Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 21/2022 - Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

B

 

Uppsögn. Ástæður tengdar meðgöngu og barnsburði. Ekki fallist á brot.

A kærði ákvörðun B um að segja henni upp störfum. Hélt A því fram að uppsögnina mætti rekja til aðstæðna tengdum meðgöngu og barnsburði hennar. Í ljósi þess að kærandi var ekki þunguð við uppsögnina varð að ganga út frá að uppsögn kæranda hefði ekki verið grundvölluð á aðstæðum tengdum meðgöngu eða barnsburði. Að mati kærunefndar höfðu því ekki verið leiddar líkur að því að uppsögn A hefði grundvallast á ástæðum samkvæmt 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Var því ekki fallist á að B hefði gerst brotleg við lög nr. 150/2020.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 29. desember 2023 er tekið fyrir mál nr. 21/2022 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dags. 22. desember 2022, kærði A ákvörðun B um að segja henni upp störfum. Heldur kærandi því fram að uppsögnina hafi mátt rekja til aðstæðna tengdum meðgöngu og barnsburði þar sem hún var í hormónameðferð vegna fyrirhugaðrar tæknifrjóvgunar og þungun því líkleg þegar uppsögnin átti sér stað. Kærandi telur að kærði hafi brotið gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 29. desember 2022. Greinargerð kærða barst með bréfi, dags. 30. janúar 2023, og var send kæranda 1. febrúar s.á. Athugasemdir kæranda eru dags. 6. mars og 13. apríl 2023 og athugasemdir kærða eru dags. 27. mars og 2. maí 2023.

     

    MÁLAVEXTIR

     

  4. Kæranda, sem hafði starfað hjá kærða frá haustinu 2021, var sagt upp störfum 9. ágúst 2022. Kærandi var í hormónameðferð vegna fyrirhugaðrar tæknifrjóvgunar áður en til uppsagnar kom. Rúmum mánuði eftir að kæranda var sagt upp störfum fékk hún staðfestingu á því að hún væri þunguð.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

     

  5. Kærandi heldur því fram að uppsögn hennar úr starfi hjá kærða tengist meðgöngu og barnsburði hennar og feli í sér brot gegn 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Hún hafi upplýst framkvæmdastjóra kærða um að hún væri í hormónameðferð vegna fyrirhugaðrar tæknifrjóvgunar áður en henni var sagt upp. Skömmu eftir uppsögn hafi kærandi fengið staðfest að hún væri þunguð og þar með að hafa verið þunguð þegar uppsögnin átti sér stað.
  6. Kærandi tekur fram að hún hafi hafið störf hjá kærða haustið 2021. Hinn 9. ágúst 2022 hafi hún verið boðið á fund framkvæmdastjóra þar sem henni hafi verið sagt upp störfum. Engar skýringar hafi verið gefnar á fundinum. Í umbeðnum rökstuðningi hafi ýmsar ástæður komið fram sem ættu það sammerkt að koma kæranda í opna skjöldu og hafa á engum tímapunkti verið ræddar við hana en hún hafi áður fengið jákvæða endurgjöf yfirmanns og samstarfsaðila. Um hafi verið að ræða gamlar tuggur um að styrkleikar og hæfni hafi ekki nýst í starfi, væntingar hagsmunaaðila hafi ekki verið uppfylltar, þekkingu hafi verið ábótavant og skort hafi samskiptahæfni.
  7. Kærandi tekur fram að hún hafi átt fund með framkvæmdastjóra kærða 1. júní 2022 vegna ójafnvægis í lífi og starfi. Á fundinum hafi hún aðspurð ekki verið tilbúin að ræða ástæður þessa ójafnvægis en hún hafi grátið meira og minna allan fundinn. Að fundi loknum hafi hún farið heim að beiðni framkvæmdastjórans. Þá hafi hún dagana 6.–12. júní farið í stutt orlof en við upphaf þeirrar orlofstöku hafi hún átt samtal við fram­kvæmdastjórann þar sem hún greindi frá því að hún væri að ljúka hormóna­meðferð vegna glasafrjóvgunar og að meðferðin hefði ekki tekist. Hefðu hormónarnir farið illa í hana sem væri eðlilegt þar sem hún hefði aldrei áður farið í svona meðferð, auk þess sem það hefði reynst henni erfitt að meðferðin hefði ekki tekist. Fram hefði komið að búið væri að stilla hormónaskammtinn af fyrir næstu meðferð og góðar líkur á þungun hennar í ágúst. Hefði hún upplýst að þegar hormónameðferðin færi fram í ágúst gæti komið til þess, yrði álagið jafn mikið og þegar hún fór síðast í meðferðina, að hún tæki ólaunaða orlofsdaga. Þá hefði kærandi óskað eftir að starfsmannaferð sem var fyrir­huguð síðar í ágúst yrði færð því annars kæmist hún ekki með. Hafi framkvæmda­stjórinn því vitað af fyrirhugaðri hormónameðferð og þungun kæranda. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til þess að hún hafi greint tveimur vinkonum sínum frá samtalinu við framkvæmdastjórann.
  8. Kærandi hafnar því að samtal hennar við framkvæmdastjóra kærða á Teams 16. júní 2022, þar sem hún lýsti því hvernig hún sæi fyrir sér breytingar á starfi sínu, hafi ekki gefið fyrirheit um þungun hennar. Bendir kærandi á að það geti varla verið afstaða kærða að þungaðar konur eða þær sem hyggja á getnað geti ekki gert breytingar á sínum daglegu störfum og högum eða horft til næstu framtíðar í starfi.
  9. Kærandi tekur fram að ágætlega hafi gengið hjá henni í vinnunni eftir orlofið. Hafi hormónar verið í jafnvægi og hún unnið upp verkefni sem hefðu dregist, klárað skýrslur, gert markaðsáætlun og unnið markaðsstörf haustsins. Hún hafi aftur á móti orðið vör við breytta hegðun og framkomu framkvæmdastjórans í sinn garð. Á fundi kæranda og framkvæmdastjórans í júlí 2022 hafi kærandi fengið ágæta endurgjöf vegna starfa sinna vikurnar á undan. Hafi kærandi verið beðin um að taka að sér markaðsmál kærða til viðbótar við önnur verkefni og hafi hún verið byrjuð að vinna að þeim. Að loknu sumarleyfi framkvæmdastjórans 8. ágúst 2022 hefði staðan gjörbreyst. Þá hefði framkvæmdastjórinn tilkynnt að búið væri að ráða starfsmann til að sinna markaðs­málum, þvert á það sem þau höfðu rætt skömmu áður. Í kjölfar þessarar breyttu áherslu framkvæmdastjórans, sem hafði ekki verið rædd við kæranda, hefði hún beðið um fund með framkvæmdastjóranum. Hafi sá fundur farið fram daginn eftir þar sem henni var sagt upp störfum. Nokkrum dögum síðar hafi kærandi hafið sína aðra hormónameðferð sem tókst vel. Skömmu síðar hafi verið settur upp fósturvísir og þungun í kjölfarið staðfest.
  10. Kærandi telur að stöðu sinni við uppsögnina megi jafna við þá réttarstöðu sem fjallað er um í 50. gr. laga nr. 144/2020, um fæðingar- og foreldraorlof. Samkvæmt ákvæðinu er óheimilt að segja starfsmanni upp störfum á grundvelli þess að hann hafi tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs nema gildar ástæður séu fyrir hendi. Ekkert hafi komið fram sem styðji að gildar ástæður hafi verið fyrir hendi til að segja kæranda upp störfum eins og kærunefndin og dómstólar hafi túlkað ákvæðið. Kærandi hafi ekki með beinum hætti tilkynnt yfirmanni sínum um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs en engu að síður verið búin að leggja spil sín á borðið og vinnuveitanda á þessum tímapunkti algjörlega ljóst hvað verða vildi. Kærða hafi verið kunnugt að umtalsverðar líkur væru á þungun kæranda á næstu vikum og þar með fæðingarorlofstöku hennar enda sé móður skylt samkvæmt lögunum að taka fæðingarorlof. Kærandi hafi á þessum tímapunkti verið mjög berskjölduð og ekki haft neinn annan kost en að útskýra ástæðu þess að hún hafi verið í hormónaójafnvægi dagana áður. Hafi staða hennar verið afar viðkvæm og erfið og að mestu leyti sambærileg stöðu fólks sem hefur tilkynnt um fyrir­hugaða fæðingu barns og töku fæðingarorlofs og þeirri viðkvæmu stöðu sem ætlunin er að vernda með fyrrgreindri 50. gr. Munurinn liggi í því að við setningu laganna hafi löggjafinn ekki horft út fyrir boxið og velt fyrir sér stöðu kvenna sem fara þá leið sem kærandi fór til að geta barn. Verði það niðurstaða kærunefndar að ákvæði 50. gr. verndi ekki konur í þeirri stöðu sem kærandi var í sé ljóst að löggjafanum hafi mistekist að vernda konur í þessari viðkvæmu stöðu sem löggjafanum sé þó skylt að gera samkvæmt alþjóðaskuldbindingum.
  11. Kærandi tekur fram að framkvæmdastjóri kærða hafi vitað af því ferli sem hófst með hormónagjöf í maí 2022 og stóð fram í júní enda var honum tilkynnt það sérstaklega. Bendir kærandi á að jafnvel þótt kærði hafi fengið upplýsingar um að hormónagjöfin hafi ekki gengið eins og vonast var til í fyrstu tilraun hafi kærði ekki haft forsendur til að ætla að kærandi myndi hætta í því ferli enda hafi kærða aldrei verið tilkynnt það sérstaklega. Þá bendir kærandi á að þó svo að afstaða kærunefndar yrði sú að vafi léki á því hvort kærða hafi mátt vera ljóst að kærandi var í hormónameðferð í aðdraganda seinni tæknifrjóvgunar í ágúst væri afar ósanngjarnt að túlka þann vafa kæranda í óhag enda hnígi öll rök til þess að kærði hafi vitað betur eða mátt vita betur.
  12. Kærandi bendir á að kærði hafi fyrst og fremst reynt að færa rök fyrir því að kærandi hafi verið ómögulegur starfsmaður og uppsögn hennar því réttlætanleg. Séu þær ávirð­ingar ýmist órökstuddar eða studdar gögnum sem séu augljóslega tekin úr samhengi og/eða veiti ekki nauðsynlega heildarmynd yfir störf kæranda. Sé sérstaklega bent á að engar formlegar athugasemdir hafi verið gerðar við störf kæranda og samkvæmt dómafordæmum teljist ábendingar um hvað megi betur fara í einstökum verkefnum starfsmanns eða hvað yfirmanni finnist að eigi að gera öðruvísi ekki formlegar athuga­semdir við störf starfsmanns. Í því samhengi sé rétt að árétta þá meginreglu vinnu­réttar að vafi skuli túlkaður starfsmanni í hag og vinnuveitanda í óhag. Sú skýring kærða að hann sé ekki opinber stofnun og hafi af þeim sökum ekki skrásett atvik og fært til bókar hljóti að falla um sjálfa sig og vera túlkuð kærða í óhag.
  13. Kærandi gagnrýnir gögn sem kærði hefur lagt fyrir kærunefnd og bendir á að til­gang­urinn sé að rýra störf og trúverðugleika kæranda. Kærandi hafi lagt sig alla fram í starfi sínu og unnið störf sín af bestu getu. Bendir kærandi á að í vinnurétti hafi aldrei verið gerð sú krafa að starfsmenn geri engin smávægileg mistök í starfi enda kærandi ekki fullkomin frekar en aðrir.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

     

  14. Kærði hafnar því að hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, við uppsögn kæranda.
  15. Kærði tekur fram að tæknifrjóvgunarferli eða frjósemismeðferð hafi ekki verið ástæða þess að kæranda var sagt upp störfum. Aðdragandi uppsagnarinnar hafi verið nokkur og tilefnið ófullnægjandi frammistaða kæranda í starfi. Hafði kærði gefið kæranda færi á að bæta frammistöðu sína og veitt henni tækifæri til þess, m.a. með því að freista þess að úthluta henni verkefnum við hæfi og gera breytingar á starfi hennar. Þrátt fyrir það hafi kærandi því miður ekki náð viðunandi árangri í starfi. Bendir kærði í því sambandi til tölvupóstssamskipta kæranda og framkvæmdastjóra 12. og 25. maí 2022 eða fyrir starfsmannasamtalið 1. júní 2022 þar sem þessi frammistaða kæranda var rædd. Því hafi orðið úr að kærði ákvað að segja henni upp störfum. Sú uppsögn hafi ekki verið í neinu samhengi við hormónameðferð, fyrirhugaða þungun eða aðra stöðu sem heim­færa megi undir 19. gr. laga nr. 150/2020 og því síður 50. gr. laga nr. 144/2020, um fæðingar- og foreldraorlof.
  16. Kærði tekur fram að framkvæmdastjórinn hafi hrósað kæranda í einhverjum tilvikum fyrir viðleitni hennar til að standa sig í starfi, svo sem vænta mætti af yfirmanni hennar, en það breyti því ekki að kærandi hafi ekki risið undir verkefnum sínum og að athugasemdir höfðu verið gerðar við frammistöðu hennar.
  17. Kærði tekur fram að margvíslegar athugasemdir hefðu komið fram frá aðilum sem kærði og kærandi höfðu átt í samskiptum og samstarfi við. Bendir kærði í þessu sam­bandi til tölvupóstssamskipta 12. júlí 2022 þar sem ákveðið þekkingarleysi kæranda hafi komið fram sem og til tölvupóstssamskipta kæranda og framkvæmdastjóra 2. ágúst 2022. Þá hafi kærandi gert ýmis mistök í starfi sem gerðar hafi verið athugasemdir við. Hafi mál ekki verið kláruð, skipulagi hafi verið ábótavant og bókanir illa unnar. Hafi þannig borið endurtekið á óvönduðum og ónákvæmum vinnubrögðum og skort nokkuð á aga við vinnslu verkefna. Þannig hafi kærandi ekki risið undir væntingum sem gerðar voru til hennar og fyrirheit voru um af hennar hálfu við ráðningu að mati kærða. Kærði tekur fram að hann sé ekki stjórnvald og því séu athugasemdir um það sem betur þurfi að fara í fari starfsmanns ekki skráðar með sama hætti og þegar um er að ræða stjórnvöld.
  18. Kærði bendir á að í tölvupósti til allra starfsmanna 21. júlí 2022 hafi framkvæmdastjóri kynnt nýjan starfsmann sem var ráðinn á grundvelli auglýsingar frá 13. júní 2022 til að sinna áfangastaðaþróun en ekki markaðsmálum.
  19. Kærði tekur undir með kæranda að hún hafi ekki með beinum hætti tilkynnt yfirmanni sínum um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs. Þá hafi hún í framhaldi af fundinum 1. júní 2022 sent skilaboð á framkvæmdastjórann þar sem hún sagðist vera orðin góð og komin með rökhugsun og vildi segja hvað væri í gangi. Hafi þær svo rætt saman. Þar hafi komið fram að hún hefði verið í uppnámi vegna hormónameðferðar sem hefði síðan ekki gengið eftir. Hefðu hormónarnir farið illa í hana og gæti hún ekki farið í sömu meðferð aftur. Hún myndi ræða það við lækna sína og skoða stöðuna með þeim. Að öðru leyti hafi þessi mál ekki verið rædd og framkvæmdastjórinn ekki spurt nánar út í þetta enda hafi kærandi verið skýr að hún vildi ekki tala um þetta. Framkvæmdastjóranum hafi því hvorki verið kunnugt um að hormónameðferð hefði hafist að nýju né vitað um önnur atvik sem hefðu tengst henni. Hefði kærandi ekki tilkynnt um fyrirhugaða hormóna­meðferð, yfirvofandi þungun eða annað sem gaf framkvæmdastjóra tilefni til að ætla að þungun væri fyrirhuguð.
  20. Kærði bendir á að líkur á þungun við hormónameðferð hafi ráðið því að löggjafinn hafi ekki skipað lögum á þann hátt að veita fólki sem reynir að verða barnshafandi sömu réttarstöðu og veitt er með ákvæðum 50. gr. laga nr. 144/2020. Sé óvissu háð hversu lengi frjósemismeðferð geti staðið yfir, hvernig beri að meta slíkt tímabil, upphaf og endi þess og hvort hlé á meðferð hafi þar áhrif. Jafnvel þótt fyrir hefði legið skrifleg tilkynning til kærða um yfirstandandi frjósemismeðferð fyrir tæknifrjóvgun, þá standi engar lagaheimildir til þess að líta svo á að við það taki gildi sams konar vernd og 50. gr. laga nr. 144/2020 skapar barnshafandi starfsmanni eða önnur vernd gegn uppsögn­um fyrir ófullnægjandi frammistöðu í starfi.
  21. Kærði tekur fram að málefnalegar ástæður liggi til grundvallar uppsögn kæranda úr starfi. Uppsögnin hafi verið byggð á atriðum sem komið höfðu fram í samskiptum fram­kvæmdastjóra við kæranda og frammistöðu hennar allt frá desember 2021. Fram­kvæmdastjóri hafi, umfram skyldur, reynt að gera breytingar á starfi kæranda til að finna henni verkefni við hæfi þegar sýnt hafi þótt að hún ætti í vanda með frammistöðu líkt og ljóslega lá fyrir í maí 2022 sem hefði á þeim tíma getað réttlætt uppsögn. Upp­sögnin hafi þannig ekki verið í neinum tengslum við tæknifrjóvgunarferli kæranda.

     

    NIÐURSTAÐA

     

  22. Mál þetta snýr að því hvort kærði hafi brotið gegn 1. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, með því að hafa látið aðstæður tengdar með­göngu og barnsburði hafa áhrif á uppsögn kæranda úr starfi hjá kærða en kærandi hafi verið í hormónameðferð vegna fyrirhugaðrar tæknifrjóvgunar. Hafi þungun þar með talist líkleg þegar uppsögnin átti sér stað.
  23. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2020 kemur fram að markmið laganna sé að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.
  24. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020 gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
  25. Í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 er tekið fram að atvinnurekendum sé óheimilt að mis­muna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Sama gildir um stöðuhækkun, stöðubreytingar, endurmenntun, símenntun, starfsþjálfun, námsleyfi, uppsögn, vinnu­aðstæður og vinnuskilyrði starfsmanna. Þá er óheimilt að láta fæðingar- og foreldra­orlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafa neikvæð áhrif á ákvarð­anir samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr., ákvæðisins. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 19. gr. kemur það í hlut starfsmanns sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að fæðingar- og foreldraorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafi haft áhrif á uppsögn. Takist sú sönnun ber atvinnurekandanum að sýna fram á að ákvörðun um uppsögn hafi grundvallast á öðrum ástæðum en fæðingar- og foreldraorlofi, með­göngu eða barnsburði. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að aðstæður tengdar meðgöngu hafi haft áhrif á uppsögn hennar hjá kærða.
  26. Í málinu liggur fyrir að kærði sagði kæranda upp störfum 9. ágúst 2022. Heldur kær­andi því fram að kærða hafi verið kunnugt um að hún myndi hefja hormónameðferð í þeim mánuði vegna fyrirhugaðrar tæknifrjóvgunar og að þungun væri þar með líkleg. Fyrir liggur að kærandi tilkynnti kærða ekki með beinum hætti um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs enda ekki orðin þunguð. Í ljósi þessa og þar sem kærandi var ekki þunguð við uppsögnina verður að ganga út frá að uppsögn kæranda hafi ekki verið grundvölluð á aðstæðum tengdum meðgöngu eða barnsburði. Jafnframt ber að hafa í huga að ekki er ólögmætt að segja starfsmanni upp störfum sé það gert á grundvelli annarra ástæðna en sem tengjast fæðingar- og foreldraorlofi, meðgöngu eða barnsburði. Hér vísast einnig til 50. gr. laga nr. 144/2020, um fæðingar- og foreldraorlof, um sam­bærileg sjónarmið.
  27. Af gögnum málsins verður ráðið að nokkurrar óánægju hafði gætt með störf kæranda. Hafi kærði reynt að koma til móts við kæranda, m.a. með því að fá henni önnur verkefni, en án árangurs að mati kærða. Í rökstuðningi fyrir uppsögninni voru ástæður hennar sagðar m.a. að vantað hafi upp á samskiptahæfni, skilning á starfsemi kærða og verkefnum, auk þess sem þekkingu á markaðsmálum hafi verið ábótavant. Afköst hafi ekki verið í samræmi við væntingar og þá hafi forgangsröðun verkefna verið ábótavant þannig að ljóst hafi verið að starfsreynsla og þekking hafi ekki verið fullnægjandi til að sinna starfi verkefnastjóra hjá kærða. Samkvæmt því var árangur kæranda í starfi að mati kærða ekki viðunandi. Verður ekki betur séð en að þeir tölvupóstar sem liggja fyrir í málinu staðfesti þessa afstöðu kærða. Samkvæmt því verður eins og mál þetta liggur fyrir að telja að hlutlæg og málefnaleg sjónarmið hafi legið uppsögn kæranda til grund­vallar. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að málsmeðferð kærða við uppsögn kæranda hafi að öðru leyti verið ómálefnaleg eða farið gegn lögum nr. 150/2020.
  28. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að ákvörðun um uppsögn kæranda hafi farið gegn lögum nr. 150/2020. Telur kærunefnd því að ekki hafi verið leiddar líkur að því að við uppsögnina hafi kæranda verið mismunað á grundvelli ástæðna samkvæmt 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, B, braut ekki gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, við uppsögn kæranda.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Ari Karlsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta