Mál nr. 15/2016. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:
Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 13. október 2016
í máli nr. 15/2016:
Ísmar ehf. og
Múlaradíó ehf.
gegn
Ríkiskaupum og
Securitas hf.
Með kæru mótekinni 20. september 2016 kæra Ísmar ehf. og Múlaradíó ehf. rammasamningsútboð Ríkiskaupa (hér eftir vísað til sem „varnaraðila“) Nr. V20237 auðkennt „TETRA Farstöðvar“. Kærandi krefst þess aðallega að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun varnaraðila um að ganga til samninga við Securitas hf. og til vara að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila. Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum kæranda verði vísað frá eða hafnað. Securitas hf. hefur ekki skilað greinargerð af sinni hálfu. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu varnaraðila um afléttingu sjálfkrafa banns við samningsgerð samkvæmt 1. mgr. 94. gr. a. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.
Mál þetta lýtur að fyrrgreindu rammasamningsútboði varnaraðila fyrir hönd áskrifenda að rammasamningum ríkisins sem fram fór í júlí sl. þar sem óskað var tilboða vegna kaupa á Tetra farstöðvum frá Motorola, búnaði og þjónustu þeim tengdum. Í útboðsgögnum voru gerðar ýmsar kröfur til bjóðenda um tæknilega getu, meðal annars skyldu þeir hafa á að skipa þjálfuðu starfsfólki sem sinnti sölu á farstöðvum og rafeindavirkjum með þjálfun í þjónustu við farstöðvar sem sinntu viðhalds- og viðgerðarþjónustu, þeir skyldu hafa að lágmarki þriggja ára reynslu af sölu á sambærilegum rafeindabúnaði og þjónustu við þann búnað, auk þess sem áskilið var að bjóðendur hefðu yfir að ráða verslun og verkstæði fyrir rafeindabúnað og uppfylltu ýmsar aðrar kröfur um þjónustu sem fram komu á sér kröfublaði sem var viðauki með útboðsgögnum. Ekki var gerð krafa um að bjóðendur skiluðu gögnum til að staðfesta hæfi sitt að þessu leyti með tilboði sínu, en varnaraðili áskildi sér rétt til að sannreyna þær upplýsingar sem bjóðendur veittu um hæfi sitt. Kom fram í útboðslýsingu að samið yrði við þann bjóðanda sem uppfyllti kröfur útboðsins og væri lægstur í verði. Tvö tilboð bárust í útboðinu og var Securitas hf. lægstbjóðandi. Hinn 20. september 2016 var kærendum tilkynnt að ákveðið hefði verið að velja tilboð frá Securitas hf. í útboðinu.
Kröfur kærenda byggja í meginatriðum á því að Securitas hf. hafi ekki uppfyllt þau hæfisskilyrði sem útboðsgögn hafi áskilið. Kærendur viti ekki til þess að Securitas hf. hafi nokkru sinni þjónustað eða selt Tetra farstöðvar, að fyrirtæki starfsræki verslun, bjóði upp á söluþjónustu, haldi úti vefsíðu, starfræki viðhalds- og viðgerðarþjónustu, hafi á að skipa þjálfuðu starfsfólki eða tilskilda reynslu af sölu á sambærilegum rafeindabúnaði og þjónustu við slíkan búnað. Þá er byggt á því að að tilboð Securitas hf. hafi verið óeðlilega lágt og því hafi varnaraðila borið, í samræmi við 73. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup og almennar óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins, að kanna forsendur þess.
Niðurstaða
Eins og áður segir áskildu útboðsgögn að bjóðendur skyldu uppfylla tilteknar kröfur um reynslu og þjónustu í sölu á Tetra farstöðvum frá Motorola. Ekki var gerð krafa um að bjóðendur skiluðu gögnum til að staðfesta hæfi sitt að þessu leyti með tilboði sínu en varnaraðili áskildi sér rétt til að sannreyna þær upplýsingar sem bjóðendur létu í té. Í tilefni af kæru í máli þessu hefur varnaraðili leitast við að sýna fram á að Securitas hf. hafi fullnægt kröfum útboðsins að þessu leyti, meðal annars með því að vísa til samnings fyrirtækisins við norska fyrirtækið Datamatik AS, sem er sagður umboðsaðili Motorola farstöðva á Norðurlöndum.
Samkvæmt 2. mgr. 50. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup getur fyrirtæki sem tekur þátt í útboði byggt á tæknilegri getu annars aðila án tillits til lagalegra tengsla fyrirtækisins við þessa aðila, ef það sýnir fram á að það muni hafa aðgang að nauðsynlegri tækni fyrir framkvæmd samningsins. Í máli þessu er hins vegar til þess að líta að útboðsskilmálar gera ráð fyrir því að seljandinn sjálfur sjái um innflutning, lagerhald og starfræki verslun og viðgerðarþjónustu á Íslandi, en ekki er fram komið að Datamatik AS hafi starfstöð eða aðra aðstöðu hér á landi. Af fyrirliggjandi gögnum málsins verður ekki ráðið að Securitas hf. fullnægi kröfum útboðsgagna um varahlutalager með helstu varahlutum í farstöðvarnar eða hafi á lager, sem öryggisbirgðir a.m.k. tvær gerðir farstöðva sem algengast er að kaupendur velji. Sama á við um kröfur útboðsgagna til viðgerðar- og uppfærsluþjónustu. Eins og málið liggur fyrir á þessu stigi þess verður því að líta svo á að verulegar líkur hafi verið leiddar að því að varnaraðili hafi brotið gegn lögum um opinber innkaup með þeirri ákvörðun sinni að ganga til samninga við Securitas hf. í hinu kærða útboði. Verður því ekki fallist á kröfu varnaraðila um að aflétta þeirri stöðvun samningsgerðar sem komst á með kæru í máli þessu, sbr. 2. mgr. 94. gr. a. laga um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013.
Ákvörðunarorð:
Kröfu varnaraðila, Ríkiskaupa, um að stöðvun samningsgerðar í útboði nr. V20237 auðkennt „TETRA Farstöðvar“ verði aflétt, er hafnað.
Reykjavík, 13. október 2016
Skúli Magnússon
Stanley Pálsson