603/2015. Úrskurður frá 30. nóvember 2015
Úrskurður
Hinn 30. nóvember 2015 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 603/2015 í máli ÚNU 15100003.
Kæra og málsatvik
Með erindi dags. 20. september 2015, er barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál þann 12. október 2015, kærði A meðferð Vestmannaeyjabæjar á beiðni um aðgang að samþykkt um hunda- og kattahald í Vestmannaeyjum. Í kæru segir að erindinu hafi í engu verið svarað og þess sé krafist að bæjaryfirvöld verði úrskurðuð til að taka afstöðu til erindisins.
Málsmeðferð
Með bréfi dags. 19. október 2015 vakti úrskurðarnefnd um upplýsingamál athygli kæranda á því að beiðni hans um samþykkt um hunda- og kattahald í Vestmannaeyjum hefði þegar komið til meðferðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. ÚNU15020005. Málið var fellt niður í kjölfar þess að fram kom af hálfu Vestmannaeyjabæjar að kæranda hefði verið sent afrit af samþykktinni með bréfi dags. 25. febrúar 2015. Með hliðsjón af því var kæranda tilkynnt að málið yrði fellt niður í málaskrá úrskurðarnefndarinnar nema fram kæmi beiðni um að meðferð þess yrði fram haldið.
Með bréfum dags. 23. og 28. október 2015 vakti kærandi athygli úrskurðarnefndarinnar á því að bréf Vestmannaeyjabæjar dags. 25. febrúar 2015 væri stílað á rangt heimilisfang. Á þessum tíma hefði kærandi dvalið á sjúkrahúsi. Þar sem umbeðin gögn hefðu ekki borist kæranda væru skilyrði fyrir málsmeðferð fyrir úrskurðarnefndinni uppfyllt.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Hið sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Þá leiðir af 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að unnt er að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu upplýsingabeiðni til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Af gögnum málsins verður að leggja til grundvallar að Vestmannaeyjabær hafi tekið ákvörðun um að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum með erindi dags. 25. febrúar 2015. Af bréfinu er jafnframt ljóst að það er stílað á annað heimilisfang en lögheimili kæranda. Slík mistök við afhendingu umbeðinna gagna geta þó ekki talist fela í sér synjun á beiðni nema í undantekningartilvikum. Verður að telja rökréttara að beiðandi leiti til stjórnvalds um nýja afhendingu í tilvikum sem þessum í stað þess að beina kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Þar sem ekki liggur fyrir synjun Vestmannaeyjabæjar á beiðni kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum, form sem þau skuli afhent á eða drátt á afgreiðslu beiðni verður ekki hjá því komist að vísa kæru kæranda frá úrskurðarnefndinni með vísan til 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Úrskurðarorð:
Vísað er frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæru A, dags. 20. september 2015, á hendur Vestmannaeyjabæ.
Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson