Mál nr. 527/2019
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Beiðni um endurupptöku máls nr. 527/2019
Miðvikudaginn 6. maí 2020
A
gegn
Sjúkratryggingum
Íslands
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir. Með rafrænu erindi, mótteknu 7. apríl 2020, óskaði A, eftir endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem staðfest var ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 15. nóvember 2019 um að synja umsókn kæranda um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Sjúkratryggingum Íslands var tilkynnt um að kærandi hefði orðið fyrir slysi við vinnu X með tilkynningu, dags. 4. október 2019. Sjúkratryggingar Íslands höfnuðu bótaskyldu með bréfi, dags. 15. nóvember 2019. Í bréfinu segir að miðað við fram komnar upplýsingar í málinu og eðli áverka kæranda liggi ekki fyrir að um skyndilegt utanaðkomandi atvik hafi verið að ræða heldur stafi einkennin af innri verkan við áreynslu á líkama. Umrætt atvik teljist því ekki slys í skilningi laga um slysatryggingar almannatrygginga og skilyrði til greiðslu bóta séu því ekki uppfyllt.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. desember 2019. Að lokinni gagnaöflun úrskurðaði nefndin í málinu þann 1. apríl 2020. Með úrskurðinum staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja kæranda um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga.
II. Sjónarmið kæranda
Í tölvupóstum kæranda vegna beiðni um endurupptöku segir kærandi að hann hafi verið að lyfta sjúkrarúmi á hjólum sem búið hafi verið að setja á bretti með fylgihlutum. Við það hafi losnað hjól sem virðist hafa verið fast á milli teina/rimla á brettinu og þá hafi kærandi fundið eins og smell í bakinu. Kærandi bendir á að um sé að ræða bretti úr timbri og hjólið hafi lent þar á milli rimlanna. Fram kemur að hljólið hafi losnað skyndilega þegar rúminu hafi verið lyft. Það sé til myndband af þessu hjá X sem gott væri að úrskurðarnefndin fengi og tæki til skoðunar. Kærandi telji best að hann komi til að sviðsetja/leika þetta fyrir úrskurðarnefndina.
III. Niðurstaða
Óskað er eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. X. Með úrskurðinum var ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja umsókn kæranda um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga staðfest. Af beiðni um endurupptöku má ráða að þess sé óskað að fallist verði á að um slys í skilningi laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga hafi verið að ræða.
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Aðili máls getur einnig átt rétt á endurupptöku máls á grundvelli annarra ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar, til að mynda ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á röngum lagagrundvelli og/eða rangri túlkun lagaákvæða.
Í beiðni um endurupptöku kemur fram ný lýsing kæranda á atvikinu X. Engin gögn fylgdu beiðninni en úrskurðarnefndinni er bent á að það sé til myndband hjá X.
Að mati úrskurðarnendar velferðarmála verður ekki ráðið af gögnum málsins að niðurstaða nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993. Þá verður ekki séð að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar. Kærandi lýsir atvikinu með öðrum hætti í endurupptökubeiðni en gert var í öðrum gögnum málsins og hefur ekki lagt fram nein gögn til staðfestingar því að sú lýsing sé rétt.
Með hliðsjón af framangreindu er beiðni kæranda um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 527/2019 synjað.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Beiðni A, um endurupptöku máls nr. 527/2019 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, er synjað.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir