Hoppa yfir valmynd

Nr. 677/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 15. nóvember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 677/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23080041

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 9. ágúst 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Filippseyja ( hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. júlí 2023, um að synja umsókn hennar um dvalarrétt á grundvelli fjölskyldusameiningar við EES- eða EFTA-borgara.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og fallist verði á beiðni hennar um dvalarrétt á Íslandi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi hér á landi. Hinn 7. júlí 2022 sótti kærandi um dvalar- og atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki en umsókn hennar var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10 október 2022. Hinn 31. október 2022 lagði kærandi fram umsókn um dvalarrétt á grundvelli fjölskyldusameiningar við EES- eða EFTA-borgara, sbr. 1. mgr. 86. gr. laga um útlendinga, vegna sambúðarmaka hennar sem búsettur er hér á landi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. júlí 2023, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að ekki hefðu verið lögð fram fullnægjandi fylgigögn, sbr. 2. mgr. 90. gr. laga um útlendinga. Hafi kæranda því ekki tekist að sýna fram á að hún uppfylli skilyrði 86. gr. laga um útlendinga um dvalarrétt fyrir aðstandendur EES- og EFTA-borgara. Ákvörðun Útlendingastofnunar var birt kæranda 31. júlí 2023. Hinn 9. ágúst 2023 kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð og frekari fylgigögn bárust kærunefnd 22. og 23. ágúst 2023. Meðal fylgigagna sem lögð voru fram á kærustigi eru afrit af hjúskaparstöðuvottorði kæranda, hjúskaparstöðuvottorð sambúðarmaka kæranda, bæði í upprunalegri útgáfu og enskri þýðingu, ásamt umboði til lögmanns í heimaríki kæranda.

Með tölvubréfi, dags. 23. ágúst 2023, óskaði kærandi eftir nánari upplýsingum um gagnakröfur, einkum varðandi apostille-vottunum. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 24. ágúst 2023, var kæranda bent á gagnakröfur Útlendingastofnunar sem fjalla m.a. um þýðingar skjala og apostille-vottanir. Með tölvubréfi kæranda, dags. 25. september 2023, óskaði hún eftir upplýsingum um hvort henni væri heimilt að dveljast á landinu á meðan mál hennar væri til meðferðar fyrir kærunefnd. Með tölvupósti kærunefndar, dags. 10. október 2023, var kæranda bent á hina kærðu ákvörðun, þar sem fram kæmi að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum, en hægt væri að óska eftir frestun réttaráhrifa hjá kærunefnd í samræmi við 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt efni kærunnar hafi kæranda verið boðinn 15 daga frestur til þess að sækja um dvalarleyfi á öðrum grundvelli, en að öðrum kosti bæri henni að yfirgefa landið.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í kæru sinni vísar kærandi til þess að öflun fylgigagna frá heimaríki sínu og heimaríki sambúðarmaka hafi reynst þeim krefjandi. Þau hafi sett sig í samband við sendiráð og ræðismenn hér á landi en ekki fengið góða aðstoð frá þeim. Þá hafi það reynst kæranda sérstaklega erfitt að afla apostille vottunar á hjúskaparstöðuvottorð sitt vegna fellibylja og flóða í heimaríki, sem hafi valdið töfum á gagnaöflun. Kærandi vilji fá útgefna kennitölu og setjast hér að með sambúðarmaka sínum og óski því eftir meiri tíma til þess að afla nauðsynlegra gagna. Í greinargerð sinni bætir kærandi því við að hún hafi alist upp á Spáni, hafi dvalarheimild þar í landi og hafi sótt um spænskan ríkisborgararétt en bíði niðurstöðu umsóknarinnar. Kærandi vísar til þess að hún hafi hjúskaparstöðuvottorð og að hún hafi farið með vottorðið til utanríkisráðuneytisins á Íslandi til þess að fá það vottað með apostille vottun. Skjalið eigi enn eftir að fara til heimaríkis kæranda, þar sem það verði vottað með sömu vottun, með atbeina lögmanns kæranda. Sendiráð Póllands á Íslandi hafi lýst því yfir að það geti ekki aðstoðað sambúðarmaka kæranda í þessu skyni. Kærandi og sambúðarmaki hafi reynt að afla hjúskaparstöðuvottorðs rafrænt frá Póllandi en eftir tilraunir hafi hann fengið þau skilaboð að í ljósi þess að hann væri ekki í hjúskap, væri ekki unnt að verða úti um hjúskaparstöðuvottorð. Eftir að hafa ráðfært sig við stjórnvöld á sveitarstjórnarstigi í Póllandi hafi sambúðarmaki kæranda fengið hjúskaparstöðuvottorð en ekki sé búið að þýða skjalið og votta það með apostille vottun. Kærandi ber fyrir sig að hafa ekki skilið fyrirmæli Útlendingastofnunar um að leggja fram gögn um staðfestingu á sambúð, og hvað fælist í hjúskaparstöðuvottorði þar sem hvorugt þeirra væri gift.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í samræmi við 7. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, hefur tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna verið tekin upp í íslenskan rétt, sbr. m.a. XI. kafla laga um útlendinga sem felur í sér sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Í 1. mgr. 82. gr. laga um útlendinga kemur fram að aðstandandi EES- eða EFTA-borgara sem falli undir ákvæði XI. kafla laganna hafi rétt til að dveljast með honum hér á landi. Samkvæmt a-lið 2. mgr. 82. gr. falla makar og sambúðarmakar, ef aðilar eru í skráðri sambúð eða sambúð sem er staðfest með öðrum hætti, undir hugtakið aðstandandi EES- og EFTA-borgara. 

Í 1. mgr. 84. gr. laga um útlendinga er kveðið á um rétt til dvalar lengur en þrjá mánuði fyrir EES- eða EFTA-borgara. Samkvæmt 1. mgr. 84. gr. hefur EES- eða EFTA-borgari rétt til dvalar hér á landi lengur en þrjá mánuði ef hann fullnægir einhverju af skilyrðum a-d liðar ákvæðisins. Samkvæmt 1. mgr. 86. gr. geta útlendingar sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar en eru aðstandendur EES- eða EFTA-borgara notið dvalarréttar á landinu á meðan réttur EES- eða EFTA-borgarans til dvalar varir. Útgáfa dvalarskírteina til handa útlendingum sem falla undir 86. gr. laga um útlendinga grundvallast á 90. gr. laga um útlendinga en í a-d-lið 2. mgr. 90. gr. er kveðið á um fylgigögn sem leggja skuli fram samhliða umsókn um dvalarskírteini, nánar tiltekið gilt vegabréf, gögn sem staðfesta fjölskyldutengsl sem grundvöll dvalarréttar, skráningarvottorð EES- eða EFTA-borgarans sem fjölskyldusameining grundvallast á, svo og staðfesting á framfærslu þegar réttur aðstandanda er háður framfærslu hins.

Í máli kæranda reynir á b-lið 2. mgr. 90. gr. laga um útlendinga er varðar fylgigögn til staðfestingar á þeim fjölskyldutengslum sem eru grundvöllur dvalarréttar í samræmi við 2. mgr. 90. og 2. mgr. 92. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er tekið fram að með bréfi, dags. 4. maí 2023, hefði stofnunin óskað eftir hjúskaparstöðuvottorði, staðfestingu á sambúð ásamt gögnum varðandi samskiptasögu og samband umsækjanda og maka. Samkvæmt tölvubréfi Útlendingastofnunar til kæranda, dags. 17. maí 2023, kemur fram að kærandi hefði sýnt fram á samband sitt við sambúðarmaka með fullnægjandi hætti en tekið var fram að hjúskaparstöðuvottorð kæranda og sambúðarmaka skorti. Með tölvubréfum dags. 1., 12., og 13. júní 2023 veitti Útlendingastofnun kæranda frekari leiðbeiningar um hjúskaparstöðuvottorð og kröfur sem gerðar væru til vottana. Þá tilgreindi tölvubréf dags. 12. júní 2023 viðbótarfrest til þess að leggja fram umbeðin gögn til 26. júní 2023. Frekari gögn voru ekki lögð fram af hálfu kæranda en ákvörðun var tekin um synjun umsóknarinnar 21. júlí 2023.

Kærandi hefur lagt fram afrit af eigin hjúskaparstöðuvottorði, hjúskaparstöðuvottorði sambúðarmaka í upprunalegri útgáfu og enskri þýðingu, ásamt umboði til lögmanns í heimaríki. Gögn málsins og skýringar kæranda benda til þess að gagnaöflun og vottun fylgigagna standi enn yfir. Meðal gagnakrafna Útlendingastofnunar er að fylgigögn séu vottuð með svokallaðri apostille vottun eða keðjustimplun og var kæranda bent á það með bréfi, dags. 4. maí 2023, og tölvubréfum Útlendingastofnunar og kærunefndar, nú síðast 24. ágúst 2023. Telur kærunefnd kæranda hafa fengið skýrar leiðbeiningar og nægt ráðrúm til þess að leggja fram umbeðin fylgigögn, sbr. b-lið 2. mgr. 90. gr. laga um útlendinga sbr. til hliðsjónar 2. og 3. mgr. 52. gr. sömu laga og 3. mgr. 10. gr. reglugerðar um útlendinga.

Að öllu framangreindu virtu verður ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest. Þá bendir kærunefnd á að hlíti kærandi ekki leiðbeiningum Útlendingastofnunar í hinni kærðu ákvörðun um að yfirgefa landið kann að koma til brottvísunar hennar, sbr. 98. gr. laga um útlendinga.

Þá bendir kærunefnd á að kærandi geti sótt um dvalarrétt fyrir aðstandendur EES- og EFTA-borgara að nýju þegar hún hefur aflað umbeðinna fylgigagna.

Kærunefnd vill einnig beina þeim leiðbeiningum til Útlendingastofnunar að gætt sé skýrleika í samskiptum við málsaðila. Í tölvubréfi, dags. 17. maí 2023, greindi Útlendingastofnun frá því að framkomin gögn væru nægjanleg til þess að staðfesta sambúð kæranda og sambúðarmaka. Kærunefnd telur að skýra hefði mátt betur af hvað ástæðu gerð sé krafa um framlagningu hjúskaparstöðuvottorðs fyrir sambúðarmaka EES-borgara, svo sem með vísan til 2.mgr. 92. gr. laga um útlendinga. Þar að auki má lesa af bréfi, dags. 4. maí 2023, að hvort tveggja sé krafist apostille vottunar og tvöfaldrar staðfestingar (keðjustimplunar) sem gengur lengra en 3. mgr. 10. gr. reglugerðar um útlendinga. Beinir kærunefnd því til Útlendingastofnunar að taka skýrt fram í bréfum sínum að krafist sé apostille vottunar eða tvöfaldrar staðfestingar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Valgerður María Sigurðardóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta