Hoppa yfir valmynd

Nr. 127/2021 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 25. maí 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 127/2021

í stjórnsýslumálum nr. KNU21010032 og KNU21010033

 

Kærur […] og […]

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með kæru, dags. 29. janúar 2021, kærðu […] (hér eftir K), fd. […], ríkisborgari Kanada og […] (hér eftir M), fd. […], ríkisborgari Bandaríkjanna, ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 20. janúar 2021, um að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af greinargerð má ráða að kærendur krefjist þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt dvalarleyfi samkvæmt 78. gr. laga um útlendinga. Fyrrgreindar ákvarðanir voru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og bárust kærurnar fyrir lok kærufrests.

Í ljósi þess að málsatvik, málsástæður og kröfur kærenda í málum KNU21010032 og KNU21010033 eru sambærilegar, kærendur eru í hjúskap og eru með sama umboðsmann, auk þess sem ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum þeirra eru að mestu leyti samhljóða, verður kveðinn upp einn úrskurður í báðum málum.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur sóttu um dvalarleyfi hér á landi þann 3. september 2020 á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Með ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 20. janúar 2021, var umsóknum þeirra synjað. Kærendur kærðu ákvarðanirnar til kærunefndar útlendingamála þann 29. janúar 2021. Þann 4. febrúar 2021 óskuðu kærendur eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðunum Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 9. febrúar 2021 féllst kærunefnd á þá beiðni. Greinargerð kærenda barst kærunefnd þann 12. febrúar 2021 ásamt fylgigögnum. Þann 14. mars 2021 bárust frekari gögn frá kærendum.

III.          Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar er fjallað um 78. gr. laga um útlendinga og 20. gr. reglugerðar um útlendinga, með síðari breytingum. Í þeim ákvörðunum kemur fram að umsóknir kærenda væru byggðar á menningarlegum tengslum við landið og að þau vildu setjast í helgan stein hér á landi, en meðfylgjandi umsóknum þeirra væru umsagnir til stuðnings útgáfu dvalarleyfis. Kærendur hefðu aldrei verið með dvalarleyfi á Íslandi en þau hefðu komið fyrst til landsins vegna listsköpunarverkefnis […] árið 2008 og komið árlega til Íslands eftir það. Var það mat Útlendingastofnunar þegar litið væri á gögn málsins og aðstæður kærenda í heild að þau hefðu ekki svo sérstök tengsl við Ísland að það heimilaði beitingu 78. gr. laga um útlendinga. Var umsóknum þeirra því synjað.

IV.       Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð vísa kærendur til þess að þau hafi fest kaup á íbúð í Reykjavík í byrjun árs 2020, sbr. meðfylgjandi kaupsamning og afsal til staðfestingar á kaupum. Séu kærendur að vinna að fjölbreyttum samvinnuverkefnum með íslenskum listamönnum sem styðji við þau og vilji gjarnan hafa þau hér á landi því það auðveldi samstarfið mikið og geri ferlið árangursríkara. K sé margverðlaunuð, heimsþekkt skáld og fornfræðingur og M sé myndlistarmaður, tónlistarmaður, hönnuður og helsti samstarfsmaður K. Byggja kærendur á að þau hafi dvalið mikið löglega á Íslandi þrátt fyrir að hafa ekki haft dvalarleyfi en þau hafi dvalið árlega á Íslandi í meira en áratug. Er vísað til þess að þau hafi komið hingað til lands í lok ágúst 2020 og dvalið hér síðan.

Kærendur byggja á því að þau uppfylli skilyrði samkvæmt 78. gr. laga um útlendinga til útgáfu dvalarleyfa og að í hinni kærðu ákvörðun hafi ekki farið fram heildstætt mat á tengslum þeirra við landið. Kærendur séu barnlaus hjón um […] sem hvorugt eigi foreldra á lífi, framfærsla þeirra sé trygg og þau séu bæði með hreint sakavottorð og sjúkratryggingu. Ekki sé því sótt um dvalarleyfi á forsendum umönnunarsjónarmiða heldur á grundvelli b-liðar 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, þ.e. að þau séu með sterk félags- og menningarleg tengsl við landið. Þá sé í hinni kærðu ákvörðun alfarið horft fram hjá stuðningsbréfum samstarfsfólks þeirra. Byggja kærendur á því að texti 78. gr. laga um útlendinga og 19. gr. reglugerðar um útlendinga, með síðari breytingum, veiti svigrúm fyrir undanþágur og að ekki sé kveðið á um að óheimilt sé að veita dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins nema umsækjandi hafi haft gilt dvalarleyfi áður. Að mati kærenda myndu slík sjónarmið vera ómálefnaleg. Kærendur hafi ætíð gætt þess að dvelja ekki lengur hér á landi en þeim sé heimilt og ef tekið væri tillit til þess hve mikið þau hafi dvalið hér á landi samanlagt síðastliðinn áratug megi sjá að þau hafi verið hér á landi með annan fótinn um árabil. Hafi þau dvalist hér árlega í 12 ár jafnt sem ferðamenn og til vinnustofudvalar en þau hafi m.a. notið stuðnings […] og […] á slíkum forsendum. Meðfylgjandi greinargerð séu fjölmörg stuðningsbréf sem varpi ljósi á sterk tengsl þeirra við íslenskt menningarlíf. Hér á landi hafi þau myndað sterk tengsl við bókmenntaheiminn, í bígerð sé að vinna með […], þau hafi tekið að sér kennslu við […] og […] og þau séu tengd traustum böndum inn í heim myndlistar og tónlistar í gegnum þá fjölmörgu listamenn sem þau hafi unnið með.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra. Til sérstakra tengsla geti m.a. talist tengsl sem útlendingur hafi stofnað til meðan á dvöl hans hér á landi hafi staðið samkvæmt útgefnu dvalarleyfi sem verði ekki endurnýjað eða hafi verið afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra atvika, sbr. 2. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Í 3. mgr. 78. gr. er kveðið á um að heildstætt mat skuli fara fram á tengslum umsækjanda við landið. Við það mat skuli að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar. Jafnframt sé heimilt að líta til fjölskyldutengsla, þ.e. fjölskyldusamsetningar umsækjanda með tilliti til umönnunarsjónarmiða, sbr. a-lið 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, og félagslegra og menningarlegra tengsla við landið á grundvelli atvinnuþátttöku eða annarra sambærilegra tengsla, sbr. b-lið 3. mgr. 78. gr. laganna.

Í 19. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, er fjallað um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla þegar umsækjandi hefur áður búið á Íslandi. Þar segir m.a. að áhersla skuli lögð á heildarmat á aðstæðum umsækjanda en að sérstaklega skuli horfa til lengdar lögmætrar dvalar, hversu langt sé liðið frá dvalartíma, fjölskyldutengsla, fjölskyldumynsturs og annarra atriða í því sambandi auk umönnunarsjónarmiða.

Að því er varðar lengd lögmætrar dvalar segir í a-lið 19. gr. reglugerðarinnar að dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla skuli almennt ekki veitt nema umsækjandi hafi dvalist hér á landi lengur en tvö ár, eða þá að önnur tengsl við landið séu mjög sterk. Í b-lið kemur fram að hafi umsækjandi dvalist erlendis lengur en 18 mánuði samfellt frá útgáfu síðasta dvalarleyfis sé dvalarleyfi almennt ekki veitt vegna sérstakra tengsla nema önnur tengsl við landið séu mjög sterk. Samkvæmt d-lið skal m.a. horfa til fjölskyldutengsla, fjölskyldumynsturs og fjölskyldustærðar, fjölskylduaðstæðna og skyldleika. Líta beri til þess hvort umönnunarsjónarmið, félagsleg og menningarleg tengsl styðji umsókn á grundvelli fjölskyldutengsla. Vegna umönnunarsjónarmiða skal horft til þess hvort umsækjandi sé háður einhverjum hérlendis, sem er tengdur honum fjölskylduböndum, eða hvort aðstandandi umsækjanda hér á landi sé honum háður, sbr. e-lið 19. gr. reglugerðarinnar.

Kærendur hafa aldrei haft dvalarleyfi á Íslandi. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur komið hingað til lands næstum árlega frá árinu 2008 á grundvelli áritunarfrelsis, sbr. 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga og bera gögn málsins ekki annað með sér en að þau hafi á þeim tíma myndað einhver félags- og menningarleg tengsl við landið. Í gögnum málsins er að finna umsagnir til stuðnings umsóknum þeirra um dvalarleyfi, m.a. frá […]. Þá eru einnig umsagnir frá innlendum listamönnum, þ. á m. […]. Í umsögnunum kemur m.a. fram að K hafi dvalist veturlangt í […], haldið bókmenntaviðburði […], gefið út eina bók í íslenskri þýðingu og haldið upplestra í […] og […]. Þá hafi kærendur komið að kennslu við […] og […] auk þess sem K og […] séu að vinna að samstarfi sem vonandi verði innan skamms. Þá kemur enn fremur fram að kærendur hafi tvívegis dvalið sem gestahöfundar í […] um nokkurra vikna skeið, fyrst árið 2017, og hafi þau tekið þátt í viðburðum á vegum […] ásamt innlendum listamönnum. Samkvæmt framlögðum gögnum eiga kærendur íbúð í Reykjavík en dagsetning kaupsamnings er […]. Þá kemur fram í gagni, dags. 14. mars 2021, að samanlagður dvalartími kærenda á landinu frá árinu 2008 sé um eitt og hálft ár, þ. á m. dvalartími vegna umsóknar þeirra um dvalarleyfi.

Samkvæmt 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga skal eins og áður segir fara fram heildstætt mat á tengslum umsækjanda við landið. Við matið skal að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar en jafnframt er heimilt að líta til fjölskyldu-, félags- og menningarlegra tengsla við landið. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi er varð að lögum um útlendinga kemur fram að við þetta mat þurfi að líta til þess tíma sem útlendingur hafi dvalist hér og hvernig hann hafi aðlagast samfélaginu og tekið þátt í því. Að mati kærunefndar getur hugtakið „lögmæt dvöl“ jafnt tekið til dvalar samkvæmt útgefnu dvalarleyfi, sjá þó áskilnað 5. mgr. 78. gr., sem og dvalar án dvalarleyfis, sbr. 49. gr. laga um útlendinga. Hins vegar er ljóst að útlendingur telst jafnan mynda ríkari tengsl á grundvelli útgefins dvalarleyfis enda þá jafnan með fasta búsetu hér á landið um samfellda hríð.

Líkt og áður er rakið hafa kærendur aldrei haft dvalarleyfi á Íslandi og þá nær heildardvalartími þeirra á landinu ekki tveimur árum, sbr. a-lið 19. gr. reglugerðar um útlendinga. Auk þess hafa kærendur aldrei haft fasta búsetu hér á landi og verður að mati kærunefndar ekki ráðið að tengsl þeirra við landið séu mjög sterk jafnvel þótt þau hafi myndað einhver tengsl við landið. Enn fremur eiga engin umönnunarsjónarmið við í málinu, sbr. a-lið 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga og d-lið 19. gr. reglugerðarinnar. Þá er það mat kærunefndar að aðstæður kærenda falli bersýnilega ekki innan ákvæðis 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, sbr. 20. gr. reglugerðar um útlendinga, en í síðastnefndu ákvæði kemur m.a. fram það skilyrði að umsækjandi eigi uppkomið barn eða foreldri sem býr á Íslandi og er íslenskur ríkisborgari eða hefur ótímabundið dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem getur myndað grundvöll fyrir slíkt leyfi og að hann hafi verið á framfæri þess aðstandanda í minnsta kosti ár.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og eftir heildarmat á gögnum málsins og aðstæðum kærenda er það mat kærunefndar að þau uppfylli ekki skilyrði 78. gr. laga um útlendinga til útgáfu dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Verða ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda því staðfestar.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar.

The decisions of the Directorate of Immigration are affirmed.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta