Hoppa yfir valmynd

Nr. 216/2020 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 18. júní 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 216/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20040024

 

Beiðni [...] um endurupptöku

I. Málsatvik

Þann 16. apríl 2020 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 30. október 2019 um að synja einstaklingi er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 20. apríl 2020. Þann 27. apríl 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar sem og beiðni kæranda um að nefndin endurskoðaði úrskurð hans. Þann 5. maí 2020 barst kærunefnd greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd með úrskurði nefndarinnar nr. 181/2020, dags. 8. maí sl.

Kærandi fer fram á endurupptöku í máli hans á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, þar sem ákvörðun í máli hans hafi verið byggð á röngum og ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik.

Þá er beiðni kæranda um endurupptöku byggð á því að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hafi við töku ákvörðunar um að synja kæranda um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi hvorki fylgt ákvæðum laga um útlendinga nr. 80/2016 né ákvæðum stjórnsýslulaga, einkum rannsóknarreglu 10. gr. síðarnefndra laga. Þá byggir kærandi á því að hann hafi ekki fengið þá réttarvernd sem tryggð er samkvæmt 9. gr., 11. gr. og 12. gr. sömu laga. Auk þess byggir kærandi á því, með vísan til skýrslna um aðstæður í heimaríki, að endursending hans til heimaríkis myndi leiða til brots gagnvart 68. gr. stjórnarskrárinnar og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 42. gr. laga um útlendinga. Með vísan til framangreinds telur kærandi að sú málsmeðferð sem að umsókn hans hafi fengið hafi ekki verið í samræmi við góða og vandaða stjórnsýsluhætti.

Um brot stjórnvalda á rannsóknarreglunni vísar kærandi til þess að ófullnægjandi mat á heilsufari hans og aðstæðum í heimaríki hafi leitt til rangrar niðurstöðu í máli hans. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi komið í veg fyrir að hann fengi aðgang að viðeigandi sálfræðiaðstoð vegna andlegra veikinda sinna, en hann hafi verið greindur með kvíða- og geðlægðarröskun og verið ávísað þunglyndislyfjum. Hafi fullnægjandi upplýsingar um heilsufar hans því ekki legið fyrir við ákvörðunartöku stjórnvalda, þ. á m. um það hvort hann teljist vera einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Í ljósi þess óskar kærandi eftir því að nefndin hlutist til um að sálfræðilegs mats verði aflað svo að hægt sé að leggja fullnægjandi mat á andlega heilsu hans. Þá telur kærandi að kærunefnd hafi ekki litið til framlagðra gagna og stöðugs framburðar hans um ástæður flótta frá heimaríki, s.s. um ofsóknir í garð foreldra kæranda vegna þátttöku þeirra í starfi stjórnarandstöðuflokksins UDPS og pyndinga sem kærandi hafi þurft að þola af hálfu yfirvalda í fangelsi. Hefði það verið gert telur kærandi að stjórnvöld hefðu réttilega komist að þeirri niðurstöðu að hann hafi raunverulegan og ástæðuríkan ótta við að vera ofsóttur í heimaríki, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi alls framangreinds telji kærandi tilefni til þess að mál hans verði tekið upp að nýju og að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 16. apríl 2020 og var úrskurðurinn birtur fyrir kæranda 20. apríl 2020. Með úrskurðinum komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli hvorki skilyrði 1. né 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því eigi hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Í beiðni um endurupptöku máls kæranda, dags. 5. maí 2020, er gerður áskilnaður um framlagningu sálfræðivottorðs. Kæranda var veittur frestur til 2. júní 2020 til þess að leggja fram slíkt vottorð. Með tölvupósti, dags. 2. júní sl., var óskað eftir því af hálfu kæranda að sá frestur yrði framlengdur til 5. júní. Fyrirséð væri að kærandi gæti ekki greitt fyrir sálfræðivottorð frá Domus Mentis Geðheilsustöð, en hann hefði óskað eftir staðfestingarvottorði frá sálfræðingi sínum. Kærunefnd varð við ósk kæranda og framlengdi frest til gagnaframlagningar til 5. júní. Þá var kæranda tilkynnt um að beiðni hans um endurupptöku máls hans yrði tekin fyrir á grundvelli fyrirliggjandi gagna að þeim fresti loknum. Þann 2. júní sl. bárust kærunefnd jafnframt tölvupóstsamskipti talsmanns kæranda við sálfræðing á Domus Mentis Geðheilsustöð. Í tölvupósti frá umræddum sálfræðingi kemur m.a. fram að umbjóðandi talsmanns hafi mætt til sálfræðingsins í tvö skipti og greint frá áföllum og slæmri líðan þeim tengdum. Að mati sálfræðings væru einhver áfallastreitueinkenni til staðar en ítarlegt mat eða greining hafi ekki farið fram. Þann 11. júní sl. óskaði nefndin eftir því að fá ofangreindan tölvupóst í heild sinni svo að sjá mætti hvenær hann hafi verið sendur og hvort hann varðaði vissulega kæranda. Þá óskaði nefndin eftir staðfestingu á því hversu mörg sálfræðiviðtöl kærandi hafi sótt og hvenær þau hafi farið fram. Samkvæmt svari talsmanns kæranda, sem barst kærunefnd síðar þann sama dag, barst tölvupósturinn frá sálfræðingnum þann 2. júní sl. Þá greindi talsmaður frá því að beðið væri eftir frekari upplýsingum frá Domus Mentis um þau sálfræðiviðtöl sem kærandi hafi sótt. Þann 18. júní barst staðfesting frá sálfræðingi hjá Domus Mentis um að kærandi hafi mætti í þrjá sálfræðitíma hjá henni.

Kærunefnd tekur fram að tiltölulega skammur tími er liðinn síðan nefndin úrskurðaði í máli kæranda. Í úrskurðinum var fjallað um heilsufar kæranda og byggt á læknisfræðilegum gögnum sem þá lágu fyrir, en í úrskurðinum kom m.a. fram að í gögnum frá Göngudeild sóttvarna kæmi fram að kærandi glímdi við kvíða og geðlægðarröskun. Var það mat nefndarinnar, að teknu tilliti til gagna málsins, að kærandi hefði aðgang að heilbrigðisþjónustu og lyfjum í heimaríki vegna veikinda sinna. Kærunefnd telur að ekkert í gögnum málsins eða beiðni kæranda um endurupptöku bendi til þess að aðstæður kæranda eða aðstæður í heimaríki kæranda, t.a.m. hvað varðar aðgang að heilbrigðisþjónustu, hafi breyst verulega síðan nefndin úrskurðaði í málinu á þann hátt að nefndin telji að það geti haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins. Í því sambandi er tekið fram að nefndin hefur kynnt sér þau gögn sem borist hafa vegna beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans og heimildir um aðstæður í heimaríki hans einkum hvað varðar heilbrigðisþjónustu. Með vísan til framangreinds telur kærunefnd að þau gögn sem bárust með beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans gefi ekki til kynna að aðstæður kæranda hafi breyst verulega eða að úrskurður nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. 

Í úrskurði kærunefndar í máli kæranda kemur þá jafnframt fram að kærunefnd hafi metið frásögn hans af atburðum og ástæðum flótta frá heimaríki ótrúverðuga og var hún því ekki lögð til grundvallar í málinu. Var það mat að miklu leyti byggt á skorti á gögnum til stuðnings frásagnar kæranda og framlagningu falsaðra og ótrúverðugra gagna. Kærunefnd telur að ekkert í gögnum málsins raski mati nefndarinnar hvað ofangreint varðar.

Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að ekkert bendi til þess að rannsókn kærunefndar eða Útlendingastofnunar hafi verið ófullnægjandi eða að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga, óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins og málsmeðferðarreglur laga um útlendinga hafi verið brotnar við meðferð máls og ákvarðanatöku. Þvert á móti ber umræddur úrskurður kærunefndar með sér að mál kæranda hafi verið rannsakað til hlítar hjá Útlendingastofnun og kærunefnd sem hafi jafnframt gert stjórnvöldum kleift að komast að efnislega réttri niðurstöðu í máli kæranda.

Að teknu tilliti til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 16. apríl 2020 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

 

 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                                     Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta