Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 69/2014

Úrskurður

 Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 16. júní 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 69/2014.

 

1. Málsatvik og kæruefni

 Málsatvik eru þau að með tölvupósti þann 13. júní 2014 tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnuninni væri óheimilt að greiða atvinnuleysisbætur umfram þriggja ára hámarksbótatímabils atvinnuleitenda, sbr. 29. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, en kærandi hafði skrifað undir samning um eigið frumkvöðlastarf sem telst vinnumarkaðsúrræði þann 15. maí 2014, þegar bótaréttur hans var fullnýttur. Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 23. júlí 2014. Kærandi fer fram á að Vinnumálastofnun efni samninginn um eigið frumkvöðlastarf að fullu. Vinnumálastofnun telur að ekki sé lagaheimild til frekari greiðslna atvinnuleysistrygginga til kæranda þar sem bótatímabil hans sé fullnýtt.

Kærandi sótti síðast um greiðslur atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun með umsókn þann 5. febrúar 2014. Kærandi hafði áður verið skráður atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun og fékk hann greiddar atvinnuleysistryggingar árin 2009, 2010, 2011 og 2012. Hafði kærandi fengið greitt samtals 33,34 mánuði þegar hann var afskráður um mitt ár 2012. Þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur að nýju í febrúar 2014 var það mat Vinnumálastofnunar að hann hefði ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils, sbr. 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Fékk kærandi greiddar atvinnuleysisbætur þar til bótarétti hans var lokið þann í maí 2014.

Með bréfi frá matshóp á vegum Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Vinnumálastofnunar og Starfs – vinnumiðlunar og ráðgjafar, dags. 29. apríl 2014, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um þátttöku í verkefninu eigið frumkvöðlastarf uppfyllti viðmið um þátttöku í verkefninu. Þann 15. maí 2014 skrifaði kærandi undir samning um eigið frumkvöðlastarf, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 12/2009 um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, með síðari breytingum. Með tölvupósti til Vinnumálastofnunar þann 12. júní 2014 greinir kærandi frá því að hann hafi fengið þær upplýsingar að hann myndi fá greiðslur frá Vinnumálastofnun að fjárhæð 180.000 kr. á mánuði frá 28. apríl 2014 til 28. júlí 2014. Síðar hafi komið í ljós að hann ætti ekki rétt á framangreindum greiðslum. Kærandi gerir athugasemd við það og óskar skýringa frá stofnuninni. Með tölvupósti þann 13. júní 2014 er kæranda greint frá því að bótatímabil hans hafi verið fullnýtt þann 12. maí 2014 og óheimilt sé að greiða atvinnuleysisbætur umfram þriggja ára hámarksbótatímabil atvinnuleitenda, sbr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 Í kæru segir kærandi að hann hafi verið að setja á laggirnar fyrirtæki sem bjóði upp á B. Hann hafi persónulega lagt hátt í tvær milljónir króna í fyrirtækið fyrir utan margar stundir af ólaunaðri vinnu. Hann hafi reynt að sækja sér ýmsa styrki til þessa verkefnis og loks hafi hann fengið „styrk til eigin frumkvöðlastarfs“ sem staðfestur hafi verið með undirrituðum samningi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands 15. maí 2014. Þessi samningur hljóði upp á 180.000 kr. á mánuði í þrjá mánuði. Fljótlega eftir að samningurinn hafi verið undirritaður hafi starfsmaður Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands tjáð kæranda að Vinnumálastofnun væri að taka fyrir þennan styrk. Þar sem kærandi sé „grandvar maður“ hafi hann viljað tvítryggja að umræddur samningur stæði og hafi hringt í Vinnumálastofnun til þess að fá staðfest að hann fengi greitt samkvæmt skilmálum samningsins. Þetta hafi hann gert 27. maí 2014 og hafi fengið það staðfest að hann fengi greiddan umsaminn styrk. Í framhaldinu hafi hann ráðið til sín starfsfólk, sótt um byggingarleyfi og keypt efnivið í góðri trú um að hann fengi þennan styrk.

Hann hafi svo einungis fengið 59.774 kr. greiddar frá Vinnumálastofnun. Hann hafi haft samband við Vinnumálastofnun þar sem honum hafi verið tjáð að hann ætti ekki rétt á meiru og fengi ekkert meira. Hann hafi beðið um skriflegar útskýringar á þessu sem hann hafi fengið frá lögfræðingi Vinnumálastofnunar sem hafi tjáð honum að hann hefði átt að kynna sér þetta sjálfur í gegnum heimasíðu stofnunarinnar.

Að mati kæranda sé ekki við hann að sakast ef „hliðarákvæði“, sem honum hafi reyndar ekki verið kunnugt um og hann hafi ekki fengið upplýsingar um þegar hann hafi falast eftir þeim, verði til þess að ógilda samninginn. Það sé ekki ásættanlegt að starfsmenn ríkisstofnana gefi rangar upplýsingar og kærandi sitji uppi með fjárhagslegt tjón á eftir. Nú sé allt komið á fullt í fyrirtækinu og hann sé mjög skuldsettur vegna mistaka starfsmanna Vinnumálastofnunar sem virðist ekki bera ábyrgð á orðum sínum.

Kærandi segir að samninga beri að virða. Það sé ekki hægt að sakast við hann vegna mistaka Vinnumálastofnunar og annarra. Kærandi vísar í 9. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir og meðalhólfsregluna.

 Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 28. ágúst 2014, segir að þegar kærandi hafi skrifað undir samning um þróun eigin viðskiptahugmyndar þann 15. maí 2014 hafi láðst að benda honum á að bótarétti hans væri að ljúka. Bótaréttur kæranda hafi þó komið fram á greiðsluseðlum stofnunarinnar til hans, meðal annars dags. 14. mars 2014. Þann 30. maí 2014 hafi kærandi fullnýtt bótarétt sinn og Vinnumálastofnun hafi því ekki haft lagaheimild til að greiða honum atvinnuleysisbætur til lengri tíma á sama bótatímabili, sbr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hins vegar hafi kærandi getað nýtt sér önnur úrræði sem umræddur samningur hafi kveðið á um, til að mynda fræðslu og handleiðslu Nýsköpunarmiðstöðvar, ásamt því að eiga kost á því að sækja námskeið á þeirra vegum án endurgjalds.

Í VI. kafla laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um það tímabil sem atvinnuleysisbætur séu greiddar. Komi fram í 29. gr. laganna að atvinnuleitandi geti í mesta lagi átt rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga í samfellt þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun hafi tekið við umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Þá segi í 4. mgr. 29. gr. laganna að tímabilið haldi áfram að líða þegar hinn tryggði sæki að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Lengd þessa tímabils sem atvinnuleysisbætur séu greiddar sé því þrjú ár.

Í 62. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um heimildir til að greiða styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna vinnumarkaðsúrræða. Í 2. mgr. 62. gr. sé kveðið á um að styrkir skuli greiðast á grundvelli reglugerðar. Í 5. málsl. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 12/2009, sem fjallar um þróun eigin viðskiptahugmyndar, segi að Vinnumálastofnun greiði atvinnuleitanda á sama tíma og á samningi standi atvinnuleysisbætur sem hann eigi rétt til á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar. Af þessu megi ráða að kærandi hafi fullnýtt bótarétt sinn og hafi Vinnumálastofnun ekki lagaheimild til að greiða honum atvinnuleysisbætur til lengri tíma á sama bótatímabili, sbr. lög um atvinnuleysistryggingar.

 Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. september 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Athugasemdir kæranda, dags. 15. september 2014, bárust úrskurðarnefndinni þann sama dag.

Þar ítrekar kærandi fyrri sjónarmið og fer jafnframt fram á það að honum verði greiddur styrkurinn auk skaðabóta fyrir það fjárhagslega tjón sem Vinnumálastofnun hafi valdið.

 

2. Niðurstaða

 Í 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um það hversu lengi atvinnuleysisbætur eru greiddar og hljóðaði ákvæðið svo á árinu 2014:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum getur átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögum þessum. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta skv. X. kafla telst hluti tímabilsins [sem og sá tími er viðurlög skv. XI. kafla standa yfir].1) Hið sama á við um þann tíma þegar greiddar eru hlutfallslegar atvinnuleysisbætur, sbr. 17. eða 22. gr., og um þann tíma er tilfallandi veikindi standa yfir skv. 5. mgr. 14. gr.

Af gögnum málsins má ráða að ágreiningslaust er að kærandi lauk þriggja ára bótatímabili í maí 2014. Kærandi á því ekki rétt á frekari bótum samkvæmt 29. gr. laganna. Kærandi krefst þess hins vegar að Vinnumálastofnun efni samninginn um eigið frumkvöðlastarf að fullu í ljósi þess að hann hafi fengið rangar upplýsingar frá stofnuninni.

Kærandi skrifaði undir samning um eigið frumkvöðlastarf þann 15. maí 2014. Í samningum kemur fram að verkefnið hafi hafist 28. apríl 2014 og gert sé ráð fyrir að því ljúki 28. júlí 2014. Mælt er fyrir um fyrirkomulag framangreinds vinnumarkaðsúrræðis í 7. gr. reglugerðar nr. 12/2009 um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki. Í 4. málsl. 2. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar kemur fram að Vinnumálastofnun greiði atvinnuleitanda, á sama tíma og úrræði samkvæmt greininni er nýtt, atvinnuleysisbætur sem hann eigi rétt til á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun er því einungis heimilt að greiða atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæðinu ef réttur til greiðslu bóta er til staðar samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, meðal annars framangreindri 29. gr. laganna.

Viðurkennt er af hálfu Vinnumálastofnunar kærandi hafi ekki verið upplýstur um að bótarétti hans væri að ljúka þegar hann skrifaði undir framangreindan samning um eigið frumkvöðlastarf. Hins vegar eru greiðsluseðlar stofnunarinnar aðgengilegir á vefsvæðinu „Mínum síðum“ hjá stofnuninni og þar má finna upplýsingar um nýttan og ónýttan bótarétt. Þannig kemur fram á greiðsluseðli til kæranda, dags. 14. mars 2014, að ónýttur réttur á bótatímabili sé 1,91 mánuður.

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða fellst á að rétt hefði verið að leiðbeina kæranda um að bótarétti hans væri að ljúka þegar hann sótti um þátttöku í verkefninu um eigið frumkvöðlastarf, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin telur hins vegar að framangreindur annmarki á málsmeðferð Vinnumálastofnunar veiti kæranda ekki rétt til þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur eigi hann ekki rétt til slíkra greiðslna lögum samkvæmt. Þá mátti kærandi vera ljóst með hliðsjón af greiðsluseðlum Vinnumálastofnunar að bótaréttur hans væri nánast fullnýttur.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að Vinnumálastofnun hafi ekki verið heimilt að greiða kæranda frekari atvinnuleysisbætur eftir að hann fullnýtti bótarétt sinn í maí 2014. Ákvörðun stofnunarinnar er því staðfest.


Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 13. júní 2014 í máli A, þess efnis að greiða honum ekki atvinnuleysisbætur umfram þriggja ára hámarksbótatímabil atvinnuleitenda samkvæmt 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006, er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta