Hoppa yfir valmynd

Nr. 558/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 12. október 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 558/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23060002

 

Kæra [...] og barns hennar

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 31. maí 2023 barst kærunefnd útlendingamála sjálfkrafa kæra, samkvæmt 3. málsl. 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, á ákvörðunum Útlendingastofnunar um að taka ekki til efnismeðferðar hér á landi umsóknir [...], fd. [...], ríkisborgari Nígeríu (hér eftir kærandi) og barns hennar, [...], fd. [...], ríkisborgara Nígeríu (hér eftir A), um alþjóðlega vernd og brottvísa þeim frá landinu. Var kæranda gert að yfirgefa landið án tafar ellegar sæta endurkomubanni í tvö ár.

Kærandi krefst þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka mál hennar til efnismeðferðar hér á landi, aðallega á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga en til vara á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi krefst þess til þrautavara að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn hennar um alþjóðlega vernd til meðferðar á ný á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

II.        Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 12. október 2022. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum 12. október 2022 kom í ljós að fingraför hennar höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum á Ítalíu. Hinn 7. nóvember 2022 var upplýsingabeiðni beint til yfirvalda á Ítalíu, sbr. 34. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá ítölskum yfirvöldum, dags. 30. nóvember 2022, kom fram að kærandi hefði dvalarleyfi á grundvelli viðbótarverndar með gildistíma til 22. júlí 2025. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun 16. nóvember 2022, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað 31. maí 2023 að taka umsóknir kærenda og barns hennar um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að þeim skyldi brottvísað frá landinu. Ákvarðanirnar voru birtar fyrir kæranda sama dag og barst kærunefnd greinargerð kæranda 12. júní 2023. Þá bárust frekari gögn frá kæranda 14. júní, 5. júlí, 28. júlí og 12. september 2023.

III.      Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kæranda hafi verið veitt alþjóðleg vernd á Ítalíu. Umsókn hennar um alþjóðlega vernd yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Ítalíu ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hún fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var brottvísað frá landinu, sbr. 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Kæranda var ákveðið endurkomubann hingað til lands í tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Var skorað á kæranda að yfirgefa landið án tafar og athygli hennar vakin á því að yfirgæfi hún landið sjálfviljug yrði endurkomubannið fellt niður.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli barnsins A kom fram að það væri niðurstaða stofnunarinnar, með vísan til niðurstöðu í málum móður hans, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, laga um útlendinga og barnaverndarlaga nr. 80/2002, að hagsmunum hans væri ekki stefnt í hættu og að þeim væri best borgið með því að fylgja foreldri sínu til Ítalíu.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hún hafi eignast barn hér á landi [...]. Kærandi hafi búið á Ítalíu í níu ár og hlotið alþjóðlega vernd árið 2015. Kæranda hafi verið smyglað frá heimaríki til Ítalíu af konu sem hafi neytt hana til að stunda vændi til að borga upp skuldir sínar. Kærandi hafi stundað vændi í 8-9 ár og hafi ávallt þurft að greiða konunni sem smyglaði henni launin sín. Kærandi telur frásögn sína samræmast heimildum um mansalshringi sem fyrirfinnist á Ítalíu og nígerískar konur hafi sérstaklega verið þolendur slíkra glæpa. Kærandi hafi flúið frá Ítalíu annars vegar vegna tiltekinna atvika sem hún hafi upplifað og hræðslu og hins vegar vegna þess hve alvarlegt og ótryggt ástand sé á Ítalíu. Kærandi óttist konuna sem hafi neytt hana til að stunda vændi í næstum áratug og hafi hótað að meiða fjölskyldu hennar ef hún hætti að vinna eða færi án leyfis. Hún hafi jafnframt neytt kæranda til að halda áfram að stunda vændi þrátt fyrir að hún væri ólétt. Kærandi hafi neyðst til að flýja Ítalíu vegna hræðslu um framtíð og heilsu barnsins og hennar sjálfrar. Kærandi hafi óttast að eignast barn sitt á Ítalíu þar sem hún taldi sig ekki geta, stöðu sinnar vegna, fengið fullnægjandi heilbrigðisþjónustu eða fæðingaraðstoð. Kærandi hafi áður misst fóstur vegna álags og streitu vegna smyglara hennar og hún vilji ekki að sú saga endurtaki sig. Kærandi hafi orðið fyrir alvarlegu ofbeldi í starfi sínu sem hafi áhrif á andlega heilsu hennar. Kærandi hafi jafnframt orðið fyrir alvarlegri mismunun og fordómum á Ítalíu vegna stöðu sinnar. Kærandi geti ekki fengið nauðsynlega heilbrigðisþjónustu á Ítalíu og þar sé enga atvinnu að fá. Hvað málsatvik varðar að öðru leyti vísar kærandi til viðtals síns hjá Útlendingastofnun og annarra gagna málsins.

Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við hinar kærðu ákvarðanir, m.a. að Útlendingastofnun hafi ekki fjallað um þær hindranir sem handhafar alþjóðlegrar verndar þurfi að mæta til nálgast heilbrigðisþjónustu og hvaða áhrif skortur á móttökuaðstæðum á Ítalíu muni hafa. Þá gerir kærandi athugasemd við að Útlendingastofnun byggi á að kærandi geti endurnýjað heilbrigðiskort sitt. Af heimildum sé ljóst að umsækjendur um alþjóðlega vernd og flóttamenn á Ítalíu mæti stjórnsýslulegum hindrunum við að nálgast heilbrigðisþjónustu. Kærandi muni að öllum líkindum þurfa að skrá sig aftur inn í kerfið til að njóta aðgangs að heilbrigðisþjónustu, enda ekkert sem bendi til þess að hún hafi gilt heilbrigðiskort. Þá hafi kærandi ekki verið spurð út í það í viðtali hvort hún hefði slíkt kort og ef svo væri hvenær það rynni út. Ítalía hafi sent frá sér beiðni til aðildarríkja Dyflinnarreglugerðarinnar og beðið þau um að stöðva tímabundið Dublin-flutninga til Ítalíu vegna ástæðna sem tengist skorti á móttökuaðstöðu í landinu. Framangreind beiðni bendi til þess að Útlendingastofnun geti ekki byggt ákvörðun sína á meginreglunni um gagnkvæmt traust. Ítalía hafi ekki dregið beiðnina til baka og skortur á móttökuaðstöðu í landinu muni hafi áhrif á aðgengi kæranda að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Þá vísar kærandi til þess að samkvæmt heimildum sé ljóst að flóttafólk eigi takmarkaðri réttindi til félagslegrar aðstoðar en ítalskir ríkisborgarar og margar hindranir standi í vegi fyrir flóttafólki að nálgast slíka aðstoð. Kærandi telji að verði hún endursend til Ítalíu verði hún án félagslegrar aðstoðar. Þær hindranir sem hún muni standa frammi fyrir séu stórar og óyfirstíganlegar sérstaklega í ljósi þess að hún muni að öllum líkindum ekki hafa aðgang að húsnæði. Kærandi gerir jafnframt athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki fjallað um aðgang mæðra ungbarna að félagslegri þjónustu, þ.m.t. rétti kæranda til fæðingarstyrks og barnabóta. Kærandi vísar til þess að hún sé ósammála mati Útlendingastofnunar þess efnis að henni muni standa til boða húsnæði á Ítalíu. Þó ítölsk lög kveði á um að flóttamenn eigi rétt á húsnæðisaðstoð sé raunin ekki sú. Lykilatriði sé að horfa til framkvæmdar ítalskra stjórnvalda í málefnum flóttamanna og umsækjenda um alþjóðlega vernd og hvort sú framkvæmd sé í samræmi við Flóttamannasamninginn og alþjóðlega mannréttindastaðla. Kærandi vísar til þess að stjórnsýsludómstólar í Hollandi og Þýskalandi hafi komist að þeirri niðurstöðu að endursending umsækjenda um alþjóðlega vernd brjóti í bága við 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 4. gr. Mannréttindaskrár Evrópusambandsins, sbr. úrskurð stjórnsýsludómstól Hollands nr. 202207368/1/VI og úrskurð stjórnsýsludómstóls Þýskalands frá 1. desember 2022 í máli nr. 278/22. Þá telur kærandi að hún geti ekki leitað aðstoðar hjá þar til bærum stjórnvöldum og að ekkert bendi til þess að lögregla eða yfirvöld geti eða vilji vernda kæranda frá þeim sem hafi selt hana í mansal. Kærandi vísar til þess að í skýrslu bandaríska sendiráðsins frá 2021 séu gerðar athugasemdir við að ítölsk lög og framkvæmd ítalskra stjórnvalda varðandi mansal. Kærandi telji að ítölsk lög hafi þau áhrif að kærandi hafi ekki getað leitað sér hjálpar yfirvalda þar sem slíkt ákall hefði leitt til þess að hún hefði gerst sek um refsivert brot. Þó ítölsk stjórnvöld framfylgi ekki lögunum þá skapi þau ótta. Þá bendi heimildir til þess að lögreglan hafi sýnt af sér kynþáttafordóma, einkum gegn umsækjendum um alþjóðlega vernd og flóttamönnum frá Afríku. Kærandi gerir jafnframt athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki rannsakað nægilega vel hvernig móttökuaðstæðum fjölskyldna sé háttað á Ítalíu en samkvæmt heimildum bjóði Ítalía ekki upp á sérstaka móttökuaðstöðu fyrir fjölskyldur með ólögráða börn. Kærandi vísar til þess að hún sé þolandi mansals til margra ára, einstæð móðir með ungt barn og hafi verið greind með þunglyndi og upplifi endurminningar frá mansalinu sem geri það að verkum að hún eigi erfitt með að sofna. Kærandi eigi enga ættingja eða vini sem geti aðstoðað hana við að sækja grunnþjónustu á Ítalíu. Ljóst sé að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu og sé ekki fær um að bera sig eftir grundvallarþjónustu á Ítalíu. Þá gerir kærandi athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki fjallað um tilvísun hennar til úrskurðar kærunefndar nr. 242/2018, en hún telji að aðstæður sem hafi verið til staðar í þeim úrskurði eigi við um sig og því beri að taka mál hennar til efnismeðferðar.

Kærandi telur að gildistöku laga um landamæri nr. 136/2022 sé beitt með afturvirkum hætti í máli hennar varðandi brottvísun og endurkomubann. Lögin hafi tekið gildi 10. janúar 2023 en kærandi hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd 12. október 2022 og mætt í viðtal hjá Útlendingastofnun 16. nóvember 2022, þ.e. fyrir gildistöku laganna. Fallist kærunefnd ekki á það byggi kærandi á að um ósanngjarna ráðstöfun sé að ræða gagnvart kæranda og nánustu aðstandendum hennar. Ráðstöfunin skerði ferðafrelsi hennar óhóflega og hindri að hún geti heimsótt landið og vini sína. Þá gerir kærandi athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki fjallað um beiðni ítalskra stjórnvalda, dags. 5. desember 2022, þar sem aðildarríki Dyflinnarreglugerðarinnar hafi verið beðin um að stöðva tímabundið Dublin-flutninga til Ítalíu vegna móttökuaðstæðna þar í landi. Með vísan til þess hafi málið ekki verið nægjanlega upplýst áður en ákvörðun var tekin sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Þá byggir kærandi á því að hún sé ósammála mati Útlendingastofnunar um að endursending barns kæranda samræmist ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, barnaverndarlaga og laga um útlendinga, sbr. 2. mgr. 10. gr. laganna. Fyrirliggjandi heimildir bendi til þess að kærandi og A eigi í hættu að verða fyrir ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð við endursendingu til Ítalíu, enda hafa ítölsk stjórnvöld lýst því yfir að skortur sé á móttökuaðstæðum. Raunveruleg hætta sé á að kærandi og A verði svipt nauðsynjum, eins og skjóli, mat og drykkjarvatni, sbr. t.d. úrskurð stjórnsýsludómstóls Hollands í máli nr. 202207368/1/V119 og úrskurð stjórnsýsludómstól Þýskalands frá 1. desember 2022 í máli nr. 278/22.

Kærandi byggir aðallega á því að taka skuli mál hennar og barns hennar til efnismeðferðar vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Við mat á því hvort sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi við í máli kæranda beri íslenskum stjórnvöldum að leggja heildstætt mat á einstaklingsbundnar aðstæður hennar og þær afleiðingar sem endursending gæti haft í för með sér fyrir hana, bæði líkamlegar og andlegar. Auk þess beri að meta hvort kærandi sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, sbr. 25. gr. sömu laga. Þá vísar kærandi til 32. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Kærandi telji að þær aðstæður sem hún og A muni standa frammi fyrir verði þau send til Ítalíu falli að öllu leyti undir þau skilyrði sem sett séu fram í framangreindri reglugerð. Kærandi telji að uppi séu sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga í máli hennar með vísan til heilsufars og viðkvæmrar stöðu kæranda og A og takmarkaðs aðgengis að heilbrigðisþjónustu á Ítalíu. Kærandi vísar til þess að raunverulegt aðgengi flóttafólks að heilbrigðisþjónustu á Ítalíu sé takmarkað og margar hindranir standi þeim í vegi, með vísan til alþjóðlegra skýrslna. Þá byggir kærandi á því að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærandi og A muni ekki hafa tryggilegt aðgengi að heilbrigðisþjónustu, geðheilbrigðisþjónustu og lyfjum á Ítalíu verði þau send þangað, sérstaklega vegna viðkvæmrar stöðu þeirra. Þá hafi kærandi takmarkað aðgengi að húsnæði, félagslegri aðstoð, framfærslu og atvinnu á Ítalíu, með vísan til alþjóðlegra skýrslna. Auk þess séu fordómar í garð fólks af erlendum uppruna vandamál á Ítalíu. Flóttamenn verði fyrir alvarlegum hatursglæpum og fordómum og yfirvöld á Ítalíu séu hluti af vandamálinu.

Þá byggir kærandi á því að taka verði umsókn kæranda til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna vegna sérviðmiða er varði börn, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Börn teljist ávallt til sérstaklega viðkvæms hóps umsækjenda um alþjóðlega vernd. Kærandi vísar til 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003, 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013 og 1. mgr. 22. gr. samningsins. Auk þess vísar kærandi til 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Kærandi telji það ekki samræmast hagsmunum A að vera endursendur með móður sinni til Ítalíu. Kærandi telji að endursending til Ítalíu þar sem miklar takmarkanir og hindranir séu á húsnæði, heilbrigðisþjónustu, félagslegri aðstoð, framfærslu, og atvinnu samræmist ekki hagsmunum A og leiði líkur á því að kærandi muni enda á að aðhafast á götunni, þar sem barnsins bíði öryggisleysi og óvissa.

Kærandi byggir á því til vara að umsókn hennar verði tekin til efnismeðferðar á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 42. gr. sömu laga. Grundvallarreglan um bann við endursendingu (non-refoulement) sé hornsteinn í flóttamannarétti og hafi verið tekin beint eða óbeint upp í fjölda alþjóðlegra samninga eins og t.d. 33. gr. Flóttamannasamningsins, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Kærandi telji að hún og barn hennar muni standa frammi fyrir ómannúðlegum aðstæðum á Ítalíu og því beri að taka mál þeirra til efnismeðferðar. Kærandi eigi á hættu meðferð sem brjóti í bága við 3. gr. mannréttindasáttmálans og því þurfi íslensk stjórnvöld að fá staðfestingu frá ítölskum stjórnvöldum á því að fullnægjandi aðstæður séu til staðar, m.t.t. aðgangs að húsnæði, heilbrigðisþjónustu, félagslegri aðstoð og framfærslu. Auk þess myndu íslensk stjórnvöld með endursendingu gerast brotleg við 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1994 og 2., 3. og 6. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Kærandi krefst þess til þrautavara að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka umsóknir kæranda og A um alþjóðlega vernd á Íslandi til meðferðar á ný á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Í hinum kærðu ákvörðunum sé ekkert fjallað um beiðni ítalskra stjórnvalda að stöðva tímabundið endursendingar til Ítalíu eða rannsakað hvort Ítalía hafi bætt úr móttökuaðstæðum. Þá hafi ekki verið rannsakað hvort Ítalía geti tekið á móti kæranda og A og tryggt grundvallarmannréttindi þeirra. Auk þess fer kærandi fram á með vísan til 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga að kærunefnd leggi sjálfstætt mat á frásögn og aðstæður kæranda og gefi henni færi á að koma til viðtals hjá nefndinni.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Aðstæður kæranda og barns hennar

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi kona á [...] sem er stödd hér á landi ásamt barni sínu sem fæddist hér á landi [...]. Við meðferð málsins greindi kærandi frá því að hún hafi flúið frá heimaríki til Ítalíu með aðstoð smyglara sem hafi síðar neytt hana til að stunda vændi. Kærandi hafi dvalið á Ítalíu í 8-9 ár og hlotið viðbótarvernd þar í landi árið 2015. Þá hafi kærandi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi í október 2022. Kærandi vilji ekki snúa aftur til Ítalíu þar sem hún óttist konuna sem hafi selt hana í vændi og hótað fjölskyldu hennar. Kæranda hafi ekki verið boðin húsnæðis- eða fjárhagsaðstoð á Ítalíu. Þá hafi hún mátt þola fordóma og mismunun á Ítalíu. Kærandi hafi verið með atvinnuleyfi en enga atvinnu var að hafa þar í landi auk þess sem hún hafi verið föst í klóm konunnar sem hafi selt hana í vændi. Þá hafi kærandi haft takmarkaðan aðgang að heilbrigðisþjónustu og hafi þurft að greiða fyrir hana sjálf. Kærandi hafi ekki getað leitað aðstoðar lögreglu þar sem hún óttist konuna sem seldi hana. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hún væri heilsuhraust líkamlega en hún hafi mátt þola ofbeldi og verið þvinguð í vændi sem hafi haft áhrif á hana andlega. Samkvæmt heilsufarsgögnum frá Göngudeild sóttvarna hefur kærandi verið greind með alvarleg einkenni þunglyndis og kvíða auk þess sem hún hafi verið metin í aukinni sjálfsvígshættu en ekki yfirvofandi.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum er þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.

Með 10. gr. laga nr. 14/2023, um breytingu á lögum um útlendinga, voru breytingar gerðar á orðalagi 2. mgr. 36. gr. laganna. Í hinu nýja ákvæði er m.a. kveðið nánar á um við hvaða tímamark skuli miða þegar 12 mánaða fresturinn er annars vegar auk þess sem kveðið er á um til hvaða sjónarmiða skuli líta við mat á því hvað teljist tafir á málsmeðferð hins vegar. Í lokamálslið 2. mgr. 23. gr. breytingalaganna kemur fram að ákvæði 10. gr. gildi ekki um meðferð umsókna sem bárust fyrir gildistöku laganna. Umrædd lög tóku gildi 5. apríl 2023 og ljóst að umsókn kæranda barst fyrir gildistöku þeirra. Því fer um mál kæranda samkvæmt þágildandi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga í samræmi við fyrri framkvæmd nefndarinnar og jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við úrlausn málsins.

Í þágildandi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar.

Af orðalagi þágildandi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiddi að umrætt 12 mánaða tímabil hæfist þegar umsækjandi legði fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Í úrskurðum kærunefndar hefur verið lagt til grundvallar að tímabilinu hafi lokið þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda var framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi færi úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hafði verið tekin.

Kærunefnd hefur túlkað þágildandi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 12. október 2022 og rann því umræddur 12 mánaða frestur út á miðnætti 12. október 2023. Kemur því til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hennar sjálfrar, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Við meðferð málsins óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun um hvort tafir hefðu orðið á meðferð umsóknar kæranda hjá stofnuninni og ef svo væri, hvort þær væru á ábyrgð kæranda, sbr. 2. málsl. þágildandi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í svari Útlendingastofnunar kom fram að samkvæmt skráningum stofnunarinnar yrði ekki séð að kærandi hefði tafið mál sitt.

Í ljósi framangreinds og samfelldrar dvalar kæranda hér á landi síðan hún lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd 12. október 2022, er það niðurstaða kærunefndar að fella ákvarðanir Útlendingastofnunar í máli hennar og A úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsóknir kæranda og A um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 2. málsl. þágildandi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er að mati kærunefndar ekki tilefni til umfjöllunar um aðrar málsástæður kæranda.

 

Úrskurðarorð:

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda og barns hennar til efnismeðferðar.

The decisions of the Directorate are vacated. The Directorate shall examine the merits of the appellant‘s and her child’s applications for international protection in Iceland.

 

Valgerður María Sigurðardóttir

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                            Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta