Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 105/2013

Fimmtudaginn 28. maí 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 3. júlí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 18. júní 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 9. ágúst 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 13. ágúst 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 15. ágúst 2013 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. mars 2014. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1953. Hún er einhleyp og býr í eigin 79 fermetra íbúð að B götu nr. 14 í sveitarfélaginu C.

Kærandi er kennari. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hennar eru 308.910 krónur.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 48.530.029 krónur.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína einkum til tekjulækkunar vegna minnkandi aukavinnu samhliða hækkandi framfærslukostnaði. Einnig hafi hún tekið lán til að fjármagna endurbætur á íbúð sem hún hafi keypt með 100% láni.

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 23. nóvember 2010 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 8. mars 2011 var henni veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Í bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 7. ágúst 2012 kom fram að kærandi hefði ekki lagt fé til hliðar í samræmi við skyldur sínar samkvæmt lge. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra um tekjur kæranda og að teknu tilliti til framfærslukostnaðar hefði hún átt að getað lagt fyrir 3.252.261 krónu á tímabili greiðsluskjóls en hún hefði aðeins lagt fyrir 325.000 krónur. Umsjónarmaður hafi beðið kæranda um gögn sem staðfestu að hún hafi ekki getað lagt fyrir vegna óvæntra útgjalda á tímabilinu. Hafi kærandi lagt fram gögn sem sýndu fram á að hún hafi greitt 934.383 krónur vegna óvæntra útgjalda á tímabilinu. Séu 864.383 krónur vegna viðgerða á vegum húsfélags kæranda og 70.000 krónur vegna veikinda gæludýrs kæranda. Samanlögð útgjöld og sparnaður nemi því 1.259.383 krónum. Þá standi eftir 1.992.878 krónur sem kærandi hafi ekki gert grein fyrir.

Þrátt fyrir þetta hafi umsjónarmaður sent kröfuhöfum frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings en mótmæli hafi borist frá Landsbankanum og Íslandsbanka vegna þess að kærandi hafði ekki lagt nægilega mikið fé til hliðar á tímabili greiðsluskjóls.

Með vísan til þessa hafi umsjónarmaður talið að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli 15. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 3. júní 2013 var henni gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærandi hafi komið á fund starfsmanns embættisins 12. júní 2013. Þar hafi hún greint frá því að framfærslukostnaður hennar væri hærri en umboðsmaður skuldara gerði ráð fyrir. Hafi hún talið hugsanlegt að leggja fram gögn þar að lútandi, til dæmis húsfélagsgjöld sem væru 20.000 krónur á mánuði. Í ljósi þess hve mál hennar hafði verið lengi í vinnslu hefði hún þó ekki í hyggju að leggja fram frekari gögn.

Með bréfi til kæranda 18. júní 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að sú fjárhæð sem henni hafi verið gert að leggja til hliðar verði lækkuð. Skilja verður þetta svo að hún krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi hafi gert sér vonir um að samið yrði við hana um 2.000.000 króna afskrift á skuldum því það hefði komið henni á réttan kjöl. Fjárhæðin sé ekki há en á þeim tíma er hún sótti um greiðsluaðlögun hefði þetta nægt henni.

Kærandi rökstyður kröfu sína með því að útgjöld hennar hafi verið meiri en umboðsmaður skuldara hefði reiknað með. Í fyrstu hafi ekki gengið illa að safna en það hafi orðið erfiðara með tímanum. Staðreyndin sé sú að virkilega reyni á að geta ekki tekið þátt í því sem veiti upplyftingu og gleði. Sá sem búi einn sé fljótur að einangrast félagslega þegar hann geti ekki tekið þátt í því sem mörgum finnist sjálfsagt. Ef kærandi hefði getað safnað fimm og hálfri milljón hefði hún allt eins getað borgað niður lán á sínum tíma.

Kærandi bendir á að það kosti meira að lifa mannsæmandi lífi en umboðsmaður skuldara geri ráð fyrir. Kostnaður hennar vegna matvæla og hreinlætisvara sé hærri en viðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir og sömuleiðis lyf. Einnig noti kærandi gleraugu og linsur og fari álega til tannlæknis. Önnur útgjöld séu til dæmis rafmagn, hiti og hússjóður að fjárhæð 44.257 krónur á mánuði, greiðslur til SOS barnaþorpa sem nemi 40.800 krónum á ári og fyrir Happdrætti Háskóla Íslands greiði hún 80.600 krónur á ári.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Fyrir liggi að greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í 29 mánuði miðað við tímabilið frá 1. desember 2010 til 30. apríl 2013. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 1. desember 2010 til 30. apríl 2013 að frádregnum skatti 9.837.582
Vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 487.148
Samtals 10.324.730
Mánaðarlegar meðaltekjur 356.025
Framfærslukostnaður á mánuði 165.235
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 190.790
Samtals greiðslugeta í 29 mánuði 5.532.915

 

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærandi hafi haft 356.025 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á 29 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærandi naut greiðsluskjóls.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kæranda með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé að jafnaði játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi mest verið um 165.235 krónur á mánuði á meðan hún hafi notið greiðsluskjóls. Tekið sé mið af heildarfjárhæð útgjalda samkvæmt framfærsluviðmiðum maímánaðar 2013 fyrir einstakling. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kæranda í hag. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærandi hafi haft getu til að leggja fyrir um 5.532.910 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu að fjárhæð 190.790 krónur á mánuði í 29 mánuði.

Kærandi hafi lagt fram gögn hjá umsjónarmanni vegna útgjalda að fjárhæð 484.383 krónur. Væri um að ræða kostnað vegna viðgerða á fasteign og veikinda gæludýrs. Kærandi hafi lýst því yfir að hún hafi lagt fyrir 945.000 krónur en hún hafi ekki lagt fram gögn því til stuðnings. Þá hafi kærandi greint frá því að hún hafi greitt um 20.000 krónur mánaðarlega í húsgjöld. Kærandi hafi heldur ekki framvísað gögnum vegna þess. Eftir standi að kærandi hafi ekki veitt tæmandi skýringar á ráðstöfun 5.048.527 króna á umræddu tímabili.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Með bréfi 7. ágúst 2012 fór umsjónarmaður þess á leit við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli a-liðar 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 18. júní 2013.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kæranda því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hennar var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hefði kærandi átt að leggja til hliðar 5.532.910 krónur frá því að umsókn hennar um greiðsluaðlögun var móttekin hjá umboðsmanni skuldara, eða allt frá 1. desember 2010 til 30. apríl 2013. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að greiðslugeta kæranda hafi að meðaltali verið 190.790 krónur á mánuði í greiðsluskjóli. Kærandi hafi aðeins lagt fram gögn er sýni hvernig hún ráðstafaði 934.383 krónum.

Kærandi kveður framfærslukostnað sinn hærri en neysluviðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. desember 2010 til 31. desember 2010: Einn mánuður
Nettótekjur alls 390.830
   
Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir  
Nettótekjur alls 3.970.897
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali 330.908


Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir  
Nettótekjur alls 4.095.863
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali 341.322


Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. maí 2013: Fimm mánuðir  
Nettótekjur alls 1.711.884
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali 342.377


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 10.169.474
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 338.982

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kæranda og bætur var greiðslugeta kæranda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. desember 2010 til 31. maí 2013: 30 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 10.169.474
Bótagreiðslur 538.365
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 10.707.839
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 356.928
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 165.235
Greiðslugeta kæranda á mánuði 191.693
Alls sparnaður í 30 mánuði í greiðsluskjóli x 191.693 5.750.789

 

Kærandi hefur ekki lagt fram gögn því til stuðnings að hún hafi lagt fyrir í greiðsluskjóli. Verður því að gera ráð fyrir að enginn sparnaður sé fyrir hendi. Fyrir umsjónarmann lagði kærandi gögn er sýndu fram á óvænt útgjöld hennar að fjárhæð 934.383 krónur og verður tekið tillit til þess og við það miðað við úrlausn málsins.

Það er mat kærunefndarinnar að kæranda hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem hún fékk í hendur, að henni hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabilinu og að ráðstafa ekki fjármunum sem söfnuðust fyrir í greiðsluskjóli sem gagnast gætu kröfuhöfum við gerð samnings um greiðsluaðlögun.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Sé tekið tillit til fyrrnefndra óvæntra útgjalda kæranda að fjárhæð 934.383 krónur hefði hún átt að geta lagt til hliðar 4.816.406 krónur á tímabili greiðsluskjóls.

Kærandi hefur lagt fyrir kærunefndina greinargerð þar sem tilgreindur er sá kostnaður sem hún kveður sig þurfa til framfærslu. Að meðaltali er þetta kostnaður að fjárhæð 206.553 krónur á mánuði á meðan framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara gerir ráð fyrir að framfærslukostnaður sé 165.235 krónur á mánuði. Kærandi hefur ekki sýnt fram á þennan kostnað með gögnum.

Jafnvel þótt fallist væri á að framfærslukostnaður kæranda væri 206.553 krónur á mánuði að meðaltali, hefði hún átt að getað lagt til hliðar samkvæmt neðangreindu:

 

Tímabilið 1. desember 2010 til 31. maí 2013: 30 mánuðir
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 10.707.839
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 356.928
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt upplýsingum kæranda 206.553
Greiðslugeta kæranda á mánuði 150.375
Sparnaður í 30 mánuði í greiðsluskjóli x 150.375 4.511.239
Óvænt útgjöld kæranda til frádráttar sparnaði -934.383
Útreiknaður sparnaður á tímabilinu 3.576.856

Útreiknaður sparnaður kæranda í greiðsluskjóli miðað við óstaðfestar forsendur kæranda hefði samkvæmt þessu átt að nema 3.576.856 krónum á 30 mánaða tímabili greiðsluskjóls að teknu tilliti til óvæntra útgjalda. Kærandi hefur ekki sýnt fram á neinn sparnað eins og áður er komið fram.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta