Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 121/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 7. apríl 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 121/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, hafði verið skráður á atvinnuleysisbætur frá 12. nóvember 2009 þegar Vinnumálastofnun fékk upplýsingar þess efnis að kærandi hefði verið við tilfallandi vinnu. Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda því með bréfi, dags. 12. júlí 2010, að stofnunin hefði ákveðið á fundi sínum þann sama dag að fella niður greiðslur atvinnuleysistrygginga til hans í tvo mánuði frá og með 12. júlí 2010 með vísan til 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi dags. 14. júlí 2010. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sem hafði verið án vinnu frá október 2009 hafði starfað við afleysingar í einhverjum sjóferðum. Hinn 12. maí 2010 bárust Vinnumálastofnun upplýsingar um að kærandi hefði verið við vinnu á sjó. Af þeim sökum óskaði stofnunin eftir upplýsingum frá kæranda sem í kjölfarið sendi inn áætlun um tekjur, dags. 28. júní 2010 og launaseðil fyrir maí.

Af hálfu kæranda kemur fram að uppgjör frá vinnuveitanda hans hafi borist honum 24. júní 2010 og hann hafi farið á skrifstofu Verkalýðsfélagsins 28. júní 2010 þar sem uppgjörið hefði verið faxað til Vinnumálastofnunar. Kærandi kveðst ekki hafa haft hugmynd um að hann hefði þurft að tilkynna stofnuninni með dagsfyrirvara og taldi að það væri nægilegt að senda inn launaseðil þegar hann fengi hann í hendur.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 22. desember 2010, er vísað til 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um upplýsingaskyldu til Vinnumálastofnunar og 35. gr. a. um að tilkynna beri til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu. Vinnumálastofnun greinir frá því að í málinu liggi fyrir að kærandi tilkynnti stofnuninni ekki um tilfallandi vinnu sína hjá útgerðarfélaginu X sf. Í kæru komi fram að kærandi hafi ekki vitað að það þyrfti að tilkynna um tilfallandi vinnu með dags fyrirvara en stofnunin telur að öllum ætti að vera ljós sú skylda atvinnuleitanda að tilkynna tilfallandi vinnu til stofnunarinnar um leið og hann hefur störf. Það hafi verið mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi í umrætt sinn látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um atvik er höfðu bein áhrif á rétt hans til atvinnuleysistrygginga. Hafi kæranda því verið ákvarðaður biðtími á grundvelli 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í tvo mánuði frá ákvörðunardegi.

Í greinargerðinni er vísað í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og bent á að með lögum nr. 134/2009 um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á ákvæðinu. Verknaðarlýsing ákvæðisins geri grein fyrir því hvaða atvik geti leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins verði beitt. Segi í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 134/2009 að meðal annars komi til greina að beita viðurlögum á grundvelli ákvæðisins þegar atvinnuleitandi gefi stofnuninni vísvitandi rangar upplýsingar sem leiði til þess að atvinnuleitandi teljist ranglega tryggður að fullu eða að hluta. Þá sé gert ráð fyrir því að viðurlög eigi einnig við ef atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt skv. 35. gr. a. eða 10. gr. laganna. Enn fremur segi í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins að breyting á 60. gr. laganna sé „mikilvægur liður í því að sporna við „svartri atvinnustarfsemi“ þar sem atvinnuleitendur sem fá greiddar atvinnuleysisbætur verði að tilkynna fyrirfram um hina tilfallandi vinnu eða samdægurs í nánar tilgreindum undantekningartilvikum“. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar 60. gr. um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvílir á atvinnuleitendum til að tilkynna um tilfallandi vinnu til stofnunarinnar, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 35. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum og fella hefði mátt umrædd atvik undir verknaðarlýsingu 60. gr.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi vinna kæranda staðið yfir í fimm daga og kærandi hafi veitt allar nauðsynlegar upplýsingar um störf sín eftir að mál hans var tekið til skoðunar. Er það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki vísvitandi ætlað að leyna upplýsingum um tilfallandi vinnu sína. Í því samhengi beri að nefna að kærandi hafi ávallt fram til þessa tilkynnt stofnuninni um þau störf sem honum hefur boðist tímabundið.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. desember 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 14. janúar 2011. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

2.

Niðurstaða

Samkvæmt 35. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar ber þeim sem telst tryggður samkvæmt lögunum að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem hann tekur á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum. Heimilt er þó að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem sé þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um hver vinnan er, um vinnustöðina og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu er ætlað að vara.

Í máli þessi liggur fyrir að kærandi sem þáði greiðslur atvinnuleysisbóta tilkynnti Vinnumálastofnun ekki um vinnu hjá útgerðarfélaginu X sf. í maí 2010. Af hálfu kæranda kemur fram að hann hafi ekki vitað að hann þyrfti að tilkynna fyrirfram um vinnuna. Kærandi sendi inn áætlun um tekjur og launaseðil eftir að Vinnumálastofnun hafði innt hann eftir skýringum um umrædda vinnu. Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að ekki sé talið að kærandi hafi vísvitandi ætlað að leyna upplýsingum um þessa tilfallandi vinnu í maí 2010 og af þeim sökum sé ekki tilefni til að beita ákvæði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í tilfelli kæranda.

Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Þar sem kærandi lét hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu í maí 2010 er það mat úrskurðarnefndarinnar að háttsemi hans falli undir framangreint ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um tilkynningaskyldu á breytingu á högum sem hefur áhrif á rétt samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 12. júlí 2010 um niðurfellingu bótaréttar A í tvo mánuði er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta