Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 157/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 157/2016

Miðvikudaginn 26. október 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 25. apríl 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 7. apríl 2016 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 26. apríl 2016 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 4. maí 2016.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 13. júlí 2016 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fædd 1986. Hún býr ásamt [...] barni sínu í leiguhúsnæði að B. Kærandi starfar sem [...] auk þess að vera í [námi]. Tekjur kæranda eru launatekjur en jafnframt fær hún greiddar örorkubætur frá Tryggingastofnun vegna tímabundinnar örorku. Þá fær kærandi einnig barna- og húsaleigubætur.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til veikinda og erfiðra félagslegra aðstæðna.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara 16. mars 2016 eru 3.368.354 krónur en stærstur hluti þeirra eru greiðslukortaskuldir.

Kærandi sótti um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 24. júlí 2014. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 9. september sama ár var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og henni skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum. Umsjónarmaður tilkynnti í bréfi til umboðsmanns skuldara 7. september 2015 að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun á grundvelli lge. væri heimil.

Í bréfinu kom fram að frumvarp að samningi um greiðsluaðlögun hefði verið sent kröfuhöfum í maí 2015. Mótmæli hefðu borist frá Landsbankanum. Bankinn taldi kæranda hafa haft mun meiri tekjur en gert væri ráð fyrir í frumvarpi en það mætti sjá af innborgunum á bankareikning hennar. Miðað við þetta hefði kærandi átt að geta lagt fyrir mánaðarlega en það hefði hún ekki gert. Þá hefði kærandi jafnframt keypt gjaldeyri á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Í svari kæranda við mótmælum bankans hefði komið fram að hún hefði fengið greiðslur frá foreldrum sínum og C. Að því er utanlandsferðir varðaði greindi kærandi frá því að henni hefði tvívegis verið boðið til útlanda á fyrrnefndu tímabili. Kærandi kvað gjaldeyriskaup vegna ferðanna að mestu hafa verið fjármögnuð af C.

Í ljósi þess hve háar greiðslur kærandi hafi fengið frá foreldrum og C taldi umsjónarmaður að kæranda hefði borið að gera grein fyrir þeim í umsókn um greiðsluaðlögun, enda hefðu þessir fjármunir mikið að segja um ráðstöfunartekjur hennar. Umsjónarmaður taldi að þeir óvissuþættir sem væru fyrir hendi í máli kæranda væru slíkir að ekki væri mögulegt að fá heildarmynd af fjárhag hennar. Þá hefði kærandi ekki gefið skýringar á því hvers vegna hún hefði ekkert lagt fyrir á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana, þrátt fyrir að vera fær um það. Samkvæmt þessu teldi umsjónarmaður rétt að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður, sbr. 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 16. mars 2016, sem sent hafi verið með tölvupósti, var henni kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar. Þá var kæranda enn fremur gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Kærandi staðfesti móttöku bréfsins daginn eftir en kom ekki á framfæri neinum athugasemdum.

Með bréfi 7. apríl 2016 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. b- og d-liði 1. mgr. 6. gr., f-lið 2. mgr. 6. gr. og c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að mál hennar verði endurskoðað. Skilja verður þetta svo að hún krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild hennar til að leita greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Kærandi telur hina kærðu ákvörðun ekki eiga við rök að styðjast. Þá óskar hún eftir því að fá tækifæri til að skýra enn betur innlegg á bankareikning hennar á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun sinni vísar umboðsmaður skuldara til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. komi fram að synja beri skuldara um greiðsluaðlögun hafi hann af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem séu mikilsverðar í málinu. Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Í c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segi að skuldari skuli ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla.

Landsbankinn hafi hafnað frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun þar sem innborganir á bankareikning kæranda hafi verið verulega hærri en þær ráðstöfunartekjur sem gengið hafi verið út frá að kærandi hefði. Bankinn hefði greint frá því að innborganir á reikninginn hefðu numið alls 9.200.000 krónum árið 2014. Af hálfu kæranda hefði komið fram að aukagreiðslur inn á bankareikning hennar væru frá foreldrum hennar og C. Þau hefðu lánað kæranda fyrir útborgun á bíl en faðir hennar væri skráður eigandi bílsins, auk þess sem þau hefðu lánað henni fyrir leigutryggingu, húsaleigu, skólagjöldum og öðrum nauðsynjum. Einnig hafi barnsfaðir kæranda greitt inn á reikning hennar vegna uppihalds og kaupa á gjaldeyri til nota erlendis. Innborganir þessar væru því ýmist lán eða gjafir en ekki fastar tekjur.

Að mati umboðsmanns skuldara sé óljóst hversu miklu af þeim fjármunum sem lagðir voru inn á reikninginn hafi verið ráðstafað til bílakaupa, leigutryggingar, húsaleigu, kostnaðar vegna utanlandsferða og annars sem kærandi nefni í skýringum sínum. Hafi kærandi haft fjármuni umfram kostnað við framfærslu og fyrrnefnd útgjöld, skorti á útskýringar vegna þess.

Hvað upplýsingagjöf kæranda varði verði að gera kröfu til þeirra sem sæki um heimild til greiðsluaðlögunar að þeir upplýsi um allt sem mikilsvert sé í málinu og áhrif geti haft á fjárhagsstöðu, sbr. einnig 4. gr. lge. Kærandi hafi ekki upplýst umsjónarmann um þær tvær utanlandsferðir sem hún fór í á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Hún hafi heldur ekki gert grein fyrir því að hún fengi verulegan fjárstuðning frá foreldrum sínum og C. Þá hafi kærandi ekki skýrt frá því að innborganir á reikning hennar væru ýmist lán eða gjafir fyrr en mótmæli hafi borist við frumvarpi til greiðsluaðlögunarsamnings. Með því að þiggja lán án þess að upplýsa umsjónarmann um tilvist þess eða með hvaða hætti hún hygðist endurgreiða það hafi kærandi látið hjá líða að veita mikilsverðar upplýsingar í skilningi d-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Eigi umsjónarmaður að geta gert raunhæft frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings þurfi upplýsingar um allar tekjur og skuldir að liggja fyrir, sbr. 4. gr. lge., svo að ljóst sé hve mikið skuldari geti greitt af skuldbindingum sínum. Samkvæmt gögnum málsins hafi innborganir á bankareikning kæranda numið 9.200.000 krónum árið 2014. Kærandi hafi því haft til ráðstöfunar að jafnaði 766.667 krónur á mánuði það ár. Kæranda hafi verið veitt heimild til greiðsluaðlögunar 9. september 2014. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra hafi tekjur kæranda og bætur numið alls 4.250.271 krónu árið 2014 eða að meðaltali 354.189 krónum á mánuði. Sé tekið mið af framfærslukostnaði einstaklings með eitt barn á framfæri samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara, auk upplýsinga um útgjöld frá kæranda sjálfri, nemi mánaðarlegur framfærslukostnaður hennar 359.576 krónum. Samkvæmt þessu hafi framfærslutekjur kæranda nokkurn veginn staðið undir framfærslukostnaði.

Samkvæmt þeim upplýsingum, sem liggi fyrir í málinu frá kröfuhöfum, hafi flestar skuldir kæranda farið í vanskil á árunum 2009 til 2011. Þegar litið sé til þess að framfærslutekjur kæranda hafi verið meira en 400.000 krónum hærri á mánuði en opinber gögn gefi til kynna, sé ljóst að kærandi hefði átt að geta greitt af skuldum sínum árið 2014, eða fram til 8. september 2014 er greiðsluskjól komst á. Þar sem ekki liggi fyrir að kærandi hafi greitt niður skuldir á þessum tíma verði að meta það svo að hún hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem henni hafi framast verið unnt, sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum hafi kærandi keypt gjaldeyri í desember 2014 og í janúar 2015 fyrir alls 250.503 krónur. Til viðbótar séu erlendar færslur af reikningi hennar í janúar 2015 alls 56.769 krónur. Alls nemi fjárútlát kæranda vegna utanlandsferða því 307.272 krónum á tímabili greiðsluskjóls. Að sögn kæranda hafi gjaldeyriskaupin að mestu verið fjármögnuð af C. Einnig liggi fyrir að kærandi hafi millifært fjármuni á bankareikninga annarra einstaklinga, aðallega foreldra sinna og C. Á fyrstu níu mánuðum greiðsluskjóls hafi greiðslur hennar til þessara aðila numið 1.000.450 krónum.

Með þessari framgöngu hafi kærandi brotið gegn c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem mælt sé fyrir um að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla. Þá sé ekki unnt að líta á utanlandsferðir sem nauðsynlegan framfærslukostnað. Enn fremur liggi ekki fyrir ástæður þess hvers vegna kærandi lagði fjármuni inn á bankareikninga fyrrnefndra einstaklinga á tímabili greiðsluskjóls.

Af framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi embættið ekki átt annars kost en að fella greiðsluaðlögunarheimildir kæranda niður samkvæmt 15. gr., sbr. b- og d-liði 1. mgr. 6. gr., f-lið 2. mgr. 6. gr. og c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til b- og d-liða 1. mgr. 6. gr., f-liðar 2. mgr. 6. gr. og c-liðar 1. mgr. 12. gr. laganna.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Hér er gert ráð fyrir að skuldari taki virkan þátt í og sýni viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður. Í d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu. Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Loks segir í c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að skuldari skuli ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla.

Við mat á því hvað teljist vera nægjanlega glögg mynd af fjárhag skuldara í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. telur úrskurðarnefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.

Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir því hvernig umsókn um greiðsluaðlögun skuli vera úr garði gerð. Í 1. mgr. 4. gr. er upptalning í 11 töluliðum á því sem koma skal fram í umsókninni. Í 4. tölul. lagaákvæðisins segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum.

Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi til lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning í 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu.

Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara í máli þessu byggist meðal annars á því að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar þar sem innborganir á bankareikning kæranda gefi til kynna að hún hefði haft mun meiri ráðstöfunartekjur en hún hefði upplýst um.

Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal þannig veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalda leysir umsækjanda um greiðsluaðlögun ekki undan þeirri skyldu.

Á neðangreindum tíma greiðsluskjóls voru ráðstöfunartekjur kæranda og greiðslugeta samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eftirfarandi í krónum:

Tímabil Tekjur í Meðaltekjur Framfærslu- Greiðslu-
greiðsluskjóli* á mánuði kostnaður geta
okt. - des. 2014 803.131 267.710 359.576 -91.866
jan. - des. 2015 3.186.450 265.538 359.576 -94.039
jan. - feb. 2016 577.730 288.865 359.576 -70.711
Samtals: 4.567.311

*Þar með taldar húsaleigubætur, barnabætur og barnalífeyrir.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara eru húsaleigubætur kæranda vegna ársins 2015 taldar hærri en gögn málsins gefa til kynna. Sú viðmiðun leiðir til þess að umboðsmaður telur framfærslukostnað og ráðstöfunartekjur kæranda svipaðar. Sé þetta leiðrétt kemur í ljós að árið 2015 var greiðslugeta kæranda neikvæð um að meðaltali 94.039 krónur á mánuði eða alls 1.128.462 krónur á árinu.

Í málinu liggur fyrir yfirlit yfir innborganir á bankareikning kæranda hjá Landsbankanum hf. vegna tímabilsins október 2014 til desember 2015. Á þessu tímabili voru innborganir frá ýmsum einstaklingum inn á bankareikning kæranda, nr. X, sem hér segir:

Tímabil Fjárhæð
okt. - des. 2014 621.000
jan. - des. 2015 2.317.492
Samtals: 2.938.492

Kærandi hefur gefið þær skýringar að innborganirnar hafi verið gjöf eða lán til hennar. Það á sér ekki stoð í gögnum málsins og verður það því ekki lagt til grundvallar við úrlausn þess. Í málinu liggur einnig fyrir yfirlit yfir greiðslur af fyrrnefndum bankareikningi kæranda fyrir tímabilið október 2014 til júlí 2015. Á þessu tímabili greiddi kærandi ýmsum einstaklingum, einkum föður og C, neðangreindar fjárhæðir:

Tímabil Fjárhæð
okt. - des. 2014 157.700
jan. - júlí 2015 724.150
Samtals: 881.850

Engar skýringar liggja fyrir á þessum greiðslum.

Viðhlítandi upplýsingar um hverjar raunverulegar ráðstöfunartekjur kæranda á tímabili greiðsluskjóls voru, eða af hverju tekjurnar stöfuðu, hafa samkvæmt framansögðu ekki verið lagðar fram. Af þeim sökum er ekki unnt að leggja mat á fjárhag kæranda að því marki sem nauðsynlegt er samkvæmt ákvæðum lge. Með vísan til þess er það mat úrskurðarnefndarinnar að fjárhagur kæranda sé óljós í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. og rétt hafi verið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður af þeirri ástæðu.

Að því er varðar d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. telur umboðsmaður skuldara að þar sem kærandi hafi ekki lagt fram yfirlit yfir fyrrgreindan bankareikning nr. X fyrr en við meðferð málsins hjá umsjónarmanni hafi hún með ráðnum hug sýnt af sér grófa vanrækslu eða veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu. Þótt vissulega megi fallast á að kærandi hafi tafið fyrir afgreiðslu málsins með því að veita ekki allar upplýsingar strax í upphafi telur úrskurðarnefndin ekki rétt að líta svo á að háttsemi kæranda hafi verið með þeim hætti að bryti í bága við d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Þar er meðal annars litið til þess að kærandi undirritaði umboð til umboðsmanns skuldara í júlí 2014 þar sem embættinu var veitt heimild til að afla upplýsinga um fjárhag kærenda hjá þriðja aðila, svo sem Landsbankanum hf., að því marki sem nauðsynlegt væri til úrvinnslu málsins. Af þeim sökum er ekki fallist á það sjónarmið umboðsmanns skuldara að kærandi hafi brotið gegn d-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Þá telur umboðsmaður skuldara að kærandi hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem henni framast var unnt. Embættið byggir á því að kærandi hafi haft til ráðstöfunar peninga umfram framfærslukostnað allt þar til að hún komst í greiðsluskjól á árinu 2014. Þrátt fyrir það séu engin merki um að hún hafi greitt af skuldum sínum á þeim tíma. Einnig hafi kærandi lagt umtalsvert fé inn á bankareikninga ýmissa annarra einstaklinga á fyrstu níu mánuðum greiðsluskjóls. Loks hafi kærandi keypt gjaldeyri og farið til útlanda á tímabili greiðsluskjóls en kostnaður hennar vegna þessa hafi numið 307.272 krónum.

Eins og rakið hefur verið er það mat úrskurðarnefndarinnar að fjárhagur kæranda sé óljós í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Þær aðstæður valda því að ekki er unnt að slá því föstu að kærandi hafi haft til ráðstöfunar peninga umfram framfærslukostnað og önnur nauðsynleg útgjöld á tímabili greiðsluskjóls og þá ekki hvort hún hafi á ámælisverðan hátt látið hjá líða að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem henni frekast var unnt í skilningi f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Þá liggja engin gögn fyrir um kostnað kæranda vegna utanlandsferða eða bankayfirlit fyrir janúar til ágúst 2014, þ.e. áður en kærandi fór í greiðsluskjól en það hófst sem fyrr segir 9. september 2014 þegar umboðsmaður skuldara samþykkti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Að þessu virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að greiðsluaðlögunar-umleitanir kæranda verði ekki felldar niður á grundvelli f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Loks telur umboðsmaður skuldara að kærandi hafi látið af hendi eignir og verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Það hafi hún gert með því að verja fé til utanlandsferða og með því að millifæra peninga af eigin bankareikningi yfir á reikninga ýmissa annarra einstaklinga.

Eins og rakið hefur verið telst fjárhagur kæranda óljós. Ástæðu þess er helst að rekja til þess að á tímabili greiðsluskjóls lögðu tilteknir einstaklingar alls 2.938.492 krónur inn á bankareikning kæranda og greiddi kærandi samtals 881.850 krónur inn á reikninga sömu einstaklinga. Miðað við þetta fékk kærandi alls 2.056.642 krónur frá þessum einstaklingum umfram það sem hún greiddi þeim. Í ljósi þess, svo og þeirrar óvissu sem ríkir um fjárhag kæranda, telur úrskurðarnefndin ekki hægt að fullyrða að kærandi hafi látið af hendi verðmæti sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla. Í því sambandi er einnig litið til þess að greiðslugeta kæranda var neikvæð á tímabili greiðsluskjóls og þess að engin gögn liggja fyrir um hvort kærandi greiddi sjálf kostnað vegna utanlandsferða. Samkvæmt þessu er það álit úrskurðarnefndarinnar að c-liður 1. mgr. 12. gr. lge. eigi ekki við í málinu.

Með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið bar að fella niður heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli 1. mgr. 15. gr. sbr., b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er samkvæmt því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta