Mál nr. 87/2011
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 4. apríl 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 87/2011.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málavextir eru þeir í fyrsta lagi að kærandi, A, hefur fengið greiddar 25% atvinnuleysisbætur frá umsókn þann 1. nóvember 2009. Í öðru lagi tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda með bréfi, dags. 4. nóvember 2010, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 28. október 2010 ákveðið að fella niður bótarétt hennar frá og með 16. september 2010 í tvo mánuði, með vísan þess að hún hafi verið stödd erlendis frá 1. júní til 23. júlí 2010 og hafi því ekki uppfyllt skilyrði til þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur á því tímabili, sbr. c-lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þessum ákvörðunum og kærði þær til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi dagsettu 6. júní 2011, mótteknu 7. júní 2011. Kærandi krefst þess að ákvarðanirnar verði endurskoðaðar. Af hálfu Vinnumálastofnunar kemur fram að vísa skuli málinu frá þar sem það sé of seint fram komið.
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur með umsókn þann 1. nóvember 2009. Hún er myndlistarmaður á frjálsum markaði og hefur fengið 25% atvinnuleysisbætur frá umsókn. Í kæru kæranda, dags. 6. júní 2011, kemur fram að kæra hennar sé tvíþætt. Í fyrsta lagi kærir hún það að vegna viðmiðunartölu sem komin sé frá ríkisskattstjóra fái hún aðeins 25% atvinnuleysisbætur. Í öðru lagi kærir hún það að í júlímánuði 2010 hafi atvinnuleysisbæturnar verið teknar af henni í refsiskyni fyrir að fara til landsins B á námskeið í C. Hún hafi verið tekin af bótum í júlí, ágúst, október og nóvember 2011. Í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 4. nóvember 2010, kemur fram að kærandi hafi verið stödd erlendis frá 1. júní til 23. júlí 2010 og uppfylli því ekki skilyrði þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur á því tímabili, sbr. c-lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Í bréfinu er kæranda bent á að skv. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé heimilt að kæra ákvörðunin til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða og sé kærufrestur þrír mánuðir frá dagsetningu tilkynningarinnar. Loks kveðst kærandi kæra það að henni sé ekki gert kleift að afla sér tekna þegar þær bjóðist henni. Þegar hún taki að sér verkefni viti hún hvorki hvenær vinnan verði unnin né hvaða laun verði greidd fyrir. Varðandi þennan þátt verður ekki séð að um kæranlega ákvörðun skv. 11. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að ræða og verður ekki frekar um þetta fjallað.
Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar, í bréfi dags. 11. júlí 2011, að ákvörðun um 25% bótahlutfall kæranda hafi ekki verið tilkynnt kæranda sérstaklega enda sé litið svo á að launaseðlar þeir sem kærandi fái senda um hver mánaðamót teljist næg tilkynning. Kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga með umsókn þann 1. nóvember 2009 og hafi fengið senda launaseðla hver mánaðamót frá umsóknardegi, þar sem upplýsingar um bótarétt kæranda komi fram. Líti stofnunin svo á að dagsetning ákvörðunar um bótarétt kæranda sé því 1. nóvember 2009. Kæranda hafi verið send endanleg viðurlagaákvörðun vegna ferða sinna erlendis frá 1. júní til 23. júlí 2010. Varðandi síðari þáttinn, telji Vinnumálastofnun, í ljósi þess að kæra til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða sé dagsett þann 8. júní 2011 að þriggja mánaða kærufrestur sé liðinn vegna beggja málsástæðna kæranda og að vísa beri málinu frá úrskurðarnefndinni, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
2.
Niðurstaða
Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæra telst nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Kæra kæranda barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 6. júní 2011. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að kærandi fengi 25% atvinnuleysisbætur hefur verið kæranda kunn frá því að hún fékk fyrsta launaseðilinn í kjölfar umsóknar hennar um atvinnuleysisbætur þann 1. nóvember 2009. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða tekur undir þann skilningi Vinnumálastofnunar að dagsetning ákvörðun um bótarétt kæranda sé því 1. nóvember 2009. Kæranda var send viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar vegna ferða sinna til útlanda frá 1. júní til 23. júlí 2010 þann 4. nóvember 2010.
Ekkert í gögnum máls þessa gefur til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran hafi borist að liðnum kærufrestum og engar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Af þessum sökum verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.
Úrskurðarorð
Kæru A til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er vísað frá.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson