Mál nr. 330/2016
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 330/2016
Miðvikudaginn 21. september 2016
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 1. september 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. maí 2016, um greiðslu endurhæfingarlífeyris vegna tímabilsins frá 1. mars 2015 til 1. ágúst 2015.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsókn, dags. 22. desember 2015, sótti kærandi um endurhæfingarlífeyri og einnig var óskað eftir greiðslum aftur í tímann vegna tímabilsins frá 1. mars 2015 og til 1. ágúst 2015. Með bréfi, dags. 7. janúar 2016, var umsókn kæranda samþykkt frá 1. febrúar 2016 til 31. mars 2016. Ekki var tekin afstaða til kröfu um greiðslur aftur í tímann. Með bréfi, dags. 21. maí 2016, var kæranda synjað um greiðslu endurhæfingarlífeyris vegna tímabilsins frá 1. mars 2015 til 1. ágúst 2015 með þeim rökum að endurhæfingaráætlun teldist ekki nægjanlega ítarleg í ljósi heildarvanda kæranda og óljóst væri hvernig endurhæfing kæmi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað.
Kærandi hafði samband við úrskurðarnefnd velferðarmála í annarri viku ágústmánaðar 2016 til þess að spyrjast fyrir um stöðu máls síns hjá úrskurðarnefndinni. Honum var tilkynnt um að engin kæra hefði borist úrskurðarnefndinni. Í þriðju viku ágústmánaðar 2016 fékk hann sömu upplýsingar og honum jafnframt leiðbeint um að skila inn skriflegri kæru. Kæra barst úrskurðarnefndinni þann 1. september 2016.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru eru ekki gerðar formlegar kröfur en ráða má af gögnum málsins að kærandi krefjist þess að synjun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu endurhæfingarlífeyris vegna tímabilsins frá 1. mars 2015 til 1. ágúst 2015 verði felld gildi og samþykkt verði að greiða honum endurhæfingarlífeyri vegna framangreinds tímabils.
Í kæru kemur fram að kæranda hafi verið vísað úr endurhæfingu hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði þrátt fyrir að sjóðurinn hafi verið vel upplýstur um að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. VIRK viðurkenni mistökin en enginn virðist vilja taka ábyrgð á þeim mistökum. Þar sem ógerlegt virðist að kæra VIRK hafi hann gengið á milli stofnana til að þessi viðurkenning á mistökum yrði tekin gild.
Fram kemur einnig að kærandi hafi engan annan kost haft en að útbúa aðra kæru þar sem gögn hans hafi týnst hjá úrskurðarnefnd velferðarmála. Kona hans hafi farið með pappírana og sett þá í lúgu úrskurðarnefndarinnar eins og henni hafi verið tjáð þar sem lokað yrði þegar hún kæmi. Kærandi hafi ákveðið að forvitnast um stöðu málsins en honum hafi verið tjáð að ekkert mál væri í gangi. Þetta hafi því týnst hjá úrskurðarnefndinni þannig að þarna verði að koma til móts við hann. Hann hafi haft þrjá mánuði til að kæra ákvörðun Tryggingastofnunar en sá tími sé löngu liðinn þar sem málið hafi týnst.
III. Niðurstaða
Kærð er synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. maí 2016, um greiðslu endurhæfingarlífeyris til kæranda vegna tímabilsins frá 1. mars 2015 til 1. ágúst 2015.
Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.
Samkvæmt gögnum málsins liðu þrír mánuðir og tíu dagar frá því að kæranda var tilkynnt um ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins þann 21. maí 2016 þar til kæra barst úrskurðarnefndinni þann 1. september 2016. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.
Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.
Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:
„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:
-
afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
-
veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“
Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.
Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 21. maí 2016 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar og um tímalengd kærufrests. Í ódagsettu fylgiskjali með kæru er greint frá ástæðum þess að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Fram kemur að eiginkona kæranda hafi farið með kæruna fyrir hann og sett hana í lúgu úrskurðarnefndar velferðarmála í samræmi við leiðbeiningar sem kærandi hafi fengið frá úrskurðarnefndinni. Fyrir liggur að skrifleg kæra barst úrskurðarnefndinni ekki fyrr en 1. september 2016. Því telur úrskurðarnefndin að ekki hafi verið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Með hliðsjón af framangreindu er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 37/1993.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir