Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 30/2004

Þriðjudaginn, 16. nóvember 2004

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 10. júní 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra frá B, f.h. A, dags. 10. júní 2004.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 7. apríl 2004 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„A telur sig eiga fullan rétt á fæðingarorlofi í sex mánuði eftir barnsburð. A hefur verið óvinnufær frá 21. apríl 2002 sbr. meðfylgjandi læknisvottorð. Hún var á sjúkradagpeningum frá Tryggingastofnun frá 1. janúar 2003 til 31. desember 2003. Eftir það var hún ekki á neinum bótum. Hún fæðir barnið 18. apríl 2004.

A var tilkynnt af Tryggingastofnun meðan hún var enn á sjúkradagpeningum að hún fengi óskert fæðingarorlof þegar þar að kæmi þar sem litið væri á sjúkradagpeninga sem launatekjur. Annað hefur komið í ljós. A hafði ekki vitneskju um það fyrr en í febrúarbyrjun 2004 að sjúkradagpeningar greiddust einungis í eitt ár þegar hún leitaði skýringa á því að sjúkradagpeningar bærust ekki fyrir janúarmánuð 2004.

A hafði engar tekjur í janúar til mars 2004 og skilst henni að það sé ástæðan fyrir því að hún fær ekki nú fæðingarorlof heldur einungis fæðingarstyrk. A hefur nú sótt um bráðabirgðaörorku.

A getur ekki sætt sig við þessa niðurstöðu og kærir hér með ákvörðun Tryggingastofnunar.“

 

Með bréfi, dags. 15. júní 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 8. júlí 2004. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn, dags. 8. mars 2004, sem móttekin var 11. mars 2004, sótti kærandi um fæðingarstyrk eða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði frá 1. apríl 2004. Umsókn hennar var vegna barns, sem fætt er 18. apríl 2004, en áætlaður fæðingardagur þess var 12. apríl 2004. Í umsókn sinni kvaðst kæranda hafa hætt störfum vegna veikinda 21. apríl 2002 og hafa fullnýtt sér greiðslur frá vinnuveitanda sínum og stéttarfélagi, svo og Tryggingarstofnun ríkisins. Enn fremur sótti kærandi, með umsókn, dags. 9. mars 2004, um lengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 7. apríl 2004, var henni tilkynnt að umsókn hennar um fæðingarstyrk hefði verið afgreidd frá og með apríl 2004. Fól bréfið jafnframt í sér að ekki var fallist á beiðni hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri á innlendum vinnumarkaði rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er með samfelldu starfi átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 186/2003, er síðan talið upp í fjórum liðum hvað teljist enn fremur til samfellds starfs. Þar segir í c-lið að til samfellds starfs teljist sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum.

Við afgreiðslu máls kæranda lá fyrir að kærandi hafði fengið greidda sjúkradagpeninga allt árið 2003 en greiðslur þeirra fallið niður um sl. áramót. Var í því sambandi byggt á 1. málslið 2. mgr. 38. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993, þar sem segir að sjúkradagpeningar séu ekki greiddir lengur en í 52 vikur samtals á hverjum 24 mánuðum. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá RSK hafði kærandi engar tekjur frá sl. áramótum. Þá lá jafnframt fyrir við afgreiðslu málsins að kærandi var til mats hjá endurhæfingarteymi Tryggingastofnunar vegna beiðni um endurhæfingarlífeyri.

Þar sem sjúkradagpeningagreiðslur til kæranda höfðu fallið niður og upplýsingar lágu fyrir um að sótt hefði verið um endurhæfingarlífeyri fyrir hana leit lífeyristryggingasvið svo á að kærandi hefði ekki verið á vinnumarkaði frá sl. áramótum og þar með væru skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. ekki uppfyllt.

Með vísan til framangreinds telur lífeyristryggingasvið að rétt hafi verið að synja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiða henni þess í stað fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar samkvæmt 18. gr. ffl.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 28. júlí 2004, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá B, f.h. kæranda með bréfi dagsettu 3. ágúst 2004, þar segir meðal annars:

„Byggt er á því hjá Tryggingastofnun að kærandi hafi ekki haft tekjur frá áramótum 2003/2004 þegar dagpeningagreiðslum lauk og vísað þar til staðgreiðsluskrár ríkisskattstjóra.

Þetta er alveg rétt og það er þetta sem kærandi vísar til. Kærandi getur ekki haft launatekjur þegar honum er bannað að vinna skv. læknisráði enda fæðing einnig að nálgast. Vegna þess sendi kærandi viðkomandi læknisvottorð með til að sýna að henni hafi verið ómögulegt að uppfylla þetta skilyrði vegna líkamslegs ástands.

Hins vegar telur hún það ósanngjarnt og óeðlilegt að það að mega ekki vinna skuli ekki koma til jafns við það að hafa tekjur þegar horft til eðlis reglnanna um fæðingarorlofið. Á þessu byggir hún kröfu sína ekki hvað síst. Hvernig er hægt að hafa reglu án undantekninga ef fyrir liggur að mörg atriði geti leitt til þess að henni verði ekki fullnægt?

Eitthvað hlýtur að eiga koma í staðinn ef ekki er hægt að fullnægja ákvæðinu?

Þá vísar Tryggingastofnun til þess að við afgreiðslu málsins hafi kærandi verið til mats hjá endurhæfingateymi Tryggingastofnunar.

Staðreynd málsins að því er varðar endurhæfingalífeyri er sú að kærandi var til endurhæfingar hjá D fyrir um ári síðan. Þegar hún hafði samband við heimilislækni sinn í febrúar 2004 ráðlagði hann henni að hafa samband við endurhæfingarteymið hjá D og sendi fyrir hana umsókn þess efnis. Hafði læknir hennar í huga að matið hjá endurhæfingateyminu færi fram eftir að fæðingarorlofi kæranda lyki.

Á þetta vill kærandi leggja áherslu og leiðrétta þar með þann misskilning, að matið fari fram á sama tíma og fæðingarorlofið og hún hafi tekjur á endurhæfingartímanum. Það skal undirstrikað að enn hefur ekki svar borist um það hvort kærandi komist yfir höfuð í þetta endurhæfingarmat. Vegna þessa er endurhæfingarmatið með öllu óviðkomandi fæðingarorlofinu.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð meðal annars vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 sbr. reglugerð nr. 186/2003 er kveðið á um að til samfellds starfs teljist enn fremur:

„a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningasamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, er á biðtíma eftir slíkum greiðslum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, með síðari breytingum. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga nr. 46/1997, með síðari breytingum. Hlutaðeigandi úthlutunarnefnd metur hvort foreldri hefði átt rétt á greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, með síðari breytingum, hefði foreldri skráð sig án atvinnu á þeim tíma sem um er að ræða, sbr. b-lið 2. mgr. Um rétt til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði fer samkvæmt skilyrðum laga um atvinnuleysis­tryggingar. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga nr. 46/1997, með síðari breytingum,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.“

Í 2. mgr. 8. gr. ffl. segir að réttur til fæðingarorlofs stofnist við fæðingu barns. Þó sé konu heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur sé með læknisvottorði. Kærandi ól barn 18. apríl 2004 en áætlaður fæðingardagur hafði verið 12. apríl. Upphafsdagur fæðingarorlofs gat samkvæmt því fyrst verið 12. mars 2004.

Kærandi fékk sjúkradagpeninga frá Tryggingastofnun ríkisins frá 1. janúar 2003 til 31. desember sama ár, sbr. 2. mgr. 38. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993, þar sem kveðið er á um að sjúkradagpeningar séu ekki greiddir lengur en í 52 vikur samtals á hverjum 24 mánuðum. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi var ekki á vinnumarkaði eftir að greiðslu sjúkradagpeninga lauk í lok desember 2003.

Með hliðsjón af framangreindu uppfyllir kærandi ekki skilyrði réttar til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, þar sem hún uppfyllir ekki skilyrði um sex mánaða samfellt starf fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 13. gr. ffl., sbr. og 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Þar af leiðir að engin heimild er til þess að framlengja greiðslur í fæðingarorlofi vegna veikinda á meðgöngu, þar sem framlenging kemur eingöngu til álita þegar viðkomandi á rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi hvorki áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði né rétt til framlengingar fæðingarorlofs og er því ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og framlengingu fæðingarorlofs er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta