhæft land undir veg skv. orðsendingunni vera kr. 21.500 pr. ha., en óræktunarhæft gróið land kr. 8.100 pr. ha.  Þá séu greiddar kr. 229.300 pr. ha. þegar um ræktað land er að ræða.  Eignarnemi kveðst hafa stuðst við orðsendinguna þegar tilboð hans til eignarnámsþola var gert, en að auki var bætt við það verð ákvæðinni fjárhæð að álitum vegna skiptingar lands, jarðrasks og átroðnings. 

 

Eignarnemi bendir sérstaklega á að skv. fasteignamati sé fasteignamat óræktaðs lands Eiðis kr. 401.000 og 32,8 ha. ræktaðs lands séu metnir á rúmlega 1,1 milljón eða tæpar kr. 34.000 pr. ha.  Þá vísar eignarnemi einnig til úrskurða Matsnefndar eignarnámsbóta og þeirrar venju sem skapast hafi við bótaákvörðun í sambærilegum málum.  Í þessu sambandi er sérstaklega vísað til úrskurða Matsnefndarinnar í málum nr. 18/1998, nr. 6/2000 og nr. 7/2000.

 

Eignarnemi telur að taka beri sérstakt tillit til þess við matið að hann muni gera undirgöng undir veginn í þágu eignarnámsþola auk þess sem bætt vegtenging á svæðinu muni án efa auka verðmæti lands eignarnámsþola.

 

Eignarnemi mótmælir sérstaklega að honum verði gert að greiða fyrir meira land en hann taki eignarnámi.  Eignarnámið nái til spildu sem sé 20 m. frá miðlínu hins nýja Snæfellsnesvegar og 12 m. frá miðlínu nýrrar heimreiðar að Eiði og nýs vegar inn Kolgrafarfjörð.  Kröfum eignarnámsþola um greiðslu fyrir stærri spildu sé því hafnað.  Eignarnemi bendir á að land utan hins eignarnumda svæðis muni nýtast eignarnámsþola fullkomlega til þess sama og landið er nú nýtt til, þ.e. hefðbundinna landbúnaðarnota.

 

Eignarnemi mótmælir sérstaklega að hægt sé að leggja landverð á Suðurlandsundirlendinu til grundvallar við mat á bótum í máli þessu, enda sé alkunna að landaverð á því svæði hafi hækkað verulega undanfarin ár, en ekkert liggi fyrir um að slík verðhækkun hafi orðið á landi á norðanverðu Snæfellsnesi.

 

Eignarnemi vísar sérstaklega til IX. kafla vegalaga nr. 45/1994, laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms og 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 með síðari breytingum.

 

V.  Sjónarmið eignarnámsþola:

 

Eignarnámsþoli gerir þær kröfur að við ákvörðun bóta vegna eignarnáms á landi, og aðstöðu við gerð nýs Snæfellsvegar um Kolgrafarfjörð í landi hans komi fullar bætur.  Bótakröfuna sundurliðar eignarnámsþoli með eftirfarandi hætti:

 

1.                  Eignarnámsþoli krefst þess í fyrsta lagi að fullar bætur komi fyrir allt land sem fer undir nýjan veg og land sem ekki má staðsetja byggingar, leiðslur eða önnur mannvirki á, þ.e. 30 metra frá miðlínu vegar til beggja hliða. Samtals er þetta 60 metra breið og 2.400 metra löng landspilda, en nýr vegur liggur á 2.400 metra kafla um land eignarnámsþola.   Land það sem krafist er bóta fyrir skv. þessum lið er því 14,4 hektarar að flatarmáli.

2.                  Eignarnámsþoli krefst þess í öðru lagi að fullar bætur komi fyrir allt land sem fer undir nýjan veg (heimreið að Eiði) og land undir veg inn Kolgrafarfjörð, þ.e. 20 metra frá miðlínu vegar til beggja hliða. Samtals er þetta 40 metra breið og 300 metra löng landspilda, er nýja heimreiðin liggur og 300 m spilda sem vegur inn Kolgrafarfjörð liggur um land eignarnámsþola. Land það sem krafist er bóta fyrir skv. þessum lið er því 2,4 hektarar að flatarmáli.

3.                  Þá krefst eignarnámsþoli þess í þriðja lagi að fullar bætur komi fyrir rýrnun á landi jarðarinnar sem liggur beggja vegna við hið eignarnumda land og er nú nýtt sem tún og beitarland. Það er álit eignarnámsþola að land jarðarinnar utan helgunarsvæðis akveganna rýrni verulega í verði vegna skiptingar á landinu í tvö nýtingarsvæði.

4.                  Eignarnámsþoli krefst þess í fjórða lagi að honum  verði bætt tímabundin og varanleg óþægindi vegna lagningar vegarins, afnot af landi fyrir starfsstöð tímabundið jarðrask o.fl.

5.                  Að lokum krefst eignarnámsþoli bóta vegna þess kostnaðar mál þetta veldur honum.

 

Eignarnámsþoli telur með vísan til 33. gr. vegalaga nr. 45/1994 að í raun sé hann sviptur umráðum á landi sem nær 30 m. frá miðlínu hins nýja vegar, enda sé óheimilt að koma fyrir á þeirri spildu byggingum, leiðslum eða öðrum mannvirkjum, föstum eða lausum, nema með leyfi eignarnema.  Þá bendir eignarnámsþoli á að loft- og hávaðamengun frá veginum verði mikil og komi til með að ná langt út fyrir 30 m. mörkin.  Þá telur eignarnámsþoli vera töluverð brögð af því að girðingar sem vegagerðin hafi komið fyrir í 20 m. fjarlægð frá miðlínu stofnvega hafi fallið um koll við snjóruðning af vegum og snjóblástur.

 

Eignarnámsþoli mótmælir því að orðsending eignarnema nr. 8/2002 verði lögð til grundvallar við matið.  Ekki sé hægt að staðla eignarnámsbætur með þeim hætti sem gert sé í þeirri orðsendingu, heldur verði að miða við aðstæður á hverjum stað til að fullt verð komi fyrir eignarnumin verðmæti.  Eignarnámsþoli telur að við mat á því hvað sé fullt verð fyrir hið eignarnumda land skuli líta til þess að landið hafi í raun öðlast verðmæti miðað við að búið sé að skipuleggja á því stofnveg og það því í raun verið tekið úr landbúnaðarnotum.

 

Eignarnámsþoli bendir á að hið eignarnumda land sé allt vel gróið.  Í þessu sambandi bendir eignarnámsþoli á að skv. úrskurðum Matsnefndar eignarnámsbóta vegna eignarnáms í tengslum við lagningu Búrfellslínu 3A og á vegstæði Hringvegarins á jörðinni Þjórsártúni í Ásahreppi, hafi sambærileg lönd og land eignarnámsþola verið metin á kr. 150.000-400.000 pr. ha.  Með hliðsjón af þessu telur eignarnámsþoli að miða eigi við að verðmæti ræktanlegs lands hans sé kr. 150.000 pr. ha. og ræktaðs lands kr. 400.000 pr. ha.

 

Eignarnemi telur að taka beri tillit til þess við mat á landi sem nýtt verður í skeringar að eignarnemi eignast þar malarefni.  Landið sé því verðmætt að þessu leyti og beri því að greiða meira fyrir það.  Eignarnámsþoli sundurliðar bótakröfu sína vegna eignarnáms undir hinn nýja veg þannig m.t.t. þess sem að framan greinir:

 

Ræktað land 4,4 ha x 400.000                                   kr.        1.760.000-

Land m. skeringum allt að 105.000 rúmm.

6,0 ha. x 400.000-                                                    kr.        2.400.000-

Ræktanlegt land og land til

hagagöngu 4,0 ha x 150.000                                      kr.           600.000-

Samtals                                                                     kr.        4.760.000-

 

Varðandi mat á bótum fyrir land undir nýja heimreið að Eiði og nýjan veg inn Kolgrafarfjörð getur eignarnámsþoli ekki fallst á að miðað sé við að eignarnámið taki einungis til 12 m. frá miðlínu vegarins.  Eignarnámsþoli telur að miða eigi við 20 m. frá miðlínu á 600 m. kafla eða alls 2,4 ha.  Eignarnámsþoli sundurliðar kröfu sína vegna þessa þáttar með eftirfarandi hætti:

 

Ræktað land 1,2 ha x 400.000                                   kr.           480.000-

Ræktunarhæft land 1,2 ha. x 150.000                        kr.           180.000-

Samtals                                                                     kr.           660.000-

 

Eignarnámsþoli gerir sérstaka kröfu um bætur vegna rýrnunar lands utan 30 m. helgunarsvæði vegarins.  Í þessu sambandi er bent á að Eiði sé í raun landlítil jörð sem takmarkist af fjalli og fjöru.  Hin nýja veglögn eftir endilöngu landinu, annars vegar með Snæfellsnesvegi og hins vegar með heimreið að Eiði skipti landinu í raun í tvo hluta.  Hinn nýji vegur komi til með að skera verðmætan hluta landsins sem hafi í för með sér tilfinnanlegt tjón fyrir eignarnámsþola.  Á jörðinni sé stunduð nautgriparækt, annars vegar mjólkurframleiðsla og hins vegar kálfaeldi, en báðir þessir þættir búskapar krefjist landrýmis til heyöflunar, beitar og hagagöngu.  Vegurinn komi til með að vera mikil hindrun í nýtingu landsins og leiði augljóslega til verðrýrnunar á jörðinni í heild, auk þess sem þetta kalli á mjög aukna vinnu við hirðingu og eftirlit með kálfahjörðinni.  Eignarnámsþoli gerir kröfu til kr. 4.000.000 bóta vegna þessa þáttar.

 

Eignarnámsþoli gerir kröfu um kr. 500.000 í bætur vegna tímabundinna og varanlegra óþæginda sem veglagningin og síðari tíma umferð um veginn muni hafa í för með sér.

 

Eignarnámsþoli gerir þá kröfu að fullar bætur verði greiddar vegna eignarnámsins eins og skylt er skv. 72. gr. stjórnarskránni nr. 33/1944.

 

VI.  Niðurstaða matsnefndar:

 

Fullnægjandi lagaheimild er til eignarnámsins og hefur matsnefndin farið á vettvang og kynnt sér aðstæður svo sem fram hefur komið.  Stærð, lega og lögun hinnar eignarnumdu spildu er óumdeild.  Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms er svohljóðandi ákvæði:

 

“Skerðist fasteign með þeim hætti við eignarnám, að sá hluti hennar, sem eftir er, verður ekki nýttur á eðlilegan hátt sem sjálfstæð eign, getur matsnefnd ákveðið að kröfu eiganda, að eignarnámið skuli ná til eignarinnar allrar.”

 

Ekki þykja efni eins og á stendur í máli þessu að gera eignarnema að taka stærri spildu eignarnámi en krafist er mats á í matsbeiðninni, þ.e. 40 m. breiða spildu vegna Snæfellsnessvegar og 24 m. breiða spildu vegna nýrrar heimreiðar að Eiði og nýs vegar inn Kolgrafarfjörð.  Við matið er þó litið til þess að nýtingarréttur eignarnámsþola á 60 m. breiðri spildu við Snæfellsnesveg takmarkast vegna ákvæða í vegalögum, þó spildan utan hins eignarnumda svæðis nýtist áfram til hefðbundinna landbúnaðarnota sem fyrr.  Sama má segja um svæðið næst hinni eignarnumdu spildu sem nýtt verður undir heimreið að Eiði og nýjan veg inn Kolgrafarfjörð.

 

Hið eignarnumda svæði er allt gróið land og hluti af því ræktað.  Þannig eru 9,1 ha. ræktunarhæft land og beitiland en 2,1 ha. ræktað land.  Að auki teljast 0,9 ha. að ræktuðu landi ónýtast vegna framkvæmdarinnar þó það land sé ekki tekið eignarnámi.

 

Landið eignarnámsþola er nýtt til hefðbundinna landbúnaðarnota og telur matsnefndin ekki raunhæft að landið sé eftirsóknarvert til annarra hluta s.s. til sumarhúsabyggðar.  Hinn nýji vegur um land eignarnámsþola kemur til með að skipta landi eignarnámsþola á stóru svæði og mun sú skipting landsins valda óhagræði við nýtingu landsins sem rétt þykir að gera eignarnema að bæta sérstaklega.  Í þessu sambandi er sérstaklega haft í huga að undirlendi á jörð eignarnámsþola er nokkuð takmarkað af fjalli og fjöru og því öll skerðing á því bagalegri en ef aðstæður væru með öðrum hætti.  Þá þykir og eðlilegt að greiða eignarnámsþola bætur fyrir óþægindi og rask sem framkvæmd eignarnámsþola kemur til með að valda.

 

Við mat á hinu eignarnumda landi hefur verið tekið tillit til þess að á hluta þess fær eignarnemi nýtanlegt malarefni sem vissulega hefur ákveðið fjárgildi fyrir eignarnema.

 

Með hliðsjón af framangreindu þykja hæfilegar bætur fyrir hið eignarnumda land vera sem hér segir:

 

Bætur fyrir 9,1 ha. ræktunarhæfs lands og beitilands                  kr.           819.000-

Bætur fyrir 2,1 ha. ræktaðs lands                                              kr.           609.000-

Bætur fyrir 0,9 ha. ónýtrar ræktunar                                          kr.           180.000-

Bætur fyrir óhagræði vegna skiptingar lands og vegna

óþæginda og rasks meðan á framkvæmdum stendur                  kr.           800.000-

Samtals                                                                                    kr.        2.408.000-

 

Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþola kr. 300.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna rekstur máls þessa og kr. 600.000- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta að máli þessu.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Eignarnemi, Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, greiði eignarnámsþola, Guðrúnu Lilju Arnórsdóttur, kt. 070964-4739, Eiði, Eyrarsveit, kr. 2.408.000- í eignarnámsbætur og kr. 300.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs máls þessa.

Þá skal eignarnemi greiða kr. 600.000- í ríkissjóð vegna kostnaðar við störf Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 

_______________________________
Helgi Jóhannesson

 

__________________________                    ____________________________

Vífill Oddsson                                                   Kristinn Gylfi Jónsson

 

Þriðjudaginn 5. ágúst 2003 var tekið fyrir hjá Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 5/2003

 

Vegagerðin

gegn

Jóni Thors

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.  Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

 

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafr. og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.

 

II.  Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:

 

Með matsbeiðni dags. 10. febrúar 2003, sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 4. mars 2003, fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík (eignarnemi), þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á malarefni og afnota af námusvæði á framkvæmdatíma úr jörðinni Fjarðarhorni.  Eignarnámsþoli er eigandi Fjarðarhorns, Jón Thors, kt. 110432-3059, Safamýri 39, Reykjavík.

 

Ástæður eignarnámsins er þverun Kolgrafarfjarðar með uppfyllingu og brú og nauðsynleg vegagerð í því sambandi.  Hið eignarnumda malarefni sundurliðast þannig eftir gerð þess:

 

Grjótvörn                                                                          46.500 m³

Síulag                                                                                34.000 m³

Burðarlagsefni                                                                    12.000 m³

Efni í bundið slitlag                                                               2.000 m³

Samtals                                                                             99.500 m³

 

Eignarnámið byggist á 45. gr. vegalaga nr. 45/1994.

 

III.  Málsmeðferð:

 

Mál þetta var fyrst tekið fyrir þriðjudaginn 4. mars 2003.  Þá lagði eignarnemi fram matsbeiðni ásamt fylgiskjölum.  Málinu var að því búnu frestað til vettvangsgöngu til 17. mars 2003.

 

Mánudaginn 17. mars 2003 var málið tekið fyrir.  Farið var á staðinn og gengið á vettvang.  Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema til 26. mars 2003.

 

Miðvikudaginn 26. mars 2003 var málið tekið fyrir.  Af hálfu eignarnema var lögð fram greinargerð ásamt fylgiskjölum og málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola til 14. apríl 2003.

 

Mánudaginn 14. apríl 2003 var málið tekið fyrir.  Eignarnámsþoli lagði fram greinargerð ásamt fylgiskjölum.  Eignarnemi óskaði eftir að fá að skila skriflegum svörum við greinargerð eignarnámsþola og var honum veittur frestur til 12. maí 2003 til að leggja svörin fram.

 

Mánudaginn 12. maí 2003 var málið tekið fyrir.  Eignarnemi lagði fram viðbótargreinargerð og var málinu að því búnu frestað til munnlegs flutnings þess.

 

Þriðjudaginn 3. júní 2003 var málið tekið fyrir og flutt munnlega fyrir nefndinni.  Sættir voru reyndar án árangurs og var málið því tekið til úrskurðar að flutningi þess loknum.

 

Upphaflega var talið að fyrirtækið Stofnfiskur hf. gæti átt aðild að máli þessu þar sem fyrirhugað var að gera nýja vegfyllingu um Mjósund, en talið var að sú framkvæmd gæti haft áhrif á starfsemi Stofnfisks hf. á svæðinu.  Undir rekstri matsmáls þessa var ákveðið að fara aðra leið varðandi flutning á hinu eignarnumda efni sem olli því að Stofnfiskur hf. taldist ekki lengur eiga aðild að málinu.  Áður en til þessa kom hafði lögmaður Stofnfisks hf. lagt fram greinargerð í málinu og því verður Stofnfiski hf. ákvörðuð þóknun vegna máls þessa í niðurstöðukafla matsins.

 

 

 

 

IV.  Sjónarmið eignarnema:

 

Eignarnemi kveður ástæður eignarnámsins vera lagningu nýs vegar yfir Kolgrafarfjörð með fyllingu, brú og tilheyrandi vegagerð í tengslum við þá framkvæmd.  Eignarnemi kveður efnistöku úr námu eignarnámsþola vera kostnaðarsama vegna náttúruverndarsjónarmiða sem taka þurfi tillit til auk þess sem um kostnaðarsama vinnslu verði að ræða.

 

Eignarnemi kveður staðsetningu námunnar fjarri stærri þéttbýlisstöðum, sem og náttúruverndargildis hennar valda því að ekki sé unnt að verðleggja grjót úr henni á grundvelli áætlaðs söluverðs.  Eina notahæfa viðmiðunin sé orðsending eignarnema nr. 8/2000, en þar sé tekið mið af mismunandi verði miðað við ætlaða notkun efnisins.  Að vísu sé ekki sérstaklega tekið á því hvað greiða eigi fyrir sprengt berg, sem notað er í grjótvörn og síulag.  Algengt sé hins vegar að slíkt efni nýtist sem burðarlagsefni og þykir eignarnema því eðlilegt að miða við sama verð og greitt er fyrir burðarlagsefni skv. orðsendingunni.  Með því móti verði tryggt að eignarnámsþoli fái fullt verð fyrir efnið og ríflega það.

 

Eignarnemi kveður að verðmæti efnisins sé eins og það er ákvarðað utan markaðssvæða skv. orðsendingunni og eru framboðnar bætur í samræmi við það, en eignarnemi bauð eignarnámsþola bætur að fjárhæð kr. 1.334.000, þ.m.t. bætur að álitum vegna jarðrasks og átroðnings af völdum efnistökunnar.  Eignarnámsþoli hafnaði boðinu og telur eignarnemi sig óbundinn af því nú en er allt að einu reiðubúinn til að standa við boðið snúist eignarnámsþola hugur.

 

Eignarnemi bendir sérstaklega á að hann beri ríkari skyldur en aðrir efniskaupendur til að ganga frá námum og jafna allt rask vegna efnistöku og ber að taka tillit til þess að almennir efniskaupendur þurfa ekki að sjá um frágang námu.  Eignarnámsþoli þurfi því ekki að reikna þann kostnað inn í verðið til eignarnema.

 

Eignarnemi vísar m.a. til niðurstöðu matsnefndarinnar í máli nr. 7/2000 varðandi mat á bótum í máli þessu.

 

Eignarnemi vísar sérstaklega til IX. kafla vegalaga nr. 45/1994, laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms og 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 með síðari breytingum.

 

 

V.  Sjónarmið eignarnámsþola:

 

Eignarnámsþoli gerir þær kröfur að við ákvörðun bóta vegna eignarnámsins komi fullar bætur.  Bótakröfuna sundurliðar eignarnámsþoli með eftirfarandi hætti:

 

1.        Eignarnámsþoli krefst þess í fyrsta lagi að honum verði bætt að fullu öll efnistaka sem fyrirhuguð er í landi hans og mótmælir að við verðákvörðun verði lögð til grundvallar svokölluð orðsending um landbætur o.fl. nr. 8/2002.  Gerð er krafa um að lagt verði til grundvallar þekkt verð á samsvarandi efni til hafnargerðar á norðanverðu Snæfellsnesi.

2.        Eignarnámsþoli krefst þess í öðru lagi að honum verði bætt tímabundin og varanleg óþægindi vegna námavinnslunnar og afnot af landi fyrir starfsstöð, tímabundið jarðrask, umferð stórvirkra vinnuvéla o.fl.

3.        Að lokum krefst eignarnámsþoli bóta vegna þess kostnaðar mál þetta veldur honum.

 

Eignarnámsþoli mótmælir því að orðsending eignarnema nr. 8/2002 verði lögð til grundvallar við matið.  Ekki sé hægt að staðla eignarnámsbætur með þeim hætti sem gert sé í þeirri orðsendingu, heldur verði að miða við aðstæður á hverjum stað til að fullt verð komi fyrir eignarnumin verðmæti. 

 

Varðandi bætur fyrir hið eignarnumda malarefni telur eignarnámsþoli ekki koma til greina að eignarnemi borgi mismunandi verð fyrir efnið eftir því í hvað það er nýtt.  Telur eignarnámsþoli að matsnefndin eigi að miða bætur fyrir malarefnið við það verð sem Hafnasvið Siglingastofnunar hefur sannanlega greitt fyrir rétt til vinnslu á grjóti til hafnagerða á norðanverðu Snæfellsnesi og víðar.  Samkvæmt upplýsingum sem eignarnámsþoli kveðst hafa aflað sér mun Siglingamálastofnun greiða 27-37 kr. pr. m³ í grjótvörn eftir gæðum námunnar.  Kveður eignarnámsþoli rúmmeter í námu geri 1,3 m³ í grjótvörn. 

 

Þá kveðst eignarnámsþola hafa fyrir því upplýsingar að Gundarfjarðarhöfn hafi greitt kr. 35 pr. m³ fyrir grjótvörn sem tekin hafi verið úr námu rétt austan við byggðina í Grundarfirði.

 

Með vísan til framangreindra upplýsinga telur eignarnámsþoli eðlilegt að eignarnemi greiði kr. 35 pr. m³ fyrir hvern rúmmeter í grjótvörn sem ákveðið verður að vinna úr námu eignarnámsþola.  Telur eignarnámsþoli því hæfilegar bætur honum til handa vera 99.500 m³ x kr 35 eða kr. 3.482.500.

 

Fyrir tímabundin og varanleg óþægindi sem verða vegna námavinnslunnar og mannvirkjagerðar og átroðnings telur eignarnámsþoli hæfilegar bætur vera kr. 500.000.

 

VI.  Niðurstaða matsnefndar:

 

Fullnægjandi lagaheimild er til eignarnámsins og hefur Matsnefndin farið á vettvang og kynnt sér aðstæður svo sem fram hefur komið. 

 

Fallist er á það með eignarnema að vinnsla úr námu eignarnámsþola komi til með að verða kostnaðarsöm og er því ekki unnt að halda því fram að efnið í námunni sé aðgengilegt fyrir eignarnema.

 

Rétt þykir við mat á hinu eignarnumda malarefni að líta til orðsendingar eignarnema nr. 8/2002.  Að áliti Matsnefndarinnar telst náman vera utan markaðssvæða.  Þrátt fyrir það ber við mat á efninu að líta til gæða þess, en ekki til hvers eignarnemi hyggst nýta það, enda um grjót- og malarefni að ræða af háum gæðaflokki og því ekki loku fyrir það skotið að eftirspurn verði eftir því frekar en ef um hefðbundið malarefni væri að ræða.  Fyrir liggur að efnið er nýtanlegt í bundin slitlög, en skv. orðsendingu eignarnema eru greiddar kr. 24 pr. m³ fyrir slíkt efni utan markaðssvæða.  Hæfilegar bætur fyrir malarefnið teljast því vera kr. 2.388.000.  Ekki þykja efni til að greiða sérstakar bætur fyrir ónæði og rask vegna eignarnámsins, enda hefur eignarnámsþoli ekki búsetu á jörðinni né eru varanleg híbýli manna í nágrenninu.

 

Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþola kr. 300.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna rekstur máls þessa og kr. 600.000- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta að máli þessu.  Að auki skal eignarnemi greiða Stofnfiski hf. kr. 200.000- auk vsk. í kostnað vegna reksturs máls þessa.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, greiði eignarnámsþola, Jón Thors, kt. 110432-3059, Safamýri 39, Reykjavík,  kr. 2.388.000 í eignarnámsbætur og kr. 300.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs máls þessa.  Að auki skal eignarnemi greiða Stofnfiski hf. kr. 200.000- auk vsk. í kostnað vegna reksturs máls þessa.

 

Þá skal eignarnemi greiða kr. 600.000- í ríkissjóð vegna kostnaðar við störf Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 

_______________________________
Helgi Jóhannesson

 

__________________________                    ____________________________

Vífill Oddsson                                                   Kristinn Gylfi Jónsson

 

 

Þriðjudaginn 5. ágúst 2003 var tekið fyrir hjá Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 6/2003

 

Vegagerðin

gegn

Þráni Nóasyni

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.  Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

 

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafr. og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.

 

II.  Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:

 

Með matsbeiðni dags. 24. febrúar 2003, sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 17. mars 2003, fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík (eignarnemi), þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms í tilefni af lagningu nýs vegar í landi Vindáss, Eyrarsveit.  Eigandi Vindáss er Þráinn Nóason, kt. 160852-2679, Vindási, Eyrarsveit (eignarnámsþoli).

 

Andlag eignarnámsins er landspilda undir fyrirhugaðan veg, vegamót vegar inn Kolgrafarfjörð og skeringar.  Telst hin eignarnumda spilda vera 2,7 ha. að stærð. 

 

Eignarnámið byggist á 45. gr. vegalaga nr. 45/1994.

 

III.  Málsmeðferð:

 

Mál þetta var fyrst tekið fyrir mánudaginn 17. mars 2003.  Þá lagði eignarnemi fram matsbeiðni ásamt fylgiskjölum.  Farið var á staðinn og gengið á vettvang.  Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema til 26. mars 2003.

 

Miðvikudaginn 26. mars 2003 var málið tekið fyrir.  Af hálfu eignarnema var lögð fram greinargerð ásamt fylgiskjölum og málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola til 14. apríl 2003.

 

Mánudaginn 14. apríl 2003 var málið tekið fyrir.  Eignarnámsþoli lagði fram óskaði eftir viðbótarfresti til að leggja fram greinargerð í málinu.

 

Þriðjudaginn 29. apríl var málið tekið fyrir.  Eignarnámsþoli lagði fram greinargerð ásamt fylgiskjölum og var málinu að því búnu frestað til framlagningar viðbótargreinargerðar af hálfu eignarnema til 12. maí 2003.

 

Mánudaginn 12. maí 2003 var málið tekið fyrir.  Eignarnemi lagði feram viðbótargreinargerð og var málinu að því búnu frestað til munnlegs flutnings þess.

 

Miðvikudaginn 18. júní 2003 var málið tekið fyrir og flutt munnlega fyrir nefndinni.  Sættir voru reyndar án árangurs og var málið því tekið til úrskurðar að flutningi þess loknum.

 

IV.  Sjónarmið eignarnema:

 

Eignarnemi kveður lagaheimild til eignarnámsins vera að finna í 45. gr. vegalaga nr. 45/1994.  Ástæður eignarnámsins eru þær að til stendur að þvera Kolgrafarfjörð með vegfyllingu og brú.  Af þessum sökum verði að færa Snæfellsnesveg, sem í dag liggur um land Vindáss, á um 500 m. kafla.  Eignarnámsandlagið er landspilda undir fyrirhugaðan veg, vegamót vegar inn Kolgrafarfjörð og skeringar og telst hin eignarnumda spilda vera 2,7 ha.  Eignarnemi telur sig geta nýtt 43.000 m³ af malarefni úr skeringu vegarins.

 

Eignarnemi kveðst hafa gert eignarnámsþola tilboð um bætur með vísan til Orðsendingar nr. 8/2002 um landbætur o.fl. að fjárhæð kr. 200.000.  Eignarnámsþoli hafi ekki fallist á tilboðið og því telur eignarnemi sig óbundinn af því, en er allt að einu tilbúinn til að standa við það ef eignarnámsþola snýst hugur.

 

Eignarnemi telur að miða beri við framangreinda orðsendingu nr. 8/2002 við ákvörðun bóta í máli þessu, en orðsendingin sé gefin út árlega af hálfu eignarnema að höfðu samráði við Bændasamtök Íslands.  Í orðsendingunni sé að finna viðmiðun sem almennt sé stuðst við þegar bændum eru boðnar bætur fyrir landbúnaðarland, þegar það er í meðallagi verðmætt og skerðing á ræktunarlandi hefur ekki tilfinnanleg áhrif á heildarstærð ræktanlegs lands viðkomandi jarðar.  Eignarnemi kveður lágmarksbætur fyrir ræktunarhæft land undir veg skv. orðsendingunni vera kr. 21.500 pr. ha., en óræktunarhæft gróið land kr. 8.100 pr. ha.  Þá séu greiddar kr. 229.300 pr. ha. þegar um ræktað land er að ræða. 

 

Eignarnemi kveður hið eignarnumda land vera nýtt til hefðbundins landbúnaðar og við þá notkun skuli miða matið, enda sé ekki sýnt fram á að eftirspurn sé eftir landinu til annarar nýtingar þess.  Eignarnemi bendir sérstaklega á að möguleikar eignarnámsþola til efnissölu úr námu sinni minnki ekkert við framkvæmdina, enda verði nóg efni eftir í námunni.  Eignarnemi kveðst ekki bjóða sérstakar bætur fyrir malarefni sem honum nýtist úr skeringum, enda hljóti hann að eignast það land sem hann tekur eignarnámi með þeim gögnum og gæðum sem því fylgja auk þess sem hann hafi rétt til endurgjaldslausrar malartekju í landi Vindáss skv. þinglýstu afsali sem lagt hafi verið fram í málinu.

 

Eignarnemi bendir sérstaklega á að skv. fasteignamati sé fasteignamat óræktaðs lands Vindáss kr. 118.000 og 25,9 ha. ræktaðs lands séu metnir á rúmlega kr. 817.000 eða tæpar kr. 34.000 pr. ha.  Þá vísar eignarnemi einnig til úrskurða Matsnefndar eignarnámsbóta og þeirrar venju sem skapst hafi við bótaákvörðun í sambærilegum málum.  Í þessu sambandi er sérstaklega vísað til úrskurða matsnefndarinnar í málum nr. 18/1998, nr. 6/2000 og nr. 7/2000.

 

Eignarnemi mótmælir sérstaklega að hægt sé að leggja landverð á Suðurlandsundirlendinu til grundvallar við mat á bótum í máli þessu, enda sé alkunna að landaverð á því svæði hafi hækkað verulega undanfarin ár, en ekkert liggi fyrir um að slík verðhækkun hafi orðið á landi á norðanverðu Snæfellsnesi.

 

Eignarnemi vísar sérstaklega til IX. kafla vegalaga nr. 45/1994, laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms og 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 með síðari breytingum.

 

V.  Sjónarmið eignarnámsþola:

 

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að honum verði metnar hæfilegar bætur fyrir hið eignarnumda auk kostnaðar hans við reksturs máls þessa fyrir matsnefndinni.

 

Eignarnámsþoli bendir á að hluti þess lands sem fari undir vegstæðið sé tún.  Eignarnámsþoli mótmælir staðhæfingum eignarnema um að landið sé allt einungis ræktunarhæft.

 

Eignarnámsþoli telur að miða eigi bætur fyrir þennan hluta landsins, sem hann telur 5-6000 m² að stærð eiga að taka mið af orðsendingu nr. 8/2002 sem segi að greiða eigi a.m.k. kr. 229.300 pr. ha. fyrir ræktað land.

 

Eignarnámsþoli gerir sérstaka kröfu um að honum verði bætt land sem verður á milli hins nýja Snæfellsnesvegar og tengivegar inn Kolgrafarfjörð.  Eignarnámsþoli telur að þríhyrningur lands sem þannig myndast muni ekki nýtast honum neitt og því beri að bæta það.  Eignarnámsþoli segir eignarnema hafa reiknað með þessum ónýtanlega landskika þegar tilboð um kr. 100.000 fyrir eignarnumið land hafi verið sett fram.  Eignarnámsþoli telur að bætur fyrir þennan landpart eigi að vera hærri, enda sé hann stærri en eignarnemi hafi gert ráð fyrir.

 

Eignarnámsþoli mótmælir því sérstaklega að eignarnemi hafi rétt til endurgjaldslausrar malartekju úr landi Vindáss.  Hann hafi sjálfur útbúið námuna fyrir margt löngu og kostað rannsóknir á efni úr henni.  Hann hafi sjálfur selt efni úr námunni athugasemdalaust um árabil auk þess sem hann hafi a.m.k. tvívegis selt eignarnema efni úr námunni.  Eignarnámsþoli telur að heimild eignarnema til malartekju úr jörðinni hafi ávallt verið túlkuð mjög þröngt og heimild eignarnema til malartekjunnar nái ekki til efnistöku úr þessari námu heldur úr öðrum svæðum á jörðinni sem eignarnámsþoli hafi ekki nýtt sér.  Eignarnámsþoli heldur því sérstaklega fram að hið nýja vegstæði komi til með að skerða aðgang að malarnámunni og þannig valda því að möguleikar hans til sölu úr henni skerðist.  Þetta verði að bæta honum.

 

Eignarnámsþoli heldur því fram að hið nýja vegstæðið muni opna leið fyrir varasama sviptivinda að jörðinni, þar sem sú hæð sem áður skýldi henni komi til með að hverfa vegna framkvæmdarinnar.

 

VI.  Niðurstaða matsnefndar:

 

Fullnægjandi lagaheimild er til eignarnámsins og hefur matsnefndin farið á vettvang og kynnt sér aðstæður svo sem fram hefur komið.  Stærð, lega og lögun hinnar eignarnumdu spildu er óumdeild. 

 

Matsnefndin byggir á því að hið eignarnumda land sé allt ræktunarhæft, en ekki tún.  Fallist er á það með eignarnámsþola að þríhyrnd landspilda sem myndast milli hins nýja Snæfellsnesvegar og vegar inn Kolgrafarfjörð komi ekki til með að nýtast eignarnámsþola nema að óverulegu leyti.  Af þessum sökum telur matsnefndin rétt að bæta fyrir þá spildu sérstaklega.

 

Fyrir liggur afsalsbréf dags. 8. nóvember 1974 er landbúnaðarráðherra afsalaði Vindási til Nóa Jónssonar.  Í því afsali kemur m.a. fram að hvers konar efnistaka s.s. sand- og malarnám á vegum ríkisstofnana sé undanskilin í sölunni.  Með hliðsjón af þessu fortakslausa orðalagi í afsalsbréfinu eru ekki efni til að ákvarða eignarnámsþola sérstakar bætur fyrir eignarnumið malarefni auk þess sem hluti af því kemur úr skeringum lands sem tekið er eignarnámi og fullt verð greitt fyrir.  Ekki þykir sýnt að breytt lega vegarins takmarki á nokkurn hátt sölumöguleika eignarnema á malarefni úr námunni og því er sérstakri kröfu hans um bætur vegna þessa hafnað.

 

Að áliti matsnefndarinnar er ekkert sem bendir til að framkvæmd eignarnema á svæðinu muni hafa áhrif á veðurfar á jörð eignarnámsþola.

 

Með vísan til framanritaðs þykja hæfilegar eignarnámsbætur í máli þessu vera sem hér segir:

 

Bætur fyrir 2,7 ha lands                                           kr.              243.000-

Viðbótarbætur vegna ónýtanlegs lands                     kr.                50.000-

Samtals                                                                  kr.              293.000-

 

Landið eignarnámsþola er nýtt til hefðbundinna landbúnaðarnota og telur matsnefndin ekki raunhæft að landið sé eftirsóknarvert til annarra hluta s.s. til sumarhúsabyggðar. 

 

 

Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþola kr. 350.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna rekstur máls þessa og kr. 600.000- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta að máli þessu.

 

 

 

 

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Eignarnemi, Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, greiði eignarnámsþola, Þráni Nóasyni, kt. 160852-2679, Vindási, Eyrarsveit, kr. 293.000- í eignarnámsbætur og kr. 350.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs máls þessa.

Þá skal eignarnemi greiða kr. 600.000- í ríkissjóð vegna kostnaðar við störf Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 

_______________________________
Helgi Jóhannesson

 

__________________________                    ____________________________

Vífill Oddsson                                                   Kristinn Gylfi Jónsson

(2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973, 18. gr. laga nr. 42/1983, reglugerð nr. 264/1971, raforkuvirki, rafmagnslína, raflína, háspennulína, raflínumöstur, vegir, línuvegir, byggingabann, helgunarsvæði, umferðarréttur, sumarbústaðaland, sjónmengun, hávaðamengun, skipulagsuppdráttur, landbúnaðarland, segulsvið, rafsegulsvið, útivistarsvæði, skipulag)

Fimmtudaginn 1. júlí 1999 var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 11/1998

Landsvirkjun

gegn

Eigendum Sandlæks

Gnúpverjahreppi, Árnessýslu

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafræðingur og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:

Með matsbeiðni dags. 16. september 1998, sem lögð var fram í Matsnefnd eignarnámsbóta þann 7. október 1998 fór Landsvirkjun, kt. 420269-1299, Háaleitisbraut 68, Reykjavík (eignarnemi), þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á hluta úr jörðinni Sandlæk, Gnúpverjahreppi, Árnessýslu. Eignarnámsþolar eru eigendur jarðarinnar, en þeir eru
dánarbú Lofts Loftssonar, kt. 050437-4859 og Erlingur Loftsson, kt. 220634-2999. Samkvæmt matsbeiðni er tilefni eignarnámsins lagning Búrfellslínu 3A, 400 kV raflínu um jörð eignarnámsþola.

Andlag eignarnámsins í landi eignarnámsþola er eftirfarandi:

  1. Land undir 350 m. langan og 4 m. breiðan vegslóða ásamt nauðsynlegum fláum meðfram fyrirhuguðu línustæði í landi jarðarinnar. Eignarnemi mun hafa óheftan umferðarrétt um vegslóðann vegna línulagningarinnar, svo og til þess að sinna framvegis viðhaldi, endurbótum og eftirliti með línunni og möstrum í landi jarðarinnar.
  2. Land undir 2 raflínumöstur til að bera háspennulínuna í landi eignarnámsþola. Eignarnumin landspilda undir hverju mastri er 2.916 m² að stærð. Samtals eru því teknir 5.832 m² eignarnámi undir raflínumöstur í landi eignarnámsþola.
  3. Sú kvöð leggst á land undir raflínunni að ekki má byggja nein mannviki á 54 m. breiðri landræmu undir og meðfram línunni, en línan er u.þ.b. 600 m. að lengd í landi eignarnámsþola.

Í matsbeiðni er krafa um að eignarnema verði á grundvelli 14. gr. laga nr. 11/1973 fengin umráð þeirra réttinda sem eignarnámið tekur til þó mati sé ekki lokið.

Heimild til eignarnámsins byggist á 18. gr. laga nr. 42/1983 um Landsvirkjun, en heimild iðnaðarráðuneytisins til eignarnámsins liggur fyrir.

III. Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir hjá Matsnefnd eignarnámsbóta miðvikudaginn 7. október 1998. Af hálfu eignarnema var lögð fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum. Málinu var að því búnu frestað til vettvangsgöngu sem fram fór sunnudaginn 11. október 1998. Að vettvangsgöngunni lokinni var málinu frestað ótiltekið til framlagningar greinargerða af hálfu aðila.

Mánudaginn 8. mars 1999 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnema var lögð fram greinargerð ásamt fylgigögnum og var málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar og annarra gagna af hálfu eignarnámsþola.

Miðvikudaginn 24. mars 1999 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnámsþola var lögð fram greinargerð ásamt fylgigögnum og var málinu að því búnu frestað til munnlegs flutnings þess.

Mánudaginn 17. maí 1999 var málið tekið fyrir. Aðilar fluttu málið munnlega fyrir nefndinni og var það að því búnu tekið til úrskurðar.

Auk þeirra bókuðu fyrirtekta málsins sem gerð hefur verið grein fyrir hefur matsnefndin farið nokkrum sinnum til viðbótar á vettvang og kynnt sér aðstæður.

IV. Sjónarmið eignarnema:

Af hálfu eignarnema hafa eignarnámsþolum verið boðnar bætur er nema kr. 297.450- vegna þess tjóns sem þeir verða fyrir við eignarnámið. Að mati eignarnema er þar um fullnaðarbætur að ræða, en eignarnámsþolar hafa ekki fallist á þá lausn málsins. Eignarnemi bendir sérstaklega á að kunnáttumaður um landverð hafi verið fenginn í lið með eignarnema til að reikna út þær bætur sem boðnar voru eignarnámsþolum.

Að mati eignarnema er ekki á það fallist að allt það land sem línan fari um skuli metið sem sumarbústaðaland. Sérstaða landsins á þessu svæði sé almennt ekki slík, að hún réttlæti hærri bætur, en tíðkast annars staðar við línuna, þótt svo kunni að vera í einstaka tilvikum. Eignarnemi leggur sérstaka áherslu á að eignarnámið nái ekki til allra réttinda á landi eignarnámsþola. Aðeins sé um að ræða raunverulegt eignarnám á þeim hluta landsins sem fer undir veginn og raflínumöstrin auk þess sem byggingabann undir línunni takmarki nýtingu þess lands. Eignarnemi gerir hins vegar ekki athugasemd við hefðbundna nýtingu þess lands sem er undir línunni eða umferð um það, að svo miklu leyti sem það valdi ekki hættu. Eignarnemi telur að meta skuli bæturnar með tilliti til þessa, enda telur hann að ekki hafi verið sýnt fram á að tjóni hafi verið valdið á landinu vegna framkvæmdanna, umfram það sem nefnt hefur verið. Í þessu sambandi bendir eignarnemi sérstaklega á að ekkert sé því til fyrirstöðu að aðrir hlutar jarðarinnar séu nýttir undir sumarhúsabyggð, þrátt fyrir tilvist raflínunnar.

Eignarnemi telur að ekki hafi verið sýnt fram á fjárhagslegt tjón af völdum hávaða frá línunni, en slíkt tjón verði að sanna með óyggjandi hætti svo unnt sé að fallast á að greiða bætur vegna þessa. Á landsvæðinu sem línan liggur um hafa löngum verið rafmagnslínur, en vindgnauð í þeim er óháð spennunni sem um línurnar fer. Þá telur eignarnemi ekki hafa verið sýnt fram á, að hávaði frá línunum sé slíkur, að tjón hljótist af fyrir landeigendur.

Eignarnemi mótmælir því að uppsetning línunnar feli í sér slíka sjónmengun að það valdi verðrýrnun á landi eignarnámsþola. Eignarnemi bendir á að Hæstiréttur hafi með dómi sínum frá árinu 1997 bls. 52 slegið því föstu að við eignarnám skuli einungis fjárhagsleg réttindi bætt. Eignarnemi telur kröfu eignarnámsþola um bætur vegna sjónmengunar vera kröfu um bætur fyrir ófjárhagslegt tjón og af þeim sökum hefur kröfunni verið hafnað. Í þessu sambandi bendir eignarnemi sérstaklega á að eftir því sem landið byggist og þéttbýli stækki, verði sífellt erfiðara að koma að sjónarmiðum um sjónmengun af mannvirkjum í útjaðri byggðar eða mannvirkjum sem tengjast byggðinni. Þá bendir eignarnemi á að fólk geri sífellt ríkari kröfur til aðbúnaðar t.d. í sumarhúsum. Þannig sé það nú sjálfsagt mál að þar sé rafmagn og e.t.v. heitt vatn auk þess sem kostur þyki ef stutt er í einhverja þjónustukjarna. Þessu fylgi að fólk dregur úr kröfum sínum varðandi sjónræn áhrif af nálægðri byggð. Einnig vekur eignarnemi athygli að við hlið hinnar nýju raflínu sé eldri raflína í landi eignarnámsþola.

Eignarnemi mótmælir því að línunni fylgi áhrif á heilsu og líðan manna og dýra vegna raf- eða segulssviðs. Af hálfu eignarnema hefur verið lögð fram skýrsla sem unnin var af Eymundi Sigurðssyni og fjallar um rafsegulsvið auk þess sem umfjöllun er um það sama í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum Búrfellslínu 3A sem einnig hefur verið lögð fram í málinu. Niðurstaðan í þessum gögnum er sú að rannsóknir sýni að áreiti af raf- eða segulsviði ógni ekki heilsufari manna. Sérstaklega er tekið fram að enginn fullnægjandi vitnisburður gefi tilefni til að ætla að áreiti frá raf- og segulsviði valdi krabbameini, eða hafi áhrif á sálarlíf einstaklinga, taugaboð, æxlun eða þroska. Með hliðsjón af þessum niðurstöðum neitar eignarnemi því alfarið að honum beri að greiða bætur vegna þessa.

Eignarnemi leggur á það ríka áherslu að eignarnámsþolum hafi mátt vera það ljóst löngu áður en lagning Búrfellslínu 3A hófst, að til stæði að leggja línuna. Skipulagsuppdráttur, þar sem kveðið er á um legu línunanar, hafi verið samþykktur af viðkomandi hreppsnefndum og staðfestur og auglýstur af umhverfisráðuneytinu, þegar á árinu 1991. Undirbúningur og kynning hafi þá staðið um nokkra hríð. Eignarnemi telur að hafa verði þetta í huga við matið, sérstaklega þegar litið er til ákvarðana landeigenda um nýtingu á landinu, sem teknar voru eftir að ljóst var í hvað stefndi.

Eignarnemi telur hugmyndir eignarnámsþola um bótafjárhæð vera fjarri öllum raunveruleika. Eignarnemi hefur í þessu sambandi lagt fram fasteignamat jarðarinnar allrar sem á að endurspegla raunhæft staðgreiðsluverð hennar. Af þessu mati megi sjá að kröfugerð eignarnámsþola er úr öllum tengslum við mögulega verðmætarýrnun jarðarinnar vegna lagningar raflínunnar.

V. Sjónarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að þeim verði ákvarðaðar fullar bætur vegna eignarnámsins. Bótakrafan sundurliðast með eftirfarandi hætti:

  1. Í fyrsta lagi er þess krafist að fullar bætur komi fyrir allt land sem fer undir mannvirki og/eða liggur undir háspennulínunni, þ.e. hið svokallaða helgunarsvæði 27 m. frá miðlínu raflínunnar til beggja hliða, þ.m.t. land sem fer undir vegi og staurasstæður innan þess svæðis.
  2. Í öðru lagi er krafist fullra bóta fyrir land sem liggur í næsta nágrenni við helgunarsvæði línunnar. Þetta svæði telja eignarnámsþolar vera 52,5 m. frá miðlínu raflínunnar til beggja hliða, að frádregnum 27 m. skv. lið 1.
  3. Í þriðja lagi er krafist bóta fyrir land sem liggur fjær línunni en skv. lið 1 og 2, þ.e. í þeim tilvikum þegar land eignarnámsþola nýtist ekki þar með fyrirhugðum hætti vegna línunnar.
  4. Í fjórða lagi er gerð krafa um bætur vegna tímabundinna og varanlegra óþæginda vegna lagningar línunnar.
  5. Í fimmta lagi er krafist bóta vegna þeirrar hættu sem starfar af raflínunum, m.a. vegna þeirrar geislunar sem frá henni starfar.
  6. Þá er krafist greiðslu þess kostnaðar sem eignarnámsþolar hafa haft af rekstri máls þessa fyrir matsnefndinni.

Eignarnámsþolar telja að þeir eigi að fá fullar bætur fyrir allt land innan helgunarsvæðis línunnar, eins og um eignarnám að fullu væri að ræða, enda sé honum bönnuð hvers konar mannvirkjagerð á þessu svæði. Eignarnámsþolar benda á að með því að skipuleggja jörðina með þeim hætti að þar eigi að liggja raflína um, hljóti verðmæti jarðarinnar að aukast, sem miða beri við við verðmatið. Landið sé greinilega eftirsótt m.a. til þess að leggja þar raflínu, en þar sem engin samkeppni ríki á þeim markaði í þessu tilfelli, vegna einokunaraðstöðu eignarnema, hafi ekki myndast raunverulegt markaðsvirði landsins m.t.t. þeirra nota. Eignarnámsþolar telja almennt söluverð annarra jarða sem ekki hafa verið skipulagðar ekki gefa neina mynd af þeim bótum sem eignarnámsþolum beri í máli þessu. Með hliðsjón af framangreindu telja eignarnámsþolar að rétt sé að miða bæturnar við kr. 400.000- pr. ha. lands. Eignarnámsþolar telja bætur fyrir eignarnumið land eiga að nema kr. 1.668.880- sem sundurliðast þannig:

Bætur vegna lands undir vegi 350 m. kr. 140.000-

Bættur vegna lands undir 2 staurastæður

2 x 116.640- kr. 232.880-

Bætur v. 54 m. helgunarsvæðis, 3,24 ha.kr. 1.296.000-

Samtalskr. 1.668.880-

Eignarnámsþolar telja að helgunarsvæði línunnar eigi að vera 105 m. en ekki 54 m. eins og undanþága Löggildingarstofu sem liggur fyrir gerir ráð fyrir. Eignarnámsþolar benda í þessu sambandi sérstaklega á að helgunarsvæðið hafi ekkert verið stækkað þrátt fyrir að flutningsgeta línunnar hafi verið aukin úr 220 kV upp í 400 kV línu. Eignarnámsþolar telja þá staðreynd að eignarnemi hafi fengið undanþágu frá reglunum að þessu leyti ekki geta staðið í vegi fyrir þeim stjórnarskrárbundna rétti eignarnámsþola að þeir fái fullar bætur vegna eignarnámsins. Eignarnámsþolar telja í þessu sambandi mestu skipta þær reglur sem gildi skv. reglugerð nr. 264/1971 um raforkuvirki með áorðnum breytingum, en sú reglugerð geri ráð fyrir 105 m. helgunarsvæði við þær aðstæður sem hér er. Að áliti eignarnámsþola eiga bætur vegna þessa viðbótar helgunarsvæðis að nema kr. 1.224.000- (3,06 ha. x 400.000-).

Eignarnámsþolar gera að auki kröfu um að fá bætt land utan 105 m. helgunarsvæðisins vegna þess að það nýtist sums staðar ekki með þeim hætti sem verið hefði ef raflínan hefði ekki komið til. Í þessu sambandi vísa eignarnámsþolar sérstaklega til nýtingar landsins undir sumarhús, en þeir telja a.m.k. fjórar slíkar lóðir fara forgörðum vegna línulagningarinnar. Samtals gera þeir kröfur til bóta upp á kr. 2.000.000- vegna þessa þáttar. Þá er einnig krafist bóta vegna verðrýrnunar á skógrækt þeirri sem eignarnámsþolar hafa stundað í nágrenni línunnar.

Eignarnámsþolar gera kröfu um kr. 250.000- bætur fyrir tímabundin óþægindi sem þeir hafa haft vegna lagningar línunnar. Að auki er krafist kr. 700.000- vegna varanlegra óþæginda sem af línunni stafa. Í þessu sambandi er átt við varanleg óþægindi af völdum hávaða frá línunni bæði af völdum veðurs og gneistunar og vegna óprýði sem er af línunni í landslaginu.

Þá gera eignarnámsþolar kröfu um bætur vegna þeirrar hættu sem starfar af völdum rafspennu- og seguláhrifa línunnar. Eignarnámsþolar benda á að sú skoðun sé ríkjandi að nálægð við rafspennumannvirki sé ekki heilsusamleg. Engu skipti í því sambandi þó rannsóknir séu misvísandi um þetta atriði. Þessi trú fólks valdi því að landsvæði í nágrenni háspennumannvirkja séu síður til þess fallin að laða að fólk en þau svæði sem eru laus við slík mannvirki.

Varðandi málskostnaðarkröfu eignarnámsþola er þess óskað að tekið verði tillit til mikils umfangs málsins og þess að lögmaður eignarnámsþola hefur í tvígang farið á vettvang til að kynna sér aðstæður.

VI. Niðurstaða matsnefndarinnar:

Svo sem fram hefur komið hefur matsnefndin farið nokkrum sinnum á vettvang og kynnt sér aðstæður, bæði fyrir og eftir uppsetningu raflínunnar. Þá hefur nefndin leitað álits löggilts fasteignasala á landverði á því svæði sem línan fer yfir. Einnig hafa verið lögð fram í málinu ýmis gögn sem nýst hafa nefndinni í störfum hennar. Hlutverk matsnefndarinnar skv. 2. gr. laga nr. 11/1973 er að skera úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. Bætur fyrir ófjárhagslegt tjón í tengslum við eignarnámið koma ekki til skoðunar hjá matsnefndinni. Við ákvörðun eignarnámsbóta er höfð hliðsjón af grundvallarreglunni sem fram kemur í 72. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, þ.e. að fullt verð komi fyrir hin eignarnumdu réttindi.

Búrfellslína 3A liggur að stórum hluta um einn búsældarlegasta hluta Íslands. Línan er víða áberandi í landslaginu og nærri híbýlum manna. Í nágrenni hins eignarnumda lands eru víða vinsæl svæði fyrir sumarhúsabyggð og þykir nefndinni land það sem línan fer um í landi eignarnámsþola þokkalega hentugt til slíkra nota, þó alls ekki fyrsta flokks. Landið er vel gróið. Fallast ber á það með eignarnámsþolum að þegar svo hagar til, sé tilkoma línunnar til þess fallin að rýra verðmæti jarðarinnar allrar vegna sjónrænna áhrifa af línunni, jafnvel þó í nágrenninu sé önnur eldri lína. Einnig er það álit nefndarinnar að fólk forðast að vera nærri slíkum mannvirkjum, jafnvel þó skaðleg áhrif þess hafi ekki verið sönnuð. Þá liggur fyrir að land undir línunni á þeim svæðum, sem hentað gæti fyrir sumarhúsabyggð, kemur aldrei til með að nýtast til þeirra hluta og ber að hafa það til hliðsjónar við matið, en tekið er mið af því við ákvörðun bóta fyrir þann hluta landsins, að ekki er um fullkomið eignarnám að ræða og að eignarnámsþolar halda þar eftir ákveðnum réttindum til nýtingar landsins.

Þrátt fyrir að hið eignarnumda land hafi ekki verið sérstaklega skipulagt fyrir sumarhúsabyggð þykir ljóst að landið geti að einhverju leyti hentað fyrir lóðir undir sumarhús og næsta nágrenni er vinsælt til þeirra nota svo sem að framan greinir. Verður því við matið að miða við þann möguleika á framtíðarnýtingu landsins. Í þessu sambandi er sérstaklega vísað til dóms Hæstaréttar frá árinu 1984 bls. 906.

Þrátt fyrir það sem að framan greinir þykja verðhugmyndir eignarnámsþola fyrir hið eignarnumda allt of háar. Ekki hefur verið sýnt fram á að eignarnámið hafi valdið eignarnámsþolum því fjárhagstjóni sem haldið er fram af þeirra hálfu í málinu og er því ekki fallist á kröfur þeirra í málinu.

Svo sem fram hefur komið liggur Búrfellslína 3A á u.þ.b. 600 m. kafla um land eignarnámsþola og 2 raflínumöstur eru í landinu. Þá eru línuvegir í landi eignarnámsþola 350 m. langir og taldir u.þ.b. 4 m. breiðir að meðaltali, án fláa, sem víða breikka svæðið sem fer undir veginn töluvert. Helgunarsvæði raflínunnar spannar 54 m. samkvæmt undanþáguheimild Löggildingarstofu dags. 7. janúar 1999 og er við þá breidd miðað í matinu. Tekið hefur verið tillit til þess að hluti vega lendir innan helgunarsvæðis línunnar.

Með hliðsjón af því sem að framan segir þykja hæfilegar bætur til eignarnámsþola vera sem hér segir:

Bætur fyrir eignarnumið land

undir raflínumöstur og veg: kr. 216.000-

Bætur fyrir takmörkun á nýtingarmöguleikum

lands undir raflínunni kr. 400.000-

Verðlækkun jarðarinnar vegna

sjónrænna áhrifa línunnarkr. 190.000-

Samtalskr. 806.000-

Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþolum kr. 250.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs málsins fyrir matsnefndinni og kr. 243.500- í ríkissjóð vegna kostnaðar af störfum Matsnefndar eignarnámsbóta við málið. Við ákvörðun málskostnaðar til eignarnámsþola, hefur verið höfð hliðsjón af því að lögmaður þeirra rak samhliða máli þessu nokkur önnur mál fyrir matsnefndinni, vegna eignarnáms eignarnema á spildum úr öðrum jörðum í nágrenninu í þágu lagningar Búrfellslínu 3A, og hefur sú vinna sem innt var af hendi að verulegu leyti nýst í öllum málunum.

ÚRSKURÐARORÐ

Eignarnemi, Landsvirkjun, kt. 420269-1299, Háaleitisbraut 68, Reykjavík, greiði eignarnámsþolum, dánarbúi Lofts Loftssonar, kt. 050437-4859 og Erlingi Loftssyni, kt. 220634-2999, sameiginlega kr. 806.000- í eignarnámsbætur og kr. 250.000- auk virðisaukaskatts í málskostnað.

Þá greiði eignarnemi kr. 243.500- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta við mál þetta.

__________________________________

Helgi Jóhannesson, hrl.

Vífill Oddsson, verkfræðingur                     Kristinn Gylfi Jónsson, vskfr. og bóndi

 

(2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973, 18. gr. laga nr. 42/1983, reglugerð nr. 264/1971, raforkuvirki, rafmagnslína, raflína, háspennulína, raflínumöstur, vegir, línuvegir, byggingabann, helgunarsvæði, umferðarréttur, sumarbústaðaland, sjónmengun, hávaðamengun, skipulagsuppdráttur, landbúnaðarland, segulsvið, rafsegulsvið, útivistarsvæði, skipulag)

Fimmtudaginn 1. júlí 1999 var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 11/1997

Landsvirkjun

gegn

Eigendum Hamra I,

Grímsneshreppi, Árnessýslu

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafræðingur og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:

Með matsbeiðni dags. 5. desember 1997, sem lögð var fram í Matsnefnd eignarnámsbóta þann 15. desember 1997 fór Landsvirkjun, kt. 420269-1299, Háaleitisbraut 68, Reykjavík (eignarnemi), þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á hluta úr jörðinni Hömrum I, Grímsneshreppi, Árnessýslu. Eignarnámsþolar eru eigendur jarðarinnar, en þeir eru
Gyða Sigurðardóttir, kt. 160628-2519 og Eiríkur Guðmundsson, 210628-3399. Samkvæmt matsbeiðni er tilefni eignarnámsins lagning Búrfellslínu 3A, 220 kV raflínu um jörð eignarnámsþola. Undir rekstri matsmálsins varð sú breyting gerð að eignarnema var veitt heimild til lagningar 400 kV línu um jörðina.

Andlag eignarnámsins í landi eignarnámsþola er eftirfarandi:

  1. Land undir 1.000 m. langan og 4 m. breiðan vegslóða ásamt nauðsynlegum fláum meðfram fyrirhuguðu línustæði í landi jarðarinnar. Eignarnemi mun hafa óheftan umferðarrétt um vegslóðann vegna línulagningarinnar, svo og til þess að sinna framvegis viðhaldi, endurbótum og eftirliti með línunni og möstrum í landi jarðarinnar.
  2. Land undir 4 raflínumöstur til að bera háspennulínuna í landi eignarnámsþola. Eignarnumin landspilda undir hverju mastri er 2.916 m² að stærð. Samtals eru því teknir 11.664 m² eignarnámi undir raflínumöstur í landi eignarnámsþola.
  3. Sú kvöð leggst á land undir raflínunni að ekki má byggja nein mannviki á 54 m. breiðri landræmu undir og meðfram línunni, en línan er u.þ.b. 1.600 m. löng í landi eignarnámsþola.

Í matsbeiðni er krafa um að eignarnema verði á grundvelli 14. gr. laga nr. 11/1973 fengin umráð þeirra réttinda sem eignarnámið tekur til þó mati sé ekki lokið.

Heimild til eignarnámsins byggist á 18. gr. laga nr. 42/1983 um Landsvirkjun, en heimild iðnaðarráðuneytisins til eignarnámsins liggur fyrir.

III. Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir hjá Matsnefnd eignarnámsbóta mánudaginn 15. desember 1997. Af hálfu eignarnema var lögð fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum. Vegna kröfu eignarnema um að fá strax umráð hins eignarnumda á grundvelli 14. gr. laga nr. 11/1973 var aðilum veittur frestur til að koma að skriflegum sjónarmiðum sínum vegna þess þáttar málsins til 19. desember 1997. Að því búnu gekk matsnefndin á vettvang og kynnti sér aðstæður. Málinu var að því búnu frestað um ótiltekinn tíma.

Mánudaginn 22. desember 1997 kvað matsnefndin upp úrskurð vegna kröfu eignarnema um umráðatöku á grundvelli 14. gr. laga nr. 11/1973. Úrskurðarorðið hljóðar svo:

"Eignarnema, Landsvirkjun, er heimiluð umráð hins eignarnumda lands að Hömrum I, Grímsnesshreppi, og að hefja framkvæmdir á svæðinu þó mati sé ekki lokið."

Föstudaginn 29. maí 1998 var málið tekið fyrir. Eignarnemi hafði þá fengið heimild til að leggja 400 kV línu um hið eignarnumda land, í stað 220 kV línu eins og áður hafði verið ráðgert. Tilefni fyrirtökunnar var krafa eignarnema um að fá umráð hins eignarnumda og að hefja framkvæmdir við línuna þrátt fyrir þessa breytingu. Matsnefndin heimilaði eignarnema umráðin með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973 og úrskurðarins frá 22. desember 1997. Málinu var að því búnu frestað um ótiltekinn tíma. Af hálfu matsnefndarinnar var sú ákvörðun tekin að hefja ekki eiginleg matsstörf fyrr en raflínan væri komin upp og búið að hleypa straumi á hana.

Mánudaginn 8. mars 1999 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnema var lögð fram greinargerð ásamt fylgigögnum og var málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola.

Föstudaginn 9. apríl 1999 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnámsþola var lögð fram greinargerð ásamt fylgigögnum. Málinu var að því búnu frestað til munnlegs flutnings.

Þriðjudaginn 4. maí 1999 var málið tekið fyrir. Aðilar fluttu málið munnlega fyrir nefndinni og var það að því búnu tekið til úrskurðar.

Auk þeirra bókuðu fyrirtekta málsins sem gerð hefur verið grein fyrir hefur matsnefndin farið nokkrum sinnum til viðbótar á vettvang og kynnt sér aðstæður, bæði í fylgd aðila málsins og án þeirra.

IV. Sjónarmið eignarnema:

Af hálfu eignarnema hafa eignarnámsþolum verið boðnar bætur er nema kr. 525.600- vegna þess tjóns sem þeir verða fyrir við eignarnámið. Að mati eignarnema er þar um fullnaðarbætur að ræða, en eignarnámsþolar hafa ekki fallist á þá lausn málsins. Eignarnemi bendir sérstaklega á að kunnáttumaður um landverð hafi verið fenginn í lið með eignarnema til að reikna út þær bætur sem boðnar voru eignarnámsþolum.

Að mati eignarnema er ekki á það fallist að allt það land sem línan fari um skuli metið sem sumarbústaðaland. Sérstaða landsins á þessu svæði sé almennt ekki slík, að hún réttlæti hærri bætur, en tíðkast annars staðar við línuna, þótt svo kunni að vera í einstaka tilvikum. Eignarnemi leggur sérstaka áherslu á að eignarnámið nái ekki til allra réttinda á landi eignarnámsþola. Aðeins sé um að ræða raunverulegt eignarnám á þeim hluta landsins sem fer undir veginn og raflínumöstrin auk þess sem byggingabann undir línunni takmarki nýtingu þess lands. Eignarnemi gerir hins vegar ekki athugasemd við hefðbundna nýtingu þess lands sem er undir línunni eða umferð um það, að svo miklu leyti sem það valdi ekki hættu. Eignarnemi telur að meta skuli bæturnar með tilliti til þessa, enda telur hann að ekki hafi verið sýnt fram á að tjóni hafi verið valdið á landinu vegna framkvæmdanna, umfram það sem nefnt hefur verið. Í þessu sambandi bendir eignarnemi sérstaklega á að ekkert sé því til fyrirstöðu að aðrir hlutar jarðarinnar séu nýttir undir sumarhúsabyggð, þrátt fyrir tilvist raflínunnar.

Eignarnemi telur að ekki hafi verið sýnt fram á fjárhagslegt tjón af völdum hávaða frá línunni, en slíkt tjón verði að sanna með óyggjandi hætti svo unnt sé að fallast á að greiða bætur vegna þessa. Á landsvæðinu sem línan liggur um hafa löngum verið rafmagnslínur, en vindgnauð í þeim er óháð spennunni sem um línurnar fer. Þá telur eignarnemi ekki hafa verið sýnt fram á, að hávaði frá línunum sé slíkur, að tjón hljótist af fyrir landeigendur.

Eignarnemi mótmælir því að uppsetning línunnar feli í sér slíka sjónmengun að það valdi verðrýrnun á landi eignarnámsþola. Eignarnemi bendir á að Hæstiréttur hafi með dómi sínum frá árinu 1997 bls. 52 slegið því föstu að við eignarnám skuli einungis fjárhagsleg réttindi bætt. Eignarnemi telur kröfu eignarnámsþola um bætur vegna sjónmengunar vera kröfu um bætur fyrir ófjárhagslegt tjón og af þeim sökum hefur kröfunni verið hafnað. Í þessu sambandi bendir eignarnemi sérstaklega á að eftir því sem landið byggist og þéttbýli stækki, verði sífellt erfiðara að koma að sjónarmiðum um sjónmengun af mannvirkjum í útjaðri byggðar eða mannvirkjum sem tengjast byggðinni. Þá bendir eignarnemi á að fólk geri sífellt ríkari kröfur til aðbúnaðar t.d. í sumarhúsum. Þannig sé það nú sjálfsagt mál að þar sé rafmagn og e.t.v. heitt vatn auk þess sem kostur þyki ef stutt er í einhverja þjónustukjarna. Þessu fylgi að fólk dregur úr kröfum sínum varðandi sjónræn áhrif af nálægðri byggð.

Eignarnemi mótmælir því að línunni fylgi áhrif á heilsu og líðan manna og dýra vegna raf- eða segulssviðs. Af hálfu eignarnema hefur verið lögð fram skýrsla sem unnin var af Eymundi Sigurðssyni og fjallar um rafsegulsvið auk þess sem umfjöllun er um það sama í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum Búrfellslínu 3A sem einnig hefur verið lögð fram í málinu. Niðurstaðan í þessum gögnum er sú að rannsóknir sýni að áreiti af raf- eða segulsviði ógni ekki heilsufari manna. Sérstaklega er tekið fram að enginn fullnægjandi vitnisburður gefi tilefni til að ætla að áreiti frá raf- og segulsviði valdi krabbameini, eða hafi áhrif á sálarlíf einstaklinga, taugaboð, æxlun eða þroska. Með hliðsjón af þessum niðurstöðum neitar eignarnemi því alfarið að honum beri að greiða bætur vegna þessa.

Eignarnemi leggur á það ríka áherslu að eignarnámsþolum hafi mátt vera það ljóst löngu áður en lagning Búrfellslínu 3A hófst, að til stæði að leggja línuna. Skipulagsuppdráttur, þar sem kveðið er á um legu línunanar, hafi verið samþykktur af viðkomandi hreppsnefndum og staðfestur og auglýstur af umhverfisráðuneytinu, þegar á árinu 1991. Undirbúningur og kynning hafi þá staðið um nokkra hríð. Eignarnemi telur að hafa verði þetta í huga við matið, sérstaklega þegar litið er til ákvarðana landeigenda um nýtingu á landinu, sem teknar voru eftir að ljóst var í hvað stefndi.

Eignarnemi telur hugmyndir eignarnámsþola um bótafjárhæð vera fjarri öllum raunveruleika. Eignarnemi hefur í þessu sambandi lagt fram fasteignamat jarðarinnar allrar sem á að endurspegla raunhæft staðgreiðsluverð hennar. Af þessu mati megi sjá að kröfugerð eignarnámsþola er úr öllum tengslum við mögulega verðmætarýrnun jarðarinnar vegna lagningar raflínunnar.

V. Sjónarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að þeim verði ákvarðaðar ekki lægri bætur en kr. 29.340.000- vegna þeirra réttindaskerðingar sem eignarnámið hefur í för með sér fyrir þá. Þá er og krafist málskostnaðar að mati nefndarinnar.

Eignarnámsþolar benda á að jarðir í Grímsnesi hafi þá sérstöðu að þar sé mikið um sumarbústaði, enda hjálpist allt að, sveitin sé falleg, útsýni mikið og gróðursæld. Þetta hafi gert landið eftirsótt og því verði að meta hið eignarnumda land sem sumarbústaðaland, því á landinu séu sumarbústaðir auk þess sem gert er ráð fyrir sumarbústaðabyggð þar samkvæmt gildandi skipulagi. Eignarnámsþolar telja einsýnt að eignarnemi greiði þeim bætur er nemi verðlækkun á jörðinni allri við það að ekki verði hægt að nýta landið til sölu sumarbústaðalóða auk þeirrar verðlækkunar sem verður sökum þess ljótleika sem felst í ógnvænlegum raflínum á landinu, en þau áhrif nái langt út fyrir helgunarsvæði línunnar.

Eignarnámsþolar telja 54 m. helgunarsvæði línunnar allt of mjótt svæði og telja óbyggilegt í a.m.k. 100 m. frá miðlínu raflínunnar. Telja eignarnámsþolar sig hafa vissu fyrir því að komi til þess að rafstrengur slitni, geti hann kastast allt að 100 m. til hliðar, því sé ljóst að engum detti í hug að byggja nær línunni en það. Eignarnámsþolar telja því raunverulegt helgunarsvæði vera 200 m. eða 32 ha. í landi þeirra, en ekki 8,6 ha. eins og haldið er fram af hálfu eignarnema. Til viðbótar benda eignarnámsþolar á að línan fari yfir farveg Hvítár sem er í óskiptri sameign með eiganda Hamra II, en eignarnámsþolar eiga 2/3 hluta sameignarinnar. Stærð þessa svæðis er 70.000 m² ef miðað er við 200 m. belti. Af hálfu eignarnámsþola er gerð sérstök krafa um bætur fyrir vegarstæði í landi þeirra. Enda þótt Gunnar Jóhannsson bóndi á Hömrum II hafi kostað veginn sem fyrir var, þá eigi eignarnámsþolar landið sem tekið var eignarnámi undir veginn og fyrir það beri þeim að fá greiddar bætur.

Eignarnámsþolar benda á að sjónmengun af línunni sé sérstaklega mikil og hún liggi þar að auki yfir einn gróðursælasta stað landsins. Sjónmengunin sé ekki aðeins til þess fallin að valda heimamönnum og gestum þeirra hugarangri, heldur verði beinlínis til þess að væntanlegir kaupendur vilja ekki greiða eins hátt verð fyrir jörðina. Þá benda eignarnámsþolar á að línurnar raðist þannig upp séð frá íbúðarhúsi jarðarinnar að engu líkara sé en línan myndi stóran vegg í landslaginu á einum fegursta staðnum á jörðinni. Minni þessi sjón frekar á iðnaðarhéðuð í Þýskalandi en eftirsótta bújörð á Íslandi.

Eignarnámsþolar telja línuna rýra verulega verðgildi jarðarinnar hvort sem um er að ræða afnot til búskapar, sumarbústaðabyggðar, skógræktar eða útivistar. Búið sé að skipuleggja sumarhúsabyggð frá Maurholti meðfram Helgulæk og upp að vegi, en tilvist línunnar geri landið ekki eins eftirsótt til þeirra nota. Eignarnámsþolar benda á að Hamrajarðirnar séu vinsæll staður til útivistar og laxveiðimenn eyði oft löngum stundum á bökkum Hvítár og Brúarár fyrir landi jarðanna, en nú slúti línan yfir ána og fæli fólk frá auk þess sem áhrif hennar á veiði sé órannsökuð. Þá er einnig á það bent að jarðhiti er í farvegi Hvítár einmitt á þeim stað sem línan fer yfir ána, en með uppsetningu línunnar sé skotið loku fyrir borframkvæmdir eða hafa nokkrar þær tilfæringar sem við þarf að hafa er jarðhiti er nýttur.

Eignarnámsþolar telja veruleg óþægindi stafa af línunni sökum hávaða vegna vindgnauðs auk þess sem frá línunni starfar hvimleitt suð sem sé sérstaklega áberandi í rigningarveðri. Þá telja eignarnámsþolar áhrif rafsegulssviðs frá línunni valda verðlækkun á jörðinni vegna hræðslu fólks við að dveljast nærri slíkum raforkumannvirkjum og skipti þar engu þó skaðleiki nálægðar við slíkar línur sé ekki sannaður. Ótti fólks við skaðleg áhrif línunnar á heilsu manna og dýra og sjónmengunin séu nægileg til að framkalla verðfall á jörðinni af þessum sökum.HHk

Eignarnámsþolar rökstyðja bótakröfu sína með eftirfarandi hætti:

Eignarnámið nær til 32 ha. lands (200m x 1.600 m.) og verð sumarbústaðarlands er kr. 90,00 pr. m², þannig að heildarverð þess lands er kr. 28,8 millj. Við bætist vegastæði 1.000 m. að lengd sem ætla má að sé allt að 6 m. breitt og miðað við sömu forsendur sé verðmæti þess því kr. 540.000-. Kröfur eignarnámsþola nema því kr. 29.340.000- og benda eignarnámsþolar á að taka verði tillit til þess að með eignarnáminu er verið að binda notagildi jarðarinnar og sölumöguleika hennar í a.m.k. 50 ár.

VI. Niðurstaða matsnefndarinnar:

Svo sem fram hefur komið hefur matsnefndin farið nokkrum sinnum á vettvang og kynnt sér aðstæður, bæði fyrir og eftir uppsetningu raflínunnar. Þá hefur nefndin leitað álits löggilts fasteignasala á landverði á því svæði sem línan fer yfir. Einnig hafa verið lögð fram í málinu ýmis gögn sem nýst hafa nefndinni í störfum hennar. Hlutverk matsnefndarinnar skv. 2. gr. laga nr. 11/1973 er að skera úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. Bætur fyrir ófjárhagslegt tjón í tengslum við eignarnámið koma ekki til skoðunar hjá matsnefndinni. Við ákvörðun eignarnámsbóta er höfð hliðsjón af grundvallarreglunni sem fram kemur í 72. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, þ.e. að fullt verð komi fyrir hin eignarnumdu réttindi.

Búrfellslína 3A liggur að stórum hluta um einn búsældarlegasta hluta Íslands. Línan er víða áberandi í landslaginu og nærri híbýlum manna. Í nágrenni hins eignarnumda lands eru víða vinsæl svæði fyrir sumarhúsabyggð og er land eignarnámsþola þokkalega hentugt til þeirra nota á stórum hluta þess svæðis sem fer undir hina nýju rafmagnslínu, þó alls ekki fyrsta flokks. Fallast ber á það með eignarnámsþolum að þegar svo hagar til, sé tilkoma línunnar til þess fallin að rýra verðmæti jarðarinnar allrar vegna sjónrænna áhrifa af línunni, en þau eru sérstaklega mikil í landi eignarnámsþola. Einnig er það álit nefndarinnar að fólk forðast að vera nærri slíkum mannvirkjum, jafnvel þó skaðleg áhrif þess hafi ekki verið sönnuð. Þá liggur fyrir að land undir línunni á þeim svæðum, sem hentað gæti fyrir sumarhúsabyggð, kemur aldrei til með að nýtast til þeirra hluta og ber að hafa það til hliðsjónar við matið, en tekið er mið af því við ákvörðun bóta fyrir þann hluta landsins, að ekki er um fullkomið eignarnám að ræða og að eignarnámsþolar halda þar eftir ákveðnum réttindum til nýtingar landsins.

Þrátt fyrir að hið eignarnumda land hafi ekki verið sérstaklega skipulagt fyrir sumarhúsabyggð þykir ljóst að landið hentar að mörgu leyti fyrir lóðir undir sumarhús og næsta nágrenni er vinsælt til þeirra nota svo sem að framan greinir. Verður því við matið að miða við þann möguleika á framtíðarnýtingu landsins. Í þessu sambandi er sérstaklega vísað til dóms Hæstaréttar frá árinu 1984 bls. 906.

Þrátt fyrir það sem að framan greinir þykja verðhugmyndir eignarnámsþola fyrir hið eignarnumda allt of háar. Ekki hefur verið sýnt fram á að eignarnámið hafi valdið eignarnámsþolum því fjárhagstjóni sem haldið er fram af þeirra hálfu í málinu og er því ekki fallist á kröfur þeirra í málinu. Ekkert liggur fyrir um takmarkanir á nýtingarmöguleikum jarðhita vegna eignarnámsins og er því ekki fallist á kröfu um sérstakar bætur vegna þessa.

Svo sem fram hefur komið liggur Búrfellslína 3A á u.þ.b. 1.600 m. kafla um land eignarnámsþola og fjögur raflínumöstur eru í landinu. Þá eru línuvegir í landi eignarnámsþola 1.000 m. langir og taldir u.þ.b. 4 m. breiðir að meðaltali, án fláa, sem víða breikka svæðið sem fer undir veginn töluvert. Helgunarsvæði raflínunnar spannar 54 m. samkvæmt undanþáguheimild Löggildingarstofu dags. 7. janúar 1999 og er við þá breidd miðað í matinu. Tekið hefur verið tillit til þess að hluti vega eru á helgunarsvæði línunnar.

Með hliðsjón af því sem að framan segir þykja hæfilegar bætur til eignarnámsþola vera sem hér segir:

Bætur fyrir eignarnumið land

undir raflínumöstur og veg: kr. 477.000-

Bætur fyrir takmörkun á nýtingarmöguleikum

lands undir raflínunni kr. 940.000-

Verðlækkun jarðarinnar vegna

sjónrænna áhrifa línunnarkr. 750.000-

Samtalskr. 2.167.000-

Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþolum kr. 350.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs málsins fyrir matsnefndinni og kr. 243.500- í ríkissjóð vegna kostnaðar af störfum Matsnefndar eignarnámsbóta við málið

ÚRSKURÐARORÐ

Eignarnemi, Landsvirkjun, kt. 420269-1299, Háaleitisbraut 68, Reykjavík, greiði eignarnámsþolum, Gyðu Sigurðardóttur, kt. 160628-2519 og Eiríki Guðmundssyni, kt. 210628-3399 sameiginlega, kr. 2.167.000- í eignarnámsbætur og kr. 350.000- auk virðisaukaskatts í málskostnað.

Þá greiði eignarnemi kr. 243.500- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta við mál þetta.

__________________________________

Helgi Jóhannesson, hrl.

Vífill Oddsson, verkfræðingur                      Kristinn Gylfi Jónsson, vskfr. og bóndi

 

(2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973, 18. gr. laga nr. 42/1983, reglugerð nr. 264/1971, raforkuvirki, rafmagnslína, raflína, háspennulína, raflínumöstur, vegir, línuvegir, byggingabann, helgunarsvæði, umferðarréttur, sumarbústaðaland, sjónmengun, hávaðamengun, skipulagsuppdráttur, landbúnaðarland, segulsvið, rafsegulsvið, útivistarsvæði, skipulag)

Fimmtudaginn 1. júlí 1999 var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 10/1997

Landsvirkjun

gegn

Eigendum Króks,

Grafningshreppi, Árnessýslu

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafræðingur og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:

Með matsbeiðni dags. 5. desember 1997, sem lögð var fram í Matsnefnd eignarnámsbóta þann 15. desember 1997 fór Landsvirkjun, kt. 420269-1299, Háaleitisbraut 68, Reykjavík (eignarnemi), þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á hluta úr jörðinni Króki, Grafningshreppi, Árnessýslu. Eignarnámsþolar eru eigendur jarðarinnar, Egill Guðmundsson, kt 130521-3639, Áslaug F. Guðmundsdóttir, kt. 250226-4549, Jóhannes Þ. G. Guðmundsson, kt. 200531-7019, Jóhanna Guðmundsdóttir, kt. 120836-4479, Sæunn Guðmundsdóttir, kt. 150633-4009, Elfa Guðmundsdóttir, kt. 280345-4669, Erlingur Þ. Guðmundsson, kt. 011247-2379, Jóhannes Jóhannsson, kt. 280849-2869, Kristín B. Hallbjörnsdóttir, kt. 100459-7019, Guðmundur Hallbjörnsson, kt. 120365-5179 og Guðrún Björk Hallbjörnsdóttir, kt. 131257-4739. Samkvæmt matsbeiðni er tilefni eignarnámsins lagning Búrfellslínu 3A, 220 kV raflínu um jörð eignarnámsþola. Undir rekstri matsmálsins varð sú breyting gerð að eignarnema var veitt heimild til lagningar 400 kV línu um jörðina.

Andlag eignarnámsins í landi eignarnámsþola er eftirfarandi:

  1. Land undir 1.500 m. langan og 4 m. breiðan vegslóða ásamt nauðsynlegum fláum meðfram fyrirhuguðu línustæði í landi jarðarinnar. Eignarnemi mun hafa óheftan umferðarrétt um vegslóðann vegna línulagningarinnar, svo og til þess að sinna framvegis viðhaldi, endurbótum og eftirliti með línunni og möstrum í landi jarðarinnar.
  2. Land undir 4 raflínumöstur til að bera háspennulínuna í landi eignarnámsþola. Eignarnumin landspilda undir hverju mastri er 2.916 m² að stærð. Samtals eru því teknir 11.664 m² eignarnámi undir raflínumöstur í landi eignarnámsþola.
  3. Sú kvöð leggst á land undir raflínunni að ekki má byggja nein mannviki á 54 m. breiðri landræmu undir og meðfram línunni, en línan er u.þ.b. 1.350 m. löng í landi eignarnámsþola.

Í matsbeiðni er krafa um að eignarnema verði á grundvelli 14. gr. laga nr. 11/1973 fengin umráð þeirra réttinda sem eignarnámið tekur til þó mati sé ekki lokið.

Heimild til eignarnámsins byggist á 18. gr. laga nr. 42/1983 um Landsvirkjun, en heimild iðnaðarráðuneytisins til eignarnámsins liggur fyrir.

III. Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir hjá Matsnefnd eignarnámsbóta mánudaginn 15. desember 1997. Af hálfu eignarnema var lögð fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum. Vegna kröfu eignarnema um að fá strax umráð hins eignarnumda á grundvelli 14. gr. laga nr. 11/1973 var aðilum veittur frestur til að koma að skriflegum sjónarmiðum sínum vegna þess þáttar málsins til 29. desember 1997. Að því búnu gekk matsnefndin á vettvang og kynnti sér aðstæður. Málinu var að því búnu frestað um ótiltekinn tíma.

Mánudaginn 29. desember 1997 kvað matsnefndin upp úrskurð vegna kröfu eignarnema um umráðatöku á grundvelli 14. gr. laga nr. 11/1973. Úrskurðarorðið hljóðar svo:

"Eignarnema, Landsvirkjun, er heimiluð umráð hins eignarnumda lands að Króki, Grafningshreppi, og að hefja framkvæmdir á svæðinu þó mati sé ekki lokið."

Föstudaginn 29. maí 1998 var málið tekið fyrir. Eignarnemi hafði þá fengið heimild til að leggja 400 kV línu um hið eignarnumda land, í stað 220 kV línu eins og áður hafði verið ráðgert. Tilefni fyrirtökunnar var krafa eignarnema um að fá umráð hins eignarnumda og að hefja framkvæmdir við línuna þrátt fyrir þessa breytingu. Matsnefndin heimilaði eignarnema umráðin með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973 og úrskurðarins frá 22. desember 1997. Málinu var að því búnu frestað um ótiltekinn tíma. Af hálfu matsnefndarinnar var sú ákvörðun tekin að hefja ekki eiginleg matsstörf fyrr en raflínan væri komin upp og búið að hleypa straumi á hana.

Mánudaginn 8. mars 1999 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnema var lögð fram greinargerð ásamt fylgigögnum og var málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola.

Föstudaginn 16. apríl 1999 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnámsþola var lögð fram greinargerð ásamt fylgigögnum. Málinu var að því búnu frestað til munnlegs flutnings.

Þriðjudaginn 4. maí 1999 var málið tekið fyrir. Aðilar fluttu málið munnlega fyrir nefndinni og var það að því búnu tekið til úrskurðar.

Auk þeirra bókuðu fyrirtekta málsins sem gerð hefur verið grein fyrir hefur matsnefndin farið nokkrum sinnum til viðbótar á vettvang og kynnt sér aðstæður, bæði í fylgd aðila málsins og án þeirra.

IV. Sjónarmið eignarnema:

Af hálfu eignarnema hafa eignarnámsþolum verið boðnar bætur er nema kr. 190.400- vegna þess tjóns sem þeir verða fyrir við eignarnámið. Að mati eignarnema er þar um fullnaðarbætur að ræða, en eignarnámsþolar hafa ekki fallist á þá lausn málsins. Eignarnemi bendir sérstaklega á að kunnáttumaður um landverð hafi verið fenginn í lið með eignarnema til að reikna út þær bætur sem boðnar voru eignarnámsþolum.

Að mati eignarnema er ekki á það fallist að allt það land sem línan fari um skuli metið sem sumarbústaðaland. Sérstaða landsins á þessu svæði sé almennt ekki slík, að hún réttlæti hærri bætur, en tíðkast annars staðar við línuna, þótt svo kunni að vera í einstaka tilvikum. Eignarnemi leggur sérstaka áherslu á að eignarnámið nái ekki til allra réttinda á landi eignarnámsþola. Aðeins sé um að ræða raunverulegt eignarnám á þeim hluta landsins sem fer undir veginn og raflínumöstrin auk þess sem byggingabann undir línunni takmarki nýtingu þess lands. Eignarnemi gerir hins vegar ekki athugasemd við hefðbundna nýtingu þess lands sem er undir línunni eða umferð um það, að svo miklu leyti sem það valdi ekki hættu. Eignarnemi telur að meta skuli bæturnar með tilliti til þessa, enda telur hann að ekki hafi verið sýnt fram á að tjóni hafi verið valdið á landinu vegna framkvæmdanna, umfram það sem nefnt hefur verið. Í þessu sambandi bendir eignarnemi sérstaklega á að ekkert sé því til fyrirstöðu að aðrir hlutar jarðarinnar séu nýttir undir sumarhúsabyggð, þrátt fyrir tilvist raflínunnar.

Eignarnemi telur að ekki hafi verið sýnt fram á fjárhagslegt tjón af völdum hávaða frá línunni, en slíkt tjón verði að sanna með óyggjandi hætti svo unnt sé að fallast á að greiða bætur vegna þessa. Á landsvæðinu sem línan liggur um hafa löngum verið rafmagnslínur, en vindgnauð í þeim er óháð spennunni sem um línurnar fer. Þá telur eignarnemi ekki hafa verið sýnt fram á, að hávaði frá línunum sé slíkur, að tjón hljótist af fyrir landeigendur.

Eignarnemi mótmælir því að uppsetning línunnar feli í sér slíka sjónmengun að það valdi verðrýrnun á landi eignarnámsþola. Eignarnemi bendir á að Hæstiréttur hafi með dómi sínum frá árinu 1997 bls. 52 slegið því föstu að við eignarnám skuli einungis fjárhagsleg réttindi bætt. Eignarnemi telur kröfu eignarnámsþola um bætur vegna sjónmengunar vera kröfu um bætur fyrir ófjárhagslegt tjón og af þeim sökum hefur kröfunni verið hafnað. Í þessu sambandi bendir eignarnemi sérstaklega á að eftir því sem landið byggist og þéttbýli stækki, verði sífellt erfiðara að koma að sjónarmiðum um sjónmengun af mannvirkjum í útjaðri byggðar eða mannvirkjum sem tengjast byggðinni. Þá bendir eignarnemi á að fólk geri sífellt ríkari kröfur til aðbúnaðar t.d. í sumarhúsum. Þannig sé það nú sjálfsagt mál að þar sé rafmagn og e.t.v. heitt vatn auk þess sem kostur þyki ef stutt er í einhverja þjónustukjarna. Þessu fylgi að fólk dregur úr kröfum sínum varðandi sjónræn áhrif af nálægðri byggð.

Eignarnemi mótmælir því að línunni fylgi áhrif á heilsu og líðan manna og dýra vegna raf- eða segulssviðs. Af hálfu eignarnema hefur verið lögð fram skýrsla sem unnin var af Eymundi Sigurðssyni og fjallar um rafsegulsvið auk þess sem umfjöllun er um það sama í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum Búrfellslínu 3A sem einnig hefur verið lögð fram í málinu. Niðurstaðan í þessum gögnum er sú að rannsóknir sýni að áreiti af raf- eða segulsviði ógni ekki heilsufari manna. Sérstaklega er tekið fram að enginn fullnægjandi vitnisburður gefi tilefni til að ætla að áreiti frá raf- og segulsviði valdi krabbameini, eða hafi áhrif á sálarlíf einstaklinga, taugaboð, æxlun eða þroska. Með hliðsjón af þessum niðurstöðum neitar eignarnemi því alfarið að honum beri að greiða bætur vegna þessa.

Eignarnemi leggur á það ríka áherslu að eignarnámsþolum hafi mátt vera það ljóst löngu áður en lagning Búrfellslínu 3A hófst, að til stæði að leggja línuna. Skipulagsuppdráttur, þar sem kveðið er á um legu línunanar, hafi verið samþykktur af viðkomandi hreppsnefndum og staðfestur og auglýstur af umhverfisráðuneytinu, þegar á árinu 1991. Undirbúningur og kynning hafi þá staðið um nokkra hríð. Eignarnemi telur að hafa verði þetta í huga við matið, sérstaklega þegar litið er til ákvarðana landeigenda um nýtingu á landinu, sem teknar voru eftir að ljóst var í hvað stefndi.

Eignarnemi telur hugmyndir eignarnámsþola um bótafjárhæð vera fjarri öllum raunveruleika. Eignarnemi hefur í þessu sambandi lagt fram fasteignamat jarðarinnar allrar sem á að endurspegla raunhæft staðgreiðsluverð hennar. Af þessu mati megi sjá að kröfugerð eignarnámsþola er úr öllum tengslum við mögulega verðmætarýrnun jarðarinnar vegna lagningar raflínunnar.

V. Sjónarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að bætur verði eigi úrskurðaðar lægri en 20.576.000- vegna eignarnámsins auk málskostnaðar.

Eignarnámsþolar telja land þeirra vera mjög vinsælt útivistarsvæði auk þess sem á því standi sumarbústaðir auk þess sem möguleiki hefði verið að reisa fleiri slíka ef lagning raflínunnar hefði ekki komið til. Þá vekja eignarnámsþolar athygli á því að jarðhiti sé á því svæði sem línan liggji um. Eignarnámsþolar telja einsýnt að eignarnemi greiði þeim bætur er nemi verðlækkun á jörðinni allri við það að ekki verði hægt að nýta landið til sölu sumarbústaðalóða auk þeirrar verðlækkunar sem verður sökum þess ljótleika sem felst í ógnvænlegum raflínum á landinu, en þau áhrif nái langt út fyrir helgunarsvæði línunnar. Eignarnámsþolar vísa sérstaklega til þess að landið sé á einu vinsælasta og eftirsóttasta sumarbústaðasvæði landsins sem geri landið enn verðmætara en hefðbundna bújörð fjarri þéttbýli.

Eignarnámsþolar telja 54 m. helgunarsvæði línunnar allt of mjótt svæði og telja óbyggilegt í a.m.k. 100 m. frá miðlínu raflínunnar. Telja eignarnámsþolar sig hafa vissu fyrir því að komi til þess að rafstrengur slitni, geti hann kastast allt að 100 m. til hliðar, því sé ljóst að engum detti í hug að byggja nær línunni en það. Eignarnámsþolar telja því raunverulegt helgunarsvæði vera 200 m. eða 27 ha. í landi þeirra, en ekki 7,29 ha. eins og haldið er fram af hálfu eignarnema. Til viðbótar þessum 27 ha. komi svo 4 ha. að auki þannig að óbyggilegt svæði í landi jarðarinnar vegna raflínunnar verði þannig 31 ha. Að mati eignarnámsþola er verð sumarbústaðalanda á þessu svæði 640.000 pr. ha. þannig að heildarverðmæti óbyggilegs svæðis er því 19,8 millj. króna. Sé til þess litið að eignarnámsþolar geta áfram nýtt landið til beitar þykir þeim rétt að meta tjónið vegna eignarnámsins sjálfs á kr. 15 millj.

Eignarnámsþolar vísa sérstaklega til jarðakaupa Reykjavíkurborgar á svæðinu. Þannig hafi hálendið á Hellsiheiði sem liggur að landi eignarnámsþola verið selt á 120 millj. króna, en þar var um að ræða jarðirnar Núpa, Vötn, Kröggólfsstaði, Saurbæ, Þúfu o.fl. Aðstæður til virkjunar jarðvarma á þessum jörðum er betra en á Króki, en beitilandið síðra. Þá vekja eignarnámsþolar athygli á því að Ölfusvatn, sem liggur næst Króki vestan megin, hafi Reykjavíkurborg keypt fyrir um 10 árum á kr. 60 millj. Í þeirri sölu var miðað við að 40 millj. kæmu fyrir land á láglendi, 15 millj. fyrir jarðhita og 15 millj. fyrir hálendið.

Eignarnámsþolar benda á að Búrfellslína 3A liggur um afar gróðursælt svæði Krókslandsins auk þess sem tilkoma hennar gerir nýtingu jarðvarma á landinu ómögulega.

Að áliti eignarnámsþola er allt of lítið að miða eignarnámið við 4 m. beiða spildu undir línuvegi. Réttara sé að áætla vegstæðið 6 m. breitt. Eignarnámsþolar telja lágmark að miða við kr. 64,00 pr. m² fyrir landið undir veginn eða samtals kr. 576.000- (1.500 m. x 6 m. x 65 kr.)

Af hálfu eignarnámsþola er gerð krafa til þess að við matið verði litið til þess ónæðis sem línan valdi v. hávaða, auk þess að fólk forðast að vera í nágrenni raforkuvirki af þessari tegund, vegna hræðslu við sjúkdóma og aðra fylgikvilla. Þá sé raflínan ljót í landslaginu sem geri landið allt óhentugra og verðminna. Heildarkrafa eignarnámsþola sundurliðast því þannig:

Verð fyrir eignarnumið svæði fyrir raflínu kr. 15.000.000-

Land undir vegi kr. 576.000-

Verðrýrnun v. hávaða og sjónmengunarkr. 5.000.000-

Samtalskr. 20.576.000-

Þá er krafist málskostnaðar svo sem áður greinir.

Eignarnámsþolar vísa sérstaklega til 72. gr. stjórnarskrárinnar varðandi bótafjárhæðina. Þá er og vísað til 12. gr. laga nr. 11/1973 varðandi heimildir matsnefndarinnar til að taka til mats stærri hluta eignarinnar en beinlínis krafist er af hálfu eignarnema.

VI. Niðurstaða matsnefndarinnar:

Svo sem fram hefur komið hefur matsnefndin farið nokkrum sinnum á vettvang og kynnt sér aðstæður, bæði fyrir og eftir uppsetningu raflínunnar. Þá hefur nefndin leitað álits löggilts fasteignasala á landverði á því svæði sem línan fer yfir. Einnig hafa verið lögð fram í málinu ýmis gögn sem nýst hafa nefndinni í störfum hennar. Hlutverk matsnefndarinnar skv. 2. gr. laga nr. 11/1973 er að skera úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. Bætur fyrir ófjárhagslegt tjón í tengslum við eignarnámið koma ekki til skoðunar hjá matsnefndinni. Við ákvörðun eignarnámsbóta er höfð hliðsjón af grundvallarreglunni sem fram kemur í 72. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, þ.e. að fullt verð komi fyrir hin eignarnumdu réttindi.

Búrfellslína 3A liggur að stórum hluta um einn búsældarlegasta hluta Íslands nærri vinsælustu sumarhúsabyggðum landsins og ýmis konar þjónustustarfsemi. Í landi eignarnámsþola liggur línan fjarri híbýlum manna á heiðarlandi. Sjónræn áhrif línunnar á verðmæti jarðarinnar eru því óveruleg miðað við sem væri ef hún lægi á láglendi nærri íbúabyggð. Engu að síður liggur línan um fagurt grösugt landsvæði sem líkur eru á að vinsælt sé til útiveru m.t.t. nálægðar við helstu þéttbýlisstaði landsins. Að áliti matsnefndarinnar getur hið eignarnumda land ekki talist fyrsta flokks land undir sumarhúsabyggð, m.a. vegna hæðar þess yfir sjávarmáli. Landið flokkast því að mestu sem grösugt beitiland, þó vissulega geti hlutar þess nýst undir sumarbústaði. Á þeim svæðum sem bygging sumarhúsa er raunhæf á landinu, er fyrirsjáanlegt að landið á helgunarsvæði línunnar mun aldrei nýtast til þeirra hluta og er við það miðað við matið.

Þrátt fyrir það sem að framan greinir þykja verðhugmyndir eignarnámsþola fyrir hið eignarnumda allt of háar. Ekki hefur verið sýnt fram á að eignarnámið hafi valdið eignarnámsþola því fjárhagstjóni sem haldið er fram af þeirra hálfu í málinu og er því ekki fallist á kröfur hans í málinu.

Svo sem fram hefur komið liggur Búrfellslína 3A á u.þ.b. 1.350 m. kafla um land eignarnámsþola og 4 raflínumöstur eru í landinu. Þá eru línuvegir í landi eignarnámsþola 1.500 m. langir og taldir u.þ.b. 4 m. breiðir að meðaltali, án fláa, sem víða breikka svæðið sem fer undir veginn töluvert. Helgunarsvæði raflínunnar spannar 54 m. samkvæmt undanþáguheimild Löggildingarstofu dags. 7. janúar 1999 og er við þá breidd miðað í matinu. Tekið hefur verið tillit til þess að hluti vega lendir á helgunarsvæði línunnar.

Með hliðsjón af því sem að framan segir þykja hæfilegar bætur til eignarnámsþola vera sem hér segir:

Bætur fyrir eignarnumið land

undir raflínumöstur og veg: kr. 310.000-

Bætur fyrir takmörkun á nýtingarmöguleikum

lands undir raflínunni kr. 450.000-

Verðlækkun jarðarinnar vegna

sjónrænna áhrifa línunnarkr. 225.000-

Samtalskr. 985.000-

Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþolum kr. 300.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs málsins fyrir matsnefndinni og kr. 243.500- í ríkissjóð vegna kostnaðar af störfum Matsnefndar eignarnámsbóta við málið

ÚRSKURÐARORÐ

Eignarnemi, Landsvirkjun, kt. 420269-1299, Háaleitisbraut 68, Reykjavík, greiði eignarnámsþolum, Agli Guðmundssyni, kt. 130521-3639 Áslaugu F. Guðmundsdóttur, kt. 250226-4549 Jóhannesi Þ. G. Guðmundssyni, kt. 200531-7019, Jóhönnu Guðmundsdóttur, kt. 120836-4479, Sæunni Guðmundsdóttur, kt. 150633-4009, Elfu Guðmundsdóttur, kt. 280345-4669, Erlingi Þ. Guðmundssyni, kt. 011247-2379, Jóhannesi Jóhannssyni, kt. 280849-2869, Kristínu B. Hallbjörnsdóttur, kt. 100459-7019, Guðmundi Hallbjörnssyni, kt. 120365-5179 og Guðrúnu Björk Hallbjörnsdóttur, kt. 131257-4739 sameiginlega kr. 985.000- í eignarnámsbætur og kr. 300.000- auk virðisaukaskatts í málskostnað.

Þá greiði eignarnemi kr. 243.500- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta við mál þetta.

__________________________________

Helgi Jóhannesson, hrl.

Vífill Oddsson, verkfræðingur                      Kristinn Gylfi Jónsson, vskfr. og bóndi

(2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973, 18. gr. laga nr. 42/1983, reglugerð nr. 264/1971, raforkuvirki, rafmagnslína, raflína, háspennulína, raflínumöstur, vegir, línuvegir, byggingabann, helgunarsvæði, umferðarréttur, sumarbústaðaland, sjónmengun, hávaðamengun, skipulagsuppdráttur, landbúnaðarland, segulsvið, rafsegulsvið, útivistarsvæði, skipulag)

Fimmtudaginn 1. júlí 1999 var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 9/1997

Landsvirkjun

gegn

Eiganda Villingavatns,

Grafningshreppi, Árnessýslu

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafræðingur og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:

Með matsbeiðni dags. 5. desember 1997, sem lögð var fram í Matsnefnd eignarnámsbóta þann 15. desember 1997 fór Landsvirkjun, kt. 420269-1299, Háaleitisbraut 68, Reykjavík (eignarnemi), þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á hluta úr jörðinni Villingavatni, Grafningshreppi, Árnessýslu. Eignarnámsþoli er eigendi jarðarinnar, Sigurður Hannesson, kt. 010626-4129, Villingavatni, Grafningshreppi. Samkvæmt matsbeiðni er tilefni eignarnámsins lagning Búrfellslínu 3A, 220 kV raflínu um jörð eignarnámsþola. Undir rekstri matsmálsins varð sú breyting gerð að eignarnema var veitt heimild til lagningar 400 kV línu um jörðina.

Andlag eignarnámsins í landi eignarnámsþola er eftirfarandi:

  1. Land undir 4.500 m. langan og 4 m. breiðan vegslóða ásamt nauðsynlegum fláum meðfram fyrirhuguðu línustæði í landi jarðarinnar. Eignarnemi mun hafa óheftan umferðarrétt um vegslóðann vegna línulagningarinnar, svo og til þess að sinna framvegis viðhaldi, endurbótum og eftirliti með línunni og möstrum í landi jarðarinnar.
  2. Land undir 12 raflínumöstur til að bera háspennulínuna í landi eignarnámsþola. Eignarnumin landspilda undir hverju mastri er 2.916 m² að stærð. Samtals eru því teknir 34.992 m² eignarnámi undir raflínumöstur í landi eignarnámsþola.
  3. Sú kvöð leggst á land undir raflínunni að ekki má byggja nein mannviki á 54 m. breiðri landræmu undir og meðfram línunni, en línan er u.þ.b. 4.450- m. löng í landi eignarnámsþola.

Í matsbeiðni er krafa um að eignarnema verði á grundvelli 14. gr. laga nr. 11/1973 fengin umráð þeirra réttinda sem eignarnámið tekur til þó mati sé ekki lokið.

Heimild til eignarnámsins byggist á 18. gr. laga nr. 42/1983 um Landsvirkjun, en heimild iðnaðarráðuneytisins til eignarnámsins liggur fyrir.

III. Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir hjá Matsnefnd eignarnámsbóta mánudaginn 15. desember 1997. Af hálfu eignarnema var lögð fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum. Vegna kröfu eignarnema um að fá strax umráð hins eignarnumda á grundvelli 14. gr. laga nr. 11/1973 var aðilum veittur frestur til að koma að skriflegum sjónarmiðum sínum vegna þess þáttar málsins til 19. desember 1997. Að því búnu gekk matsnefndin á vettvang og kynnti sér aðstæður. Málinu var að því búnu frestað um ótiltekinn tíma.

Mánudaginn 22. desember 1997 kvað matsnefndin upp úrskurð vegna kröfu eignarnema um umráðatöku á grundvelli 14. gr. laga nr. 11/1973. Úrskurðarorðið hljóðar svo:

"Eignarnema, Landsvirkjun, er heimiluð umráð hins eignarnumda lands að Villingavatni, Grafningshreppi, og að hefja framkvæmdir á svæðinu þó mati sé ekki lokið."

Föstudaginn 29. maí 1998 var málið tekið fyrir. Eignarnemi hafði þá fengið heimild til að leggja 400 kV línu um hið eignarnumda land, í stað 220 kV línu eins og áður hafði verið ráðgert. Tilefni fyrirtökunnar var krafa eignarnema um að fá umráð hins eignarnumda og að hefja framkvæmdir við línuna þrátt fyrir þessa breytingu. Matsnefndin heimilaði eignarnema umráðin með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973 og úrskurðarins frá 22. desember 1997. Málinu var að því búnu frestað um ótiltekinn tíma. Af hálfu matsnefndarinnar var sú ákvörðun tekin að hefja ekki eiginleg matsstörf fyrr en raflínan væri komin upp og búið að hleypa straumi á hana.

Mánudaginn 8. mars 1999 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnema var lögð fram greinargerð ásamt fylgigögnum og var málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola.

Föstudaginn 9. apríl 1999 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnámsþola var lögð fram greinargerð ásamt fylgigögnum. Málinu var að því búnu frestað til munnlegs flutnings.

Mánudaginn 3. maí 1999 var málið tekið fyrir. Aðilar fluttu málið munnlega fyrir nefndinni og var það að því búnu tekið til úrskurðar.

Auk þeirra bókuðu fyrirtekta málsins sem gerð hefur verið grein fyrir hefur matsnefndin farið nokkrum sinnum til viðbótar á vettvang og kynnt sér aðstæður, bæði í fylgd aðila málsins og án þeirra.

IV. Sjónarmið eignarnema:

Af hálfu eignarnema hafa eignarnámsþolum verið boðnar bætur er nema kr. 592.800- vegna þess tjóns sem þeir verða fyrir við eignarnámið. Að mati eignarnema er þar um fullnaðarbætur að ræða, en eignarnámsþolar hafa ekki fallist á þá lausn málsins. Eignarnemi bendir sérstaklega á að kunnáttumaður um landverð hafi verið fenginn í lið með eignarnema til að reikna út þær bætur sem boðnar voru eignarnámsþolum.

Að mati eignarnema er ekki á það fallist að allt það land sem línan fari um skuli metið sem sumarbústaðaland. Sérstaða landsins á þessu svæði sé almennt ekki slík, að hún réttlæti hærri bætur, en tíðkast annars staðar við línuna, þótt svo kunni að vera í einstaka tilvikum. Eignarnemi leggur sérstaka áherslu á að eignarnámið nái ekki til allra réttinda á landi eignarnámsþola. Aðeins sé um að ræða raunverulegt eignarnám á þeim hluta landsins sem fer undir veginn og raflínumöstrin auk þess sem byggingabann undir línunni takmarki nýtingu þess lands. Eignarnemi gerir hins vegar ekki athugasemd við hefðbundna nýtingu þess lands sem er undir línunni eða umferð um það, að svo miklu leyti sem það valdi ekki hættu. Eignarnemi telur að meta skuli bæturnar með tilliti til þessa, enda telur hann að ekki hafi verið sýnt fram á að tjóni hafi verið valdið á landinu vegna framkvæmdanna, umfram það sem nefnt hefur verið. Í þessu sambandi bendir eignarnemi sérstaklega á að ekkert sé því til fyrirstöðu að aðrir hlutar jarðarinnar séu nýttir undir sumarhúsabyggð, þrátt fyrir tilvist raflínunnar.

Eignarnemi telur að ekki hafi verið sýnt fram á fjárhagslegt tjón af völdum hávaða frá línunni, en slíkt tjón verði að sanna með óyggjandi hætti svo unnt sé að fallast á að greiða bætur vegna þessa. Á landsvæðinu sem línan liggur um hafa löngum verið rafmagnslínur, en vindgnauð í þeim er óháð spennunni sem um línurnar fer. Þá telur eignarnemi ekki hafa verið sýnt fram á, að hávaði frá línunum sé slíkur, að tjón hljótist af fyrir landeiganda.

Eignarnemi mótmælir því að uppsetning línunnar feli í sér slíka sjónmengun að það valdi verðrýrnun á landi eignarnámsþola. Eignarnemi bendir á að Hæstiréttur hafi með dómi sínum frá árinu 1997 bls. 52 slegið því föstu að við eignarnám skuli einungis fjárhagsleg réttindi bætt. Eignarnemi telur kröfu eignarnámsþola um bætur vegna sjónmengunar vera kröfu um bætur fyrir ófjárhagslegt tjón og af þeim sökum hefur kröfunni verið hafnað. Í þessu sambandi bendir eignarnemi sérstaklega á að eftir því sem landið byggist og þéttbýli stækki, verði sífellt erfiðara að koma að sjónarmiðum um sjónmengun af mannvirkjum í útjaðri byggðar eða mannvirkjum sem tengjast byggðinni. Þá bendir eignarnemi á að fólk geri sífellt ríkari kröfur til aðbúnaðar t.d. í sumarhúsum. Þannig sé það nú sjálfsagt mál að þar sé rafmagn og e.t.v. heitt vatn auk þess sem kostur þyki ef stutt er í einhverja þjónustukjarna. Þessu fylgi að fólk dregur úr kröfum sínum varðandi sjónræn áhrif af nálægðri byggð.

Eignarnemi mótmælir því að línunni fylgi áhrif á heilsu og líðan manna og dýra vegna raf- eða segulssviðs. Af hálfu eignarnema hefur verið lögð fram skýrsla sem unnin var af Eymundi Sigurðssyni og fjallar um rafsegulsvið auk þess sem umfjöllun er um það sama í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum Búrfellslínu 3A sem einnig hefur verið lögð fram í málinu. Niðurstaðan í þessum gögnum er sú að rannsóknir sýni að áreiti af raf- eða segulsviði ógni ekki heilsufari manna. Sérstaklega er tekið fram að enginn fullnægjandi vitnisburður gefi tilefni til að ætla að áreiti frá raf- og segulsviði valdi krabbameini, eða hafi áhrif á sálarlíf einstaklinga, taugaboð, æxlun eða þroska. Með hliðsjón af þessum niðurstöðum neitar eignarnemi því alfarið að honum beri að greiða bætur vegna þessa.

Eignarnemi leggur á það ríka áherslu að eignarnámsþola hafi mátt vera það ljóst löngu áður en lagning Búrfellslínu 3A hófst, að til stæði að leggja línuna. Skipulagsuppdráttur, þar sem kveðið er á um legu línunanar, hafi verið samþykktur af viðkomandi hreppsnefndum og staðfestur og auglýstur af umhverfisráðuneytinu, þegar á árinu 1991. Undirbúningur og kynning hafi þá staðið um nokkra hríð. Eignarnemi telur að hafa verði þetta í huga við matið, sérstaklega þegar litið er til ákvarðana landeiganda um nýtingu á landinu, sem teknar voru eftir að ljóst var í hvað stefndi.

Eignarnemi telur hugmyndir eignarnámsþola um bótafjárhæð vera fjarri öllum raunveruleika. Eignarnemi hefur í þessu sambandi lagt fram fasteignamat jarðarinnar allrar sem á að endurspegla raunhæft staðgreiðsluverð hennar. Af þessu mati megi sjá að kröfugerð eignarnámsþola er úr öllum tengslum við mögulega verðmætarýrnun jarðarinnar vegna lagningar raflínunnar.

V. Sjónarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að matsnefndin ákveði bætur að fjárhæð kr. 14.194.521- auk málskostnaðar og vaxta frá október 1998. Eignarnámsþoli heldur því fram að hann hafi ávallt verið mótfallinn því að Búrfellslína 3A yrði lögð yfir land hans.

Eignarnámsþoli telur línuna valda verðlækkun á landi í nágrenni línunnar og á allri jörð hans vegna sjónmengunar og vegna geislunar frá línunni. Eignarnámsþoli segir æ meiri kröfur gerðar til verndunar óspilltrar náttúru og að fólk leiti eftir því að vera úti í náttúrunni þar sem athafnir mannsins hafa ekki sett svip sinn á landið. Eignarnámsþoli telur tilvist raflínu til sveita spilla til muna ánægju fólks á veru þar, enda séu slík mannvirki almennt talin ljót og fólk sækist ekki eftir að dvelja nærri þeim. Eignarnámsþoli leggur nálægð línunnar að jöfnu við að þar væru sorphaugar og bendir sérstaklega á að línan liggi langt frá bænum í heiðarlandi. Þar séu undirfallegir uppsprettulækir og mjög fallegt útivistarsvæði. Þá hafi landið verið gersamlega óspjallað fyrir línulögnina. Telur eignarnámsþoli að raflínumöstrin og línuvegurinn spilli umhverfinu svo að jörðin verði ekki lengur seljanleg sem útivistarjörð svo sem áður var.

Eignarnámsþoli telur margs konar geislun og hávaða stafa frá línunni og það rýri verðmæti lands hans. Eignarnámsþoli bendir á að þrátt fyrir að reglugerð um raforkuvirki heimili byggingar í næsta nágrenni við háspennulínur, þá verði til þess að líta að enginn sækist eftir því að byggja þar sem menn eða dýr þurfa að dveljast í nágrenni við slíkt mannvirki. Eignarnámsþoli telur að línunni fylgi ýmis hljóð, sérstaklega við vissar veðuraðstæður, sem valdi óþægindum og fælni.

Varðandi rafsegulsvið línunnar telur eignarnámsþoli í raun ekki skipta máli hvort slík áhrif hafi verið sönnuð, þar sem það sé í raun trú fólks að raflínum fylgi slíkar bylgjur og hafi það því þegar af þeirri ástæðu fælandi áhrif og geri landið umhverfis lítt fýsilegt til útiveru. Þetta hljóti að leiða til þess að land eignarnámsþola lækki í verði við tilkomu raflínunnar.

Eignarnámsþoli telur landið undir línunni verða honum algerlega ónýtt, þrátt fyrir að hann hafi heimild til umferðar um það og tilkoma raflínunnar eyðileggi í raun miklu stærri hluta landsins en þá 54 metra sem byggingarbannið nái til, þar sem enginn hafi áhuga á því að kaupa spildu eða dvelja í næsta nágrenni við línuna. Þannig sé eignarnámsþoli í raun enn verr settur með tilkomu línunnar, heldur en væri ef sambærileg landspilda væri seld t.d. undir sumarbústaði. Þá telur eignarnámsþoli að byggingabannið ætti að vera 105 m. breitt en ekki 54 m.

Eignarnámsþoli hefur lagt fram upplýsingatöflu Fasteignamats ríkisins um verðmæti á landspildum í Grímsnesi. Eignarnámsþoli teljur jörðina liggja um afar vinsælt útivistarsvæði og þykir því eðlilegt að telja jörðina til Árnessýslu utan Grímsneshrepps, en þar sé grunnverð á fermeter kr. 59,07 pr. m². Eignarnámsþolar reikna tjón sitt vegna lagningar raflínunnar með eftirfarandi hætti:

4.450 m. löng lína x 54 m. breitt helgunarsvæði = 240.300 m² x kr. 59.07 = 14.194.521-. Að auki er krafist málskostnaðar skv. gjaldskrá lögmanns eignarnámsþola.

Eignarnámsþoli segir augljóst að raflínan muni minnka verðmæti jarðarinnar og því hljóti það að vera í verkahring eignarnemans að sanna ef svo er ekki. Eignarnámsþoli mótmælir sérstaklega hugleiðingum í greinargerð eignarnema um að landeigendur hafi átt að miða framtíðarskipulag um nýtingu jarða sinna við það að línan væri væntanleg og að ef þeir hafi ekki gert það eigi að lækka bætur til þeirra. Eignarnámsþoli bendir á að línan valdi allt að einu skerðingu á verðmæti jarðarinnar, hvenær sem ákvörðun um byggingu hennar var tekin.

VI. Niðurstaða matsnefndarinnar:

Svo sem fram hefur komið hefur matsnefndin farið nokkrum sinnum á vettvang og kynnt sér aðstæður, bæði fyrir og eftir uppsetningu raflínunnar. Þá hefur nefndin leitað álits löggilts fasteignasala á landverði á því svæði sem línan fer yfir. Einnig hafa verið lögð fram í málinu ýmis gögn sem nýst hafa nefndinni í störfum hennar. Hlutverk matsnefndarinnar skv. 2. gr. laga nr. 11/1973 er að skera úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. Bætur fyrir ófjárhagslegt tjón í tengslum við eignarnámið koma ekki til skoðunar hjá matsnefndinni. Við ákvörðun eignarnámsbóta er höfð hliðsjón af grundvallarreglunni sem fram kemur í 72. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, þ.e. að fullt verð komi fyrir hin eignarnumdu réttindi.

Búrfellslína 3A liggur að stórum hluta um einn búsældarlegasta hluta Íslands nærri vinsælustu sumarhúsabyggðum landsins og ýmis konar þjónustustarfsemi. Í landi eignarnámsþola liggur línan fjarri híbýlum manna á heiðarlandi. Sjónræn áhrif línunnar á verðmæti jarðarinnar eru því óveruleg miðað við sem væri ef hún lægi á láglendi nærri íbúabyggð. Engu að síður liggur línan um fagurt grösugt landsvæði sem líkur eru á að vinsælt sé til útiveru m.t.t. nálægðar við helstu þéttbýlisstaði landsins. Að áliti matsnefndarinnar getur hið eignarnumda land ekki talist fyrsta flokks land undir sumarhúsabyggð, m.a. vegna hæðar þess yfir sjávarmáli. Landið flokkast því að mestu sem grösugt beitiland, þó vissulega geti hlutar þess nýst undir sumarbústaði. Á þeim svæðum sem bygging sumarhúsa er raunhæf á landinu, er fyrirsjáanlegt að landið á helgunarsvæði línunnar mun aldrei nýtast til þeirra hluta og er við það miðað við matið.

Þrátt fyrir það sem að framan greinir þykja verðhugmyndir eignarnámsþola fyrir hið eignarnumda allt of háar. Ekki hefur verið sýnt fram á að eignarnámið hafi valdið eignarnámsþola því fjárhagstjóni sem haldið er fram af hans hálfu í málinu og er því ekki fallist á kröfur hans í málinu.

Svo sem fram hefur komið liggur Búrfellslína 3A á u.þ.b. 4.450 m. kafla um land eignarnámsþola og 12 raflínumöstur eru í landinu. Þá eru línuvegir í landi eignarnámsþola 4.500 m. langir og taldir u.þ.b. 4 m. breiðir að meðaltali, án fláa, sem víða breikka svæðið sem fer undir veginn töluvert. Helgunarsvæði raflínunnar spannar 54 m. samkvæmt undanþáguheimild Löggildingarstofu dags. 7. janúar 1999 og er við þá breidd miðað í matinu. Tekið hefur verið tillit til þess að hluti vega lendir innan helgunarsvæðis línunnar.

Með hliðsjón af því sem að framan segir þykja hæfilegar bætur til eignarnámsþola vera sem hér segir:

Bætur fyrir eignarnumið land

undir raflínumöstur og veg: kr. 880.880-

Bætur fyrir takmörkun á nýtingarmöguleikum

lands undir raflínunni kr. 1.540.000-

Verðlækkun jarðarinnar vegna

sjónrænna áhrifa línunnarkr. 675.000-

Samtalskr. 3.095.000-

Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþola kr. 180.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs málsins fyrir matsnefndinni og kr. 243.500- í ríkissjóð vegna kostnaðar af störfum Matsnefndar eignarnámsbóta við málið. Við ákvörðun málskostnaðar til eignarnámsþola, hefur verið höfð hliðsjón af því að lögmaður hans rak samhliða máli þessu nokkur önnur mál fyrir matsnefndinni, vegna eignarnáms eignarnema á spildum úr öðrum jörðum í nágrenninu í þágu lagningar Búrfellslínu 3A, og hefur sú vinna sem innt var af hendi að verulegu leyti nýst í öllum málunum.

ÚRSKURÐARORÐ

Eignarnemi, Landsvirkjun, kt. 420269-1299, Háaleitisbraut 68, Reykjavík, greiði eignarnámsþola, Sigurði Hannessyni, kt. 010626-4129, Villingavatni, Grafningshreppi, kr. 3.095.000,- í eignarnámsbætur og kr. 180.000- auk virðisaukaskatts í málskostnað.

Þá greiði eignarnemi kr. 243.500- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta við mál þetta.

__________________________________

Helgi Jóhannesson, hrl.

Vífill Oddsson, verkfræðingur                   Kristinn Gylfi Jónsson, vskfr. og bóndi

(2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973, 18. gr. laga nr. 42/1983, reglugerð nr. 264/1971, raforkuvirki, rafmagnslína, raflína, háspennulína, raflínumöstur, vegir, línuvegir, byggingabann, helgunarsvæði, umferðarréttur, sumarbústaðaland, sjónmengun, hávaðamengun, skipulagsuppdráttur, landbúnaðarland, segulsvið, rafsegulsvið, útivistarsvæði, skipulag)

Fimmtudaginn 1. júlí 1999 var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 7/1997

Landsvirkjun

gegn

Eigendum Framness II,

Skeiðahreppi, Árnessýslu

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafræðingur og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:

Með matsbeiðni dags. 5. desember 1997, sem lögð var fram í Matsnefnd eignarnámsbóta þann 15. desember 1997 fór Landsvirkjun, kt. 420269-1299, Háaleitisbraut 68, Reykjavík (eignarnemi), þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á hluta úr jörðinni Framnesi II, Skeiðahreppi, Árnessýslu. Eignarnámsþolar eru eigendur jarðarinnar, en þeir eru
Ingigerður Þ. Borg, kt. 271133-3169, Bogi Melsted, kt. 100630-3469, Sigursteinn Melsted, kt. 220838-3319, Jónína Melsted, kt. 080844-2129, Pétur Melsted, kt. 270141-2509, Helga Melsteð, kt. 300958-6059, Marinó Bóas Melsteð, kt. 091077-3889, Jóhann Auðunn Melsteð kt. 280361-4379, Helga Dröfn Melsteð, kt. 010867-3049, Anna S. Melsteð, kt. 231265-5629, Elva Dögg Melsteð, 140279-3909, Gunnlaugur Melsteð, kt. 110463-2869, Hjálmtýr E. Hjálmtýsson, kt. 050733-2039, Matthildur Matthíasdóttir, kt. 210547-4449, Sveinbjörn Matthíasson, kt. 020538-2289, Þórunn Matthíasdóttir, kt. 170542-7119. Samkvæmt matsbeiðni er tilefni eignarnámsins lagning Búrfellslínu 3A, 220 kV raflínu um jörð eignarnámsþola. Undir rekstri matsmálsins varð sú breyting gerð að eignarnema var veitt heimild til lagningar 400 kV línu um jörðina.

Andlag eignarnámsins í landi eignarnámsþola er eftirfarandi:

  1. Land undir 400 m. langan og 4 m. breiðan vegslóða ásamt nauðsynlegum fláum meðfram fyrirhuguðu línustæði í landi jarðarinnar. Eignarnemi mun hafa óheftan umferðarrétt um vegslóðann vegna línulagningarinnar, svo og til þess að sinna framvegis viðhaldi, endurbótum og eftirliti með línunni og möstrum í landi jarðarinnar.
  2. Land undir 1 raflínumastur til að bera háspennulínuna í landi eignarnámsþola. Eignarnumin landspilda undir mastrinu er 2.916 m² að stærð.
  3. Sú kvöð leggst á land undir raflínunni að ekki má byggja nein mannviki á 54 m. breiðri landræmu undir og meðfram línunni, en línan er u.þ.b. 520 m. að lengd í landi eignarnámsþola.

Í matsbeiðni er krafa um að eignarnema verði á grundvelli 14. gr. laga nr. 11/1973 fengin umráð þeirra réttinda sem eignarnámið tekur til þó mati sé ekki lokið.

Heimild til eignarnámsins byggist á 18. gr. laga nr. 42/1983 um Landsvirkjun, en heimild iðnaðarráðuneytisins til eignarnámsins liggur fyrir.

III. Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir hjá Matsnefnd eignarnámsbóta mánudaginn 15. desember 1997. Af hálfu eignarnema var lögð fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum. Eignarnámsþolar samþykktu að eignarnemi fengi umráð hins eignarnumda þó mati væri ekki lokið. Málinu var að því búnu frestað ótiltekið til vettvangsgöngu, en matsnefndin ákvað að öðru leyti að bíða með matsstörfin þar til raflínan væri komin upp og straumur kominn á hana.

Mánudaginn 8. mars 1999 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnema var lögð fram greinargerð ásamt fylgigögunum og var málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerða af hálfu eignarnámsþola.

Föstudaginn 9. apríl 1999 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnámsþolanna Ingigerðar Þ. Melsteð Borg, Boga Melsteð, Matthildar Matthíasdóttur, Sveinbjörns Matthíassonar, Þórunnar Matthíasdóttur, Sigursteins Melsteð Gunnlaugssonar, Jónínu Melsteð Gunnlaugsdóttur og Péturs Melsteð Gunnlaugssonar, var lögð fram greinargerð ásamt fylgigögnum. Málinu var að því búnu frestað til framlagningu greinargerða af hálfu annarra eignarnámsþola.

Mánudaginn 12. apríl 1999 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnámsþolanna Helgu Símonardóttur, Jóhanns Auðuns Símonarsonar, Gunnlaugs Símonarsonar, Önnu Sigríðar Símonardóttur, Helgu D. Gunnlaugsdóttur og Marinós B. Gunnlaugssonar var lögð fram greinargerð ásamt fylgigögnum. Málinu var að því búnu frestað til munnlegs flutnings. Ekki bárust greinargerðir frá öðrum aðilum málsins.

Þriðjudaginn 4. maí 1999 var málið tekið fyrir. Aðilar fluttu málið munnlega fyrir nefndinni og var það að því búnu tekið til úrskurðar.

Auk þeirra bókuðu fyrirtekta málsins sem gerð hefur verið grein fyrir hefur matsnefndin farið nokkrum sinnum til viðbótar á vettvang og kynnt sér aðstæður, bæði í fylgd aðila málsins og án þeirra.

IV. Sjónarmið eignarnema:

Af hálfu eignarnema hafa eignarnámsþolum verið boðnar bætur er nema kr. 174.240- vegna þess tjóns sem þeir verða fyrir við eignarnámið. Að mati eignarnema er þar um fullnaðarbætur að ræða, en eignarnámsþolar hafa ekki fallist á þá lausn málsins. Eignarnemi bendir sérstaklega á að kunnáttumaður um landverð hafi verið fenginn í lið með eignarnema til að reikna út þær bætur sem boðnar voru eignarnámsþolum.

Að mati eignarnema er ekki á það fallist að allt það land sem línan fari um skuli metið sem sumarbústaðaland. Sérstaða landsins á þessu svæði sé almennt ekki slík, að hún réttlæti hærri bætur, en tíðkast annars staðar við línuna, þótt svo kunni að vera í einstaka tilvikum. Eignarnemi leggur sérstaka áherslu á að eignarnámið nái ekki til allra réttinda á landi eignarnámsþola. Aðeins sé um að ræða raunverulegt eignarnám á þeim hluta landsins sem fer undir veginn og raflínumöstrin auk þess sem byggingabann undir línunni takmarki nýtingu þess lands. Eignarnemi gerir hins vegar ekki athugasemd við hefðbundna nýtingu þess lands sem er undir línunni eða umferð um það, að svo miklu leyti sem það valdi ekki hættu. Eignarnemi telur að meta skuli bæturnar með tilliti til þessa, enda telur hann að ekki hafi verið sýnt fram á að tjóni hafi verið valdið á landinu vegna framkvæmdanna, umfram það sem nefnt hefur verið. Í þessu sambandi bendir eignarnemi sérstaklega á að ekkert sé því til fyrirstöðu að aðrir hlutar jarðarinnar séu nýttir undir sumarhúsabyggð, þrátt fyrir tilvist raflínunnar.

Eignarnemi telur að ekki hafi verið sýnt fram á fjárhagslegt tjón af völdum hávaða frá línunni, en slíkt tjón verði að sanna með óyggjandi hætti svo unnt sé að fallast á að greiða bætur vegna þessa. Á landsvæðinu sem línan liggur um hafa löngum verið rafmagnslínur, en vindgnauð í þeim er óháð spennunni sem um línurnar fer. Þá telur eignarnemi ekki hafa verið sýnt fram á, að hávaði frá línunum sé slíkur, að tjón hljótist af fyrir landeigendur.

Eignarnemi mótmælir því að uppsetning línunnar feli í sér slíka sjónmengun að það valdi verðrýrnun á landi eignarnámsþola. Eignarnemi bendir á að Hæstiréttur hafi með dómi sínum frá árinu 1997 bls. 52 slegið því föstu að við eignarnám skuli einungis fjárhagsleg réttindi bætt. Eignarnemi telur kröfu eignarnámsþola um bætur vegna sjónmengunar vera kröfu um bætur fyrir ófjárhagslegt tjón og af þeim sökum hefur kröfunni verið hafnað. Í þessu sambandi bendir eignarnemi sérstaklega á að eftir því sem landið byggist og þéttbýli stækki, verði sífellt erfiðara að koma að sjónarmiðum um sjónmengun af mannvirkjum í útjaðri byggðar eða mannvirkjum sem tengjast byggðinni. Þá bendir eignarnemi á að fólk geri sífellt ríkari kröfur til aðbúnaðar t.d. í sumarhúsum. Þannig sé það nú sjálfsagt mál að þar sé rafmagn og e.t.v. heitt vatn auk þess sem kostur þyki ef stutt er í einhverja þjónustukjarna. Þessu fylgi að fólk dregur úr kröfum sínum varðandi sjónræn áhrif af nálægðri byggð. Einnig vekur eignarnemi athygli að við hlið hinnar nýju raflínu sé eldri raflína í landi eignarnámsþola.

Eignarnemi mótmælir því að línunni fylgi áhrif á heilsu og líðan manna og dýra vegna raf- eða segulssviðs. Af hálfu eignarnema hefur verið lögð fram skýrsla sem unnin var af Eymundi Sigurðssyni og fjallar um rafsegulsvið auk þess sem umfjöllun er um það sama í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum Búrfellslínu 3A sem einnig hefur verið lögð fram í málinu. Niðurstaðan í þessum gögnum er sú að rannsóknir sýni að áreiti af raf- eða segulsviði ógni ekki heilsufari manna. Sérstaklega er tekið fram að enginn fullnægjandi vitnisburður gefi tilefni til að ætla að áreiti frá raf- og segulsviði valdi krabbameini, eða hafi áhrif á sálarlíf einstaklinga, taugaboð, æxlun eða þroska. Með hliðsjón af þessum niðurstöðum neitar eignarnemi því alfarið að honum beri að greiða bætur vegna þessa.

Eignarnemi leggur á það ríka áherslu að eignarnámsþolum hafi mátt vera það ljóst löngu áður en lagning Búrfellslínu 3A hófst, að til stæði að leggja línuna. Skipulagsuppdráttur, þar sem kveðið er á um legu línunanar, hafi verið samþykktur af viðkomandi hreppsnefndum og staðfestur og auglýstur af umhverfisráðuneytinu, þegar á árinu 1991. Undirbúningur og kynning hafi þá staðið um nokkra hríð. Eignarnemi telur að hafa verði þetta í huga við matið, sérstaklega þegar litið er til ákvarðana landeigenda um nýtingu á landinu, sem teknar voru eftir að ljóst var í hvað stefndi.

Eignarnemi telur hugmyndir eignarnámsþola um bótafjárhæð vera fjarri öllum raunveruleika. Eignarnemi hefur í þessu sambandi lagt fram fasteignamat jarðarinnar allrar sem á að endurspegla raunhæft staðgreiðsluverð hennar. Af þessu mati megi sjá að kröfugerð eignarnámsþola er úr öllum tengslum við mögulega verðmætarýrnun jarðarinnar vegna lagningar raflínunnar.

V. Sjónarmið eignarnámsþola:

Svo sem fram hefur komið var lögð fram sérstök greinargerð af hálfu eignarnámsþolanna Ingigerðar Þ. Borg, 271133-3169, Boga Melsteð, kt. 100630-3469, Matthildar Matthíasdóttur, kt. 210547-4449, Sveinbjörns Matthíassonar, kt. 020538-2289, Þórunnar Matthíasdóttur, kt. 170542-7119, Sigursteins Melsteð, kt. 220828-3319, Jónínu Melsteð, kt. 080844-2129, Péturs Melsteð, kt. 270141-2509 og Hjálmtýs E. Hjálmtýssonar, kt. 050733-2039. Eftirfarandi eru sjónarmið þeirra og kröfur í málinu:

Af hálfu ofangreindra eignarnámsþola er þess krafist að þeim verði greiddar kr. 6.000.000- sameiginlega í bætur fyrir hin eignarnumdu réttindi. Til vara er þess krafist að matsnefndin meti hæfilegar bætur til eignarnámsþolanna. Þá er krafist málskostnaðar.

Af hálfu eignarnámsþola er sú krafa gerð að hið eignarnumda land, þ.m.t. land undir raflínunni verði metið sem sumarbústaðaland. Eignarnámsþolar segjast þegar á árinu 1991 hafa skipulagt jörð sína sem land undir sumarbústaði, enda séu aðstæður þar mjög ákjósanlegar til þess. Eignarnámsþolar telja eðlilegt markaðsvirði fyrir hvern hektara sumarbústaðalands á þessu svæði vera kr. 800.000- pr. ha. Eignarnámsþolar halda því fram að byggingabann eignarnema á landinu undir raflínunni, feli í reynd í sér beina eignaupptöku og beint fjárhagstjón fyrir þá, og því verði að greiða fullar bætur fyrir allt það land eins og um fullkomið eignarnám væri að ræða.

Sérstök athugasemd er gerð við það af hálfu eignarnámsþola að ekki liggi fyrir nákvæmar upplýsingar um stærð hins eignarnumda landsvæðis og nákvæm stærð þess svæðis sem byggingabannið nær til. Telja eignarnámsþolar að eignarnemi hljóti að bera hallann af þessu og álíta því heildarstærð þess lands sem um ræðir vera 6 ha.

Eignarnámsþolar halda því fram að umfang hinnar nýju Búrfellslínu 3A sé allt annað og miklu meira en þeir höfðu gert ráð fyrir, eða gátu reiknað með, miðað við upphaflegar forsendur. Staurastæðan sé mun stærri og af allt annari gerð en sú háspennulína sem fyrir liggur um Framneslandið. Það sé því auðséð að verðmæti landsins falli verulega í verði við línulögnina, samanborið við þau áhrif sem tvöföldun Búrfellslínu 1 hefði haft í för með sér. Eignarnámsþolar benda á hina miklu sjónmengun sem fylgi línunni en við það falli landið í verði og endursölumökuleikar lóðanna skerðist verulega.

Eignarnámsþolar telja ónæði af völdum hávaða- og rafsegulsáhrifa línunnar muni ennfremur hafa veruleg áhrif til verðlækkunar á landinu. Eignarnámsþolar mótmæla sérstaklega að þær bætur sem eignarnemi hefur boðið fram feli í sér fullnaðarbætur fyrir hin eignarnumdu réttindi.

Svo sem fram hefur komið var lögð fram sérstök greinargerð af hálfu eignarnámsþolanna Helgu Melsteð, Jóhanns Auðuns Melsteð, Gunnlaugs Melteð, Önnu Sigríðar Melsteð, Elvu Dögg Melsted, Helgu D. Melsteð og Marinós B. Melsteð Eftirfarandi eru sjónarmið þeirra og kröfur í málinu:

Af hálfu eignarnámsþolanna er þess aðallega krafist að eignarnema verði gert að taka alla jörðina eignarnámi og greiða fyrir hana samtals rúmlega 30.000.000-, eða u.þ.b. 4.000.000- til ofangreindra eignarnámsþola sem teljast eiga 13,34% í jörðinni. Til vara er þess krafist að matsnefndin ákvarði eignarnámsþolum bætur sem eru mun hærri en þær bætur sem boðnar hafa verið af hálfu eignarnema.

Eignarnámsþolar telja tilkoma línunnar valda svo miklu tjóni vegna sjónmengunar auk áhrifa af völdum raf-, segul- og hljóðmengunar, að Framnes II verði ekki nothæft fyrir sumarhúsabyggð eins og fyrirhugað hafi verið. Eignarnámsþolar benda á að jörðin sé sérstaklega vel til fallin fyrir sumarhúsabyggð, náttúruperlur í nágrenninu fjölmargar, frábært útsýni og stutt sé í alla þjónustu s.s. sundlaug, þjónustumiðstöð o.fl. Eignarámsþolar telja verð fyrir 1 ha. lóðir á þessum stað hafa numið kr. 1.000.000-.

Eignarnámsþolar halda því fram að raf- og seguláhrif línunnar feli í sér mjög neikvæð áhrif. Jafnvel þó skaðsemi raforkuvirkja á heilsu manna og dýra sé ekki sönnuð, þá sé ótti við að dveljast nærri slíkum mannvirkjum fyrir hendi, og það hafi verðlækkandi áhrif á landið.

Eignarnámsþolar telja óyggjandi að Búrfellslína 3A valdi verðrýrnun á landi utan hins 54 m. byggingabanns.

VI. Niðurstaða matsnefndarinnar:

Svo sem fram hefur komið hefur matsnefndin farið nokkrum sinnum á vettvang og kynnt sér aðstæður, bæði fyrir og eftir uppsetningu raflínunnar. Þá hefur nefndin leitað álits löggilts fasteignasala á landverði á því svæði sem línan fer yfir. Einnig hafa verið lögð fram í málinu ýmis gögn sem nýst hafa nefndinni í störfum hennar. Hlutverk matsnefndarinnar skv. 2. gr. laga nr. 11/1973 er að skera úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. Bætur fyrir ófjárhagslegt tjón í tengslum við eignarnámið koma ekki til skoðunar hjá matsnefndinni. Við ákvörðun eignarnámsbóta er höfð hliðsjón af grundvallarreglunni sem fram kemur í 72. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, þ.e. að fullt verð komi fyrir hin eignarnumdu réttindi.

Búrfellslína 3A liggur að stórum hluta um einn búsældarlegasta hluta Íslands. Línan er víða áberandi í landslaginu og nærri híbýlum manna. Í nágrenni hins eignarnumda lands eru víða vinsæl svæði fyrir sumarhúsabyggð og er land eignarnámsþola hentugt til þeirra nota. Fallast ber á það með eignarnámsþolum að þegar svo hagar til að land geti nýst undir sumarhúsabyggð, sé tilkoma línunnar til þess fallin að rýra verðmæti jarðarinnar allrar vegna sjónrænna áhrifa af línunni, jafnvel þó í landinu sé önnur eldri lína. Einnig er það álit nefndarinnar að fólk forðast að vera nærri slíkum mannvirkjum, jafnvel þó skaðleg áhrif þess hafi ekki verið sönnuð. Þá liggur fyrir að land undir línunni á þeim svæðum, sem hentað gæti fyrir sumarhúsabyggð, kemur aldrei til með að nýtast til þeirra hluta og ber að hafa það til hliðsjónar við matið, en tekið er mið af því við ákvörðun bóta fyrir þann hluta landsins, að ekki er um fullkomið eignarnám að ræða og að eignarnámsþolar halda þar eftir ákveðnum réttindum til nýtingar landsins.

Fyrir liggur að landið hefur verið skipulagt sem sumarbústaðaland.

Ekki er fallist á þá kröfu hluta eignarnámsþola að eignarnema verði gert að taka alla jörðina eignarnámi, enda er ekkert því til fyrirstöðu að aðrir hlutar jarðarinnar verði nýttir þrátt fyrir eignarnámið. Þrátt fyrir það sem að framan greinir þykja verðhugmyndir eignarnámsþola fyrir hið eignarnumda þó allt of háar. Ekki hefur verið sýnt fram á að eignarnámið hafi valdið eignarnámsþolum því fjárhagstjóni sem haldið er fram af þeirra hálfu í málinu og er því ekki fallist á kröfur þeirra.

Svo sem fram hefur komið liggur Búrfellslína 3A á u.þ.b. 520 m. kafla um land eignarnámsþola og eitt raflínumastur er í landinu. Þá eru línuvegir í landi eignarnámsþola 400 m. langir og taldir u.þ.b. 4 m. breiðir að meðaltali, án fláa, sem víða breikka svæðið sem fer undir veginn töluvert. Helgunarsvæði raflínunnar spannar 54 m. samkvæmt undanþáguheimild Löggildingarstofu dags. 7. janúar 1999 og er við þá breidd miðað í matinu. Tekið hefur verið tillit til þess að hluti vega lendir innan helgunarsvæðis línunnar.

Með hliðsjón af því sem að framan segir þykja hæfilegar bætur til eignarnámsþola vera sem hér segir:

Bætur fyrir eignarnumið land

undir raflínumöstur og veg: kr. 184.000-

Bætur fyrir takmörkun á nýtingarmöguleikum

lands undir raflínunni kr. 510.000-

Verðlækkun jarðarinnar vegna

sjónrænna áhrifa línunnarkr. 190.000-

Samtalskr. 884.000-

Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþolunum Helgu Melsteð, Jóhanni A. Melsteð, Gunnlaugi Melsteð, Önnu S. Melsteð, Elvu Dögg Melsteð, Helgu D. Melsteð og Marinó B. Melsteð kr. 250.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs málsins fyrir matsnefndinni og eignarnámsþolunum Ingigerði Þ. Borg, Boga Melsted, Sigursteini Melsteð, Pétri Þ. Melsteð, Jónínu Melsteð, Þórunni Matthíasdóttur, Sveinbirni Matthíassyni, Matthildi Matthíasdóttur og Hjálmtý E. Hjálmtýssyni, kr. 250.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs málsins fyrir matsnefndinni. Þá skal eignarnemi greiða kr. 243.500- í ríkissjóð vegna kostnaðar af störfum Matsnefndar eignarnámsbóta við málið.

ÚRSKURÐARORÐ

Eignarnemi, Landsvirkjun, kt. 420269-1299, Háaleitisbraut 68, Reykjavík, greiði eignarnámsþolum, eigendum Framness II, Skeiðahreppi, Árnessýslu sameiginlega kr. 884.000- í eignarnámsbætur og kr. 500.000- auk virðisaukaskatts í málskostnað.

Þá greiði eignarnemi kr. 243.500- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta við mál þetta.

__________________________________

Helgi Jóhannesson, hrl.

Vífill Oddsson, verkfræðingur                            Kristinn Gylfi Jónsson, vskfr. og bóndi

 

 

 

(2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973, 18. gr. laga nr. 42/1983, reglugerð nr. 264/1971, raforkuvirki, rafmagnslína, raflína, háspennulína, raflínumöstur, vegir, línuvegir, byggingabann, helgunarsvæði, umferðarréttur, sumarbústaðaland, sjónmengun, hávaðamengun, skipulagsuppdráttur, landbúnaðarland, segulsvið, rafsegulsvið, útivistarsvæði, skipulag)

Fimmtudaginn 1. júlí 1999 var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 8/1997

Landsvirkjun

gegn

Eigendum Bíldsfells,

Grafningshreppi, Árnessýslu

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafræðingur og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:

Með matsbeiðni dags. 5. desember 1997, sem lögð var fram í Matsnefnd eignarnámsbóta þann 15. desember 1997 fór Landsvirkjun, kt. 420269-1299, Háaleitisbraut 68, Reykjavík (eignarnemi), þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á hluta úr jörðinni Bíldsfelli, Grafningshreppi, Árnessýslu. Eignarnámsþolar eru eigendur jarðarinnar, en þeir eru
Guðmundur Þorvaldsson, kt. 130953-2129 og Árni Þorvaldsson, kt. 090157-2729. Samkvæmt matsbeiðni er tilefni eignarnámsins lagning Búrfellslínu 3A, 220 kV raflínu um jörð eignarnámsþola. Undir rekstri matsmálsins varð sú breyting gerð að eignarnema var veitt heimild til lagningar 400 kV línu um jörðina.

Andlag eignarnámsins í landi eignarnámsþola er eftirfarandi:

  1. Land undir 1.400 m. langan og 4 m. breiðan vegslóða ásamt nauðsynlegum fláum meðfram fyrirhuguðu línustæði í landi jarðarinnar. Eignarnemi mun hafa óheftan umferðarrétt um vegslóðann vegna línulagningarinnar, svo og til þess að sinna framvegis viðhaldi, endurbótum og eftirliti með línunni og möstrum í landi jarðarinnar.
  2. Land undir 4 raflínumöstur til að bera háspennulínuna í landi eignarnámsþola. Eignarnumin landspilda undir hverju mastri er 2.916 m² að stærð. Samtals eru því teknir 11.664 m² eignarnámi undir raflínumöstur í landi eignarnámsþola.
  3. Sú kvöð leggst á land undir raflínunni að ekki má byggja nein mannviki á 54 m. breiðri landræmu undir og meðfram línunni, en línan er u.þ.b. 1.500 m. löng í landi eignarnámsþola.

Í matsbeiðni er krafa um að eignarnema verði á grundvelli 14. gr. laga nr. 11/1973 fengin umráð þeirra réttinda sem eignarnámið tekur til þó mati sé ekki lokið.

Heimild til eignarnámsins byggist á 18. gr. laga nr. 42/1983 um Landsvirkjun, en heimild iðnaðarráðuneytisins til eignarnámsins liggur fyrir.

III. Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir hjá Matsnefnd eignarnámsbóta mánudaginn 15. desember 1997. Af hálfu eignarnema var lögð fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum. Vegna kröfu eignarnema um að fá strax umráð hins eignarnumda á grundvelli 14. gr. laga nr. 11/1973 var aðilum veittur frestur til að koma að skriflegum sjónarmiðum sínum vegna þess þáttar málsins til 19. desember 1997. Að því búnu gekk matsnefndin á vettvang og kynnti sér aðstæður. Málinu var að því búnu frestað um ótiltekinn tíma.

Mánudaginn 22. desember 1997 kvað matsnefndin upp úrskurð vegna kröfu eignarnema um umráðatöku á grundvelli 14. gr. laga nr. 11/1973. Úrskurðarorðið hljóðar svo:

"Eignarnema, Landsvirkjun, er heimiluð umráð hins eignarnumda lands að Bíldsfelli, Grafningshreppi, og að hefja framkvæmdir á svæðinu þó mati sé ekki lokið."

Föstudaginn 29. maí 1998 var málið tekið fyrir. Eignarnemi hafði þá fengið heimild til að leggja 400 kV línu um hið eignarnumda land, í stað 220 kV línu eins og áður hafði verið ráðgert. Tilefni fyrirtökunnar var krafa eignarnema um að fá umráð hins eignarnumda og að hefja framkvæmdir við línuna þrátt fyrir þessa breytingu. Matsnefndin heimilaði eignarnema umráðin með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973 og úrskurðarins frá 22. desember 1997. Málinu var að því búnu frestað um ótiltekinn tíma. Af hálfu matsnefndarinnar var sú ákvörðun tekin að hefja ekki eiginleg matsstörf fyrr en raflínan væri komin upp og búið að hleypa straumi á hana.

Mánudaginn 8. mars 1999 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnema var lögð fram greinargerð ásamt fylgigögnum og var málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola.

Föstudaginn 9. apríl 1999 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnámsþola var lögð fram greinargerð ásamt fylgigögnum. Málinu var að því búnu frestað til munnlegs flutnings.

Mánudaginn 3. maí 1999 var málið tekið fyrir. Aðilar fluttu málið munnlega fyrir nefndinni og var það að því búnu tekið til úrskurðar.

Auk þeirra bókuðu fyrirtekta málsins sem gerð hefur verið grein fyrir hefur matsnefndin farið nokkrum sinnum til viðbótar á vettvang og kynnt sér aðstæður, bæði í fylgd aðila málsins og án þeirra.

IV. Sjónarmið eignarnema:

Af hálfu eignarnema hafa eignarnámsþolum verið boðnar bætur er nema kr. 588.000- vegna þess tjóns sem þeir verða fyrir við eignarnámið. Að mati eignarnema er þar um fullnaðarbætur að ræða, en eignarnámsþolar hafa ekki fallist á þá lausn málsins. Eignarnemi bendir sérstaklega á að kunnáttumaður um landverð hafi verið fenginn í lið með eignarnema til að reikna út þær bætur sem boðnar voru eignarnámsþolum.

Að mati eignarnema er ekki á það fallist að allt það land sem línan fari um skuli metið sem sumarbústaðaland. Sérstaða landsins á þessu svæði sé almennt ekki slík, að hún réttlæti hærri bætur, en tíðkast annars staðar við línuna, þótt svo kunni að vera í einstaka tilvikum. Eignarnemi leggur sérstaka áherslu á að eignarnámið nái ekki til allra réttinda á landi eignarnámsþola. Aðeins sé um að ræða raunverulegt eignarnám á þeim hluta landsins sem fer undir veginn og raflínumöstrin auk þess sem byggingabann undir línunni takmarki nýtingu þess lands. Eignarnemi gerir hins vegar ekki athugasemd við hefðbundna nýtingu þess lands sem er undir línunni eða umferð um það, að svo miklu leyti sem það valdi ekki hættu. Eignarnemi telur að meta skuli bæturnar með tilliti til þessa, enda telur hann að ekki hafi verið sýnt fram á að tjóni hafi verið valdið á landinu vegna framkvæmdanna, umfram það sem nefnt hefur verið. Í þessu sambandi bendir eignarnemi sérstaklega á að ekkert sé því til fyrirstöðu að aðrir hlutar jarðarinnar séu nýttir undir sumarhúsabyggð, þrátt fyrir tilvist raflínunnar.

Eignarnemi telur að ekki hafi verið sýnt fram á fjárhagslegt tjón af völdum hávaða frá línunni, en slíkt tjón verði að sanna með óyggjandi hætti svo unnt sé að fallast á að greiða bætur vegna þessa. Á landsvæðinu sem línan liggur um hafa löngum verið rafmagnslínur, en vindgnauð í þeim er óháð spennunni sem um línurnar fer. Þá telur eignarnemi ekki hafa verið sýnt fram á, að hávaði frá línunum sé slíkur, að tjón hljótist af fyrir landeigendur.

Eignarnemi mótmælir því að uppsetning línunnar feli í sér slíka sjónmengun að það valdi verðrýrnun á landi eignarnámsþola. Eignarnemi bendir á að Hæstiréttur hafi með dómi sínum frá árinu 1997 bls. 52 slegið því föstu að við eignarnám skuli einungis fjárhagsleg réttindi bætt. Eignarnemi telur kröfu eignarnámsþola um bætur vegna sjónmengunar vera kröfu um bætur fyrir ófjárhagslegt tjón og af þeim sökum hefur kröfunni verið hafnað. Í þessu sambandi bendir eignarnemi sérstaklega á að eftir því sem landið byggist og þéttbýli stækki, verði sífellt erfiðara að koma að sjónarmiðum um sjónmengun af mannvirkjum í útjaðri byggðar eða mannvirkjum sem tengjast byggðinni. Þá bendir eignarnemi á að fólk geri sífellt ríkari kröfur til aðbúnaðar t.d. í sumarhúsum. Þannig sé það nú sjálfsagt mál að þar sé rafmagn og e.t.v. heitt vatn auk þess sem kostur þyki ef stutt er í einhverja þjónustukjarna. Þessu fylgi að fólk dregur úr kröfum sínum varðandi sjónræn áhrif af nálægðri byggð.

Eignarnemi mótmælir því að línunni fylgi áhrif á heilsu og líðan manna og dýra vegna raf- eða segulssviðs. Af hálfu eignarnema hefur verið lögð fram skýrsla sem unnin var af Eymundi Sigurðssyni og fjallar um rafsegulsvið auk þess sem umfjöllun er um það sama í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum Búrfellslínu 3A sem einnig hefur verið lögð fram í málinu. Niðurstaðan í þessum gögnum er sú að rannsóknir sýni að áreiti af raf- eða segulsviði ógni ekki heilsufari manna. Sérstaklega er tekið fram að enginn fullnægjandi vitnisburður gefi tilefni til að ætla að áreiti frá raf- og segulsviði valdi krabbameini, eða hafi áhrif á sálarlíf einstaklinga, taugaboð, æxlun eða þroska. Með hliðsjón af þessum niðurstöðum neitar eignarnemi því alfarið að honum beri að greiða bætur vegna þessa.

Eignarnemi leggur á það ríka áherslu að eignarnámsþolum hafi mátt vera það ljóst löngu áður en lagning Búrfellslínu 3A hófst, að til stæði að leggja línuna. Skipulagsuppdráttur, þar sem kveðið er á um legu línunanar, hafi verið samþykktur af viðkomandi hreppsnefndum og staðfestur og auglýstur af umhverfisráðuneytinu, þegar á árinu 1991. Undirbúningur og kynning hafi þá staðið um nokkra hríð. Eignarnemi telur að hafa verði þetta í huga við matið, sérstaklega þegar litið er til ákvarðana landeigenda um nýtingu á landinu, sem teknar voru eftir að ljóst var í hvað stefndi.

Eignarnemi telur hugmyndir eignarnámsþola um bótafjárhæð vera fjarri öllum raunveruleika. Eignarnemi hefur í þessu sambandi lagt fram fasteignamat jarðarinnar allrar sem á að endurspegla raunhæft staðgreiðsluverð hennar. Af þessu mati megi sjá að kröfugerð eignarnámsþola er úr öllum tengslum við mögulega verðmætarýrnun jarðarinnar vegna lagningar raflínunnar.

V. Sjónarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að matsnefndin ákveði bætur að fjárhæð kr. 7.340.411- auk málskostnaðar og vaxta frá október 1998. Eignarnámsþolar halda því fram að þeir hafi ávallt verið mótfallnir því að Búrfellslína 3A yrði lögð yfir land þeirra.

Eignarnámsþolar telja línuna valda verðlækkun á landi í nágrenni línunnar og á allri jörð þeirra vegna sjónmengunar og vegna geislunar frá línunni. Eignarnámsþolar segja æ meiri kröfur gerðar til verndunar óspilltrar náttúru og að fólk leiti eftir því að vera úti í náttúrunni þar sem athafnir mannsins hafa ekki sett svip sinn á landið. Eignarnámsþolar telja tilvist raflínu til sveita spilla til muna ánægju fólks á veru þar, enda séu slík mannvirki almennt talin ljót og fólk sækist ekki eftir að dvelja nærri þeim. Eignarnámsþolar leggja nálægð línunnar að jöfnu við að þar væru sorphaugar og benda sérstaklega á að með línunni skerðist til muna daglegt útsýni þess er á jörðinni býr þar sem línan liggi nokkuð frá bænum upp hæðir og beri við himinn. Línan takmarki möguleika á skógrækt, ræktun og dragi úr áhuga á útivist og veiði. Þá benda eignarnámsþolar á að land þeirra liggi að Soginu sem geri það enn verðmætara og því eignaskerðinguna meiri.

Eignarnámsþolar telja margs konar geislun og hávaða stafa frá línunni og það rýri verðmæti lands þeirra. Eignarnámsþolar benda á að þrátt fyrir að reglugerð um raforkuvirki heimili byggingar í næsta nágrenni við háspennulínur, þá verði til þess að líta að enginn sækist eftir því að byggja þar sem menn eða dýr þurfa að dveljast í nágrenni við slíkt mannvirki. Eignarnámsþolar telja að línunni fylgi ýmis hljóð, sérstaklega við vissar veðuraðstæður, sem valdi óþægindum og fælni.

Varðandi rafsegulsvið línunnar telja eignarnámsþolar í raun ekki skipta máli hvort slík áhrif hafi verið sönnuð, þar sem það sé í raun trú fólks að raflínum fylgi slíkar bylgjur og hafi það því þegar af þeirri ástæðu fælandi áhrif og geri landið umhverfis lítt fýsilegt til útiveru. Þetta hljóti að leiða til þess að land eignarnámsþola lækki í verði við tilkomu raflínunnar.

Eignarnámsþolar telja landið undir línunni verða þeim algerlega ónýtt, þrátt fyrir að þeir hafi heimild til umferðar um það og tilkoma raflínunnar eyðileggi í raun miklu stærri hluta landsins en þá 54 metra sem byggingarbannið nái til, þar sem enginn hafi áhuga á því að kaupa spildu eða dvelja í næsta nágrenni við línuna. Þannig séu eignarnámsþolar í raun enn verr settir með tilkomu línunnar, heldur en væri ef sambærileg landspilda væri seld t.d. undir sumarbústaði. Þá telja eignarnámsþolar að byggingabannið ætti að vera 105 m. breitt en ekki 54 m.

Eignarnámsþolar hafa lagt fram upplýsingatöflu Fasteignamats ríkisins um verðmæti á landspildum í Grímsnesi. Eignarnámsþolar telja jörðina liggja um afar vinsælt útivistarsvæði og þykir því eðlilegt að telja jörðina til Árnessýslu utan Grímsneshrepps, en þar sé grunnverð á fermeter kr. 59,07 pr. m². Eignarnámsþolar reikna tjón sitt vegna lagningar raflínunnar með eftirfarandi hætti:

1.500 m. löng lína x 54 m. breitt helgunarsvæði = 81.000 m² x kr. 59.07 = 4.194.521-. Við þá fjárhæð bætast síðan 2.097.260- sem er áætluð helmings lækkun á tveimur 27 metra ræmum sitthvorum megin við byggingasvæðið, þar sem ljóst er að enginn vilji dveljast þar. Við þá fjárhæð telja eignarnámsþolar að bæta eigi tjón vegna umferðar og vegagerðar eignarnemans og vegna skerðingar á nýtingarmöguleikum jarðarinnar sjálfrar sem leiði til verðlækkunar jarðarinnar í heild. Telja eignarnámsþolar ekki óeðlilegt að þessi þáttur verði metinn á kr. 1.048.630-. Samtals telja því eignarnámsþolar verðrýrnun jarðarinnar nema kr. 7.340.411- (4.194.521 + 2.097.260 + 1.048.630-). Að auki er krafist málskostnaðar skv. gjaldskrá lögmanns eignarnámsþola.

Eignarnámsþolar segja augljóst að raflínan muni minnka verðmæti jarðarinnar og því hljóti það að vera í verkahring eignarnemans að sanna ef svo er ekki. Eignarnámsþolar mótmæla sérstaklega hugleiðingum í greinargerð eignarnema um að landeigendur hafi átt að miða framtíðarskipulag um nýtingu jarða sinna við það að línan væri væntanleg og að ef þeir hafi ekki gert það eigi að lækka bætur til þeirra. Eignarnámsþolar benda á að línan valdi allt að einu skerðingu á verðmæti jarðarinnar, hvenær sem ákvörðun um byggingu hennar var tekin.

VI. Niðurstaða matsnefndarinnar:

Svo sem fram hefur komið hefur matsnefndin farið nokkrum sinnum á vettvang og kynnt sér aðstæður, bæði fyrir og eftir uppsetningu raflínunnar. Þá hefur nefndin leitað álits löggilts fasteignasala á landverði á því svæði sem línan fer yfir. Einnig hafa verið lögð fram í málinu ýmis gögn sem nýst hafa nefndinni í störfum hennar. Hlutverk matsnefndarinnar skv. 2. gr. laga nr. 11/1973 er að skera úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. Bætur fyrir ófjárhagslegt tjón í tengslum við eignarnámið koma ekki til skoðunar hjá matsnefndinni. Við ákvörðun eignarnámsbóta er höfð hliðsjón af grundvallarreglunni sem fram kemur í 72. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, þ.e. að fullt verð komi fyrir hin eignarnumdu réttindi.

Búrfellslína 3A liggur að stórum hluta um einn búsældarlegasta hluta Íslands. Línan er víða áberandi í landslaginu og nærri híbýlum manna. Í nágrenni hins eignarnumda lands eru víða vinsæl svæði fyrir sumarhúsabyggð og er land eignarnámsþola ágætlega hentugt til þeirra nota á stórum hluta þess svæðis sem fer undir hina nýju rafmagnslínu. Fallast ber á það með eignarnámsþolum að þegar svo hagar til, sé tilkoma línunnar til þess fallin að rýra verðmæti jarðarinnar allrar vegna sjónrænna áhrifa af línunni. Einnig er það álit nefndarinnar að fólk forðast að vera nærri slíkum mannvirkjum, jafnvel þó skaðleg áhrif þess hafi ekki verið sönnuð. Þá liggur fyrir að land undir línunni á þeim svæðum, sem hentað gæti fyrir sumarhúsabyggð, kemur aldrei til með að nýtast til þeirra hluta og ber að hafa það til hliðsjónar við matið, en tekið er mið af því við ákvörðun bóta fyrir þann hluta landsins, að ekki er um fullkomið eignarnám að ræða og að eignarnámsþolar halda þar eftir ákveðnum réttindum til nýtingar landsins.

Þrátt fyrir að hið eignarnumda land hafi ekki verið sérstaklega skipulagt fyrir sumarhúsabyggð þykir ljóst að landið hentar að mörgu leyti fyrir lóðir undir sumarhús og næsta nágrenni er vinsælt til þeirra nota svo sem að framan greinir. Verður því við matið að miða við þann möguleika á framtíðarnýtingu landsins. Í þessu sambandi er sérstaklega vísað til dóms Hæstaréttar frá árinu 1984 bls. 906.

Þrátt fyrir það sem að framan greinir þykja verðhugmyndir eignarnámsþola fyrir hið eignarnumda allt of háar. Ekki hefur verið sýnt fram á að eignarnámið hafi valdið eignarnámsþolum því fjárhagstjóni sem haldið er fram af þeirra hálfu í málinu og er því ekki fallist á kröfur þeirra í málinu.

Svo sem fram hefur komið liggur Búrfellslína 3A á u.þ.b. 1.500 m. kafla um land eignarnámsþola og fjögur raflínumöstur eru í landinu. Þá eru línuvegir í landi eignarnámsþola 1.400 m. langir og taldir u.þ.b. 4 m. breiðir að meðaltali, án fláa, sem víða breikka svæðið sem fer undir veginn töluvert. Helgunarsvæði raflínunnar spannar 54 m. samkvæmt undanþáguheimild Löggildingarstofu dags. 7. janúar 1999 og er við þá breidd miðað í matinu. Tekið hefur verið tillit til þess að hluti vega lendir innan helgunarsvæðis línunnar.

Með hliðsjón af því sem að framan segir þykja hæfilegar bætur til eignarnámsþola vera sem hér segir:

Bætur fyrir eignarnumið land

undir raflínumöstur og veg: kr. 795.000-

Bætur fyrir takmörkun á nýtingarmöguleikum

lands undir raflínunni kr. 2.070.000-

Verðlækkun jarðarinnar vegna

sjónrænna áhrifa línunnarkr. 600.000-

Samtalskr. 3.465.000-

Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþolum kr. 180.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs málsins fyrir matsnefndinni og kr. 243.500- í ríkissjóð vegna kostnaðar af störfum Matsnefndar eignarnámsbóta við málið. Við ákvörðun málskostnaðar til eignarnámsþola, hefur verið höfð hliðsjón af því að lögmaður þeirra rak samhliða máli þessu nokkur önnur mál fyrir matsnefndinni, vegna eignarnáms eignarnema á spildum úr öðrum jörðum í nágrenninu í þágu lagningar Búrfellslínu 3A, og hefur sú vinna sem innt var af hendi að verulegu leyti nýst í öllum málunum.

ÚRSKURÐARORÐ

Eignarnemi, Landsvirkjun, kt. 420269-1299, Háaleitisbraut 68, Reykjavík, greiði eignarnámsþolum, Guðmundi Þorvaldssyni, kt. 130953-2129 og Árna Þorvaldssyni, kt. 090157-2729, sameiginlega, kr. 3.465.000- í eignarnámsbætur og kr. 180.000- auk virðisaukaskatts í málskostnað.

Þá greiði eignarnemi kr. 243.500- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta við mál þetta.

__________________________________

Helgi Jóhannesson, hrl.

Vífill Oddsson, verkfræðingur                      Kristinn Gylfi Jónsson, vskfr. og bóndi


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta