Mál nr. 420/2017
Ákvörðun barnaverndarnefndar staðfest.
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 420/2017
Föstudaginn 9. mars 2018
A
gegn
Barnaverndarnefnd Reykjavíkur
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.
Með bréfi 6. nóvember 2017 kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 12. október 2017 vegna umgengni kæranda við dótturson sinn, B. Er þess krafist að kærandi njóti umgengni við drenginn einu sinni til tvisvar á ári, eins og hún tilgreinir nánar í kröfugerð sinni fyrir úrskurðarnefndinni og lýst er í kafla II hér á eftir.
I. Málsatvik og málsmeðferð
B er X árs og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Móðir hans er C, og faðir hans er D. Kærandi er móðuramma drengsins.
Drengurinn var neyðarvistaður á Vistheimili barna frá X 2016 og þar til honum var ráðstafað í fóstur en hann hefur verið í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum síðan í X 2016 er hann var X ára gamall. Fyrir þann tíma bjó hann hjá móður sinni en hún var svipt forsjá hans með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X 2016.
Drengurinn á tvo [...] hálfbræður, sammæðra, sem fæddir eru X og X. Annar þeirra er í varanlegu fóstri en hinn býr hjá föður sínum. Kærandi nýtur ekki umgengni við þá en B nýtur á hinn bóginn umgengni við hálfbræður sína.
Óljóst er hversu oft kærandi hefur hitt drenginn og hvenær hún hitti hann síðast. Móðir drengsins segir þau hafa hist sumarið 2014 en kærandi kveðst hafa hitt hann sumarið 2016.
Kærandi óskaði eftir umgengni við drenginn með beiðni til Barnaverndarnefndar Reykjavíkur í marsmánuði 2017. Úrskurðað var um málið á fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 12. október 2017 á grundvelli 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Í úrskurðinum kom meðal annars fram að drengurinn hefði einungis dvalið á fósturheimili í X og gert væri ráð fyrir því að hann yrði í umsjá fósturforeldra til 18 ára aldurs.
Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:
„Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að B, hafi ekki umgengni við A, enda teljist hún ekki nákomin drengnum í skilningi barnaverndarlaga og umgengni þjónar ekki hagsmunum drengsins að svo stöddu. Fósturforeldrar sendi A ljósmyndir af drengnum einu sinni á ári.“
II. Sjónarmið kæranda
Þess er krafist að hinum kærða úrskurði verði hrundið og breytt á þann veg að fallist verði á að kærandi njóti umgengni við dótturson sinn, B, einu sinni til tvisvar á ári með þeim hætti að hún fái að heimsækja hann til fósturforeldra á F einu sinni á ári og að drengurinn heimsæki hana á heimili hennar á höfuðborgarsvæðinu um það bil einu sinni á ári þegar fósturfjölskyldan á leið [...].
Kærandi kveðst hafa haft samband við Barnaverndarnefnd Reykjavíkur sumarið 2016 þegar ljóst var að drengurinn væri kominn í fóstur. Þá hafi henni verið tjáð að ekki væri hægt að koma á umgengni við drenginn þar sem móðir hans hefði enn forsjá hans.
Kærandi kveðst hafa myndað góð tengsl við drenginn á fyrstu árum hans og þyki mjög vænt um hann. Tengslin hafi rofnað og þyki kæranda það mjög leitt. Þessum tengslum sé þó hægt að koma aftur á ef yfirvöld leyfi. Það þjóni hagsmunum drengsins að fá að rækta tengslin við stórfjölskyldu sína og að hann geti umgengist kæranda sem sé X árs. Drengurinn hafi hitt móðurafa sinn 2016 og hans fjölskyldu. Hann hafi einnig hitt föðurömmu. Elsti sonur móður drengsins sé í varanlegu fóstri og hafi verið hjá sömu fjölskyldu síðan hann var X. Kærandi hafi hitt hann fjórum sinnum og þá með móðurinni. Kærandi hafi verið í samskiptum við [...]barn en hann búi hjá föður sínum og fjölskyldu hans.
Mikil sorg sé í hjarta kæranda vegna dóttur sinnar og örlaga hennar í þessu lífi. Hún hafi eignast þrjá syni sem hún hafi misst samband við en líf drengjanna hafi mótast af erfiðri stöðu móður sinnar. Í dag sé mikið rætt um mikilvægi þess að börn þekki uppruna sinn og sitt fólk. B sé náskyldur kæranda og hafi hún löngun til að þau þekkist. Því miður séu litlar líkur á að móðir hans muni sinna foreldraskyldum sínum og því biðji kærandi um að ákvörðun Barnaverndarnefndar Reykjavíkur verði endurskoðuð og henni heimilað að vera í lífi drengsins.
Kærandi telur að málið hafi ekki verið nægilega rannsakað samkvæmt 41. gr. bvl., sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem barnaverndarnefndin hafi ekki kynnt sér aðstæður kæranda sjálfstætt. Ekkert bendi til annars en þess að hófleg umgengni kæranda við drenginn verði honum til góðs og í því felist engin áhætta fyrir hann eða geti haft neikvæð áhrif á framtíðarhagsmuni hans.
III. Afstaða Barnaverndarnefndar Reykjavíkur
Í greinargerð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur til úrskurðarnefndarinnar 28. nóvember 2017 er vísað til þess að í 74. gr. bvl. sé fjallað um umgengni í fóstri. Segi þar í 1. mgr. að barn í fóstri eigi rétt til umgengni við kynforeldra og aðra sem séu því nákomnir. Samkvæmt sömu lagagrein eigi kynforeldrar rétt til umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með fóstrinu. Við mat á þessu skuli meðal annars taka tillit til þess hve lengi fóstri sé ætlað að vara. Þá segi enn fremur í lagaákvæðinu að þeir sem telji sig nákomna barninu eigi með sama hætti rétt til umgengni við barnið, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið.
Í athugasemdum við 74. gr. bvl. komi fram að þegar um aðra nákomna sé að ræða sé tekið þannig til orða að umgengni sé barninu til hagsbóta. Réttur þeirra sé þannig ekki jafn ríkur og réttur kynforeldra. Við ákvörðun um umgengni verði barnaverndarnefnd að meta hagsmuni og þarfir barns og gæta þess að umgengni sé í samræmi við markmiðin með fóstri. Þannig verði almennt að gera ráð fyrir ríkari umgengni sé fóstri ætlað að vara skamman tíma og gert sé ráð fyrir að barn snúi aftur til foreldra sinna.
Í máli þessu sé um að ræða X ára gamlan dreng sem vistaður sé í varanlegu fóstri. Hann hafi dvalið á fósturheimili frá því í X 2016. Fóstri drengsins sé ætlað að vara til 18 ára aldurs hans og hafi fósturforeldrar tekið að sér það vandasama verkefni að ala hann upp, búa honum sem bestar uppeldisaðstæður og sjá til þess að þörfum hans verði sinnt á þann hátt sem þjóni hagsmunum hans best.
Drengurinn sé tiltölulega nýkominn í fóstur. Hann þurfi að mati Barnaverndar Reykjavíkur við núverandi aðstæður frið og ró til að mynda varanleg, heilbrigð og góð geðtengsl við fósturforeldra sína. Jafnframt telji barnaverndarnefndin mikilvægt að horfa til þess að það geti valdið streitu í lífi drengsins ef komið verði á umgengni í andstöðu við vilja fósturforeldra.
Í niðurstöðukafla hins kærða úrskurðar hafi starfsmönnum verið falið að meta þörf drengsins fyrir umgengni við kæranda að nýju þegar hann hafi náð X ára aldri, hafi slík beiðni frá kæranda ekki komið fram fyrr. Sé með þeim hætti ekki útilokað að kærandi fái umgengni við drenginn síðar þó svo að aðstæður í lífi hans nú hafi verið metnar á þann hátt að það þjóni ekki hagsmunum hans að eiga umgengni við kæranda.
Í ljósi þessa, allra gagna málsins og með hagsmuni drengsins að leiðarljósi, gerir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
IV. Afstaða B
Í ljósi ungs aldurs drengsins var honum hvorki skipaður talsmaður né sjónarmiða hans aflað.
V. Afstaða fósturforeldra
Í bréfi fósturforeldra til úrskurðarnefndarinnar 21. febrúar 2018 kemur fram að þau telja að drengurinn eigi að fá nokkur ár í viðbót til þess að skjóta rótum í nýju lífi og ná auknum þroska til að skilja aðstæður og sögu sína. Hann sé nú að mynda tengsl við fósturfjölskyldu og líf hans í dag sé gjörólíkt því sem áður var. Það sé mannmargt í kringum hann, stórar fjölskyldur báðum megin og hann sé upptekinn af frændsystkinum sínum sem hann tengist mjög vel.
Drengurinn sé í sambandi við bræður sína og hafi hitt þá reglulega undanfarna mánuði. Hann tengist öðrum þeirra meira enda hafi þeir búið saman um tíma. Tengsl þeirra séu góð og muni fósturforeldrar viðhalda þeim áfram. Þrátt fyrir umgengni þeirra bræðra sýni B lítinn áhuga eða frumkvæði til að hitta þá eða ræða um þá að fyrra bragði.
Drengurinn hafi verið mjög illa talandi þegar hann hafi komið til fósturforeldra. Hann hafi ekki myndað setningar og orðaforði hans hafi verið takmarkaður. Í dag sé hann svo til altalandi en málskilningur sé slakur sem geri það að verkum að hann eigi oft erfitt með að skilja spurningar og það flækist fyrir honum að svara undir álagi.
Nú í X hafi drengurinn farið í þroskamat. Hann sé undir viðmiði í þroskatölu en það sé aðallega málskilningur sem dragi hann niður. Það sé engin leið að segja til um það hvort hann muni ná málskilningi upp á komandi árum, það muni tíminn leiða í ljós. Miðað við þær framfarir sem hafi orðið hjá honum, á því eina og hálfa ári sem hann hafi verið hjá fósturforeldrum, bindi þau miklar vonir við að hann nái meiri getu og komist á eðlilegt ról.
Frá því að drengurinn kom til fósturforeldra í X 2016 og þar til í X 2018 hafi hann ekkert talað um fyrri tíma og virtist meðvitað eða ómeðvitað skilja á milli fyrri tíma og nútíma. Þrátt fyrir að hann hafi hitt bræður sína og kynmóður hafi hann ekkert rifjað upp eða talað um þau eftir umgengni. Drengurinn hafi byrjað að rifja upp gamlar minningar X síðastliðinn. Þær séu ekki góð upplifun fyrir hann og telji fósturforeldrar að hann þurfi tíma til þess að átta sig á aðstæðum, skilja á milli og þroskast.
Fósturforeldrar telji drenginn þurfa lengri tíma til að efla tengsl við nýja fjölskyldu, ná áttum í lífinu og auknum þroska áður en farið sé í nýja tengslamyndun. Hann sýni engin viðbrögð við myndum af kæranda og fósturforeldrar telji að ný tengslamyndun sé honum ekki fyrir bestu að sinni.
Fósturforeldrar vilji gjarnan senda kæranda myndir reglulega, eins og þau hafi gert nú um jólin. Þau séu á hinn bóginn, drengsins vegna, sammála Barnaverndarnefnd Reykjavíkur um að það þjóni ekki tilgangi að mynda ný tengsl að svo stöddu. Drengurinn þurfi sinn tíma og það sé hans hagur að ná traustum tengslum við fósturfjölskyldu, ná auknum þroska og skilningi á lífinu.
VI. Niðurstaða
Eins og fram kemur í 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn rétt á umgengni við foreldra og aðra sem því eru nákomnir. Foreldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Þeir sem telja sig nákomna barninu eiga með sama hætti rétt til umgengni við barnið, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið. Við ráðstöfun barns í fóstur skal samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal tekið mið af því hvað þjónar hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. lagagreinarinnar getur barnaverndarnefnd ákveðið að umgengni við aðra nákomna en foreldra njóti ekki við ef skilyrðum 2. mgr. er ekki talið fullnægt.
Í athugasemdum við 74. gr. í frumvarpi því sem varð að núgildandi barnaverndarlögum er bent á að þegar um aðra nákomna sé að ræða sé tekið þannig til orða að umgengni sé barninu til hagsbóta. Samkvæmt þessu orðalagi sé réttur þessara aðila ekki jafnríkur og kynforeldra. Vera kunni að umgengni barns við aðra nákomna geti haft sérstaka þýðingu fyrir það, einkum þar sem umgengni við kynforeldra sé lítil sem engin. Tekið er fram að við ákvörðun um umgengni verði barnaverndarnefnd sem endranær að meta hagsmuni og þarfir barns og gæta þess að umgengni sé í samræmi við markmiðin með fóstri. Þannig verði almennt að gera ráð fyrir ríkari umgengni ef fóstri er ætlað að vara í skamman tíma og áætlað að barn snúi aftur til foreldra sinna.
Við úrlausn málsins ber að meta hvort kærandi telst nákomin drengnum í skilningi 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga. Eins og fram kemur í athugasemdum með lagaákvæðinu í frumvarpi til barnaverndarlaga metur barnaverndarnefnd hvort aðili telst nákominn barni í skilningi lagaákvæðisins. Við lögskýringu á lagaákvæðinu verður þá að líta til þess að ætlun löggjafans hafi verið sú að túlka bæri það hverjir teldust nákomnir barninu út frá stöðu barnsins og hagsmunum þess. Drengurinn er nú X árs. Hann dvaldi hjá móður sinni þar til hann var X ára en var neyðarvistaður á Vistheimili barna frá X og fram í X 2016 er honum var ráðstafað í fóstur. Móðir drengsins var svipt forsjá hans með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X 2016.
Ekki liggur fyrir hve kærandi hefur umgengist drenginn mikið. Móðir drengsins segir þau hafa hist síðast X 2014 en kærandi kveðst hafa hitt hann X 2016. Fósturforeldrar hafa greint frá því að drengurinn hafi ekki sýnt viðbrögð þegar honum var sýnd mynd af kæranda. Í ódagsettum athugasemdum kæranda til úrskurðarnefndarinnar segir að drengurinn þekki kæranda ekki. Af þessu og öðrum gögnum málsins verður ráðið að samskipti kæranda og drengsins hafa verið mjög stopul. Drengurinn hefur því hvorki haft tækifæri til að kynnast kæranda né tengjast henni og hefur ekki sjálfstæða þörf fyrir að tengjast kæranda. Kærandi getur því ekki talist nákomin drengnum í þeim skilningi að tengslamyndun hefur ekki farið fram á milli hennar og drengsins. Yrðu búin til tengsl á milli þeirra myndu þau aldrei verða náin því tengslin yrðu alltaf lítil.
Varðandi kröfur kæranda um umgengni við drenginn er óhjákvæmilegt að líta til þess hverjir hagsmunir drengsins eru og hvort og þá hvernig það þjóni hagsmunum hans að njóta umgengni við kæranda.
Drengurinn hefur aðeins verið hjá fósturforeldrum í X ár og hann er enn að aðlagast fósturforeldrum. Gert er ráð fyrir að hann muni verða hjá þeim þar til hann verður 18 ára gamall. Mikilvægt er að hann nái að tengjast fósturforeldrum í friði og ró . Fósturforeldrarnir hafa tekið að sér það vandasama verkefni að ala drenginn upp, búa honum sem bestar uppeldisaðstæður og sjá til þess að þörfum hans verði sinnt á þann hátt sem þjónar hagsmunum hans. Mikilvægt er fyrir drenginn að öryggi hans verði tryggt og grundvallarþörfum hans sinnt. Hann þarf að finna fyrir grunnöryggi en einn mikilvægasti þáttur þess er heilbrigð tengslamyndun. Slík tengslamyndun þarf að fara fram þar sem minnstir streituvaldar eða álagsþættir eru til staðar.
Úrskurðarnefndin telur að það þjóni ekki hagsmunum drengsins að stuðla að umgengni við kæranda, á því viðkvæma stigi sem hann er, enda er eðli málsins samkvæmt ekki hægt að byggja upp tíð og varanleg tengsl drengsins við hana. Barn tengist ekki öðrum einstaklingum tilfinningaböndum vegna líffræðilegra erfða eingöngu heldur gegnum stöðug tengsl í frumbernsku. Barnið hefur í þessu tilfelli ekki sjálfstæða þörf fyrir tengsl við móðurömmu þar sem það tilheyrir nú annarri fjölskyldu. Drengurinn hefur umgengni við eldri hálfbræður sína, sammæðra og kynnist uppruna sínum að einhverju marki með þeirri umgengni. Drengurinn á að sjálfsögðu rétt á að fá að vita frekar um uppruna sinn þegar hann hefur aldur og þroska til. Framtíðin mun síðan skera úr um það hvort um umgengni við kæranda verður þá að ræða eða ekki. Er því ekki tímabært að taka afstöðu til kröfu kæranda að þessu leyti þar sem hún kemur eðli málsins samkvæmt ekki til álita fyrr en drengurinn eldist og þroskast.
Fósturforeldrar telja umgengni við kæranda ekki tímabæra að svo stöddu. Úrskurðarnefndin telur það ekki vera til hagsbóta fyrir drenginn að þvinga fram umgengni, en um slíkt þarf að ríkja sátt og umgengnin þarf að ganga átakalaust fyrir sig. Í þessu tilviki eru andstæð sjónarmið varðandi umgengni og gæti þvinguð umgengni haft í för með sér togstreitu og samskiptaörðugleika sem gætu skaðað drenginn. Það getur aldrei þjónað hagsmunum barns að aðalumönnunaraðilar og ættingjar séu ósáttir og standi í deilum sín á milli. Fyrstu árin í lífi barnsins eru mjög mikilvæg með tillit til þess að barnið finni öryggi og fái svigrúm til þess að mynda varanleg tengsl við umönnunaraðila til frambúðar. Tengslamyndun drengsins og öryggi er best tryggt með því að hún fari fram ótrufluð. Því er ekki rétt að taka þá áhættu sem felst í því að raska stöðugleika og öryggi drengsins í lífi hans nú með því að kærandi hafi umgengni við hann.
Kærandi telur að málið hafi ekki verið nægilega rannsakað samkvæmt 41. gr. bvl., sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem barnaverndarnefndin hafi ekki kynnt sér aðstæður kæranda sjálfstætt. Eins og málið liggur fyrir og hér hefur verið rakið hefur það ekki þýðingu að kanna aðstæður kæranda þar sem umgengni við hana kemur ekki til greina að svo stöddu. Það er því ekki hægt að fallast á með kæranda að málið hafi ekki verið rannsakað með fullnægjandi hætti.
Með hliðsjón af ofansögðu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að umgengni drengsins við kæranda sé við núverandi aðstæður bersýnilega andstæð hagsmunum hans og þörfum. Samkvæmt því, með vísan til þess sem að ofan greinir og til 4. mgr., sbr. 2. mgr. 74. gr. bvl., ber að staðfesta hinn kærða úrskurð.
Úrskurðarorð
Úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 12. október 2017 um umgengni A við dótturson hennar, B, er staðfestur.
Lára Sverrisdóttir
Guðfinna Eydal
Sigríður Ingvarsdóttir