Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 9/2015.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 22. júní 2015

í máli nr. 9/2015:

Húnavirki ehf.

gegn

Húnaþingi vestra

Með kæru 8. júní 2015 kærir Húnavirki ehf. ákvörðun Húnaþings vestra um val á tilboði í leið 7 í útboði „vegna skólaaksturs fyrir Grunnskóla Húnaþings vestra skólaárin 2015-2016 til og með 2018-2019“. Kröfur kæranda eru að kærunefnd útboðsmála ógildi útboðið og beini því til varnaraðila að bjóða þjónustuna út að nýju. Þá er þess krafist að veitt verði álit á skaðabótaskyldu og að varnaraðila gert að greiða málskostnað. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu varnaraðila um afléttingu sjálfkrafa banns við samningsgerð samkvæmt 1. mgr. 94. gr. a. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

            Mál þetta lýtur að útboði þar sem leitað var tilboða í skólaakstur á tíu akstursleiðum innan sveitarfélagsins Húnaþings vestra. Á fylgiskjölum, sem voru hluti útboðsgagna, var að finna leiðarlýsingu og áætlaðan fjöldi barna á hverri akstursleið fyrir sig. Varnaraðili óskaði eftir aðskildum tilboðum í hverja akstursleið. Skyldu tilboðin sett fram sem verð fyrir ekinn kílómetra miðað við þann nemendafjölda sem áætlaður var á leiðinni fyrir næsta skólaár. Aðila greinir á um túlkun á leiðarlýsingu 7 í útboðinu en hún er um Vatnsnes. Kærandi telur að í lýsingunni hafi komið fram að gert væri ráð fyrir fimmtán börnum á leiðinni veturinn 2015-2016. Eftir opnun tilboða hafi varnaraðili aftur á móti haldið því fram að einungis hafi verið boðinn út akstur fyrir ellefu börn á leiðinni. Varnaraðilar benda á að í lýsingunni komi fram á fjórum stöðum að gert sé ráð fyrir ellefu börnum. Þá hafi kærandi ekki boðið bíl sem taki fimmtán börn heldur einungis þrettán.

Hinn 1. júní 2015 tók varnaraðili tilboði Ágústs Þorbjörnssonar í leið 7. Tilboð hans var að fjárhæð 179 krónur fyrir hvern ekinn kílómetra miðað við 1-13 börn en 209 krónur fyrir hvern ekinn kílómetra miðað við 14-16 börn. Tilboð kæranda var að fjárhæð 185 krónur á kílómetra án fyrirvara um fjölda barna.

Niðurstaða

Ágreiningur aðila lýtur að túlkun á lýsingu akstursleiðar 7 í útboðsgögnum. Í aksturslýsingunni voru m.a. töflur þar sem fram kom áætlaður fjöldi nemenda á þeim skólaárum sem útboðið nær til, þ.e. næstu fjögur skólaár. Í öllum tilvikum, m.a. veturinn 2015-2016, var gert ráð fyrir ellefu nemendum á leiðinni. Á öðrum stað í lýsingunni sagði aftur á móti í skrifuðum texta að gert væri ráð fyrir fimmtán börnum á leiðinni veturinn 2015-2016. Á það verður fallist að framangreint misræmi feli í sér galla á útboðsgögnum. Það getur þó einungis valdið ógildi ef það var til þess fallið að hafa áhrif á tilboðsgerð.

Eins og áður segir bauð Ágúst Þorbjörnsson lægsta verð í leið 7 miðað við 1-13 börn. Tilboð hans fyrir 14-16 börn var aftur á móti 209 krónur fyrir hvern ekinn kílómetra. Ágúst bauð tvo bíla, annan skráðan fyrir 13 farþega en hinn fyrir 16 farþega. Í tilboði kæranda var einungis eitt verð, 185 krónur fyrir hvern ekinn kílómetra. Kærandi bauð að sama skapi einungis eina bifreiða, skráða fyrir 13 farþega. Að þessu virtu verður ekki séð að framangreint misræmi í lýsingu akstursleiðar 7 hafi haft áhrif á tilboðsgerð kæranda. Þá verður ekki á það fallist að útboðsgögn hafi verið óskýr um hvaða leið skyldi ekin. Með vali á tilboði nefnds Ágústs tók varnaraðili þannig hagkvæmasta tilboðinu sem barst í leið 7.

Samkvæmt framangreindu er það álit nefndarinnar að á þessu stigi málsins liggi ekki fyrir verulegar líkur að broti gegn lögum um opinber innkaup sem leitt geti til ógildingar ákvarðana eða annarra athafna varnaraðila samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga um opinber innkaup, sbr. 15. gr. laga nr. 58/2013. Verður því fallist á kröfu varnaraðila um að stöðvun samningsgerðar verði aflétt samkvæmt 2. mgr. 94. gr. a. laga um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013.

Ákvörðunarorð:

Aflétt er stöðvun samningsgerðar varnaraðila Húnaþings vestra og Ágústs Þorbjörnssonar um leið 7, Vatnsnes, á grundvelli útboðs „vegna skólaaksturs fyrir Grunnskóla Húnaþings vestra skólaárin 2015-2016 til og með 2018-2019“.

                                                                                    Reykjavík, 22. júní 2015.

                                                                                    Skúli Magnússon

                                                                                    Stanley Pálsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta