Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 86/2011

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 24. apríl 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 86/2011.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 8. mars 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 8. mars 2011 fjallað um fjarveru hans á boðað námskeið á vegum stofnunarinnar. Vegna fjarveru kæranda var réttur hans til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði frá og með degi ákvörðunar sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 6. júní 2011. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 28. október 2008. Hann var boðaður á vinnuvélanámskeið þann 4. febrúar 2011. Kærandi taldi það of dýrt fyrir sig að aka til þess að taka þátt í námskeiðinu. Var honum gert ljóst að það væri skylda að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum hjá Vinnumálastofnun. Kærandi mætti síðan aðeins í fyrstu kennslustund af níu kennslustundum alls.

Í kæru kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kemur fram að hann er ósáttur við að honum hafi verið gert að sitja vinnuvélanámskeið og verður ráðið af kærunni að hann telji sig ekki hafa getað tileinkað sér námsefnið. Kærandi kvartar einnig vegna kostnaðar við ferðir frá heimili sínu á staðinn sem námskeiðið var haldið á. Meðal gagna málsins eru þrjú læknisvottorð B læknis, dags. 11. mars, 22. mars og 7. apríl 2011. Í læknisvottorðunum kemur meðal annars fram að kærandi er að mati læknisins með fulla starfshæfni til allra venjulegra starfa, en persónulegar og heilsufarslegar ástæður fyrir því að hafna því að sitja á námskeiðinu telji læknirinn réttmætar út frá venjulegu læknisfræðilegu sjónarmiði. Kærandi þjáist af vanlíðan við námskeiðasetu og eigi í verulegum erfiðleikum með að tileinka sér námsefni sem framreitt sé á slíkum námskeiðum.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 31. október 2011, kemur fram að í 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð er fylgdi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. laganna nánar skýrt. Þar segi að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram í greinargerðinni að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Samkvæmt g-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar felist virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum er standi til boða.

Í 13. gr. laga um vinnumarkaðsúrræði, nr. 55/2006, komi einnig fram skylda þess sem teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun bjóði upp á. Kærandi hafi verið skráður á vinnuvélanámskeið hjá stofnuninni í febrúar 2011. Komi fram á skráningareyðublaði að það geti valdið missi bótaréttar ef atvinnuleitandi hafni þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi mætt í einn kennsludag af níu á umrætt vinnuvélanámskeið.

Samkvæmt 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli atvinnuleitandi tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar. Í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar segi kærandi meðal annars að hann sé ekki fær um að tileinka sér námsefni. Þá telji kærandi að Vinnumálastofnun sé ekki fært að „skipa skjólstæðingum sínum að ferðast þúsundir kílómetra á eigin kostnað“.

Í ljósi þess að rík skylda hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum sé það mat Vinnumálastofnunar að hvorki skýring sú er kærandi taki fram í bréfi sínu til stofnunarinnar né í kæru sinni til úrskurðarnefndar geti réttlætt fjarveru kæranda á framangreindu vinnuvélanámskeiði og að með fjarveru sinni hafi kærandi brugðist skyldum sínum skv. 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Þegar kærandi hafi verið boðaður í umrætt námskeið hafi Vinnumálastofnun ekki verið kunnugt um þá annmarka sem kynnu að verða til þess að hann væri ófær um að sitja námskeið. Í umsókn um atvinnuleysisbætur sé ekki minnst á sjúkdóm kæranda eða að það gæti skert möguleika hans á að taka almennt þátt í vinnumarkaðsaðgerðum stofnunarinnar. Hafi Vinnumálastofnun fyrst orðið vör við andlega erfiðleika kæranda eftir að vottorð læknis þess efnis hafi borist.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli umsækjandi um atvinnuleysisbætur taka fram á umsókn sinni allar þær upplýsingar sem varði vinnufærni hans. Þá skuli sá er fær greiddar atvinnuleysisbætur upplýsa Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem kunni að verða á högum hans á því tímabili sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna. Enn fremur segi í 2. mgr. 14. gr. laganna að hinn tryggði skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar.

Vinnumálastofnun bendir á 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og segir að kærandi hafi ekki upplýst um skerta vinnufærni sína. Læknisvottorð þau sem kærandi hafi lagt fram séu gefin út eftir að hann hafi hætt þátttöku í námskeiði og óskað hafi verið eftir skýringum frá honum. Þar sem Vinnumálastofnun hafi ekki verið upplýst um skerta getu kæranda og þar sem ekkert hafi verið skráð í umsóknum hans sem hafi gefið annað til kynna en að kærandi væri fullfær til almennrar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og að hann uppfyllti að öðru leyti skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, verði ekki lagt til grundvallar að kærandi hafi hafnað þátttöku á námskeiði sökum skertrar getu enda upplýsingar þess efnis of seint fram komnar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. nóvember 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 21. nóvember 2011. Athugasemdir kæranda eru dagsettar 16. nóvember 2011.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 21. gr. laga nr. 134/2009, en hún er svohljóðandi:

Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skv. 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr.

Í athugasemdum við 58. gr. með frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og hinir tryggðu njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar og sé litið svo á að hinum tryggðu sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist hinn tryggði þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Þrátt fyrir skyldu hins tryggða til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum samkvæmt ákvæðinu er þó settur sá varnagli að þær vinnumarkaðsaðgerðir sem geti valdið því að hinn tryggði þurfi að sæta viðurlögum samkvæmt ákvæði þessu eigi við um allar aðgerðir sem hinum tryggða er boðið að taka þátt í til að auka líkur sínar á að fá vinnu við hæfi. Í gögnum þessa máls kemur fram að kærandi hefur stundað búskap, unnið við járnabindingar og í mannvirkjageiranum áður en hann fór að fá greiddar atvinnuleysisbætur. Í því ljósi telst það hafa verið við hæfi að bjóða honum að sitja vinnuvélanámskeið sem vinnumarkaðsúrræði.

Kærandi hafði ekki upplýst fyrirfram um skerta vinnufærni sína eins og honum bar að gera skv. 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ef slíkar ástæður væru til staðar og ekkert lá fyrir um það að kærandi væri ekki fullfær til almennrar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og að hann uppfyllti að öðru leiti skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. mgr. 59. gr. s.l. er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 8. mars 2011 um niðurfellingu bótaréttar A í tvo mánuði er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta