Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 122/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 12. maí 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 122/2010.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 5. júlí 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi á fundi sínum þann 30. júní 2010 hafnað umsókn hans um atvinnuleysisbætur með vísan til c-liðar 3. gr. og 5. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysisbætur, nr. 54/2006, þar sem hann væri í námi og væri skráður í nám á næstu önn. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi mótteknu 15. júlí 2010. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 8. maí 2010, en þá var hann skráður í 2 eininga nám á framhaldskólastigi. Kærandi greinir frá því að hann hafi verið að stunda nám við húsasmíði í Byggingatækniskólanum. Hann hafi áætlað að klára nám sitt með prófgráðu vorið 2010 en sökum þess hversu fáir sóttu um fagið húb102 (húsaviðgerðir og breytingar – 2 einingar) hafi það ekki verið kennt. Því hafi hann sótt um að taka fagið í dreifinámi hjá Byggingatækniskólanum í vetur. Dreifinám sé nám utan dagskóla sem sameini kosti fjar- og kvöldnáms. Kærandi telur að þrátt fyrir umsókn sína til Byggingatækniskólans vegna húb102 í dreifinámi sé hann í virkri atvinnuleit, enda hafi hann sótt um fjöldann allan af störfum og muni halda því áfram. Kennsla námsins fari fram eitt kvöld í viku, tvær klukkustundir í senn í 12 vikur. Þá greinir kærandi frá því að vegna fjárhagsástæðna þurfi hann að hætta við dreifinámið á næstkomandi skólaönn ef hann fái synjun um atvinnuleysisbætur. Hann telji að það sé allra hagur að hann klári prófgráðuna sína því þá verði hann án efa líklegri til að komast aftur á vinnumarkaðinn.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 22. desember 2010, er vísað til c-liðar 3. gr. og 5. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæði 5. mgr. 14. gr. hafi komið fyrst inn í lög um atvinnuleysistryggingar með lögum nr. 134/2009 um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar en þá hafi réttur námsmanna til atvinnuleysistrygginga verið þrengdur verulega. Í athugasemdum með 5. gr. frumvarps er varð að lögum nr. 134/2009 segi meðal annars að það þyki ekki samrýmast markmiðum laganna að námsmenn teljist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins í námsleyfum hlutaðeigandi skóla enda sé kerfinu ætlað að tryggja launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Komi skýrt fram að námsmenn teljist ekki tryggðir í námsleyfum skóla. Sé tekið dæmi um slík námsleyfi, svo sem jólaleyfi, páskaleyfi og sumarleyfi.

Fram kemur að það sé ljóst að kærandi hafi verið skráður í 15 eininga nám í Tækniskólanum á vorönn 2010. Þá liggi fyrir að kærandi sé skráður í tvær einingar á haustönn 2010. Samkvæmt ákvæði 5. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar teljist námsmaður ekki tryggður samkvæmt lögunum hafi hann verið skráður í skóla á einni námsönn og sé jafnframt skráður í nám á næstu námsönn á eftir. Það fag er kærandi sé skráður í sé liður í því að hann ljúki námi frá skólanum. Telji stofnunin engan vafa leika á því að kærandi teljist námsmaður í skilningi c-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt skýru orðalagi 5. mgr. 14. gr. laganna teljist kærandi því ekki tryggður á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar þann tíma sem námsleyfi vari. Vinnumálastofnun hafi því borið að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. desember 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 14. janúar 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mælt er fyrir um það í 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr. laganna, teljist ekki tryggður á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Í c-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, um skýringar á orðinu nám, kemur fram að átt sé við samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms. Þá greinir í 5. mgr. 14. gr. sömu laga, um virka atvinnuleit, að sá sem hefur verið skráður í nám, sbr. c-lið 3. gr. á síðustu námsönn án þess að hafa sannanlega lokið náminu og hyggst halda námi áfram á næstu námsönn telst ekki vera í virkri atvinnuleit í námsleyfi samkvæmt kennslu- og/eða námskrá hlutaðeigandi skóla. Hið sama gildi um námsmenn sem skipta um skóla milli námsanna eða fara milli skólastiga.

Kærandi var skráður í 15 eininga nám á vorönn 2010 og hugðist ljúka náminu þá um vorið. Samkvæmt gögnum málsins ákvað skólinn hins vegar að kenna ekki á þeirri önn eitt af þeim námskeiðum sem kæranda þurfti að standast í því skyni að ljúka náminu. Í ljósi þess að það var að frumkvæði skólayfirvalda að fella niður námskeiðið er eðlilegt að líta svo á að nám hans hafi þá ekki lengur verið samfellt í skilningi 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með því að skrá sig í svokallað dreifinám á haustönn 2010 gafst kæranda kostur á að ljúka hinu 2 eininga fagi sem upp á vantaði til að hann lyki námi. Í ljósi þess að nám kæranda taldist ekki lengur samfellt í skilningi laganna verður að líta á þetta tiltekna fag sem stakt námskeið í skilningi laganna. Upplýst er að kennsla á þessu námskeiði var utan venjulegs vinnutíma og er afar óverulegt að umfangi að öðru leyti. Slíkt námskeið telst því ekki til náms í skilningi laganna. Af þessu leiðir að 5. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á ekki við í málinu.

Með hliðsjón af hinum sérstöku aðstæðum í máli þessu þykir rétt að verða við kröfu kæranda og fella niður hina kærðu ákvörðun. Kærandi á því rétt á bótum frá umsóknardegi, enda uppfylli hann önnur skilyrði laganna.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A frá 6. ágúst 2010 er felld úr gildi. Kærandi á rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta frá 6. ágúst 2010 að öðrum skilyrðum laga uppfylltum.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta