Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 12/2008. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 8. október 2008

í máli nr. 12/2008:

Flugstjórinn-Skipstjórinn

gegn

Ríkiskaupum

           

Með bréfi, dags. 14. ágúst 2008, kærði Flugstjórinn-Skipstjórinn ákvörðun Ríkiskaupa um val á tilboði í útboði Ríkiskaupa nr. 14547 „Salt til hálkuvarna“. Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar svo:

„Ég krefst þess að kærunefnd útboðsmála ógildi þessa ákvarðanatöku Ríkiskaupa á forsendum verðs vörunnar í magni og tegundar efnis sem varið var og velji í staðinn viðurkennda vöru til hálkuvarna og afísingar vega.

 

Ég krefst þess að ákvörðunin verði úrskurðuð óábyrg með tilliti til öryggis vegfarenda og íbúanna á svæðinu.

[?]

Ég krefst þess að Kærunefnd útboðsmála leiti til Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits höfuðborgarsvæðisins með kröfu um rannsókn á efnasamsetningu saltsins sem nú á að fara að nota [?].“

           

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir vali á tilboðum. Með bréfum kærða, dags. 29. ágúst 2008, krafðist kærði þess að öllum kröfum kæranda yrði hafnað. Með bréfi, dags. 8. september 2008, gerði kærandi athugasemdir við greinargerð kærða.

 

I.

Í júní 2008 auglýsti kærði útboðið 14547 þar sem óskað var eftir „tilboðum í útvegun, birgðahald og afgreiðslu á 7.000 tonnum af salti (NaCl) á hverjum vetri, (+/- 25%), til hálkuvarna á Suð-vestursvæði Vegagerðinnar (Höfuðborgarsvæðið og Reykjanes), frá haustinu 2008 til vorsins 2013 [?]“. Í útboðslýsingu kom fram að frávikstilboð væru heimiluð og að forsendur fyrir vali á tilboðum yrðu annars vegar verð, sem vægi 80%, og hins vegar aðstaða, sem vægi 20%. Í matsforsendunni „aðstaða“ var m.a. gerð krafa um þrjár birgðaskemmur og stigagjöf fór eftir fjarlægð frá skilgreindum stofnbrautum.

Kærandi var einn þeirra sem gerði tilboð en með tölvupósti, dags. 11. ágúst 2008, tilkynnti kærði að ákveðið hefði verið að ganga til samninga við Saltkaup hf. Hinn 22. ágúst 2008 var tilboði Saltkaupa hf. endanlega tekið.

 

II.

Kærandi segir að ákvörðun kærða hafi verið óábyrg með tilliti til öryggis vegfarenda og íbúa enda sé saltið, í tilboðinu sem tekið var, mengað af aukaefnum, örveirum og bakteríum sem séu heilsuspillandi. Kærandi segir verðsamanburð ósanngjarnan því ekki þurfi 7000 tonn af efninu E36, sem kærandi bauð. Þá telur kærandi að krafa um þrjár saltgeymslur sé íþyngjandi og óþörf ef efnið E36 er notað.

 

III.

Kærði segir að kærandi hafi einungis fengið 24,9 stig af 100 mögulegum þar sem tilboð kæranda hafi eingöngu fengið 4,9 stig af 80 mögulegum fyrir verð. Tilboðið sem tekið var hafi fengið 100 stig. Af þeim sökum telur kærði að það hefði verið andstætt lögum nr. 84/2007 að taka tilboði kæranda. Kærði segir að enginn munur sé á því magni sem nota þarf af salti og því efni sem kærandi bauð í tilboði sínu. Kærði segir að kærandi hafi aldrei gert athugasemdir við að í útboðslýsingu hafi verið gerð krafa um þrjár saltgeymslur. Kærði segir fullyrðingar kæranda, um að salt sé mengað af aukaefnum, órökstuddar og bendir á að salt sé víða í umhverfinu og sé algengasta hálkuvörnin á norðlægum slóðum. Auk þess telur kærði að liðinn sé frestur til að kæra útboðið á þeim grundvelli að salt sé heilsuspillandi efni og að óheimilt hafi verið að gera skilyrði um þrjár geymslur.

 

IV.

Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála ógildi ákvörðun Ríkiskaupa um val á tilboði í útboði Ríkiskaupa nr. 14547 „Salt til hálkuvarna“. Kærði hefur gert bindandi samning við Saltkaup hf. samkvæmt 76. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup. Samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 84/2007 verður samningur ekki felldur úr gildi eða honum breytt eftir að hann er kominn á þótt ákvörðun kaupanda um gerð samningsins hafi verið ólögmæt. Af þessum sökum verður kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar um val á tilboði hafnað.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Ríkiskaupa „verði úrskurðuð óábyrg með tilliti til öryggis vegfarenda og íbúanna á svæðinu“. Í 97. gr. laga nr. 84/2007 koma fram þau úrræði sem kærunefnd útboðsmála getur beitt. Í ákvæðinu er ekki heimild fyrir nefndina til að taka þá ákvörðun sem kærandi gerir kröfu um. Líta má á kröfuna sem ógildingarkröfu og/eða málsástæðu til stuðnings slíkri kröfu en nefndin hefur leyst úr þeirri kröfu hér að framan.

Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála leiti til Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits höfuðborgarsvæðisins með kröfu um rannsókn á efnasamsetningu saltsins sem kærði hefur gert samning um að kaupa. Samkvæmt 92. gr. laga nr. 84/2007 er kærunefnd útboðsmála heimilt að kalla sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða aðila ef nefndin telur þörf á. Slíkrar aðstoðar er ekki leitað einnar og sér heldur sem hluta af rannsókn nefndarinnar á því hvort rétt sé að beita þeim úrræðum sem nefndinni eru heimiluð. Með vísan til ofangreinds hefur sjálfstæðum kröfum kæranda verið hafnað eða vísað frá. Af þeirri ástæðu er engin ástæða til að nýta heimild 92. gr. við málsmeðferð nefndarinnar og vísa verður frá sjálfstæðri kröfu um aðstoð utanaðkomandi aðila.

 

Úrskurðarorð:

Kröfu Flugstjórans-Skipstjórans, um að ógilt verði ákvörðun Ríkiskaupa um val á tilboði í útboði nr. 14547 „Salt til hálkuvarna“, er hafnað.

 

Kröfu Flugstjórans-Skipstjórans, um að ákvörðun Ríkiskaupa um val á tilboði í útboði nr. 14547 „Salt til hálkuvarna“ verði úrskurðuð óábyrg með tilliti til öryggis vegfarenda og íbúanna á svæðinu, er vísað frá.

 

Kröfu Flugstjórans-Skipstjórans, um að kærunefnd útboðsmála leiti til Umhverfis­stofnunar og Heilbrigðiseftirlits höfuðborgarsvæðisins með kröfu um rannsókn á efnasamsetningu salts, er vísað frá.

 

                                                               Reykjavík, 8. október 2008.

                                                               Páll Sigurðsson

                                                               Sigfús Jónsson

                                                               Stanley Pálsson

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 8. október 2008.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta