Nr. 288/2018 - Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 12. júlí 2018 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 288/2018
í stjórnsýslumáli nr. KNU18050033
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 14. maí 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. maí 2018, um að synja honum um dvalarleyfi hér á landi.
Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar frá 7. maí 2018 verði ógilt en að málinu verði vísan aftur til stofnunarinnar til fullnægjandi efnismeðferðar vegna nýrra gagna.
Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um dvalarleyfi vegna hjúskapar hér á landi þann 7. janúar 2013, sem synjað var með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 31. júlí 2015. Ákvörðun Útlendingastofnunar var staðfest með úrskurði kærunefndar útlendingamála, uppkveðnum 11. febrúar 2016. Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd þann 10. mars 2016. Umsókninni var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. september 2016, sem staðfest var með úrskurði kærunefndar útlendingamála þann 27. apríl 2017. Kærandi lagði fram umsókn um dvalarleyfi þann 22. maí 2017 á grundvelli 72. eða 78. gr. laga um útlendinga. Var kæranda veitt heimild til að dveljast á landinu meðan umsókn hans væri til meðferðar hjá Útlendingastofnun. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. maí 2018. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 14. maí 2018. Kærunefnd hefur borist greinargerð kæranda, dags. 14. maí 2018, ásamt fylgigögnum.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kærandi hafi eignast barn hér á landi árið [...] með [...]. Kærandi hafi reglulega umgengni við barnið samkvæmt umgengnissamningi. Undir meðferð málsins hafi komið fram upplýsingar um að kærandi væri í sambúð með [...] hér á landi og að þau hafi eignast barn saman árið [...]. Að því er varðar umsókn um dvalarleyfi fyrir foreldra, sbr. 72. gr. laga um útlendinga, kom fram að bæði börn kæranda væru börn EES-borgara sem hefðu rétt til dvalar en ekki dvalarleyfi. Gæti kærandi því ekki byggt rétt sinn á 72. gr. laga um útlendinga.
Þar sem kærandi væri í sambúð með EES-borgara tók Útlendingastofnun til sérstakrar skoðunar hvort kærandi gæti byggt rétt sinn til dvalarleyfis á 82. gr. laga um útlendinga, sem veitir maka eða sambúðarmaka EES-borgara rétt til dvalarleyfis ef aðilar eru í skráðri sambúð eða sambúð sem staðfest sé með öðrum hætti. Vísaði Útlendingastofnun til þess að kærandi hafi gengið í hjúskap með [...] og væri samkvæmt Þjóðskrá Íslands enn skráður í hjúskap. Kærandi gæti því ekki byggt rétt sinn á sambúð með annarri konu meðan hann væri ekki lögskilinn.
Því næst tók Útlendingastofnunar til úrlausnar umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Leit stofnunin til þess að kærandi hafi aldrei haft dvalar- eða atvinnuleyfi hér á landi. Kærandi ætti dóttur í heimaríki fædda árið 2008 en tvö börn og sambýliskonu hér á landi. Að mati Útlendingastofnunar gætu fjölskyldutengsl kæranda hér á landi ekki ein og sér orðið grundvöllur dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 5. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Önnur tengsl kæranda við landið væru heldur ekki þess eðlis að þau féllu undir 78. gr. laga um útlendinga og þá ættu umönnunarsjónarmið ekki við í málinu. Þegar litið væri á málið í heild var það mat Útlendingastofnunar að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 78. gr. laga um útlendinga fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi byggir á því að í ákvörðun Útlendingastofnunar séu augljósar rangfærslur um aðstæður hans og niðurstaða byggð á þeim. Þannig sé gengið út frá því að kærandi sé enn í hjúskap við fyrrverandi maka þótt hann hafi fengið skilnað þann [...]. Kærandi bendir á að í hinni kærðu ákvörðun komi fram að láðst hafi að óska eftir upplýsingum um lögskilnað við fyrrverandi maka kæranda. Engu að síður sé fullyrt í ákvörðuninni að lögskilnaður hafi ekki farið fram. Byggir kærandi á því að með þessu hafi Útlendingastofnun brotið gegn rannsóknarskyldu sinni við meðferð málsins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hafi Útlendingastofnun ætlað að byggja niðurstöðu í málinu á því hvort kærandi uppfyllti 82. gr. laga um útlendinga hafi stofnuninni borið að óska eftir fullnægjandi upplýsingum um það atriði. Kæranda hafi ekki verið gefinn kostur á að upplýsa um lok hjúskapar við fyrrverandi maka heldur hafi Útlendingastofnun gengið út frá því sem gefnu að hjúskapur við fyrri maka væri enn í gildi, þótt stofnunin hafi engin gögn haft önnur en skráningu fyrrverandi maka í Þjóðskrá. Vísar kærandi til þess að hjúskapur við fyrrverandi maka hafi gengið í gegn í heimaríki hans og því hafi þurft lögskilnað þar í landi.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja kæranda um rétt til dvalar hér á landi á grundvelli 72. gr., 82. gr. og 78. gr. laga um útlendinga.
Í VIII. kafla laga um útlendinga eru ákvæði um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar, t.d. fyrir foreldra, sbr. 72. gr. sömu laga. Í 69. gr. laganna eru rakin skilyrði dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar. Samkvæmt 1. mgr. getur nánasti aðstandandi íslensks eða norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 61., 63., 70., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla.
Líkt og rakið hefur verið á kærandi barn hér á landi fætt árið [...], en móðir barnsins mun vera [...]. Þá á kærandi barn hér á landi með [...]sem fætt er árið [...]. Ljóst er að börn kæranda dvelja ekki hér á landi grundvelli dvalarleyfis heldur hafa þau rétt til dvalar sem aðstandendur EES-borgara sem búsettir eru hér á landi, sbr. XI. kafla laga um útlendinga. Ákvæði VIII. kafla laga um útlendinga um fjölskyldusameiningu gilda ekki um fjölskyldusameiningu EES-borgara sem búsettir eru hér á landi. Getur kærandi því ekki átt rétt á dvalarleyfi á grundvelli 72. gr. laga um útlendinga.
Í hinni kærðu ákvörðun tók Útlendingastofnun til skoðunar hvort kærandi gæti átt rétt til dvalar hér á landi á grundvelli XI. kafla laga um útlendinga sem aðstandandi EES-borgara þar sem hann væri í sambúð með [...] hér á landi. Í 1. mgr. 82. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að aðstandandi EES-eða EFTA-borgara sem fellur undir ákvæði XI. kafla hafi rétt til að dveljast með honum hér á landi. Samkvæmt a-lið 2. mgr. 82. gr. laganna er aðstandandi EES- og EFTA-borgara maki og sambúðarmaki ef aðilar eru í skráðri sambúð eða sambúð sem er staðfest með öðrum hætti.
Útlendingastofnun synjaði kæranda um rétt til dvalar samkvæmt XI. kafla laga um útlendinga á grundvelli þess að hann væri skráður í hjúskap í Þjóðskrá með [...]. Gæti kærandi ekki byggt rétt á sambúð með annarri konu meðan hann væri ekki lögskilinn. Fyrir kærunefnd hefur kærandi lagt fram vottorð um skilnað útgefið af dómstól [...], dags. 26. febrúar 2018, vegna áðurnefnds hjónabands sem hann gekk í þar í landi árið 2012. Þá hefur kærandi lagt fram hjónavígsluvottorð útgefið af sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, dags. 28. júní 2018, þar sem fram kemur að hann hafi gengið í hjónaband með [...] sambýliskonu sinni. Þar sem nú liggur fyrir að kærandi er maki EES-borgara sem er búsettur hér á landi hefur hann rétt til dvalar sem aðstandandi hennar, sbr. 82. gr. laga um útlendinga. Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Kærandi hefur rétt til dvalar á grundvelli 82. gr. laga um útlendinga.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The appellant has a right of residence according to Art. 82 of the Act on Foreigners no. 80/2016.
Anna Tryggvadóttir Gunnar Páll Baldvinsson