Mál nr. 1/2008
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 1. júlí 2008 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 1/2008.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 15. nóvember 2007, tilkynnti Greiðslustofa Vinnumálastofnunar kæranda, A, að úthlutunarnefnd Vinnumálastofnunar hefði fjallað um höfnun hennar, þann 7. nóvember 2007, á atvinnutilboði frá X, sem dagsett var 10. október 2007, og hefði réttur hennar til atvinnuleysisbóta verið felldur niður í 40 bótadaga. Ákvörðunin var byggð á 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi dags. 3. janúar 2008.
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 1. mars 2007 en hún hafði þá unnið á skrifstofu í 11 ár. Fram kom í umsókn hennar að hún væri almennt vinnufær. Fallist var á umsókn kæranda og var hún á bótum þegar hún mætti á skrifstofu Vinnumálastofnunar í viðtal við ráðgjafa sinn hinn 7. nóvember 2007. Kærandi hafði fyrir viðtalstímann verið virk í atvinnuleit og meðal annars leitað eftir starfi hjá þremur aðilum áður en til fundarins kom. Ráðgjafi hennar benti henni á að ræða við starfsfélaga sinn sem hefði ef til vill starf fyrir hana. Í samtali kæranda við þann ráðgjafa kom í ljós að um var að ræða starf í leikskóla sem var nálægt heimili kæranda. Samkvæmt minnispunktum ráðgjafans vildi kærandi ekki kynna sér starfið og afþakkaði það án umhugsunar. Kærandi undirritaði eyðublað um boðun í atvinnuviðtal, dags. 7. nóvember 2007, þar sem greint var frá leikskólastarfinu og að kærandi hafi hafnað því. Hvergi á eyðublaðinu kom skýrt fram að kærandi gæti átt von á að missa bótarétt ef hún hafnaði starfinu. Ofarlega á eyðublaðinu sagði aðeins að til að halda bótarétti beri atvinnuleitanda að hafa samband við þann atvinnurekanda sem tilgreindur er á blaðinu. Þegar kærandi hafði ritað undir eyðublaðið fór hún til síns reglulega ráðgjafa og samkvæmt minnispunktum hans hafnaði hún einnig skrifstofustarfi sem henni bauðst. Í því tilviki undirritaði kærandi hins vegar ekki eyðublað um að hún hafi hafnað starfi.
Ráða má af kæru og öðrum gögnum málsins að kærandi hafi eigi síðar en 10. nóvember 2007 fengið þær upplýsingar munnlega að hætta væri á að hún myndi glata bótarétti sínum í 40 daga sökum þess að hún hefði hafnað starfi. Með bréfi, dags. 11. nóvember 2007, til Vinnumálastofnunar upplýsti kærandi að hún hefði spurt ráðgjafann, sem bauð henni starfið á leikskólanum, hvort hún þyrfti að svara strax og hefði ráðgjafinn kveðið já við án þess að minnast á að slíkt gæti varðaði 40 daga bótamissi. Að sögn kæranda hafði hún fengið þær leiðbeiningar frá deildarstjóra Vinnumálastofnunar að hún skyldi senda framangreint bréf til Greiðslustofu Vinnumálastofnunar ásamt læknisvottorði. Samkvæmt vottorði heimilislæknis, dags. 12. nóvember 2007, er kærandi haldinn langvinnum sjúkdómi sem veldur því að hún þurfi að forðast að lyfta, bera og bogra og megi ekki reyna á bak eða hægri handlegg. Óvíst sé hvenær þessu ástandi linni. Hin kærða ákvörðun var send kæranda með bréfi, dags. 15. nóvember 2007, en áður hafði henni verið gefinn kostur á að koma á framfæri andmælum með bréfi, dags. 12. nóvember 2007.
Í athugasemdum Vinnumálastofnunar er bent á að þegar atvinnuleitandi sækir um atvinnuleysisbætur skuli viðkomandi upplýsa hvort hann sé almennt vinnufær eða ekki. Kærandi hafi við umsókn sína talið sig almennt vinnufæra. Það var ekki fyrr en hún fékk upplýsingar um fyrirhugaða niðurfellingu á bótarétti í 40 daga í framhaldi af höfnun starfs sem hún upplýsti að hún væri ekki að fullu vinnufær og reiddi fram læknisvottorð. Því hafi Vinnumálastofnun litið svo á að hún hafi ekki gefið réttar upplýsingar um vinnufærni sína.
2.
Niðurstaða
Kærandi naut atvinnuleysisbóta eins og rakið hefur verið og fram kemur í gögnum málsins, en réttur hennar til bótanna var felldur niður í 40 daga vegna þess að hún hafnaði starfi sem henni bauðst, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Í 1. mgr. 57. gr. laganna segir eftirfarandi:
„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“
Umsókn atvinnuleitanda og síðari upplýsingar sem hann veitir Vinnumálastofnun leggja grundvöllinn að aðgerðum stofnunarinnar til að útvega honum starf. Að jafnaði er gert ráð fyrir því að atvinnuleitandi sé fær til flestra almennra starfa, en að öðrum kosti telst hann ekki í virkri atvinnuleit í skilningi a-liðar 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006. Sú skilyrðislausa skylda hvílir á atvinnuleitanda að tilkynna Vinnumálastofnun án ástæðulausrar tafar um breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006. Vinnumálastofnun er heimilt að taka tillit til aðstæðna atvinnuleitanda sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt mati sérfræðilæknis, sbr. lokamálslið 4. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006.
Í þessu máli gátu starfsmenn Vinnumálastofnunar ekki ályktað annað en að kærandi væri fær til flestra almennra starfa þegar henni var boðið starf 7. nóvember 2007. Vottorð heimilislæknis sem reitt var fram eftir það tímamark hefur enga þýðingu við úrlausn málsins vegna þess að kæranda bar löngu fyrir 7. nóvember 2007 að upplýsa Vinnumálastofnun um að hún gæti ekki sinnt tilteknum störfum. Jafnframt ber til þess að líta að vottorð heimilislæknis telst að jafnaði ekki vottorð sérfræðilæknis í skilningi lokamálsliðar 4. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006, sbr. til hliðsjónar athugasemdir í greinargerð við ákvæðið í frumvarpi sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006.
Þótt flestir atvinnuleitendur eigi almennt að reikna með að geta misst bætur ef þeir hafna starfi þá hvílir sú skylda á stjórnvöldum að leiðbeina þeim, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eðlilegt er að gera þá kröfu til stjórnvalda að þau ræki leiðbeiningarskyldu sína með sannanlegum hætti þegar íþyngjandi ákvarðanir eru teknar. Jafnframt verður að gera þá kröfu til staðlaðra eyðublaða Vinnumálastofnunar að þau feli í sér fullnægjandi leiðbeiningar til atvinnuleitanda. Skorti slíkar upplýsingar á stöðluðum eyðublöðum verða starfsmenn stofnunarinnar að afla sér nægra sannana um að hafa leiðbeint atvinnuleitendum um grundvallaratriði hvers máls. Þetta á ekki síst við þegar atvinnuleitandi ritar undir eyðublað þar sem hann hafnar starfi sem honum er boðið.
Í þessu máli verður frásögn kæranda lögð til grundvallar þeirri ályktun að hún hafi ekki fengið munnlegar leiðbeiningar 7. nóvember 2007 um afleiðingar af því að hafna boði um starf. Eyðublaðið sem hún ritaði undir bar ekki með sér hverjar afleiðingar gætu orðið ef hún hafnaði starfinu. Til samanburðar má benda á bókun Vinnumálastofnunar, dags. 10. október 2007, en samkvæmt henni var kæranda gert skylt að mæta á tölvunámskeið ella gæti hún misst bótarétt samkvæmt 58. gr. laga nr. 54/2006. Ákvörðunartaka kæranda hefði hugsanlega orðið önnur hefði henni verið leiðbeint hverju það varðaði að hafna starfstilboðinu. Þar sem gera verður ríka kröfu um meðferð mála sem rekin eru hjá stjórnvöldum eru þessir annmarkar á málsmeðferð taldir leiða til þess að kærandi hafi átt rétt til atvinnuleysisbóta þrátt fyrir höfnun hennar á starfstilboðinu þann 7. nóvember 2007. Að framangreindu virtu er óhjákvæmilegt að fella úr gildi hina kærðu ákvörðun.
Úrskurðarorð
Felld er úr gildi ákvörðun Greiðslustofu Vinnumálastofnunar frá 14. nóvember 2007 um niðurfellingu bótaréttar A í 40 daga.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson