Hoppa yfir valmynd

Nr. 294/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 3. september 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 294/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20070003

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 3. júlí 2020 kærði […], fd. […], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. júní 2020, um að synja henni um fjölskyldusameiningu á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hennar verði felld úr gildi og að lagt sé fyrir stofnunina að taka málið til nýrrar meðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Umsókn kæranda um fjölskyldusameiningu er byggð á því að bróðir hennar njóti alþjóðlegrar verndar hér á landi, en hann hafi alið hana upp og fari nú með forsjá hennar. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. júní 2020, var umsókn kæranda synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar þann 3. júlí sama ár. Þann 20. júlí 2020 barst kærunefnd greinargerð frá kæranda ásamt fylgiskjölum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að manni að nafni […] (hér eftir M) hafi verið veitt alþjóðleg vernd hér á landi. Kærandi hafi í kjölfarið sótt um fjölskyldusameiningu við M þann 25. janúar 2020 og lagt fram ýmis gögn til stuðnings umsókn sinni, m.a. tveimur kennivottorðum sem séu bæði útgefin sama dag, 13. maí 2019. Í öðru vottorðinu sé faðir kæranda sá sami og faðir M en í hinu sé M skráður sem faðir kæranda. Þá hafi kærandi skilað inn þremur yfirlýsingum um stöðu hennar í [...] ásamt þýðingum á skjölunum. Ein þeirra sé yfirlýsing móður kæranda sem lýsi því yfir að sonur hennar, M, fari með forsjá kæranda. Önnur yfirlýsing sé frá kæranda sjálfri þar sem hún lýsi því yfir að M fari með forsjá hennar. Þá sé yfirlýsing frá M og eiginkonu hans sem lýsi því yfir að þau fari með forsjá kæranda. Að auki hafi kærandi skilað inn þýðingu á bréfi sem hafi virst vera þýðing á samskiptum milli eiginkonu M og dómstóla í […], heimabæ kæranda, varðandi fjölskyldustöðu kæranda. Í þýðingu komi fram að óskað sé eftir staðfestingu á því að M og eiginkona hans fari með umönnun kæranda. Kærandi hafi þó ekki lagt fram frumrit af þessum samskiptum.

Í ákvörðuninni kemur fram að M hafi komið til landsins þann 3. júlí 2018 en öll gögn sem kærandi hafi lagt fram til stuðnings umsókn sinni um fjölskyldusameiningu á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga séu dagsett árið 2019. Þá sé ljóst af gögnum sem lögð hafi verið fram að ekki sé um formlega ættleiðingu að ræða heldur hafi M séð um uppeldi systur sinnar ásamt móður þeirra eftir að faðir þeirra hafi látist árið 2009. Kærandi hafi því ekki með réttmætum hætti sýnt fram á að bróðir hennar, M, hafi ættleitt hana með því móti að hún geti fallið undir ákvæði laga um útlendinga um fjölskyldusameiningar flóttamanna. Var umsókn hennar um fjölskyldusameiningu því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til þess að M njóti alþjóðlegrar verndar hér á landi. Eiginkona M og börn þeirra fjögur hafi þegar hlotið leyfi til fjölskyldsameiningar og móðir M hafi nú sótt um slíkt hið sama. Kærandi sé systir M en þar sem hún sé barn að aldri hafi M farið með forsjá hennar og alið hana upp þar sem móðir þeirra sé á gamalsaldri. Slíkt fyrirkomulag sé ekki óalgengt eða óeðlilegt í [...]. Fram kemur í greinargerð kæranda að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar hafi byggst á því að ekki hafi verið heimilt að veita kæranda leyfi til fjölskyldusameiningar á þeim grundvelli að 3. mgr. 71. gr. laga um útlendinga væri ekki uppfyllt. Kærandi hafi lagt fram gögn sem sýni fram á að hún hafi sannarlega verið í umsjá M, eftir því sem tíðkist í [...]. Lagt hafi verið til grundvallar í ákvörðun Útlendingastofnunar að M hafi séð um uppeldi systur sinnar síðan faðir þeirra hafi látist árið 2009. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun nægi það ekki til að uppfylla hugtaksskilyrði 3. mgr. 71. gr. laga um útlendinga. Framangreindri túlkun sé mótmælt og því haldið fram að um sé að ræða eins formlega ráðstöfun og sanngjarnt er að ætlast til, miðað við þær aðstæður sem ríki í [...].

Kærandi telur að jafnframt sé heimilt að veita henni leyfi til fjölskyldusameiningar með vísan til 5. mgr. 71. gr. laga um útlendinga sem kveði á um heimild til að víkja frá skilyrðum 71. gr. sömu laga enda krefjist hagsmunir barnsins þess. Það eigi t.d. við þegar barn sé í varanlegu fóstri. Óumdeilanlega hafi kærandi verið í varanlegu fóstri hjá M sem nú sé handhafi alþjóðlegrar verndar hér á landi. Þá beri að líta til þeirra sérstöku aðstæðna sem uppi séu í málinu þar sem fyrirséð sé að móðir kæranda muni koma til landsins á grundvelli fjölskyldusameiningar. Kærandi, sem sé undir lögaldri, yrði þá eini fjölskyldumeðlimurinn sem væri eftir í [...]. Í ljósi þess sé eina tæka niðurstaðan að mati kæranda sú að beita undantekningaákvæðum laganna og veita henni dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar svo hún geti fylgt fjölskyldu sinni til Íslands. Fallist kærunefnd ekki á framangreindar röksemdir og telji að umsókn kæranda sé nátengd stöðu móður hennar sé þess farið á leit að kærunefnd vísi málinu til Útlendingastofnunar til nýrrar meðferðar. Með vísan til framangreinds, sem og með hliðsjón af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar og hagsmunum þeirra sem í húfi séu, sé rétt að ógilda ákvörðun Útlendingastofnunar.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér á landi, hafi samkvæmt umsókn rétt til að fá hér alþjóðlega vernd. Mælt er fyrir um réttaráhrif alþjóðlegrar verndar í 45. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. á maki eða sambúðarmaki einstaklings sem nýtur alþjóðlegrar verndar og börn hans yngri en 18 ára án maka eða sambúðarmaka einnig rétt á alþjóðlegri vernd nema sérstakar ástæður mæli því í mót.

Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. febrúar 2019, var M veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir umsókn sína á því að M fari með forsjá hennar og hafi alið hana upp þar sem móðir þeirra sé á gamalsaldri og faðir þeirra látinn. Til stuðnings umsókn sinni hefur kærandi lagt fram tvö kennivottorð, bæði útgefin 13. maí 2019, þar sem skráður faðir kæranda er annars vegar sá sami og faðir M og hins vegar þar sem M er skráður faðir kæranda. Jafnframt lagði kærandi fram yfirlýsingar, m.a. frá móður sinni, þar sem því er lýst yfir að M fari með forsjá kæranda. Þá lagði kærandi fram skjal sem sýnir samskipti eiginkonu M við dómstóla varðandi fjölskylduhagi kæranda.

Í 71. gr. laga um útlendinga er fjallað um veitingu dvalarleyfa fyrir börn. Skilyrði fyrir því að dvalarleyfi verði veitt á grundvelli ákvæðisins eru m.a. að foreldri þess hafi dvalarleyfi á grundvelli þeirra ákvæða sem tilgreind eru í 1. mgr. ákvæðisins. Í 3. mgr. segir að sé um ættleiðingu að ræða þurfi henni að vera lokið áður en umsókn sé lögð fram og skuli hún vera í samræmi við íslensk lög þess efnis. Í 5. mgr. ákvæðisins er þó heimild til að víkja frá skilyrðum ákvæðisins ef sérstaklega stendur á, enda krefjist hagsmunir barnsins þess. Fram kemur í ákvæðinu að það eigi t.d. við í þeim tilvikum þar sem barnaverndarnefnd hefur tekið yfir forsjá barns eða ef barn er í varanlegu fóstri. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga kemur m.a. fram að stjórnvöldum sé veitt þessi undanþáguheimild til að bregðast við sérstökum aðstæðum þar sem hagsmunir barns krefjast. Heimildin sé sett til verndar hagsmunum barna en þar sem um sé að ræða undanþáguheimild beri að skýra hana þröngt.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var eins og áður greinir einungis tekin afstaða til þess hvort kærandi ætti rétt á alþjóðlegri vernd á grundvelli fjölskyldusameiningar við M, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga, með þeirri niðurstöðu að synja henni um vernd á grundvelli ákvæðisins. Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda var þannig ekki fjallað um hvort kærandi gæti átt rétt á dvalarleyfi á grundvelli 71. gr. laga um útlendinga og hvort 5. mgr. 71. gr. heimili stjórnvöldum að víkja frá öðrum ákvæðum 71. gr., svo sem þeim skilyrðum sem 3. mgr. setur varðandi ættleiðingu. Að mati kærunefndar bar stofnuninni að meta sérstaklega hvernig 71. gr., einkum sjónarmið 5. mgr. ákvæðisins, horfa við aðstæðum kæranda, og við það mat líta til skyldu stjórnvalda til að hafa hagsmuni barns að leiðarljósi í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga og 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Horfir kærunefnd í þessu sambandi til þess að samkvæmt gögnum málsins hefur móðir kæranda lagt fram umsókn um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar við M. Er sú umsókn til meðferðar hjá Útlendingastofnun. Komi til þess að móður kæranda verði veitt dvalarleyfi hér á landi er hugsanlegt að kærandi, sem er á barnsaldri, verði án fjölskyldu í [...]. Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndar að ekki hafi farið fram heildstætt mat á þeim þáttum málsins sem ráðið geta niðurstöðu.

Þá telur kærunefnd að Útlendingastofnun hefði mátt skoða betur hvort tilefni væri til að afgreiða mál kæranda samhliða máli móður hennar og meta hvort heimilt væri, í því samhengi og með hliðsjón af hagsmunum kæranda í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga, að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laganna.

Verður samkvæmt framangreindu að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir Útlendingastofnun að taka málið til nýrrar meðferðar.  

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration in the case of the appellant is vacated. The Directorate is instructed to re-examine her case.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                      Bjarnveig Eiríksdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta