Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 201/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 201/2016

Miðvikudaginn 9. nóvember 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 30. maí 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 24. maí 2016 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður. Rökstuðningur frá kæranda barst 22. júní 2016.

Með bréfi 27. júní 2016 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 30. júní 2016.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 28. september 2016 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fæddur 1975. Hann starfar hjá B og býr að C. Kærandi á X syni.

Tekjur kæranda eru launatekjur.

Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til veikinda fyrrum sambýliskonu og hækkunar á skuldum.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 14. október 2011 var kæranda og fyrrum sambýliskonu hans í sameiningu veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga 101/2010 (lge.). Þrír umsjónarmenn hafa komið að málinu.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 20. september 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda og fyrrum sambýliskonu hans niður. Sú ákvörðun var kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála og hnekkti kærunefndin ákvörðun umboðsmanns með úrskurði 15. október 2015. Mál kæranda fór í kjölfarið aftur til efnislegrar vinnslu hjá umboðsmanni skuldara. Fram hefur komið að kærandi og sambýliskona hans slitu samvistir og var máli þeirra í kjölfarið skipt upp. Nýr umsjónarmaður var skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda 28. október 2015.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 20. janúar 2016 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. þar sem fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun samkvæmt lge. væri heimil. Að mati umsjónarmanns hefði kærandi ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. um að leggja fyrir það fé sem væri umfram kostnað við framfærslu á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls. Einnig teldi umsjónarmaður að kærandi hefði brotið gegn c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem kveðið sé á um að skuldari skuli ekki láta af hendi eða veðsetja eignir eða verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla.

Samkvæmt upplýsingum frá kæranda hafi hann og sambýliskona hans slitið samvistir árið 2012. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá séu þau á hinn bóginn enn skráð í sambúð að D, en sú fasteign sé í eigu kæranda. Fyrrum sambýliskona hans búi þar enn en kærandi búi í íbúð sem [...]eigi en greiði ekki húsaleigu. Í lok árs 2013 hafi kærandi hafið sambúð með annarri konu og eignast með henni barn [...] 2014.

Mánaðarleg greiðslugeta kæranda árið 2013 hafi verið 71.711 krónur. Mánaðarleg greiðslugeta hans á árinu 2014 hafi verið 340.944 krónur. Árið 2015 hafi mánaðarleg greiðslugeta hans numið 212.647 krónum. Heildar greiðslugeta kæranda á árinu 2013 til 2015 nemi samkvæmt þessu 7.251.624 krónum. Á þessum tíma hafi kærandi reglulega lagt peninga inn á bankareikning fyrrum sambýliskonu sinnar. Alls nemi þessar innborganir 4.848.400 krónum. Þar sem kærandi hafi ekki greitt meðlag sé unnt að líta á hluta þessara greiðslna, eða 1.934.136 krónur, sem meðlagsgreiðslur. Umsjónarmaður telur því að kærandi hafi lagt 2.914.264 krónur umfram eðlilegar meðlagsgreiðslur inn á reikning fyrrum sambýliskonu sinnar. Með þessum greiðslum telur umsjónarmaður að kærandi hafi brotið gegn þeirri skyldu sinni í greiðsluskjóli að láta ekki af hendi verðmæti sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla í skilningi c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærandi hafi lagt fram gögn sem hann kveði vera vegna óvæntra útgjalda að fjárhæð 1.304.760 krónur í greiðsluskjólinu. Þessi gögn séu að stórum hluta ófullnægjandi en um sé að ræða reikningsyfirlit þar sem fram komi færslur, þar á meðal úttektir úr hraðbanka, ásamt skýringum kæranda á því hvað keypt hafi verið fyrir peningana.

Jafnvel þó að tekið yrði tillit til þeirra greiðslna, sem kærandi telji óvænt útgjöld svo og greiðslna sem unnt sé að líta á sem meðlag, standi eftir 4.012.728 krónur sem kærandi hefði átt að geta lagt til hliðar. Kærandi eigi engan sparnað. Samkvæmt þessu telji umsjónarmaður að skuldari hafi brotið gegn skyldu sinni að leggja fyrir á tíma greiðsluskjóls samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með tölvupósti umboðsmanns skuldara til kæranda 7. apríl 2016 og bréfi til hans 3. maí 2016 var honum kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans. Þá var kæranda jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge., áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hans til greiðsluaðlögunar. Engin svör bárust.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 24. maí 2016 var heimild kæranda til greiðsluaðlögunar felld niður með vísan til 15. gr., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kærir niðurfellingu umboðsmanns skuldara á heimild til greiðsluaðlögunar. Verður að skilja þetta svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi vísar til þess að honum hafi verið gert að leggja til hliðar 6.000.000 króna á tímabili greiðsluaðlögunar. Það hafi ekki verið mögulegt. Fjárhæð sparnaðar sé miðuð við að hann hafi verið í sambúð en hann hafi slitið samvistir við fyrrum sambýliskonu sína í [...] 2012, rekið eigin heimili og eignast X drengi síðan. Kærandi hafi þó verið skráður í sambúð þar til í lok árs 2015 eða byrjun árs 2016, en fyrir hendi hafi verið sameiginlegar skuldir kæranda og fyrrum sambýliskonu.

Sé litið til þess að kærandi og fyrrum sambýliskona hans hafi notað tekjur sínar til að lifa sitt í hvoru lagi frá [...] 2012 og þar til [...] 2014, meðlagsgreiðslna og kostnaðar hans við rekstur á eigin heimili, hafi ekki verið nokkurt svigrúm til að leggja fyrir.

Kærandi skilur ekki að ætlast sé til að lifað sé samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns allt frá 2010.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í 12. gr. lge. séu tilgreindar skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þá sé í c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. kveðið á um að á meðan frestun greiðslna standi yfir skuli skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla.

Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun 17. október 2012 sem honum hafi borist með ábyrgðarbréfi. Öllum umsækjendum um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara hafi verið send bréf 8. apríl 2011 og 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Þær upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Kæranda hafi því vel mátt vera ljóst að hann skyldi halda til haga þeim fjármunum sem hann hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í rúmlega 59 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. apríl 2011 til 29. febrúar 2016.

Upplýsingar um laun byggist á staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra, álagningarseðlum og öðrum opinberum gögnum. Tekið sé mið af öllum tekjum, þar á meðal bótagreiðslum. Í eftirfarandi sundurliðun útreikninga sé lagt til grundvallar að unnt sé að leggja fyrir mismun meðaltekna á mánuði og framfærslukostnaðar. Sú fjárhæð sé nefnd greiðslugeta.

Tekjur 2016 2015 2014 2013 2012 2011 Tekjur alls
Launatekjur 814.434 4.896.203 6.112.000 3.203.437 3.305.732 3.082.438 21.414.244
Barna/vaxtabætur o.fl. 0 0 0 0 231.703 0 231.703
Samtals 814.434 4.896.203 6.112.000 3.203.437 3.537.435 3.082.438 21.645.947
Sparnaður 2016 2015 2014 2013 2012 2011 Alls
Heildartekjur á ári 814.434 4.896.203 6.112.000 3.203.437 3.537.435 3.082.438 21.645.947
Meðaltekjur á mán. 407.217 408.017 509.333 266.953 294.786 342.493 2.228.800
Framfærslukostn. á mán. 223.896 223.896 221.532 221.328 291.216 313.922 1.495.790
Greiðslugeta á mán. 183.321 184.121 287.801 287.801 3.570 28.571 975.186
Áætlaður sparnaður 366.642 2.209.451 3.453.616 547.501 42.843 257.140 6.877.193

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi verið 223.896 krónur á tímabilinu febrúar 2014 til febrúar 2016 miðað við helming framfærslukostnaðar tveggja fullorðinna og eins barns og fullan framfærslukostnað eins barns að auki. Á tímabilinu október 2013 til janúar 2014 megi ætla að framfærslukostnaður kæranda hafi verið 195.523 krónur miðað við helming framfærslukostnaðar fyrir tvo fullorðna og eitt barn. Á tímabilinu ágúst 2012 til september 2013 megi ætla að framfærslukostnaðurinn hafi verið 229.929 krónur miðað við einn fullorðinn og eitt barn. Á tímabilinu apríl 2011 til júlí 2012 sé gert ráð fyrir að kærandi hafi verið í sambúð. Þegar greiðsluaðlögunarmál kæranda og fyrrum sambýliskonu hans hafi verið til meðferðar hafi verið tekið tillit til lágra tekna sambýliskonunnar við útreikning á sparnaði kæranda. Áætlaður framfærslukostnaður kæranda á því tímabili hafi verið 313.922 krónur á mánuði. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kæranda í hag. Gert sé ráð fyrir að kærandi standi einn straum af framfærslukostnaði eldra barns síns á öllu tímabilinu og þannig komið til móts við framfærsluskyldu hans þar sem ekkert meðlag hafi verið greitt og óljóst hvort tekjur sambýliskonu hafi dugað til framfærslu barnsins. Gengið sé út frá því að kærandi hafi haft heildartekjur að fjárhæð 21.645.947 krónur á öllu framangreindu tímabili. Samkvæmt útreikningum umboðsmanns skuldara sé áætlað að kærandi hefði átt að geta lagt til hliðar 6.877.193 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Kærandi hafi ekkert lagt til hliðar á tímabilinu. Þannig verði að telja að hann hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Fyrir liggi að kærandi hafi ekki fengið greidda leigu vegna íbúðar sinnar en auk þess hafi hann millifært 4.848.400 krónur inn á bankareikning fyrrum sambýliskonu sinnar á árunum 2013 til 2015. Kærandi sé eigandi íbúðar að D. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá sé kærandi skráður þar til heimilis ásamt fyrrum sambýliskonu sinni. Kærandi hafi upplýst umsjónarmann um að sambýliskonan fyrrverandi hafi búið í íbúðinni ásamt syni þeirra frá samvistarslitum án þess að greiða kæranda húsaleigu. Kærandi kveðist búa í íbúð [...] án þess að greiða leigu.

Það sé mat umboðsmanns skuldara að með því að leyfa fyrrum sambýliskonu sinni að búa leigulaust í íbúð hans á tímabili greiðsluskjóls og með því að millifæra peninga inn á bankareikning hennar á sama tímabili hafi kærandi látið af hendi verðmæti sem hefðu getað gagnast lánardrottnum sem greiðsla í skilningi c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Á meðan á greiðsluskjóli standi skuli skuldari greiða tilfallandi mánaðarlegan framfærslukostnað svo sem rafmagn, hita, fasteignagjöld, samskiptakostnað og fleira þess háttar. Í fylgiskjölum með ákvörðun umboðsmanns skuldara um heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar sé að finna greiðsluáætlun þar sem gert sé ráð fyrir mánaðarlegum framfærslukostnaði kæranda. Á meðan á frestun annarra greiðslna standi sé skuldara ætlað að greiða gjöld og kostnað vegna framfærslu sé greiðslugeta hans jákvæð í mánuði hverjum, enda markmið með greiðsluaðlögun að koma jafnvægi á skuldir og greiðslugetu.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum á meðan á frestun greiðslna standi sé þeim jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir venjulegan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., séu lögð fram gögn þar um.

Gera verði þá kröfu til þeirra, sem glími við svo verulega fjárhagsörðugleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi saman þau útgjöld sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta. Eigi það sérstaklega við á meðan skuldarar séu með umsókn um samningsumleitanir vegna endurskipulagningar fjármála sinna í vinnslu. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun umframfjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja til hliðar það fé sem sé umfram framfærslukostnað og í öðru lagi skylt að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla. Auk þess sé skuldurum óheimilt að stofna til nýrra skulda á tímabilinu.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 15. gr., sbr. a- og c- liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. a- og c- liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir eða verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 20. janúar 2016 að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt 15. gr., sbr. a- og c- liði 1. mgr. 12. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 24. maí 2016.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi hafi ekki lagt til hliðar næga fjármuni á tímabilinu 1. apríl 2011 til 29. febrúar 2016, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þá hafi hann brotið gegn skyldum sínum samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leyfa fyrrverandi sambýliskonu sinni að búa í íbúð sinni án þess að greiða nokkra leigu og millifæra peninga inn á bankareikning hennar á tímabili greiðsluskjóls. Með þessu hafi kærandi látið af hendi verðmæti sem gagnast hefðu getað lánardrottnum sem greiðsla.

Í ákvæðinu kemur fram að skuldari skuli leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Kæranda bar því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hans var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýstur um skyldur sínar samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hefði kærandi átt að leggja til hliðar 6.877.193 krónur á fyrrgreindu tímabili eða frá 1. apríl 2011 til 29. febrúar 2016. Kærandi kveðst ekki hafa haft svigrúm til að leggja neitt til hliðar.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafa tekjur kæranda, framfærslukostnaður* og greiðslugeta verið eftirfarandi á neðangreindu tímabili í krónum:

Tímabilið 1. apríl 2011 til 31. desember 2011: Níu mánuðir
Nettótekjur 3.082.438
Mánaðartekjur alls að meðaltali 342.493
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 313.922
Greiðslugeta á mánuði 28.571
Sparnaður 2011 257.140
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur 3.305.732
Mánaðartekjur alls að meðaltali 275.478
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 291.216
Greiðslugeta á mánuði -15.738
Sparnaður 2012 -188.860
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: 12 mánuðir
Nettótekjur 3.203.437
Mánaðartekjur alls að meðaltali 266.953
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 221.328
Greiðslugeta á mánuði 45.625
Sparnaður 2013 547.501
Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. desember 2014: 12 mánuðir
Nettótekjur 6.112.000
Mánaðartekjur alls að meðaltali 509.333
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 221.532
Greiðslugeta á mánuði 287.801
Sparnaður 2014 3.453.616
Tímabilið 1. janúar 2015 til 31. desember 2015: 12 mánuðir
Nettótekjur 4.896.203
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 408.017
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 223.896
Greiðslugeta á mánuði 184.121
Sparnaður 2015 2.209.451
Tímabilið 1. janúar 2016 til 29. febrúar 2016: Tveir mánuðir**
Nettótekjur 814.434
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 407.217
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 223.896
Greiðslugeta á mánuði 183.321
Sparnaður 2016 366.642
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 21.414.244
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 362.953
Sparnaður alls í greiðsluskjóli 6.645.490

*Framfærslukostnaður er samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara.

**Aðeins eru fyrirliggjandi gögn um tekjur í janúar og febrúar 2016 þó að greiðsluskjól hafi staðið í fjóra mánuði á árinu eða til 30. apríl 2016.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.

Það er mat úrskurðarnefndarinnar að kæranda hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara, að honum hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls.

Samkvæmt ofangreindu hefði kærandi átt að geta lagt til hliðar að lágmarki 6.645.490 krónur á tímabilinu. Kærandi hefur ekki sýnt fram á nein óvænt útgjöld á tímabilinu og hefur ekkert lagt til hliðar. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur hann því brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Einnig byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara á því að sú háttsemi kæranda að láta hjá líða að innheimta húsaleigu fyrir íbúð sína og að leggja umtalsverða fjármuni inn á reikning fyrrum sambýliskonu sinnar á árunum 2013 til 2015 feli í sér ráðstöfun sem brjóti gegn c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem þeir fjármunir hefðu annars gagnast lánardrottnum sem greiðsla í skilningi c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Þær upplýsingar og/eða gögn sem fram komu hjá umsjónarmanni varðandi endurgjaldslausa búsetu fyrrum sambýliskonu kæranda í íbúð hans liggja ekki fyrir í málinu. Af þeim sökum er ekki unnt að taka tillit til þess við úrlausn málsins.

Samkvæmt fyrirliggjandi reikningsyfirlitum yfir bankareikning kæranda lagði hann alls 6.504.400 krónur inn á bankareikning fyrrum sambýliskonu sinnar á tímabilinu janúar 2012 til desember 2015. Með því braut hann gegn ákvæðum c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjármunirnir hefðu ella gagnast lánardrottnum sem greiðsla.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 15. gr., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta